Hræsni loftslagspredikara

Gríðarlegt magn af metangasi (CH4) hefur mælzt stíga upp frá jarðgaslindum Rússa og talsvert er um leka á löngum lögnum, sem lítið virðist vera gert með. Þeir, sem létu sprengja í sundur báðar Nord Stream 1 lagnirnar og aðra Nord Stream 2 lögnina, ekki fjarri þverun nýrrar norskrar gaslagnar til Póllands á þessum lögnum [var hún e.t.v. skotmarkið ?], víluðu ekki fyrir sér að valda umhverfisslysi í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar í september 2022 og valda hættuástandi fyrir sæfarendur á Eystrasalti. Nú streymir sjór inn um rifurnar, sem mynduðust, og mun tæring gera skemmdu lagnirnar 3 af 4 ónothæfar.

Norðmenn eru nú aðaleldsneytisgasbirgjar Bretlands og Evrópusambandsins og sjá ESB fyrir 25 % af núverandi þörf.  Á sama sólarhring og skemmdarverkið var unnið, var ný gaslögn frá borpöllum Norðmanna úti fyrir ströndinni og um Danmörku alla leið til Póllands tekin í notkun. Þær kenningar eru á lofti, að hin kaldrifjaða aðgerð úti fyrir Borgundarhólmi sé undan rifjum Kremlar runnin í ógnunarskyni við þennan mikilvægasta eldsneytisbirgi frjálsrar Evrópu um þessar mundir. 

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, ritaði eina af athyglisverðum greinum sínum í Morgunblaðið 8. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Að leika sér með líf annarra".

Þar stóð m.a. þetta:

 "Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku.  Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum þarlendum, slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.

Einn einasti þegn [á] meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku, sem stendur 23 Afríkubúum til boða.  Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis, sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega 3/4 þeirrar orku, sem þær nota. Innan við 3 % orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi." 

Það er sláandi og varpar ljósi á rangar og óskilvirkar fjárfestingarákvarðanir að setja gríðarupphæðir, oftast með styrkjum úr opinberum sjóðum, í efnismiklar og landfrekar vindmyllur og sólarhlöður, sem þó skila innan við 3 % af orkuvinnslu s.k. auðugra þjóða nú, þegar hæst á að hóa.  Forgangsröðunin er kolröng. Nær hefði verið að setja allt þetta opinbera fé í rannsóknir og þróun á kjarnorkutækninni, öruggari tækni með úraníum kjarnakljúfum og þóríum kjarnorkuverum.  Vindmyllur eru frumstæð og óskilvirk aðferð við raforkuvinnslu.  Þá var glapræði að afhenda Rússlandi allan spilastokkinn og banna jarðgasvinnslu ("fracking") og kjarnorkuver víða í Evrópu.  Klóför græningjanna eru alls staðar sama markinu brennd.  Til lengdar skaða þau vestræn samfélög.  Annars staðar er lítið hlustað á bullið í þeim. Það á ekki að halda dýrum og óáreiðanlegum orkukostum að þjóðum, sem eiga langt í land með að byggja upp raforkukerfi sitt, og það er argasta hræsni að gera það í nafni loftslagsvár.  Þessi mistök eru af svipuðu bergi brotin og þau að flýta orkuskiptum á Vesturlöndum, þótt tæknin sé ekki komin á viðunandi stig fyrir þau.  

"Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai, sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.

Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum, þegar þeir lýstu því yfir, að Dharnai neitaði að "falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins".  Daginn, sem skipt var yfir í sólarorku, tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum.  Eftirminnileg er frásögn af dreng nokkrum, sem gat ekki sinnt heimanámi sínu, þar sem rafmagnið dugði ekki til að knýja eina lampa heimilisins.  

Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki, þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni.  Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur, svo [að] fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði, sem olli skelfilegri loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun, sem að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja 2 pakka (af vindlingum] á dag." 

Þetta er gott dæmi um skelfilegar afleiðingar þess að hleypa forræðishyggjufólki í hópi fúskara um orkumál að ákvarðanatöku.  Þeir skoða engin mál til hlítar, vita vart, hvað áhættugreining felur í sér, en láta stjórnast af blindu hatri á því, sem þeir ímynda sér, að sé hættulegt, í þessu tilviki jarðefnaeldsneyti og í öðrum tilvikum kjarnorkan.  Þess eru líklega engin dæmi, að ráð hjátrúarfullra fúskara hafi gefizt vel á nokkru sviði, sem skipta samfélag manna máli.  Svipuðu máli gegnir um braskara, sem nota vilja uppboðsmarkað raforku til að græða.  Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að lina þjáningar raforkukaupenda með niðurgreiðslum á raforkukostnaði, en engu að síður er búizt við mikilli viðarbrennslu á norskum heimilum í vetur til upphitunar húsnæðis.  Um rafmagn geta ekki gilt sömu viðskiptalögmál og um vörur, því að það er ekki hægt að safna saman og geyma í umtalsverðum mæli.

"Rafmagn, framleitt með sól og vindi, getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar - allt það, sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar.  Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast, eru þessir orkugjafar í grundvallar atriðum ekki til að treysta á.  Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð.  Rafhlöðutækni býður heldur engin svör.  Þær rafhlöður, sem til eru í heiminum í dag, nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í 1 mín og 15 sek.  Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn [lengri] en tæpar 12 mín.  Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýzkalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hvað minnst.  Á sama tíma tíma koma [a.m.k.] 5 daga [samfelld] tímabil, rúmar 7000 mín, þegar framleiðsla vindorku er við 0."

Það liggur í augum uppi, að téðir orkugjafar einir og sér eru ónothæfir fyrir notendur, sem reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, þegar þeir þurfa á henni að halda, hvenær sem er sólarhringsins. Þar er komið að þeim eiginleikum raforkunnar, sem peningaumsýslumenn, sem hannað hafa markaðskerfi margra landa með raforku, og græningjar, sem predika bráðan heimsendi vegna losunar koltvíildis við bruna jarðefnaeldsneytis, hafa flaskað á: raforkuna verður að framleiða á sama andartaki og aflþörfin í tengdum búnað myndast.  Annars rýrna gæði rafmagnsins til allra tengdra notenda á áhrifasvæði skortsins, og hætta getur myndazt á kerfishruni, ef ekki er brugðizt skjótt við. 

"Hér eru komnar skýringarnar á því, hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi.  Alþjóða orkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd, muni jarðefnaeldsneyti enn verða uppspretta 2/3 hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni, og e.t.v. hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osanbajo, varaforseti Nígeríu: "Engum í heiminum hefur auðnazt að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það, þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt, að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.""

Þessi alhæfing Nígeríumannsins er röng.  Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar iðnvæddust með því að knýja iðnverin með raforku úr vatnsaflsvirkjunum, og það má örugglega finna fleiri slík dæmi.  Mikið óvirkjað vatnsafl er enn í Afríku, en sá hængur er á þessum virkjunum, að söfnun vatns í miðlunarlón bregst oftar í Afríku en í Noregi og á Íslandi.  Þar með er kominn upp óstöðugleiki á framboðshlið, sem atvinnulífið má ekki við. Það er þó himinn og hafa á milli óstöðugleika raforkuframboðs frá vindorkuverum og sólarhlöðum annars vegar og vatnsorkuverum, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, þar sem spáð er vaxandi úrkomu með auknum hlýindum.  

Að setja upp vindorkuver á Íslandi er meinloka.  Vindorkuver mundu hérlendis hafa hækkunaráhrif á raforkumarkaðinn, og þau draga úr aðdráttarkrafti íslenzkrar náttúru á innlenda og erlenda ferðamenn vegna augljósra lýta á landinu langar leiðir og óþægilegs hávaða.  Vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir hafa hins vegar aðdráttarafl fyrir ferðamenn víða. Í upphafi skyldi endirinn skoða, en ekki apa allt eftir útlendingum, þótt þar séu aðstæður ósambærilegar orkuaðstæðum á Íslandi.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband