Framkvæmdavald setur sig á háan hest

Það er að sumu leyti tímanna tákn, að innlent framkvæmdavald og erlendar stofnanir reyni að segja Alþingi fyrir verkum.  Alþingi virðist hafa sett niður, sem er ekki einsdæmi um þjóðþing, og það er nauðsynlegt að hefja það til vegs og virðingar á ný sem handhafa lagasetningarvalds á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur falið þingmönnum að fara með fyrir sína hönd.  Forsetaframbjóðandinn eini, þ.e. sá eini með erindi, hefur í nokkur ár verið iðinn við að benda á þessa varasömu þróun fyrir lýðræðið í landinu. Hann væri líklegur til að brýna þingið til dáða, næði hann kjöri til Bessastaða.  

Nýlega kom upp alveg sláandi dæmi sem eitt síðasta embættisverk Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu, þótt hún þykist hvergi nærri hafa komið, heldur hafi starfsmenn ráðuneytisins framið afglöpin upp á eigin spýtur, sem er trúlegt eða hitt þó ... .  Morgunblaðið gerði þennan fingurbrjót ráðuneytisins að umfjöllunarefni í forystugrein sinni 12. apríl 2024:

"Framkvæmdavaldið sussar á Alþingi".

"Atvinnuveganefnd Alþingis barst bréf frá matvælaráðuneytinu hinn 8. apríl [2024], þar sem nefndin var harðlega átalin fyrir að hafa breytt frumvarpi um búvörulög á annan hátt en ráðuneytið hafði hugsað sér.  Og Alþingi svo bitið höfuðið af skömminni með því að samþykkja það og afgreiða sem lög frá Alþingi."
 
Þessi ósvífna framkoma framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu er enn einn fingurbrjótur Svandísar Svavarsdóttur, sem enn var ráðherra, þegar bréfið var sent frá ráðuneytinu.  Svandís þorir ekki að kannast við gjörninginn og skýtur sér á bak við 2 lögfræðinga matvælaráðuneytisins, sem undirrituðu bréfið.  Svandís heldur uppteknum hætti og traðkar í salatbeðinu.  Svona gera menn ekki, og það var engin málefnaleg ástæða til að skrifa þetta bréf.  Fyrir því gerir formaður atvinnuveganefndar þingsins, Þórarinn Ingi Pétursson, rækilega grein í Morgunblaðinu 19.04.2024.  Það var einfaldlega nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna, sem leyfa samráð og sameiningu afurðastöðva, út fyrir alifugla og svín. 
 
Þótt matvælaráðuneytið hafi þarna gjörsamlega misskilið stöðu sína gagnvart þinginu, þá ætlar arftakinn, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ekki að leiðrétta þessi mistök með því að draga þetta bréf til baka og biðjast afsökunar fyrir hönd ráðuneytisins.  Það er leitt, en sýnir, að VG er í raun óstjórntækur flokkur, sem virðir leikreglur lýðveldisins um jafnvægi á milli þriggja greina lýðveldisins að vettugi.  Á þessa tilhneigingu innlends og erlends framkvæmdavalds til að valta yfir Alþingi hefur forsetaframbjóðandinn, Arnar Þór Jónsson, margsinnis bent.  Hann mun standa vörð um gildandi stjórnarskrá lýðveldisins með sínum hugsjónum og lagaþekkingu. 
 
Það hefur orðið uppi fótur og fit í þjóðfélaginu vegna laganna um afurðastöðvar, sem Alþingi samþykkti á dögunum, en lætin lýsa vanþekkingu á eðli málsins og því, sem viðgengst á þessu sviði í EES.  Neytendasamtökin, heildsalafélagið, VR og Viðreisn hlupu á sig í þessu máli, því að það er verið að opna fyrir framleiðniaukningu með því að leyfa stöðvunum að stækka, eins og Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, benti rækilega á í góðri grein í Morgunblaðinu 17.04.2024.
 
Áfram með forystugreinina:
"Þetta bréf er ótrúleg nóta, óskammfeilin [ósvífin] og óþolandi umvöndun framkvæmdavaldsins við löggjafann í berhögg við stjórnskipan landsins. 
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hinn nýi matvælaráðherra, hlýtur að draga bréfið til baka og biðja Alþingi afsökunar.  
Ekki vegna efnis laganna - á því má hafa ýmsar skoðanir - heldur vegna hins, að það er ríkisstjórnin, sem situr í friði Alþingis, ekki öfugt.  Ríkisstjórninni, framkvæmdavaldinu, ber að fara að og framkvæma vilja Alþingis.  Það má ekki segja þinginu fyrir verkum.
Nú vill svo til, að bréfið var sent á síðasta degi Svandísar Svavarsdóttur á stóli matvælaráðherra, en þar var henni ekki vært lengur vegna yfirvofandi vantrauststillögu sakir ólögmætrar embættisfærslu.  Og bréfið, það var sent til atvinnuveganefndar, þar sem Bjarkey, arftaki hennar, er meðal nefndarmanna.  Það kemur því í hennar hlut að biðja sjálfa sig afsökunar á oflæti Svandísar !" 
 
Það er alveg makalaust, að einum ráðherranna virðist algerlega umhendis að starfa lögum og almennum siðareglum samkvæmt.  Annars staðar væri fyrir löngu búið að setja henni stólinn fyrir dyrnar, en í umboði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kemst hún upp með hvaða ósóma sem er.  Nú hefur VG tekið ábyrgð á hegðun hennar, því að frú Olsen ætlar að láta sem ekkert sé.  Hún heldur líka áfram biðleiknum gagnvart umsókn Hvals hf um leyfi til tiltekinna hvalveiða í sumar, en ráðuneytið hefur dregið fyrirtækið á svari í um 3 mánuði.  Með þessari ólöglegu stjórnsýslu (stjórnsýslulög) dæmir VG sig úr leik sem óstjórntækan stjórnmálaflokk, þótt honum verði út úr neyð leyft að hanga í stjórnarráðinu enn um hríð. 
 
 
 
 
 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband