Stefnt að Bandaríkjum Evrópu ?

Nigel Farage - formaður UK IPFormaður Sjálfstæðisflokks Bretlands (The UK Independence Party), Nigel Farage, sjá mynd, sótti okkur Íslendinga heim í viku 34/2008 og hélt fyrirlestur á vegum Heimssýnar fimmtudaginn 21. ágúst. 

Einkennilega hljótt hefur verið um þessa heimsókn.  Hér fer þó einn bezti ræðumaður Evrópu.  Hann er fljúgandi mælskur og hafsjór af fróðleik um Evrópusambandið (ESB) eftir 10 ára setu á Evrópuþinginu.  Varnaðarorð hans vega þess vegna þungt.  Nigel Farage bendir á, að allir gjörningar ESB virðast stefna að einu markmiði; að mynda sambandsríki Evrópu, stórveldi á viðskipta-og stjórnmálasviði og jafnvel hernaðarsviði einnig.  Hið síðast nefnda er þó hæpið, að ESB muni hafa nokkra burði til vegna aldurssamsetningar (öldrunar) íbúanna og skorts á auðlindum.  Hið hættulega við þetta, bendir Nigel Farage á, er lýðræðishallinn á ESB, hin ólýðræðislega uppbygging sambandsins og risastóra embættisveldi þess, sem skiptir tugum þúsunda.

 

Nigel Farage er þeirrar skoðunar, að það væri glapræði af Íslendingum að ganga í ESB.  Við það mundum við lokast inni í "Festung Europa", glata samningsrétti við önnur ríki um hagsmunamál okkar og fullveldi yfir auðlindum okkar.  Hann bendir á brezkan sjávarútveg sem víti til varnaðar, en hann er nú rjúkandi rúst. 

Allmargir hérlendis eru haldnir þeirri grillu, að upptaka evru sé ávísun á stöðugleika.  Staðreyndir eru nú farnar að tala sínu máli um annað.  Írar, Spánverjar og Frakkar urðu fyrir bólgnun húsnæðismarkaðar, sem var jafnvel meiri en í Bandaríkjunum og er nú að springa í andlitið á þessum þjóðum.  Hagvöxtur þessara þjóða, sem og Þýzkalands, Ítalíu og fleiri þjóða evrulands, er að stöðvast, og ekkert annað en djúp og langvinn efnahagskreppa blasir við þessum þjóðum.  Evrópubankinn hækkaði vextina í júlí síðastliðnum til að berja verðbólguna niður.  Ástandið víða í evrulandi er nú þannig, að atvinnuleysið vex hróðum skrefum, og verðbólgan líka.  Á Spáni og á Ítaliu er víxlverkun kaupgjalds og verðlags að gera út af við atvinnulífið.  Þjóðirnar í evrulandi hafa kastað árunum fyrir borð, svo að notað sé líkingamál Nigel Farage, og geta ekkert annað gert en að ausa á bæði borð á meðan skekturnar rekur upp í brimgarðinn við klettótta strönd.  Myndin hér á síðunni, "Big four, below two", varpar ljósi á hagþróun stærstu efnahagskerfa evrulands síðast liðin 3-4 ár.  Öll þessi ríki stefna nú undir núlllínuna í þróun vergrar landsframleiðslu á ársgrundvelli.  Það er satt að segja leitun að jafnslakri frammistöðu nokkurs efnahagskerfis í heiminum og þessari.  Það er þess vegna alger bábilja að halda því fram, að gjaldmiðilsskipti séu trygging fyrir stöðugleika.  Þau gætu orðið okkur trygging fyrir stöðugleika á botninum, en það getur engan veginn verið okkur keppikefli.  Markmið almennilegrar efnahagsstefnu er að hámarka hagvöxtinn til langs tíma litið.  Slíkt yrði algerlega vonlaust hérlendis, ef Alþingi mundi kasta árunum fyrir borð. 

Það er hægt að fara ýmsar leiðir að því að mynda sér skoðun á ESB.  Ein er að lesa sér til um fyrirbrigðið.  Hér er hægt að mæla með einni bók í þessu augnamiði.  Hún heitir: "Guide to the European Union", "The definitive guide to all aspects of the EU", níunda útgáfa eftir Dick Leonard.  Aðalútgefandi er "The Economist".  Það er þó ekki síður mikilvægt að fylgjast með þróuninni og sjá, hvernig mismunandi hagkerfum reiðir af í meðvindi og í mótvindi.  Engar nauðir reka okkur upp í fang ESB.

Hagþróun innan ESB 2005-2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband