10.3.2024 | 18:24
Gregory Yudin heldur áfram greiningu sinni
Gregory Yudin er rússneskur fræðimaður, sem er mjög gagnrýninn á heimsvaldastefnu Rússa, sem heimurinn horfist nú í augu við og sem sumir valdamenn Vesturlanda neita að skilja, hvað merkir. Það háttarlag heitir að stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn gerir, þegar honum þykir að sér sótt. Það er furðulegt háttarlag og heimskulegt í meira lagi af "homo sapiens" að taka það upp eftir strútinum.
Að undanteknu Hvíta-Rússlandi hafa öll fyrri ríki Ráðstjórnarinnar annaðhvort greitt atkvæði með eða setið hjá við fordæmingu Sameinuðu þjóðanna á innrás Rússlands í Úkraínu og farið fram á heimkvaðningu rússneska hersins. Jafnvel æðsti varðhundur Kremlar í Minsk, Alexander Lukashenka, hefur sagt, að "við höfum engan metnað til að berjast í Úkraínu". 85 % Hvít-Rússa eru mótfallnir því, að her þeirra gangi til liðs við Rússa í Úkraínu. Hvít-Rússar hafa í raun komið á fót mannúðaraðstoð í Úkraínu og fyrir úkraínska flóttamenn í Hvíta-Rússlandi.
Innrásin í Úkraínu 24.02.2022 hleypti lífi í þjóðernishreyfingar minnihlutahópa innan rússneska ríkjasambandsins, en gremjan í garð Moskvuvaldsins eða "Muscovy", eins og margir minnihlutahópar kalla það, hefur verið í áratugagerjun, og sumir mundu segja um aldir í gerjun. Pútín hefur fundið, að þrýstingi hans til að mynda heimsveldi út frá Rússlandi hefur verið mætt með jafnstórum krafti í hina áttina: metnaði til að stofna til sjálfstæðra ríkja á meðal þeirra ríkja, sem nú eru í ríkjasambandinu. Sundrung rússneska ríkjasambandsins munu verða heimssöguleg tíðindi ekki síður en upplausn Ráðstjórnarríkjanna.
Síðast þegar Pútín kynnti nýtt herútboð, var stofnuð hreyfingin "Ráð mæðra og eiginkvenna" ("Council of Mothers and Wives"). Ætlunarverkið var samhæfing aðgerða um allt Ríkjasambandið af hálfu aðstandenda hinna herkvöddu, þ.á.m. að þrýsta á yfirvöld að bæta úr skák, svo að menn verði ekki kvaddir ólöglega í herinn eða afhentur bilaður búnaður.
Það var einmitt samblástur mæðra, sem leiddi til falls zarsins 1917. Verkakonur í vefnaðariðnaðinum Vyborg-megin í Pétursborg lýstu yfir verkfalli vegna brauðskorts. Karlarnir sameinuðust þeim og úr varð mikill mannfjöldi á Nevsky, þar sem hrópað var "brauð!" og "niður með zarinn!". Er leið að kvöldi, voru 100.000 verkamenn komnir í verkfall, og það urðu átök við lögreglu.
Allt og sumt, sem zarinn hafði úr að moða til að fást við fjöldamótmæli, voru ungir varaliðar án reynslu af að fást við múg. Reynslulausir herkvaddir án búnaðar ... hljómar kunnuglega. Daginn eftir héldu 150.000 verkamenn út á göturnar. Það var þessi bylting - kvennabyltingin - sem leiddi til falls hinnar ríkjandi Romanov-ættar og opnaði nýja möguleika fyrir framtíð rússneska ríkisins, sem þá átti í stríði við m.a. Þjóðverja.
Núverandi kvennahreyfing í Rússlandi krefst m.a. árstímatakmörkun fyrir herkvaðninguna, eða að hernum verði breytt í atvinnuher. Hreyfingin krefst einnig réttar til þjóðfélagslegra mótmæla og fjöldasamkoma ásamt "þjóðfélagslegu réttlæti og jöfnum réttindum og skyldum þegnanna, einnig til handa herkvöddum."
Þær eru mjög óánæggðar með fréttir af hermönnum, sem meinað hefur verið að yfirgefa herinn, þótt þeir hafi þjónað allan herskyldutímann. "Moscow Telegraph", sem hefur næstum 90.000 áskrifendur, safnaði saman nokkrum viðbrögðum ættmenna hinna herkvöddu á samfélagsmiðlum og skrifaði: "Fjölskyldur hinna herkvöddu spá vopnaðri uppreisn".
"Þeir munu grípa til vopna og gera uppreisn ... maðurinn minn getur ekki lengur liðið þetta", skrifaði einn "Telegram" samfélagsmiðilsnotandi.
Bandalag Rússlands við önnur ríki virðist líka liggja banaleguna. Kínverski viðskiptabankinn Chouzhou hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, að hann sé að binda endi á öll viðskipti við þá vegna greiðsluvandkvæða af völdum vestræns viðskiptabanns. Allir kínversku meginbankarnir hafa að sögn eflt fylgni sína við strangara vestrænt viðskiptabann, sem auglýst var í desember 2023. Flestir kínversku meginbankarnir reka útibú í Bandaríkjunum, sem gerir þá viðkvæma fyrir framfylgd viðskiptabannsins. Kínverjarnir vita líka, að rússneska hagkerfið er að fjara út; rússnesk rúbla er orðin verðminni en 1 USc. Hallarekstur ríkissjóðs er að þurrka upp sparnaðarsjóði ríkisins. Það kemur að greiðsluþroti (ríkisgjaldþroti).
Fundir Pútíns með aðalritaranum Xi, sem mikið veður var gert af í Rússlandi, leiddu ekki til neins, nema kínverskrar innreiðar í Asíuhéruð Ríkjasambandsins Rússlands, sem áður voru hluti Kínaveldis. Rússland er að breytast í pólitískan dverg með hegðun sinni í Úkraínu, og nú berast fregnir af því, að Moskvuvaldið hafi boðið NATO upp á friðarsamninga, þar sem megninu af Úkraínu yrði skipt á milli Rússlands, Póllands, Ungverjalands og Rúmeníu. Veruleikafirringin í Kreml núna er ekki minni en hún var í hinum alræmda "Bunker" í Berlín 1945.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.