Að traðka í salatinu

Nú hefur Samfylkingin látið í ljós, hvernig hún telur brýnast að leysa úr aðsteðjandi vandamálum íslenzks samfélags.  Annars vegar ætlar hún að þvælast fyrir erlendum fjárfestingum, er horfa til eflingar útflutningsiðnaðar landsmanna, í lengstu lög, og hins vegar rær hún öllum árum að útgáfu yfirlýsingar stjórnvalda um, að þau stefni að inngöngu landsins í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evru.  Þetta á að verða allra meina bót, en er einber flótti frá viðfangsefnunum.  Flokkurinn skilar í raun auðu, þegar úrlausnir eru annars vegar.  Hann er gagnslaus, þegar á reynir.

Það er með eindæmum að horfa upp á, hversu djúpt einn stjórnmálaflokkur getur sokkið.  Forsætisráðherra hefur lýst Bakka-úrskurði umhverfisráðherra sem óþörfum.  Það eru orð að sönnu, því að Skipulagsstofnun ríkisins hafði á sínum faglegu forsendum metið það svo, að hvert áform um framkvæmd tengt nýju álveri á Bakka við Húsavík mætti og ætti að fara í sjálfstætt, lögformlegt umhverfismat.  Gjörningur ráðherra er þess vegna klárlega stjórnmálalegs eðlis.  Ráðherrann er nógu ábyrgðarlaus til að lýsa því yfir, að úrskurður ráðuneytisins þurfi aðeins að hafa í för með sér nokkurra vikna seinkun á undirbúningsferlinu.  Samt er enn enga leiðsögn að fá frá umhverfisráðuneytinu um það, hvernig standa skuli að "heildstæðu umhverfismati".  Undirbúningur af þessu tagi er viðkvæmt ferli, og fái fjárfestir nasaþef af því, að stjórnvöld leggi stein í götu undirbúningsins, er hætta á því, að hann missi áhugann og snúi sér annað.  Það er nóg af óvirkjaðri endurnýjanlegri orku í heiminum.   

Það er önnur alvarleg hlið á þessu máli.  Hún er stjórnsýslulegs eðlis.  Að hálfu ráðuneytisins er tveimur fyrirtækjum mismunað með skömmu millibili.  Það er brot gegn atvinnurétti, sem væntanlega verður ekki við unað.  Ráðherra, sem starfar í umboði þingflokks Samfylkingar, hefur gerzt sekur um afar óvandaða stjórnsýslu, sem þar að auki sætir miklum stjórnmálalegum ágreiningi á Alþingi.  Þessi úrskurður mun þess vegna draga alvarlegan dilk á eftir sér.

Hin leiðin, sem Samfylkingin hefur valið sér, er einstefnugata til Brussel.  Valið á milli evru og krónu snýst um val á milli viðvarandi atvinnuleysis annars vegar og hás atvinnustigs í landinu hins vegar.  Ástæðan er sú, að Evrópubankinn í Frankfurt leggur meiri áherzlu á baráttu við verðbólgu en flestir seðlabankar í heiminum.  Þetta styrkir evruna á kostnað annarra mynta, og gerir útflutningsatvinnuvegum evrusvæðisins erfitt fyrir.  Líklegt er í ljósi sögunnar, að verðbólga á Íslandi yrði tíðum hærri en að jafnaði innan evrusvæðisins þrátt fyrir upptöku evru.  Þetta mundi gera íslenzkum útflytjendum til evrusvæðisins mjög erfitt fyrir.  Öll þessi þróun mundi fyrirsjáanlega draga úr hagvexti og þar með velmegun á Íslandi. 

Efnahagsþróun á evru svæði

 

Myndin "Going south", sem birt er með þessari vefgrein, sýnir þróun spurnar eftir vörum og þjónustu í 4 evrulöndum, Þýzkalandi, Ítalíu, Frakklandi og Spáni.  Gröfin gefa til kynna, að öll löndin 4 stefni hraðbyri inn í kreppu.  Því er spáð, að vegna hárra raunvaxta á svæðinu verði kreppan þar erfiðari og langvinnari en annars staðar á Vesturlöndum. 

Lausn okkar Íslendinga í bráð og lengd er að auka útflutningstekjur okkar svo mikið, að viðskiptajöfnuður við útlönd nemi a.m.k. 10 % af landsframleiðslu.  Það mun hafa mjög góð stöðugleikaáhrif á íslenzku krónuna, eins og sýnt var fram á í næstu vefgrein á undan hér á vefsetrinu.  Svissneski frankinn er gott dæmi um þetta, en fjármálageirinn er snar þáttur svissneska hagkerfisins, eins og hann er í hinu íslenzka. 

Fyrirsögn þessarar greinar er þýðing á norsku orðtæki "å tråkke i salaten¨, sem merkir að verða á fingurbrjótur.  Engu er líkara en Samfylkingin sé nú komin í sjálfseyðingarham; hafi ekki villzt inn í matjurtagarðinn, heldur ætli sér að vera þar og eyðileggja uppskeruna.  Þessi stefna er allt of áhættusöm fyrir hag heimilanna í landinu til að almenningur geti léð henni eyra.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband