Kaflaskipti í virkjanasögunni

Ef yfirvöld hér ætla að hleypa vindmyllutindátum á íslenzka náttúru, þá hefja þau þar með svartan kafla í virkjanasögu landsins.  Ástæðan er sú, að jarðrask á ósnortnum víðernum eða annars staðar og herfileg ásýndarbreyting landsins til hins verra mun ekki vera í neinu ásættanlegu samræmi við ávinningin, sem af bröltinu hlýzt fyrir almenning.  Þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar bókhalds vindmylluþyrpingar í íslenzkri náttúru, stendur eftir einn stór mínus. 

Þessu er allt öðru vísi varið með hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru allar í stórum plús, þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar þeirra að teknu tilliti til landverndar.  Nú verða þau, sem lagzt hafa gegn nánast öllum hefðbundnum virkjunum hérlendis, að draga nýja varnarlínu vegna harðvítugrar ásóknar fyrirbrigða, sem engum þjóðhagslegum hagnaði geta skilað að sinni. 

Virkjanaandstæðingar verða nú að fara að líta jákvæðum augum á nýtingu innlendra orkulinda fallvatna og jarðgufu og á flutningslínurnar, enda fer nú stöðugt fækkandi km loftlína flutnings og dreifingar í heild sinni, en aftur á móti ættu þessir aðilar nú að beita öllu afli sínu til að koma í veg fyrir stórfellda afurför, hvað varðar jarðrask og ásýnd lands vegna virkjana í samanburði við ávinninginn af þeim.

  Fjárhagslegur ávinningur fyrir almenning er enginn af vindmylluþyrpingum, af því að þær munu ekki geta keppt við hagkvæmni hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Landþörf vindmylluþyrpinga er margföld á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á hverja framleidda raforkueiningu, og ásýndin er fullkomlega herfileg, sama hvar á er litið, enda falla vindmyllurnar eins illa að landinu og hægt er að hugsa sér, öfugt við hefðbundin íslenzk orkumannvirki. 

Þau, sem leggjast gegn lögmætum áformum um jarðgufuvirkjun eða vatnsfallsvirkjun, eru að kalla yfir okkur óhamingjuna, sem af vindmylluþyrpingum leiðir.  Þar er ekki einvörðungu um að ræða mikið jarðrask, hávaða á lágum tíðnum, sem langt berst, örplastmengun jarðvegs frá vindmylluspöðunum og jafnvel fugladauða, ef höfð er hliðsjón af reynslu t.d. Norðmanna, heldur óhjákvæmilega hækkun rafmagnsreikningsins, og mun keyra þar um þverbak eftir innleiðingu uppboðsmarkaðar dótturfélags Landsnets, sem mun aðeins gera illt verra á Íslandi og verða eins konar verkfæri andskotans í þeirri skortstöðu orku, sem iðulega kemur upp á Íslandi. 

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritar iðulega einn eða með öðrum áhugaverðar og bitastæðar greinar í blöðin.  Þann 24. ágúst 2022 birtist í Fréttablaðinu ein þessara greina undir fyrirsögninni:

"Virkjum fallega".

Hann víkur þar að þjóðgarðinum Khao Sok í Tælandi:

"Stöðuvatnið, lífríkið og landslagið hefur gríðarlegt aðdráttarafl, og fyrir vikið er Khao Sok vinsæll ferðamannastaður.  En það er nýlega til komið. 

Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að stöðuvatnið, sem má segja, að sé þungamiðja þjóðgarðsins, er manngert.  Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins.  Vatnið er uppistöðulón Ratchaprapha stíflunnar, sem var tekin í gagnið 1987.  Framleiðslugetan er 240 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, sem slagar [upp] í uppsett afl Búrfellsvirkjunar, 270 MW.  Þrátt fyrir óspillta náttúru hafði Khao Sok ekki það aðdráttarafl, sem [hann] nú hefur, eftir að stíflan var reist."

Svipaða sögu má segja um margar vatnsaflsvirkjanir heimsins, einnig á Íslandi. Það er alls ekki slæmt í sjálfu sér, að landnotkun breytist, og miðlunarlón eru víða til bóta, hækka grunnvatnsstöðu í grennd, og þar þróast lífríki, enda draga þau til sín ferðamenn. 

Góð hönnun gerir gæfumuninn.  Einhverjar fórnir eru þó óhjákvæmilegar, þegar vatnsfall eða jarðgufa eru virkjuð, en það má nú á dögum gera þannig, að það, sem í staðinn kemur, vegi upp tapið og jafnvel vel það.  Þá hefur verið gætt hófs hérlendis og mannvirki felld vel að landinu.  Það virðist og hafa verið gert í þeirri vatnsaflsvirkjun í Tælandi, sem Jóhannes Stefánsson gerir þarna að umfjöllunarefni, og þess var líka gætt við Búrfellsvirkjun og allar aðrar virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. 

"Mannleg tilvera útheimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða háhýsum.  Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækningatæki.  Lífskjör og velferð okkar allra eru enn sem komið er í órjúfanlegu samhengi við orkuna, sem við beizlum.  Lífið er orka, og orka er lífið."

 Þau, sem leggjast gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum, þótt þær hafi verið settar í nýtingarflokk Rammaáætlunar, hafa annaðhvort ekki áttað sig á þessum almennu sannindum eða þau reyna meðvitað að stuðla að minnkun neyzlu, sem er annað orðalag fyrir lífskjararýrnun. Fulltrúar fyrirtækja hafa tjáð skilning sinn á þessu rökræna samhengi, en fulltrúar launafólks hafa verið furðulega hlédrægir og orðfáir um málefnið m.v. það, sem í húfi er fyrir umbjóðendur þeirra. 

Nú er það svo, að Íslendingar eiga úr tiltölulega fleiri virkjanakostum endurnýjanlegrar orku að velja en líklega nokkur önnur þjóð.  Þegar af þeirri ástæðu er enn úr mörgum kostum að moða, sem ekki geta talizt ganga á einstök náttúruverðmæti eða verið til verulegra lýta í landinu, eins og samþykktur 3. áfangi Rammaáætlunar um vatnsfalls- og jarðgufuvirkjanir er til vitnis um.

Þess vegna sætir furðu, að yfirvöld séu að íhuga að kasta stríðshanzkanum að meirihluta þjóðarinnar með því að leyfa uppsetningu dýrra, afkastalítilla og forljótra mannvirkja með afar ágengum og áberandi hætti í íslenzkri náttúru. Hér er auðvitað átt við risastórar vindmyllur til að knýja rafala, í mörgum tilvikum á heiðum uppi til að ná í hraðfara vind. Það yrði stílbrot í sögu rafvæðingar á Íslandi að leyfa þau ósköp, sem ekki munu auðga almenning, eins og þó hefur gilt um allar virkjanir á Íslandi fram að þessu, því að þessi fyrirbrigði munu leiða til gjörsamlega óþarfra verðhækkana á rafmagni hérlendis. 

"Baráttan við óreiðuna fer fram með inngripum í náttúruna.  Það fylgir því samt alltaf fórnarkostnaður að raska óspilltri náttúru.  Það veit sennilega enginn nákvæmlega, hver sá fórnarkostnaður var í Khao Sok, og þrátt fyrir mótvægis- og björgunaraðgerðir er ljóst, að fjöldi dýra af ólíkum tegundum lifði framkvæmdina ekki af, enda breytti hún vistkerfi stórs hluta þjóðgarðsins verulega. 

Í þessu [tilviki] var ávinningurinn talinn meiri en fórnarkostnaðurinn.  Þrátt fyrir allt þrífst fjölbreytt lífríki áfram í Khao Sok.  Svæðið tók stakkaskiptum og er í dag gríðarfallegt og laðar að sér fjölda gesta árlega.  Tælendingar búa nú einnig yfir hreinni, endurnýjanlegri orku.  Þessi orka er svo undirstaða verðmætasköpunar, sem aftur er órjúfanleg forsenda velferðar. 

