Óvissuferð

Föstudaginn 5. desember 2008 héldum við vinnufélagarnir í óvissuferð, sem nokkrar konur í hópinum höfðu átt frumkvæði að og tekið að sér að skipuleggja.  Eftir vinnu þennan dag var stigið upp í rútu og haldið inn í Heiðmörk.  Þar var byrjað á Müllers æfingum og síðan tekið til við þrautir ýmsar og keppnir, en á milli þátta ríkti sannkölluð réttarstemning, þar sem fleygar af margvíslegum gerðum og með fjölbreytilegu innihaldi gengu á milli manna.  Var endað á því að skríða ofan í Maríuhella og leita þar hulinna muna.

Að loknum öllum Heiðmerkur atriðunum var haldið í bústað fyrirtækisins í útjaðri bæjarins við litla tjörn, þar sem Litla-Gunna og Litli-Jón bjuggu forðum.  Þar hafði þá verið tilreiddur dýrindis matur, svissneskur "rakklett" ostur, smápylsur, svínakjöt og nautakjöt o.fl., sem við gátum steikt á rafmagnspönnum á matborðinu, hver að sínum hætti.  Með þessu var eðalhrásalat, allt úr íslenzkum matjurtum.  Til að skola þessu niður var hins vegar haft dágott hvítvín, franskt, enda hefur fyrirtæki okkar mikil samskipti við frönskumælandi fólk. 

Þeir, sem gott úthald höfðu enn eftir allt þetta, héldu um kl. 2215 niður í miðbæ Reykjavíkur og söfnuðust saman á krá einni.  Var þar mikið skrafað og skeggrætt um lífsins gagn og nauðsynjar við kunningja jafnt sem ókunnuga.  Höfundur þessarar vefsíðu skemmti sér konunglega þarna fram á rauðanótt. 

Nú vilja ýmis ráðandi öfl í þessu þjóðfélagi teyma okkur í aðra óvissuferð, sem yrði ólíkt afdrifaríkari og óyndislegri en sú, sem lýst er hér að ofan, og er sú seinni reyndar þess eðlis, að hún getur orðið örlagarík fyrir hvert einasta mannsbarn í landinu á okkar dögum og um ókomna tíð.  Hér er átt við inngönguna í Evrópusambandið, ESB. 

Ástæðan fyrir því, að mikinn varhug ber að gjalda við Evrópusambandinu, er, að enginn veit, hvaða fyrirbrigði þetta verður að einum áratug liðnum, hvað þá að lengri tíma liðnum.  Af þessum ástæðum er afar óábyrgt að láta aðeins einn málaflokk ráða för.  Hámark óskynseminnar felst í að japla á gjaldmiðlinum í þessum efnum.  Þó að við færum inn í ESB á morgun, yrði okkur meinað að skipta um gjaldmiðil fyrr en að áratug liðnum.  Vegna þess að ekkert eitt ríkisvald stendur sem bakhjarl evru, er það grundvallaratriði fyrir ECB (Evrópubankann í Frankfurt), að hvergi verði hvikað frá Maastricht skilyrðunum fjórum um verðbólgu, vexti, ríkishalla og ríkisskuldir.  ECB hangir á þessu fram í rauðan dauðann af ótta við fordæmi, sem leitt geti af sér minnkandi tiltrú á evru og Evrópubankann sjálfan.

Nú hafa ýmsir þróað afbrigði af þessari evruumræðu sem valkost við ESB-aðild.  Það er að taka einhliða upp evru.  Þetta er óráðlegt af hagfræðilegum og stjórnmálalegum ástæðum.  Hagfræðilegu mótrökin eru, að við gætum hæglega orðið peningalaus, ef stuðning seðlabanka nýja íslenzka gjaldmiðilsins skortir.  Stjórnmálalegu mótrökin eru, að með þessu háttalagi værum við komin í hlutverk skæruliða í baráttu við ECB og ESB.  Til hvers halda menn, að það gæti nú leitt á stjórnmála-og viðskiptasviðinu ? 

Það eru fáeinar vikur síðan ESB hikaði ekki við að herja gegn okkur í viðskiptastríði.  Við töpuðum því á nokkrum dögum.  Það er á öllum tímum við slíkar aðstæður freistandi að álykta sem svo, að með betri herforingja (stjórnmálaforingja) hefði þetta stríð farið öðruvísi.  Höfundur þessara hugleiðinga er ekki í neinum færum til slíkra fullyrðinga, enda leiða þær sjaldan til nokkurs góðs.  Þýzka þjóðin léði eyrun ásökunum af þessu tagi á dögum Weimar lýðveldisins, þegar hún var að "krebera" skuldunum vafin eins og skrattinn skömmunum undan ánauð Versalasamninganna.  Skamma stund verður hönd höggi fegin. 

Við getum ekki tekið annað skref nú og  hætt á annað viðskiptastríð við ESB, nema hafa vilja til að berjast við Brüssel.  Við mundum þá verða að beina viðskiptum okkar annað.  Evran er einfaldlega ekki þess virði að berjast fyrir hana.  Evrulöndin eiga nú sum hver í svo stórfelldum vandræðum, sumpart vegna evrunnar, að endað getur með kollsteypu hennar.  Mest munar um vandræði Spánverja, en þar varð húsnæðisbólan illvígari en á Íslandi vegna lágra vaxta og mikils framboðs lánsfjár.  Svipuðu máli gegnir um Íra.  Þeim er nú stillt upp við vegg að samþykkja Lissabonsamninginn, sem þeim er þó þvert um geð, eða að verða settir í skammarkrókinn ella.  Í þessum löndum og á Ítalíu hefur verðbólgan verið mun hærri en að jafnaði í evrulandi, og þess vegna eiga útflutningsatvinnuvegir þessara landa mjög undir högg að sækja um þessar mundir.  Af þessum sökum er Spánverjum nú spáð atvinnuleysi á bilinu 15 % - 20 %.

Líklegt er, að Grikkland rambi nú á barmi borgarastyrjaldar af efnahagslegum ástæðum í bland við landlæga spillingu þar á bæ.  Efnahagskerfi Grikklands er lamað af opinberum boðum og bönnum í anda sameignarsinna, og þar er mikið opinbert eignarhald, og opinber rekstur liggur sem lamandi hönd á atvinnulífinu.  Samþjöppuðu valdi af þessu tagi fylgir undantekningarlaust svartur markaður og rótgróin spilling.  ESB og evruvæðingin hafa engu breytt um þetta, enda standa engin efni til þess, þó að falsspámenn hérlendis boði, að allt muni verða með nýjum brag á Íslandi eftir inngöngu í ESB.  "O, sancta simplicitas."

Evran reyndist Grikkjum ekki sá bjargvættur, sem evrupostularnir boðuðu, enda héldu stjórnmálamenn þeirra áfram að fara leið hinnar minnstu mótstöðu eða hreinlega að sitja með hendur í skauti.  Á meðan hrönnuðust vandamálin upp.  Lexían er sú, að stjórnmálamenn eiga að ganga hreint til verks, ekki tvínóna við hlutina, en falla ella.  Þessi var og málflutningur Svíans Görans Perssons, sem hér var á dögunum, gamalreyndur jaskur úr sænskum stjórnmálum.  

Þeir, sem boða hinar ódýru lausnir og leið hinnar minnstu mótstöðu, eru falsspámenn og lýðskrumarar.  Varaformaður Samfylkingar á Íslandi er af þessu sauðahúsi.  Evrutrúboð þessa óáheyrilega, en um leið sviðsljósssækna stjórnmálamanns er svo yfirborðskennt og flatneskjulegt, að engu tali tekur. Ótrúlegt er, að nokkur Sjálfstæðismaður geti kinnroðalaust lagt eyru við jafnömurlegri lífssýn og felst í landsöluáróðri ESB-trúboðsins. 

Götubardagar í Aþenu í desember 2008  

Teljum við Íslendingar gjaldmiðilsskipti þjóna hagsmunum okkar, þá bjóðast ýmsir kostir.  Bandaríkja dalur er nærtækastur, en að gera hann að ríkisgjaldmiðli Íslands verður að fara fram í góðu samkomulagi við "Federal Reserve", Seðlabanka Bandaríkjanna, og Bandaríkjastjórn, svo að aðgerðin sé að siðaðra manna hætti.  Bókhald ýmissa stórfyrirtækja á Íslandi er nú þegar í USD og nægir að nefna Landsvirkjun og áliðnaðinn.  Lánin frá IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) eru í USD og sama máli gegnir um margar aðrar fjárhagsskuldbindingar Íslendinga.  Eldsneytisviðskipti á heimsvísu eru í bandaríkja dölum.  Framtíð bandaríkja dals er ekki í óvissu eins og evrunnar.  Með bandaríkjadal sem mynt stöndum við sterkar að vígi í viðskiptum um allan heim en með evru.  Inni í ESB verður okkur meinað að gera sjálfstæða viðskiptasamninga utan ESB.  Þar sem megin viðskiptatækifæri okkar eru utan ESB, yrði aðild að ESB okkur sannkallaður Þrándur í Götu.  Við nytum ekki lengur ávaxta viðskiptafrelsis. 

Evrópa er á niðurleið, ekki aðeins í fjárhagslegu tilliti nú um stundir, heldur miklu fremur í öldrunar-og mannfræðilegu tilliti.  Meðalaldur Evrópumanna hækkar ískyggilega ört og víða hefur fólksfjölgun stöðvazt, eða fækkun er tekin að herja á.  Lítil viðkoma þjóða er mikið ógæfumerki, og þær stefna í raun hraðbyri til lakari lífskjara.  Við viljum fúslega eiga viðskipti við þetta fólk á jafnræðisgrundvelli og á viðskiptalegum forsendum, en í risavöxnu ríkjasambandi eða í sambandsríki með þeim sem sandkorn í eyðimörk eða krækiber í helvíti eigum við ekkert erindi og munum aðeins bíða tjón af slíku uppátæki.

 

 

Grikkland logar í desember 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband