23.1.2024 | 18:01
Vilji til verka er allt, sem þarf í orkumálunum
Þann 5. janúar 2024 birtist ein bezta greinin um núverandi raforkuskort, sem sézt hefur í Morgunblaðinu. Höfundurinn er Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri á Eskifirði. Greinin er stutt, en höfundurinn fer ekki í grafgötur um ástæður raforkuskortsins, og, það sem meira er, hann varpar fram trúverðugri kenningu um, hvað þarf til að brjótast út úr þeirri herkví, sem afturhaldinu í landinu hefur tekizt að hlekkja orkumálin í, á sama tíma og allt rekur á reiðanum í loftslagsmálum landsins.
Það þarf kjark, skrifar Jens Garðar, og það er hárrétt hjá honum, en pólitískt kjarkleysi hrjáir einmitt ríkisstjórnin, og ekki er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann barnanna beztur í þeim efnum. Hann mun ekki hafa neitt bein í nefinu til að taka vitræna og framsýna forystu, sem skilar árangri á Alþingi. Þetta varð ljóst, eftir að hann lét Landsvirkjun og Orkustofnun teyma sig til að fela atvinnuveganefnd þingsins að leggja fram haftafrumvarp, sem er vitagagnslaust og stórskaðlegt raforkumarkaðinum, þar sem mylja á undir fílinn í postulínsbúðinni á kostnað minni fyrirtækja, sem þegar eiga undir högg að sækja. Þarna eru músarholuviðmið allsráðandi, þegar vilji og stórhugur eru allt, sem þarf. Þeir eiginleikar voru innanborðs hjá Viðreisnarstjórninni á sinni tíð, sem tók slaginn við afturhald þess tíma og barði Búrfellsvirkjun og viðskiptasamning við fyrsta stóra raforkukaupandann í landinu í gegnum Alþingi á sinni tíð. Það stóð glöggt.
Grein Jens Garðars hófst með þessum hætti:
"Þrátt fyrir að óbeizluð græn orka renni á hverri mínútu til sjávar á Íslandi, er nú yfirlýstur orkuskortur í landinu. Á dögunum var lagt fram frumvarp á Alþingi, sem tryggja átti almenningi og öllum minni og meðalstórum fyrirtækjum raforku.
Embættismanni, skömmtunarstjóra, á vegum ríkisins var falið vald til að ákveða, hverjir fengju rafmagn og hverjir ekki. Frá því var horfið, og eins og frumvarpið lítur út núna, er skömmtunarstjórinn sjálfur ráðherra orkumála."
Það er ljóst, að þessar haftahugmyndir á afhendingu forgangsorku til fyrirtækja með langtímasamninga, falla að hugmyndafræði Landverndar, sem er útibú frá vinstri grænum (VG), um að loka álverum í stað þess að virkja. Með þessu væri brotið á samningsbundnum rétti fyrirtækja til íslenzkrar forgangsorku, hvort sem hún kemur úr vatnsorkuverum, jarðgufuverum eða rafstöðvum kyntum með jarðefnaeldsneyti. Við brot munu vafalaust hefjast málaferli, þar sem ríkisvaldið verður krafið skaðabóta, og álitshnekkir Íslendinga yrði óbætanlegur um langa hríð í hópi fjárfesta og fjármálafyrirtækja erlendis, því að ríkið hefur ekki í tæka tíð gert ráðstafanir til að girða fyrir fyrirsjáanlegt ástand.
Skortur leiðir alltaf til verðhækkana, og þær hækka verðlagsvísitöluna. Stefna VG er þannig verðbólguhvetjandi og vinnur á margvíslegan hátt gegn almannahagsmunum. Þannig er VG ótækur stjórnarflokkur.
Eina ráðið í bölvanlegri stöðu er samt að láta markaðinn, eins og hann er skilgreindur í gildandi orkulögum, vinna sitt verk og draga úr orkunotkun og aflþörf tímabundið, á meðan ný sjálfbær orkuöflun er sett á fullan skrið með lagasetningu.
"Skorturinn er afleiðing þess, að stjórnmálamenn hefur skort kjark og framsýni. Þessa eiginleika tvo verða stjórnmálamenn að hafa, vilji þeir rísa undir þeirri ábyrgð, sem felst í því að tryggja vöxt og verðmætasköpun í samfélaginu. Það er meginundirstaða efnahagslegrar velferðar þjóðar."
Þetta er kjarni málsins. Stjórnmálamenn hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að tryggja forsendur vaxtar og verðmætasköpunar í landinu, sem er sjálfbær raforka.
Nú er mikil umræða í þjóðfélaginu um yfirálag á heilbrigðiskerfinu. Það má heita gjörsamlega ríkisrekið. Menntakerfið er í lamasessi. Það er alveg sama, hvar borið er niður. Það grotnar allt niður í höndum stjórnmálamanna. Það verður að taka mið af því við stefnumörkun, að ríkisrekstur er afleitt rekstrarform.
Þess er skemmst að minnast, að forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar óð fram á völlinn með dylgjum í garð samkeppnisaðilanna um, að þeir seldu orku af almenna markaðinum til fyrirtækja með langtímasamninga. Dylgjur þessa forstjóra voru hraktar, og böndin berast nú einna helzt að fyrirtæki hans sjálfs um eitthvað þessu líkt. Hann ætlaði að klekkja á samkeppnisaðilum fyrirtækis hans með því að sannfæra Alþingismenn um nauðsyn haftabúskapar á raforkusviðinu, þar sem sá stærsti nýtur jafnan forgangs í skömmtunarástandi, t.d. kaupfélögin á sinni tíð, sem þrifust ekki á frjálsum markaði.
"Stjórnmálamönnum hefur tekizt að innleiða flókin og tímafrek regluverk, sem hafa virkað eins og hönd dauðans á alla uppbyggingu. Allar framkvæmdir, vegir, raflínur, virkjanir eða önnur leyfisferli hjá einkageiranum eru föst í ár og jafnvel yfir áratug í feni regluverks og tilskipana. Andstæðingum viðkomandi framkvæmda tekst með endalausum kærum og töfum að tefja eða stoppa nauðsynlegar framkvæmdir. Þetta er sami hópurinn og krefst orkuskipta með grænni orku. Orðið tvískinnungur hefur verið notað af minna tilefni."
Allt of mikil lausatök hafa verið viðhöfð af hálfu þingmanna, sem eru með kostaðar hjálparhellur, við eftirlit með embættismönnum, sem hafa tilhneigingu til blýhúðunar reglugerða og tilskipana, sem gera illt verra. Regluverkið er ónothæft og ber að fleygja á haugana og smíða annað straumlínulaga.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.