7.1.2024 | 13:41
Mistakagjarn og óráðþæginn ráðherra
Svandís Svavarsdóttir hefur orðið ber að dómgreindarleysi, og vitið er ekki meira en svo, að hún hundsar viðvaranir heils þingflokks, sem stendur að ríkisstjórninni, sem hún, illu heilli, situr í.
Nú hefur Umbinn (Umboðsmaður Alþingis) kveðið upp úrskurð í deilumáli hennar við Hval hf, sem hún fór gegn í vor með miklu offorsi, þegar hún braut lög um hvalveiðar, fór gegn Stjórnarskrá, sem tryggir mönnum atvinnufrelsi, og sýndi af sér fádæma valdníðslu með því að fara offari gegn fyrirtækinu (stjórnsýslulög). Þingflokkur sjálfstæðismanna hafði varað hana við öllu þessu, en hún blés á þær viðvaranir. Nú er komið að skuldadögum.
Síðan beit þessi dæmalausi ráðherra höfuðið af skömminni með opinberum viðbrögðum sínum við úrskurðinum, t.d. í viðtali við RÚV, sem birtist í kvöldfréttatíma föstudaginn 05.01.2024, en þar gerði ráðherrann sér lítið fyrir og upphóf sig yfir lögin. Iðrunarleysi og ofstopafullur hroki þessa ráðherra ásamt gjörðum hennar dæmir hana úr leik í þingræðisþjóðfélagi. Hún verður að taka hatt sinn og staf. Sjálfstæðismenn geta ekki setið með slíku fyrirbrigði í ríkisstjórn. Samkvæmt orðanna hljóðan hjá Umbanum eru ávirðingar Svandísar í þessu máli margfaldar og í raun ósambærilegar við smælkið, sem Umbinn tíndi til á Bjarna Benediktsson í Íslandsbankamálinu, en þar bar Bankasýslan ábyrgð á málsmeðferð og vali bjóðenda og var ætlað að tryggja armslengd ráðuneytanna frá viðskiptunum.
Meðal annarra orða: skyldu heimsspekingar og aðrar slíkar hneykslunarhellur ekki fá drjúgt pláss í RÚV til að tjá sig um siðleysið að þessu sinni ?
Svandís Svavarsdóttir er eins konar síbrotamaður í ráðherraembætti, því að sem umhverfis- og sveitastjórnarráðherra á sinni tíð dæmdi Hæstiréttur hana fyrir lögbrot og valdníðslu gagnvart sveitarstjórn, sem hún átti í deilum við. Þá á eftir að fara fram ítarleg rannsókn á embættisfærslu hennar sem heilbrigðisráðherra, einkum á hinu alræmda Kófsskeiði, frelsissviptingum og alvarlegum afleiðingum síendurtekinnar innsprautunar á mRNA tilraunaefni gegn SARS-CoV-2 veirunni í sínum margbreytilegu myndum.
Á þrettándanum 2024 gaf forsætisráðherra Umbanum og sjálfstæðismönnum langt nef. Áfellisdómur Umbans var mjög þungur (stjórnarskrárbrot, önnur lögbrot og valdníðsla), svo að forsætisráðherra er búin að ómerkja síðari úrskurði Umbans með því að neita að láta ráðherrann sæta ábyrgð í líklega þyngsta áfellisdómi, sem Umbinn hefur kveðið upp fram að þessu. Með þessu hneykslanlega aðgerðarleysi sínu hefur formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) sýnt, hvers konar klíku- og siðspillingarflokksnefna þar er á ferð, þótt siðfræðingarnir þegi nú þunnu hljóði. Formaðurinn hefur jafnframt rekið nagla í líkkistu ríkisstjórnarinnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það eru nokkrir, sem kokgleypt hafa rökleysu ráðherrans í hrokafullri vörn hennar fyrir óréttlætanlegan og ólögmætan gerning með vísun til fagráðs Matvælastofnunar. Það er úr lausu lofti gripið, því að fagráð þetta er ekki stjórrnsýsluaðili með aðild að þessu máli, enda eru allt önnur lög, sem gilda um hvalveiðar. Á þessum lögum hvílir nýtingarheimild á þessum dýrum til Hvals hf. Aðferðarfræðin við útgáfu tímabundinnar atvinnusviptingar var algerlega ótæk og ólögmæt einnig.
Sumir hafa jafnvel véfengt, að atvinnufrelsi ríki á Íslandi og vísað til fiskveiðistjórnunarkerfisins, en það er bæði málefnalegt og lögmætt að takmarka aðgengi að takmarkaðri auðlind í því skyni að nýta auðlindina með sjálfbærum hætti, enda sé takmörkuninni komið á með sanngjörnum og lögmætum hætti. Eins og kunnugt er fengu allir að halda áfram, sem höfðu veiðireynslu undangengin 3 ár. Það er viðurkennd aðferð við að takmarka atvinnufrelsi til að nýta takmarkaða auðlind.
Bjarni Jónsson, 10.1.2024 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.