Miðstétt í sigti vinstri stjórnar

Miðstéttin ber uppi íslenzka þjóðfélagið, eins og títt er annars staðar á Vesturlöndum.  Víðast hvar annars staðar hafa stjórnvöld reynt að hlúa að miðstéttarfólki landa sinna í fjármálakreppunni og síðar efnahagskreppunni, sem riðið hefur yfir heiminn.  Stjórnvöld eru þar í ætt við hyggna bændur, sem kunna að yrkja jörðina til að hámarka afrakstur hennar til langframa. Hérlendis hafa stjórnvöld hins vegar gengið í skrokk á þessari miðstétt, eins og hverjir aðrir búskussar, sem ofnýta jarðir sínar með æ rýrari eftirtekju.  

Vinstri stjórnin hefur hækkað miskunnarlaust álögur á þeim, sem áður greiddu hæst opinber gjöld.  Um leið snýr hún sannleikanum á haus með því að kalla gjörninginn jafnrétti og réttlæti.  Með þessu stráir hún salti í sár miðstéttarinnar. Það er argasta ójafnrétti að heimta misháan skatt af fólki í hlutfalli við tekjur.  Jöfnun hins opinbera fer fram með bótum ýmiss konar.  Með stighækkun tekjuskatts er ríkisstjórnin að refsa fólki fyrir aukið vinnuframlag.  Hún dregur úr sjálfsbjargarhvöt og hvetur óbeint til undanskota.  Ríkisstjórnin ýtir undir spillingu.

Það er ekki nóg með þetta, heldur hafa skötuhjúin, forsætisinna og fjári, lagt til miðstéttarinnar með svigurmælum um, að hún hafi borið óþarflega lága skatta, þegar borgaraleg öfl réðu ríkisvaldinu, og sé þar af leiðandi aflögufær og sízt of góð til að bæta á sig byrðum.  Með öðrum orðum er miðstéttin í skotlínu frethólka vinstri flokkanna um þessar mundir og verður útrýmt að hætti sameignarsinna, verði ekki rönd við reist.  

 

Flosagjá - 2009Þessi þróun þarf engum að koma á óvart.  Sameignarsinnum hefur jafnan legið þannig rómur til miðstéttarinnar, að hún væri ekki til annars en að verða skítnýtt af ríkisvaldinu. "Frá öllum eftir getu og til allra eftir þörfum" var slagorð Marxismans, jafnloðið og teygjanlegt og það nú er.  Þessa þarf miðstéttin að minnast næstu misserin og framvegis, þegar hún gengur að kjörborðinu, og munu þá vinstri forkólfarnir ekki kemba hærurnar á valdastólunum, heldur bera beinin á eyðimerkurgöngu löngu úreltra og algerlegra misheppnaðra fræðikenninga um skiptingu auðsins

Hin borgaralegu öfl í stjórnmálunum hafa skilning á því, að hlúa þarf að miðstéttinni, því að hún myndar grundvöll nútímasamfélagsins.  Verði hún reyrð í viðjar skattaáþjánar vinstri manna á Alþingi, stórskuldug eins og hún er um þessar mundir, þá munu hjól atvinnulífsins stöðvast, atgervisflótti bresta á, skattstofnar rýrna og skatttekjurnar skreppa saman.  Þetta er skýringin á því, að borgaraleg öfl berjast, gegn ofurefli á þingi í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar, fyrir annarri og skynsamlegri leið fyrir skattborgarana, þ.e. að nýta þegar stofnaða skattainneign í lífeyrissjóðunum.  Heybrækur vinstri stjórnarinnar treysta sér ekki til atlögu við ormagryfju "bossa" lífeyrissjóðanna.  Þá snerru verða þingmenn hins vegar að taka fyrr en síðar, því að miðstéttin er að þrotum komin.  Til þess eru borgaraleg öfl í landinu í stakkinn búin.  

Sameignarsinnar eru jafnan með jafnrétti á vörunum, eins og alkunna er, en ástunda örgustu mismunun og óréttlæti í raun.  Óþarft er að minnast á frasann um gegnsæið, en allt atferli vinstri stjórnarinnar og þingmanna hennar einkennist af pukri og leyndarhyggju.

Eitt andstyggilegsta dæmið um tvískinnunginn er misnotkun skattkerfisins í skjóli bábilju um, að skattakerfið sé tekjujöfnunartæki.  Með því að rugla saman hinu raunverulega hlutverki skattkerfisins að afla hinu opinbera tekna annars vegar og "tekjujöfnun" hins vegar, sem engan veginn er hlutverk stjórnmálamanna að ráðskast með, eyðileggja þeir skattkerfið.  Með eyðileggingu er hér átt við lakari skilvirkni og rýrari skattstofna, þ.e. minnkandi skatttekjur og mjög mikið óréttlæti, sem raskar öllum fjárhagsáætlunum fjölda manns.

Það er miðstéttin, sem ræður kosningaúrslitum á Íslandi eins og annars staðar, þar sem henni hefur vaxið fiskur um hrygg.  Með því að opinbera fjandskap sinn við miðstéttina í verki, grafa vinstri flokkarnir nú sína eigin gröf.  Forysta þeirra er hins vegar of forstokkuð og steinrunnin til að átta sig á, að hún hefur nú með fjandsamlegu tali og vítaverðum gjörningum, sem leggja þungar byrðar á miðstéttina nú á krepputímum og um mörg ókomin ár, málað sig út í horn og er í raun orðin heimaskítsmát í upphafi kjörtímabils. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Trúir þú sjálfur þessu endemisbulli í sjálfum þér?

Jóhannes Ragnarsson, 21.11.2009 kl. 22:17

2 Smámynd: Anna Guðný

Stór hluti af þessu eins og talað úr mínum munni. Langar að fylgjast með skrifum þínum áfram. Bið því hér með um bloggvináttu.

Hafðu það gott

p.s. Skil samt alvg af hverju Jói er ekki sammála þér.

Anna Guðný , 22.11.2009 kl. 01:26

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er af því að Jói er læs. Ef einhver stæði inni í hjartanu mínu og talaði svona útúr því væri ég sannarlega illa haldinn.

Gísli Ingvarsson, 22.11.2009 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband