30.1.2015 | 18:27
Hrakfallabálkur og örlagavaldur
Fimmtudaginn 22. janúar 2015 tilkynnti Seðlabanki Evrópusambandsins, SE, um kúvendingu í peningamálastefnu bankans, sem er í blóra við hefðbundna aðhaldsstefnu þýzka seðlabankans. Mikil óánægja er með þessa stefnubreytingu SE í Þýzkalandi, og kann hún að sá fræjum sundrungar innan myntsamstarfsins, og var þó ekki á vandræði evrunnar bætandi, einkum og sér í lagi nú eftir myndun ríkisstjórnar tveggja flokka í Grikklandi af sitt hvorum væng stjórnmálanna.
Kúvendingin er til vitnis um örvæntingu í Frankfurt, þar sem Mario Draghi, hinn ítalski formaður bankastjórnar, og fjölmennt bankaráð SE, hefur aðsetur. Þar óttast menn að missa evrusvæðið niður í verðhjöðnunarspíral, sem gæti reynzt afar erfitt að snúa við úr, eins og reynsla Japana af slíku ferðalagi sýnir. Eftir að lækkun olíuverðs hófst í júní 2014 hefur reyndar víðast hvar ríkt verðhjöðnun, þ.á.m. í BNA, þrátt fyrir 4500 milljarða USD seðlaprentun þar. Ætli megi ekki líkja þessu seðlaprentunarúrræði við inflúensusprautu gegn annarri veiru en þeirri, sem herjar næst. Sprautan gerir illt verra með því að veikja ónæmiskerfi líkamans ?
Fyrsta afleiðing téðrar tilkynningar var fall evrunnar. Þann 14. janúar 2015 seig evran niður í sögulegt hlutfall við bandaríkjadal, þ.e. 1,17 USD=1,00 EUR, sem var upphaflega hlutfallið, þegar evran var kynnt til sögunnar 1. janúar 1999. Síðan veiktist evran og var á pari við bandaríkjadal á fyrsta ársfjórðungi 2000 og hrundi svo niður í 0,83 USD í október 2000. Þá tóku öflugir seðlabankar sig saman um að reisa evruna úr öskustó, og komst hún í 1,6 USD, þegar dýrust var. Þessi rússíbanareið "hinna stóru" er næstum því 1:2, og kannast minni þjóðir við slíkt á eigin skinni og hefur verið kallaður "forsendubrestur".
Nú telur The Economist, að evran verði á pari við dalinn á þessu ári af stjórnmála- og efnahagslegum ástæðum. Stjórnmálaástæðurnar eru nú um stundir aðallega tengdar Grikklandi og kosningunum þar 25. janúar 2015, og stjórnarmyndun lýðskrumara þar, sem eru farnir að gera hosur sínar grænar fyrir Kremlverjum. Þeir eru hins vegar ekki aflögufærir og alveg áhrifalausir eftir að hafa böðlazt inn á Krím og inn í Austur-Úkraínu undir fölsku flaggi.
Evran yrði fyrir alvarlegu áfalli við útgöngu Grikkja, Grexit. Grikkir hafa orðið fyrir ólýsanlegum hörmungum af völdum evrunnar, af því að hagkerfi þeirra var ekki í stakkinn búið fyrir hana. Samfylkingin á Grikklandi, PASOK, gösslaðist áfram, eins og sú íslenzka, hugsunarlaust og fyrirhyggjulaust, og smyglaði Grikklandi inn á evrusvæðið með hvítri lygi og bókhaldsbrellum og e.t.v. öðru verra. Á Íslandi var hins vegar tekið í taumana áður en glórulausir amlóðar, sumir í klóm Bakkusar, en aðrir ekki, náðu að vinna hér óbætanlegt tjón. Urðu stjórnarár VG og Saf kjósendum víti til varnaðar.
Miðað við skuldir gríska ríkisins uppi í rjáfri, 170 % af VLF, og samfelldan samdrátt hagkerfisins fram að þessu frá Hruni um u.þ.b. 20 % alls, og atvinnuleysi yfir 20 %, eiga Grikkir sér ekki viðreisnar von án nýrra og stórfelldra (um 50 %) afskrifta skulda. Takist ekki samningar við nýja valdhafa í Grikklandi um þetta, munu Grikkir halda sína leið, hvað sem tautar og raular í Berlín, Frankfurt og Brüssel. Þá mun jörð nötra í Frankafurðu, eins og í Bárðarbungu, þó að gosið komi annars staðar upp. Í Berlín hefur sennilega verið reiknað út, að ódýrara verði fyrir Þýzkaland að Grikkir hverfi úr myntsamstarfinu en að halda þeim þar. Vegna fordæmisins fyrir aðra nauðstadda, t.d. Portúgali, er ekki víst, að evrusamstarfið lifi Grexit lengi af. Nú dregur til tíðinda.
Verðlag lækkaði á evru svæðinu um 0,2 % á 12 mánaða tímabilinu desember 2013-nóvember 2014. Til að ráða bót á þessu er nú verið að smyrja peningaprentvélarnar í Frankfurt, sem á að ræsa í marz 2015, og þær eiga að ganga í 1,5 ár og senda frá sér mia EUR 1200 á tímabilinu. Þetta er mjög svipuð upphæð og bandaríski seðlabankinn sendi frá sér á 1,5 árum, en alls prentaði hann hins vegar mia USD 4500 á 6 árum frá Hruni. Ekki er víst, að árangurinn verði jafngóður og í BNA, því að fjármálakerfi evrunnar er ekki jafnþróað og bandaríkjadals. Þá á eftir að sjá Þjóðverja leyfa kaup bankans á skuldabréfum þýzkra fyrirtækja. Þýzki seðlabankinn hefur hótað að hindra það og að setja að öðru leyti sand í tannhjól peningaprentvélar ECB, og þá þarf nú ekki að spyrja að leikslokum hjá ítalska prentvélstjóranum.
Allt mun þetta leiða til mikils falls evrunnar, sem verður vítamínssprauta fyrir útflutningsiðnað alls evru-svæðisins. Útflutningsiðnaðurinn mun þess vegna verða driffjöður efnahagsbata þar, ef hann lætur á sér kræla. Það er hins vegar mjög hætt við því, að ferðamönnum frá evru-svæðinu muni fækka, m.a til Íslands. Hvort aðrir bæta það upp hérlendis og fylli hundruði spánýrra hótelherbergja á eftir að koma í ljós.
Mjög lágt gengi evru, t.d. 1 EUR = 0,8 USD, mun valda mikilli óánægju, t.d. á meðal Engilsaxa, sem munu ekki taka þessu þegjandi, heldur væntanlega gera gagnráðstafanir, t.d. með kaupum á evrum á útsöluverði. Hvernig slíkt viðskiptastríð fer saman við viðskiptastríð Vesturveldanna við Rússa, er óvíst. Árin 2015-2016 skera úr um þetta og verða spennandi.
Gagnvart Íslandi hefur mikil lækkun á gengi evrunnar líklega neikvæð áhrif á geiðslujöfnuðinn við útlönd, af því að verðmæti útflutnings minnkar mælt í öðrum myntum, og líklega mun innflutningur vaxa vegna lækkandi verða frá evrusvæðinu og gjaldmiðils, sem veikist. Þess skal þó geta hér, að viðskipti álveranna með aðföng og afurðir fara að mestu leyti fram í bandaríkjadölum.
Varnarbarátta evruríkjanna getur orðið harðvítug og langvinn og dregið úr kaupmætti almennings sem og ferðagleði út fyrir evrusvæðið. Allt hefur þetta neikvæð áhrif á eimreiðar íslenzku atvinnuveganna, utan áliðnaðar, sjávarútveg/fiskiðnað og ferðamannaiðnaðinn.
Á móti kemur meira en helmingslækkun á FOB eldsneytiskostnaði í bandaríkjadölum, sem hins vegar styrkist nú mjög. Með Innri markað Evrópu í lamasessi og Rússland lamað vegna refsiaðgerða Vesturveldanna út af Krím og Austur-Úkraínu, er líklegast, að heildarbreyting á viðskiptakjörum muni draga úr vexti landsframleiðslunnar hérlendis. Að leggja á sama tíma fram uppþembdar launakröfur sýnir, að verkalýðsforystan mætir algerlega ólesin í tíma og sýnir sig vera utangátta um hagsmuni umbjóðenda sinna með því að svara öllum spurningum með því, að læknar hafi fengið svo og svo mikið.
Hvenær fóru ýstrusafnarar að bera sig saman við lækna ? Var ekki verið að forða íslenzka heilbrigðiskerfinu frá því, að hér yrði að manna læknisstöður með útlendingum, sem engan veginn gætu veitt sambærilega þjónustu og innfæddir kollegar þeirra af ýmsum orsökum ? Hvert % í launahækkun til hinna fjölmennu stétta ASÍ jafngildir 10 milljörðum kr í aukin launaútgjöld fyrirtækjanna, og það er einfaldlega miklu meira en kostnaðaraukning á ári af læknasamningunum.
Við þessar aðstæður er eins ótímabært og hugsazt getur að heimta launahækkanir, sem eru langt umfram getu atvinnuveganna, sem aðilar beggja vegna samningaborðs hafa sjálfir öll tök á að reikna út, hver er, og eru líklega nokkurn veginn sammála um, hver er. Verkfall nú á tímum er nokkurn veginn eins heimskuleg aðgerð og hægt er að hugsa sér, því að á verkfalli tapa allir, þegar upp er staðið, og þeir mest, er sízt skyldu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2015 | 17:23
Afl- eða orkuskortur ?
Undarleg var fréttin á forsíðu Morgunblaðsins þann 12. janúar 2015 undir fyrirsögninni, "Raforkan er að verða uppseld".
Þessi fullyrðing kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum, af því að í fyrra var að fullu tekin í gagnið nýjasta virkjun Landsvirkjunar, Búðarhálsvirkjun með uppsett afl 95 MW og forgangsorkuvinnslugetu 585 GWh/a. Virkjunin var reist í tengslum við nýjan langtíma orkusölusamning við álverið í Straumsvík um endurskoðaða fjárhagslega og tæknilega skilmála, sem m.a. fólu í sér viðbótar afl 75 MW. Töku 20 MW var frestað um nokkur ár af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum, svo að 40 MW ættu að standa nú ónotuð af virkjuninni. Hvernig í ósköpunum væri nú staðan í orkumálum landsins, ef álverið hefði nýtt sér rétt sinn um a.m.k. 75 MW ? Eðlilegast er, að umframaflið og -orkan gangi til aukningar á almennri raforkunotkun í landinu, og mundi duga í nokkur ár. Því virðist ekki vera að heilsa.
Það eru fleiri gáttaðir en höfundur þessa pistils. Daginn eftir, 13. janúar 2015, birtist stutt og laggóð forystugrein í Morgunblaðinu, sem hét: "Orkan uppseld".
Eftir að hafa vitnað í fréttina með orðalaginu:"Nú styttist í, að raforkan í landinu verði uppseld", af því að "Hæg, en stöðug aukning hefur verið á orkunotkun í landinu, og hafa orkukaupendur fengið að finna fyrir minnkandi samkeppni af hendi seljenda."
Hér leikur sumt á tveimur tungum, en annað er grafalvarlegt fyrir heilbrigði raforkumarkaðarins, og verður hvort tveggja gert að umfjöllunarefni síðar í þessum pistli, en leiðarahöfundurinn heldur hins vegar áfram með hárrétta ábendingu í garð ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins:
"Landsvirkjun hefur beitt sér mjög fyrir því, að unnið verði að undirbúningi að lagningu rafstrengs til Bretlands, og ýmsir aðrir hafa sýnt því nokkurn áhuga. Í því efni hefur áherzla verið lögð á, að næg umframorka sé í landinu og að ekki þurfi að fara út í stórfelldar virkjanir til að standa undir sæstrengnum."
Þetta er nákvæmlega sami skilningur og höfundur þessa pistils hefur lagt í málflutning Landsvirkjunar undanfarin misseri og véfengt með vísun í framleiðslugetu orkukerfisins og álagsins, sem er jafnara á Íslandi en annars staðar vegna mikillar hlutdeildar stóriðju, 77 % árið 2013, og nýting uppsetts afls er hér betri en víðast hvar.
Landsvirkjun varpaði þá í tímaritinu Þjóðmálum fram nýrri hugmynd, sem var á þá leið að flytja brezka raforku um sæstrenginn til Íslands að næturþeli og draga á sama tíma niður í íslenzkum vatnsaflsvirkjunum að sama skapi og spara þannig vatn í miðlunarlónum á nóttunni, sem notað yrði daginn eftir til að framleiða raforku til sölu á brezkum reglunarmarkaði fyrir hátt verð að mati höfundar téðrar Þjóðmálagreinar.
Höfundur þessa pistils hér sá hins vegar marga meinbugi á þessari hugmynd og fékk birta gagnrýni sína í hausthefti tímaritsins Þjóðmála 2014. Núverandi málflutningur Landsvirkjunar um yfirvofandi orkuskort, þó að orðum aukinn sé, staðfestir, að fulltrúar hennar eru hættir að halda því fram, að í kerfinu leynist umframorka, sem sæstreng til útlanda þurfi til að afsetja. Í tilefni þessa hringlanda segir í lok tilvitnaðrar forystugreinar Morgunblaðsins:
"Mikilvægt er í umræðu um mögulega raforkusölu um sæstreng, líkt og önnur mál af þeirri stærðargráðu, að forsendur séu réttar. Nauðsynlegt er áður en lengra er haldið í þeirri umræðu og undirbúningi þess máls að gera grein fyrir því, hvað slíkur strengur myndi þýða í nýjum virkjanaframkvæmdum."
Framlag Landsvirkjunar til umræðunnar um hagkvæmni sæstrengs á milli Íslands og Skotlands hefur einkennzt af fullyrðingum um ónýtta orku í íslenzka vatnsorkukerfinu, sem ekki fá staðizt, enda hefur verið hörfað úr því vígi, og getgátum um gróða af slíkri samtengingu tveggja orkukerfa, sem eru algerlega út í hött vegna mikils flutningskostnaðar og lækkandi orkuverðs í Evrópu.
Einkennilegur málflutningur fulltrúa ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar heldur áfram í téðri forsíðufrétt Morgunblaðsins þann 12. janúar 2015:
"Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir, að gagnaver og annar iðnaður um allt land hafi verið að bæta við og almenn umsvif, svo sem í ferðaþjónustu, kalli á aukna raforkunotkun."
Aukningin í fjölda ferðamanna til Íslands undanfarin 5 ár hefur e.t.v. aukið árlega raforkunotkun í landinu um 100 GWh, og gagnaverin nota e.t.v. um 50 GWh. Aukning almennrar raforkunotkunar hefur verið hæg eða um 1,0 % á ári eða um 150 GWh alls undanfarin 5 ár.
Landsvirkjun er með um 70 % heildarraforkuviðskipta í landinu. Ef gert er ráð fyrir, að hún sé með 50 % viðskiptanna við almenningsveiturnar, nemur aukningin hjá henni vegna ofangreinds undanfarin 5 ár:
E=0,5x100+50+0,5x150 = 175 GWh á 5 ára skeiði.
Á þessu tímabili hefur ein virkjun Landsvirkjunar, Búðarhálsvirkjun, tekið til starfa, og framleiðir hún 585 GWh/a. Af því tekur stóriðjan um 370 GWh/a. Þá eru eftir "ónýttir" um 215 GWh/a.
Þetta er mjög lítil orka eða aðeins rúmlega 1,0 % af heildarraforkuþörf landsins. Það er þess vegna alveg ljóst, að það er algerlega ábyrgðarlaust af Landsvirkjun að selja raforku til kísilvera án þess að virkja sérstaklega. Það gerir hún fyrir PCC við Húsavík með Þeistareykjavirkjun, en hún hefur enn ekki gert það fyrir önnur kísilver, t.d. United Silicon, í Helguvík.
Eftirfarandi í tilvitnaðri Morgunblaðsfrétt bendir til, að Landsvirkjun setji nú á Guð og gaddinn og minnki þar með framboð ótryggðrar orku í landinu með þeim afleiðingum, að hún stórhækkar í verði. Raforkumarkaðurinn er fákeppnimarkaður, og ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun ber skylda til að sjá til þess, að á hverjum tíma sé nægt framboð raforku, nema auðvitað í þurrkaárum, en slíku er alls ekki til að dreifa núna, því að staða miðlunarlónanna er góð:
"Með samningum við kísilver hefur Landsvirkjun lokið við að selja þá orku, sem hún átti fyrirliggjandi. Björgvín segir ekki hægt að fullyrða, hvenær virkjuð orka í landinu verði uppseld, en farið sé að styttast í það."
Hér er talað með loðnum hætti, sem forðast ber í opinberri umræðu. Hvaða samningar eru þetta ? Ekki er vitað um aðra samninga en við PCC og United Silicon. Ef kísilfyrirtækin fjögur, sem sýnt hafa hug á fjárfestingum hérlendis, hafa hug á forgangsorkukaupum, er rétt að tala skýrt um það, að nauðsynlegt er að reisa nýjar virkjanir fyrir þessa nýju notendur, eins og verið er að gera með Þeistareykjavirkjun, ef ekki á að tefla hér á tæpasta vað með afhendingaröryggi raforkunnar, og hækka orkuverðið að þarflausu í krafti fákeppni til annarra notenda.
Það er rétt að tala skýrum orðum um það, að nýir, meðalstórir notendur sunnan heiða, á borð við Silicor á Grundartanga, kalla á nýja virkjun. Virkjanakostirnir þrír í Neðri-Þjórsá fengu í Rammaáætlun hæstu einkunn fyrir bæði lítil umhverfisáhrif og hagkvæmni. Umhverfisáhrif þessara kosta hafa verið metin, og verkhönnun þeirra er tilbúin. Það vantar einvörðungu framkvæmdaleyfi sveitarfélags.
Það er eðlilegast, að þessir verði næstu virkjanakostir Landsvirkjunar hér sunnan heiða. Á Alþingi þekkja allmargir sinn vitjunartíma um þessar mundir, og eru þess vegna byrjaðir að vinda ofan af þeim fáheyrða gjörningi Svandísar Svavarsdóttur að færa þessar virkjanir úr nýtingarflokki á grundvelli eigin sérvizku og félaganna í VG og Saf, sem bauð henni að gera allt, sem hún gat og gat ekki, sbr Hæstaréttardóm yfir henni, til að þvælast fyrir öllum vatnsaflsvirkjunum í landinu fram í rauðan dauðann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2015 | 18:48
Evrópa í dróma
Sláandi mikill munur er nú á hagþróun í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, og í ríkjum Evrópusambandsins, ESB. Í BNA var yfir 5,0 % hagvöxtur árið 2014, um 1,5 % verðbólga og til urðu yfir 300 000 störf á mánuði síðustu mánuði ársins, og atvinnuleysi þar nam 5,8 % í nóvember 2014. Í ESB var hagvöxtur um 0,3 % 2014, verðhjöðnun 0,2 % og atvinnuleysið á evru-svæðinu var 11,5 % í október 2014 og vaxandi. Hver skyldi vera skýringin á þessum reginmun á árangri hagstjórnar í BNA og ESB ? Svarið leiðir í ljós, að evran er meinloka stjórnmálamanna, sem hagfræðingar reyna að lappa upp á.
Í BNA er seðlabankinn búinn að stunda mjög öflugar örvunaraðgerðir, sem líkja má við seðlaprentun upp á trilljónir bandaríkjadala frá fjármálakreppunni 2008, þegar Lehman Brothers-bankinn féll. Í BNA er auðvelt að fitja upp á nýjungum og stofna frumkvöðlafyrirtæki, launatengd gjöld eru lág og litlar hömlur eru á vinnumarkaði til ráðninga og brottrekstrar.
Í seðlabanka ESB, ECB-bankanum, hefur ríkt grundvallarágreiningur um peningamálastefnuna. Þjóðverjar vilja ekki, að ECB kaupi skuldabréf aðildarríkjanna, því að slíkt geti sett af stað verðbólgu, þó að síðar verði. Þjóðverjar voru andvígir lækkun vaxta bankans niður fyrir núll. ÉCB er sem sagt með neikvæða vexti á fé, sem hann fær til geymslu. Slíkt er algert örvæntingarmerki.
Þýzkir sparifjáreigendur urðu óhressir með það, og þeir munu verða æfir, ef verðbólgan fer af stað. Þýzki seðlabankinn með Jens Weidemann í broddi fylkingar, ver hagsmuni þeirra með kjafti og klóm, því að þeir eru undirstaða þýzka bankakerfisins og þar með athafnalífsins. Það reynir talsvert á umburðarlyndi þýzkra sparifjáreigenda núna, þegar evran tapar fjórðungi af verðgildi sínu gagnvart bandaríkjadal. Ef ofan á þetta mundi bætast verðbólga í Þýzkalandi, mundu sparifjáreigendur þar fara að hugsa sér til hreyfings úr bönkunum, og þá hristast undirstöður þýzka hagkerfisins.
Alls konar vandamál hrannast upp á ESB-himninum, svo að auðvelt er að rökstyðja, að forsendur hafa breytzt frá því, að meirihluti Alþingis var handjárnaður 16. júlí 2009 til að samþykkja umsókn um aðild að ESB. Það er með engu móti hægt að halda því fram lengur, að Íslandi gæti gagnast aðild að Evrópusambandinu, eins og leikar standa nú.
ESB-ríkin standa frammi fyrir orkukreppu, því að um fjórðungur af orkunotkuninni kemur eftir gasleiðslum frá Rússlandi. Síðan árið 2014 stendur yfir efnahagsstríð á milli vestrænna ríkja og Rússlands, sem leitt getur til greiðslufalls á þessu ári á skuldum rússneska ríkisins. Þá gætu Rússar hæglega gripið til þess örþrifaráðs að skrúfa fyrir gasið til Mið- og Vestur-Evrópu.
ESB-ríkin búa við um 11 % og vaxandi atvinnuleysi. Þar er kerfisvandi á ferðinni, sem bitnar verst á ungu fólki, 18-30 ára, og er atvinnuleysi í þessum hópi um 50 % í Suður-Evrópu. Um er að ræða illvígt og langvarandi atvinnuleysi, sem aðeins öldrun þjóðfélaganna virðist geta breytt til batnaðar. Kerfisvandinn er fólginn í miklum kostnaði fyrir fyrirtækin við hverja ráðningu og miklum hömlum á brottrekstri. Víða í ESB keyrir skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga úr hófi fram, og launatengd gjöld eru há. Þannig nema t.d. skatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu) 2013 í Danmörku 49 %, í Frakklandi 45 % og á Ítalíu 42 % á meðan meðaltalið nam 34,1 % í OECD. Skattheimta af þessu tagi hamlar hagvexti og eyðileggur samkeppnihæfni, en hún er ær og kýr jafnaðarmanna, sem þykjast stjórna með því að rífa fé af þeim, sem leggja sig fram, og færa til hinna, sem minna mega sín, af því að þeir annaðhvort geta ekki eða nenna ekki að leggja sig fram. Þetta er réttlæti ræningjans, því að hlutverk Hróa hattar er það engan veginn í nútíma vestrænu þjóðfélagi. Hrói höttur starfaði undir lénskipulagi, og stundum mætti ætla af málflutningi vinstri manna hérlendis, að þeir telji sig þrúgaða undir lénskipulagi.
Hagvöxtur er nánast enginn í ESB, enda þarf að öðru jöfnu mannaflaaukningu á vinnumarkaði til að um hagvöxt geti verið að ræða. Annar þáttur er framleiðniaukning, en þar sem fjárfesting er af jafnskornum skammti og í ESB, er ekki hægt að búast við umtalsverðri framleiðniaukningu. Ástandið í hagkerfum Evrópu er alvarlegt og veldur nú alvarlegum eftirspurnarskorti í Evrópu, sem m.a. kemur niður á utanríkisviðskiptum Íslands.
Hlutdeild launakostnaðar í heildarkostnaði fyrirtækja er 57 % í ESB að meðaltali. Um er að ræða laun og launatengd gjöld. Á Íslandi er þetta hlutfall hið hæsta í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, eða 70 %. Launabogi íslenzkra fyrirtækja er þess vegna spenntur til hins ýtrasta. Vegna lítillar framleiðniaukningar felst svigrúm fyrirtækja til launahækkana aðallega í að fækka starfsfólki, en um helmingur launatengdu gjaldanna felst í framlögum til lífeyrissjóða, og þessi framlög verður að meta til launa, því að þau fela í sér sparnað launþeganna til elliáranna. Málflutningí verkalýðsleiðtoganna nú í aðdraganda kjaraviðræðna má líkja við, að þeir ætli að saga í sundur greinina, sem þeir, og allir launþegar landsins, sitja á. Ábyrgðarleysi þeirra er með algerum ólíkindum, ef þeir ætla að steypa landinu í glötun núna með kröfum, sem, ef samþykktar verða, munu valda mikilli hækkun á öllum vörum, gengislækkun, skuldahækkun, atvinnuleysi og minni ávöxtun lífeyrissjóðanna, sem þeir þó bera svo mjög fyrir brjósti. Að vísa til kjarasamnings lækna, sem vinna hjá ríkinu, er eins fávíslegt og hugsazt getur. Menntun lækna og starfsvettvangur er einfaldlega algerlega ósambærileg við aðstæður félaga í verkalýðsfélögunum. Auk þess aflar téður vinnuveitandi tekna til launagreiðslna og annars með skattlagningarvaldi, sem viðsemjendur verkalýðsfélaganna hafa ekki. Það fer bezt á því að gleyma læknum og kjarasamningi þeirra og hætta að bera saman ósambærilega hluti, enda leiðir slíkt aðeins út í ógöngur.
Annar kostnaður fyrirtækjanna en launakostnaður nemur að jafnaði 30 % af verðmætasköpun þeirra, og er hann kallaður vergur rekstrarafgangur. Hann samanstendur að mestu af afskriftum til endurnýjunar á fastafjármunum, vaxtakostnaði, tekjuskatti og hagnaði. Síðasti liðurinn er nauðsynlegur til að umbuna fjármagnseigendum fyrir þá áhættu að leggja eigið fé í fyrirtækið, og þarf þess vegna að vera hærri en vaxtatekjur af bankainnistæðum eða skuldabréfum. Fjárfestingar á Íslandi eru allt of litlar til að viðhalda hér þokkalegum hagvexti. Skýringanna er m.a. að leita í mjög háum vaxtakostnaði og mjög háum launakostnaði í hlutfalli við getu fyrirtækjanna, svo að arðgreiðslur verða í mörgum tilvikum lægri en nemur eðlilegri ávöxtun eigin fjár fyrirtækjanna.
Ef t.d. launakostnaðarhlutfallið á Íslandi væri hið sama og að meðaltali í ESB, 57 %, þá ykist rekstarafgangur fyrirtækjanna um 90 mia kr, sem mundi þýða yfir 0,5 Mkr (milljónir króna) á hvern vinnandi mann á Íslandi á ári. Yfirfært á samkeppnihæfni fyrirtækja á Íslandi má halda því fram, að íslenzkir launþegar fái um þessar mundir meira í sinn hlut en íslenzk fyrirtæki þola í raun og veru. Það er þannig ljóst, að launþegar á Íslandi fá nú þegar meira í sinn hlut af þjóðarkökunni en með sanngirni má ætlast til. Allir þurfa hins vegar að sameinast um að stækka þessa þjóðarköku, en það verður ekki gert með því að spenna launabogann um of, heldur með aukinni framleiðni og með auknum útflutningsverðmætum.
Að sjálfsögðu jafngildir ofangreint hámarkshlutfall launakostnaðar, 70 %, ekki því, að kaupmáttur á Íslandi sé sá hæsti í Evrópu. Hann er nú sá 11. hæsti, en hann vex hins vegar hraðast hérlendis og yfir 5,0 % árið 2014. Til að viðhalda þeim vexti þurfa tekjur fyrirtækjanna að vaxa að raunvirði. Þar eru lág verðbólga, efnahagsstöðugleiki og beinar erlendar fjárfestingar, lykilatriði. Verðbólgan var árið 2014 undir 1,0 %, sem er mjög gott fyrir alla, ekki sízt unga fólkið, og nú hillir undir beinar erlendar fjárfestingar í kísiliðnaði á Íslandi. Þeim munu fylgja fjárfestingar í orkuiðnaði fyrir lánsfé og eigið fé, sem kjörið er fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í. Lífeyrissjóðir hafa árlega úr um 100 mia kr að spila í fjárfestingar, og ekki óeðlilegt, að fimmtungur þess fari til virkjana, en öllu vafasamara er af þeim að fjármagna kísilverin sjálf. Þar er of mikil óvissa og áhætta fyrir þá, en orkufyrirtækin eru vön að setja varnagla í langtíma orkusölusamninga sína, sem veitir þeim forgangsrétt í þrotabú, ef illa fer, svo að þau hafa allt sitt á þurru. Verkalýðsforingjum ber að gera sér grein fyrir því, hversu gríðarlegt tjón þeir vinna umbjóðendum sínum með því að standa fast á kröfugerð, sem er umfram getu atvinnuveganna að standa undir.
Það, sem hér hefur verið rakið, sýnir, að verðmætaskiptingin á milli fjármagnseigenda og launþega er hinum síðar nefndu meira í hag á Íslandi en nokkurs staðar þekkist. Þetta er að mörgu leyti ánægjulegt og sýnir, að mikilvægar forsendur eru hér uppfylltar til að hagkerfið megi flokka sem Félagslegt markaðshagkerfi með dreifingu 70 % auðævanna til launþega, en eftir sitja 30 % hjá fjármagnseigendum. Þetta er góður grunnur að tiltölulega miklum jöfnuði í þjóðfélaginu. Ef samkeppni á markaði væri virkari en raun ber vitni um, væri hér bezta dæmið um vel heppnað Félagslegt markaðshagkerfi, sem fyrirmyndar má leita að í Þýzkalandi og er að mörgu leyti eftirsóknarvert.
Næstu ríki á eftir Íslandi í hlutdeild launakostnaðar af verðmætasköpun eru Svíþjóð með 65 % og Danmörk með 64 %. Noregur og Finnland eru mun neðar á þessum lista. Af þessu má draga þá ályktun, að þar, sem launakostnaðarhlutfallið er hátt, ríki meiri tekjujöfnuður en annars staðar. Þetta er jákvætt fyrir lífsgildi þegnanna og markmiðin, sem flestir geta sameinazt um, að athafnalífið eigi að hafa. Andstæðan væri lágt launakostnaðarhlutfall, þar sem fjármagnseigendur sópuðu að sér megninu af ávinningi atvinnustarfseminnar.
Með hliðsjón af þessari upptalningu verður ekki komið auga á veigamikla íslenzka hagsmuni, sem betur væru settir innan ESB en utan. Þar er meiri ójöfnuður í tekjudreifingu og meira atvinnuleysi, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðfélagsóróann. Ef við værum með evru og launahækkanir færu úr böndunum, mundum við fá hér gríkskt ástand. Fljótt á litið er það helzt stjórnmálastéttin og embættismenn, sem hagsmuni hafa af inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að Berlaymont er kjörlendi fyrir þessa hópa. Sem betur fer setur þó meirihlutinn í þessum hópum hagsmuni Íslands ofar eigin hagsmunum.
Hugsanlega mundu fésýslustofnanir hérlendis þrífast betur innan ESB en utan. Það er hins vegar enn of skammt liðið frá því, að fésýslukerfi landsins var knésett af Bretum, sem ekki liðu fésýslumiðstöð á Íslandi, eins og þá var orðin raunin. Rússnesk lánveiting til Seðlabanka Íslands var í boði 7. október 2008, en þá þótti hins vegar vænlegra að halla sér að AGS, sem lengi vel setti samþykkt Icesave-kvaðanna sem skilyrði lánveitinga. ESB studdi þessar kröfur eindregið og tók beina afstöðu gegn Íslendingum með Bretum og Hollendingum í málaferlunum fyrir EFTA-dómstólinum þrátt fyrir hrottalega meðferð Breta á íslenzku bönkunum á Bretlandi og beitingu hryðjuverkalaga á Ísland, svo að ekki ætti nú reynslan að laða íslenzka fjármálageirann að ESB.
Innflytjendur mundu væntanlega kætast við niðurfellingu tolla, t.d. á matvælum, en gæðum á íslenzka matvörumarkaðinum mundi hraka, ef íslenzkar landbúnaðarvörur yrðu að láta undan síga, og fyrir vikið yrði gjaldeyri kastað á glæ. Tollaniðurfelling þarf að gerast skipulega og getur gert það með gagnkvæmum samningum, þó að Ísland standi utan ríkjasambands.
Ýmsir hérlendir starfsmenn stjórnsýslunnar og tilvonandi slíkir horfa með öfundaraugum með græðgibliki til búrókratanna í Brüssel, sem lifa þar í vellystingum og njóta skattfríðinda.
Nú liggur umsókn Íslands um aðild að ESB í skúffu búrókrata stækkunarstjórans í Brüssel og rykfellur þar. Með því að láta umsóknina liggja í láginni, gefa íslenzk stjórnvöld ranglega til kynna, að þau vilji sæta færis á inngöngu strax og ESB þóknast að gefa kost á viðræðum að nýju. Þetta er algerlega ótækt, með fullri virðingu fyrir framkvæmdastjórninni í Berlaymont, af því að meirihluti þjóðarinnar, meirihluti þingmanna og ríkisstjórnin sjálf er andvígur aðild Íslands að ESB.
Af ummælum margra þingmanna við atkvæðagreiðsluna um téða umsókn á Alþingi 16. júlí 2009 má ráða, að þáverandi meirihluti hafi verið beittur flokksagavaldi, þ.e. þvingaður með hótunum, til að samþykkja umsóknina. Þjóðaratkvæðagreiðslu um málið var þá hafnað af Alþingi. Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna núverandi hefur í stefnuskrá sinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllun umsóknar. Hins vegar er þar að finna viljayfirlýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu, ef flokkarnir vilja afla heimildar til viðræðna um aðild að ESB. Hvað sagt kann að hafa verið á einhverjum kosningafundum af einstökum frambjóðendum, bindur ekki hendur þingflokkanna. Þeir hafa fullt lýðræðislegt umboð til að afturkalla umsóknina, og verður ekki betur séð en slíkt þjóni hagsmunum landsins bezt í núverandi stöðu. Það mun hvort eð er þurfa að byrja frá grunni, vilji menn taka upp þráðinn aftur.
Þingmenn hafa líka fullt lýðræðislegt umboð til að óska eftir staðfestingu þjóðarinnar á slíkri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til að spara fé væri þá ráðlegt, að slík atkvæðagreiðsla færi fram samhliða kjöri forseta lýðveldisins, sem verða munu næstu reglubundnu allsherjar kosningar í landinu 2016.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2015 | 20:26
Hagsæld verður aðeins reist á hófsemi
Matt Ridley rekur í bók sinni, "Heimur batnandi fer", hvernig flest hefur gengið mannkyni í haginn undanfarin tvöhundruð ár. Allur kostur þorra manna hefur snarbatnað, fæða, húsnæði, ný tæki og tækni, lyf og læknishjálp. Þetta hefur skilað sér í mikilli fólksfjölgun og lengri og betri ævidögum en fyrir tíma tæknibyltinga 19. aldar, t.d. hagnýtingu jarðefnaeldsneytis og rafmagns.
Í bókinni sýnir Ridley, hvernig flest lífsgæði hafa snarlækkað í verði fyrir fjöldann. Eitt hefur þó ekki lækkað eins skarpt og vænta mátti, en það er húsnæði. Ridley telur, að þá staðreynd megi skýra með ýmsum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Annars vegar stýri hið opinbera skipulagsmálum og skammti land til bygginga. Hins vegar hvetji það til skuldsetningar við íbúðakaup með því að niðurgreiða vaxtakostnað. Hvort tveggja leiði til hærra íbúðaverðs. Á Íslandi er gríðarlegum upphæðum, 10-20 milljörðum kr, varið úr ríkissjóði til vaxtabóta árlega, og væri rétt að kynna áætlun um afnám þeirra í áföngum um leið og skilyrði til vaxtalækkana og hagstæðari lántöku til öflunar húsnæðis eru sköpuð.
Nú eru ýmis teikn á lofti um, að ofangreindri hagsældarþróun hins tæknivædda hluta mannkyns sé lokið. Það er ekki vegna þess, að tækniþróun mannkyns sé lokið, heldur af þeirri lýðfræðilegu ástæðu, að þjóðirnar viðhalda ekki fjölda sínum lengur og er jafnvel tekið að fækka. Meðalaldur hækkar, og gamlingjarnir verða í sumum löndum óbærilegur baggi á sífellt fækkandi fólki á vinnualdri, sem óhjákvæmilega mun leiða til kjararýrnunar. Þetta á við um Evrópu, Japan, Kína o.fl., en ekki jafnfljótt né í sama mæli í Bandaríkjunum, BNA. Þar gætir aftur á móti vaxandi þjóðfélagsóánægju vegna vaxandi misskiptingar tekna og eigna og kynþáttaspenna virðist einnig fara þar vaxandi.
Leið Þjóðverja, Sozial-Marktwirtschaft, einnig kölluð fyrsta nýfrjálshyggjan, eða Félagslegt markaðshagkerfi, er gæfulegri til langtímaárangurs í kjaramálum og samfélagssáttar en leið Engilsaxa, sem kennd er við Nýfrjálshyggju Reagans og Thatchers.
Á Íslandi fjölgar fólki enn um u.þ.b. 2500 manns á ári þrátt fyrir tímabundið fleiri brottflutta en aðflutta innfædda á tímabilinu 2009-2013, t.d. 4000 manns til Noregs. Þar í landi horfa menn nú hins vegar framan í djúpstæða kreppu, þó að þeir séu enn í afneitun. Fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi blasir við á nýju ári, því að norskar fjölskyldur eru mjög skuldsettar og eimreið athafnalífs Norðmanna, olíu- og gasvinnsla, er ekki lengur rekin með hagnaði, heldur með tapi, þegar fjárfestingar, rekstrarkostnaður og arðsemikröfur eru teknar með í reikninginn. Ekkert bendir til breytinga á þessari stöðu á næstu árum, og mun tiltölulega lágt eldsneytisverð létta undir með Evrópu, vestan Rússlands, Japönum og öllum, nema eldsneytisútflutningslöndum, sem mörg hver hafa ekki í önnur hús að venda. Fjárflótti er brostinn á í Noregi, sem lýsir sér í því, að seðlabanki Noregs ver daglega talsverðum gjaldeyri til að halda uppi gengi NOK, sem hefur þó fallið um fjórðung. Þetta er ekki ritað af Þórðargleði, heldur til að benda á fallvaltleika hagkerfis, sem gegnsýrt er af einhvers konar gullgrafaragræðgi.
Mjög hefur horft til betri vegar í íslenzka hagkerfinu frá síðustu Alþingiskosningum. Minnkandi verðbólga, sem nú er komin niður fyrir 1,0 % á ársgrundvelli, hefur valdið því, að umsamdar hóflegar kjarabætur hafa skilað sér með þeim hætti ofan í vasa launþega, að vísitala kaupmáttar hverrar unninnar klukkustundar var í nóvember 2014 sú hæsta, sem mælzt hefur, eða 120,5 stig, og bötnuðu kjör almennings mæld á þennan mælikvarða um yfir 5,0 % árið 2014. Það er engum vafa undir orpið, að verðlagsstöðugleiki í hagkerfi, eins og okkar, þar sem laun eru aðalútgjaldaliður flestra fyrirtækja, varðar leiðina til bættra lífskjara. Verkalýðsforingjar, sem ekki skilja þessi einföldu sannindi, eru ekki starfi sínu vaxnir. Ef þeir ætla að koma hér á upplausn aftur, óstöðugleika, verðbólgu, gjaldþrotum og atvinnuleysi, er ábyrgðarhluti þeirra meiri en þeir eru menn til að standa undir.
Ein af forsendum verðlagsstöðugleikans eru hófsamar launahækkanir, sem taka mið af verðmætasköpun í landinu. Allir verða að sýna biðlund og taka þátt í að skjóta stoðum undir öfluga framleiðsluvél á Íslandi, eins og þeir eru menntaðir til.
Það er alveg áreiðanlegt, að launahækkun fjölmennra stétta úr takti við greiðsluþol viðkomandi fyrirtækja mun hafa eyðileggjandi áhrif á samkeppnihæfni þeirra og stöðugleikann, því að þau munu þurfa að velta kostnaðaraukningunni út í verð sinna vara og þjónustu, eða hreinlega að leggja upp laupana, og verðbólgan losnar úr grindum. Það eru í sjálfu sér engin rök í þessu sambandi, þó að menn geti fengið betri kjör erlendis. Það verður aðeins að taka tillit til þess undir hverju íslenzka hagkerfið getur staðið, enda hafa fjölmargar stéttir í landinu getað haldið hinu sama fram, þó að nú taki að sneiðast um atvinnutækifæri á erlendri grundu vegna hrörnunar hagkerfa allt í kring. Með þolinmæði og hófsemi mun íslenzka hagkerfið ná þessum hagkerfum, og þá munu kjarabætur ekki láta á sér standa.
Það er hins vegar annar flötur á launamálum miðstéttarinnar, og hann snýr að skattheimtunni. Tæplega önnur hver króna af launahækkun hennar er samstundis tekin af henni og flutt í hirzlur ríkisins. Samstarfsáætlun síðustu ríkisstjórnar og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, tók mið af, að ríkissjóði yrði bætt upp tekjutap sitt eftir Hrun með tvennum hætti. Aukin skattheimta skyldi brúa 45 % bilsins, og niðurskurður og hagræðing í ríkisrekstri skyldi skila 55 % af því, sem vantaði. Vinstri stjórnin hafði hins vegar ekkert bein í nefinu til að framfylgja þessari áætlun, heldur varð hlutdeild skattahækkana 84 % og sparnaðar 16 %.
Það er meira að segja ofmælt, að vinstri stjórnin hafi sparað 16 %. Hún skar niður framkvæmdir í vegamálum og viðhaldi ríkiseigna, en um varanlega hagræðingu og sparnað í ríkisrekstrinum sjálfum var ekki að ræða. Hún stórskaðaði heilbrigðisgeirann og menntageirann með því að skera fjárveitingar við nögl og ætlaðist til sömu þjónustu án nokkurra kerfisbreytinga, sem leitt gætu til langvarandi sparnaðar. Ósjálfbær niðurskurður vinstri aflanna kemur nú niður á afkomu ríkissjóðs, því að bæta verður fyrir stjórnsýsluleg asnaspörk og grillur jafnaðarmanna og vinstri grænna. Vinstri öflin reka nú óþjóðholla stefnu, sem lýsa má sem smjaðri fyrir Brüssel-veldinu og fjármálaveldinu, eins og krystallaðist í Icesave-deilunni og afstöðunni til bankaskatts og skattlagningar á þrotabúunum. Þessi einkennilega blanda hefur komið í stað baráttunnar fyrir "alræði öreiganna¨.
Nú er hafin sókn til að lækka framfærslukostnað í landinu með lækkun óbeinna skatta og gjalda á vörur í landinu, sem búrókrötum fortíðar hefur þótt við hæfi að meðhöndla sem lúxusvarning. Nú er hins vegar greinilega komið að því í tengslum við komandi kjarasamninga að lækka tryggingagjaldið og beinu skattana, og væri eðlilegast í þessu sambandi að afnema efsta þrep tekjuskattsins.. Slíkt mundi bæta kjör miðstéttarinnar gríðarlega, hvetja til aukins vinnuframlags allra stétta og auka skilvirkni skattheimtunnar til muna. Þar með er hægt að láta hærri krónutölu bætast við neðri hluta launataflanna.
Gríðarlegir fjármunir íslenzkra útflytjenda tapast við efnahagshrun Rússlands. Evrópa er í illvígri og líklega langvarandi efnahagslægð. Lækkandi eldsneytisverð mun þó hjálpa upp á kaupmátt Evrópubúa til fiskkaupa, og Bandaríkjamarkaður lofar góðu, enda er þar rífandi gangur. Málmmarkaðir verða áfram óbeysnir á meðan hagvöxtur í heiminum er við sögulegt lágmark. Fjárfestingar á þjóðhagslegan mælikvarða láta bíða eftir sér í orkukræfa iðnaðinum hérlendis, en hver veit, nema Eyjólfur hressist, og fréttir voru nú einmitt að berast af því, að PCC hefði lokið við fjármögnun kísilmálmvers á Bakka við Húsavík. Það verður áfram að sigla þjóðarskútunni af mikilli kostgæfni á milli skers og báru. Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2015 | 18:20
Ástæður stöðnunar
Ísland var á árinu 2013 í 11. sæti Evrópu-ríkjanna varðandi VLF (verga landsframleiðslu) á mann og einkaneyzlu á mann. Í öllum bölvuðum barlóminum og nöldrinu hérlendis er hollt að íhuga þetta. Á undan voru eftirfarandi ríki í réttri röð frá toppi, og er rétt að gera nokkur þeirra að umræðuefni:
Lúxemborg - Noregur - Sviss - Holland - Írland - Austurríki - Svíþjóð - Danmörk - Þýzkaland - Belgía.
Lúxemborg er á toppinum aðallega vegna öflugs fjármálakerfis og lægri skattheimtu en annars staðar tíðkast, sem laðað hefur fé að þessu borgríki á milli Frakklands og Þýzkalands. Lúxemborg er líkleg til að halda stöðu sinni, þó að ESB og BNA muni reyna að sauma að skattaparadísinni.
Noregur er númer tvö í röðinni vegna olíu- og gasvinnslu, sem nemur um 2 milljónum tunna á sólarhring. Vinnslukostnaður Norðmanna á þessu eldsneyti er hins vegar á meðal þess hæsta, sem gerist. Á meðan vinnslukostnaður í Mið-Austurlöndum er innan við 10 USD/tunnu (tunna er 208 l)og á brezka landgrunninu um 60 USD/tunnu, þá er norskur vinnslukostnaður líklega um 90 USD/tunnu að meðaltali. Með heimsmarkaðsverð á hráolíu undir 60 USD/tunnu, eins og nú er raunin á, þá er ljóst, að olíuiðnaðurinn færir Norðmönnum ekki lengur gull og græna skóga, heldur eymd og stórtap. Í útflutningstekjum Norðmanna munar mest um sölu á gasi og olíu, og almennt kostnaðarstig í Noregi er hæst í Evrópu, og má rekja það til samkeppni um vinnuaflið frá þessum geira, sem nú er á fallanda fæti. Fasteignaverð er stjarnfræðilega hátt í Noregi og spáð hrapi innan tíðar með alvarlegum afleiðingum fyrir mörg heimili og þjóðfélagið í heild. Allt gerir þetta norska hagkerfið mjög viðkvæmt í núverandi árferði, svo að það er næsta víst, að Norðmenn verða ekki í þessu sæti að ári. Norska krónan hefur fallið um fjórðung, og norski seðlabankinn, Norges Bank, ver hana nú enn frekara falli með gríðarlegum uppkaupum á NOK. Það er þess vegna brostinn á fjármagnsflótti frá Noregi, og markaðurinn metur horfur Noregs árið 2015 slæmar.
Svissland stendur mjög sterkt að vígi. Þar er rótgróinn iðnaður, bæði efnaiðnaður, knúinn að miklu leyti af vatnsaflsvirkjunum Svisslands, og tækjasmíði af fjölbreyttu tagi, frá klukkum til afriðla fyrir álver. Þá má ekki gleyma svissneska súkkulaðinu og konfektinu, sem Svisslendingar taka jafnan með sér og úthluta á ferðum sínum erlendis. Svissland er ferðamannaland, en skilgreiningin á því er 2 eða fleiri erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári. Undir svissneska hagkerfinu eru þannig nokkrar traustar stoðir, og má þá ekki gleyma bankakerfinu, sem er ein af ástæðum styrkleika svissneska frankans, en fjármagn hefur flúið af evrusvæðinu í svissneska frankann og þannig gert svissneskum útflytjendum erfitt fyrir vegna hækkunar gengis CHF. Greip svissneski seðlabankinn til þess ráðs að setja þak á gengi frankans 1,2 m.v. evru og seldi franka sleitulaust fyrir evrur þar til þessu hlutfalli var náð. Ekki má gleyma svissneska landbúnaðinum, þ.m.t. vínyrkjunni, en þeir verja landbúnað sinn og telja varða við þjóðaröryggi, eins og svissneska herinn, sem nú er að vísu farinn að láta á sjá. Þrátt fyrir mikla velgengni eru Svisslendingar enn iðjusamir og nægjusamir, og þeir eru útsjónarsamir og vel menntaðir og munu þess vegna halda stöðu sinni sem ein af þremur ríkustu þjóðum Evrópu og sennilega leysa Noreg af hólmi sem númer 2.
Þjóðirnar, sem koma þarna á eftir í röðinni, eru valtari í sessi af margvíslegum ástæðum. Ein af þeim er öldrunin, sem nú leikur margar þjóðir svo grátt, að fari fram sem horfir, munu þær að mannsaldri liðnum líkjast mest einu risastóru elliheimili, þar sem aðeins 2 eru á vinnualdrinum 16-65 ára fyrir hvern á ellilaunum. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni, sem önnur eins óáran dynur á, og er hún mikil ógæfa. Verður fjallað um þetta fyrirbæri hér á eftir.
Seint á 4. áratug 20. aldarinnar reyndu hagfræðingar að útskýra, hversu lífseig Kreppan mikla var, með skorti á fólki. "Breytingin úr fólksfjölgun í fólksfækkun getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér", sagði John Maynard Keynes árið 1937. Árið eftir sagði annar virtur hagfræðingur, Alvin Hansen, að Bandaríkin, BNA, væru að verða uppiskroppa með fólk, land og nýjar hugmyndir. Afleiðinguna sagði hann verða "tímamóta stöðnun, veikburða viðhjörnun, sem dæi fljótlega, og viðvarandi kreppur, sem skapa ólæknandi atvinnuleysi". Maynard Keynes var átrúnaðargoð á Bretlandi fram að valdatöku Margaret Thatcher árið 1979, en þá var sérstök gerð frjálshyggju leidd þar til öndvegis og Keynesisma velt úr sessi, enda höfðu kenningar hans, sem voru í uppáhaldi hjá jafnaðarmönnum, reynzt gagnslausar á 7. og 8. áratuginum; og verra en það. Þær voru stórskaðlegar efnahagslegum stöðugleika.
Árið 2013 blés hagfræðingurinn Larry Summers við Harvard háskólann rykinu af hugtakinu "tímamóta stöðnun" til að lýsa langvarandi sýkingu vestrænu hagkerfanna. Lítil eftirspurn og mikill sparnaður gerðu það ómögulegt að örva hagvöxt með hefðbundnum lágum vöxtum, sagði hann. Lýðfræði gæti leikið aðalhlutverkið í veikingu hagkerfanna, sagði Summers, mun mikilvægara hlutverk en á 4. áratuginum. Sé þetta rétt hjá Summers, sem margt bendir til, gætum við nú staðið frammi fyrir langvarandi stöðnunarskeiði og afturfararskeiði.
Öldrun íbúanna getur haldið aftur af vexti og vöxtum með mismunandi hætti. Minnkandi framboð vinnuafls liggur beinast við. Úttakið frá einu hagkerfi er háð fjölda starfsmanna og framleiðni þeirra. Í Japan hefur fólki á starfsaldri fækkað síðan um 1990 og í Þýzkalandi síðan um aldamótin, og fækkunin verður hraðari á næstu árum. Fjölgun á vinnumarkaði mun stöðvast á Bretlandi á næsta áratugi, og í BNA verður fjölgunin aðeins 0,3 %.
Að öðru jöfnu mun samdráttur í fjölgun starfsmanna um 0,5 % draga jafnmikið úr hagvexti. Hagkerfisládeyðan gæti hafa flýtt fyrir starfslokum margra, og þess vegna hraðað fækkun á vinnumarkaði. Í BNA öðluðust stórir eftirstríðsárgangar rétt til opinbers lífeyris árið 2008, þá 62 ára. Þessi lífeyrisréttur gæti skýrt helming falls fólks á atvinnualdri, sem annaðhvort er að leita að vinnu eða er í vinnu, úr 66 % í 63 %. Á Íslandi er þetta hlutfall 67 % og fer lækkandi. Þetta rímar vel við reynslu Japana, sem urðu fyrir stöðnun og verðhjöðnun á 10. áratugi síðustu aldar um svipað leyti og fólki á vinnualdri tók að fækka. Lítill hagvöxtur þrátt fyrir lága vexti og ársverðbreytingar um 0 verða líklega viðvarandi ástand af þessum orsökum, og langvarandi verðhjöðnun vofir yfir evru-svæðinu.
Íbúafjöldi og aldur hefur líka áhrif á aðgengi fyrirtækja að viðskiptavinum og starfsmönnum, og þar af leiðandi á umfang fjárfestinga þeirra. Keynes og Hansen höfðu áhyggjur af, að fækkandi íbúar þyrftu minna á framleiðslu bandarískra fyrirtækja að halda en íbúar í fjölgunarhami. Nútíma líkön um hagvöxt eru reist á, að fyrirtæki þurfi ákveðna fjárfestingarupphæð per starfsmann-tæki, byggingar, land og ráð á þekkingu, til að framleiða hverja afurðareiningu. Ef færri starfsmenn eru fáanlegir, þá þurfa fyrirtækin jafnframt minna fjármagn. Neikvæð mannfjöldaþróun hefur þannig neikvæð áhrif á þróun fjárfestinga. Nákvæmlega þetta hefur átt sér stað, t.d. í Þýzkalandi.
Í rannsóknarritgerð komust Eugénio Pinto og Stacey Tevlin við bandaríska alríkis seðlabankann að því, að nettó fjárfesting (brúttó fjárfesting mínus afskriftir) er nálægt lágmarki sínu sem hlutfall heildarfjárbindingar frá seinni heimsstyrjöld í BNA. Þetta er sumpart háð efnahagssveiflunni, því að bankakreppan leiddi af sér frestun fyrirtækja á nýframkvæmdum, og sumpart sérstakt fyrir okkar tíma. Það hægðist á vexti fastafjármuna úr 3,1 % á ári tímabilið 1994-2003 í 1,6 % 2004-2013. Hagfræðingar skýra 1/3 vaxtarsamdráttar með minnkandi aukningu vinnuafls og 2/3 til færri nýjunga. Með öðrum orðum kaupa fyrirtækin minna af tækjabúnaði, af því að þau hafa færri starfsmönnum úr að spila, færri tækniframfarir að nýta sér. Það má færa fyrir því rök, að minnkandi líkamleg frjósemi leiði til minnkandi andlegrar frjósemi, þegar litið er til meðaldurs þeirra, sem gert hafa merkar uppgötvanir.
Á Íslandi höfum við enn nægt landrými og auðlindir fyrir stækkandi þjóð. Tækniþróunin hefur leitt til mikillar framleiðniaukningar og þess, að landið getur nú framfleitt margfaldri fornri jafnvægisíbúatölu sinni, sem var um 50 þúsund íbúar, og talið er, að mannfjöldinn hafi sveiflazt á milli 30 þúsund og 80 þúsund manns. Með fleiri íbúum deilist fastur kostnaður á fleiri, svo að á meðan útflutningsgreinarnar geta tekið við fleira fólki, mun fjölgun íbúanna hérlendis leiða til bættra kjara heildarinnar. Hver sú fjölgun getur orðið er háð tækniþróun og ytri aðstæðum, eins og mörkuðum, en er verðugt rannsóknarefni. Hitt er ljóst, að Íslendinga þurfa ekki að bíða hin illu örlög fólksfækkunar á næstunni vegna takmörkunar á auðlindum. Hitt er annað mál, að frá árinu 2023 mun ellilífeyrisþegum fjölga hlutfallslega meira en fólki á aldrinum 16-65 ára. Íslendingar verða nú þegar að stemma á að ósi, og er það efni í annan pistil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)