30.1.2023 | 10:07
Skammarstrikið
Menningar- og viðskiptaráðherra er í meira lagi yfirlýsingaglöð, en svo mikið vantar upp á efndir og eftirfylgni, að tala má um verkleysi. Dæmi um þetta er fjölmiðlaheimurinn hérlendi, sem er í úlfakreppu ríkisafskipta og mjög óheilbrigðrar og ósanngjarnrar samkeppni. Lilja D. Alfreðsdóttir lýsti því yfir fyrir um ári, að hún ætlaði að laga þá skökku stöðu, sem þarna ríkir, með því að láta skattleggja íslenzkar auglýsingar í erlendum miðlum, aðallega í netheimum, og að draga úr auglýsingum á RÚV o.h.f., "útvarpi allra landsmanna", sem í raun virkar eins og útvarp allra vinstri manna og afæta.
Ekkert af þessu hefur gerzt, erlendu miðlarnir hafa nú sogað til sín helming auglýsingamarkaðarins í ISK talið og umsvif RÚV á þessum markaði aukast stöðugt. Velta þessa ríkisfjölmiðils er talin munu nema mrdISK 8 í ár, sem er auðvitað váboði, þótt varaformaður Framsóknarflokksins láti enn duga að tala út og suður. Jafna verður þegar í stað skattheimtuna af öllum fjölmiðlunum, draga RÚV út af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess. Ein rás af hverju tagi er meira en nóg fyrir þennan ríkisrekstur, sem er að verða eins og svarthol fyrir ríkissjóð.
Staksteinar Morgunblaðsins á þrettándanum 2023 fjölluðu um fjölmiðlahneyksli, sem sem vinstri fjölmiðlarnir hafa reynt að þegja í hel. Svo virðist sem starfsmenn RÚV-fréttastofu, sem kalla sig "rannsóknarblaðamenn" þar, hafi verið hafðir að ginningarfíflum í Namibíu í Afríku, þar sem yfirvöld rannsaka alvarlegt spillingarmál. Fórnarlamb fréttamanna í þessu máli varð útgerðarfélagið Samherji.
Þetta félag sætir engri ákæru þar í landi, og þess vegna lítur út fyrir, að óprúttnir menn þar hafi látið líta svo út í augum grobbinna íslenzkra "rannsóknarblaðamanna", að íslenzka útgerðarfélagið hefði hlunnfarið alþýðufólk í Namibíu. Þessi mynd var dregin upp fyrir áhorfendum Kveiks og lesendum fylgitunglanna, sem frá greinir í téðum Staksteinum:
"Björn Bjarnason skrifar um Fishrot-hneykslið í Namibíu, sem náð hefur hingað og fengið nafnið Samherjamálið. "Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svo nefnda. Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019. Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins", skrifar Björn."
Þessi skuggi lögreglunnar á Norðurlandi eystra stafar líklega af meintum stuldi gagna úr farsíma skipstjóra nokkurs hjá Samherja. Augljóslega er þar um alvarlegt mál að ræða, þótt upphlaupsmiðlar hafi ekki gert sér mikinn mat úr því, enda nærri þeim höggvið. Þarna kom fréttastofa RÚV einnig við sögu, en vonandi verða allir viðkomandi blaðamenn hreinsaðir af sök í þessu máli, því að sönnuð sök væri til vitnis um alvarlegan dómgreindarskort.
"Þá bendir hann á, að Samherji hafi greitt fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu, en svo hafi komið í ljós, að 10 stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar þar í landi, hafi verið sakaðir um mútur og [aðra] spillingu. Enginn Samherjamaður sæti þó ákæru vegna málsins, sem er umhugsunarvert í ljósi látanna, sem hér urðu."
Nokkrir íslenzkir blaðamenn voru í einhvers konar krossferð gegn Samherja og töldu sig hafa komizt í feitt og dylgjuðu ótæpilega um refsiverða háttsemi útgerðarfélagsins þar niðri í Afríku. Það er með ólíkindum m.v. það, sem á undan er gengið, að hvorki er fram komin ákæra í Namibíu né á Íslandi á hendur téðu útgerðarfélagi eða starfsmönnum þess. Sú staðreynd vitnar um ótrúlegt dómgreindarleysi Kveiksfólks, sem að þessari þáttagerð kom, og óvönduð vinnubrögð. Ganga þau nú með veggjum ?
Tilbúningurinn og vitleysan var á kostnað íslenzkra skattborgara, sem minnast þess að hafa séð Helga Seljan heldur gleiðfættan spígspora sem Sherlock Holmes í Namibíu, og norskum banka var flækt í málið. Hvernig fór sú rannsókn ?
"Og Björn bendir á frétt Morgunblaðsins í gær um, að yfirlögfræðingur Samherja "hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda, og að hún verði felld niður". Lögfræðingurinn hafi haft réttarstöðu sakbornings í 3 ár."
Þetta er dæmi um ótæk vinnubrögð réttarkerfisins, sem ekki geta orðið lögum og rétti í þessu landi til framdráttar. Skörin er þó tekin að færast upp í bekkinn, þegar í ljós kemur, að ekki er einvörðungu um óhæfni að ræða, heldur er bullandi vanhæfi á ferðinni í þessari rannsókn:
"Svo vill til, að saksóknarinn íslenzki er bróðir blaðamanns Stundarinnar, sem fjallað hefur um þetta mál. Björn segir óskiljanlegt, hve lengi saksóknarinn sitji yfir málinu án þess, að nokkuð gerist. "Er hann örmagna andspænis því, eða er það tilefnislaust ?", spyr Björn."
Það er víðar spilling en í Namibíu, en það er ekki sama Jón og séra Jón, allra sízt í vinstri pressunni. Er ekki löngu tímabært, að "Reichsanwahlt", ríkissaksóknari leysi téðan saksóknara frá málinu ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll.
Þetta mál er eitt ríkishneyksli og amlóðaháttur ráðherra sem fer með þessi mál er alger. Breytir þá engu hvort um handahaf allra hlutabréfa í þessu félagi um ræðir er turdildúfunnar.
Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2023 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.