Orkumálin hér og þar

Ef mannkynið ætlar að losa sig af klafa jarðefnaeldsneytis og alls konar áhættu, sem viðskiptum með það og notkun þess (bruna) fylgir, þá er þörf á meiri endurnýjanlegri orku fljótlega.  Þetta virtust trúðarnir frá 118 löndum á furðuráðstefnunni í Dubai í vetur langflestir vera sammála um, en þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.  Núverandi tæknistig mannsins leyfir þetta ekki, og þess vegna er tómt mál að gaspra, eins og þetta geti stjórnmálamenn einfaldlega ákveðið.  Þetta er ekki hægt að svo komnu, en því fer fjarri, að dómsdægur vofi yfir lífinu á jörðunni þess vegna. 

Áróðurinn um óvenjulega og mikla hlýnun andrúmslofts jarðar er úr lausu lofti gripinn.  Það þarf ekki annað en að hlýða á góða tölfræðinga, sem kunna að beita tölfræðilegri greiningu á langar tímaraðir gagna, til að sannfærast um, að óvenjuleg hlýnun er ekki í gangi, heldur frávik, sem oft hefur orðið áður frá lokum síðustu ísaldar fyrir um 10 k árum.  Ísaldarskeið virðist vera hið venjulega ástand jarðar, svo að rétt er oss á breiddargráðum nærri pólunum "að njóta á meðan á nefinu stendur". 

Trúðarnir á stóra fundinum í Dubai, bæði þeir á náttfötunum og í jakkafötunum, hétu því þar að hafa aukið við uppsett afl virkjana orku endurnýjanlegra orkulinda upp í 11,0 TW (terawött) árið 2030 úr núverandi 3,4 TW eða nálægt 1,1 TW/ár.  Til samanburðar er allt uppsett afl í Bandaríkjunum (BNA) 1,3 TW.  Spyrja má á hverju trúðar eru, sem lofa öðru eins og þessu ? 

Þrátt fyrir metfjárfestingar í búnaði til að framleiða rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum á fyrri hluta árs 2023 á sá iðnaður erfitt uppdráttar um þessar mundir þrátt fyrir gósentíma í lágvaxtaskeiðinu).  Undirbirgjar íhluta vindknúinna rafala hafa átt í vandræðum vegna aukningar á afköstum rafalanna, sem ákveðin hefur verið af sölufyrirtækjunum.  Í nóvember 2023 var Siemens Energy, sem er móðurfélag hönnunar- og samsetningarfélags fyrir vindorkubúnað, bjargað með láni, sem þýzka ríkið gekk í ábyrgð fyrir.  Kostnaðarhækkanir, sumpart vegna hærri vaxta, hafa knúið fyrirtæki á sviði virkjanaframkvæmda fyrir hreinorku til að hætta við verkefni, sem áður voru arðsöm.  Fimm vindrafalaverkefni undan ströndum Bandaríkjanna (BNA) hefur verið hætt við á árinu 2023 vegna 20 % kostnaðarhækkunar.  

Meðaltalsarðsemi vind- og sólarverkefna hefur numið aðeins 6 %/ár á undanförnum árum.  Þetta er ekki nægt aðdráttarafl fyrir þær TriUSD 8, sem þarf til að uppfylla loforð trúðanna á loftslagsráðstefnunni í Dubai í nóvember-desember 2023 um, að uppsett afl hreinorku verði 11 TW árið 2030.  Erlendis er hæggengt samþykktarferli verkefna hindrun, þótt agaleysi embættismanna sé ekki jafnalvarlegt og hérlendis.

  Evrópuþingið reyndi síðari hluta árs 2023 að berja í brestina með þingsályktun um, að virkjanir endurnýjanlegra orkulinda væru "forgangsalmannahagsmunir" ("overriding public interest").  Þetta er þó ekki talið líklegt til árangurs, og Evrópusambandið hefur þegar í gildi kröfu um, að leyfisveitingaferlið taki að hámarki 2 ár.  Vita værukærir og/eða öfugsnúnir íslenzkir embættismenn af þessu ? Tillaga hefur komið um umbætur á leyfisveitingaferli alríkisins í BNA, en samþykkt hennar hefði takmarkaðar afleiðingar, nema ríkin 50 fylgi slíkum umbótum eftir.  Þótt afturhaldið sé óvíða jafnsvæsið og á Íslandi, er víða pottur brotinn, og hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir á sviði orkuskiptanna.  Þau ganga þess vegna á afturfótunum, og stjórnmálamenn þvælast bara fyrir með kjánalegum vinnubrögðum. 

Morgunblaðið hefur fylgzt náið með þróun orkumálanna heima og erlendis og hefur líklega frá stofnun sinni stutt hugmyndir um virkjanir fallvatna og jarðhita, sem til heilla horfðu í landinu.  Blaðið hefur á stundum staðið í mikilli orrahríð við úrtölumenn framfara, t.d. vegna Búrfellsvirkjunar.  Núverandi ritstjórn veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir pólitískt og í embættismannakerfinu.  Um þetta vitnaði forystugrein blaðsins 8. desember 2023 undir fyrirsögninni:

 "Raforkumálin þarf að hugsa út fyrir rammann".

Hún hófst þannig:

"Viðvarandi raforkuskortur hefur verið á Íslandi undanfarin ár, en nú blasir við neyðarástand í orkumálum, og stjórnvöld leggja í fáti á ráðin um orkuskömmtun.  

Það er í flestra huga óskiljanlegt, að í okkar orkuríka landi sé skollin á orkukreppa.  Hitt er þó ekki með minni ólíkindum, að ríkisstjórninni hugkvæmist engin önnur bjargráð en skömmtunarstefna með gamla laginu."

Í hálfa öld frá upphafi umtalsverðrar rafvæðingar á Íslandi var viðvarandi raforkuskortur á Íslandi, sem skrifa mátti á reikning fátæktar og umkomuleysis landsmanna.  Í þessum efnum varð fyrst róttæk breyting með tilkomu Viðreisnarstjórnarinnar, en fyrsti dómsmála- og iðnaðarráðherra hennar var hinn stórhuga og víðsýni stjórnmálamaður dr Bjarni Benediktsson, sem síðar varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.  Á hans könnu voru líka raforkumálin, og hann beitti sér strax fyrir undirbúningi samninga um mikil raforkukaup, sem mundu gera fjárhagslega kleift að ráðast í fyrstu stórvirkjun landsins í jökulfljótinu Þjórsá við Búrfell.  Í ljósi þessarar framsýnu stefnumörkunar  sjálfstæðismanna á sinni tíð er það þyngra en tárum taki, að á vakt Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarið  verið flotið sofandi að feigðarósi í orkumálum landsins. Núverandi orkuráðherra flokksins nær botninum með því að fela embættismönnum skömmtunarvald til að fela vandamálið fyrir almenningi. Sá tilgangur er undirstrikaður með orðaleppinum "umframeftirspurn" í stað orku- og aflskorts. 

Umframeftirspurnin er auðvitað miðuð við stöðnun, sem eru ær og kýr afturhaldsins, en helber vitleysa í landi öflugs hagvaxtar og mikillar fólksfjölgunar.  Hagvöxturinn væri reyndar talsvert meiri, ef hægt hefði verið að verða við áhugaverðri og arðsamri spurn eftir raforku.  Þar liggur hundurinn grafinn: afturhaldið með VG í broddi fylkingar vill hagvöxtinn feigan af nostalgíu og sérvizku einni saman.

"Það er því einkennilegt að lesa í greinargerð frumvarpsins, að Orkustofnun, sem gleggsta yfirsýn á að hafa á orkumál, hafi fyrst orðið áskynja um ástandið, þegar Landsvirkjun sendi henni bréf í október [2023].  Í ljósi annarrar embættisfærslu þar kemur það því miður ekki á óvart." 

Undir núverandi forystu er Orkustofnun afar gagnslítill ráðgjafi um heillavænlega og raunhæfa stefnumörkun , eins og varað var við á þessu vefsetri við ráðningu núverandi Orkumálastjóra.  Það tekur þó steininn úr, að nokkurra ára raforkuskortur í landinu skyldi hafa farið fram hjá henni og hún ekki áttað sig á grafalvarlegri stöðu fyrr en Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, bar sig illa yfir að verða að hafna góðum viðskiptum með raforku. Nú hefur verið ákveðið að sameina Orkustofnun og Umhverfisstofnun, og verður þá niðurlægingin fullkomnuð. 

"Enn skrýtnara er því, að það sé einmitt orkumálastjóri, yfirmaður Orkustofnunar, sem færa á þessi fáheyrðu völd og gera að skömmtunarstjóra orkunnar í landinu.  Enn frekar í ljósi vanhæfis hans vegna margvíslegra umræðna, sem  Samtök iðnaðarins benda á í ítarlegri umsögn sinni. 

Með frumvarpinu á að taka markaðslögmálin úr sambandi, andstætt EES-samninginum, en til þess að fara í kringum það er látið sem lögin eigi að vera tímabundin til tveggja ára. 

 

En ástandið verður engu skárra þá; það verður verra: orkuþörfin mun meiri, en tiltæk orka engu meiri."

 Hingað til hefur Stjórnstöð Landsnets annazt framkvæmd forgangsorkuskömmtunar í neyð.  Það hefur verið gert samkvæmt reglum, sem ekki hefur verið ágreiningur um og njörvaðar eru niður í langtímasamningum stærstu orkunotenda landsins. Ef ríkisvaldið ætlar nú að ganga í bág við þessa samninga, sem sumir eru 55 ára gamlir og hafa staðizt tímans tönn, mun það jafngilda hruni á trausti þessara fjárfesta og annarra svipaðra í garð íslenzka ríkisins og ríkisfyrirtækja á borð við Landsvirkjun.  Það má búast við lögsóknum fyrir samningssvik og jafnvel krröfu um ógildingu þeirra.  Þarna er um að ræða frumhlaup viðvaninga í fílabeinsturni embættismennsku, sem getur orðið þjóðinni dýrkeypt.  Allt er þetta vegna óhæfni Orkumálastjóra við að lesa í aðstæður áður en allt er komið í óefni.  

Hlutur orkuráðherrans er slæmur.  Hann átti að hotta á eftir Orkustofnun um útgáfu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun, strax eftir að lögboðinn frestur var liðinn (í ESB má allt umsóknarferlið með umhverfismati taka mest 2 ár), og þegar fyrri ógilding virkjunarleyfisins kom á grundvelli ófullnægjandi umfjöllunar um "vatnshlot", sem er furðuorð og fáir skilja, að blása til sóknar með sérlögum um Hvammsvirkjun.  Hann skorti þrekið, þótt sjálfhælinn sé.  

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband