19.3.2009 | 18:32
Hagsmunagæzla í skötulíki
Hagsmunagæzla utanríkisráðuneytis Íslands gagnvart Bretum og Evrópusambandinu (ESB) síðan í Hruninu haustið 2008 nær ekki máli. Engu er líkara en heybrækur einar véli þar um, eftir að flokkurinn með stóra rauða núllið í táknmynd sinni tók við völdum í utanríkisráðuneytinu.
Skýr lögfæðileg rök eru fyrir þeim málstað Íslands, að ríkissjóði landsins beri engin lagaleg skylda til að standa straum af greiðslum til innistæðueigenda svo nefndra "Icesave" reikninga. ESB hefur skýrar stjórnmálalegar og fjármálastöðugleika ástæður til að kúga okkur Íslendinga til hlýðni við þá stefnu, að ríkissjóður heimalands viðkomandi banka greiði það, sem á vantar, þegar tryggingasjóður innistæðureikninga verður upp urinn. Öruggt er, að harðdrægir samningamenn ESB nýta sér þann veikleika, að forystusauðir í ríkisstjórn Íslands ganga með grasið í skónum á eftir ESB pótintátum.
Íslendingar hafa lengi lagarefir verið, og nú blasir það við öllum, nema íslenzka utanríkisráðuneytinu, að sterkasti leikurinn í stöðunni er þessi:
Stefna framkvæmdastjórn ESB fyrir rétt vegna brota gegn Íslandi á grundvelli rangtúlkunar á eigin lögum og reglum. Að framlagðri stefnu getum við síðan boðizt til að ganga til viðræðna um greiðslufyrirkomulag Icesave reikninganna, þar sem í boði yrði samkomulag um að fella niður málssóknina gegn niðurfellingu krafna á hendur íslenzka ríkinu varðandi innistæðureikninga erlendis.
Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega utanríkisráðherra hennar, skuldar þjóðinni skýringu á doða þeim og drunga, sem einkennt hefur hagsmunagæzlu ráðuneytisins fyrir Íslands hönd gagnvart ESB. Er það að sannast á Samfylkinguna, að hún taki hagsmuni ESB fram yfir hagsmuni Íslands ? Slíkt háttarlag varðar stefnu viðkomandi ráðherra fyrir Landsdóm. Eða er þrælslundin svo djúpstæð, að Samfylkingin þori ekki að styggja "væntanlega" viðsemjendur sína og herra í Brüssel ?
Tveir mikils metnir lögfræðingar, Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor, hafa í vetur verið óþreytand við að vekja máls á ótvíræðri og sterkri réttarstöðu Íslendinga með greinum í Morgunblaðinu, sem vakið hafa mikla athygli. Í grein sinni, "Í hvaða liði eru stjórnvöld", þann 3. marz 2009, vitna þeir til skýringa utanríkisráðherra á aðgerðaleysi sínu:
"...þungvæg lögfræðileg rök eru talin hníga að því að túlka tilskipunina um innistæðutryggingar þannig að íslenska ríkið verði að hlaupa undir bagga með tryggingasjóðinum til að greiða lágmarkstryggingar ...".
Það er skýlaus réttur okkar, íslenzkra skattgreiðenda, að utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, svipti þetta mál leyndarhulunni, sem Samfylkingin hefur hjúpað "Icesave" málin. Við eigum heimtingu á aðgangi að þessum upplýsingum til að bera saman rök lögfræðinganna Stefáns og Lárusar og "hin þungvægu lögfræðilegu rök" Samfylkingarinnar. Á meðan ekki verður orðið við þessari eðlilegu kröfu, má álykta, að Samfylkingin sé að hylja tómlæti sitt gagnvart hagsmunum íslenzku þjóðarinnar, þegar hagsmunir ESB eru annars vegar.
Talsmenn Samfylkingar halda því fram, að Íslendingar verði útskúfaðir í alþjóða samfélaginu, ef þeir krjúpa ekki við stall ESB og láti óbilgirni þess yfir sig ganga. Þetta er sjónarmið lítilþægrar minnimáttar kenndar, sem mótast af ótta við umhverfi sitt. Að neita að borga og að beita hvorki vörnum né gagnsókn af neinu tagi felur í sér hættu á ófarnaði, en "barátta Davíðs við Goliat" mun leiða til árangurs í þessu máli eins og oft áður. Hversu mikill árangurinn verður, veltur algerlega á þeim mönnum, sem valdir verða til þessara verka. Í þessa baráttu þarf úrvalsteymi lögfræðinga, hagfræðinga og kynningarfólks. Af alkunnri víðsýni sinni og faglegum viðmiðunum skipaði fjármálaráðherra fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins og núverandi sendiherra til að fara fyrir þessu mikilvæga teymi. Núverandi stjórnvöld landsins glóra greinilega ekki í, hvað hér þarf til.
Í téðri Morgunblaðsgrein sinni spyrja lögfræðingarnir: "Getur það staðist að fyrirtæki séu starfrækt víða um heim á ábyrgð íslenska ríkisins án þess að ríkið sjálft hafi nokkuð um það að segja ?". Þeir svara þessari lykilspurningu skýlaust neitandi og færa fyrir svarinu greinileg lögfræðileg rök. Síðan skrifa þeir: "Í svari utanríkisráðherra kemur fram að það sé sameiginleg afstaða allra ESB ríkjanna auk Noregs að það séu fráleit lögfræðileg rök að ábyrgð á innistæðum takmarkist við eignir tryggingasjóðanna. Í beinu framhaldi segir að málarekstur þar sem látið yrði á þetta reyna væri til þess fallinn að grafa undan, jafnvel kollvarpa trausti á fjármálakerfi Evrópu. Þau rök eru nokkuð örugglega góð og gild. Þau eru hins vegar hvorki lögfræðileg né fá þau samrýmst hagsmunum Íslands.".
Í þessum kjarna máls eru fólgin tækifæri Íslands til að rétta hlut sinn, ef stjórnvöld reka af sér slyðruorðið. Það er þó augljóslega borin von, nema algerlega verði söðlað um í stjórnarráði Íslands. Þar þarf að sópa lyddunum út.
Komið hefur fram, að hávaxta netinnlánsreikningar í útibúum Landsbankans á Bretlandi, sem starfræktir voru undir markaðarheitinu "Icesave", urðu um 300 000 áður en yfir lauk, og heildar innlán numu um GBP 4 milljörðum eða um ISK 630 milljörðum á gengi 13.03.2009. Nokkru síðar gerði Landsbankinn sams konar strandhögg í Hollandi, þar sem 125 000 aðilar létu ánetjast og lögðu inn um EUR 1,7 milljarð að jafngildi um ISK 240 milljarða. Alls eru þetta ISK 870 milljarðar. Samkvæmt þeim reglum, sem ESB vill hengja sig í, ber eftirlitsaðili í heimalandi bankans ábyrgð á eftirliti með útibúum og ábyrgist að lágmarki kEUR 20,887 per reikning. Fyrir FME mundi þetta þýða alls EUR 8,9 milljarða (ISK 1,4 trilljónir eða 1 x VLF) eða hærri upphæð en í raun er um að tefla.
Um þetta segir í "Hagkerfi bíður skipbrot", eftir hagfræðingana Jón Danélsson og Gylfa Zoega: "Heimild til að opna innistæðureikninga í tilviki Icesave sýnir að misbrestir eru í ákvarðanatökuferli eftirlitsaðila á Íslandi og í viðkomandi löndum, Bretlandi og Hollandi, og í reglugerðum ESB/EES. Eftirlitsaðilum í löndunum þremur hefði mátt vera ljósar hætturnar og áttu að bregðast við til að hindra hina öru útþenslu Icesave. Þegar upp er staðið var það eftirlitið sem brást. Sú hugmynd að þjóð með 300 þúsund íbúa geti borið ábyrgð á innlánatryggingu af þeirri stærðargráðu sem innlán Icesave fólu í sér er fjarstæðukennd.".
Með öðrum orðum var brotalöm í reglum EES og eftirliti innan þess. Ísland stóð við allar reglur EES um stofnun tryggingasjóðs innistæðureikninga. Hið lögfræðilega álitaefni fjallar um, hvernig á að fara með mismun ISK 870 milljarða og andvirðis tryggingasjóðsins, sem vantar upplýsingar um.
Bankastjórn Seðlabanka Íslands sá snemma árs 2008, eða jafnvel fyrr, ástæðu til að semja viðbúnaðaráætlun til að grípa til, ef bankarnir færu í þrot. Þess vegna hélzt lágmarks banka-og gjaldeyrisþjónusta hér við lýði, þó að yfir 80 % fjármálakerfisins hryndi. Ekki er grunlaust um, að ríkisstjórnin hafi verið óviðbúnari og ekki átt í fórum sínum vel ígrundaða viðbúnaðaráætlun. Neyðarlögin í októberbyrjun 2008 gáfu rétti innlendra innistæðueigenda forgang umfram aðrar kröfur. Þar með voru t.d. erlendir innistæðueigendur íslenzkra bankaútibúa erlendis settir skör lægra í kröfuréttindum. Hið lögfræðilega viðfangsefni snýst öðrum þræði um að sýna fram á lögmæti þess gjörnings að alþjóða rétti.
Ástæða er til að halda, að utanríkisráðuneyti Íslends hafi algerlega gugnað við að kynna forsendur og markmið þessarar lagasetningar í Stóra-Bretlandi. Ætla má, að frysting eigna Landsbankans á Englandi með beitingu hryðjuverkalaga og yfirtaka Fjármálaeftirlits Englands á Kaupþingi í Englandi með beitingu sérákvæðis laga frá 2008, hafi átt rætur að rekja til setningar Neyðarlaganna á Íslandi. Um þessi Neyðarlög má segja, að allt orkar tvímælis þá gert er, en draga hefði mátt úr neikvæðum afleiðingum þeirra og þar með eignatapi með vandaðri viðbúnaðaráætlun, reistri á áhættugreiningu. Hrunið kom á þingheim sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn taka gjarnan til orða, þegar einhver er tekinn í bólinu.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.