Borgin og Vegagerðin í hár saman

Nauðhyggja, bruðl með skattfé og skipulagslegt fúsk Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er orðið að þjóðfélagsvandamáli vegna stærðar og mikilvægis Reykjavíkurborgar. 

Það steytir á mörgu, þegar skýjaborgir rekast á kostnaðarvitund, arðsemi fjárfestinga og rekstrar og fagleg sjónarmið.  Reykjavík er nú stjórnað af hreinræktuðum skýjaglópum, sem svífast einskis við að koma gerræðislegum áformum sínum í framkvæmd og fjármagna þjóðhagslega óhagstæðar framkvæmdir með því að seilast enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna. 

Sem dæmi þessum fullyrðingum til stuðnings má nefna Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmur, því að hann kemur í stað nýs flugvallar, sem kosta mundi um miaISK 100, hann styttir ferðaleið og ferðatíma þeirra, sem nýta völlinn, og hann þjónar, með þremur flugbrautum, hlutverki varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll, sem sparar millilandaflugvélum talsvert eldsneyti og eykur nettó flutningsgetu þeirra.  Skýjaglóparnir hafa tekið þennan flugvöll út af Aðalskipulagi og ætla að skipuleggja þar íbúðahverfi.  Veðurfarslega er Vatnsmýrin kjörlendi fyrir flugvöll, en það verður mjög dýrt að byggja þar húsnæði, því að djúpt er á fast undir sökkla og náttúrulegu votlendi, flóru og fánu, stendur ógn af þéttbýli í grennd.  Slíkt þéttbýli hlýtur að kalla á dýrar samgöngulausnir, því að barnaskapur er að ímynda sér, að megnið af íbúunum geti nýtt Borgarlínu til allra sinna ferða.  Flugvallarstaðsetning í Hvassahrauni er út í hött t.d. vegna þess, að þar er verndarsvæði fyrir vatnsöflun Suðurnesjamanna.  Flugvöllur og vatnsverndarsvæði fara fráleitlega saman.

Skýjaglóparnir ætla að leggja í allt að miaISK 200 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem á einvörðungu að vera fyrir einhverja nýja tegund almenningssamgangna, hraðvagna á gúmmíhjólum eða járnbrautarlest, sem verður reyndar enn dýrari.  Þetta fyrirbrigði er hugmyndin að tengja við fluglest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvar í Vatnsmýri.  Fluglest þessi er sögð losa miaISK 100 í fjárfestingu, verður vafalaust enn dýrari, sé miðað við svipaðar framkvæmdir erlendis, og er viðskiptalega séð andvana fædd hugmynd, því að fluglest verður ósamkeppnishæf við rafknúnar langferðabifreiðir.  

Ef samstaða er á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að taka frá land fyrir  samgönguæð á milli þeirra, sem virðist líklegt, er nauðsynlegt, að hún fái að þjóna öllum gerðum samgöngutækja og að hugmyndir um léttlest eða einhvers konar hraðvagna aðra en hefðbundna strætisvagna verði lagðar á hilluna.  Með þessu móti getur Borgarlína staðið undir nafni, þjónað öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins og aðkomufólki utan af landi og erlendis frá, og þannig orðið þjóðhagslega arðbær.  Þar með kæmi Vegagerð ríkisins að þessu máli sem hönnunar- og framkvæmdaraðili, sem tryggir nauðsynlega fagmennsku við stórt verkefni.  Fáránlegt samkomulag frá 2009 á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um 1,0 miaISK/ár framleg Vegagerðar til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegn því að fresta öllum samgöngubótum þar til 2018 hefur engu skilað öðru en vaxandi umferðaröngþveiti og slysatíðni, því að markmiðið um 8 % hlut Strætó í fólksflutningum árið 2018 er fjarri því að nást.  Hlutdeild Strætó hefur hækkað úr 4 % í 5 %.  Hvað gera Bakkabræðurnir þá ?  Þeir áforma að fleygja miaISK 200 í Borgarlínu og hækka markmiðið í 12 % árið 2040 !

Undirbúningur Sundabrautar er sýnidæmi um kæruleysi núverandi borgaryfirvalda gagnvart kostnaði borgarinnar og í raun andstöðu þeirra við raunverulegar samgöngubætur, því að þessari nauðsynlegu samgöngubót er teflt í tvísýnu með framferði borgarinnar.  Frá þessu er skýrt í frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 20. maí 2017, "Ytri leiðin er talin 10 milljörðum dýrari":

"Vegagerðin lítur svo á, að Reykjavíkurborg beri að fjármagna aukinn kostnað af lagningu Sundabrautar, verði ódýrasta lausnin ekki valin.  Hér getur verið um 10 milljarða kr kostnað að ræða.  Þetta álit Vegagerðarinnar kemur fram í bréfi, sem Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur sent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar."

Rekstur borgarinnar er í molum og afkoma hennar hefur verið slæm undanfarin ár, nema 2016 vegna góðærisins.  Hún er stórskuldug.  Hvernig ætla Dagur og Hjálmar að fjármagna skuld við Vegagerðina, ef þeir þvinga hana í dýrari kostinn ?  Kannski með því að vísa greiðslum til framtíðarinnar ?

"Í bréfinu segir vegamálastjóri orðrétt: "Nú hafa Vegagerðinni borizt fregnir af því [Dagur og Hjálmar sýndu þá ókurteisi að upplýsa Vegagerðina ekki fyrirfram], að borgin hafi úthlutað lóðum á Gelgjutanga, sem eru á vegstæði Innri leiðar Sundabrautar og mun uppbygging þar útiloka, að hægt verði að velja þann kost fyrir Sundabraut."

Það er ljóst, að þeir, sem með skipulagsmálin fara fyrir Reykjavíkurborg nú um stundir kunna sig engan veginn.  Að semja við byggingabraskara um heimild til að byggja á vegstæði, sem Vegagerðin var búin að mæla með sem fyrsta vali fyrir Sundabraut, án samráðs við Vegagerðina, er tuddaskapur og sýnir jafnframt, að skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hafa engan áhuga fyrir samgönguumbótum við Reykjavík, enda stefna þau leynt og ljóst að því að gera bílstjórum í borginni lífið óbærilegt, svo að þeir "nýti almenningssamgöngutæki" í staðinn. 

"Hér er vegamálastjóri að vísa til samnings, sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, gerði við fasteignafélagið Festi ehf í marz s.l. um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga.  Fasteignafélagið Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og Ingibjargar Kristjánsdóttur.

Í bréfi vegamálastjóra kemur fram, að Reykjavíkurborg hafi frá árinu 2014 látið vinna deiliskipulag af svokallaðri Vogabyggð.  Vegagerðin hafi gert athugasemdir við þessa vinnu á öllum stigum hennar, þar sem lögð var megináherzla á, að ekki yrði ráðstafað lóðum norður að Kleppsmýrarvegi fyrr en fyrir lægi samkomulag milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. 

Orðrétt segir í bréfi Hreins Haraldssonar [vegamálastjóra]:

"Í erindi Vegagerðarinnar til Skipulagssviðs borgarinnar, dags. 26. febrúar 2014, er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr 80/2007, en þar segir: "Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda.  Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar, skal það rökstyðja það sérstaklega."  Umrætt lagaákvæði var ítrekað í síðari erindum Vegagerðarinnar um málið.

Í 3. mgr. vegalaga segir svo: "Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá, sem Vegagerðin telur betri m.t.t. kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar, er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.""

Hér má greina hrokafulla afstöðu Skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkur gagnvart Vegagerðinni, sem virðist vart virt svars, hvað þá, að gefinn hafi verið kostur á lögbundnu samráði.  Hjá Vegagerð ríkisins starfa mestu sérfræðingar landsins í þeim málaflokki, sem hér er til umræðu, þ.e. skipulagning og hönnun meiriháttar umferðarmannvirkja, en borgin hunzar þá, þótt lög standi til annars.  Þetta er gjörsamlega óafsakanleg framkoma hjá Hjálmari Sveinssyni og yfirmanni hans, Degi B. Eggertssyni.  Það vill svo til, að kjósendur í Reykjavík, sem blöskrar þessi framkoma, geta sniðgengið þessa menn í næstu sveitarstjórnarkosningum og sýnt þeim þá þumalinn. 

Nú hafa þeir kumpánar séð sitt óvænna, því að þeir óttast, að Samgönguráðherra muni halda þeim við efnið og skikka borgina til að greiða fyrir afglöp fúskaranna:

"Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. marz síðast liðinn var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja viðræður við ríkið vegna Sundabrautar.  Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina."

Í Morgunblaðinu 20. maí 2017 birtist Baksviðsgrein eftir Baldur Arnarson, blaðamann, undir þeirri skelfilegu fyrirsögn:

"Reykjavíkurflugvöllur muni víkja". 

Núverandi meirihluta borgarstjórnar dreymir um það, en allar samgöngutæknilegar forsendur fyrir slíkri ákvörðun vantar.  Þvert á móti er öflugra innanlandsflug forsenda fyrir meiri dreifingu erlendra ferðamanna um landið.  Á Keflavíkurflugvelli hefur SV-NA flugbraut ekki verið tekin í brúk og ekki eru nein tök á að bæta innanlandsflugi við oflestaða flughöfn, enda fer ekki vel á slíku samkrulli þar.  Ekki má gleyma, að Færeyjaflug, Grænlandsflug og nú flug til Írlands er stundað frá Reykjavíkurflugvelli, svo að ekki sé minnzt á kennsluflug og einkaflug. 

Í téðri Baksviðsgrein er vitnað í Dag B. Eggertsson um mislæg gatnamót:

"Við erum búin að skoða, hverju það [mislæg gatnamót]myndi skila fyrir umferðina, og það er sáralítið.  Það myndi bara flytja vandamálin á næstu gatnamót.  Þess vegna þurfum við að hverfa frá gömlu hugsuninni frá 1960, eins og meira og minna öll borgarsvæði í heiminum hafa gert, og innleiða afkastameiri almenningssamgöngur, fjölbreyttari ferðamáta og gefa fólki val um, hvernig það vilji komast til og frá vinnu."

Það er ljóst af þessum ummælum, að þarna talar fúskari í umferðarskipulagningu.  Mestu sérfræðingar á því sviði hérlendis starfa hjá Vegagerðinni, og hún mælir enn með mislægum gatnamótum til lausnar á umferðarhnútum.  Hún er t.d. tilbúin til að reisa mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, strax og Reykjavíkurborg heimilar slíkt, en það verður aldrei, á meðan Dagur og Hjálmar ráða för. 

Fólk hefur miklu fjölbreytilegri erindi en að fara í vinnu og til baka.  Það þarf að selflytja börnin, verzla og sinna öðrum útréttingum.  Þetta er ekki hægt að gera á viðráðanlegum tíma, þótt hraðfara og tíðir vagnar aki eftir einhverjum ásum og síðan strætisvagnar þvert á þá ása.  Fólk er eðlilega ekki reiðubúið að lengja daglegan ferðatíma sinn umtalsvert, og slíkt gengur hreinlega ekki upp í dagskrá margra, svo að ekki sé minnzt á skert þægindi. Af þessum ástæðum er engin spurn hjá almenningi eftir þessu hugarfóstri Dags og Hjálmars.  Þeir ætla að kasta hátt í miaISK 200 í umferðarmannvirki, sem engin not eru fyrir, bara af því að slíkt er í samræmi við stjórnmálaskoðun þeirra.  Það er hægt að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins til næstu 30 ára með 10 nýjum mislægum gatnamótum og viðbótar akreinum á umferðaræðum fyrir brot af þeirri fjárupphæð, sem Borgarlínan í dagdraumum félaganna mun kosta.  Þetta er skýr valkostur, sem ekki mun útiloka neinar lausnir, þ.m.t. einhvers konar Borgarlínu um miðja 21. öldina. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er oft eins og opinberun að lesa skrif þín, Bjarni, sneisafull af upplýsingum og öflugri röksemdafærslu, og svo er einmitt hér, og manni blöskrar oft við lesturinn þetta endemis-fúsk sem virðist ríkjandi hjá Reykjavíkurborg undir stjórn þeirra Dags og Hjálmars.

Þú jarðar eiginlega alla þessa blöskranlegu samgöngustefnu þeirra í eitt skipti fyrir öll. Og nýja, lúmska, en ólöglega skattheimtu munu þeir ekki komast upp með til að fjármagna þessa "Borgarlínu", sem er fyrirfram úrelt, áður en hún kemst í brúk, eins og Frosti Sigurjónsson hefur bent á. Maður er mest hissa á því, að önnur sveitarfélög hafi látið teygja sig út í grufl um þetta með ráðvilltu mönnunum í Ráðhúsinu.

Svo eru flugtæknilegar/veðurfarslegar ástæður sem mæla svo gegn Hvassahrauni sem flugvallarstæði, að það kemur ekki til greina, eins og Þorkell Ásgeir Jóhannesson flugmaður hefur margbent á með góðum rökum.

Það er svo sannarlega ekki lítils virði að eiga ykkur að, félagana!

Það sama er að segja um röklega afstöðu dr. Hreins vegamálastjóra, bekkjarbróður míns og vinar í barna- og unglingaskóla.

Það er sannarlega hægt að bera virðingu fyrir fagmennsku ykkar, en ekki grátbroslegu fúski pólitísku dílettantanna í Ráðhúsinu.

Jón Valur Jensson, 28.5.2017 kl. 05:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Enn fyllist ég auðmýkt við lestur vinsamlegrar og jákvæðrar umsagnar þinnar um vefgrein mína.  Mig undrar, eins og þig, hversu leiðitöm hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru í þessu Borgarlínumáli, því að eftir hraðvögnum eða léttlest er engin eftirspurn á meðal íbúanna.  Hins vegar brenna umferðarteppurnar á þeim, og þess vegna ætti að gera það að skilyrði fyrir Borgarlínu, að þar verði akreinar fyrir allar gerðir fartækja.  Að útiloka einkabílinn þar er sérvizka, sem aðeins Bakkabræðrum er trúandi til.  Við höfum nú fyrir augunum ótrúlega valdníðslu "kverúlanta" af kommakyni, sem ætla að hafa vit fyrir fólki um efni, sem þjónar pólitískum duttlungum þeirra, en stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og viðtekinni fagmennsku á sviði skipulagsmála samgangna og byggðar. 

Bjarni Jónsson, 28.5.2017 kl. 09:09

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Verð svona hálf klökkur að lesa þessi ummæli í hvors garðscry. En lýsi mig algjörlega sammála þessari bloggfærslu.

Jósef Smári Ásmundsson, 28.5.2017 kl. 11:12

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári;

Þakka þér kærlega fyrir.  Það er hægt að komast við að minna tilefni.

Bjarni Jónsson, 28.5.2017 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband