Ríkisreikningurinn

Viðamesta viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis eftir kosningarnar 25. apríl 2009 verður að semja fjárlög fyrir árið 2010 og þar með að fást við fjárlagahallann.  Málflutningur, gjörðir og saga vinstri flokkanna leiða í ljós, að til þess er þeim ekki treystandi.  Þeirra boðskapur og gjörðir er allur miðaður við að ausa fé úr ríkissjóði.  Nú þarf að standa á bremsunni.  

Þessi vanmáttur ríkisstjórnarinnar gagnvart viðfangsefnum líðandi stundar mun kynda svo undir henni fyrr en varir, að hún mun springa í tætlur löngu áður en kjörtímabilinu lýkur.  AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) mun heimta af henni raunhæfar aðgerðir til að ná markmiðum samkomulags á milli hans og ríkisstjórnar Geirs Hilmars frá haustinu 2008, sem ráðstjórnin mun glúpna gagnvart og leggja upp laupana áður en varir.  Í henni er enginn veigur.  Þess verður ekki langt að bíða, að upp muni renna fyrir fólki, að stærsta efnahagsvandamál landsins er ráðstjórnin sjálf, og er þó af nógu að taka.  Þessi þróun mun verða þjóðinni dýrkeypt, því að dýrmætur tími mun fara í súginn, fyrirtæki falla og atvinna dragst enn saman.  Stutt er í, að Pótemkín tjöld ráðstjórnarinnar falli.    

Ástæðan er sú, að henni mun ekkert verða ágengt við niðurskurð ríkisútgjalda, skattahækkanir munu hafa þær einar afleiðingar, að skattstofninn skreppi saman, og efnahagsvandi þjóðarinnar magnast.  Þá mun ráðstjórninni takast að klúðra öllum fjárfestingartækifærum erlendra aðila, sem nú eru í sjónmáli og einhverju máli skipta fyrir efnahagskerfið.   Án stórfelldra erlendra fjárfestinga eru okkur öll sund lokuð.  

"Genosse Thorlaksson", settur ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis hjá félaga formanni Steingrími, hefur lagt til, að samningar, sem í deiglunni eru, og gildandi samningar við álverksmiðjurnar í landinu, verði rifnir upp og skattar á álverin hækkaðir.  "Genosse Thorlaksson" býst sem sagt við gróða í áliðnaðinum, sem ekki er til að dreifa nú um stundir. Hann heldur, að með þessu móti komi hann höndum yfir auðlindarentu, sem hann ímyndar sér, að annars hverfi úr landi.  Svipað er uppi á teninginum varðandi sjávarútveginn.  Þar hefur þó engin auðlindarenta fundizt enn, enda er sjávarútvegurinn stórkuldugur.  Kukl félaganna með sjávarútveginn, sem jafngildir þjóðnýtingu að hætti Karls Marx, mun ganga af mikilvægasta atvinnuvegi Íslendinga dauðum, nái það fram að ganga.  

Ráðagerðir félaganna í fjármálaráðuneytinu við Arnarhvál varðandi stóriðjuna jafngilda því, ef framkvæmdar verða, að drepa niður allan áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi og mun hafa stórskaðvænleg áhrif til frambúðar á lífskjör Íslendinga.  Það er þess vegna ekkert smáræði í húfi.

Gera má ráð fyrir, að glataðar viðbótar skatttekjur ríkisins vegna niðurglutraðra fjárfestinga í álveri, 250 kt/a, og skattlagningu rekstrar þess ásamt nauðsynlegum orkumannvirkjum, nemi 16 mia kr (milljörðum) á ári.

Ráðstjórnin ræður ekki við vandann, fer kolrangar leiðir og gerir illt verra með ráðstöfunum sínum.  Á meðan blæðir almenningi.  Sameignarsinnar, menntaðir í DDR (Deutsche Demokratishe Republik) og í HÍ, ætla sér að jafna fátæktinni út eftir að hafa drepið atvinnulífið í dróma með allt of mikilli blóðtöku (skattheimtu).  Ísland er undir ráðstjórn.

Skuldir ríkissjóðs gætu senn numið um 1000 mia kr eða um 70 % af VLF.  Þó að þetta sé fjarri því að verða einsdæmi, gefur auga leið, að lækka verður þessar skuldir svo hratt sem verða má til að vaxtakostnaður verði landinu ekki óbærilegur og til að krónan geti eflzt og gengið í endurnýjun lífdaganna.  (Maastricht gerir kröfu um ríkisskuldir undir 60 % af VLF.)   

Nú nemur halli ríkissjóðs a.m.k. 150 mia kr, svo að ekkert svigrúm er til aukinna greiðslna skulda.  Þetta jafngildir tæplega 11 % af VLF, en Maastricht heimtar lægra hlutfall en 3,0 %.  Af þessum ástæðum verður að skera niður núverandi útgjöld ríkisjóðs, enda voru þau þegar á árinu 2008 orðin talsvert yfir meðaltali OECD.  Búizt er við, að tekjur ríkissjóðs árið 2009 verði um 30 % lægri en árið á undan, og þetta er sú lækkun, sem þarf að laga útgjaldahliðina að.  Einkaneyzlan hefur minnkað um u.þ.b. 30 %, og nú er komið að Alþingi að skipa ráðuneytunum að minnka samneyzluna að sama skapi.   

Vaxandi vatnsskortur víðast hvar

Þegar þróun útgjalda ríkissjóðs er skoðuð, sjá viðhengi undir tengli neðst, blasir við hrikaleg sýn.  Á árabilinu 2003-2009  hafa útgjöld á hvern íbúa aukizt um 38 % á föstu verðlagi ársbyrjunar 2009 eða alls um rúmlega 149 mia kr að teknu tilliti til fólksfjölgunar.  Þetta kalla sameignarsinnar nýfrjálshyggju.  Bullið í þeim er gegndarlaust. 

Með öðrum orðum er verkefnið að færa ríkisreksturinn aftur í það horf, sem hann var fyrir 6 árum.  Á góðærisskeiðinu undanfarin 6 ár hafa ríkisútgjöldin einfaldlega verið blásin út, af því að tekjur voru fyrir hendi.  Mesta sök á þessu eiga ráðherrar Framsóknarflokksins og Samfylkingar, en öllum hækkunum var fagnað af VG, og helzt vildi hún auka samneyzluna enn meira.   Þetta sést, ef tilvitnuð tafla er skoðuð (viðhengi).  

Hlutdeild fræðslumála í hækkun (Sjálfstæðisflokkur) er 6 %,  hlutdeild heilbrigðismála í hækkun er 11 % (Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stutt), hlutdeild almannatrygginga og velferðarmála (Framsóknarflokkur, Samfylking) er 25 %, en stærsta hlutdeild hækkunar, 46 %, eru "Önnur útgjöld ríkissjóðs".  Þennan síðasta lið hlýtur að þurfa að kryfja sérstaklega, en þess má geta, að á tímabilinu óx starfsmannafjöldi ríkisins um 1000 á ári að jafnaði.  Í þennan flokk falla líklega vaxtagreiðslur og afborganir lána. 

Ráðstjórnin hefur sagt, að hún ætli ekki að hrófla við heilbrigðis-og velferðarmálum.  Þessir þættir vega til samans 36 % af aukningunni á íbúa síðan 2003, svo að þetta er með öllu óraunhæft viðhorf.  Þess má geta, að aukning til heilbrigðismála nemur sömu upphæð og fengist í ríkissjóð vegna 250 kt/a álversstofnsetningar og rekstrar ásamt viðeigandi orkuverum.  Skattahækkanir á fyrirtæki og almenning væru glapræði í núverandi efnahagsástandi, mundu auka atvinnuleysið, fjölga gjaldþrotum og engu skila í ríkiskassann, er frá líður.  Þess í stað verður að skera niður kostnað ríkisins og laða að erlenda fjárfesta til að breikka skattstofninn. 

Boðskapur ráðstjórnarinnar um skattahækkanir upp í gatið lofa ekki góðu um aðferðarfræðina, sem  valin verður.  Það verður ekki framsækin stefna breikkunar á skattstofnum, heldur hugmyndasnauð afturhaldsstefna í atvinnumálum, sem seilist dýpra ofan í vasa, sem þegar hafa verið tæmdir, og leggur ekkert að mörkum til eflingar skattstofna.   

Verkefnið er yfirþyrmandi vegna óráðsíu í góðærinu, en vandamálið er þó ekki verra en að færa þjónustu ríkisins við íbúana í það horf, sem var fyrir 6 árum.  

2009-04-01Hallinn á ríkissjóði Íslands er nú u.þ.b. 11 % af VLF.  Það er minna en hallinn á ríkisbúskapi BNA, þar sem hallinn 2009 er áætlaður 13,7 % af VLF, og svipað og hjá þeim, sem gengur við hlið hins veifandi herramanns á myndinni hér til hliðar, hjá hverjum hallinn er nú talinn vera 11,3 % (á ríkissjóði Breta).  Í báðum tilvikum er um að ræða lönd, þar sem fjármálageirinn var mjög stór og út blásinn fyrir Hrun. Nokkrar fjármálastofnanir í BNA hafa orðið gjaldþrota, t.d. Lehmans Brothers 15.09.2008, en ríkisstjórn verkamannaflokks Stóra-Bretlands mun hafa bjargað bönkum hingað til, en hefur nú þrotið örendið við þá iðju.  Munurinn á Íslandi og þessum tveimur löndum er hins vegar sá, að þar er unnt að auka peningamagn í umferð með seðlaprentun og draga þannig úr skuldabyrði ríkissjóðs með verðbólgu.  Með lán í erlendum myntum ásamt verðtryggingu er slíkt ekki fær leið hérlendis.  

Eina færa leiðin út úr skuldafeni ríkissjóðsins íslenzka er að endurskilgreina hlutverk hans um sinn.  Þetta jafngildir afturhvarfi til fortíðar, en það er ekki í önnur hús að venda.  Það þýðir, að taka verður upp tekju-og eignatengingar á verðlagningu þjónustunnar til að halda uppi öryggisneti fyrir þá, sem mest þurfa á opinberum stuðningi að halda. Lagasetningu þarf til stuðnings slíkri neyðarráðstöfun, því að hún felur í sér mismunun eftir tekjum, sem aðeins má setja á tímabundið til að bjarga þjóðarskútunni. 

Tekjuöflun fyrir ríkissjóð er ekki síður vandasöm en útgjaldalækkun.  Hugmyndir um tekjuskattshækkanir eru dæmdar til að mistakast.  "Genosse Thorlaksson" vinnur samkvæmt kenningum um, að góðar tekjur séu refsiverðar og samfélaginu beri að leggja hald á bróðurpartinn.  Á þessari braut er auðvelt að misstíga sig við stjórnun efnahagsmálanna, þegar efnahagsástandið er jafnviðvæmt og raun ber vitni um nú.  

Viðfangsefnið er að hámarka tekjur ríkissjóðs.  Til að hitta á þá álagningu, sem mest gefur í ríkiskassan, eru til reiknilíkön.  Frægur er Laffler ferillinn, sem dregur nafn sitt af höfundi kenningar um, að hámark skatttekna fáist við tiltölulega hóflega skattheimtu.  Mun fleiri þjóðir hafa fetað þá braut undanfarið að lækka álagningu tekjuskatta en að hækka hana og telja, að slík ráðstöfun sé vel til þess fallin að styrkja grunnstoðirnar við núverandi efnahagsaðstæður.  

Í ljósi þess, að efnahagskerfið á Íslandi er mjög veikt um þessar mundir og skattheimtan hér er hærri en að jafnaði í OECD, skal láta hér í ljós þá skoðun, að núverandi skattheimta sé hægra megin við gildið, sem gefur topp á Laffler ferlinum, og þess vegna muni tekjuskattslækkun hafa örvandi áhrif á tekjustreymið til ríkissjóðs.  Um þessi efni fjallar Jón Halldór Guðmundsson, skattalögfræðingur, í Morgunblaðinu þann 7. apríl 2009:

"Skattahækkanir geta haft í för með sér enn meiri hörmungar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.  Síðustu ár hefur verið unnið markvisst að því að lækka skatta á einstaklinga og lögaðila sem hefur orðið til þess að skattheimta ríkisins hefur margfaldast. ..... Komi til skattahækkana verður það til þess að enn meiri álögur leggjast á heimilin og fyrirtækin í landinu, vanskil aukast til muna þar sem ráðstöfunartekjur heimilanna minnka með hækkun skatta og minna verður eftir til að standa skil á öllum skuldbindingum.  Nær væri að lækka tekjuskatt og fækka þeim undanþágum sem veittar eru frá honum í dag.  Ríkið tapar aldrei á því að skattar lækki .....  .  Með skattalækkunum munu afskriftir lánafyrirtækja vegna vanskila minnka og tekjur ríkisins myndu aukast í formi óbeinna skatta eins og virðisaukaskatts ...  . "  Eftir að hafa fjallað um neikvæð áhrif fyrir samfélagið af fjölþrepa tekjuskatti, snýr Jón Halldór sér að fjármagnstekjuskattinum: "Nær væri að hækka fjármagnstekjuskattinn en með því myndu eigendur einkahluta- og hlutafélaga hætta að taka út laun í arðgreiðslum sem margir hverjir gera, greiða sér frekar rétt laun og skila af þeim lögbundinni staðgreiðslu eins og hver annar launþegi.  Gæta þyrfti meðalhófs við slíka hækkun því ekki má hún vera of íþyngjandi. Allir þurfa að eiga varasjóð, bæði einstaklingar og lögaðilar, því væri t.d. hægt að miða við ákveðna tölu sem æskilegt væri að hver einstaklingur ætti í varasjóði og væri sú tala skattfrjáls."  

Hægt er að taka undir með skattalögmanninum um nauðsyn varasjóðs á hverju heimili og hjá lögaðilum, hjá einstaklingum t.d. sem nemur meðal árslaunum í landinu.  Það verður hins vegar að gjalda varhug við hækkun fjármagnstekjuskatts eða þrepskiptingu hans af þeim sökum m.a., að líklegt má telja, að náin framtíð beri í skauti sér veikingu eða jafnvel afnám vísitölubindinga inn-og útlána.  Vextir munu og klárlega fara lækkandi, þar sem engir þensluhvatar eru fyrir hendi í efnahagskerfinu, og raunvextir munu þá væntanlega verða nær engir.  Að hækka skattheimtu af sparnaði væri þess vegna að höggva í sama knérunn, og gæti slíkt famferði stjórnvalda nánast þurrkað upp allan sparnað í landinu, sem væri grafalvarlegt fyrir fjárfestingar í landinu. 

Hvernig sem allt veltist, er ljóst, að stjórnmálaleiðtoga Íslands bíður eftir kosningar til Alþingis nú í apríl 2009 að leiða þjóðina eftir afar vandrötuðu einstigi, þar sem ein hrösun getur reynzt örlagarík.  Kjósendur eiga skýra kosti um stjórnmálamenn til að leiða þá út úr ógöngunum, sem heimskreppa og fall ofvaxins fjármálageira hefur leitt þá í. 

Fyrir ráðstjórninni fer guggin og aldurhnigin  flugfreyja, sem virðist forðast, eins og heitan eldinn, samneyti við erlenda höfðingja, og telur sér það helzt til ágætis, að amma sín hafi ekki látið deigan síga til tíræðs.   Ef forsætisráðherra landsins annaðhvort getur ekki eða vill ekki tala máli landsins í hópi annarra forsætisráðherra, þá er illt í efni. 

Fyrir borgaralegum öflum fer hins vegar glæsilegur og öflugur, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur aflað sér haldgóðrar háskólamenntunar beggja vegna Atlantsála.  Hann mun verða landinu til gagns og til sóma í hópi annarra forsætisráðherra, þegar hans tími kemur.

Hvorum, kjósandi góður, téðra frambjóðenda treystir þú betur til að fara með stjórnun efnahagsmála og að standa í stafni íslenzku þjóðarskútunnar á viðsjárverðustu tímum lýðveldisins fram að þessu ? 

      

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Góð greining á ástandinu.  Ég held nú að vandamálið verði stærra og hallinn nær 200ma en ekki 150ma.  Svo má ekki gleyma vaxtagreiðslum til krónubréfshafa sem eru um 50ma.  Það er afleitt að hafa ekki sjálfstæða og óháða stofnun eins og Þjóðhagsstofnun sem getur miðlað réttum og haldbærum tölum.  Tafir á IMF láninum vegna upplýsingaskorts segir sína sögu. 

Hins vegar verðum við að horfa á þá staðreynd að stjórnvöld hafa samið við IMF og lofað að skila hallalausum ríksifjármálum 2012. Það verður ekki gert nema með einhverjum skattahækkunum.  Það eru þessi hlutföll á milli skattahækkana og niðurskurðar sem þarf að fara að ræða og fá á hreint frá flokkunum.  Írar í síðustu viku birtu "budget from hell" þar sem þeirra halli 12.75% fer niður í 10.75% í ár og síðan niður í 3% 2013.  Þetta verður brúað með 1/3 skattahækkunum og 2/3 niðurskurði.  Hver verða hlutföllin hér? 

Kunna stjórnmálamenn hér ekki prósentu og hlutfallareikning?

Andri Geir Arinbjarnarson, 16.4.2009 kl. 11:56

3 Smámynd: Einar Karl

Þú segir:

Eina færa leiðin út úr skuldafeni ríkissjóðsins íslenzka er að endurskilgreina hlutverk hans um sinn.  Þetta jafngildir afturhvarfi til fortíðar, en það er ekki í önnur hús að venda.  Það þýðir, að taka verður upp tekju-og eignatengingar á verðlagningu þjónustunnar til að halda uppi öryggisneti fyrir þá, sem mest þurfa á opinberum stuðningi að halda.  

Meinarðu að þeir sem eru með meðaltekjur og ofar eigi að borga fyrir það sem nú er að mestu frítt, s.s. sjúkrahúsinnlagnir, fæðingar, skólagöngu barna o.fl.?

Er það ekki jafngilt skattahækkun?

Einar Karl, 16.4.2009 kl. 12:54

4 identicon

Mikið ofboðslega geta menn handgengnir Sjálfstæðisflokknum verið með gamaldagshugmyndir um þá heimsmynd sem er í dag.

Ef einhver flokkur hefur aukið ríkisútgjöld þá er það einmitt Sjálfstæðisflokkurinn. En þau hafa ekki farið í að bæta hag heimilanna, ekki velferð almennings, heldur til að ausa fé úr ríkissjóði til auðmanna sem greiða nánast enga skatta.

Margir auðmenn eru heiðarlegir og vilja greiða sína skatta og gera það með (glöðu) geði en aðrir vilja ekki greiða skatta og komast upp með það í boði Sjálfstæðisflokksins.

Af hverju ættu þeir sem hafa miljónir og jafnvel tugi milljóna í fjármagnstekjur að sleppa við að greiða skatta? Þeir nota almenningssamgöngur sem skattgreiðendur hafa byggt og ýmsa þjónustu sem við skattgreiðendur höfum byggt upp.

Mér finnst fara fyrir lítið þessi pistill. Það er ekki bara val á milli Sjálfstæðisflokks og einhverra komma. Svona pistill á heima í blaði Varðar.-

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband