13.9.2008 | 13:49
"Mannah" af himnum ofan
Ráðherrar Samfylkingarinnar dansa um sviðið í nýju fötunum keisarans. Þeir boða engar hugmyndir um lausnir á vandanum, sem nú blasir við þjóðinni. Iðnaðarráðherra blaðrar um málefni 5-25 ár inni í framtíðinni, s.s. olíuvinnslu á Drekasvæði, rafmagnsbíla eða lífrænt eldsneyti. Tvennt hið síðar nefnda verður ekki séð, að þurfi atbeina ríkisvaldsins, heldur muni markaðurinn verða einfær um þá þróun. Allt er þetta til að drepa málum á dreif og leiða athygli almennings frá aðgerðarleysi hans í auðlindanýtingunni, sem tekin er að leggjast eins og mara á efnahagskerfið. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Umhverfisráðherra varð nýlega ber að naumhyggju, sem ekki á sér sinn líka í sögu Stjórnarráðsins. Hún lýsti því blákalt yfir, að nóg væri komið af virkjunum í landinu og miðlunarlónum. Þetta var hortugt svar ráðherrans við beiðni Landsvirkjunar um, að Bjallavirkjun yrði tekin inn í svo nefnda "Rammaáætlun". Verður ekki annað séð en þessi ráðherra hafi með þessu frumhlaupi dæmt sig úr leik og gert sig vanhæfa um alla úrskurði um virkjanir. Umhverfisráðherra beit síðan höfuðið af skömminni með því að fara niðrandi orðum um "þrjátíu ára gamla hugmynd" Landsvirkjunar. Opinberaði ráðherra fáfræði sína og skilningsleysi á viðfangsefninu með því að gera því skóna, að Landsvirkjun hlyti að beita 30 ára gömlum aðferðum við virkjunarframkvæmdir við Bjalla. Þá virtist ráðherra ekki gera sér neina grein fyrir gríðarlegri hagkvæmni þessarar virkjunar, sem felst í aukinni nýtingu virkjunarmannvirkja í Tungnaá og Þjórsá vegna vatnsmiðlunarinnar. Þess vegna er miðlunarlónið tiltölulega stórt miðað við uppsett afl í virkjun.
Það er grundvallar atriði við mat á virkjunarkostum, að vegnir séu og metnir kostir og gallar þeirra. Haldgóð aðferðarfræði er fyrir hendi til að reikna arðsemi virkjana, en þegar að því kemur að reikna út ávinninginn af því að fara ekki í virkjunina, vandast málið á Íslandi. Enginn þarf hérlendis að flytjast burt, af því að lóð hans eða nýtjaland fari á kaf, eins og algengt er erlendis, og er stærsti ásteytingarsteinn vatnsaflsvirkjana í heiminum. Áhrifin á ferðamennsku um viðkomandi svæði eru þau, að hún glæðist. Þeir eru fleiri, sem sjá sér fært að kanna ókunna stigu á virkjunarsvæðum en hinir, sem fælast frá. Þetta hefur alls staðar gerzt. Erlendis er það haft gegn miðlunarlónum, að þau kæfi mikinn gróður, og rotnandi jurtaleifar myndi metangas, sem er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en koltvíildi. Á Íslandi er megnið af landinu, sem undir miðlunarlón hefur farið, gróðurvana. Ýmislegt hefur verið tínt til hérlendis gegn vatnsaflsvirkjunum, en sammerkt öllum þeim andróðri er, að þar hefur skrattinn verið málaður á vegginn. Annaðhvort hefur þar vanþekking og fáfræði riðið húsum, eða fordómafullir og forhertir andstæðingar alþjóðlegra stórfyrirtækja hafa átt hlut að máli.
Þess vegna má segja, að andstaðan við vatnsaflsvirkjanir hérlendis sé innflutt, og breytist í hégilju við innflutninginn. Andstæðingar virkjana, einkum vatnsafls, koma aðallega af vinnustöðum hins opinbera, eða þeir eru styrkþegar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það er fyrir þetta fólk, sem Samfylkingin dansar um sviðið í nýju fötunum keisarans.
Þann 6. september 2008 birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu undir eftirfarandi fyrirsögn: "Átelja seinagang stjórnvalda". Þar var sagt frá áfalli, sem framtíðar efnahagur almennings á Íslandi varð fyrir, er hið virta norska fyrirtæki, REC Group", gafst upp á íslenzkri stjórnsýslu og fór til Kanada með sín fjárfestingaráform. Þetta fyrirtæki nýtur virðingar í Noregi fyrir framsækna stefnu sína og góðan árangur á sviði tækni og umhverfismála. Þeir ráða við allt framleiðsluferli sólarrafhlöðunnar að meðtalinni hráefnisvinnslunni. Það er samdóma skoðun þeirra, er til þekkja, að íslenzkt atvinnulíf hafi orðið af miklum tekjum, tækni- og markaðsþekkingu, þegar REC Group hrökklaðist af landi brott.
Hvaða stjórnvöld skyldu hér hafa um vélað, nema þeir tveir ráðherrar, ráðuneyti þeirra og stofnanir, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni ? Samfylkingin dregur lappirnar og þvælist fyrir hverju þjóðþrifa málinu á fætur öðru. Á sama tíma og forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir skorinort, að leiðin út úr efnahagsvandanum sé að framleiða, framleiða og framleiða meira til útflutnings, þá gegna ráðherrar Samfylkingar kalli afturhaldsins í landinu og virðast einvörðungu bíða eftir "mannah af himnum ofan".
Í tilvitnaðri forsíðufrétt gat m.a. að líta eftirfarandi: "Norska hátæknifyrirtækið REC Group, sem hafði áhuga á að reisa sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn, segir að langt umhverfismatsferli og óvissa um tímalengd, óviss orka í framhaldsáfanga og hærri fjárfestingarkostnaður hérlendis hafi ráðið mestu um að ákveðið var að taka Kanada fram yfir Ísland. Í rökstuðningi REC segir að umhverfismatsferlið taki hér of langan tíma og geti hugsanlega tekið lengri tíma þar sem einstakir umsagnaraðilar virðist geta farið fram yfir lögboðinn umsagnarfrest átölulaust."
Þessi umsögn virts og eftirsótts fjárfestis er mjög harður áfellisdómur yfir íslenzkri stjórnsýslu. Hverjir skyldu nú sitja þar á fleti fyrir ? Þar tróna þeir tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, æðstu menn iðnvæðingar og umhverfisverndar innan stjórnsýslunnar. Samfylkingin virðist alls staðar leggja lamandi hönd á stjórnsýsluna, þar sem hún kemst til valda. Hið sama var t.d. uppi á teninginum í Reykjavíkurborg, og eru borgarbúar enn ekki búnir að bíta úr nálinni með það, þó að björgulegar horfi þar nú um stundir en áður. Þessi sami stjórnmálaflokkur hefur enda það á stefnuskrá sinni að flytja hluta af stjórnsýslunni frá Reykjavík til að geta sleikt þröskulda Brusselveldisins og 80 þúsund manna skrifræðisbákns þess. Er kyn, þó að keraldið leki ?
Íslendingum hefur hlotnazt "Mannah af himnum" í vöggugjöf, þar sem eru fallvötnin og jarðhitinn. Það er síðan undir gæfu þeirra sjálfra komið, hvernig þeim tekst að nýta þá himnasendingu, sem eilíf og umhverfisvæn orka er. Nýtingarmenn geta enn leitað í smiðju frumkvöðla sjálfstæðisbaráttunnar og fléttað boðskap þeirra við beztu tækni nútímans til að skapa hér hið mesta hagsældarsamfélag í fjölbreytilegu og heilnæmu náttúrulegu umhverfi.
Til að gefa lesendum kost á að virða fyrir sér náttúrulegt umhverfi til hugarhægðar eftir lesturinn er Grænlandssyrpa Svisslendingsins Ursulu Riesen birt undir tengli hér að neðan, í þetta skipti með enskum texta. Fyrir fáeinum árum aðstoðaði ég Ursulu þessa lítillega, þegar hún kom hingað til lands í því skyni að fara í hjólreiðaferð um landið. Er hún mikill náttúruunnandi, og hefur hún komið hingað nokkrum sinnum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.