Samfylkingin hefur keyrt höfuðborgina í þrot

Fjárhagur borgarsjóðs er svo bágborinn, að borgin hefur ekki bolmagn til að fjárfesta, hvorki í stórum samgönguverkefnum né í annars konar stórverkefnum.  Borgarsjóði er haldið á floti með millifærslum úr fyrirtækjum OR-samstæðunnar, enda hafur fjárfestingum þar verið haldið í algeru lágmarki undanfarinn áratug.  Þess vegna hefur ekkert verið virkjað þar, framboð rafmagns og heits vatns hrekkur ekki til fyrir þörfinni á kuldaskeiðum.  Nauðhyggja Samfylkingarinnar segir, að ekki eigi að fjárfesta fyrir toppþörfina.  Það er rangt, því að annars er ekkert borð fyrir báru, þegar bilanir ríða yfir, og samkvæmt Murphy koma þær á versta tíma.  Fyrirbyggjandi viðhald hefur líka verið skorið niður við nögl í borgarfyrirtækjunum, svo að reksturinn er í skötulíki.  Hugmyndafræði Samfylkingarinnar er hugmyndafræði viðvaninga og fúskara. Þannig hugmyndafræði gagnast ekki almenningi.  Samfylkingin á enga samleið með almenningi.  Hún er fyrir sérvitringa, Samtök um bíllausan lífsstíl og aðra slíka.  

Forsendur þess, sem gætu orðið dýrustu verkefnismistök Íslandssögunnar, eru brostnar, svo að það er einboðið að stöðva þá óvissuferð út í fjárhagslegt kviksyndi skattborgara, sem borgarlínan er.

Samfylkingin heldur því fram, að það feli í sér að kasta fé á glæ að auka hreyfanleika umferðarinnar með hefðbundnum umbótum á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina vegna þess, að þessi mannvirki fyllist strax af bílum samkvæmt lögmáli "orsakaðrar umferðar". Þetta eru falsrök.  "Orsökuð umferð" (induced demand) á ekki við á Íslandi.  Hún er aðeins fyrir hendi í milljónasamfélögum.  Annaðhvort hefur Samfylkingin (Holu-Hjálmar) flutt þessa speki til Íslands af vanþekkingu, enda eru þar amatörar leiðandi um umferðarmál, eða Samfylkingin tók meðvitaða ákvörðun um að kasta ryki í augun á kjósendum til að blekkja þá til fylgilags við borgarlínu. Fyrir hvort tveggja á Samfylkingin skilda falleinkunn.  

Nýjasta spá hermilíkans (Þórarinn Hjaltason-Mbl. 02.02.2023) um stöðu umferðar 2040 sýnir, að bílar í umferðinni þá verða innan við 2 % færri með borgarlínu og nýjum göngu- og hjólastígum en ella.  Þetta er reiðarslag fyrir draumóramenn borgarlínunnar, því að þá dreymdi um 20 % færri bíla.  Þetta þýðir, að hin rándýra borgarlína er vonlaust verkfæri til að fækka bílum, en þannig kynnti Samfylkingin hana til sögunnar.  Nú langar Samfylkinguna mest til að fækka bílum með umferðargjöldum í Reykjavík, en þau virka aðeins til fækkunar, ef þau eru há.  Þau urðu svo óvinsæl í Stafangri, olíubænum á SV-strönd Noregs, að þau voru fljótlega afnumin þar.  Nauðhyggja Samfylkingar mun leiða borgarbúa í algerar ógöngur.  

Stefnumörkun Samfylkingar í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins var hrákasmíði, eins og allt annað, sem frá þeim arma stjórnmálaflokki hefur komið, enda er hún nú hrunin til grunna.  Nú er komið að ríkisvaldinu að kasta rekunum.  Er þörf á afætum í apparati á borð við "Betri samgöngur o.h.f." til að auka hreyfanleika umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, eða er þetta opinbera hlutafélag enn eitt dæmið um vandræðagang stjórnmálamanna ?  Vegagerðin er einfær um verklegar framkvæmdir, sem hún hannar til að auka hreyfanleikann.  Það þarf ekki viðbótar afætur í kringum "létta borgarlínu" á akrein hægra megin.  

Fyrrverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, skrifaði góða grein í Moggann 3. febrúar 2023 um borgarmálefni undir fyrirsögninni:

"Samgöngur í ólestri".

Hún hófst þannig:

"Það, sem hefur einkennt meirihlutann í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og áður, er óráðsía í fjármálastjórn borgarinnar, stöðug skuldasöfnun og áform um að eyða mörgum tugum milljarða króna í svo kallaða borgarlínu.  Stjórnsýslan er flókin og þunglamaleg, og afgreiðsla erinda einstaklinga og fyrirtækja til borgarinnar tekur ógnartíma, þrátt fyrir að starfsmannafjöldi hafi stóraukizt á undanförnum árum."

Það, sem VÞV gagnrýnir þarna á hæverskan hátt, er í raun og veru eyðilegging Samfylkingarinnar á stjórnkerfi borgarinnar, svo að það stendur lamað eftir, eins og opinberast, þegar hæst á að hóa, t.d. þegar náttúruöflin láta hressilega að sér kveða.  Þetta hefur Samfylkingin gert með því að ráðstjórnarvæða stjórnkerfið, sem felur í sér að setja pólitíska silkihúfu yfir hvert svið, en áður stjórnuðu öflugir embættismenn borginni undir beinni stjórn borgarstjóra, t.d. borgarverkfræðingur. 

"Nú virðist liggja fyrir, að ekkert verði úr aðgerðum á næstu árum til að stórbæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, aðallega rætt um borgarlínu fram og til baka, en sú framkvæmd hefur algjöran forgang hjá meirihlutanum. Óljóst er, hvort hún verði nokkurn tíma að veruleika m.v. núverandi áform.  Nýlega var upplýst, að kostnaður við þá framkvæmd hækki verulega frá upphaflegri áætlun, sé kominn í mrdISK 70 og fyrsti áfangi kosti mrdISK 28.  Sundabraut er seinkað með reglulegu millibili, rætt um Miklubraut í stokk, en nýlega var kynnt, að kostnaður við þá framkvæmd yrði mrdISK 27.  Ljóst er, að ef af þessari framkvæmd verður, muni það valda umferðaröngþveiti í Hlíðunum og nágrenni á framkvæmdatímanum."

Alls staðar, þar sem þessar gagnslausu og glórulausu framkvæmdir verða, munu þær valda umferðaröngþveiti árum saman, t.d. á Suðurlandsbraut.  Þessar síðustu hækkanir ættu að leiða fjárveitingavaldinu fyrir sjónir, hvílíkt fjárhagskviksyndi Samfylkingin er að leiða skattborgarana í með þessu uppátæki amatöra. Ríkisvald og ábyrgir bæjarfulltrúar verða að stöðva þessa vegferð strax.  Enginn tapar á því, nema nokkrar gjörsamlega ábyrgðarlausar afætur. 

"Einnig hefur verið kynnt, að áætlaður kostnaður við Sæbraut í stokk verði mrdISK 17, var upphaflega áætlaður mrdISK 2,2.  Meðan á framkvæmdum stendur, verður alvarleg röskun á allri þeirri gríðarlegu umferð, sem þar fer fram daglega.  Mislæg gatnamót eru bannorð hjá meirihlutanum [á fölskum forsendum orsakaðrar umferðar - innsk. BJo].  Miklu fremur beinist áhugi meirihlutans að því að þrengja nokkrar stofnæðar borgarinnar, fækka bílastæðum og gera bíleigendum eins erfitt fyrir og kostur er. Það væri hægt að fara í einfaldar og árangursríkar umbætur í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu strax fyrir brotabrot af þeim kostnaði, sem er áætlaður í hin ýmsu stórkarlalegu úrræði, sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd, úrbætur, sem vegfarendur myndu njóta góðs af strax og tekið yrði eftir.  En meirihlutanum virðist ekki vera órótt yfir því, að kostnaður við samgöngusáttmálann hefur hækkað um mrdISK 50, frá því [að] hann var gerður. Fyrir þá fjárhæð væri t.d. hægt að reisa þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum auk hinnar margumræddu þjóðarhallar."  

Þrengingar gatna hafa verið gerðar í nafni umferðaröryggis, en þær og að setja hlykki á göturnar, eins og gert hefur verið við Háaleitisbraut, eru ólíklegar til að leiða til færri slysa.  Þessum aðgerðum ásamt fækkun bílastæða er ætlað að tefja bílstjóra og farþega þeirra enn meir í umferðinni en ella, og lækkun hámarkshraða víða í borginni á umferðargötum, þar sem lækkun hámarkshraða er alger óþarfi og skaðleg fyrir eðlilegt flæði umferðarinnar í borginni, er í sama augnamiði borgaryfirvalda, sem eru í stríði við fjölskyldubílinn.  Þessi hegðun yfirvalda er fáheyrð og algerlega óþörf.  Meirihluti borgarstjórnar getur ekki unnið þetta stríð.  Það er þegar tapað, enda er fjárhagur borgarinnar ónýtur til allra stórframkvæmda.   

  

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Því miður er allur pistillinn á sorglegum rökum reistur og ömurlegt að svo margir Reykvíkingar skuli greiða forvígismönnum þessarar helfararstefnu atkvæði sín.

Þjóðarsálin hlýtur einfaldlega að vera fársjúk.

Jónatan Karlsson, 15.2.2023 kl. 07:12

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Takk fyrir frábæran pistil Bjarni að venju.

Tek undir með Jónatani.

Þetta er einhver sjálfseyðingarhvöt hjá þeim sem kjós þetta þetta fyrirbæri sem

Samfylkinginn er og ekkert annað.

Á einnig við um pírata/viðreysnar hyskið sem hefur stutt þessi hryðjuverk.

Sigurður Kristján Hjaltested, 15.2.2023 kl. 13:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður Kristján;

Firring þessa fólks er með ólíkindum.  Þau hafa nákvæmlega ekkert jarðsamband.  Ég botna ekki í þeim, sem kjósa stjórnmálamenn, sem er fyrirmunað að vinna að almannahagsmunum, en láta alfarið stjórnast af sérvizku og útúrboruhætti.  

Bjarni Jónsson, 15.2.2023 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband