Álspjall

Hin sanna íslenzka útrás í upphafi 21. aldarinnar á sér nú stað með íslenzkri verktöku erlendis.  Í Abu Dhabi, sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum við Persaflóann, starfar um þessar mundir einn tugur verk-og tæknifræðinga frá einni verkfræðistofu í Reykjavík.  Nýlega barst höfundi mynd af þeim ásamt forseta lýðveldisins frá kollega þar, sem tekin var 23.11.2009. 

Tæknimennirnir íslenzku höfðu unnið við hönnun og vinna nú að gangsetningu á fyrsta áfanga 1,4 Mt/a (milljón tonna afkastageta á ári) álvers í Abu Dhabi, EMAL, og á þessi fyrsti áfangi að framleiða 0,7 milljónir tonna áls, sem er litlu minna magn en nemur ársframleiðslugetu álvera á Íslandi um þessar mundir.  Sýnir þetta vel, hversu lítil íslenzku álverin eru.  Þegar búið verður að ryðja sótsvörtu afturhaldinu úr vegi, verður hægurinn á að tvöfalda framleiðslugetuna hérlendis.

Upplýsingar úr Seðlabanka Íslands benda til, að okkur sé ekki til setunnar boðið, þó að ríkisstjórnar viðundrið sitji sem fastast með hendur í skauti.  Til að standa undir vöxtum og afborgunum erlendra lána þarf að tvöfalda gjaldeyrisafganginn.  Þetta þýðir þó auðvitað ekki, að tvöfalda þurfi útflutningstekjurnar, en þær þurfa að vaxa hér um bil um fjórðung.  Með öðrum orðum þarf viðskiptajöfnuðurinn við útlönd að tvöfaldast og verða um ISK 160 milljarðar.  Til þess þurfa allar þrjár undirstöðurnar að vaxa, þ.e. tekjur af ferðamönnum, fiskútflutningi og iðnaði.  Landbúnaðurinn þarf að eflast líka til að spara gjaldeyri.  Hlýnandi loftslag bætir samkeppnistöðu hans.  Jákvæð teikn eru á lofti um sjávargæftir, og er réttlætanlegt að taka áhættu með auknum kvóta í núverandi stöðu efnahagslífsins og markaðsverð sjávarafurða.  Þá mun tækniþróunin senn leiða til hagstæðra rafmagnsfartækja, sem létta munu byrðarnar af eldsneytiskostnaði, nema ríkisstjórnin geri verð innlendrar orku óbærilegt.  Stjórnvöld vita ekki, hvað þau gera, enda verða borgaraleg öfl að láta verða eitt af sínum fyrstu verkum eftir valdatökuna að vinda ofan af skattaáþján vinstri flokkanna.  Aldrei aftur vinstri stjórn !

Til að koma fjölbreytilegum hópi fólks til vinnu og auka gjaldeyrisstreymi til landsins er áhrifaríkast nú að hefja virkjunarframkvæmdir, línulagnir og byggingu álvera.  Álmörkuðum er spáð bjartri framtíð með meðalverði 2500 USD/t, svo að það er ekki eftir neinu að bíða, nema nýjum valdhöfum, sem kunna til verka, skilja lögmál efnahagslífsins, hafa frambærilega framtíðarsýn og geta veitt þessu landi  forystu.  Sigurhátíð

Ál leikur stórt hlutverk við að draga úr losun CO2 frá samgöngutækjum.  Kostir áls koma ekki einvörðungu fram á notkunartímabili fartækisins, heldur ekki síður, þegar að förgun þess kemur.  Óendanleg endurvinnsluhæfni áls ásamt förgunarverðmæti þess og lítilli orkuþörf við endurvinnsluna gerir álið afar aðlaðandi og samkeppnihæft fyrir léttvigtarlausnir í samgöngugeiranum. 

Hönnuðir bílaiðnaðarins nota sífellt meira af áli í bíla sína.  Hingað til hefur ál aðallega verið notað af bílaiðnaðinum í steypta hluti eins og vélarhús og gírkassa.  Á síðustu árum eru verkfræðingar teknir að nýta ál á mun fleiri sviðum bílaframleiðslunnar. 

Létt samgöngutæki leggja sitt að mörkum í baráttunni við hlýnun jarðar.  Þetta á t.d. við um fólksbíla, pallbíla og strætisvagna.  Að meðaltali sparar eitt kg af áli eftirfarandi massa af CO2 yfir endingartíma farartækisins:

  • 20 kg í fólksbílum
  • 28 kg í stærri einkabílum (pallbílum, jeppum)
  • 45 kg í strætisvögnum

Þegar þess er gætt, að beztu álver, t.d. hérlendis, losa einvörðungu 1,7 kg gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu hvers kg áls, fer ekki á milli mála, hversu gríðarlega umhverfisvæn framleiðsla á hér í hlut.  Máttur peninga

Samkvæmt nýlegri skýrslu Ducker í Þýzkalandi er meðaltals massi áls í evrópskum bíl 124 kg árið 2009.  Aukningin hefur numið um 10 % árlega undanfarinn áratug.  Ál er klárlega hluti af lausn samgöngugeirans í viðleitni hans við að nálgast sjálfbærni.  Hér er ekki um neitt smáræðis magn að ræða.  Bílaiðnaður heimsins mun senn þurfa um 10 Mt/a Al, sem er fjórðungur heimsframleiðslunnar.  Heimseftirspurnin eykst um 1,6 Mt/a Al, og þar af eykst eftirspurn samgöngugeirans um 1,0 Mt/a Al.  Þessi þróun mun knýja fram hátt jafnvægisverð áls eða um 2500 USD/t.  Íslendingar geta með núverandi áformum sínum aukið framleiðslu sína um 700 kt/a Al eða um 80 %.  Söluverðmæti þeirrar aukningar nemur um MUSD 1750 eða ISK 220 milljörðum.  Af því munu sitja um ISK 88 milljarðar eftir í landinu.

Fjölgun erlendra ferðamanna um 100 þúsund á ári og aukning aflaverðmæta sjávarútvegs sem nemur 50 kt/a þorskígilda, gæfi þjóðarbúinu nettó um 15 milljarða. 

Af þessu sést, að sú viðbótar gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, sem Seðlabankinn telur nauðsynlega til að standa í skilum við útlönd, þ.e. um ISK 100 milljarðar, er gerleg.  Hún er hins vegar algerlega ógerleg, ef stjórnvöld fylgja eftirfarandi stefnu:

  • forðast ber erlendar fjárfestingar á Íslandi, eins og heitan eldinn
  • þvælast skal fyrir öllum framkvæmdum í landinu, sem öfgahópar í skúmaskotum þjóðfélagsins leggjast gegn
  • gera skal marxískar tilraunir með eignaupptöku á útgerðum landsins
  • slá skal fyrri met vinstri stjórna á Íslandi í skattheimtu, beinni og óbeinni, af heimilum, fyrirtækjum og erlendum ferðamönnum landsins

Einmitt þetta er stefna þess fyrirbrigðis, sem nú vermir stóla Stjórnarráðsins.  Á meðan sú staða er uppi, eru okkur allar bjargir bannaðar.  Lágkúrulegustu og ámáttlegustu ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar verður sem fyrst að urða í minningunni einni saman með öllu sínu hafurtaski.  Þjóðin hefur nú verið bólusett gegn vinstri veikinni í einn mannsaldur.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman að heyra að hér er umbúðarlaust talað um að "hægurinn verði á að ryðja sótsvörtu afturhaldinu úr vegi hér á landi og tvöfalda álframleiðsluna."

Jú, öll fáanleg orka landsins á að fara í þetta og að engu höfð þau náttúruverðmæti sem eyðileggja þarf til þess.

Líka er gaman að sjá setninguna "réttlætanlegt að taka áhættu", sem var undirstaðan undir "gróðæris"fylleríinu sem hófst með Kárahnjúkum og húsnæðissprengingu og endaði með bankahruninu.

"Hönnuðir bílaiðnaðarins nota sífellt meira af áli í bíla sína." Engin rök eru færð fyrir þessari fullyrðingu sem er varpað fram eins og fleiru í þessum pistli.

Líka er gaman að vera flokkaður sem meðlimur í "öfgahópum í skúmaskotum þjóðfélagsins sem þvælast gegn öllum framkvæmdum í landinu."

Ég er um þessar mundir að reyna að fá menn til að þyrma einu af sex fyrirhuguðum virkjanasvæðum á Norðausturlandi og skal teljast "öfgamaður" fyrir það.

Hér syðra er ég í hópi þeirra sem vilja þyrma einu af fimm fyrirhuguðum virkjanasvæðum á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu og telst meðlimur í "öfgahópi" fyrir það.

Þeir sem vilja virkja allt alls staðar eru hins vegar taldir hófsemdarmenn.

Þeir sem vilja að öll orkan fari í eina tegund orkunotkunar eru hófsemdarmenn. 9 af 10 eggjum skulu í sömu körfuna.

Við, sem viljum ekki láta alla orkuna fara í mesta hugsanlega orkubruðl nútimans heldur hleypa skaplegri, hagkvæmari, umhverfisvæni og minni kaupendum að, erum taldir "öfgamenn".

Gaman að lesa þetta. Takk fyrir.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2009 kl. 03:18

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir áhugaverða grein Bjarni. Þar kemur bæði fram nauðsyn þess að auka útflutningstekjur okkar svo við náum að standa í skilum á næstu árum,  og leið til að koma þjóðarskútunni á flot, en hún hefur setið pikkföst  í rúmt ár á strandstað og sekkur bara dýpra og dýpra í sandinn.

Þú minnist einnig á aukna notkun áls í farartæki til að minnka losun á CO2. Einnig fjallar þú aðeins um aukna ferðamennsku, en hve mikið ætli erlendir ferðamenn sem heimsækja ísland eigi stóran þátt í losun CO2? Þá á ég fyrst og fremst við flug með þá til og frá Íslandi? Hvernig ætli það sé í samanburði við losun álveranna?

Ágúst H Bjarnason, 28.11.2009 kl. 09:50

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla ekki að blanda mér í þetta veikindakast álverssinna að sinni. En spyr: er nokkur hætta á losun koltvísýrings í flutningi hráefnis og afurða með skipum yfir hálfan hnöttinn?

Mér er sagt að álveikin sé ólæknandi nema með heilbrigði skynsemi sem komi innan frá.

Árni Gunnarsson, 28.11.2009 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband