Fullveldisdagur 2007

Rík ástæða er til að gera Fullveldisdeginum hátt undir höfði.  Væri ekki úr vegi að gera hann að opinberum frídegi, t.d. í tengslum við tekjuskattslækkun fyrirtækja úr 18 % í um 10 %-15 %.  Líklegt er, að tekjutoppur Laffer ferilsins sé á þessu bili. 

Ótrúlegur kraftur var leystur úr læðingi meðal þjóðarinnar með heimastjórninni 1904 og fullveldinu 1918.  Í upphafi 20. aldarinnar var íslenzka þjóðin ein sú fátækasta í Evrópu í veraldlegum efnum, og hún var þá hluti af danska ríkjasambandinu.  Nú er lífvænlegast á Íslandi af öllum löndum heims að dómi stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem árlega metur fjöldamörg atriði, sem áhrif hafa á lífsskilyrði fólks. 

Margir mætir menn höfðu lagt hönd á plóginn við að telja kjark í þjóðina að krefjast sjálfstjórnar og fullveldis.  Nægir að nefna Fjölnismenn og Jón Sigurðsson, forseta, og aldrei verður hlutur skáldanna ofmetinn.  Fyrsti innlendi ráðherrann, Hannes Hafstein, blés mönnum kapp í kinn og hleypti af stað fjölmörgum þjóðþrifamálum.  Annað skáld, Einar Benediktsson, var hálfri öld á undan sinni samtíð.

Það var fyrst árið 1969, að hugsýn Einars Benediktssonar, um stórfellda nýtingu orkulindanna varð að veruleika.  Skáldið orti:

"Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör

að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör,-

að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum

svo hafinn yrði í veldi fallsins skör."

Einar Benediktsson var lika mikill kaupsýslumaður.  Fésýsla er þegar orðin ein af þremur meginstoðum íslenzks efnahagslífs.  Þær þrjár greinar, sem bera munu uppi íslenzkt samfélag á fyrsta fjórðungi 21. aldarinnar eru orkuvinnsla og stóriðja, matvælaframleiðsla og fésýsla.  Vaxandi markaðir eru fyrir allar þessar greinar, svo að framtíðin er björt.  Við getum ræktað þessar greinar og þjónað mörkuðunum án fullveldisfórnar til ESB.  Það er engin ástæða til að hleypa framkvæmdastjórn ESB í auðlindastjórnun á Íslandi.  Þar eigum við að leggja til grundvallar sjálfbærni og afturkræfni samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þessara hugtaka, en ekki að láta framandi tilfinningavaðal hafa áhrif á stefnumörkun.  Allar okkar vatnsaflsvirkjanir eru sjálfbærar og afturkræfar samkvæmt þessum skilgreiningum.  Meiri áhöld eru hins vegar um sjálfbærni sumra jarðgufuvirkjana.  Ber að hafa ríkulega í huga hagsmuni komandi kynslóða af heitavatnsvinnslu til húshitunar, þegar ákvarðanir eru teknar um stórfellda jarðgufunýtingu einvörðungu til raforkuvinnslu.  Umhverfisvænna er, að raforkuvinnsla jarðgufuvirkjana sé einvörðungu aukaafurð til að hámarka nýtingu þessara "auðlindagarða".  

Frá því að umræður um stóriðju hófust á Íslandi, hafa verið uppi háværar úrtöluraddir.  Nú er ein mótbáran sú, að Ísland sé að komast í hóp þeirra ríkja, er mest losi af koltvíildi per íbúa.  Þetta baráttufólk berst við vindmyllur, því að hvergi í heiminum er losað minna koltvíildi á hvert framleitt tonn en á Íslandi.  Hið sögulega hlutverk Íslendinga á tímum orkuskorts 21. aldarinnar verður að nýta hreinar orkulindir sínar til framleiðslu á hinum vistvæna málmi.  Það hefðu tilvitnuð aldamótaskáld kunnað að meta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband