17.6.2023 | 18:29
Grundvöll raunlaunahækkana vantar
Mikill hagvöxtur eftir Kófið er skiljanlegur, en á óvart kemur, að hann er að mestu leyti vegna fjölgunar á vinnumarkaði. Á síðustu 10 árum hafa að jafnaði 5 þúsund fleiri með erlendan ríkisborgararétt flutzt til landsins en frá því.
Þótt margt aðkomumanna sé hörkuduglegt fólk, virðast þessir aðkomumenn ekki hafa staðið undir framleiðniaukningu í landinu. Þannig minnkaði landsframleiðsla á mann í landinu á 1. fjórðungi 2023, þótt þá hafi umreiknað til árs mælzt 7 % hagvöxtur. Að nokkru tengist þetta því, að erlendu ríkisborgararnir búa fæstir yfir þekkingu, sem er mikils metin á vinnumarkaði, en í annan stað stafar þetta af mikilli fjölgun opinberra starfsmanna, sem draga niður meðalafköstin, og verðmætasköpunin er misjöfn og oftast torreiknanleg.
Málið er alvarlegt, og það þarf að kryfja til mergjar með það að stefnumiði að snúa þróuninni við, því að þessi stærð er undirstaða raunkjarabóta í landinu. Eftir því sem þjónustugreinar verða umfangsmeiri í hagkerfinu, er þessi neikvæða þróun viðbúin, því að þar er erfiðara að koma við sjálfvirknivæðingu að ráði en í vöruframleiðslu. Það er þó eitthvað mikið að hér, því að að Ísland situr á botninum, hvað þetta varðar, innan OECD. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað ríkisstjórninni minnisblað um þetta, en stjórnin hefur sett á laggirnar ónauðsynlegri vinnuhópa en þann, sem skipaður væri um téða krufningu, þ.e. að finna á þessu handfastar skýringar, og að varða leiðina til viðsnúnings. Eru fjárfestingar í nýsköpun misheppnaðar að miklu leyti ?
Árið 2000 jókst landsframleiðsla á mann um 2,5 %, og meðaltalið síðan til 2023 nemur 1,4 %, en leitni stærðarinnar stefnir í 0 2024. Það þýðir einfaldlega, að það er tómt mál að tala um nokkrar raunlaunahækkanir á því herrans ári. Við þessar aðstæður er það algerlega óábyrgt hjal, að hægt verði í næstu kjarasamningum að sækja raunlaunahækkanir í greipar atvinnurekenda. Launahækkanir munu við þessar aðstæður aðeins kynda undir verðbólgu og verða að engu. Sumir verkalýðsformenn lifa í hliðarveruleika við raunheiminn og þykjast búa yfir "betri sannleika" en t.d. Seðlabankinn, en þeirra sannleikur er froða uppskafninga án nokkurrar fræðilegrar festu.
Baldur Arnarson birti baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 6. júni 2023, sem reist var á útreikningum Yngva Harðarsonar, framkvæmdastjóra Analytica, undir fyrirsögninni:
"Minna til skiptanna":
""Ársbreytingin minnkar kerfisbundið yfir þetta tímabil. Þannig að dregið hefur úr vexti framleiðni. Leitnin er komin mjög nálægt núllinu. Við ættum í raun að hafa orðið fyrir talsverðri kjararýrnun frá því fyrir faraldurinn. Þetta er ein af ástæðum verðbólgu. Laun hafa hækkað langt umfram framleiðni", segir Yngvi."
Umframverðbólga á Íslandi m.v. evrusvæðið og Bandaríkin (BNA) er alfarið í boði verkalýðshreyfingarinnar. Á þessum svæðum hafa launþegar tekið á sig kjaraskerðingar með launahækkunum, sem eru langt undir verðhækkunum þar. Þar af leiðandi hjaðnar verðbólga þar nú og er um 6,1 % á evrusvæðinu og 4,9 % í BNA, en um 9 % hér.
Ef verkalýðsformenn sýna af sér stillingu (skynsemi er varla hægt að biðja um), bera teikn á lofti merki um, að góðra tíðinda kunni einnig hér að vera að vænta, þ.e. að aðgerðir Seðlabankans í baráttunni við verðbólgu hafi nú jákvæð áhrif á þætti, sem reka hana áfram.
Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Fossum, fjárfestingarbanka, reit um þetta áhugaverða verð á Sjónarhóli VIÐSKIPTAMOGGANS 7. júní 2023:
"Vísbendingar um hraðari hjöðnun verðbólgu".
"Þegar horft er fram á veginn, þá glittir í jákvæðar leiðandi vísbendingar um, að verðbólgan eigi mögulega eftir að hjaðna hraðar en spár Seðlabankans gera ráð fyrir og [þess], sem verðlagning á skuldabréfamarkaði bendir til. Þar fer saman samspil ytri þátta í heimshagkerfinu, og að vaxtaleiðni peningastefnunnar miðlast með æ kröftugri hætti í gegnum hagkerfið."
Forseti ASÍ af öllum mönnum fór eindregið fram á það við ríkisstjórnina á dögunum, að hún sæi til þess, að ráðherrar, aðrir þingmenn og hátt settir embættismenn, sem eiga að fá launahækkanir samkvæmt lögum í samræmi við launaþróun ríkisstarfsmanna, tækju á sig enn meiri raunkjaraskerðingu en Hagstofan var búin að reikna þeim til handa ( með um 6 % launahækkun). Niðurstaðan verður 2,5 % launahækkun. Þetta var skot út í loftið í baráttunni við verðbólguna hjá forsetanum, nema hann beiti sér nú af hörku fyrir því, að þessi prósenthækkun verði viðmið launþegahreyfingarinnar í næstu kjarasamningum. Hann verður að sýna einhverja samkvæmni. Annars er hann ómarktækur. Nú reynir á forystu launþegahreyfingarinnar. Ætlar hún að láta af skrípalátum og fara að taka hlutverk sitt alvarlega ? Valið stendur á milli heilbrigðs vaxtar og fullrar atvinnu eða kreppuverðbólgu ("stagflation"). Sú síðar nefnda mundi leika alla grátt, en koma verst niður á þeim, sem sízt skyldi.
"Jákvætt var að sjá vöxt einkaneyzlu á 1. ársfjórðungi undir væntingum Seðlabankans - eða um 2,5 %. Þá dróst kortavelta í apríl [2023] saman að raunvirði á milli ára í fyrsta skipti í rúm 2 ár þrátt fyrir sögulega 3,6 % íbúafjölgun á sama tíma. Fjármunamyndun var einnig undir spám bankans, og skrapp atvinnuvegafjárfesting saman um 14 % frá fyrri ársfjórðungi (árstíðaleiðrétt), sem er mesti samdráttur í 3 ár. Til viðbótar við þetta gefa neikvæðari væntingar heimila og fyrirtækja til kynna, að spennan í hagkerfinu hafi náð hámarki. Hóflegur, en heilbrigður vöxtur ætti að taka við."
Þetta eru allt vísbendingar um, að aðgerðir Seðlabankans séu teknar að bera árangur við að minnka þenslu, sem er undanfari verðbólguhjöðnunar.
Raunhæfs bjartsýnistóns gætti í lok greinar Steingríms:
"Ef fram fer sem horfir, getur sú sviðsmynd teiknazt hratt upp, að toppi vaxtahækkunarferlisins sé náð, og fram undan blasir við umhverfi, þar sem núverandi vaxtastig vinnur með kröftugum hætti á þeirri þenslu, sem skapaðist í íslenzku efnahagslífi á liðnum misserum."
Íslenzkt hagkerfi þolir ekki núverandi vaxtastig til lengdar áfallalaust, þ.e. án þess að sligast og síga í kreppuástand. Svo er að sjá af ýmsum viðbrögðum verkalýðshreyfingar við skýrum skilaboðum Seðlabankastjóra, m.a. í viðtali við Morgunblaðið 8.júní 2023, þar sem hann talaði tæpitungulaust, að þar á bæ er fólk ófært um að greina stöðuna og móta langtímastefnu öllum launþegum til heilla. Samkvæmt þessu munu verkalýðsformenn stinga hausnum í sandinn og framkalla enn meiri vaxtahækkanir, sem munu skapa hér fjöldauppsagnir og atvinnuleysi. Það þýðir ekki að fara þá fram með dólgshætti og kenna öllum öðrum um ömurlega stöðu. Ábyrgðin hvílir á herðum samtaka launafólks, hvort sem formönnum sumra verkalýðsfélaga líkar það betur eða ver. Hvers vegna gengur þeim ver að skilja staðreyndir en verkalýðsformönnum á hinum Norðurlöndunum og víðar ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.