Nauðsyn atvinnuvegaþekkingar á þingi

Svandís Svavarsdóttir er gott dæmi um þingmann, sem traðkar endalaust í salatinu, einkum klóri hann sig upp í ráðherrastól, þótt hann hafi hvorki þekkingu á né reynslu af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Stjórnsýsla Svandísar hefur reyndar tekið svo út yfir allan þjófabálk, að hún hefur verið kærð til Umboðsmanns Alþingis, sem hlýtur að fella yfir henni skýlausan áfellisúrskurð, svo skýr sem sök hennar er.  Hún heimtar endalaust gegnsæi af öðrum, en verk hennar sjálfrar eru myrkraverk, sem þola ekki dagsljósið, eins og þegar hún samdi um verktöku af ríkisstofnun með ríkar rannsóknar- og sektarheimildir um að snuðra í því, sem henni kemur ekki við um innri mál sjávarútvegsfyrirtækjanna, og lét svo forstjóra þessarar ríkisstofnunar gera aumkvunarverða tilraun til að hylja slóðina til ráðuneytisins. Nú er spurningin, hvort Katrín láti vinkonu sína skipta um starf, þegar úrskurður kemur um alvarleg brot í starfi. Það er löngu þekkt, að siðferðisvitund vinstri fólks er brengluð af pólitísku rugli.   

Dæmi um þingmann annarrar gerðar, sem tjáir sig um grunnatvinnuvegina af víðsýni og þekkingu, svo að til fyrirmyndar má telja, er Teitur Björn Einarsson.  Hann hefur tjáð sig öfgalaust og af heilbrigðri skynsemi t.d. um sjávarútvegsmál og laxeldi.  Málflutningur hans glóir sem gull af eiri í samanburði við lýðskrum og dellu um þessar atvinnugreinar frá sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.  Þeir eru svo fjarstæðukenndir, að engu er líkara en þeir séu nýdotttnir ofan úr tunglinu og skilji alls ekki, til hvers atvinnugreinar eiga að vera.  

Þann 7. október 2023 birtist ljómandi góð grein í Morgunblaðinu eftir Teit Björn undir fyrirsögninni:

"Verndun villtra laxa og sjókvíaeldis".

Hún hófst þannig:

"Sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum annars vegar og laxveiði hins vegar eru ekki slíkar andstæður, að eitt útiloki annað.  Villta laxastofninum stafar einfaldlega ekki sú hætta af sjókvíaeldi, eins og fullyrt er nú í opinberri umræðu. 

Slysaslepping í Patreksfirði í ágúst [2023] er engu að síður alvarlegt mál í ljósi þeirrar umgjörðar, sem stjórnvöld hafa skapað atvinnugreininni.  Veigamiklir þættir í starfsemi fyrirtækisins, sem um ræðir, fóru augljóslega úrskeiðis.  Krafan um raunhæfar úrbætur, þar sem þeim verður við komið á regluverki, eftirliti og verkferlum fiskeldisfyrirtækja, á því rétt á sér.  Mikilvægt er að draga lærdóm af tilviki sem þessu og bæta úr með réttum hætti."

Það fæli í sér skammarlega uppgjöf gagnvart mikilvægu verkefni að slá því föstu, öfugt við allar aðrar þjóðir við norðanvert Atlantshaf, að laxeldi í sjókvíum á afmörkuðum svæðum við Ísland sé ósamrýmanlegt vexti og viðgangi villtra íslenzkra laxastofna.  Lausnin er sú að beita vísindalegri þekkingu við báðar greinarnar.  Það er gert nú í laxeldinu, og koma þarf böndum á laxveiðina í hverri á, þannig að laxastofnarnir verði nýttir með sjálfbærum hætti, og kjánalegum leik með líf og velferð laxanna, sem kallast að veiða og sleppa, verði hætt, á meðan stofnarnir hjarna við, en þeir eru núna í lægð, og kann veiðiálaginu að vera um að kenna, a.m.k. að nokkru leyti.

"En ef horfa á fyrst og fremst til verndunar villtra laxastofna, þá kemur líka margt annað til skoðunar en sjókvíaeldi. Fjölmargir þættir hafa áhrif á afkomu villtra laxa. Aðstæður í hafinu eru taldar ráða einna mestu um endurkomu laxa í ár, en á móti hefur sá þáttur ekki verið mikið rannsakaður.  Veiði hefur líka áhrif á afkomu villtra stofna.  Veiðiálag í laxveiðiám hefur samt ekki verið ofarlega á baugi áhyggjufullra stangveiðimanna eða áhrif þess að þreyta lax, háfa og meðhöndla fyrir myndatöku og sleppa svo aftur.  Þá er heldur ekki mikið vitað um um áhrif og árangur af fiskrækt í mörgum laxveiðiám með árlegum seiðasleppingum."  

Þarna er tekið á veiðiréttarhöfum og stangveiðimönnum með silkihönzkum, sem er ekki í samræmi við óvægna gagnrýni þeirra á laxeldi í nokkrum fjörðum landsins, þar sem frekjan hefur m.a. gengið svo langt, að krefjast banns á sjókvíaeldi við landið.  Virðist sú krafa vera reist á kolrangri áhættugreiningu fyrir erfðablöndun eldislax og villtra laxastofna.  Líkur á sleppingu kunna að hafa verið vanmetnar hingað til, en þess ber að gæta, að atvinnugreinin í núverandi mynd á Íslandi er ung og í lærdómsfasa.  Landssamband veiðifélaga hefur hins vegar stórlega ýkt afleiðingar sleppinga.  Þó að einhver erfðablöndun verði, verður hún skammæ, því að blendingar verða verr af guði gerðir en villtu fiskarnir og detta langflestir út úr lífskeðjunni á fyrsta ári. 

Veiðiréttarhafar hafa engan siðferðilegan rétt á að stunda erfðabreytingar á fiskistofnum, sem fyrir eru í ám þeirra, a.m.k. ekki án samráðs við sérfræðinga Haf- og vatnarannsókna. 

Þá er komið að veiðiálaginu.  Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að átta sig á því, að hlutfallslegt veiðiálag er margfalt meira en íslenzkir fiskifræðingar ráðleggja úr nytjastofnum á íslenzkum fiskimiðum.  Gilda allt aðrar viðmiðunarreglur um íslenzka laxastofna eða stunda veiðiréttarhafar og veiðifélög helbera rányrkju á laxastofnunum ?  Það er ekki einkamál þeirra, sem fara með nytjaréttinn, ekki frekar í ám og vötnum en í hafinu.  Þess vegna er rétt að setja fiskveiðistjórnarlöggjöf um nytjar á vistkerfum áa og vatna á Íslandi. 

"En talsmenn þrýstihópa á vegum stangveiðifélaga og náttúruverndarsamtaka eru komnir langt út í skurð á opinberum vettvangi með því að krefjast þess, að fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum verði bannað.  Við slíkan málflutning verður ekki unað, og er áróður þessara hópa í engu samræmi við þann vísindalega grundvöll, sem fiskeldi byggir á og það regluverk, sem sett hefur verið.  Virðist meira vera barizt gegn sjókvíaeldi og lífsviðurværi fjölda fólks en fyrir verndun villtra laxa."  

Hvernig samræmist það stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi í landinu að krefjast þess á opinberum vettvangi, að heil atvinnugrein verði lögð niður í landinu ?  Er ekki réttmætt, að hagsmunaaðilar, sem þannig er sótt að, sæki viðkomandi, sem þessar hæpnu kröfur viðhafa, til saka fyrir dómstólum og heimfæri kæru með vísun til stjórnarskrárvarinna réttinda. Líklega gætu lögfræðingar líka heimfært slíka kæru til Evrópulöggjafarinnar (EES-samningsins). 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Gagnrýni á veiðirétthafa og aðferðir við stækkun vatnasvæða undir lax á kostnað villtra stofna, er löngu tímabær. Það slær á skrítna nótu að ryðja úr vegi ísaldarurriða svo sleppa megi veiddum laxi. Í sumum ám er því þannig fyrirkomið að drepa skal allan urriða en sleppa laxi.

Sindri Karl Sigurðsson, 26.10.2023 kl. 13:35

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Bjarni.

Auðlindirnar í hafinu við landið okkar er þjóðareign, punktur.  Til að reyna að skapa sátt um hvernig staðið er að nýtingu sjávarafla og koma í veg fyrir að fjársterkir aðilar geti ekki sölsað undir sig fiskimiðin hefur verið ákveðið að enginn mætti hafa veiðirétt af meiru en 12% af veiði hvers árs. Er öruggt að farið sé að settum reglum? Er það eitthvað launungarmál? Af hverju hanga útgerðamenn eins og hundar á roði til að koma í veg fyrir að þessar upplýsingar komi fram í dagsljósið?  Af hverju er lögfræðingastóð með fulltingi Samtaka fyritækja í sjávarútvegi.  Af hverju styður þú þennan skrípaleik?

Er allt í lagi að ala þúsundir tonna af laxi í fjörðum á 15-60 metra dýpi?  Ég veit það ekki og það virðist ekki liggja ljóst fyrir, allavega hef ég ekki séð það stutt neinum rökum öðrum en að þetta sé fjárhagslega gott fyrir byggðirnar sem búið er að fórna á altari hagsmuna stórútgerða. Er ekki rétt að það sé bara rannsakað í stað þess að þessum bolta sé stöðugt kastað fram og til baka?

Tryggvi L. Skjaldarson, 27.10.2023 kl. 08:26

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Þetta, sem þú nefnir, er náttúruníð í nafni græðgi, og hefur farið allt of hljótt.  Það er tímabært að koma böndum á þetta framferði, sem tryggi þjóðareign á ám og vötnum.  Eins og í hafinu, fæli slík lagasetning í sér lögsögu ríkisins yfir ám og vötnum, þ.m.t. aflamark, en aflahlutdeild færi til landeigenda á grundvelli aflareynslu, þannig að hefðbundinn afnotaréttur verði þeirra. 

Bjarni Jónsson, 27.10.2023 kl. 11:03

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi;

Það dugir ekki að gefa sér ranga forsendu í þessari umræðu.  Hvað er þjóðareign ?  Hún merkir alls ekki, að við, einstaklingarnir með íslenzkt ríkisfang, getum gert kröfu á einhvern um að fá heimsendan arrð af miðunum í pósti.  Þetta er út af því, að þjóð er ekki lögaðili.  Á grundvelli lagaákvæðis um þjóðareign á fiskimiðunum hefur ríkið hins vegar, í okkar nafni, tekið sér lögsögu í landhelginni, og sá réttur hefur ekki verið véfengdur.  Í krafti þessa stjórnar ríkið nýtingu fiskimiðanna og hefur valið aflamarksleiðina, þar sem ríkið ákvarðar aflamarkið, en eftirlætur markaðinum nýtingarréttinn samkvæmt aflahlutdeild, sem íslenzkar útgerðir hafa að mestu leyti keypt á markaði, og upphafið þekkjum við.  Þessi 12 % hámarksaflahlutdeild, sem þú nefnir, á við bolfiska, en ég hygg hlutfallið sé hærra í a.m.k. sumum uppsjávartegundum.  Þessi hámarkshlutdeild er ekkert hagsmunamál fyrir þjóðina, nema síður sé, því að aukin aflahlutdeild ætti að bjóða upp á meiri framleiðni, sem að öðru jöfnu hækkar bæði veiðigjöld og tekjuskatt af útgerðunum.  Þessi ótti við enn stærri útgerðir er á misskilningi reistur, því að þær eru í samkeppni við enn stærri og niðurgreiddar útgerðir á erlendum mörkuðum.  

Það er pólitísk refskák að væna útgerðarmenn um að reyna að dylja eignarhald.  Það eru fyrir hendi hjá yfirvöldum, t.d. Skattinum og Fiskistofu, meiri upplýsingar um útgerðirnar og eignarhald þeirra en flestra annarra fyrirtækja hérlendis.  Þegar ráðherra vill afla sér ítarlegra upplýsinga um fyrirtæki, svo ítarlegra, að varðað getur við persónuverndarlöggjöfina, verður hún og embættismenn á hennar snærum auðvitað að fara að lögum, og það gerði hún ekki.  

Bjarni Jónsson, 27.10.2023 kl. 11:32

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll aftur Bjarni. Ég skil hreinlega ekki þetta orðskrúð.  Við þjóðin háðum þorskastríð, fleiri en eitt og fleiri en tvö, til að verja okkar fiskimið og ég held að stór meirihluti þjóðarinnar sé sammála mér um að landhelgin og fiskimiðin sé eign þjóðarinnar, jafnvel þótt þjóðin er ekki lögaðili. Þú kýst að horfa framhjá þeirri staðreynd að stórútgerðin á Íslandi er niðurgreidd, ekki síður en stærri og niðurgreiddar útgerðir á erlendum mörkuðum.  Hér á landi þurfa stórútgerðir ekki að selja afla á markaði, heldur selja sjálfum sér aflann til eigin vinnslu eða setja beint í gáma til sölu erlendis, ef þeir hagnast meir á því. Þetta kalla margir fylgjendur frelsis til athafna virðiskeðju.  Virðiskeðja, er í þessu tilfelli, bara fínt orð fyrir einokun.  Verðið sem stórútgerðin greiðir sjálfum sér fyrir aflann úr sjó er lægra en fæst ef aflinn er settur á markað og hleypur á milljörðum..  Að hafa lagaumhverfi sem gerir mönnum kleift að svíkja áhafnir skipa og sveitarfélög hringinn í kringum landið og þjóðina alla, um réttlátan hlut í veiddum afla er sérstakt umhugsunar efni. En niðurgreiðsla er það og niðurgreiðsla skal það heita. Hversvegna fer ekki allur fiskur á frjálsan uppboðsmarkað?

Og varðandi dulda veiðiréttinn, ekki eignarhald, hversvegna get ég ekki séð hlutdeild hvers og eins? Er það eitthvað leyndarmál? Þú veist alveg jafnvel og ég, ef ekki betur, að ég labba ekkert til skattsins eða fiskistofu og fæ lista yfir hlutdeild hvers í veiðirétti við Ísland.

Tryggvi L. Skjaldarson, 28.10.2023 kl. 09:48

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi;

Markaðurinn, sem máli skiptir, er hinn endanlegi markaður fyrir um 95 % af afla íslenzkra fiskiskipa.  Ég skil ekki þá fordild að vilja skikka útgerðirnar inn á þann óþarfa millilið, sem innlendur markaður er fyrir útflutningsfisk.  Slíkt tefur fyrir ferli, sem útgerðir og vinnsla kappkosta að hafa sem hraðast.  Að slíkar útgerðir þurfi að selja á innlendum markaði og kaupa sama fiskinn strax aftur til að undirbúa hann fyrir útflutning dettur engum í hug, nema stjórnlyndum stjórnmálamönnum og tréhestum í hópi embættismanna.  Það er endanlegi markaðurinn einn, sem máli skiptir, fyrir allt starfsfólkið og fyrirtækin í þessari virðiskeðju.  

Bjarni Jónsson, 28.10.2023 kl. 15:09

7 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll enn og aftur Bjarni. Þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef hitt á lífsleiðinni sem ég virði sérstaklega fyrir þekkingu og almenna eðlisgreind og skýra sýn á það sem þú telur rétt og hvað rangt. Hef líka trúað að þú sért talsmaður þess að markaðir séu frjálsir.  Sjálfur er ég hægrisinnaður jafnaðarmaður og hef þá sannfæringu að rekstur skipa eigi að vera í höndum þeirra sem bestir eru í veiðiskap og rekstri skipa sem henta verkefninu hverju sinni. Eins er ég þeirrar skoðunar að fiskvinnsla eigi eigi að lúta sömu lögmálum.  Allir sem telja sig eiga erindi á samkeppnismarkað eiga að hafa möguleika á að ná í hráefni og það er ekki hægt án fiskmarkaða. Sem sagt, klippa milli veiða og vinnslu og allan fisk á markað.  Allt tal um virðiskeðju er bara orðasalat( svo ég noti orðskýringar forsætisráðherra) til að gefa einokun fallegt yfirbragð.  Fyrir þá sem eru fyrir á fleti er afar slæmt að þurfa fara eftir lögmálum markaðarins. 

Tryggvi L. Skjaldarson, 28.10.2023 kl. 21:14

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi;

Þakka þér fyrir skrif þín.  Ég er ekki viss um, að mikill áhugi sé á að stofna til fiskverkunar án útgerðar, og ég efast um þjóðhagslega hagkvæmni þess, af því að við eigum í samkeppni við stórfyrirtæki á erlendum mörkuðum.  Þetta er hægt að reikna út, og ef við getum verið sammála um að fara þá leið, sem þjóðhagslega er hagkvæmust, þá getum við orðið einhuga um þetta mál.  

Bjarni Jónsson, 29.10.2023 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband