Stríð Rússa í Úkraínu er útrýmingarstríð

Hinn siðblindi og misheppnaði forseti Rússlands hefur gert hver mistökin öðrum verri, frá því að hann ákvað að siga rússneska hernum á úkraínsku þjóðina og ráðast með tæplega 200 k mannafla inn í nágrannaríkið Úkraínu til að afhöfða löglega kjörna ríkisstjórn Úkraínu, binda enda á lýðræðisþróunina í Úkraínu og innlima allt landið í rússneska ríkjasambandið.

Hann hélt, að hann kæmist upp með þetta í krafti lygaáróðurs um mátt rússneska hersins og sundrungar Vesturlanda eftir niðurlægingu Trump-tímans.  Hann hélt, að rússneskum skriðdrekum yrði fagnað með blómum úr hendi almennings, a.m.k. rússneskumælandi hluta hans, en það fór á annan veg. Þeim mættu skriðdrekabanar úkraínskra hermanna, jafnt rússneskumælandi sem hinna, og megninu af nýlegri skriðdrekum innrásarhersins virðist hafa verið grandað.  Kvað svo rammt að eymd hersins á Rauða torginu 9. maí 2023, að þar var aðeins einn skriðdreki til sýnis, og var hann úr síðari heimsstyrjöld, sem Rússar kalla Föðurlandsstríðið mikla. Rússneski herinn er rotinn frá toppi til táar, Pótemkínher, sem getur fátt annað en að níðast á varnarlausum íbúum Úkraínu.  Þetta hefur auðvitað fært úkraínsku þjóðinni heim sanninn um eðli rússneskra yfirráða og gert hana að staðföstum bandamanni Vesturlanda.  "Rússneski heimurinn" (russki mir) er baneitraður.

Rauði herinn, eins og rússneski herinn nú, stundaði á sinni tíð sömu aðferð og nú, sem kölluð er "kjöthakkavélin", að senda hverja bylgju fótgönguliða fram fyrir vélbyssukjaftana, enda var mannfallið 5:1 í "Föðurlandsstríðinu mikla". Þá var munurinn hins vegar sá, að Rauði herinn fékk gríðarlegar hergagnasendingar frá Bandaríkjamönnum, líklega að verðmæti mrdUSD 130 að núvirði, sem reið baggamuninn, en nú hefur lélegur og spilltur hergagnaiðnaður ekki undan að fylla upp í skörðin, og lýðfræðileg þróun Rússlands er ömurleg með 1,2 börn á hverja konu og lækkandi meðalaldur, einkum karla, sem eru 10 M færri en kvenfólkið. 

  Þegar rússneski herinn mætti mótlæti í Úkraínu strax veturinn 2022 og mistókst ætlunarverk sitt, hóf hann að ganga í skrokk á almennum borgurum með sérstaklega svívirðilegum hætti og gerði íbúðarhús, sjúkrahús og skóla að skotmörkum sínum, pyntaði og skaut almenna borgara af stuttu færi, eins og vegsummerki í Bucha og víðar bera vitni.  Veturinn 2022-2023 var reynt að frysta íbúana í hel með því að skjóta eldflaugum á orkumannvirki Úkraínumanna, en eftir uppsetningu loftvarnarkerfa í Úkraínu misheppnaðist þessi aðför, eins og kunnugt er.  Jafnvel ofurhljóðfráar eldflaugar Rússa af s.k. Kinzhal gerð, sem Rússar héldu, að engar varnir væru til við, hefur 40 ára gömul vestræn tækni fullkomlega ráðið við (Patriot).  

Aðfararnótt 6. júní 2023 í aðdraganda stórsóknar úkraínska hersins keyrði um þverbak í þessu djöfullega útrýmingarstríði Rússa, sem aldrei verður fyrirgefið. Þá tendruðu rússneskir hermenn kveikiþræði sprengja, sem þeir höfðu fyrir löngu komið fyrir inni í stíflu Nova Kakhovka vatnsorkuversins með voveiflegum afleiðingum fyrir a.m.k. 40 k manns, sem fyrir neðan bjuggu og hverra húsnæði varð umflotið vatni bæði austan og vestan stórfljótsins Dnieper.  Þann 10.06.2023 var upplýst, að vatnsborð miðlunarlónsins væri komið undir inntakshæð kælivatnslagnar að stærsta kjarnorkuveri Evrópu, sem staðsett er í Zaphorisja-héraðinu.  Á lóð þessa kjarnorkuvers hefur rússneski herinn komið sér upp herstöð, sem er með algerum ólíkindum.  Hér vofir yfir kjarnorkuslys, sem ylli þá enn meiri geislun en varð í Úkraínu 1986 í Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu, og það eru ekki minni líkindi á, að geislavirk ský frá þessu kjarnorkuveri reki til austurs en vesturs. 

Öll þessi hegðun rússneskra yfirvalda er svo forkastanleg og fordæmanleg, að orð fá ekki lýst.  Þetta eru glæpaverk af verstu gerð, sem hafa valdið mengun á gróðursælasta jarðvegi Evrópu, sem nú getur breytzt í eyðimörk og mun þá valda hungurdauða víða um heim.  

Strax 7. júní 2023 gerði Stefán Gunnar Sveinsson grein fyrir þessum illvirkjum í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fordæma Rússa fyrir eyðilegginguna".

Fréttin hófst þannig:

"Flytja þurfti rúmlega 40 k manns frá heimilum sínum beggja vegna Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði í gær, eftir að Nova Kakhovka-stíflan brast í fyrrinótt.  Vatn úr uppistöðulóni stíflunnar flæddi í Dnípró-fljótið og olli umtalsverðum flóðum í héraðinu.  

Volodomir Selenskí, Úkraínuforseti, fordæmdi Rússa fyrir að hafa orðið valdir að eyðileggingu stíflunnar og sagði hana vera dæmi um hryðjuverk og stríðsglæpi Rússa, sem hefðu nú heilt lífríki á samvizkunni.  "Heimurinn verður að bregðast við.  Rússland er í stríði gegn lífi, gegn náttúrunni, gegn siðmenningunni."

Allt er þetta rétt hjá forsetanum.  Í kjölfarið hefur Ísland brugðizt við með lokun sendiráðs síns í Moskvu og rússneski sendiherrann verið gerður landrækur.  Rússneska utanríkisráðuneytið hefur brugðizt við með ódulbúnum hótunum um refsiaðgerðir að sínum hætti, og netárásir hafa dunið á Alþingi og stjórnarráðinu.  Rússneskir hermenn sáust á félagsmiðlum gorta af því að hafa sprengt stífluna í loft upp. 

Við fól eins og Rússa er útilokað að eiga í nokkrum vinsamlegum samskiptum.  Þetta er útlagaríki og verður það um fyrirsjáanlega framtíð.  Formlega eiga þeir bara í stríði við eina þjóð, en það er hollast fyrir Vesturlönd að gera sér grein fyrir því, að Úkraínumenn fórna nú blóði sínu fyrir Vesturlönd, lýðræðið og siðmenninguna. Í Rússlandi ríkir enn miðaldamyrkur einræðis, ofstækisfullrar ríkiskirkju, fátæktar fjöldans og landlægrar spillingar.   

"Þá sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins [norskur krati], að eyðilegging stíflunnar myndi tefla þúsundum mannslífa í hættu og valda umtalsverðum umhverfisskaða.

"Þetta er svívirðilegur verknaður, sem sýnir enn og aftur grimmdina, sem fylgir stríði Rússlands í Úkraínu", sagði Stoltenberg á Twitter."

Fólskuverk Rússanna eru gegndarlaus.  Þau sýna Vesturlöndum, hvað til þeirra friðar heyrir, ef rússnesk ómennska verður ekki brotin á bak aftur núna.  Rússland er ríki hins illa, einræðisríki, rotið ofan í rót, sem metur mannslíf einskis og treður siðmenninguna niður í svaðið.  Í Kreml ríkir andi Mongólanna, sem ríktu yfir Rússlandi í 300 ár og eirðu engu. Rússland lenti á allt annarri og óheillavænlegri þróunarbraut en Evrópuríkin,sem þróuðust úr miðaldamyrkri til upplýsingar og lýðræðis.  Af einræði zarsins tók við einræði kommúnistaflokksins, og nú hefur fasískt einræði fyrrum leyniþjónustuforingja kommúnistaflokksins tekið við.  Núverandi styrjöld í Úkraínu er styrjöld á milli siðmenningar og lýðræðis annars vegar og villimennsku og einræðis hins vegar.  Þess vegna var framtak utanríkisráðherra Íslands að binda enda á diplómatísk tengsl Íslands og Rússlands  mikið fagnaðarefni. 

"Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sakaði á móti Úkraínumenn um að hafa viljandi framið skemmdarverk á stíflunni.  Sökuðu Rússar jafnframt Úkraínumenn um að hafa skotið á stífluna án þess að færa fyrir því nokkrar sönnur."

 Téður Peskov er lygalaupur andskotans.  Úkraínumenn gátu ekki hafa framkvæmt slíkt á kjarnorkusprengjuheldu mannvirki, sem rússneski herinn hefur ráðið yfir frá því í byrjun stríðsins.  Sprengja varð innan frá.  Hinn siðferðilega rotni rússneski her hefur svo bitið hausinn af skömminni með því að skjóta á úkraínskt björgunarfólk á yfirráðasvæði Kænugarðsstjórnarinnar, sem var að störfum á flóðasvæðinu.  Rússarnir létu sér heldur ekki annt um fólk í neyð á sínu hernumda flóðasvæði.  Er til staður í helvíti fyrir slíka óþverra ?  

"Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á móti ljóst, að Rússland hefði eyðilagt stífluna og þar með valdið mesta "tæknislysi Evrópu í marga áratugi og sett óbreytta borgara í hættu.  Þetta er hryllilegur stríðsglæpur.  Eina leiðin til að stöðva Rússland, mesta hryðjuverkaríki 21. aldarinnar, er að sparka því út úr Úkraínu", sagði Kúleba."

Hárrétt hjá téðum Kúleba, en það er ekki nóg, því að að fáeinum árum liðnum munu sjúklegir heimsvaldasinnar í Kreml gera aðra atlögu að sjálfstæði Úkraínu, nema Vesturlönd tryggi öryggi þessa nýja bandamanns síns.  Það verður aðeins gert með óyggjandi hætti með því að samþykkja umsóknarbeiðni landsins um aðild að NATO.  Jafnframt verður ekki annað séð en Vesturlönd verði að efla heri sína og herbúnað til undirbúnings sameiginlegri árás einræðisríkjanna Kína og Rússlands og einhverra fylgihnatta á borð við klerkaveldið í Íran á Evrópu og Tævan. Þá mun muna um Japani í vörninni.  Þetta er það gjald, sem hinn frjálsi heimur þarf að borga fyrir frelsi sitt.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Ingi Guðmundsson

ALLT VAR MEÐ FRIÐI OG SPEKT I UKRAINU FRAM AÐ ÞEIM TÍMA ER HRYÐJUVERKJA SAMTÖKIN NATO FORU AÐ SKIPTA SÉR AF MÁLUM ÞAR. 

Er Ukraina i raun enn eitt ríkið sem að er orðið rjúkandi rúst eftir þau afskipti og ekki sjá að þegar að Nato skiptir sér af málum að neitt batni nema síður sé. Esb er síðan hin hliðin a sama peningnum. 

Arið 2000 þá byrjaði Island, viðræður við Esb um inngöngu islands inn i þau hryðjuverkasamtök, með Össur skarphéðinson i fararbroddi. 

Árið 2008, þá var island i kjölfarið gjaldþrota með eitt stærsta bankahrun i sögu heimsins. 

8 árum seinna !!!!!!!!!!!!!!!+

Heldur viðkomandi að það hafi verið tilviljun. 

Ég held að það hafi ekki verið tilvjun, og Russar vita að það var ekki tiviljun. 

Árið 2000 þá byrjaði Esb seðlabankin að dæla inn peningun i seðlabanka islands, sem að síðan dældi þvi áfram út í kerfið, og Esb seðlabankinn, hætti ekki að dæla peninginum inn til islands, fyrr en i Juni 2008 !!!!

Heldur viðkomandi að ekkert hafi hangið a spýtunni, hvað varðar Nato og Esb elítunna þarna i Evropu. 

Olafur Ragnar reyndi að fa hjalp fra Usa, en var visað í burtu með þeim orðum að málefni islands kæmi þeim ekkert við. 

Heldur viðkomandi að það hafi verið tilviljun ???

Eg held að það hafi heldur ekki verið tilviljun. 

það er búið að ráðst á Russa 52 sínnum i gegnum aldirnar og jafnvel oftar með tilheyrandi blóðbaði og þeir sem að hafa verið að verki nánast þvi í öll skiptin eru þeir hinir sömu og kalla sig ,, NATO OG ESB. 

það var hárrett að fara inn í Ukrainu, en þeir eiga að halda áfram að stríðinu i Ukrainu, svo lengi sem að þessi vesalingar viljar berjast. 

Heilt yfir, þá er ukrainu liðið hálfgerðir vesalingar, sem að eiga ekki bágt út af russum, heldur eiga þeir bágt fyrst og fremst út af sjálfum sér. 

Stjórnvöld þar líta ekki í eigin barm, heldur kenna þeir öllum öðrum um hvernig komið er. 

það eru fyrst og fremst stjórnvöld í Ukrainu, sem að tóku þá ákvörðun að leiða þjóð sína inn í þessar hörmungar, jáfnvel þrátt fyrir að hafa haft tækifæri til þess að koma í veg fyrir allar þessar hörmungar allt frá FYRSTA DEGI. 

ÞEIR LÉTU joe biden hafa sig að fíbli. 

Ukrainu var fornað fyrst of fremst með það að markmiði að búa til aðstæður til þess að hægt væri að koma höggi á Russa. 

Russar eru Grísk kaþolska kirkjan, en washington og Esb elítan og PAFIN, er ROMVERSK KAÞOLSKA KIRKJAN. 

Það er alltaf notalegt að telja sjálfum sér trú um það að viðkomandi tilheyri GÓÐA MANNINUM. 

það er síður góð tilfinning sú tilhugsun, að viðkomandi tileyri vonda fólkinu, og allir virðast forðast þá tilfinningu og lika sá sem að skrifar þessa grein hérna að ofan, þrátt fyrir að staðreyndirnar um Nato, blasi alstaðar við, en afneitunin hjá greinarskrifara, hlýtur að vera alger, og best að snúa blinda auganu að sínum eigin voðaverkum og benda á aðra, á meðan að blóðbaðið er algert, af hálfu Nato ríkjana sjálfra. 

Samanber Yemen. 25000 börn drepin og ekki sjá að Nato ríkin hafi mikið gert til þess að vekja athygli á málinu. 

Fjölmiðlar Nato ekki heldur. 

Yeman, hvað er þar ?

Jú þar eru OLIA og GAS. !!!!!!!!!!!!!!

Lárus Ingi Guðmundsson, 20.6.2023 kl. 12:11

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hér að ofan er reynt með lygaáróðri úr áróðursvél Kremlar að halda uppi vörnum fyrir glæpsamlegt framferði hryðjuverkaríkisins Rússlands gegn fullvalda lýðræðisríki, Úkraínu.  Svipað sjúkleg undirlægjuþjónkun við einræðisríkið sést og heyrist víðar í íslenzkum miðlum, en þessi málflutningur er hreinn þvættingur og til háborinnar skammar.  

Bjarni Jónsson, 21.6.2023 kl. 09:58

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Var einhver að ganga á hurð?

Guðjón E. Hreinberg, 21.6.2023 kl. 12:33

4 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Sæll 

Aðeins einn maður ber sama heiti og þessi Lárus skv. þjóðskrá. Spurningin er hvort sá er að skrifa þess óra eða er þetta tilbúningur? Þetta er skrifað á bjagaðri íslensku. Svo eru allt of margar staðreyndavillur sem aumasti stuðningsmaður Pútíns myndi ekki láta um sig spyrjast. Ég tel að þessi Lárus sé ekki til. - En ef svo er, þá er honum auðvitað vorkunn.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 21.6.2023 kl. 21:11

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Í hverju felst þvættingurinn hjá þeim sem eru á öndverðum meiði, Bjarni Jónsson?

FORNLEIFUR, 22.6.2023 kl. 06:39

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Einar Sveinn;

Furðudýrið gæti verið gervigreind, pumpuð upp af ræsisáróðri Kremlar, sem getur að líta og á að hlýða einstaka sinnum í miðlum hérlendum og vekur undantekningarlaust viðbjóð.  

Bjarni Jónsson, 22.6.2023 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband