19.2.2024 | 09:47
Skaginn til fyrirmyndar
Það er óvenjulegt að sjá vitræna, einróma samþykkt stórs sveitarfélags um málefni, sem tengjast átakalínum í stjórnmálum. Morgunblaðið gerði þó grein fyrir einni slíkri 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:
"Skagamenn óttast raforkuskerðingu til stóriðju".
Til marks um, að ályktun sveitarfélagsins tengist átakalínu í landsmálum er, að drjúgur hluti eins ríkisstjórnarflokkanna gengur um og boðar hverjum, sem heyra vill, þá draumórakenningu útibúsins Landverndar, að hagkvæmt og pólitískt rétt sé að ljúka þeim kafla í íslenzkri viðskiptasögu að selja raforku til orkukræfrar starfsemi á sviði málmvinnslu. Hvernig slík bábilja fær fætur í stjórnmálaflokki, sem býður fram á landsvísu, en mun sennilega ekki hafa erindi sem erfiði í næstu Alþingiskosningum, er óskiljanlegt og efamál, að djúpsálfræðingurinn Sigmund Freud eða núlifandi kollegar hans gætu útskýrt það af viti.
Að þessu sögðu er rétt að snúa sér að hinni gagnmerku frétt Ólafs E. Jóhannessonar:
""Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu raforkumála og þeirri stöðu, sem frekari orkuöflun er í. Staðreyndin er, að þegar eru skerðingar á orku, og skortur á orku er farinn að hafa áhrif á fyrirtæki, sem veita hundruðum íbúa Akraness atvinnu og setur störf þeirra og lífsafkomu í hættu."
Svo segir í ályktun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, sem samþykkt var með atkvæðum allra bæjarfulltrúa á fundi bæjarstjórnarinnar, sem haldinn var s.l. þriðjudag [23.01.2024], en tilefni ályktunarinnar er yfirvofandi raforkuskerðingar til stóriðju, sem boðaðar hafa verið vegna yfirvofandi raforkuskorts í landinu."
Téður raforkuskortur er landshlutabundinn við svæði, sem ekki hafa nógu öfluga tengingu við stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsvirkjun. Þetta á við um athafnastaði á Austurlandi á borð við Vopnafjörð og Höfn í Hornafirði ásamt vesturhluta landsins. Ef Landsnet hefði fengið að hraða uppbyggingu nýrrar Byggðalínu norður um og vestur til Klafa í Hvalfirði, þyrfi ekki að skerða þegar umsamda raforkuafhendingu í vetur, en efir sem áður mundi rafmagn til nýrrar starfsemi vanta. Vinstri hreyfingin grænt framboð og meðreiðarsveinar hennar hafa lagzt þversum gegn þeirri Byggðalínu, sem Landsnet hefur forhannað og telur skynsamlegasta kostinn. Eins og fyrri daginn eru beturvitar legió og hafa allt aðra skoðun á málinu. Hverjum þykir sinn fugl fagur, og beturvitar hlusta ekki á raffræðileg og fjárhagsleg rök. Dyntir þeirra um útlit línunnar og legu hafa fengið óheyrilegt vægi, sem miklum kostnaði og mengun vegna olíubruna hefur valdið.
"Í ályktuninni segir, að um 20 % af heildaratvinnutekjum íbúa Akraness komi [verði] til vegna framleiðslu fyrirtækja á Grundartanga, Norðuráls og Elkem, og skortur á raforku, til lengri eða skemmri tíma, hafi bein áhrif á afkomu íbúa sveitarfélagsins.
Núverandi ástand og horfur geti leitt til tapaðra starfa og minnkandi verðmæta, sem leiða muni af sér samdrátt og lakari lífskjör.
Bæjarstjórnin skorar á stjórnvöld að leita allra leiða til að styðja við frekari orkuöflun og hraða uppbyggingu á virkjunum og endurbótum á flutningskerfi raforku."
Þetta eru orð í tíma töluð og hárrétt hjá bæjarstjórninni. Ástandið er í boði afurhaldsafla, sérvitringa, sem leggjast gegn frekari nýtingu orkulindanna á grundvelli fordildar um, að siðferðilega rangt sé að grípa á nokkurn hátt inn í sköpunarverkið. Þetta er alger þvættingur, enda er þetta fyrirsláttur til að draga dul á það, sem að baki býr. Andstaða þessa sérvitringahóps er raunverulega við hagvöxtinn. Sérvitringarnir vilja draga úr neyzlu almennings, en ekki auka hana, eins og verkalýðsforingjarnir, sem líka lifa í annarlegum heimi og hreykja sér hátt og vilja stjórna Seðlabankanum, sem er að slá á neyzluna til að hægja á verðbólgunni.
Það vekur athygli, að sambærileg bæjarstjórnarsamþykkt hefur ekki sézt að sinni frá Hafnarfirði. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að með manngerðum og skipulögðum orkuskorti eru forsendur brostnar fyrir sölusamningum raforku til stóriðjuveranna. Eigendur þeirra sömdu um að taka á sig orkuskort af náttúrunnar völdum, sem áætlaður var um 10 % af rekstrartímanum, en nú dynja raforkuskerðingar á stóriðjunni á næstum hverju ári og búast má við þeim árlega út þennan áratug.
Ekki nóg með það, heldur vofir nú yfir forgangsorkuskerðing stóriðju í krafti nýrrar lagasetningar. Bæjarstjórn Akraness hefur gert sér grein fyrir alvarleika stöðunnar og segir ríkisstjórninni að hysja upp um sig buxurnar og leggja fyrir Alþingi frumvarp til sérlaga um virkjanir og flutningslínur. Það verður að höggva á hnútinn nú, þegar allt er komið í óefni.
""Í atvinnuteknagreiningu Byggðastofnunar eru um 20 % atvinnutekna íbúa Akraneskaupstaðar vegna framleiðslu án fiskvinnslu, og við vitum, að langstærsti hlutinn af þeirri sneið er vegna starfseminnar á Grundartanga. Þar eru meðallaun góð, en ég ætla ekki að skjóta á neina upphæð, hvað þetta gæti þýtt í töpuðum útsvarstekjum, ef samdráttur verður", segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar í samtali við Morgunblaðið."
Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá landsfeðrum og -mæðrum, því að annars hefðu þau þegar gert raunhæfar ráðstafanir til að leysa viðfangsefnið, sem þegar væru komnar til framkvæmda. Í staðinn kemur orðhengilsháttur frá flokki forsætisráðherrans um, að sýna verði fram á orkuskortinn áður en samþykkt verði, að hefjast handa, og útibúið, Landvernd, leggst gegn öllum úrbótum á þessu sviði, nú síðast Vatnsdalsvirkjun, sem þó má kalla borðleggjandi verkefni fyrir Vestfirðinga til að leysa brýnan orkuvanda Vestfjarða. Orkuráðherra er eins og karlinn í tunglinu, sem horfir hryggum augum á, fer með rullu, en gerir ekkert, sem gefur von um úrbætur á orkuskorti.
Fróðlegt viðtal var við forstjóra Elkem á Íslandi um málið í Morgunblaðinu 09.02.2024. Elkem kaupir ekki ótryggða orku, heldur forgangsorku með einhverjum afslætti gegn samningsbundnum réttindum Landsvirkjunar til að krefjast endurkaupa á hluta orkunnar, sem þá að sjálfsögðu er ekki afhent. Þetta hefur síðan í desember 2023 valdið gríðarlegri framleiðsluskerðingu hjá Elkem á Íslandi með tekjutapi upp á um 1 mrdISK/mán, sem miðað við áætlaðar árstekjur 2024 um mrdISK 25 er tilfinnanlegt og getur hæglega leitt til minni fjárfestinga móðurfélagsins í þessu dótturfélagi og uppsagna starfsmanna.
""Við eigum mjög mikið undir fyrirtækjunum, og mörg þjónustufyrirtæki á svæðinu eiga gríðarlega mikið undir starfsemi fyrirtækjanna á Grundartanga. Á meðan þau eru í skerðingum, erum við að ógna framtíð þeirra og vaxtarmöguleikum þeirra líka", segir Haraldur og bendir á, að raforkuskerðing hafi bæði bein og einnig afleidd áhrif í tilviki þjónustufyrirtækjanna."
Það, sem Haraldur, bæjarstjóri, er að benda á í sambandi við orkukræfu fyrirtækin, er, að þau hafa margfeldisáhrif í þjóðfélaginu, eins og önnur framleiðslufyrirtæki, sem flytja nánast alla framleiðslu sína út á erlenda markaði. Þetta þýðir, að margfalda má starfsmannafjöldann með u.þ.b. 3, þegar finna á út jafngildisfjöldann, og sama á við um fé, sem fyrirtækin nota hér innanlands í annað en launakostnað. Ef þessi fyrirtæki draga saman seglin vegna raforkuskorts, er vá fyrir dyrum og rekstrarhæfni þeirra í húfi. Hafa einhver viðbrögð komið frá iðnaðarráðherranum af þessu tilefni ? Ef þau birtast ekki senn, er iðnaðarráðuneytið orðið nafnið tómt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni
Iðnaðarráðherra er upptekinn við að veita styrki til að þrengja að Reykjavíkurflugvelli.
Orkumálaráðherra starir bara upp í vindinn.
Um vinnumarkaðsráðherra er best að segja sem minnst. Það er viðeigandi.
Þetta er gæfulegt fólk eða hitt þó heldur.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 19.2.2024 kl. 17:27
Margt til í því, en ég er ánægður með dómsmálaráðherrann. Hún kann að vinna, enda kom hún úr einkageira atvinnulífsins.
Bjarni Jónsson, 20.2.2024 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.