Það skal ósagt látið, hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veruleika í íslenzku laga- og stofnanaumhverfi.  Sennilega ekki.  Hvað, sem því líður, má samt færa sannfærandi rök fyrir því, að ákvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skynsamleg, þótt hún hafi ekki verið sársaukalaus."

Það er hægt að reikna út þjóðhagslegt gildi virkjunar, hagvaxtaráhrif hennar og áætluð framleiðsluverðmæti rafmagns frá henni. Ef hún er hagkvæmasti virkjunarkostur landsins, er þjóðhagslegt gildi hennar ótvírætt, en ef rafmagnsvinnslukostnaður hennar er 40-50 % hærri en annarra aðgengilegra kosta, þá er þjóðhagsgildi hennar ekkert, og ætti að hafna henni jafnvel áður en lagt er í vinnu við að meta fórnarkostnaðinn.  

Það eru til aðferðir við að meta fórnarkostnað við virkjun, en engin þeirra er einhlít.  Landþörf virkjunar í km2/GWh/ár er þó óneitanlega mikilvægur mælikvarði og annar vissulega sá, hversu langt að heyrist í og sést til virkjunar.  Allir þessir mælikvarðir gefa til kynna mikla landkræfni vindmylla, og kann hún að vera meðvirkandi þáttur í ásókn erlendra fyrirtækja í framkvæmdaleyfi fyrir vindmylluþyrpingar erlendis, en andstaða almennings við uppsetningu þeirra á landi fer nú vaxandi þar.

"Dæmið um Khao Sok þjóðgarðinn á brýnt erindi við þau okkar, sem hafa bæði áhuga á velferð og náttúruvernd.  Það eru líklega flestir Íslendingar, sem falla þar undir.  Saga okkar, afkoma og lífsgæði, eru svo nátengd íslenzkri náttúru, að það eru harla fáir, sem skilja ekki mikilvægi hennar.  Að sama skapi er sá vandfundinn, sem segist ekki vera umhugað um velferð.  En það er ekki síður mikilvægt að skilja, hvað velferð er, og hvernig hún verður til.

Velferð okkar sem þjóðar byggir ekki sízt á gæfu okkar til þess að virkja náttúruöflin til orkuframleiðslu.  Það er jafnvægislist að gæta að náttúrunni, en beizla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur.  Þetta er vel hægt með skynsemi að leiðarljósi, og við eigum aldrei að raska óspilltri náttúru meira en þörf krefur. 

Við eigum alltaf að velja þá kosti, sem veita mestan ávinning með minnstum fórnarkostnaði.  Það er líka mikilvægt að nýta orkuna skynsamlega, og að sama skapi eru einhverjir hlutar náttúrunnar, sem við viljum af góðum og gildum ástæðum ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við."

  Þarna hefur lögfræðingurinn mikið til síns máls.  Við verðum að ganga út frá því sem gefnu, að nútíma- og framtíðarþjóðfélagið útheimta a.m.k. tvöföldun á virkjuðu afli, ef hér á að vera hægt að halda í horfinu með tekjur á mann, sem nú eru á meðal hinna hæstu í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á blessuð orkuskiptin og kolefnishlutleysið 2040.

Innan íslenzku verkfræðingastéttarinnar er fólk, sem hefur sérhæft sig í virkjunum við íslenzkar aðstæður, og þetta sama fólk leggur auðvitað metnað sinn í að leggja fram góðar lausnir, sem hafa verið beztaðar (optimised) til að gefa kost á hámarksorkuvinnslu á viðkomandi stað innan ramma hófsamlegrar breytingar á náttúrupplifun á athafnasvæðinu.  Sé litið til baka, sést, að íslenzkir arkitektar og verkfræðingar hafa staðið undir kröfum, sem gerðar eru til þeirra um ásýnd mannvirkjanna. 

Við val á næsta virkjunarkosti er það gullvæg regla, sem lögfræðingurinn nefnir, að hlutfall ávinnings og fórnarkostnaðar á að vera hæst fyrir valinn kost úr hópi virkjunarkosta, sem virkjunarfyrirtækin leggja fram. Sé þessi gullvæga regla höfð að leiðarljósi, geta yfirvöld hætt að klóra sér í skallanum út af regluverki, sem þau eru að bögglast við að koma á koppinn um vindmylluþyrpingar, því að röðin mun þá ekki koma að þeim fyrr en að a.m.k. tveimur áratugum liðnum.

Undir lokin skrifaði lögfræðingurinn:

"En það er aldrei hægt að fallast á, að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar.  Ef náttúran á alltaf að njóta vafans, þá er engin mannleg velferð í boði og rangt að halda öðru fram.  Svo öfgakennd afstaða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífskjör okkar allra til langrar framtíðar.  Þá neitum við okkur og afkomendum okkar um lífskjörin, sem við þekkjum í dag.  Þeim mun hratt [hraka], nema ófyrirséðar tækniframfarir séu handan við hornið.  

Vonandi bíður okkar bylting í orkuframleiðslu, t.d. með kjarnasamruna.  Það gæti breytt dæminu verulega.  Við getum hins vegar ekki stefnt inn í framtíðina upp á von og óvon um, að það gerist einhvern tímann á næstunni."

Það er nú sennilega styttra í nýja og öruggari kynslóð kjarnakljúfandi orkuvera en samrunavera.  Þótt ábyrgðarlaust og glórulaust sé að leggjast gegn nánast öllum virkjanahugmyndum á Íslandi, sé höfð hliðsjón af tilvitnunum í téðan lögfræðing, þá er samt talsverður fjöldi landsmanna í þessum hópum ofstækisfullra náttúruverndarsinna.  Mörgum þeirra gengur hrein afturhaldssemi til.  Þeir vilja ekki sjá nein mannleg inngrip í náttúruna, sem heitið geti, og þeir eru "mínímalistar" um lifnaðarhætti.  Fjölskyldubíllinn er þar á bannlista, og kannski vilja þau innleiða þvottabrettið í stað þvottavélarinnar.  Þau hafa talið sér trú um, að stórfelld neyzluminnkun verði að eiga sér stað til að bjarga jörðunni, andrúmsloftinu og lífríkinu. Þessar öfgaskoðanir eru keyrðar áfram sem trúarbrögð, svo að mótrök komast ekki að.

Þjóðfélagið á ekki að færa slíku jaðarfólki og sérvitringum alls konar vopn í hendur til tafaleikja og hindrana á framfarabrautinni.  Ein afleiðingin af því er, að ekkert virkjanaleyfi hefur enn fengizt fyrir virkjun, sem leyst getur íslenzkt efnahagslíf úr viðjum orku- og aflskorts.  Íslendingar missa þar með af mikilvægri atvinnuþróun í a.m.k. einn áratug og eiga á hættu orkuskömmtun að vetrarlagi, eins og fiskbræðslur, hitaveitur með lítinn eða engan jarðvarma og orkusækinn útflutningsiðnaður fengu að kenna á veturinn 2021-2022. Enginn er bættari með afl- og orkuskorti.    

     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Það má alveg koma fram að Þingvallavatn er miðlunarlón, er um 16km2 stærra en upprunalega. Sú stækkun er nánast sama stærð að flatarmáli og Skorradalsvatn, sem er jú einnig miðlunarlón. Stækkun þess var hins vegar óveruleg í flatarmáli talið, vegna landaðstæðna. Fyrst og fremst var þar um hækkun að ræða. Þá má ekki gleyma Úlfljótsvatni, sem var nánast bara smá pollur áður en það var gert að miðlunarlóni. Fleiri náttúruperlur má telja, sem í dag margt fólk heldur að hafi verið til um aldir, en eru í raun manngerðar að hluta.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 24.10.2022 kl. 07:38

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hárrétt, Gunnar.  Myndun miðlunarlóna hérlendis hefur verið vel heppnuð og til landbóta.  Ekki má gleyma perlunni Elliðaárvatni.  Þannig skara vatnsaflsvirkjanir fram úr varðandi lágan fórnarkostnað virkjana til raforkuvinnslu.  Það yrði algert stílbrot að fara nú að innleiða herfileg mannvirki til raforkuvinnslu hér, sem eru bæði afkastalítil og óáreiðanleg.

Bjarni Jónsson, 24.10.2022 kl. 13:18

3 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Og ekki gleyma Hálslóni, sem átti að útrýma öllu lífi í eyðimörkinni. Lítið frést af þeim rannsóknum sem settar voru af stað og áttu að kortleggja breytinguna. Kalla eftir þeim nú 20 árum síðar, eða svo.

Don Kí Kóta dæmið er síðan það allra vitlausasta. Ef hægt er að hindra flutning raforku vegna einhverra staura, þá hefði ég haldið að þeir hinir sömu ættu að taka niður gleraugun þegar kemur að þessu.

Sindri Karl Sigurðsson, 24.10.2022 kl. 16:00

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Bjarni.

Ágúst H Bjarnason, 24.10.2022 kl. 16:14

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Þrátt fyrir stærð Hálslóns, er landnotkun Fljótsdalsvirkjunnar aðeins brot af landnotkun vindmylluþyrpinganna í km2/GWh/ár.  Hreindýr kunna að hafa nagað stráin, sem voru þarna fyrir, en þau hefur lítið munað um að leita annað.  Eitthvert rof hefur orðið þarna í bökkum, en Landsvirkjun er nú tekin að fást við það.  Það er segin saga, að skrattinn er málaður á vegginn í hvert sinn, sem áform um vatnsaflsvirkjun eru á ferðinni.  Það gleymdist þá að geta um bergvatnsána, sem myndaðist í gili frenjunnar Jöklu, og er nú orðin dágóð laxveiðiá.  Þá mundi ég gjarna vilja sjá rannsókn á hækkun grunnvatns þarna í grenndinni, sem er einn þurrasti staður Íslands.  Fórnarkostnaðurinn reyndist mestur sá, að falleg litbrigði Lagarfljótsins minnkuðu eða jafnvel hurfu, og breytingar urðu á lífríki þess.  

Bjarni Jónsson, 24.10.2022 kl. 18:04

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Ágúst.  Ég met ummæli þín mikils.  

Bjarni Jónsson, 24.10.2022 kl. 18:05

7 Smámynd: Einar L Benediktsson

Loksins vitræn umræða um vindmyllur.Ekki gleyma vegkerfinu sem vindmyllur útheimta.Rispan í Skorradal sem skógræktin gerði til að planta trjám

olli þvílíku fjaðrafoki að sveitin var að missa sig.Hvað með vegi sem bera 25tonna steypubíla og 60tonna krana við hverja vindmyllu upp um fjöll og firnidi? Það þarf að krefjast þess að framkvæmdaaðiljar sýni þennan þátt.

Einar L Benediktsson, 25.10.2022 kl. 12:58

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hárrétt, Einar.  Hver vindmylla útheimtir þungaflutninga og vegi og snúningsplan samkvæmt því.  Svæði vindmylluþyrpingar verður að miklu leyti sundurskorið af vegum fyrir þungavinnuvélar og skurðum fyrir aflstrengi og stýristrengi.  Þetta yrðu mestu landskemmdir m.v. þjóðhagslegan ávinning (hann er reyndar enginn, því að þessi aðferð við raforkuvinnslu er svo óskilvirk), sem sögur kunna frá að greina hérlendis.

Bjarni Jónsson, 26.10.2022 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband