Heimsátök

Nú fer fram blóðug barátta á milli einstaklingsfrelsis og lýðræðis annars vegar og miðaldastjórnarfars einræðis, kúgunar og ofstopatrúarbragða hins vegar. Barátta Úkraínumanna snýst um að varðveita fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að berjast af alefli við rússneskan innrásarher síðan 24. febrúar 2022 og rússneska hermenn í dulargervi í Donbass og Krím síðan 2014.  Ætlun einræðisherrans í Kreml er að brjóta úkraínsku þjóðina á bak aftur með skefjalausum árásum og ofbeldi gegn almennum borgurum.  Stríðsrekstur Rússa má kalla þjóðarmorð, og óhugnanlegar hörmungar mundu bíða Úkraínumanna, ef her þeirra lýtur í lægra haldi fyrir rússneska hernum. Þess vegna leggur úkraínska þjóðin sig alla fram núna með tilstyrk vestrænna vopna og upplýsingastarfsemi, en því miður hafa vestræn ríki verið rög við að fara að óskum Úkraínumanna af ótta við rússneska björninn.  Þetta er röng og lítilmannleg afstaða, sem kostað hefur mörg mannslíf þeirra, sem ofbeldisöflin réðust á, og dregið mjög úr árangri gagnsóknar þeirra á hendur morknum og að mörgu leyti furðumistækum rússneskum her, sem auðvitað hefur ekki roð við NATO, ef út í það fer.   

Þann 7. október 2023 réðust menn frá Hamas-fylkingunni, sem haft hefur völdin á s.k. Gasaströnd, syðst í Ísrael, yfir mörkin og inn í Ísrael.  Árásinni var ekki beint gegn ísraelska hernum, heldur gegn óbreyttum borgurumsem Hamas-liðarnir tóku af lífi á hinn svívirðilegasta hátt samkvæmt upptökum þeirra sjálfra, og þeir tóku einnig gísla. Þetta var með öðrum orðum hryðjuverkaárás. 

Hvaða fyrirbrigði er þá þetta Hamas ?  Þetta eru hryðjuverkasamtök af versta tagi, hópur öfgafullra og heilaþveginna trúmanna, sem fylgja verstu miðaldaöfgum íslamstrúarinnar og kynþáttahatri.  Hvort þeir eru af grein shíta innan Múhameðstrúarinnar skal ósagt láta, en þeir fylgja a.m.k. klerkaveldinu í Íran að málum.  Teheran-klerkarnir eru fyrirlitlegt miðaldafyrirbæri, sem gerir út siðgæðislögreglu, sem gengur í skrokk á konum, sem ekki hylja hár sitt eða hold að hætti fyrirskipana klerkanna.  Það er alveg ótrúleg formyrkvun í sálarlífi fólks, sem á 21. öldinni getur aðhyllzt jafnforheimskulegar kennisetningar úr eldgömlum trúarritum og þessar eða tekið þessa viðbjóðslegu kúgun upp hjá sjálfum sér.

Klerkarnir í Íran eru yfirstjórnendur ofstækisíslamistanna í Hamas og Hezbollah í Líbanon o.fl. hryðjuverkahópa, fjármagna þá og búa þá vopnum til að koma á óstöðugleika fyrir botni Miðjarðarhafs, enda stunda þeir valdatafl gegn súnnítum, hinni megingrein Múhameðstrúarinnar, sem t.d. Egyptar og Saudi-Arabar tilheyra.  Hamas hefur á stefnuskrá sinni að afmá Ísraelsríki af yfirborði jarðar, hvorki meira né minna.  Þetta eru þannig argvítugir kynþáttahatarar á borð við valdhafa Þriðja ríkisins í Evrópu 1933-1945, sem þarna ganga ljósum logum og gegna erindum Persanna.  Atburðirnir 7. október 2023 hefðu ekki átt sér stað án leyfis æðsta klerks Íran eða jafnvel fyrirskipunar hans. 

 

Það hefur myndazt öxull hins illa á milli Moskvu og Teheran.  Rússneski herinn hefur fengið mikið af hernaðardrónum frá Íran gegn loforðum um rússneskar orrustuþotur.  Það er ekki ólíklegt, að Pútín, alræðisherra Rússlands, hafi talið sér hag í því að hleypa öllu í bál og brand fyrir botni Miðjarðarhafs á þessum tíma og talið æðsta klerkinn á það. 

Það er í gildi varnarsamningur á milli Ísraels og Bandaríkjanna.  Bandaríkin hafa heitið Ísraelsmönnum vopnasendingum, og 2 bandarískar flotadeildir undir forystu tveggja flugmóðurskipa hafa verið send inn á Miðjarðarhaf til að undirstrika bandalag BNA og Ísraels.  Bandaríkjamenn hafa þess vegna í mörg horn að líta núna, og þessi staða reynir á getu þeirra og hernaðarlegt og fjárhagslegt þanþol, sem kemur sér illa fyrir Úkraínumenn, enda hefur Fulltrúadeild Bandaríkjaþings stöðvað síðasta hjálparpakka Bandaríkjastjórnar við Úkraínumenn í meðförum þingsins.  Afstaða hins margákærða Donalds Trumps, sem ætlar að bjóða sig fram til forseta 2024, er þekkt, en hann hefur sagzt mundu stöðva alla aðstoð við Úkraínumenn, verði hann kosinn forseti aftur.  DT er þannig eitthvert versta þý stríðsglæpamannsins Pútíns á Vesturlöndum. 

Það er afar þungbært fyrir heimsbyggðina að horfa upp á hörmungarnar, sem dynja yfir almenning á Gasa vegna hernaðarátakanna á milli Ísraelsmanna og Hamas, en það má ekki gleyma því, að Ísraelsmenn vöruðu almenning við (með flugritum) og hvöttu hann til að forða sér úr Norður-Gasa, þar sem verstu átökin hafa geisað.  Hamas-hryðjuverkasamtökin nota hins vegar óbreytta borgara sem mannlegan skjöld og hafa staðið gegn brottflutningi fólksins.  Allt virðist vera leyfilegt í hugum heilaþveginna ofstækisíslamista, þegar baráttan við Ísraelsmenn er annars vegar. 

Þegar horft er á þessa voveiflegu atburði er nauðsynlegt að setja þá í eitthvert samhengi, og rétta samhengið eru átökin, sem nú fara fram um heimsyfirráðin á milli einræðisríkja, þar sem Kína er vissulega öflugast með sitt "Belti og braut" og fjölmenna og vel búna her, og lýðræðisríkjanna, sem því miður eru mörg hver hálfsofandi enn þá og styðja t.d. við Úkraínumenn með hangandi hendi.  Hvers vegna hefur íslenzka ríkisstjórnin ekki afþakkað boð Kínverja um, að Ísland verði þátttakandi í "Belti og braut".  Línur verða að vera skýrar í þessum átökum.

Þjóðverjar hafa enn langt í frá staðið við skuldbindingar sínar innan NATO um fjárhagsútlát til hermála, og þeir hafa ekki enn látið Úkraínumenn hafa Taurus-eldflaugarnar, sem Úkraínumenn hafa þrábeðið um til að jafna leikinn í lofthernaðinum.  Hvað dvelur orminn langa ? Drátturinn á afhendingu vestrænna orrustuþota hefur einnig tafið fyrir frelsunaraðgerðum Úkraínumanna á landi sínu og er til skammar. 

Lýðræðisríkin virðast alltaf vera tekin í bólinu af einræðisöflunum.  Það er nauðsynlegt, að almenningur átti sig á, hvað býr að baki atburðum, sem hann horfir á í fréttunum.  Þar er ekki allt, sem sýnist.  Þetta er tilvistarbarátta friðsamra lýðræðisríkja við útþenslustefnu árásargjarnra illmenna, sem stjórna  einræðisríkjunum, sem vilja útbreiða forneskjulegt kúgunarveldi sitt. 

Í þessu samhengi var efri forystugrein Morgunblaðsins 1. nóvember 2023 athyglisverð og þörf lexía fyrir þau, sem ættu að taka hana til sín.  Hún bar fyrirsögn, sem verður vart skilin í þessu sambandi, nema lesa forystugreinina:

    "Vanhugsuð krafa er verri en gagnslaus".

Þar skrifar reyndur maður og víðsýnn:

"Þjóðarleiðtogum, sem hafa litla sem enga aðkomu að þessum miklu atburðum [fyrir botni Miðjarðarhafs - innsk. BJo], eða nokkur raunveruleg tök til að leggja mat á þróun þeirra, hættir til að detta í hvern pyttinn af öðrum, þótt þeim gangi aðeins gott til með afskiptasemi sinni. Til samanburðar er fróðlegt að sjá, hvernig reynsluboltinn Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, metur slíkan málatilbúnað.  Hillary Clinton lét hafa þetta eftir sér í blaðaviðtali:

"Það fólk, sem krefst vopnahlés, sýnir, að það hefur lítinn skilning á því, hvers konar fyrirbæri Hamas-samtökin eru.  Fyrrnefndar kröfur eru í raun óhugsandi." 

Og [frú] Clinton bætti við: "Slík ákvörðun væri bein gjöf til Hamas-samtakanna.  Þau gætu nýtt sér vopnahléstímann rækilega í sína þágu til að byggja upp vopnabúnað sinn, skapað sér sterkari stöðu hernaðarlega, og það gæti hugsanlega gefið þeim mun sterkari stöðu til að standa af sér hernaðaraðgerðir Ísraelshers." 

Upphaflega lýsingin á gjömmurum í hópi forystufólks ríkisstjórna á algerlega við um Katrínu Jakobsdóttur.  Framlag hennar gerir ekkert annað en að rugla umræðuna, enda er engu líkara en hún leggi lýðræðislega kjörin yfirvöld Ísraels að jöfnu við hryðjuverkasamtökin, sem hafa það að stefnumiði sínu að eyða Ísrael. Það er heldur ódýrt að reyna að slá sér upp með lýðskrumi og tilfinningavellu um skelfilega atburði, sem HAMAS hefur kallað yfir vesalings íbúana á Gasa. 

Hillary Rodham Clinton er hins vegar eldri en tvævetur og mælir þarna af raunsæi þess, sem greint hefur stöðuna og tekið afstöðu með lýðræðisþjóð, sem varð fórnarlamb óvæntrar hryðjuverkaárásar og á rétt til sjálfsvarnar, en hryðjuverkamennirnir eru slíkir heiglar að leynast innan um almenning og í göngum undir fjölmennum og viðkvæmum stöðum á borð við sjúkrahús.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband