8.7.2008 | 21:13
Blóraböggull efnahagsþrenginga
Tekið er að sverfa að og blóraböggullinn var auðfundinn. Meðfylgjandi graf er notað til að sýna fram á, að íslenzka krónan er þó ekki orsakavaldur, heldur er gengi hennar háð öðrum hagstærðum. Þegar ódýrt lánsfé var ekki lengur fáanlegt á fjármálamörkuðum heimsins, færðu spákaupmenn fé sitt til, og þá kom í ljós sterkasti krafturinn, sem virkar á gengi gjaldmiðla til langframa og við þrengingar. Það er viðskiptajöfnuður landanna. Bláa línan á myndinni sýnir meðalsamband viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga. Athugull lesandi sér strax ("den observante læser innser umiddelbart", eins og stóð í kennslubókunum), að að unnt er að draga nokkurn veginn beina línu frá stöðu Íslands, um Suður-Afríku, Bretland og til Japans. Þetta þýðir, að gengi íslenzku krónunnar er háð viðskiptajöfnuði í sama mæli og gengi téðra landa. Með öðrum orðum stafar hið mikla gengisfall íslenzku krónunnar af viðskiptahalla, sem á ekki sinn líka. Hið mikla gengisfall krónunnar stafar af lögmáli um tengsl viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga, en krónan er ekki í neins konar fríu falli sem haldlaus gjaldmiðill, eins og látið hefur verið í veðri vaka. Afhjúpun þessarar staðreyndar, sem meðfylgjandi graf ber órækan vott um, opinberar jafnframt, að landsmenn geta sjálfir stjórnað genginu, og gengið þarf ekki að vera sveiflukennt. Það, sem þarf að gera, er að ná jákvæðum viðskiptajöfnuði. Við sjáum af myndinni, að í öllum löndum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við útlönd hefur gengið styrkzt á undanförnu hálfa ári. Það er ekkert land staðsett í 4. fjórðungi (að neðan hægra megin). Ef það hefði gerzt hjá okkur, hefði verðbólgan orðið mun minni en ella og efnahagslægðin grynnri.
Ályktunin, sem af þessu má draga, er sú, að náum við Íslendingar jákvæðum viðskiptajöfnuði, þá verður ekki hætta á gengisfalli, þó að á móti blási, eins og núna. Með öðrum orðum er jákvæður viðskiptajöfnuður trygging fyrir stöðugleika. Það er þess vegna eftir gríðarlega miklu að slæðast.
Núverandi gengisfall krónunnar ásamt gríðarlegum hækkunum á verði eldsneytis, hrávörum og matvælum á alþjóðlegum mörkuðum hafa valdið mikilli verðbólgu á Íslandi. Við verðum að ná henni niður fyrir markmið Seðlabanka Íslands til að verða samkeppnihæf við önnur lönd. Það verður mikil þrautaganga. Falsspámenn hafa haldið því að þjóðinni, að auðveldasta lausnin á vanda hennar sé að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru. Að uppfylla öll fimm skilyrði Maastricht sáttmálans varðandi evrópska myntsamstarfið er mjög erfitt og mundi kosta miklar fórnir almennings.
Markmið þessarar vefgreinar var að sýna fram á, að Íslendingum standa aðrir, nærtækari og miklu betri kostir til boða til að ná efnahagsstöðugleika en að ganga í ESB og fórna fullveldi Alþingis og Seðlabanka og verða þannig leiksoppar ráðamanna í útlöndum að nýju.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Já mikið gott hjá þér Bjarni
og þennan halla leysum við með auknum áherslum á skoðanaferðir um náttúru Íslands í gegnum sjónvarp og internet. Því hvergi má stíga niður fæti lengur. Sem sagt, ekki bora ofaní jörðina, heldur bora í nefið, og ekki fara úr sófanum.
En ef það er eittvað sem ég held að Íslendingar þoli afskaplega illa til lengri tíma litið, að þá er það einmitt stöðugleiki. Það er hlutur sem flestir á Íslendingar tengja við leiðindi, stöðnun og láááá-dauða :)
Ég held að við séum og verðum alltaf að minnsta kosti 300.000 snillingar í spákaupmennsku:). Þetta skilja mjög fáir í útttlandinu. En það sakar samt kanski ekki að reyna stöðug-leika Íslendinga.
Bestu kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 9.7.2008 kl. 17:26
sæll nafni - fróðlegt innlegg í umræðuna. styður það að vitleysan sem við gerðum var að halda verðbólgu niðri með stýrivöxtum sem gerðu það eitt að halda genginu uppi - sem var í raun að sópa verðbólgu undir teppið og stuðla hér að mesta sukki sem hugsast gat í verslun á niðurgreiddum innfluttum varningi og erlendum hlutabréfum. þær niðurgreiðslur voru greiddar af útflutningsatvinnuvegunum og í reynd tilræði við íslenskt hagkerfi.
Bjarni Harðarson, 12.7.2008 kl. 10:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.