Sérvizka Samfylkingar við stjórnun borgarinnar

Ný forysta Samfylkingar reynir að hrista af sér fortíðardraugana og er nú t.d. orðinn virkjanasinnaður stjórnmálaflokkur með tölusett markmið um 5,0 TWh/ár nýja raforku á næstu 10 árum.  Það er u.þ.b. 25 % aukning frá núverandi málgetu virkjana, sem jafngildir 500 GWh/ár árlegri aukningu framleiðslugetu að jafnaði.  Alls ekki slæm byrjun á þessu sviði hjá Samfylkingunni, en mun hún geta myndað ríkisstjórn með þetta í farteskinu ?

Í Reykjavík hefur Samfylkingin haft undirtökin í borgarstjórn í á annan áratug með skelfilegum afleiðingum.  Þar hefur stöðnun tekið völdin, hvar sem niður er borið, m.a. á sviði virkjana.  Borgin blóðmjólkar orkufyrirtæki sitt, OR, með háum arðgreiðslum, svo að lítið bolmagn er til að afla nýrrar orku, enda hefur það ekki verið gert í neinum mæli undanfarinn áratug, og fyrrverandi forstjóri þar á bæ predikaði stefnu Landverndar um orkugnægð. 

Þegar menn virða fyrir sér, hvernig Samfylkingin hagar sér, þar sem hún er í valdaaðstöðu, þá fyllast þeir tortryggni gagnvart boðaðri stefnu Samfylkingar við næstu ríkisstjórnarmyndun.  

Alræmd er stefna Samfylkingar í umferðarmálum borgarinnar.  Í stuttu máli snýst hún ekki um heilbrigðar lausnir á umferðarteppum með hliðsjón af beztu þekkingu erlendis frá litlum, ungum borgum, heldur fávizku amatöra í skipulagsmálum á borð við talsmann Samfylkingar í skipulagsmálum, Holu-Hjálmar, sem hefur haldið þeirri fásinnu að almenningi, að s.k. "induced demand" ylli því, að engin lausn væri fólgin í að greiða úr umferðarteppum með nýjum mannvirkjum á borð við nýjar akreinar eða mislæg gatnamót, því að þau mundu bara fyllast af bílum.  Gallinn við þessi rök Holu-Hjálmars gegn góðum og gildum verkfræðilausnum hér á umferðarteppunum er sá, að lögmálið gildir alls ekki um smáborgir á borð við Höfuðborgarsvæðið á Íslandi, heldur um mjög fjölmennar borgir.  Samfylkingin, sem nú burðast við að búa til af sér nýja ímynd, sem á að vera af ábyrgum og stjórntækum stjórnmálaflokki, ætti áður en lengra er haldið út í fjárhagslegt fúafen borgarlínunnar að kynna sér, hvað gerzt hefur í umferðarmálum á Eugen-svæðinu í Oregon í Bandaríkjunum.  Aðeins þar af 40 bandarískum og kanadískum borgum með íbúafjölda 200-300 k var gert ráð fyrir uppbyggingu 100 km langs hraðvagnakerfis og þreföldun farþegafjölda (eins og hér) með almenningssamgöngum.  Þegar menn sannfærðust um, að þetta væri draumsýn ein, brugðust yfirvöld snöfurmannlega við og stöðvuðu glapræðið og fóru umbótaleið á umferðarmannvirkjum bifreiða. 

Öllu þessu gerir Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 17. apríl 2024:

"Samgönguskipulag lítilla bílaborga".

Hún hófst þannig:

"Sumir fulltrúar samgönguyfirvalda hér á höfuðborgarsvæðinu hafa bæði leynt og ljóst talað gegn bílaborgum og fullyrt, að tilgangslaust sé að fjölga akreinum á höfuðborgarsvæðinu, þær fyllist jafnóðum vegna "induced demand" (ID).  Flestir eru sammála um, að æskilegt sé að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar, m.a. með því að stuðla að breyttum ferðavenjum, en deilt er um leiðir.  Nærtækt er að kanna, hvort draga megi lærdóm af samgönguáætlunum lítilla bílaborga."

 

Fulltrúar Samfylkingar í borgarstjórn hafa misnotað þetta hugtak, "induced demand", annaðhvort vegna vanþekkingar eða til að leiða almenningsálitið á villigötur.  Þeir hafa ofureinfaldað málið og sagt það gildi almennt og þar með um höfuðborgarsvæðið á Íslandi, en svo er alls ekki.  Til þess er það allt of lítið og fámennt.  Grundvöllur Holu-Hjálmars fyrir harðvítugri andstöðu hans gegn öllum raunhæfum framkvæmdum í þágu greiðari og öruggari bílaumferðar hefur einmitt verið þessi falskenning.  Öll rökleysa Samfylkingar í þessum málum er nú hrunin fyrir tilstilli Þórarins Hjaltasonar, umferðarverkfræðings. Þá er óhætt og réttast að skrínleggja rándýrt og stórskaðlegt ofurborgarlínuverkefnið og snúa sér að raunhæfum, gagnlegum og viðráðanlegum verkefnum í staðinn á borð við léttlínuverkefnið, sem er ný akrein hægra megin fyrir strætó, og svo auðvitað mislæg gatnamót og nýjar akreinar.  Þannig fæst verkfræðileg lausn á lélegt umferðarflæði og tugir milljarða ISK sparast. Grein sinni lauk Þórarinn þannig:

 "Fyrirbærið "induced demand", sem hér á landi hefur verið nefnt framboðsstýrð eftirspurn, er þekkt og viðurkennt í samgöngufræðum.  Fyrirbærið er ekki vandamál í litlum bílaborgum.  Það hefur fyrst og fremst þýðingu fyrir samgönguskipulag þéttbyggðra milljónaborga, þar sem hlutur ferða með almenningssamgöngum er hár.  Fullyrðingar sumra ráðamanna um tilgangsleysi nýrra akreina vegna "induced demand" er því hræðsluáróður. 

Það er vítaverð blekking af hálfu samgönguyfirvalda - hvort sem hún er meðvituð eða ekki - að halda því fram, að ID hafi mikla þýðingu fyrir skipulag á höfuðborgarsvæðinu. 

Á borgarsvæðum Phoenix, Houston, Dallas-Fort Worth og Atlanta búa á bilinu 5-7 milljónir manna.  Íbúafjöldinn er að meðaltali 10 sinnum meiri í dag en árið 1950.  Ekta bílaborgir.  Hlutur almenningssamgangna er aðeins á bilinu 2 %-3 %.  Þrátt fyrir að borgirnar séu 20-30 sinnum fjölmennari en höfuðborgarsvæðið, eru umferðartafir þar ekki meiri en hér.  Sú staðreynd afsannar ein og sér þá kenningu sumra, að "induced demand" sé vandamál hér á höfuðborgarsvæðinu."

 Þórarinn Hjaltason er jafnframt búinn að sýna fram á, hversu arfavitlaus stefna Samfylkingar í skipulags- og umferðarmálum í Reykjavík með sínu framkvæmdastoppi á mislæg gatnamót og nýjar akreinar hefur verið.  Reykjavík er bílaborg og bæirnir í kring sömuleiðis vegna ungs þéttbýlis, veðurfars og löngunar íbúa til að búa tiltölulega dreift.  Í forsjárhyggjugrenjum, eins og Samfylkingunni, getur fávíslegum hugmyndum, úr tengslum við sögu og tækniþróun, vaxið fiskur um hrygg.  Nýr formaður Samfylkingar, sem virðist hafa gengið í vitlausan flokk, þegar hún kom út úr bankanum með feitan bónus fyrir lítið, er ekki búin að breyta innmat flokksins, heldur aðeins áferðinni á yfirborðinu.  Hún er búinn að "sminka" flokkinn, svo að hann gangi í augun á kjósendum.  Þeir, sem koma frá hægri til liðs við þennan giftusnauða flokk, munu verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum með vinnubrögð þessa afstyrmislega flokks, komist hann að matarkötlum ríkisins.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Ég verð að láta í ljós hrifningu mína á þessari frábæru skilgreiningu þinni á fáránlegu ástandi umferðar hér í borginni, sem er sannarlega fyrir neðan allar hellur, eins og þú réttilega hæðist að.

Jónatan Karlsson, 1.5.2024 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband