Utanríkismál á krossgötum

Það hefur hvað eftir annað undanfarinn áratug komið í ljós, að Ísland verður að reka sjálfstæða utanríkisstefnu til að vernda hagsmuni sína, og getur engan veginn reitt sig á stuðning hinna vestrænu bandamanna sinna, þegar hagsmunir rekast á, og hagsmunir nágranna rekast fremur á en annarra. 

Alþingi öðlaðist forræði utanríkismála landsins með Lýðveldisstofnuninni 17. júní 1944, og alloft á lýðveldistímanum hefur þetta komið í ljós og einna skýrast við útfærslur landhelginnar.  Þá mættum við jafnan harðri andstöðu öflugra Evrópuþjóða, en vinsemd og stuðningi Bandaríkjanna (BNA) og Ráðstjórnarríkjanna. Ekki þarf að orðlengja hörmulega framkomu Breta og stuðningsleysi Norðurlandanna, nema Færeyinga, þegar himinninn hrundi yfir Ísland í októberbyrjun 2008. Samstaða með Íslandi á meðal hefðbundinna bandamanna er af mjög skornum skammti, nema komi til hernaðaraðgerða gegn Íslandi, þá treystum við því, að 5. grein stofnsamnings NATO verði virkjuð.

Stofnaðild að NATO 1949 olli heiftúðugum deilum hérlendis ásamt sérstökum varnarsamningi við BNA, en hefur reynzt landinu farsællega.  Engu að síður tóku bandarísk hermálayfirvöld einhliða ákvörðun um að leggja niður herstöðina á Miðnesheiði 2006.  Varnarlega skákum við hins vegar í skjóli 5. greinar stofnsamþykktar NATO um, að árás á einn jafngildi árás á öll aðildarlöndin.  Í sambandi við ögrandi atferli Rússa í Evrópu undanfarið, sem að töluverðu leyti er líklega ætlað til "heimabrúks" þar í landi, þó að einhliða breytingu á landamærum sé ekki hægt að samþykkja, hafa hins vegar vaknað efasemdir um, að þetta ákvæði haldi.  Hafa verið gerðar skoðanakannanir í sumum NATO-landanna, og í sumum þeirra er meirihluti svarenda andvígur því að koma t.d. Eystrasaltslöndunum til hjálpar, ef Rússar gera þar innrás.  Má þar nefna Þjóðverja og Frakka, en Engilsaxarnir vilja flestir standa við þetta grundvallar ákvæði, enda stendur NATO og fellur með því.  Við sjáum þó af öllu þessu, að allt er í heiminum hverfult.

Meirihluti Íslendinga styður líklega enn aðild að NATO, og svo er um þennan arma blekbera. Þetta þýðir það, að taki Vesturveldin ákvörðun um það að fara í viðskiptastríð við Rússa til að veikja efnahag þeirra og hernaðarmátt, t.d. með allsherjar banni við útflutningi á vörum og þjónustu til Rússlands og/eða banni við innflutningi þaðan, þá verða Íslendingar að taka þátt í því undanbragðalaust og bera sínar byrðar, sem af slíku leiðir.

Núverandi viðskiptahömlur Vesturveldanna á Rússa eru hins vegar mjög valvísar og snerta íslenzkan útflutning ekki neitt.  Það var þess vegna alger óþarfi af íslenzkum yfirvöldum að vera með á lista um þjóðir, sem setja viðskiptahömlur á Rússa. Með öðrum orðum hefði fjarvera Íslendinga af lista þessara þátttökuþjóða engu breytt, og við þurfum hið snarasta að hverfa af honum. Við hefðum á sinni tíð, og getum enn, getað gefið út yfirlýsingu um, að íslenzk yfirvöld mundu sjá til þess, að téðar bannvörur og -þjónusta færu ekki um Ísland, enda séum við andvíg breytingum á landamærum í Evrópu með hervaldi, eins og óyggjandi átti sér stað á Krím og í Austur-Evrópu að hálfu Rússa. 

Nú hafa Rússar ákveðið að refsa bannþjóðunum með því að banna innflutning matvæla frá þeim.  Þetta bann kemur harðast niður á Íslendingum með tapi á gjaldeyristekjum, sem gæti numið 1 % - 2 % af VLF, þegar upp verður staðið. Komið hefur fram, að yfirvöld í ESB-ríkjunum eða ESB-sjálft, og e.t.v. Bandaríkjastjórn, muni bæta útflutningsaðilum hluta tjónsins.  Á sama tíma halda þessi ríki úti viðskiptahamlandi gjaldtöku á Ísland fyrir þessar sömu vörur og hafa ekki viljað koma til móts við sjónarmið Íslendinga um skiptingu deilistofna.

Staðan er sú, að Íslendingar og Rússar hafa þróað markað í Rússlandi fyrir vöru, sem Vestur-Evrópa kærir sig lítt um.  Þar að auki eru þessi sömu Vestur-Evrópulönd andvíg veiðum okkar á þeim flokkustofnum, sem hér um ræðir, en miklir hagsmunir eru í húfi, eins og áður segir.  Rússar hafa sem sagt hlaupið undir bagga með Íslendingum, þegar þeir áttu ekki í önnur hús að venda vegna andstöðu og beinna markaðslegra kúgunaraðgerða Vestur-Evrópu.  Við þessar aðstæður hvílir hvorki á okkur siðferðis- né viðskiptaleg skylda til að sýna málamynda samstöðu með þvingunaraðgerðum Vesturveldanna gagnvart Rússum.  Miklu fremur ber okkur að sýna Rússum vinarþel, og ekki að storka þeim að óþörfu, þó að enginn vafi sé á, hver afstaða okkar verður, ef í harðbakka slær.

Hitt er annað mál, að lágt olíu- og gasverð hefur veikt mjög efnahag Rússlands með slæmum afleiðingum fyrir kaupmátt almennings, hárri verðbólgu, háum vöxtum og gengisfalli rúblunnar.  E.t.v. er bann Rússa nú við matvælainnflutningi liður í gjaldeyrissparandi átaki og til að þvinga fram aukna matvælaframleiðslu í Rússlandi.

Íslenzka utanríkisþjónustan þarf að komast að því, hvort hægt verði að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið í viðskiptum Íslands og Rússlands, ef Ísland lætur af beinum stuðningi við þessar viðskiptaþvinganir.  Ráðuneytið hreyfir hins vegar hvorki legg né lið, af því að ráðherrann hefur lýst því yfir, að ekki komi til mála að hverfa frá þessum stuðningi. 

Ráðherrann er frosinn í kaldastríðsafstöðu, sem er Íslandi mjög óhagstæð, hvernig sem á málið er litið, og það sem verra er, hún er öðrum fullkomlega gagnslaus.  Af þessum ástæðum verður að koma til kasta Alþingis.  Þingið eitt getur komið hreyfingu á þetta mál til hins betra með fyrirskipun til ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum vantrauststillögu á ráðherrann.  Vill Framsóknarflokkurinn fara í kosningar nú út af þessu máli, eða fórnar hann biskupi fyrir vænlegt endatafl ?  Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með afstöðu þingmanna til þessa máls.  Hér er alvöru mál á ferðinni, sem reynir á þá, og þeir taka vonandi afstöðu á grundvelli, sem Stjórnarskráin mælir fyrir um.   

Á bak við tjöldin þarf að gera yfirvöldum í Brussel, Berlín, London og Washington ljóst, að um sé að ræða nauðvörn að okkar hálfu, og hyggi Vesturveldin á einhvers konar refsingar, muni það óhjákvæmilega hrekja okkur til að huga að endurskoðun á viðskiptatengslum í austur og vestur.  Þetta er það, sem kallast sjálfstæð utanríkisstefna. Engir taglhnýtingar viljum vér vera.  

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

 Höfum í stjórnarskrá að það sé óheimilt  að veita stuðning fyrir hönd þjóðarinnar við árás á aðra þjóð eða kúgun hvers konar, viðskiptalega eða hernaðarlega.

Snorri Hansson, 20.8.2015 kl. 01:41

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta lítur ekki illa út, Snorri, en gæti stangast á við veru Íslands í NATO.

Bjarni Jónsson, 20.8.2015 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband