Opið bréf Víglundar

Bréf Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, til forseta Alþingis, sem hann opinberaði í Morgunblaðinu 24. janúar 2014, sætir stórtíðindum, þó að vinstri menn þykist ekki skilja sakarefnin, sem í bréfinu felast.  Lítið hefur farið fyrir umfjöllun þessa grafalvarlega máls í Kastljósi, Speglinum eða fréttatímum Ríkisútvarpsins, en tímanum fremur varið í þröng mál, jafnvel persónulega harmleiki, sem lítið erindi eiga við alþjóð.  Bréf Víglundar á hins vegar erindi við alla og ber vitni um harmsögulega óhæfni vinstri flokkanna við stjórnun landsins. 

Grafalvarlegar ásakanir á hendur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur koma fram í þessu bréfi, og þær eru rökstuddar með vísunum til fundargerða stýrinefndar stjórnvalda um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna.  Hér verður gripið niður í hið sögulega bréf.  Efni þess er með þeim hætti, að aðalsökudólginum, fyrrverandi fjármálaráðherra, SJS, má ekki takast að komast upp með neitt múður eða belging, eins og hann gerði sig líklegan til í umræðum um málið á Alþingi og eru hans ær og kýr.

"Efni fundargerðanna á erindi við Alþingi.  Þær staðfesta, að vorið og sumarið 2009 vann framkvæmdavaldið hörðum höndum að því að fara framhjá reglum neyðarlaga nr 125/2008 um endurreisn íslenzku bankanna og meðferð skulda heimila og fyrirtækja." 

Þarna eru nægilega alvarleg sakarefni borin fram fyrir ríkissaksóknara til að fyrirskipa rannsókn. 

"Um mánaðamótin febrúar/marz 2009 ákvað ríkisstjórnin að hefja samningaviðræður við erlenda kröfuhafa bankanna um það, hvernig þeir gætu fengið meira í sinn hlut úr nýju bönkunum, sem stofnaðir höfðu verið með setningu neyðarlaganna nr 125/2008, en neyðarlögin sögðu til um. .... Þegar fundargerðirnar eru lesnar í samfellu, verður ekki annað ráðið en frá upphafi hafi ríkisstjórnin haft í huga að afhenda erlendu kröfuhöfunum alla þrjá nýju bankana til að friðþægja þeim."

Eigi þessar hátternislýsingar á stjórnvöldum þessa tíma við rök að styðjast, er ljóst, að þau hafa dregið taum fjármálaafla gegn hagsmunum íslenzka ríkisins og almennings á Íslandi.  Slíkt framferði eru landráð, og verður að rannsaka þessi sakarefni á hendur stjórnvalda þessa tilgreinda tímabils í því ljósi. 

Í lokakafla bréfs Víglundar stendur eftirfarandi:  

"Þetta þarfnast rannsóknar.  Þessar ákvarðanir hafa í raun valdið miklu af því stórfellda tjóni, sem varð hér á landi eftir hrun.  Hefði neyðarlögunum verið framfylgt eftir efni þeirra og úrskurðum FME haustið 2008, væri okkar þjóðfélag löngu risið úr öskustónni." 

Ályktun Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, er sem sagt sú, að vinstri stjórnin hafi gert illt ástand enn verra, dýpkað kreppuna og lengt í henni.  Í stað þess að losa um gjaldeyrishöftin, þegar það var enn tiltölulega viðráðanlegt og snjóhengjan minni en nú, þá bætti vinstri stjórnin hundruðum milljarða kr við þessa hengju.  Það verður að fást réttarfarslegur botn í þetta mál, og hinar stjórnmálalegu afleiðingar fyrir Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna grænt framboð þurfa að verða eftir því. 

Það var vitað, að ráðherrar vinstri stjórnarinnar voru óhæfir til að forgangsraða af skynsamlegu viti og að stika út leiðir til lausnar á vandamálum, þó að þeir gætu sett á endalausar tölur, algerlega innihaldslausar.  Það var grautargerð í mörgum pottum samtímis með mismunandi blæbrigðum, en allt reyndist óætt, þegar til kastanna kom.

 Nú eru hins vegar að birtast gögn, sem benda ekki einvörðungu til óhæfni, heldur einbeitts brotavilja gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.  Þar er með öðrum orðum um að ræða enn alvarlegri meint brot en meint vanræksla Geirs Hilmars Haarde, sem meintir núverandi brotamenn leiddu fyrir Landsdóm á sinni tíð og höfðu skömm fyrir vegna skorts á sakarefnum.  Nú skortir ekki sakarefnin. Var í Landsdómsmálinu gegn Geir gefið fordæmi, sem ekki verður undan vikizt að fylgja nú ?  Vigdís Hauksdóttir hefur reifað málið á Alþingi af einurð, eins og hennar er von og vísa.  Þingmenn þurfa nú margir hverjir að girða sig í brók og ekki að láta deigan síga fyrr en þeir eru vissir um, að erindi Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, hafi hlotið nauðsynlega umfjöllun og verðuga afgreiðslu. Fáránleg upphlaup stjórnarandstöðunnar á þingi um þessar mundir eru alger hégómi hjá afgreiðslu þessa alvarlega máls. 

 

 

   

   


Hafrannsóknir

Það er engum blöðum um það að fletta, að hafrannsóknir Íslendinga hafa gert þeim kleift að nálgast það viðfangsefni með vísindalegum og ábyrgum hætti að nýta fiskimiðin í kringum landið, um 750´000 km2 hafsvæði, til hins ýtrasta, en þó með sjálfbærum hætti.  Nágrannaríkin neyðast til að viðurkenna þetta, þó að þau sýni ríkan vilja til að sniðganga þessa staðreynd og sýni á stundum tilburði til að "valta yfir" landsmenn. 

Það er auk þess staðreynd, að íslenzki sjávarútvegurinn er rekinn með mestu verðmætasköpun á sjómann, sem þekkist um veröld víða, og umgengnin við auðlindina er hér til fyrirmyndar.  

Allt skýtur þetta styrkum stoðum undir siðferðilegan rétt Íslendinga til að stjórna sjálfir veiðunum á þessum gjöfulu og víðfeðmu fiskimiðum, en slíkt er fjarri því að vera sjálfgefið, eins og harðvítug barátta fyrir yfirráðum innan 200 sjómílnanna sýndi, afstaða Evrópusambandsins, ESB, til makrílveiða í íslenzku lögsögunni hefur undirstrikað og sáttmálar ESB og stefna (CAP-Common Fishery Policy) sýna.  Það eru nokkrar ástæður fyrir þessum frábæra árangri landsmanna, en hér verða nefndar þrjár:

  • Hafrannsóknarstofnun
  • Hlutaskiptakerfið
  • Fiskveiðistjórnunarkerfið

Hafrannsóknarstofnun hefur gert kleift að setja aflamark á allar helztu tegundir í lögsögunni með rökum, reistum á mælingum í stað ágizkana og hentistefnu stjórnmálamanna eða embættismanna þeirra.  Það hefur að vísu ríkt óánægja með margar tillögur Hafrannsóknarstofnunar, en eftir því sem þekkingu innan stofnunarinnar vex fiskur um hrygg með rannsóknum og reynslu, þá fer minna fyrir gagnrýninni, enda hefur hún síður en svo alltaf verið málefnaleg.  Það er skiljanlegt, þegar miklir hagsmunir eru í húfi, og þar sem stefna Hafrannsóknarstofnunar er sú, að ráðgjöf hennar miði að hámörkun afrakstrar auðlindanna til langs tíma, en ekki til skamms tíma. 

Nú er árangur verndarstefnunnar, sem sumir höfðu litla trú á, að koma í ljós í þorskveiðunum, þó að sumar aðrar tegundir hafi hörfað um hríð.  Makríllinn er gott dæmi um góðan árangur Hafrannsóknarstofnunar.  Þar er ný tegund í lögsögunni, sem rannsaka varð frá grunni.  Fiskimálastjóri Evrópusambandsins (ESB) hélt því blákalt fram og var studdur af öðrum pótintátum þar og á Írlandi, Noregi og víðar, að Íslendingar stunduðu rányrkju á makrílstofninum.  Hafrannsóknarstofnun hafði ráðlagt um 130´000 tonna veiði á ári, en hugmyndir innan ESB lutu að 1/10 þessa magns, og þess vegna hafði ESB í hótunum um löndunarbann og viðskiptabann á ýmsar vörur, svo sem síld og veiðarfæri.  Miðað við stofnmat Hafrannsóknarstofnunar nemur makrílmassinn í lögsögunni um 1,5 milljón tonnum, hann tvöfaldar þyngd sína í lögsögunni og étur 3 milljónir tonna af átu.  Það ætti að vera sjálfbært að veiða 200 kt/a af makríl í íslenzku lögsögunni m.v. þetta.   

Í fyrra játuðu stjórnvöld þessara ríkja og ESB mistök sín við ákvörðun stofnstærðar makríls, en engu að síður setti hinn misheppnaði sjávarútvegsráðherra, sem reyndar hafði annan og stærri titil án þess að valda honum, Steingrímur J. Sigfússon, lægra aflamark á makríl en forveri hans.  Það var stjórnmálalegur geðþótti, sem dró dám af undirlægjuhætti, fremur en vísindaleg rök, sem þar réðu ferð.  Vinstri stjórnin lagðist jafnan í duftið fyrir ESB, ef hún átti þess kost og ef hana grunaði, að slíkt mundi geta leitt til undansláttar frá sáttmálum ESB.  Allt bar það keim af eindæma dómgreindarskorti og barnaskap.  Fleðulæti eru hegðunarmynztur hundingja, en venjulega uppskera slíkir aðeins fyrirlitningu, enda gekk hvorki né rak með erfiðu kaflana, sem kratana brast þor til að setja í aðlögun.  Árangurinn af "viðræðunum" við stækkunarteymi ESB virðist hafa verið dapurlega lélegur m.v. allar fórnirnar, sem Berlaymont voru færðar og kostnaðinn, sem þetta dæmalausa inngönguferli hafði í för með sér fyrir landsmenn.  Ef á að ræða við ESB, þarf úthugsaða hernaðaráætlun, en Össur mundi ganga beint í snöru ESB, ef hann teldi það stækkunarstjóra ESB þóknanlegt.  Stefan Füle átti ekki í höggi við verðugan andstæðing, þar sem Össur Skarphéðinsson var, heldur sjálfhælinn og sjálflægan svíra án sóknarkrafts á hendur klúbbinum, sem hann sér ekki sólina fyrir.  

Nú hefur Hafrannsóknarstofnun fest sig í sessi, en þá bregður svo við, að hún verður að draga saman seglin vegna fjárskorts.  Þetta er ótækt á sama tíma og ríkið innheimtir ofurskatt af útgerðinni, eins og kunnugt er, undir dulnefninu "veiðigjald".  

Þessi ofurskattlagning er landsbyggðarskattur, sem dregur fé til höfuðborgarsvæðisins á röngum forsendum.  Að verja fénu til að styrkja landsbyggðina réttlætir þó ekki þessa skattheimtu, en það ætti samt að vera lágmarkstillitssemi að veita þessu skattfé í Hafrannsóknarstofnun og hafnir, svo að nokkuð sé nefnt af því, sem tengist beinum hagsmunum útgerðarfyrirtækjanna, stórra og smárra.  

Það er hins vegar örugglega ekki lausn á vandanum að hækka þessa skattheimtu til að auka fjárveitingu til Hafrannsóknarstofnunar, því að skattheimta af framlegð er glórulaus eignaupptaka, ríður minni fyrirtækjum að fullu og dregur úr fjárfestingargetu hinna stærri.  Skattstofninn rýrnar mjög hratt, og þjóðnýtingunni mundi líklega hafa lokið á um 5 árum.  Það er nokkuð vel að verki verið hjá sameignarsinnunum, sem annars klúðruðu flestu, sem þeir tóku sér fyrir hendur, hvort sem það var á Ári drekans eða í annan tíma.  Vinstri menn þola ekki velgengni, heldur bíða ekki boðanna, þegar þeir krafsa til sín völdin, að klófesta umbunina, sem markaðurinn hefur veitt fyrir eljusemi, frumkvæði, áræðni og annað, sem veitir hinum betri forskot á þá lakari.   

Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að svelta Hafrannsóknarstofnun, því að hún verður þá að fækka rannsóknarleiðöngrum, en hver leiðangur dregur úr óvissu ráðgjafarinnar, og ráðgjöf um aflamark hefur yfirleitt getað hækkað af þessum sökum.  Þetta heitir að skjóta sig í fótinn og er háttur sameignarsinna, en nú heldur vitleysan áfram, þó að þeir hafi verið settir til hliðar (um langa hríð). Hafrannsóknarstofnun vantar um hálfan milljarð kr, og það er áreiðanlega hægt að selja ríkiseign fyrir þessa upphæð eða að  draga úr framlögum til hinnar botnlausu hítar Íbúðalánasjóðs, sem réttast væri að aflétta ríkisábyrgð á og láta standa á eigin fótum eða falla ella.  Stjórnun þeirrar stofnunar hefur farið í handaskolum og batnaði alls ekki, þegar Árni Páll Árnason veitti henni ráðgjöf sem verktaki. 

Olíukostnaður Hafrannsóknarstofnunar var í fyrra um 8 % af rekstrarkostnaði hennar eða um ISK 200 milljónir.  Þar sem olíuverðið verður vafalítið lægra í ár, skapast hér aukið svigrúm til að halda rannsóknarskipunum úti.  Árið 2011 námu sértekjur stofnunarinnar 44 % af heildartekjum, sem að mestu komu frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins, sem sjávarútvegurinn fjármagnar.  Árið 2011 var, að forgöngu vinstri stjórnarinnar, þessi sjóður veiktur stórlega með lögum frá Alþingi, sem fyrirsjáanlega mun stórskerða tekjur Hafrannsóknarstofnunar árið 2014.  Vinstri stjórnin veikti þannig stórlega hagnýtar rannsóknir hins opinbera, sem þó voru kostaðar af hagsmunaaðilum, en kastaði hins vegar úr ríkissjóði auknu fé í metnaðarlitlar og í raun að töluverðum hluta lítils metnar og að sumra mati gagnslausar rannsóknir í Háskóla Íslands, eins og fram kom í grein í tímaritinu Þjóðmálum í desember 2013 og gerð var grein fyrir í greininni Háskólarnir hér á vefsetrinu:

  http://bjarnijonsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=1340739    

Fjárveiting úr ríkissjóði árið 2014 til Hafrannsóknarstofnunar mun nema um ISK 1,4 milljarði, og tekjur hennar eru þá áætlaðar ISK 2,5 milljarðar, sem er smáræði í hlutfalli við afraksturinn af starfsemi stofnunarinnar.  Það er alveg ótækt, að starfsemi hennar sé svelt, og Alþingi ætti á vorþinginu 2014 að gera ráðstafanir til að gera Hafrannsóknarstofnun kleift að afla sér meiri sértekna, t.d. með því að bæta úr mistökum þingsins frá 2011 varðandi Verkefnasjóð sjávarútvegsins. 

Hafrannsóknarstofnun þarf um 20 % tekjuaukningu eða um ISK 0,5 milljarð til að geta sómasamlega sinnt rannsóknum í lögsögu Íslands, þar sem lífríkið er nú miklum breytingum undirorpið vegna hlýnunar sjávar.  Dæmi um þessar breytingar er innreið makrílsins í íslenzku lögsöguna, sem étur þar um 3 milljónir tonna úr lífkeðjunni, en ESB vill skammta okkur smánarlegar veiðiheimildir á sem skít úr hnefa án haldbærs vísindalegs rökstuðnings.  Rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar eru haldbezti rökstuðningur Íslands í viðureigninni við Noreg og ESB á þessu sviði.

      Íslendingar hafa haldið fornu hlutaskiptakerfi að breyttu breytanda.  Þar með öðlast sjómenn hlut í kvóta útgerðarinnar, verða með vissum hætti meðeigendur, sem hefur áhrif til ábyrgrar umgengni við auðlindina, til betri meðhöndlunar á aflanum og til aukinna afkasta.  Niðurstaðan er sú, að útgerðarmenn geta valið úr dugnaðarforkum og hæfu starfsfólki til sjós og að engar útgerðir í víðri veröld standa þeim íslenzku á sporði hvað framleiðni starfsfólks og fjármagns varðar.  Meðalhásetahlutur er eftir þessu yfir ISK 20 milljarðar, sem í öllum tilvikum er dreift á fleiri en einn starfsmann, stundum tvo.

Þetta afkastahvetjandi launakerfi og góð stjórnun til sjós og lands mynda undirstöðu velgengninnar.  Samt er kerfið umdeilt, og hlutaskiptingin sjálf veldur deilum nú á milli útgerðarmanna og sjómanna.  Hin dæmalausa ofurskattlagning á framlegð fyrirtækjanna í stað hagnaðar þeirra kemur auðvitað við hvikuna og er fallin til að veikja burði starfseminnar og valda deilum um hlutaskiptin.  Þess vegna ber að breyta eðli þessarar skattheimtu og færa hana í venjulegt horf, sem er skattlagning hagnaðar fyrirtækjanna.  Að öðrum kosti er viðhaldið stjórnarskráarbroti Jóhönnustjórnarinnar á atvinnufrelsi útgerðarmanna, stórra sem smárra, því að téð skattlagning á sér hvorki hliðstæðu á Íslandi né í okkar samkeppnilöndum, og hún skekkir (veikir) þess vegna mjög samkeppnistöðu íslenzka sjávarútvegsins, sem er nokkurn veginn það síðasta, sem íslenzk sjórnvöld ættu að gera sig sek um.  Það heitir að saga í sundur greinina, sem þjóðin situr á.   

Þessi skattlagning á að vera almenn, en að auki mætti hugsa sér auðlindargjald, sem kæmi sem 5 % - 10 % viðbót við tekjuskattheimtuna.  Til að veikja ekki um of stöðu sjávarútvegsins hér innanlands verður slíkt auðlindagjald að vera vel skilgreint og ýmsar auðlindir að falla undir það.  Það er fleira auðlind en syndandi fiskur í sjó, t.d. ferðamaðurinn.  Munurinn er samt þar, að engin lög slá eign þjóðarinnar á ferðamanninn.   

Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur valdið djúpstæðum deilum í þau 30 ár, sem það hefur verið við lýði.  Sumpart er það vegna rangtúlkunar á hugtakinu þjóðareign í fiskveiðistjórnunarlögunum, sem valdið hefur hugarangri, og sumpart vegna annmarka á lögunum og reglugerðum tengdum þeim, en því miður hefur verið of mikið um bútasaum að hálfu ringlaðra stjórnmálamanna. 

Þjóðareign í skilningi laganna er ekki ríkiseign og veitir landsmönnum engar eignarréttarlegar heimildir, heldur tryggja lögin fullveldisrétt Íslendinga yfir miðunum.  Þetta þýðir, að Alþingi og ríkisstjórn í umboði þess fer með óskoraðan rétt til að stjórna nýtingu miðanna.  Nýtingarrétturinn er háður þessum stjórnunarrétti, sem er yfirréttur.  Stjórnunarrétturinn var erfiðasta hindrunin á leið Íslands inn í Evrópusambandið, af því að téður fullveldisréttur flyzt óhjákvæmilega til ráðherraráðs Evrópusambandsins, sem mundi kosta lagabreytingu á Íslandi, sem seint verður samþykkt.  

Þetta þýðir, að aflamarksákvörðun um hverja tegund flyzt til Brüssel eftir ákveðinn aðlögunartíma frá inngöngu, og framkvæmdastjórn ESB mun áreiðanlega ekki sætta sig við formlegar hindranir á kaupum fyrirtækja á Innri markaðinum á hlutum í íslenzkum útgerðum.  Össur Skarphéðinsson hefur fimbulfambað um úthýsingu þessa valds frá Berlaymont, en það eru einvörðungu hugarórar hans sjálfs, sem stangast á við sáttmála ESB, fordæmi og fullyrðingar kunnáttumanna innanhúss í Berlaymont og utan.  Jafnvel þó að ákvæði um slíka úthýsingu til Reykjavíkur mundi rata í samning, er ekki á vísan að róa með framhaldið, því að Spánverjar eða hvaða aðildarþjóð sem er getur kært allt, sem þeir telja fara í bága við Lissabonsáttmálann eða aðra sáttmála ESB fyrir Evrópudómstólinum.  Hver vill setja fjöregg þjóðarinnar í hendur Evrópudómstólinum ?  Aðeins ómerkingar.  

Annað mál er, hvort núverandi fjárfestingarhindranir eru þjóðhagslega hagkvæmar eður ei.  Viðfangsefnið er að hámarka arðinn af auðlindinni.  Þegar gjaldeyrishöft verða afnumin, munu íslenzkar útgerðir aftur geta fjárfest erlendis.  Þar sem hér er um fjöregg þjóðarinnar að tefla, má telja eðlilegt að beita varúðarsjónarmiðum gagnvart eignarhaldinu, þó að létta mætti á fjárfestingartakmörkunum til reynslu.  Aðalatriðið er alltaf, hver fer með fullveldisréttinn.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er ekki gallalaust, og það þarf að sníða af því annmarka, sem draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni, en það er ekki hægt að benda á neitt kerfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind, sem er þjóðinni hagfelldara í bráð og lengd, gefur betri nýtingu á miðum og fjárfestingum, sem liggja að baki tækjum og búnaði til nýtingar auðlindarinnar.  Sóknarkerfið er t.d. úrelt, vegna þess að nú stýra markaðirnir veiðunum, og þannig fæst hámörkun afurðaverðs.  Sóknarkerfið er barn síns tíma, sem fólk haldið fortíðarþrá hefur hampað, en í þessu kerfi er sjómönnum þrælað út og þeir jafnvel settir í stórhættu í heimskulegu kapphlaupi um fiskinn.     

         

 

 

 

 

 

 

 

  

  

 

 


Beðið eftir Berlaymont

Minnihluti Evrópumanna vestan Rússlands skynjar nú Evrópusambandið, ESB, og höfuðstöðvar þess í Brüssel í Berlaymont-byggingunni, sem framtíðarlausnina fyrir Evrópu samkvæmt skoðanakönnunum.  Þessar auknu efasemdir um starfsemi ESB endurspeglast í vaxandi fylgi stjórnmálaflokka á móti aðild landa sinna að ESB og með auknum þjóðernislegum áherzlum.   

Austur-Evrópumönnum þykir að sönnu gott að þiggja styrki til uppbyggingar innviða sinna og efnahagslegrar verndar gegn ásælni Rússa, sem þeir eru búnir að fá nóg af, en vestar í álfunni er annað uppi á teninginum.  T.d. eru aðeins 30 % Þjóðverja ánægðir með ESB, þó að meirihluti Þjóðverja, minnkandi þó, telji hag sínum enn betur borgið innan ESB en utan.  

Vonbrigði og óánægja Evrópumanna með ESB hefur magnazt í evru-kreppunni, þar sem mönnum þykir ESB og evru-bankanum hafa tekizt með endemum illa upp við úrlausn vandamála, enda sér ekki fyrir endann á þessari kreppu.  Evru-kreppan lýsir sér í gríðarlegu og vaxandi atvinnuleysi, einkum á meðal 18-30 ára, en í sumum evru-landanna gengur annar hver atvinnulaus á þessum aldri.  Skyldi engan undra, að slíkt valdi stjórnmálalegri ólgu, og það á sér einmitt stað í Evrópu núna, eins og vikið verður að.  Vandamálin hrannast upp í Evrópu í stað þess að vera leyst.  Löng stjórnarkreppa er að vísu nýafstaðin í Þýzkalandi, og á meðan hafa öll alvarleg mál ESB beðið.  Engum ráðum er nú ráðið um örlög Evrópu án aðkomu Berlínarbænda.

Annað einkenni evru-kreppunnar, þó að það finnist víðar, er gríðarleg skuldsetning á flestum sviðum þjóðfélagsins, þ.e. í opinbera geiranum, á meðal einkafyrirtækja og á vegum ríkis og sveitarfélaga.  Verst er ástandið á Grikklandi, þar sem aðgerðir þríeykis ESB, ECB (Seðlabanka ESB) og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) hafa rústað innviðum Grikklands, svo að lífskjör almennings hafa horfið marga áratugi aftur í tímann.  Það er nú samstaðan með bágstöddum á þeim bænum. 

Í Evrópu er í kjölfarið að rísa þjóðernissinnuð bylgja andstæðinga ESB, sem mun skella á land í kosningunum til ESB-þingsins í sumar, þar sem almenningur mun láta óánægju sína með starfsemina í Berlaymont í ljós.  Róttækust þessara hreyfinga er Gullin dögun, sem nú er með 18 fulltrúa á gríska þinginu.  Gullin dögun sækir fyrirmyndir til stjórnmálaflokka Kreppunnar miklu í Evrópu, einkennismynd (lógó) flokksins minnir á hakakrossinn og félagarnir syngja Horst Wessel sönginn á hópsamkomum og fá eins konar herþjálfun með svipuðum hætti og Stormsveitirnar, SA, Sturmabteilungen, Þjóðernisjafnaðarflokksins þýzka, er hann var og hét.  Formaðurinn, Nikos Michaloliakos, situr í fangelsi, en ekki fer sögum af því, að hann sitji þar við skriftir, eins og höfundur bókarinnar Mein Kampf eða Barátta mín eftir Bjórkjallarauppreisnina í München.  Augljóslega er loftið á Grikklandi lævi blandið um þessar mundir, og staðan getur brugðið til beggja vona.  ESB hefur mistekizt hrapallega ætlunarverk sitt um að stytta afkomubilið á milli Norður- og Suður-Evrópu, því að í Suður-Evrópu hefur hallazt á merinni, og hún verður fyrir spekileka norður yfir Karpatafjöll, Alpafjöll og Pyreneafjöll.

  Ítalía er "sjúki maðurinn" í Evrópu.  Skuldir ríkisins nema yfir 100 % af VLF, og hagvöxtur hefur enginn verið í meira en hálfan áratug.  Framleiðni vex ekkert, og framleiðslukostnaður hefur vaxið mun meira en að meðaltali á evru-svæðinu.  Landið er þess vegna orðið ósamkeppnihæft og hagkerfið staðnað.  Það er svo stórt, að ESB hefur ekki bolmagn til að bjarga því.  Stjórnmálalegur óstöðugleiki hefur síður en svo skánað við evruaðildina. Norðurbandalagið vill kljúfa Ítalíu, hefur mikið fylgi á Norður-Ítalíu og 7 manns á ESB-þinginu.  Fái "sjúki maðurinn" slæmt iðrakvef, þá mun evrusvæðið fá niðurgang.  Nú er svo komið, að margir hagfræðingar telja evruna vera dragbít á hagvöxt og spá því, að árið 2040 verði Stóra-Bretland með sitt Sterlingspund og tiltölulega miklu viðkomu orðið stærsta hagkerfi í Evrópu. 

Frakkland er ekki rismikið þessa dagana, nema e.t.v að næturþeli.  Kratinn í Elysée, forsetahöllinni, hefur heykzt á að reka sína vinstri stefnu, sem er keimlík stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar á Íslandi í efnahagsmálum, þar sem ofurskattheimta er versta einkennið, og keyrir hagkerfið í þrot, hvar sem hún er reynd.

Reyndar virðist téður Frakklandsforseti undanfarnar vikur, slúðurblöð segja í 2 ár, hafa verið uppteknari við lendar hinnar háfættu leikkonu, Julie Gayet, en við lendur Gaulverja.  Skrifað var í leiðara Morgunblaðsins, 15. janúar 2014, að slíkt kæmi fyrir á beztu bæjum, hvaðan sem ritstjórinn (afmælisbarn dagsins ?) hefur það.  Undir það geta a.m.k. Engilsaxar ekki skrifað, sem telja háttarlag af þessu tagi til vitnis um dómgreindarbrest, sem þá einnig geti gert vart við sig, þegar hæst á að hóa og að opinberum málefnum kemur, en ekki bara berum kroppum.   

Í Frakklandi velgir annar kvenmaður Hollande undir uggum á daginn, en það er fröken Marine Le Pen, formaður Þjóðarframlínunnar (National Front), sem nýtur vaxandi fylgis í Frakklandi, og er flokkur hennar talinn munu fá mikið fylgi í komandi kosningum til Evrópuþingsins.  Sumar mælingar sýna yfir helming atkvæða, sem sýnir ástandið í Frakklandi í hnotskurn. 

Flokkurinn hafnar forréttindastéttinni (elítunni), Berlaymontveldinu, og þykir fjöldi innflytjenda í Frakklandi orðinn allt of mikill og vill stemma stigu við innflytjendum.  Þessi flokkur gæti farið að slaga upp í þriðjungsfylgi í mörgum sveitarstjórnum Frakklands, og er þetta að verða keimlíkt stjórnmálaástand og var austan Rínar undir hinum óréttláta og þrúgandi Versalasamningi frá 1919, sem Frakkar voru reyndar aðalhvatamenn að og fengu síðan sem bjúgverpil árið 1940 vestan Maginot-línunnar, sem var háðung mikil á tveimur vikum. 

Ekki má gleyma, að þeir voru einnig aðalhvatamenn að evrunni, sem er aðalsökudólgurinn nú eða blóraböggullinn eftir því, hvernig á málið er litið, vegna ófara Evrópu nútímans.   Styrrinn í Frakklandi mun ekki standa um, hver á að verða 1. konan (First Lady) eða önnur konan í Elysée, eða hvort ástarhreiðrið er á valdi Korsíkumafíunnar, og heldur ekki um svannatök forsetans, heldur um stjórnarhætti í þjóðfélaginu, almannahag og stjórnmál.  Þar verða jafnaðarmenn jafnan að gjalti og hafa upp á ekkert að bjóða, nema þeir leiti í smiðju til annarra, eins og Francois Hollande er gott dæmi um.  Greinilegt er líka, að Árna Páli þykir betra að veifa röngu tré en öngu uppi á Íslandi, þó að hvorki orðstír hans sjálfs né flokksómyndarinnar, sem hann veitir formennsku um stundarsakir, batni við það.  Var þó ekki úr háum söðli að detta.  

Handan Ermarsundsins eru að verða merkilegar vendingar í Evrópumálum, knúnar áfram af vaxandi fylgi við UKIP, Sjálfstæðisflokk Bretlands, undir forystu Nigel Farage, sem berst fyrir úrsögn Bretlands úr ESB.  Honum hefur tekizt að höggva svo mjög í raðir Íhaldsflokksins, brezka, að sá er að sveigja inn á leið, sem líklega mun leiða til úrsagnar Bretlands innan tíðar og þar með klofnings ESB.  Bretar heimta sáttmálabreytingar, sem tryggja hagsmuni þjóða utan evrusvæðisins, og að aflögð verði stefnan um æ nánara ríkjasamband allra hinna.  Þetta setur strik í reikninginn hjá kumpánunum í Berlaymont, en það er bættur skaði.  Eftir samningaviðræður, og þetta yrðu raunverulegar samningaviðræður, þar sem sáttmálarnir eru undir, verður niðurstaðan lögð fyrir brezku þjóðina í atkvæðagreiðslu, eða það, sem eftir verður af henni, ef Skotar ákveða í ár að stofna sjálfstætt ríki. 

Af þessu er ljóst, að ESB í sinni núverandi mynd er komið á leiðarenda.  Annaðhvort verða sáttmálabreytingar, eða ESB klofnar.  Af þessum sökum, og mörgum öðrum, er einboðið að afturkalla formlega hina vanreifuðu umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sem óvitar skrifuðu undir eftir ofbeldisfullt atferli á Alþingi.  Annar þingheimur þarf að leiðrétta fortíðarmistök löggjafarsamkundunnar. 

Við þessar aðstæður ræðst mannvitsbrekkan, formaður Samfylkingarinnar á Íslandi, fram á völlinn og segir með þjósti miklum og merkikertissvip, að hefði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um, hvort sækja ætti um aðild að ESB árið 2009 eður ei, þá hefðu ESB verið færð vopn upp í hendurnar, ef landsmenn hefðu samþykkt, af því að þá hefði ESB fengið vitneskju um, að hugur landsmanna stæði til inngöngu, svo að ESB hefði þá staðið fast á sínu og ekkert gefið eftir. 

Hvers konar endemis rugludallur er þessi maður ?  Hann snýr yfirleitt röksemdum á haus og dregur kolrangar ályktanir.  Slíkir eru auðvitað óhæfir Alþingismenn, hvað þá ráðherrar. Í þessu máli blasir við, að "samningsstaða" íslenzku sendinefndarinnar hjá Stækkunarstjóra ESB var engin, af því að um lítið var að semja nema innleiðingartímann og af því að bæði þing og ríkisstjórn voru þverklofin til umsóknarinnar, hvað þá aðildar.  Með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu  má ljá umsókn trúverðugleika.  Nú, aftur á móti, er hún ekki á dagskrá, samkvæmt ríkisstjórnarsáttmálanum, nema Alþingi ákveði að halda vonlausu þjarkinu í Brüssel til streitu.   

Sjálfstæðismenn hafa litið svo á, að aðild að Evrópusambandinu væri þvílíkt stórmál, að réttlætti tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þ.e. fyrst um það, hvort sækja ætti um á grundvelli samningsskilmála, sem Alþingi þyrfti þá að vera búið að samþykkja, vitandi, að um aðlögunarferli að sáttmálum, lögum og reglum ESB, með IPA-styrkjum og öllu því, er að ræða, og síðan, ef Alþingi samþykkir ákvæðin, sem út úr inngönguferlinu kemur, að þjóðin fái tækifæri til að tjá hug sinn til afgreiðslu Alþingis á inngönguskilmálum. 

ESB er ríkjabandalag, sem ætlast til, að umsóknarríki hafi kynnt sér stofnsáttmála þess, sé fúst til að aðlaga sig þeim og sæki um aðild til að fara í aðlögunarferli með aðstoð stækkunarteymis ESB.  Það má líkja þessu við nemanda og skóla, þar sem nemandinn er umsóknarlandið, skólastjórinn er stækkunarstjórinn og kennararnir eru starfsmenn í stækkunarteymi ESB.  Þegar umsóknarlandið hefur lagað stjórnsýslu sína, löggjöf og reglugerðir, að kröfum ESB, að dómi stækkunarteymis þess, þá er nemandinn útskrifaður og fyrr ekki.

Það er auðvitað hlálegt að búast við einhverju óvæntu út úr þessu ferli, þar sem "námsskráin í skólanum" er algerlega þekkt.  Nemandinn þarf hins vegar að tileinka sér efniviðinn, svo að hann standist próf og verði útskrifaður.  

Samþykkt Alþingis og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um, hvort halda eigi áfram umsóknarferlinu, er þess vegna í raun spurning um, hvort landsmenn vilji, að landið gerist aðili að ESB í þeirri mynd, sem það er, þegar aðlögunarferlinu lýkur.  Málflutningur um samningaviðræður er annaðhvort reistur á vanþekkingu um umsóknarferlið eða hann er purkunarlaus blekkingariðja.  Dylgjur um, að heybrókarháttur ráði því, að ekki sé farið strax í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, eru þess vegna ómálefnalegar með öllu og bera vott um málefnafátækt. 

Ríkisstjórninni er sem sagt legið á hálsi fyrir að vilja ekki efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald "viðræðna" við ESB.  Hún er þó nú að láta taka saman skýrslu um stöðu aðlögunarferlisins, sem var skrípaleikur, þar sem aðeins var fengizt við einföldustu úrlausnarefnin, en allt annað látið sitja á hakanum.  Til að geta tekið upplýsta ákvörðun þarf núverandi staða að vera ljós, en vinstri stjórnin fór alltaf með ferlið eins og mannsmorð, enda þoldi það ekki dagsljósið.

Spurningin, sem þarf í kjölfar umræðna um téða skýrslu að spyrja, er í raun, hvort fólk vilji, að nemandinn klári skólann, sem hann er rétt byrjaður í, eða hætti í þessum skóla og hugsi sitt ráð, þ.e.a.s.:

Vilt þú, að aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu verði haldið áfram með það að markmiði að leiða það til lykta ?

Já eða Nei. 

 

 

    

  

     

   

  

 

 

   

 


Stöðugleiki hér og þar

Eitt af því, sem vinstri stjórninni mistókst hrapallega að ná, var efnahagslegur stöðugleiki, enda má bæði efast um, að þeim dæmalausu ráðherrum hafi verið það sérstakt keppikefli og að þeir hafi gert sér grein fyrir, hvernig efnahagslegum stöðugleika yrði náð. 

Kjarasamningar, sem gerðir voru á hennar skeiði, voru almenningi dýrkeyptir og verri en engir, af því að þeir virkuðu sem olía á eld verðbólgubálsins.  Svo er það annað mál, að loforð Jóhönnustjórnarinnar í tengslum við þá kjarasamninga voru strax svikin, svo að traust aðila vinnumarkaðarins til Jóhönnu og Steingríms varð að engu.  Lánleysi þeirra skötuhjúa var algert.  Þar með var í raun úti um þá ríkisstjórn.

Með hækkunum á virðisaukaskatti, eldsneytisgjaldi, álagningu kolefnisgjalds og hækkunum á öllum gjöldum og sköttum, sem nöfnum tjáir að nefna, kynti vinstri stjórnin undir verðbólgu.  Það var eins og við manninn mælt; skattstofnar ríkissjóðs minnkuðu við þetta, t.d. minnkaði bifreiðaakstur og verzlun dróst saman.  Skattstofnarnir skruppu saman undan ofurskattheimtu upp úr kennslubókum frá Þýzka Alþýðulýðveldinu og færða í búning af Þistilfirðinginum, fyrrverandi formanni vinstri grænna.

Nú bregður meira að segja svo við, að íslenzka krónan braggast skyndilegar og meira en nokkur hagspekingur hafði látið í ljós.  Hefur gildi bandaríkjadals lækkað á einu ári úr u.þ.b.130 kr í u.þ.b. 115 kr. Hvort sem þetta má túlka sem traustsvott á hagstjórnina í landinu eða ekki, þá er þessi þróun mjög hjálpleg við að koma böndum á verðbólguna.  Við viljum stefna að því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin, og þá er frumskilyrði að ná verðbólgunni undir 2,0 % á ári og er reyndar ekki nóg miðað við núverandi ástand á evru-svæðinu, en það er reyndar óheilbrigt núna og ekki eftirsóknarvert, eins og rakið verður í þessum pistli. 

Það er hægt að fullyrða það með vísun til samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna og með samanburði við evrulönd á borð við Írland, að hefði evran verið við lýði hérlendis, þegar peningakerfi heimsins hrundu, þá hefði endurreisnin gengið enn hægar, og hefur hún þó gengið allt of hægt vegna glataðra tækifæra, ofstækis og mistaka ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Nú óttast margir hagspekingar, en þeir hafa reyndar ekki reynzt góðir í hlutverki völvunnar með krystallskúluna, að vestræn ríki, t.d. evru-svæðið, séu að sogast ofan í hringiðu verðhjöðnunar, sem mjög erfitt geti verið að komast upp úr.  Verðhjöðnun leikur hag almennings jafnvel enn verr en verðbólga.  Það er vandrataður hinn gullni meðalvegur, og leiðin þangað liggur um afkastaaukningu, arðsamari fjárfestingar og þar með aukna verðmætasköpun, en hvorki hókus pókus fjármálagjörninga né peningalegra sjónhverfinga á borð við lögeyrisskipti án réttrar undirstöðu.  Það er hægt að vinna sig út úr vandanum.  

Á evru-svæðinu lækkaði 12 mánaða verðbólga í september 2013 úr 1,1 % í 0,7 % í október.  Fyrir ári var verðbólgan þarna 2,5 %.  Markmið evrópska seðlabankans (ECB) er "undir, en nálægt 2,0 %".  Í maí 2013 lækkaði þessi seðlabanki viðmiðunarvexti sína í 0,5 %, og nýlega voru þeir lækkaðir í 0,25 %, svo að þar á bæ óttast menn greinilega, að aðhaldsaðgerðir og mikil skuldsetning geti sogað ríkin ofan í hringiðu verðhjöðnunar.  ECB berst augsýnilega harðri baráttu við verðhjöðnunarvofuna, en það bendir ýmislegt til, að hann muni tapa þeirri baráttu, og þar með má búast við feykilegu félagslegu og peningalegu umróti á evrusvæðinu, sem getur fækkað aðildarlöndum evrunnar með miklum stjórnmálalegum afleiðingum.   

Merkilegust er nú um stundir hagþróunin í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Verðbólgan er þar aðeins rúmlega 1,0 %, en verðbólgumarkmið bandaríska seðlabankans er 2,0 %.  Þetta gerist þrátt fyrir skefjalausa seðlaprentun bankans í 5 ár frá hruni, undanfarið um USD 85 milljarðar á mánuði, sem er miklu meiri seðlaprentun en ECB hefur stundað, enda hafa prússnesk viðhorf til fjármála átt hljómgrunn innan bankaráðsins við Frankafurðu.  Verðhjöðnunar hefur jafnvel gætt suma mánuðina í BNA. 

Hagfræðingar óttast, að þessi gríðarlega seðlaprentun muni valda hagbólu í náinni framtíð, en núna er svo mikill kraftur í bandaríska hagkerfinu, að það össlar áfram á 3,0 % hagvexti á ári og dregur lömuð hagkerfi evrusvæðisins og Japans með sér.  Japanir eru loksins eftir 20 ára verðhjöðnun að ná sér upp úr henni.  Svo mikill vágestur sem verðbólga er, þá er verðhjöðnun jafnvel enn verri, því að launin lækka þá, en skuldirnar standa í stað.  Hagkerfið dregst saman.  Þetta sýnir í hnotskurn, hversu stöðugleikinn er mikils virði.  Íslendingar geta náð stöðugleika í hagkerfinu, en þá verða allir að leggjast á eitt og fórna nokkru fyrir ávinning í náinni framtíð.  Hugmyndum um miklar krónutöluhækkanir í kjarasamningum fjölmennra stétta, opinberra starfsmanna eða annarra, verður að fórna að sinni þar til hinu opinbera vex fiskur um hrygg við lækkun hræðilegrar vaxtabyrðar af skuldum.  

Nú vokir vofa verðhjöðnunar yfir evrusvæðinu og hefur reyndar þegar hafið innreið sína í sum lönd Suður-Evrópu, þar sem laun hafa lækkað mikið, enda er það eina ráðið auk kerfisbreytinga og framleiðniaukningar fyrir þau til að ná sér aftur á strik eftir hrunið.  Á einu ári hefur verðbólgan á evru-svæðinu lækkað úr 1,5 % á ári í 0,8 % á ári og er lækkandi í þeim mæli, að seðlabanki evrópu virðist ekki fá við neitt ráðið.  

Þjóðarframleiðslan á evrusvæðinu í heild dróst saman um 0,4 % árið 2013, og er spáð vexti um 1,1 % í ár samkvæmt tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar 5. nóvember 2013.  Atvinnuleysið er á evru-svæðinu að jafnaði 12,2 % eða tvöfalt hærra að tiltölu á við BNA.  Hin sterka evra virkar hamlandi á efnahaginn vegna bágrar stöðu útflutningsgreina, nema þar sem afköstin eru mest.  Hlutfallið 1 EUR/1 USD = 1,35 er útflutningsgreinum evrusvæðisins þungt í skauti.  Hlutfallið er 5 % hærra en fyrir ári.  Evran dregur þess vegna hagkerfið í átt til verðhjöðnunar.  Mörg ytri skilyrði virka í sömu átt, eins og hér verður rakið.  

Kýpur, Írland, Portúgal og Spánn stríða við háar opinberar og einkaskuldir.  Grikkland og Ítalía búa við háar opinberar skuldir. Nafngildi skuldanna helzt óbreitt í verðhjöðnun, en greiðslugetan rýrnar.  Það mun hrikta gríðarlega í evrusamstarfinu og líklegt, að í það komi brestir, ef eitt eða fleiri þessara landa lenda í verðhjöðnunarbasli.  Evrusamstarfið hangir nú þegar á horriminni, svo að verðhjöðnun gæti riðið því að fullu.     

Meginástæða verðlagslækkananna er lækkun orkuverðs, en það hefur nú hafið lækkunarferli um allan heim vegna hagkerfisslaka og vegna aukins framboðs á olíu og jarðgasi, sem unnin eru með nýjum aðferðum úr sandsteini og leirlögum.  Þetta mun gera dýrustu lindirnir óhagkvæmar og vonlausar í rekstri.  Drekasvæðið er eitt þeirra.  Íslenzkir neytendur hafa orðið varir við eldsneytislækkanir, en enn meiri eldsneytislækkanir hljóta að fylgja fljótlega. 

Eldsneytislækkun hefur áhrif á allt vöruverð, af því að eldsneytið kemur alls staðar við sögu, þó að ekki sé nema flutningskostnaðurinn.  Flutningskostnaðurinn til landsins hlýtur að lækka og flugmiðaverðið sömuleiðis.  Allt á þetta að virka örvandi á íslenzka hagkerfið og auka kaupmátt almennings og draga þar með í sömu átt og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.  

  Við þessar aðstæður væntanlegs verðstöðugleika og hagvaxtar væri það algert ábyrgðarleysi af stéttarfélögum að spenna bogann hærra en um var samið á jólaföstunni 2013.  Það eru svo miklir hagsmunir í húfi hér fyrir þorra landsmanna varðandi framtíðar kjarabætur á traustum grunni, að öllum viðbótar launakröfum, hversu réttmætar sem þær kunna að virðast, verður að hafna af staðfestu og einurð.  Allir verða að bíða þess, að ávextirnir þroskist áður en þeir verða tíndir.    

Seðlabankavextir 2007-2013

 

  

 

 


Um ávörp við áramótin 2013/2014

Við hæfi er að staldra fyrst við ávarp forseta lýðveldisins.  Athygli vakti, hversu mikla áherzlu forsetinn lagði á sáttfýsi í samfélaginu, og það er óhætt að taka undir með honum um það.

Lagður hefur verið sáttagrunnur með skuldaleiðréttingu, endurreisn sjúkrakerfisins úr öskustó vinstra afturhaldsins, skattkerfisbreytingum og stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Stjórnarskráarmálið hefur verið tekið úr átakafarvegi og sett í samráðsferli, og kveikjan í eldfimasta átakamáli landsins, umsókninni um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur verið aftengd.  Það er nú þegar búið að söðla um, hverfa frá stöðugu róti og stríðsyfirlýsingum afturhaldsaflanna, til friðsamlegrar vinnu við að leggja hornsteina að framtíð Íslands með blóm í haga.

Öfugsnúnir sagnfræðingar, sem aldrei mega skynja þjóðerniskennd í loftinu án þess að fara að gjamma, t.d. um að sátt, einurð og samkennd þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttu hennar hafi verið goðsögn, eru eins fyrirsjáanlegir og ófrumlegir í málflutningi sínum og mest getur verið.  Allir vita, að allt orkar tvímælis þá gert er, en þegar meira en 80 % samstaða næst um niðurstöðuna, þó að eftir á sé, þá er hægt að tala um eindrægni og almenna samstöðu, jafnvel þjóðfélagslega sátt.  Öfugsnúnir sagnfræðingar munu ekki rita söguna.   

Landsmenn eru nú lausir við dæmalausa illindaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og það er mikill léttir.  Það verður að segja eins og er, að það er líka óumræðilegur léttir að hafa nú fengið ferskan mann í forsætisráðherrastólinn, sem setur þjóðarhag ofar hag hagsmunaafla í Berlaymont og vitnar í Einar Benediktsson, skáldjöfur, en fer ekki með fleipur um fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta.  Eru brýningar Einars Benediktssonar í ódauðlegum kvæðum sínum og skáldskap til Íslendinga um að hefja mikla framfarasókn, sem því miður varð minna úr þá en efni stóðu til, kannski goðsögn ?  Nei, þær standa þarna, svart á hvítu.

Pistilhöfundur er hins vegar ekki með jafnhástemmdar hugmyndir um norðurslóðahlutverk Íslendinga og Bessastaðabóndinn.  Líklegast er, að ekkert verði úr hugmyndum um olíudælingu upp úr hafsbotni Drekasvæðis; ekki þó vegna þess, að olía finnist þar ekki.  Til þess standa meira en 50 % líkur, heldur vegna þess, að vinnslan verður mun dýrari en markaðsverðið mun ráða við.  Kostnaðurinn verður yfir 100 USD/tunnu, en markaðsverðið er þegar komið undir þennan kostnað, og vegna ofgnóttar á setlagagasi og sandsteinsolíu og bættrar orkunýtni á öllum sviðum mun markaðsverð olíu hrynja, e.t.v. niður í 60 USD/tunnu, ef marka má verðþróun, sem þegar er orðin í  Bandaríkjunum (BNA).

Það er auðvitað gott og blessað, ef Bremerhaven-hafnir vill byggja risahöfn í Finnafirði eða menn sjá viðskiptatækifæri með sköpun þjónustuaðstöðu á Dysnesi fyrir auðlindavinnslu á og við Grænland.  Íslenzk stjórnvöld og íslenzk fyrirtæki ættu í meira mæli að leita hófanna á Grænlandi.  Grænlendingar eru áfram um að fá nágranna sína til samstarfs og hafa þar með sterkari spil á hendinni gagnvart Dönum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum, sem allir hyggja gott til glóðarinnar. 

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna rituðu áramótaávörp í Morgunblaðið.  Þar bar af ávarp fjármála- og efnahagsráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins.  Það var vel og skipulega upp sett og afar fróðlegt aflestrar.  Er alveg ljóst, að Laugarvatnsstjórnin leggur nú með skipulegum hætti traustan grunn að framtíðinni.  Aðhald og ráðdeild í dag jafngildir kjarabótum á morgun.  Ekkert er mikilvægara en efnahagslegur stöðugleiki við núverandi aðstæður fyrir hagkerfið.  Fórn verkalýðsfélaga, ríkisstjórnar og vinnuveitenda nú mun koma fram síðar sem margfaldur ávinningur fyrir allt hagkerfið, ekki sízt mun hún skila sér sem auknar ráðstöfunartekjur í vasa almennings.  

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nefndi, að lægstu laun væru of lág, en hann bætti við, að laun miðstéttarinnar þyrftu öll að hækka.  Það er rétt hjá honum í nafni samkeppnihæfni landsins um vinnuafl, en slíkt fæst ekki með hærri prósentum á blaði í kjarasamningum án þess að framleiðniaukning og tekjuaukning þjóðarbúsins búi að baki. Slíkt er langtímaverkefni.  Verkalýðshreyfingin ætlar að þessu sinni ekki að míga í skóinn sinn, enda hávetur, og slíkt stórhættulegt í frosti.  Viðskiptakjör landsins eru slæm um þessar mundir vegna tímabundinnar lækkunar á afurðaverði, t.d. fiski og áli.

Hegðun fáeinna verkalýðsforkólfa, sem voru viðstaddir samningana, en neituðu að skrifa undir þá, minnir mest á Björn að baki Kára í Njálu.  Téður Björn var á vettvangi, er bardaginn fór fram, en hann var þar vita gagnslaus.  Heim kominn var hann hins vegar mikill á lofti og tíundaði afrek sín, sem öll voru orðum aukin.  Hegðun téðra verkalýðsforkólfa á Akranesi og Húsavík er þess vegna ekki ný af nálinni, og hún er ekki stórmannleg, enda munu þeir ekkert annað upp skera en skömmina.    

Ávarp formanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu á gamlaársdag var slæm grautargerð og viðbrunnin.  Hann var í ríkisstjórn, sem rótaði mikið, og nú stunda ráðherrar vinstri stjórnarinnar þann leik helztan að róta yfir skítinn úr sjálfum sér.  Aðferðin, sem notuð er, er að endurskrifa söguna í bókarformi, og liggja þá staðreyndir máls óbættar hjá garði, enda virðist jafnaðarmönnum oft vera sýnna um gerviveröld hugmyndafræði sinnar en raunheima almennings í landinu.

Vinstri menn gerðu atlögu að bezt reknu atvinnugrein landsins, sjávarútveginum, og gerðu tilraun til að brjóta hann á bak aftur, af því að þar var góður rekstrarárangur einkaframtaksins auðsær.  Hverjar urðu afleiðingar ofurskattlagningarinnar þar ?  Lítil fyrirtæki lögðu upp laupana og gengu inn í hin stærri.  

Nú er verið að selja 4 frystitogara úr landi, af því að rekstur þeirra stendur ekki undir svimandi háum veiðigjöldum auk annars kostnaðar.  Vinnslan flyzt í land, af því að þar er nýrri tækni beitt við vinnsluna, sem skilar betri nýtni og meiri gæðum, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því, að þar eru líka lægri laun. 

Sjávarútvegurinn hefur greitt hæstu laun á Íslandi.  Hásetahlutur upp á MISK 20 á ári, þar sem tvær áhafnir skiptast á, er ekki óalgengur.  Hér er auðvitað í hæsta máta afkastahvetjandi launakerfi á ferðinni, sem hefur skilað hæstu framleiðni í heimi.  Þetta kerfi vilja vinstri mennirnir feigt.  Allt skal draga niður í svaðið og stunda síðan millifærslur á báða bóga úr ríkiskassanum.  Þetta er vinstri mennskan í hnotskurn. 

Það, sem einkenndi grautargerð Árna Páls um áramótin, var einkennileg sjálfsgagnrýni og gagnrýni á fyrri ríkisstjórn, sem hann sat í sjálfur.  Dæmi:

"Það eru bara tvær leiðir.  Leið aukinnar verðmætasóknar og leið kyrrstöðunnar.  Því miður hefur ný ríkisstjórn náð saman um hina seinni, þegar þjóðin þarfnast helzt hinnar fyrri."

Augljóslega er miklu fremur hægt að kenna Jóhönnustjórnina við kyrrstöðu en Laugarvatnsstjórnina.  Sú fyrrnefnda keyrði niður fjárfestingar og einkaneyzlu með ofurskattlagningu, en sú síðarnefnda er að koma hjólum atvinnulífsins smám saman af stað með því að lækka skattbyrði á fyrirtæki og einstaklinga.  Með því er ríkissjóður ekki að sleppa hendinni af einhverju, sem honum réttilega ber að hirða, eins og vinstri menn halda fram, heldur er verið að draga úr aðgangshörku hans, svo að hann láti ekki greipar sópa um eigur almennings og aflafé í alveg jafnríkum mæli og áður.  Þetta hefur þegar leitt til aukinna fjárfestinga og hagvaxtar.  Við það munu skattstofnar fitna, en ekki dragast upp, eins og undir vinsti stjórninni.  Hagkenningar hægri manna eru eitur í beinum vinstri manna, en þær sönnuðu sig á vinstri stjórnar tímabilinu, og þær eru þegar farnar að sanna sig á nýju kjörtímabili.  Megi eyðumerkurgöngu vinstri manna aldrei linna.

Þessar ranghugmyndir vinstri manna komu vel fram í áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Morgunblaðinu 31. desember 2013.  Þar skrifaði hún m.a. af alkunnu lítillæti:

"Hin unga ríkisstjórn hefur hins vegar ekki beinlínis verið boðberi nýrra tíma.  Átök þessa árs frá og með kosningum hafa fyrst og fremst snúizt um afturhvarf til gamalla stjórnarhátta veltiáranna fyrir hrun.  Þau hófust strax á sumarþingi, þegar ný ríkisstjórn lækkaði sérstök veiðigjöld á útgerðarfyrirtæki, sem lögð voru á umframhagnað þessara fyrirtækja.  Þar með afsöluðu stjórnvöld almenningi árlegum tekjum upp á tæplega sex og hálfan milljarð af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar."

Hér er öllu snúið á haus af stjórnmálamanni, sem föst er í klakabrynju kommúnismans.  Hún sakar unga stjórnmálamenn, sem fitjað hafa upp á algerum nýjungum í stjórnmálum, t.d. skuldaleiðréttingunni, sem Katrín var of mikil heybrók gagnvart fésýsluauðvaldinu til að reyna, um að vera fasta í fortíðinni.  Um þetta má segja, að margur heldur mig sig. 

Þá fer hún rangt með, þegar hún reynir að skýra út álagningu ofurskattlagningar sinnar og Steingríms á útgerðina.  Því fer fjarri, að skattstofninn hafi verið "umframhagnaður" útgerðar.  Skattstofninn var algert einsdæmi, tók út yfir allan þjófabálk, svo ómálaefnaleg og fjarri meðalhófi, sem þessi skattheimta var.  Þau notuðu framlegð fyrirtækjanna, sem sennilega er ólöglegt, því að framlegðin er það, sem þau hafa upp í fastan kostnað, þegar breytilegi kostnaðurinn hefur verið greiddur.  Slík skattheimta er tilræði við fyrirtækin og má jafna við þjóðnýtingu í fáeinum skrefum.  Skrefin hefðu orðið 1-5 talsins, háð fjárhagslegum og eignalegum styrk fyrirtækjanna.  Vladimir Lenin hefði veitt þeim skötuhjúum orðu alræðis öreiganna fyrir gjörninginn, hefði sá fantur verið enn á dögum. 

Allar aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks miða að því að hækka tekjur almennings og ríkissjóðs í framtíðinni.  Með sameiginlegu átaki borgaralegra afla og hálstaki á afturhaldsöflunum mun það takast.  

 

        

      

    

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband