Óþarft og skaðlegt

Það er ýmislegt í þjóðfélagi okkar, sem fyrirsögn vefgreinar þessarar á við um.  Eitt það alvarlegasta af þessu tagi eru boðaðar skattahækkanir sameignarsinnanna í ríkisstjórn, sem vikið verður að hér á eftir. 

Fyrst verður þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um stakkaskiptin, sem orðið hafa á blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, við ritstjóraskiptin á blaðinu haustið 2009.  Nú er málvöndun, framsetning máls og efnistök með allt öðrum hætti og mun rismeiri en áður var, vettvangur ritstjórnar orðinn skýr og tæpitungulaus, stundum með skáldlegu ívafi og hnyttni, en laus við orðagjálfur og holtaþokuvæl, sem áður vildi brenna við.  Þá hefur hortittum og ambögum stórlega fækkað í blaðinu.  Að hlakka til að fá sinn Mogga í morgunsárið var liðin tíð, en sú tilfinning kom að nýju sama dag og ritstjóraskiptin urðu, og er slíkt þakkarvert í skammdeginu, þegar fátt eða ekkert gerist upplyftandi á hinum opinbera vettvangi. 

Mánudaginn 9. nóvember 2009, sem er sigurdagur frelsis, sameiningar Þýzkalands og afmælisdagur falls ógnarstjórnar sameignarsinna í A-Evrópu, birtist í Morgunblaðinu stutt forystugrein, "Dýraverndunarmenn vantar", sem eru orð í tíma töluð:

"Skotveiðitíminn er hafinn.  Ekki er amast við því að haldið sé til veiða eins og hefðbundið er.  En veiðiskapur er í eðli sínu frek aðgerð og afdrifarík fyrir þá lífveru sem er vitlausu megin við hlaupið. Hún er vissulega lögum samkvæmt réttdræp.  Þótt við þær aðstæður sé ekki mikið réttlæti eftir er það þrátt fyrir allt dálítið og það litla verður að virða. Sjálfsagt átta flestir skotveiðimenn sig á þessari lágmarkskröfu.  En það birtast reglulega fréttir af byssubullum sem engu eira.  Jafnvel alfriðuðum dýrum er ekki þyrmt.  Og atgangurinn gagnvart þeim ófriðuðu er einnig á stundum viðurstyggilegur.  Þessir sambýlingar okkar á þessu kalda landi, sem heyja svo harða lífsbaráttu, jafnvel utan veiðitímabils, verða að eiga bandamenn.  Þeir sem að lögum mega veiða þessar skepnur verða að átta sig á að leyfi til dráps er vandmeðfarin undantekningarregla. Meginreglan er að virða hvern þann sem lífsanda dregur.  Og ef undantekningarreglan er nýtt verður að gera það með þeirri gætni og mildi sem jafnvel við slíkar aðstæður er hægt að sýna."  

Svo mörg voru þau orð, og er engu við að bæta sneið þá og áminningu, er þeir taki til sín, er eiga.  Dráp þau á villtum dýrum, sem viðgangast í þessu landi, eru drápsmönnum og kvölurum dýranna til lítils sóma, og ættu þeir hinir sömu að lesa ofangreinda forystugrein Morgunblaðsins kvölds og morgna sér til sálubótar. 

Hér er að mati höfundar um stórfellt umhverfisverndarmál að ræða.  Hefur nokkur heyrt umhverfisráðherra minnast á það, eða nokkuð annað, sem til raunverulegrar og gagnlegrar umhverfisverndar má telja ?  Auðvitað ekki.  Hinn vinstri sinnaði umhverfisráðherra snýst umhverfis sjálfa sig og notar embætti sitt til að koma í veg fyrir nýtingu orkulindanna og flutning á raforku frá virkjunarsvæðum til notenda. 

Kjósendur verða að minnast þess í kjörklefanum næst, hvernig sótsvart afturhald og ofstækisfullur framfarahemill hefur þvælzt fyrir orkuvinnslu og orkuflutningum og lengt þannig og dýpkað kreppuna.  Komið hefur fram opinberlega hjá forstjóra Magma Energy, að honum hafi ofboðið ruddaleg framkoma fjármálaráðherra landsins í sinn garð og annarra erlendra fjárfesta.  Slíkir hemlar gagnast ekki almenningi, þeir eru landsmönnum til skammar og draga lífskjör hérlendis niður í svaðið.  Við þurfum ekki á slíkum valdsmönnum að halda, sízt af öllu nú, þegar ríður á að fá vind í seglin til að losa skútuna af strandskerinu og að koma öllu vinnufúsu fólki út á vinnumarkaðinn, en ekki á svarta markaðinn, eins og vinstri flokkarnir stefna nú hraðbyri að.  

Hagfræðingar og stjórnmálamenn hinna borgaralegu afla á Íslandi, sem brýnt er, að taki hið fyrsta við völdunum aftur í Stjórnarráðinu til að vinda ofan af allri bölvaðri vitleysunni, hafa margsýnt fram á, að skattastefna vinstri manna, fikt þeirra við skattkerfið og hrikaleg aukning skattheimtu, er við núverandi aðstæður (og jafnan endranær) óþarft og skaðlegt.  Borgaraleg öfl boða lausnir á halla ríkissjóðs, sem fólgnar eru í að nýta skattainneign hjá lífeyrissjóðunum, laða að erlendar fjárfestingar og að ýta undir veltu og umsvif til að skapa vinnu og að stækka þjóðarkökuna auk sparnaðar í opinberum rekstri.  Þetta er leið framsækni og róttækni í stað doða, drunga og afturhalds sameignarsinnanna við stjórnvölinn. 

Sameignarstefnan og skattgreiðendur Eina röksemd ríkisstjórnar sameignarsinna fyrir gáleysislegum hækkunum óbeinna og beinna skatta er sú, að þar með nálgist Ísland norræna velferðarkerfið.  Þetta er fádæma heimskulegt yfirklór rökþrota ríkisstjórnar.  Þeir, sem búið hafa á hinum Norðurlöndunum, vita, að skattakerfi þeirra er gengið sér til húðar, það er ósjálfbært, þ.e. aðeins olíuauður Norðmanna og Dana gat staðið undir því.  Það lá við þjóðargjaldþroti í Svíþjóð vegna gegndarlausra lántaka sænska ríkissjóðsins á 10. áratug 20. aldar.  Nú ráða borgaraleg öfl í Svíþjóð, og þeim hefur tekizt að snúa taflinu við.  Flestir norrænir hagfræðingar gagnrýna háa skattheimtu og fjölþrepa skattkerfi harðlega á þeim forsendum, að þetta fyrirkomulag sé hagvaxtarletjandi og sé í raun fátæktargildra.  Að líkja óskapnaði íslenzkra sameignarsinna við svo nefnt norrænt skattakerfi er annaðhvort reist á vanþekkingu (heimskt er heima alið barn) eða vísvitandi blekkingum, því að boðað skattkerfi sameignarsinnanna felur í sér mun brattari stigul skattheimtunnar með hækkandi tekjum og miklu lægri laun í hæstu þrepum stigans á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.   

Nú er gamall draumur Steingríms Jóhanns Sigfússonar að rætast.  Hann barðist gegn skattalækkunum borgaralegu flokkanna fyrir nokkrum árum, og hann hefur boðað hækkaða skattheimtu árum saman.  Hrun fjármálakerfis heimsins var honum skálkaskjól eitt.  Hér hafa hann og sameignarsinnar vinstri flokkanna afhjúpað sitt rétta eðli.  Það er þetta:

Sameignarsinnar líta ekki á fólk sem frjálsa einstaklinga, heldur sem þræla ríkisins.  Það, sem þrælar ríkisins kunna að vinna sér inn, skal að mestu leyti af þeim tekið, og það látið ganga til hins opinbera.  Þrælunum skal ekki leyfa að eignast neitt, ómagar skulu þeir vera, og rétt skrimta af launum sínum, en hinum vera skammtaður skítur einn úr hnefa ríkisins.  Þetta er kjarni sameignarstefnu Hugo Chavez og Steingríms Jóhanns með rætur hjá Marx og Lenín og endar altaf með ósköpum. 

Það er ömurlegt, að sameignarsinnar skuli hafa náð tökum á ríkisvaldinu á Íslandi nú 20 árum eftir siðferðislegt og fjárhagslegt gjaldþrot alræðisríkja sameignarstefnunnar í Evrópu.  Sá er munurinn á Íslandi og téðum alræðisríkjum, að Stjórnarskrá Íslands tryggir Íslendingum réttinn til að skipta um valdhafa með lýðræðislegum hætti.  Það er ekki nokkrum vafa undir orpið, að sameignarsinnarnir íslenzku grafa sér nú sína eigin gröf.  Það mun koma í hlut borgaralegra afla að stugga við þeim og kasta rekunum. 

Nú kann einhver að hugsa með sér, að hin harða gagnrýni á ríkisstjórnina komi einvörðungu frá íslenzkum hægri mönnum.  Svo er alls ekki.  Gagnrýnin á vinstri stjórnina kemur úr öllum áttum, nú síðast frá bandaríska matsfyrirtækinu Moody´s og Svíanum Mats Josefsson.  Moody´s færði lánshæfismat ríkisins niður að ruslflokki, og Mats Josefsson kveður ríkisstjórnina ekkert hafa lært af öðrum og segir í raun, að hún kunni ekkert til verka, að verkstjórnin sé í skötulíki.  Í stuttu máli; það, sem frá ríkisstjórninni kemur, er bæði of lítið og of seint.  Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin ræður ekki við viðfangsefni sín, hún er sett á tossabekk með tossaeinkunn frá viðurkenndum prófdómurum.

Dæmi um umsögn ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, Mats Josefsson, um endurreisn fjármálakerfisins, sem dregizt hefur lengur hérlendis en t.d. í Tyrklandi, sem ekki þykir vera á meðal skilvirkustu ríkja: "Svo virðist sem endurreisn efnahagslífsins sé ekki í forgrunni hjá stjórnvöldum þessa dagana.  Skortur á pólitískri ákvörðunartöku er það sem helst stendur í vegi fyrir viðreisn íslensks efnahags um þessar mundir." 

Skjaldarmerki lýðveldisinsÞessi fremur kurteislegu orð má túlka þannig: ríkisstjórnin kann ekki að forgangsraða málum eftir mikilvægi þeirra.  Ríkisstjórnin er óhæf til að leysa efnahagsvandann og koma landinu á réttan kjöl að nýju.  Ályktunin af því, sem dregið hefur verið saman í vefgrein þessa, er, að til að forða óstöðvandi atgervisflótta og þjóðargjaldþroti, verður ríkisstjórn sameignarsinna að játa sig sigraða, hún er ekki vandanum vaxin og verður strax að axla sín skinn.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinbjörn Ragnar Árnason

Íslendingar, í dag föstudag 13.11.2009, kl 12:00 tökum við mótmælastöðu fyrir utan Félagsmálaráðuneytið. Mætum öll. 

Klanið burt

Sveinbjörn Ragnar Árnason, 13.11.2009 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband