21.11.2008 | 22:42
Afhjúpunin
Mörgum hefur blöskrað, hvernig annar ríkisstjórnarflokkanna og ýmsir háskólakennarar hafa lagt formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands í einelti undanfarnar vikur. Þessum aðilum ber þó helzt að gæta sín á forarvilpunum. Aurinn hefur staðið af þeim og orðbragðið verið sem hjá ódámum. Gagnrýni þessara aðila á seðlabankann hefur vægast sagt verið ómálefnaleg og gjörsamlega ósamboðin stjórnarflokki og háskólasamfélaginu. Hefur báða þessa aðila sett illilega niður fyrir vikið. Ekki er tækt að ganga til kosninga hérlendis fyrr en sannleikurinn hefur verið leiddur í ljós og mat lagt á tjón það, sem óábyrgur málflutningur þeirra hefur valdið á ögurstundu í sögu þjóðarinnar.
Nú gerðist það þriðjudagsmorguninn 18. nóvember 2008, að seðlabankastjóri barði frá sér með ræðu hjá Viðskiptaráði Íslands. Er ræðan í heild birt undir tengli hér til hægri. Þar voru orð í tíma töluð. Rakti seðlabankastjóri, hvernig hann þegar á árinu 2007 varaði ríkisstjórnina við ósköpunum með orðum, sem tóku af öll tvímæli um, að til gagnráðstafana yrði tafarlaust að grípa til að draga áhættuna niður að ásættanlegum mörkum.
Hið sama mátti segja um opinberar aðvaranir í ræðu og riti að hálfu seðlabankastjóranna að svo miklu leyti, sem þeir töldu hægt að tjá sig án þess að framkalla áhlaup á bankana. Voru bankamálayfirvöld landsins, sem valdið höfðu til inngripa, með öll skilningarvit lokuð, eða voru þau haldin ákvarðanafælni og aðgerðalömun ?
Viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins hafði á sinni tíð farið að fordæmi Gordons Browns, þáverandi fjármálaráðherra Stóra-Bretlands. Um leið og seðlabankinn fékk aukið sjálfstæði um stjórnun peningamálanna, voru rifnar úr honum tennurnar og þær fluttar í Fjármálaeftirlitið, FME. Valdið til að rannsaka innviði bankanna og hafa á þeim taumhald, lá ónotað hjá FME, sem aldrei virðist hafa náð þeim þroska að taka tennur.
Áróður flokksforystu Samfylkingar á hendur seðlabankanum hefur verið sóðalegur. Hvernig bregzt formaður hennar við, þegar flett er að nokkru ofan af aðgerðaleysi bankamálaráðherrans, þó að meiri afhjúpanir séu boðaðar ? Hún hleypur undir eins út undan sér og kveður störf Davíðs Oddssonar í seðlabankanum aldrei hafa verið gagnrýnd, heldur hafi trúverðugleikinn vegna stjórnmálaferils hans meir verið dreginn í efa. Hvers konar kattarþvottur er þetta ? Maðurinn fór með stjórnun efnahagsmála landsins í hálfan annan áratug og stjórnaði landinu á mesta uppgangsskeiði í sögu þess.
Halda menn, að gjammandi "Besserwisserar" úr háskólasamfélaginu hér, sem ekki er vitað til, að hafi opinberlega séð fyrir hörmungarnar, öfugt við ýmsa hagspekinga og fræðimenn erlendis, væru með bein í nefinu, sem þarf til að stjórna Seðlabanka Íslands í kreppu ? Þar duga engar heybrækur við stjórnvölinn nú um stundir.
Ef kalla á einhvern stjórnmálaflokk til ábyrgðar fyrir það, sem gerzt hefur, er það framar öðrum Samfylkingin. Bankamálaráðherrann starfar á hennar ábyrgð, formaður FME, mætur maður, starfar á hennar ábyrgð. Þessir menn ásamt forstjóra FME voru í þeim opinberu stöðum, þar sem gæta átti hagsmuna þjóðarinnar gagnvart fjármálakerfinu. Þeim var oftsinnis bent á hættuna að hálfu Seðlabanka Íslands, sem var með skýra áhættugreiningu, eins og honum bar, en þeir flutu sofandi að feigðarósi, þó að löggjafinn hafi fengið þeim nauðsynleg tæki til gagnráðstafana. Meiri afhjúpanir munu eiga sér stað, boðaði formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í téðri tímamótaræðu um atburði, sem mjög hafa gengið nærri tilvist lýðveldisins.
Téðum háskólakennurum hefur orðið tíðrætt um "nauðsyn" þess að taka upp evruna. Minna hefur farið fyrir djúpstæðum rökum, en þeim mun meira farið fyrir almennu orðagjálfri. Ekki er t.d. vitað til, að þeir hafi sett þjóðarbúskapinn upp í tölvulíkan til að bera saman hagvöxt yfir t.d. 20 ára tímabil með krónu annars vegar og evru hins vegar, hvað þá bandaríkjadal. Nú vill svo til, að 18. nóvember 2008 birti Martin nokkur Wolf, grein í Financial Times, þar sem hann rakti skilmerkilega, hvers vegna Bretar ættu að varðveita sitt pund og láta evruna sigla sinn sjó. Þó að mikill munur sé á efnahagskerfum Stóra-Bretlands og Íslands, dregur það ekki úr trúverðugleika málflutnings evru-efasemdarmanna, að rök Martins Wolfs eru hin sömu og hinna fyrr nefndu. Verður upphaf og endir greinarinnar þýtt hér á eftir, en hana er jafnframt hægt að sækja í heild sinni undir tengli hér á vefsetrinu:
"Er komið að því fyrir Breta að kyngja stolti sínu, játa mistök sín og leggjast fram á lappir sínar gagnvart evrulandi ? Æ fleiri halda þessu fram. Þeir hafa rangt fyrir sér.
Ástæða þess, að rétt er að hafa fljótandi gjaldmiðil, er, að gengi efnahagskerfa er breytilegt. Í heimi óvissu þarfnast efnahagskerfi aðlögunarmöguleika. Gengi gjaldmiðils er öflugasta tækið til þess. Aðeins óvenjulega sveigjanleg eða óvenjulega opin efnahagskerfi ráða við mikil áföll án nokkurs gengissveigjanleika.
Stóra-Bretland þjáist nú mjög (og í mismiklum mæli) undan sex miklum áföllum:
Í fyrsta lagi verða Bretar nú vitni að mjög hröðu verðfalli húseigna, sem virðist líklegt til að halda lengi áfram.
Í öðru lagi eru heimilin afar skuldsett. Samkvæmt framkvæmdastjórn ESB eru aðeins Danir og Írar skuldsettari í hlutfalli við brúttó tekjur heimilanna innan ESB, en Spánverjar, Portúgalir og Svíar koma fast á hæla Breta.
Í þriðja lagi hefur lánsfjárkreppan skaðað fjármálageirann og þar með dregið stórlega úr framboði lánsfjár.
Í fjórða lagi reiðir Stóra-Bretland sig mjög á fjármálageirann, sem nú skreppur saman, til að bjóða fram vel launuð störf.
Í fimmta lagi reiddi Stóra-Bretland sig einnig á fjármagnsaðgerðir til að fjármagna viðskiptahalla, sem nam 6,4 % af VLF 2007. Með mun hærri tekjum af erlendum eignum en greiðslum af erlendum skuldum nam, leit Stóra-Bretland jafnvel út sem einn risastór vogunarsjóður.
Að lokum hefur Stóra-Bretland breytzt úr stórútflytjanda á olíu og gasi í stórinnflytjanda. Á þessum áratugi hefur breyting viðskiptajafnaðar að þessu leyti numið u.þ.b. 1 % af VLF.
Með hliðsjón af þessari slæmu stöðu kemst Stóra-Bretland ekki hjá því að auka sparnaðinn, og viðskiptajöfnuður verður að verða jákvæður. Ef þessi atriði eiga að nást, verður að eiga sér stað mikil raunlækkun verðlags gagnvart útlöndum. Henni er hægt að ná annaðhvort með langvarandi lækkun kaupmáttar og raunverðlags eða með falli á gengi sterlingspundsins. Sem betur fer hefur hið síðar nefnda virkað, eins og þörf var á."
Síðan segir Martin Wolf, að fall pundsins sé ekki vandamál, heldur lausn á vandanum. Síðan færir hann ítarleg rök fyrir því, að ekki borgi sig fyrir Breta að fórna sterlingspundinu til að gangast undir jarðarmen evru. Í lokin skrifar Martin Wolf:
"Ályktun mín er, að hinar öfgafullu aðstæður samtímans hafi gert málstað þeirra, sem viðhalda vilja sveigjanleika gengisskráningar, ekki veikari, heldur sterkari. Ég er ánægður með, að brezka ríkisstjórnin skuli ekki þurfa að tilkynna þegnum sínum, að áratugur stöðnunar sé nauðsynlega framundan til að sverfa kostnað niður á það stig, sem þörf er á vegna samkeppnihæfninnar við útlönd.
Samt er ég sammála því, að greiðslugeta ríkissjóðs er ekki lengur örugg. Tvö skref eru nú nauðsynleg:
Í fyrsta lagi verða brezk yfirvöld nú að gera með snöggum og grófum hætti ráðstafanir til að aðskilja brezka bankakerfið í heimastarfsemi, sem yfirvöldin ábyrgjast, og erlendan þátt, sem þau ábyrgjast ekki. Það er einkar mikilvægt að setja alla starfsemi, sem framkallar mikla erlenda áhættu greinilega utan við starfsemina, sem yfirvöld ábyrgjast."
Málflutningi Davíðs Oddssonar á Íslandi í október og nóvember 2008 ber í öllum aðalatriðum saman við málflutning þekkts og viðurkennds dálkahöfunar í "Financial Times", Martin Wolf að nafni. Hvort ætli það séu meðmæli með Davíð eða Martin ? Þetta sannar, að bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur mótað ígrundaða, ábyrga og í hæsta máta faglega stefnu í efnahagsmálum Íslands fyrir og eftir hrunið, hvað sem moldvörpustarfsemi 5. herdeildar ESB á Íslandi líður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hverslags endemis bull er þetta og Davíðsdýrkun. Dýrkun á manni sem á stóran þátt í að koma hlutunum í rúst og hefur ekki sóma né manndóm í sér til að viðurkenna það heldur rís upp á afturlappirnar geltnandi eins og illa hirtur hundur.
1. Í ljósi fortíðar DO hefur öllum reynst erfitt að taka mark á honum í hlutverki seðlabankastjóra enda illgreinanlegt hvort hann var að tala sem pólitíkus eða seðlabankastjóri og þar með að skilja á milli "varnaðarorða" og skítkasts.
2. Öllum "varnaðarorðum" DO fylgdu engar aðgerðir sem seðlabanka bar að grípa til s.s. aukna bindiskyldu, aukningu gjaldeyrissforða, leyfa skráningu og uppgjörs banka í erlendri mynt o.s.frv.
3. Viðhald DO á gjaldþrota peningastefnu með gengdarlausri hækkun stýrivaxta sem leiddi af sér falskt hágengi krónu og þar með kjörumhverfi fyrir krónubréfaútgáfu og rak fyrirtæki og heimili í "ódýrar" erlendar lántökur sem aftur olli vítahríng verðbólguþrýstings var birtingarmynd getuleysis og veruleikafirringar DO. Sá þrýstingur er og verður svo sjálfala vegna verðtryggingar og "vísitölustjórnunarhátta" í samfélaginu þar sem lánveitendur (fjármálastofnanir) hafa enga hvatningu til að berjast við verðbólgu og fyirtæki og stofnanir beina sjálkrafa hækkunum út í samfélagið í nafni vísitöluhækkana í stað þess að bæta reksturinn. Allir hafa tekið við þessu hljóðalaust.
4. Það er svo ekki fyrr en bankarnir eru komnir í þrot að skilja á að innlenda og erlenda starfsemi (eitthvað sem gera hefði fyrir löngu og er eitthvað sem DO hefði getað beitt sér fyrir). Martin Wolf virðist glöggur maður og hefur líklega fylgst með því sem gerst hefur hér og leggur því til það sem skynsamlegt er, þ.e. að skilja að erlenda og innlenda starfsemi Breskra banka til að lágmarka áhættu Breska seðlabankans sem lánveitanda til þrautarvara.
5. Breska pundið er og hefur verið alþjóðlegur gjaldmiðill sem notið hefur alþjóðlegs trausts og er þ.a.l. flothæfur gjaldmiðill, öfugt við IKR sem hefur aldrei verið alþjóðlegur gjaldmiðill og hefur aldrei notið trausts sem nokkru nemur. Var hún áður léleg til heimabrúks en er núna hreint ónýt og hefur aðeins leitt okkur í gegnum óþarflega ýktar hagsveiflur, falið atvinnuleysi innanlands og sýnt okkur innistæðulausan hagvöxt.
Í lokin má svo minna á að DO ber einna mesta ábyrgð á útþenslu ríkisútgjalda, lækkun skatta á þenslutímum (verðbólguhvetjandi) og aukinni misskiptinu með því að lækka skattbyrði á hátekjufólk en hækka hana hjá lágtekju og millitekjufólki.
Guð hvað það hefði verið gott ef DOhefði þegið þessar 300 millur frá Jóni Ásgeiri og pansjónerað á Kanarí. Þá væru DO og Guðni kannski að sulla í bjór saman á Klörubar og þjóðin ekki gjaldþrota!
The bigot, 22.11.2008 kl. 09:34
"Halda menn, að gjammandi "Besserwisserar" úr háskólasamfélaginu hér, sem ekki er vitað til, að hafi opinberlega séð fyrir hörmungarnar, öfugt við ýmsa hagspekinga og fræðimenn erlendis, væru með bein í nefinu, sem þarf til að stjórna Seðlabanka Íslands í kreppu ? Þar duga engar heybrækur við stjórnvölinn nú um stundir"
Varðandi tilvitnaðan sleggjudóm þinn um besserwisserana úr háskólasamfélaginu langar mig að spyrja. Hefur þú aldrei hlustað á menn eins og Lars Christiansen (Danske bank), Þorvald Gylfason prófessor, Ragnar Önundarson fv. bankastjóra, Gylfa Magnússon dósent. Þessir "besserwisserar" ásamt fleirum varað við því ástandi sem nú ríkir hér. Einnig má nefna Robert Aliber professor emeritus við Columbia University. Fyrir örfáum mánuðum kallaði Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabankans hann og aðra sem voguðu sér að hafa efasemdir um "íslenska efnahagsundrið" eftiráspekinga.
Manni verður annars hreinlega orða vant við lestur þessarar færslu Bjarni. Samkvæmt blogghausnum ertu velmenntaður og vel pennafær. Ég var sennilega á sömu línu og þú fyrir örfáum vikum. Allt væri í himnalagi. Staðreyndirnar blasa nákaldar við. Í svona málum dugar engin afneitun.
Sú afneitun náði nýjum hæðum í ræðu DO á Viðskiptaþingi. Eyddi nánast öllum tímanum í að fegra eigin gerðir auk þess að kasta fram dylgjum (smjörklípum) um meinta vitnesku sína á tilurð harkalegra viðbragða þeirra Browns og Darling á sama tíma og hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að leyna landann upplýsingum. Að hlusta á þetta fyrrum átrúðnaðargoð mitt var hreint áfall og ég velti í alvöru fyrir mér tilgangi hans og markmiðum. Er maðurinn embættismaður eða er hann í póítík enn?
Sveinn Ingi Lýðsson, 22.11.2008 kl. 11:41
Vá hvað þú átt bágt,,, svona stjórnlaus persónudýrkun er í hæsta máta hlægileg,,, Drottnari þinn er búinn að ríkja hér í ég veit ekki hvað lengi,, byggði Grafarvog án þess að byggja skóla, einkavæddi án þess að búa til regluverk, fór í Seðlabankann til að sjá til þess að vélabrögð sín fengju að njóta sín áfram,,, DO hefur valdið okkur meiri skaða en plágan,,,
Daði Hrafnkelsson, 22.11.2008 kl. 11:52
Ofanritaðar athugasemdir seigja allt sem seigja þarf og ekkert við þar að bæta. Fyrirmælin sem sjálfstæðisfólk hefur fengið á undangengnum fundum skilar sér hjá þér. Verjum flokkinn og allar hans gerðir. Hin frægu umæli Hannesar eiga við hér." Við sjálfstæðisfólk erum ekki pólitísk,við græðum á daginn og grillum á kvöldin"
Rannveig H, 22.11.2008 kl. 12:56
"Mörgum hefur blöskrað.........." Þetta eru upphafsorð höfundar! Hversu mörgum hefur blöskrað afneitun Seðlabankastjóra og þögn hans við þeim mörgu aðvörunarorðum og þunga áfellisdómi sem stjórn Seðlabankans hafði setið undir um margra mánaða tímabil vegna aðgerðarleysis í efnahagsástandi sem sýnt var að stefndi þjóðinni í voða ef illa færi? Já- kórinn í Sjálfstæðisflokknum sem sungið hefur leiðtoga sínum gagnrýnilaust lof um áraraðir hefur verið bæði hávær og heyrnarlaus. Söngmönnum fer þó fækkandi og nokkrir eru farnir að raula í falsettu. Mest fer nú fyrir einsöngvurum sem hafa hlotið þjálfun hjá einum og sama söngkennaranum.
Það er ósköp ljúft að horfa á barnahóp sem fagnar komu jólasveinsins. En það er raunalegt að sjá "fullorðið" fólk afskræma þann ljúfa hátíðarbrag blessaðra barnanna með því sjúklega yfirbragði sem persónu-og foringjadýrkun fylgir.
Þessu gerðir þú nú reyndar ágæt skil í stuttu máli Rannveig mín.
Árni Gunnarsson, 22.11.2008 kl. 18:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.