Sókn eftir vindi

Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Tugmilljarða tekjur af vindorku".

Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021.  Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku.  Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma. 

Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni.  Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið.  Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.    

 Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér.  Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar.  Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp.  Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar.  Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls. 

Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd.  Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir.  Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum. 

Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu.  Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir. 

Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052.  Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga.  Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga. 

Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Gott. 

Jónas Gunnlaugsson, 6.10.2022 kl. 13:40

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Á kynningarfundi Vestanvinds á Akranesi kynnti fyrrum háskólarektor með stolti hvernig hann reiknaði út hagnað samfélagsins af þeim vindmillum sem þessi hópur hefur vilja til að byggja, hér á Vesturlandi. Í stuttu máli þá tók hann Norðurál, hversu mikla orku það fyrirtæki notar og deildi í þá tölu með starfsmannafjölda fyrirtækisins. Þá tölu margfaldaði hann síðan með heildarorkugetu vindvirkjanna. Út frá þessu fékk hann þá niðurstöðu að hér á Vesturlandi myndu skapast um 2500 störf. Af þeim fjölda ætluðu vindorkufyrirtækin þó einungis að skapa 100 - 150 störf, aðrir ættu að búa hin til vegna aukinnar orku. Þetta er vissulega nokkuð nýstárleg aðferð sem þarna er færð fram, en virkar ágætlega til að geta reiknað vænan hagnað til handa samfélaginu, þó einkum sveitarfélögunum sem þarf að kaupa til fylgilags. Hefði sennilega orðið nokkuð önnur niðurstaða ef rektorinn fyrrverandi hefði tekið eitt gagnaver, hversu mikla orku það notar og deilt með starfsmannafjölda. Margfaldað síðan þá niðurstöðu með orkugetu vindorkuveranna.

Orkan verður hins vegar keyrð út á landsnetið okkar og engin trygging fyrir því hvort eða hvar hún nýtist til atvinnusköpunar. Gæti allt eins verið að stórum hluta nýtt til gagnavera, eða á rafbíla. Orkan verður nafnlaus um leið og hún er komin á landsnetið. Þó er nokkuð víst að fámenn sveitarfélög munu lítils njóta af þessari draumsýn rektorsins, fyrrverandi. Hins vegar eru þessi sveitarfélög að stefna í stórkostlega hættu þeirri tekjuöflun sem þar er þegar í hendi og má þar helst nefna ferðaþjónustu, laxveiði og fasteignartekjur af sumarhúsum, íbúðarhúsum í þéttbýli og húsakosti sveitarbæja. Þessar tekjur munu hríðfalla meðan litlar líkur eru á að væntar tekjur af vindorkuverum eða þeirri raforku sem þau framleiða, muni skila sér. Sér í lagi þegar slíkar tekjur eru fundnar út með aðferðarfræði sem nálgast helst að teljast froða. Auðvitað erfitt fyrir lítt menntaðan mann að segja að fyrrverandi háskólarektor fari með fleipur, en ég geri það nú samt!

Þá munu fá fyrirtæki, innlend sem erlend, vera tilbúin að byggja upp atvinnustarfsemi sem byggir á ótryggri orku frá vindmillum, byðist slíkt. Þar hefur orka vatnsins og gufunar alla yfirburði. Þeim yfirburðum er stefnt í stórkostlegan voða með því að auka hér raforkuframleiðslu með ótryggri vindorku.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 6.10.2022 kl. 16:21

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega, Gunnar, fyrir ítarlegt bréf.  Ég er sammála öllu, sem þar kemur fram.  Það er óraunhæft að ætla að vindmyllur geti skapað samkeppnishæf störf á Íslandi, og þá allra sízt í stóriðjunni vegna mikils kostnaðar við raforkuvinnsluna.  Sá kostnaður, jaðarkostnaður, þ.e. orkukostnaður frá næstu virkjun, er allt að 50 % hærri en frá vatnsafls- og jarðgufuknúnum virkjunum.  Spaðahæðin gæti verið um 180 m frá jörðu fyrir 4,0 MW vindmyllu, sem er líkleg stærð á Íslandi. og sést þess vegna langt að.  Landnýtingin er gríðarlega léleg eða meira en þrefalt fleiri km2/GWh/ár en frá dæmigerðri jarðgufuvirkjun og meira en 16 falt fleiri km2/GWh/ár en Hvammsvirkjun í Neðri Þjórsá notar.  Vindmyllur falla á mikilvægum prófum kostnaðar og landverndar m.v. hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Talið er, að hægt sé að virkja sem nemur 3000 MW rafafls að teknu tilliti til landverndar.  Að innleiða vindmyllur á Íslandi er hrein fórn án ávinnings.  

Bjarni Jónsson, 8.10.2022 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband