Virkjanir og sveitarfélögin

Nánast öll raforka frá virkjunum landsins fer inn á stofnkerfi raforku, og þannig eiga allir landsmenn að hafa jafnan aðgang að henni, þótt misbrestur sé á því í raun, bæði hvað afhendingaröryggi og spennugæði áhrærir. Það hefur of lítill gaumur verið gefinn að sveitarfélögunum, þar sem virkjanirnar eru staðsettar, enda er það eðlileg ósk heimamanna, að hluti virkjaðrar orku verði til ráðstöfunar í viðkomandi sveitarfélögum, ef eftirspurn skapast. 

Þetta viðhorf kom fram í góðri Morgunblaðsgrein eftir Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 9. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Forsenda orkuskipta á Íslandi fyrir árið 2040".

Þar stóð m.a.:

"Ég leyfi mér að fullyrða, að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir, nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði.  Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland, átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin, en samt er það svo, að það eru þau, sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir.  Nauðsynlegt er að hefja samtalið [á] milli ríkis og sveitarfélaga strax, til þess að orkuskiptin raungerist."

Þetta er þörf og löngu tímabær ábending.  Að samskipti ríkisvalds, stærsta ríkisorkufyrirtækisins og  sveitarfélaga á orkusviðinu skuli vera í lamasessi, eins og höfundurinn rekur, ber vitni um ómarkviss vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins og ríkisorkufélaganna, og er þessi meinbugur sennilega hluti af skýringunni á þeirri úlfakreppu, sem íslenzk orkumál eru í.  

Þjóðarskútunni hefur verið siglt inn í ástand raforkuskorts.  Hann er ekki tímabundinn, eins og löngum áður fyrr, heldur langvarandi. Hann stafar ekki einvörðungu af skorti á rafölum til að svara eftirspurninni, einnig frá nýjum notendum, heldur vegna ónógrar söfnunargetu miðlunarlóna virkjananna, sérstaklega á Tungnaár/Þjórsár-svæðinu. 

Að auka aflgetu virkjananna mun magna orkuvandann, því að aukið vatnsrennsli þarf til að knýja nýja rafala og/eða stærri rafala.  Aðalvandinn er sá, að miðlunargeta Þórisvatns er of lítil.  Til að bæta úr skák þarf 6. áfanga Kvíslaveitu, nýtt Tungnaárlón og Norðlingaölduveitu.  Hvammsvirkjun-95 MW, Holtavirkjun-57 MW og Urriðafossvirkun-140 MW munu bæta mjög úr skák, því að þar mun bætast við um 290 MW afgeta án þess að auka þörfina á miðlunargetu.

Landsvirkjun virðist vilja leysa aðsteðjandi orkuvanda með vindmylluþyrpingum.  Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, af því að aðrir valkostir til að auka afl- og orkugetu raforkukerfisins eru hagkvæmari og vegna þess að mun meiri landverndar- og mengunarbyrði verður af vindmylluþyrpingum en vatnsorkuvirkjunum (miðlunum og vatnsaflshverflum með rafölum, spennum, rofum stýribúnaði). Núna hafa einvörðungu um 0,6 % landsins farið undir miðlanir, stöðvarhús, aðrennsli og frárennslu, flutningslínur og vegagerð vegna orkumannvirkja.  Landþörf vindmylluþyrpinga í km2/GWh/ár er tíföld á við vatnsaflsvirkjun með miðlun, ef koma á í veg fyrir gagnkvæm skaðleg áhrif vindmyllanna vegna vindhvirfla (túrbúlens), sem dregur úr nýtni og veldur titringi.  Það er með eindæmum, ef Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og ráðuneyti orku, umhverfis og loftslags ætla að hrekja Landsvirkjun frá góðum lausnum á vatnsorkusviði til að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku í landinu og yfir í alveg afleitar lausnir vindorkuhverflanna. 

  "Ég er mikill virkjanasinni.  Ég geri mér grein fyrir því, hvað sú græna orka, sem við framleiðum á Íslandi, hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar.  Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna.  Tryggja það, að samfélag okkar vaxi og dafni.  Tryggja, að lífsgæði okkar aukist.  Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði, sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 km2, til að tryggja 1-2 störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar ?  Ég held, að flestir viti svarið.  Eitthvað meira þarf að koma til." 

Það er vafasamt að heimfæra þær fórnir, sem þessar lýsingar oddvitans og sveitarstjórans draga upp mynd af, upp á Hvammsvirkjun.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, og varla mun bera meira á stíflunni en brú, enda verður þar akfært yfir, og mun sú vegtenging yfir Þjórsá verða sveitarfélögunum beggja vegna lyftistöng. Inntakslónið verður alfarið í árfarveginum og mun fegra sveitina.  Sjónræna áhrifasvæðið, sem hann gerir mikið úr, eykur fjölbreytnina í sveitinni, gerir hana nútímalega og mun draga að henni gesti. 

Það er t.d. ekki hægt að bera náttúruinngrip þessarar virkjunar saman við vindmylluþyrpingu á þessum slóðum.  Slíkt mannvirki fælir frá vegna hávaða og gríðarlegt jarðrask á sér stað vegna graftrar fyrir undirstöðum á stóru svæði, þar sem eru vegslóðar og skurðir fyrir rafstrengi frá vindmyllum að aðveitustöð.  

"Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun, sem á sér stað á landsbyggðinni.  Samt er það skrifað í raforkulög, að uppbygging atvinnu, sem þarf mikla raforku, raungerist aldrei í dreifbýli.  Hvers vegna ?  Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við, sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir, sem búa í þéttbýli.  Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku, sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir, sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum km frá framleiðslustað.  Þessu þarf að breyta strax."

Þetta er alveg rétt hjá höfundinum og hefur ítrekað verið bent á þetta misrétti hér á vefsetrinu og lagðar til leiðir til úrbóta. Það, sem oddvitinn og sveitarstjórinn vill, er, að Landsvirkjun veiti sveitarfélögunum, sem hlut eiga að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, aðgang að hluta af orku frá virkjuninni.  Það er eðlilegt sjónarmið, að frá aðveitustöðinni, sem reist verður við Þjórsá til að taka við orku frá virkjunum Neðri-Þjórsár og tengja hana við stofnkerfi landsins, verði rofar fyrir orku innan sveitarfélaganna, u.þ.b. 10 MW.  Í grein höfundar segir, að stofnkostnaður Hvammsvirkjunar verði líklega um mrdISK 50.  Þá má reikna út, að kostnaður við þessa orkuvinnslu verður um 38,9 USD/MWh (5,6 ISK/kWh), og er það sanngjarnt verð frá virkjuninni til innansveitarnota, en til viðbótar kemur flutningskostnaður að aðveitustöðinni, og Landsvirkjun þyrfti að niðurgreiða dreifinguna, þar til stjórnvöld loksins leiðrétta téða mismunun notenda dreifiveitnanna.  Þá er hins vegar höfuðverkur sveitarfélaganna, hverjir eiga að njóta þessara vildarkjara ? 

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu grein:

"Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni um sanngjarna skiptingu á auðlindinni, sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.  Tryggja þarf, að nærsamfélagið, þar sem orkan á uppsprettu, njóti ávinnings af þeim verðmætum, sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum, sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja, að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040."

Þarna virðist oddvitinn og sveitarstjórinn fara fram á gjald til viðkomandi sveitarfélaga af orkunni frá Hvammsvirkjun, ef hún er seld á hærra verði en nemur framleiðslukostnaði virkjunarinnar (38,9 USD/MWh=5,6 ISK/kWh).  E.t.v. er hægt að semja tímabundið um slíkt, en að auki koma fasteignagjöld í hlut sveitarfélaga, þar sem mannvirki eru staðsett, og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum kemur í hlut þessara íbúa, eins og annarra íbúa landsins.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband