Brúin yfir Fossvog

Allt, sem borgarstjórnarmeirihlutinn undir forystu Samfylkingarinnar kemur nálægt, verður að kyndugu máli.  Þannig er með Fossvogsbrúna fyrirhuguðu.  Hvers vegna í ósköpunum er hún ekki ætluð öllum þeim samgöngutækjum, sem nú eru í notkun ?  Fjölskyldubílnum verður meinaður aðgangur, enda brúin ekki hönnuð fyrir hann, heldur einvörðungu fyrir ofurstrætó (sorgarlínu), reiðhjól og gangandi vegfardur (líklega líka rafskútur).  Þetta eru ær og kýr Samfylkingarinnar.  Vér einir vitum, og vér viljum fækka fjölskyldubílum, og vér beitum kúgunartilburðum til þess, eins og þurfa þykir, þ.á.m. að þrengja að fjölskyldubílnum, þar til hann stendur fastur í óleysanlegum umferðarhnúti.  Þetta viðhorf og aðferðarfræði er með öllu óviðunandi í vestrænu lýðræðissamfélagi, þótt það þekkist annars staðar. 

Rándýrar sérvizkulegar hugdettur, sem ekki eru studdar neinum tæknilegum eða hagrænum rökum, einkenna stjórnarhætti Samfylkingarinnar. Sú ákvörðun að meina fjölskyldubílnum afnot af fyrirhugaðri Fossvogsbrú er dæmi um þröngsýna og forstokkaða útilokunaráráttu Samfylkingar og meðreiðarsveina henna.  Þessi afstaða leiðir til þess, að mun færri en ella munu nýta sér þessa brú, og gagnsemi hennar og þjóðhagsleg arðsemi verður þar af leiðandi fremur lítil. 

Í Morgunblaðinu 11. apríl 2023 birtist frétt, sem varpar ljósi á fáránleika hönnunar- og skipulagsmála borgarinnar um þessar mundir og afar vafasama málsmeðferð.  Eftir að auglýst var eftir tillögum um þessa brú, sem skyldi kosta að hámarki MISK 2,0, sem er algerlega óraunhæft, var ákveðið að leggja út í þá ævintýramennsku að hafa brúna úr ryðfríu stáli.  Þetta mun hleypa kostnaðinum upp úr öllu valdi og valda óvissu um öryggi og endingu mannvirkisins.  Var leitað verkfræðilegrar ráðgjafar áður en þessi ákvörðun var tekin ? Fréttin var reist á viðtali við Magnús Rannver Rafnsson, verkfræðing: 

"Óvíst, hvernig Fossvogsbrú endist".

Þar stóð m.a.:

   ""Í stuttu máli er þarna mikil tæknileg óvissa.  Mér vitanlega hefur aldrei verið byggð brú af þessari stærðargráðu, sem er alfarið úr ryðfríu stáli, a.m.k. ekki hérna í norðrinu.  Það er algjör nýlunda", segir Magnús Rannver í samtali við Morgunblaðið.

Þetta hefur ekki verið reynt á Íslandi, og það eru mér vitanlega ekki til neinar rannsóknir, sem sýna, að þetta haldi líftímann, sem þess konar brú á að halda [þ.e. duga - innsk. BJo]. Þetta er sagt viðhaldsfrítt, en þó fellur misjafnlega á ryðfrítt stál með tímanum.  Það þarf þá að vanda sérstaklega til stálsins, ef það á að vera þannig", segir Magnús og bætir við, að ryðfrítt stál tærist."

Það er fátt til í henni versu mannvirkjalegs eðlis, sem er "viðhaldsfrítt" og sannarlega ekki brúarmannvirki yfir saltan sjó.  Suður ryðfrís stáls eru vandasamar, og þar getur hæglega myndazt tæring í tæringarumhverfi, sem rýrir burðargetu.  Þessi undarlega ákvörðun borgarinnar um hönnun og efnisval fyrir Fossvogsbrú hefur áreiðanlega ekki verið tekin að undangenginni vandaðri tæknilegri og fjárhagslegri áhættugreiningu.  Ferli ákvörðunartöku hjá borginni virðist vera í molum.  Á valdatíma Samfylkingarinnar í borginni var skilvirkt stjórnkerfi hennar brotið niður, og á rústunum reis óskapnaður ráðstjórnar, þar sem forkólfum hinna ýmsu pólitísku fylkinga er komið fyrir.  Þetta stjórnfyrirkomulag er óskilvirkt og býður hættunni heim á formi fúsks. 

""Forsendurnar [útboðsins] voru skýrar.  Þetta átti að vera umhverfisvæn lágkostnaðarbrú.  Við miðuðum okkar verk við það og lögðum til einfalda, umhverfisvæna lágkostnaðarbrú, en var ranglega vísað burt vegna óvissu um kostnað á þekktri og margreyndri brúartýpu", segir Magnús.  Úti og inni arkitektar kærðu útboðið til kærunefndar útboðsmála.

"Þegar tillagan er kynnt, er strax komin 50 % kostnaðarhækkun.  Það er áður en stríðið í Úkraínu byrjar og áður en verðbólga er orðin svona mikil.  Okkur finnst það í rauninni ekki sanngjarnt, því [að] við o.fl. þátttakendur vorum með tillögur, sem miðuðust við samkeppnisforsendur.  Við vorum í grunninn með lágstemmda, venjulega brú", segir Magnús.  Bendir hann að lokum á, að tillaga Úti og inni arkitekta hafi miðazt við steinsteypta brú, gerða að stærstum hluta úr forsteyptum einingum úr umhverfisvænni steypu." 

Borgin virðist standa undarlega að þessari Fossvogsbrú og spyrja má, hvort nokkrir brúarhönnuðir hafi komið nálægt málinu fyrir hennar hönd, eða hvort viðvaningsháttur og smekkur pólitíkusa og embættismanna hennar hafi ráðið ferðinni ?  Það væri algert ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi af hálfu borgaryfirvalda og væri þá ekki í fyrsta skiptið.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Alveg óskiljanlegt hvernig bæjarfulltrúar í Kópavogi láta ganga yfir sig með þessa borgarlínu. Nú á brúin að kosta miklu meira og algerlega óljóst hvernig ofurstrætóin á að komast klaklaust að brúnni. Hugmyndin er í dag að fara í gegnum mitt Kársnesið þar sem litlu börnin eiga að ganga yfir í skólann. Ekki er sorgarsagan minni upp á Vatnsenda þar sem ekki mátti setja hringtorg og bætt enn einum ljósunum við alltof nálægt næstu. Þetta á síðan allt að gerast þegar Reykjavíkurborg getur ekki haldið skammalaust skuldaútboð. Hvaðan eiga peningarnir að koma?

Rúnar Már Bragason, 11.5.2023 kl. 12:18

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Skipulagning og stjórnun borgarinnar hefur tekið á sig blæ skrípaleiks.  Hvers vegna í ósköpunum ?  Það er vegna þess, fúskviðhorf vaða uppi; fagleg ígrundun með hagsmuni almennings að leiðarljósi er sett til hliðar, en í staðinn er komið sérlundað fólk og illa að sér, sem reynir að troða framandi hugmyndum sínum um lifnaðarhætti upp á almenning.  

Þakka þér, Rúnar Már, fyrir innlegg þitt.

Bjarni Jónsson, 12.5.2023 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband