Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvað er "gullhúðun" og hvort er hún góð eða slæm? Er hún alltaf slæm eða getur það verið mismunandi í ólíkum tilfellum hvort hún er góð eða slæm?

Tökum raunhæft dæmi: Ísland hefur innleitt tilskipun um neytendalán sem á að veita neytendum ákveðna lágmarksvernd í viðskiptum við lánveitendur, með því að setja sérstök lög um neytendalán og þau endurspegla í aðalatriðum það sem tilskipunin kveður á um. Tilskipunin segir þó ekkert til um það hversu dýr neytendalán megi vera, þ.e. hún leggur ekkert hámark á vexti eða annan lánskostnað. Aftur á móti kemur fram í tilskipuninni að hverju ríki fyrir sig sé heimilt að setja reglur sem ganga lengra og setja slíkum kostnaði skorður eða hámark.

Vegna vandamála við svokölluð smálán þar sem kostnaður jafngilti þúsundum prósenta ársvaxta, ákvaðu íslensk stjórnvöld að nýta þessa heimild til að setja sérstakt ákvæði í lög um neytendalán um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar (var fyrst 50%+stýrivextir en síðar lækkað í 35%+stýrivextir). Þar sem þetta ákvæði er séríslenskt og gengur lengra í neytendavernd en leiðir af lágmarkskröfum tilskipunarinnar, telst það væntanlega fela í sér "gullhúðun" eins og hugtakið er venjulega skilgreint (eða þannig hef ég a.m.k. skilið þá skilgreiningu).

Nú spyr ég: Er þessi "gullhúðun" góð eða slæm? Hvort er það betra eða verra fyrir íslenska neytendur að njóta verndar með banni við ránlánum? Væri það einhvernveginn betra ef ekki hefði verið gengið lengra en leiðir af lágmarkskröfum tilskipunarinnar og íslenskir neytendur látnir vera berskjaldaðir fyrir ránlánum? Í hvoru tilvikinu væru íslenskir neytendur leiknir grátt?

Leiðréttið mig endilega ef ég er að misskilja eitthvað en þá væri líka gott að fá um leið svör við þessum spurningum.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.6.2024 kl. 17:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég lít ekki svo á, að hugtakið "gullhúðun" gerða ESB við innleiðingu þeirra í íslenzkan rétt, spanni allar breytingar eða frávik frá lágmarkskröfu, heldur sé um að ræða (kostnaðarlega) íþyngjandi frávik frá lágmarkskröfu gerðarinnar fyrir íslenzk fyrirtæki og almenning.  Dæmið, sem tilfært er hér að ofan, fellur þ.a.l. ekki undir hugtakið "gullhúðun" í þeim skilningi. 

Bjarni Jónsson, 1.7.2024 kl. 09:45

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott og vel. Í nýlegri skýrslu fyrir utanríkisráðuneytið var hugtakið skilgreint þannig: "Hugtakið gullhúðun er notað um það þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og setja meira íþyngjandi ákvæði en gerðar eru lágmarkskröfur um í EES-gerðum við innleiðingu."

En gætu lánveitendur þá ekki haldið því fram að það sé "íþyngjandi" fyrir þá að mega ekki innheimta þúsund prósent vexti ef þeim sýnist svo?

Prófum að taka annað dæmi sem var fjallað um í nýlegum pistli Innherja: Gull­húð­un ger­ir ó­verð­tryggð lán með föst­um vöxt­um dýr­ar­i - Innherji

Þar er því haldið fram að það sé "íþyngjandi gullhúðun" að heimild í tilskipun um fasteignalán til neytenda hafi verið nýtt til að setja hámark á það hversu há uppgreiðslugjöld megi innheimta af neytendum þegar þeir greiða upp lán áður en lánstímanum lýkur. En fyrir hvern er það íþyngjandi? Bankann sem má ekki innheimta eins hátt gjald og ella eða neytendur sem eru verndaðir fyrir því að þurfa að greiða eins há gjöld og ella væri hægt að krefja þá um? Mér sýnist það í þessu tilviki fara alveg eftir því hvern þú spyrð og í hvoru hlutverkinu hann er.

Atvinnurekendum sem þurfa að fylgja reglum sem eiga að styrkja rétt og öryggi almennings finnst það oft vera kostnaðarsamur óþarfi. En væri almenningur betur settur í varnarleysi?

Erum við kannski orðin svo gegnsýrð af þjónkun við stórfyrirtækin hér á landi að við erum farin að gleypa við kvörtunum þeirra yfir því að þurfa að spila eftir settum reglum?

Höfum við gleymt afleiðingunum af því þegar allt var keyrt um koll af fólki sem vildi ekki spila eftir settum reglum og hélt því fram sér til varnar að hafa ekkert gert rangt?

Hvort erum við í liði með stórfyrirtækjum sem vilja ná sínu fram sama hvað, eða almenningi sem vill ekki búa við ofríki og óöryggi?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2024 kl. 21:28

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég skil ekki, hvers vegna er verið að kenna allar breytingar á gerðum ESB við innleiðingu í íslenzka lagasafnið við gull.  Mér þykir réttara að kenna aðeins þær, sem hafa fjárhagslegar afleiðingar til hins verra fyrir fyrirtæki eða almenning í landinu við þann dýra eðalmálm.  Yfirleitt er um að ræða innlendar breytingar á gerðunum, sem eru íþyngjandi fyrir landsmenn, fjárhagslega íþyngjandi.  Okurlánastarfsemi er mjög íþyngjandi fyrir þá, sem lenda í klónum á okurlánafyrirtækjum og ná fjárhagsbyrðarnar oft til fleiri en þeirra. Þess vegna þætti mér ekki rétt að kenna breytingar, sem miða að því að létta byrðarnar, við gullhúðun.  Gullhúðun er neikvætt hugtak, enda vilja sumir nota orðið blýhúðun um þetta fyrirbæri.   

Bjarni Jónsson, 3.7.2024 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband