7.11.2022 | 10:11
Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði
Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða". Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði.
Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli. Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði. M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði.
Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun. Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:
"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."
Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin. Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana. Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ríkið ætti að breyta bankanum sem það á í samfélagsbanka og hefði líka átt að gera það sama við hinn bankann sem það átti.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.11.2022 kl. 18:01
Hverjar eru helztu fyrirmyndirnar að þessu rekstrarformi ? Svipar þessu ekki til sparisjóðanna ?
Bjarni Jónsson, 8.11.2022 kl. 10:55
Samfélagsbanka svipar að einhverju leyti til sparisjóðs en þó meira í líkingu við hina þýsku "Sparkasse".
Á öllum hinum norðurlöndum eru reknir rótgrónir samfélagsbankar, sem má líka benda á sem fyrirmynd.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.11.2022 kl. 11:22
Frá Bloggi: Guðmundur Ásgeirsson,
Búa einkabankar til peninga?
https://bofs.blog.is/blog/bofs/entry/1095956/
000
Einkabankar búa til lögeyri landsins
https://www.visir.is/g/2010154631455/einkabankar-bua-til-logeyri-landsins
000
Peningur er bókhald.
Bankar skrifa bókhalds töluna og segjast eiga töluna.
Það er ekki rétt, bankinn á ekki neitt af skrifuðum tölum.
Allt peninga bókhaldið á að færast út úr sjóði-0.
Peningakerfið hefur verið rekið þannig að bönkunum hefur verið gefið allt sem þeir hafa lánað.
Þá eru þeir á lang mesta Ríkisstyrknum.
Engin Ríkisstyrkur kemst nálægt því sem við gefum einkabönkunum.
Auðvitað erum við plataðir.
Við lögum allt með ástúð og umhyggju.
Nú er að hugsa og læra, læra, læra og lagfæra svindlið.
Þegar þeir sem byggðu húsið og þeir sem komu með efnið hafa fengið greitt með bókhaldinu, kallað peningur, þá er engin skuld á húsinu.
Þá á framkvæmda geta þjóðarinnar húsið.
Fólkið á húsið og á að eiga húsið, borga inn á húsið til dæmis 10 % af launum og 5% í viðhald.
Engir vextir í Sjóð-0 og hægt að færa sig á milli húsa, og hús gangi áfram í fjölskyldunum til ættingja.
Húsin eru til fyrir fólkið.
Hér á að koma slóð á Bresku nýlendurnar í Ameríku sem notuðu sína krónu, Colonial Scrip.
000
Framhald.
Peningakerfið hefur verið rekið þannig að bönkunum hefur... - jonasg-egi.blog.is
Jónas Gunnlaugsson, 11.11.2022 kl. 01:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.