Ástæður stöðnunar

Ísland var á árinu 2013 í 11. sæti Evrópu-ríkjanna varðandi VLF (verga landsframleiðslu) á mann og einkaneyzlu á mann. Í öllum bölvuðum barlóminum og nöldrinu hérlendis er hollt að íhuga þetta. Á undan voru eftirfarandi ríki í réttri röð frá toppi, og er rétt að gera nokkur þeirra að umræðuefni:

Lúxemborg - Noregur - Sviss - Holland - Írland - Austurríki - Svíþjóð - Danmörk - Þýzkaland - Belgía.

Lúxemborg er á toppinum aðallega vegna öflugs fjármálakerfis og lægri skattheimtu en annars staðar tíðkast, sem laðað hefur fé að þessu borgríki á milli Frakklands og Þýzkalands.  Lúxemborg er líkleg til að halda stöðu sinni, þó að ESB og BNA muni reyna að sauma að skattaparadísinni. 

Noregur er númer tvö í röðinni vegna olíu- og gasvinnslu, sem nemur um 2 milljónum tunna á sólarhring.  Vinnslukostnaður Norðmanna á þessu eldsneyti er hins vegar á meðal þess hæsta, sem gerist.  Á meðan vinnslukostnaður í Mið-Austurlöndum er innan við 10 USD/tunnu (tunna er 208 l)og á brezka landgrunninu um 60 USD/tunnu, þá er norskur vinnslukostnaður líklega um 90 USD/tunnu að meðaltali.  Með heimsmarkaðsverð á hráolíu undir 60 USD/tunnu, eins og nú er raunin á, þá er ljóst, að olíuiðnaðurinn færir Norðmönnum ekki lengur gull og græna skóga, heldur eymd og stórtap.  Í útflutningstekjum Norðmanna munar mest um sölu á gasi og olíu, og almennt kostnaðarstig í Noregi er hæst í Evrópu, og má rekja það til samkeppni um vinnuaflið frá þessum geira, sem nú er á fallanda fæti.  Fasteignaverð er stjarnfræðilega hátt í Noregi og spáð hrapi innan tíðar með alvarlegum afleiðingum fyrir mörg heimili og þjóðfélagið í heild.  Allt gerir þetta norska hagkerfið mjög viðkvæmt í núverandi árferði, svo að það er næsta víst, að Norðmenn verða ekki í þessu sæti að ári.  Norska krónan hefur fallið um fjórðung, og norski seðlabankinn, Norges Bank, ver hana nú enn frekara falli með gríðarlegum uppkaupum á NOK.  Það er þess vegna brostinn á fjármagnsflótti frá Noregi, og markaðurinn metur horfur Noregs árið 2015 slæmar.  

Svissland stendur mjög sterkt að vígi. Þar er rótgróinn iðnaður, bæði efnaiðnaður, knúinn að miklu leyti af vatnsaflsvirkjunum Svisslands, og tækjasmíði af fjölbreyttu tagi, frá klukkum til afriðla fyrir álver.  Þá má ekki gleyma svissneska súkkulaðinu og konfektinu, sem Svisslendingar taka jafnan með sér og úthluta á ferðum sínum erlendis.  Svissland er ferðamannaland, en skilgreiningin á því er 2 eða fleiri erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári.  Undir svissneska hagkerfinu eru þannig nokkrar traustar stoðir, og má þá ekki gleyma bankakerfinu, sem er ein af ástæðum styrkleika svissneska frankans, en fjármagn hefur flúið af evrusvæðinu í svissneska frankann og þannig gert svissneskum útflytjendum erfitt fyrir vegna hækkunar gengis CHF.  Greip svissneski seðlabankinn til þess ráðs að setja þak á gengi frankans 1,2 m.v. evru og seldi franka sleitulaust fyrir evrur þar til þessu hlutfalli var náð.  Ekki má gleyma svissneska landbúnaðinum, þ.m.t. vínyrkjunni, en þeir verja landbúnað sinn og telja varða við þjóðaröryggi, eins og svissneska herinn, sem nú er að vísu farinn að láta á sjá. Þrátt fyrir mikla velgengni eru Svisslendingar enn iðjusamir og nægjusamir, og þeir eru útsjónarsamir og vel menntaðir og munu þess vegna halda stöðu sinni sem ein af þremur ríkustu þjóðum Evrópu og sennilega leysa Noreg af hólmi sem númer 2.   

Þjóðirnar, sem koma þarna á eftir í röðinni, eru valtari í sessi af margvíslegum ástæðum.  Ein af þeim er öldrunin, sem nú leikur margar þjóðir svo grátt, að fari fram sem horfir, munu þær að mannsaldri liðnum líkjast mest einu risastóru elliheimili, þar sem aðeins 2 eru á vinnualdrinum 16-65 ára fyrir hvern á ellilaunum. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni, sem önnur eins óáran dynur á, og er hún mikil ógæfa.  Verður fjallað um þetta fyrirbæri hér á eftir.   

Seint á 4. áratug 20. aldarinnar reyndu hagfræðingar að útskýra, hversu lífseig Kreppan mikla var, með skorti á fólki.  "Breytingin úr fólksfjölgun í fólksfækkun getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér", sagði John Maynard Keynes árið 1937.  Árið eftir sagði annar virtur hagfræðingur, Alvin Hansen, að Bandaríkin, BNA, væru að verða uppiskroppa með fólk, land og nýjar hugmyndir.  Afleiðinguna sagði hann verða "tímamóta stöðnun, veikburða viðhjörnun, sem dæi fljótlega, og viðvarandi kreppur, sem skapa ólæknandi atvinnuleysi".  Maynard Keynes var átrúnaðargoð á Bretlandi fram að valdatöku Margaret Thatcher árið 1979, en þá var sérstök gerð frjálshyggju leidd þar til öndvegis og Keynesisma velt úr sessi, enda höfðu kenningar hans, sem voru í uppáhaldi hjá jafnaðarmönnum, reynzt gagnslausar á 7. og 8. áratuginum; og verra en það.  Þær voru stórskaðlegar efnahagslegum stöðugleika.   

Árið 2013 blés hagfræðingurinn Larry Summers við Harvard háskólann rykinu af hugtakinu "tímamóta stöðnun" til að lýsa langvarandi sýkingu vestrænu hagkerfanna.  Lítil eftirspurn og mikill sparnaður gerðu það ómögulegt að örva hagvöxt með hefðbundnum lágum vöxtum, sagði hann.  Lýðfræði gæti leikið aðalhlutverkið í veikingu hagkerfanna, sagði Summers, mun mikilvægara hlutverk en á 4. áratuginum.  Sé þetta rétt hjá Summers, sem margt bendir til, gætum við nú staðið frammi fyrir langvarandi stöðnunarskeiði og afturfararskeiði. 

Öldrun íbúanna getur haldið aftur af vexti og vöxtum með mismunandi hætti.  Minnkandi framboð vinnuafls liggur beinast við.  Úttakið frá einu hagkerfi er háð fjölda starfsmanna og framleiðni þeirra.  Í Japan hefur fólki á starfsaldri fækkað síðan um 1990 og í Þýzkalandi síðan um aldamótin, og fækkunin verður hraðari á næstu árum.  Fjölgun á vinnumarkaði mun stöðvast á Bretlandi á næsta áratugi, og í BNA verður fjölgunin aðeins 0,3 %. 

Að öðru jöfnu mun samdráttur í fjölgun starfsmanna um 0,5 % draga jafnmikið úr hagvexti.  Hagkerfisládeyðan gæti hafa flýtt fyrir starfslokum margra, og þess vegna hraðað fækkun á vinnumarkaði.  Í BNA öðluðust stórir eftirstríðsárgangar rétt til opinbers lífeyris árið 2008, þá 62 ára.  Þessi lífeyrisréttur gæti skýrt helming falls fólks á atvinnualdri, sem annaðhvort er að leita að vinnu eða er í vinnu, úr 66 % í 63 %. Á Íslandi er þetta hlutfall 67 % og fer lækkandi.  Þetta rímar vel við reynslu Japana, sem urðu fyrir stöðnun og verðhjöðnun á 10. áratugi síðustu aldar um svipað leyti og fólki á vinnualdri tók að fækka.  Lítill hagvöxtur þrátt fyrir lága vexti og ársverðbreytingar um 0 verða líklega viðvarandi ástand af þessum orsökum, og langvarandi verðhjöðnun vofir yfir evru-svæðinu.

Íbúafjöldi og aldur hefur líka áhrif á aðgengi fyrirtækja að viðskiptavinum og starfsmönnum, og þar af leiðandi á umfang fjárfestinga þeirra.  Keynes og Hansen höfðu áhyggjur af, að fækkandi íbúar þyrftu minna á framleiðslu bandarískra fyrirtækja að halda en íbúar í fjölgunarhami.  Nútíma líkön um hagvöxt eru reist á, að fyrirtæki þurfi ákveðna fjárfestingarupphæð per starfsmann-tæki, byggingar, land og ráð á þekkingu, til að framleiða hverja afurðareiningu. Ef færri starfsmenn eru fáanlegir, þá þurfa fyrirtækin jafnframt minna fjármagn. Neikvæð mannfjöldaþróun hefur þannig neikvæð áhrif á þróun fjárfestinga.  Nákvæmlega þetta hefur átt sér stað, t.d. í Þýzkalandi. 

Í rannsóknarritgerð komust Eugénio Pinto og Stacey Tevlin við bandaríska alríkis seðlabankann að því, að nettó fjárfesting (brúttó fjárfesting mínus afskriftir) er nálægt lágmarki sínu sem hlutfall heildarfjárbindingar frá seinni heimsstyrjöld í BNA.  Þetta er sumpart háð efnahagssveiflunni, því að bankakreppan leiddi af sér frestun fyrirtækja á nýframkvæmdum, og sumpart sérstakt fyrir okkar tíma.  Það hægðist á vexti fastafjármuna úr 3,1 % á ári tímabilið 1994-2003 í 1,6 % 2004-2013.  Hagfræðingar skýra 1/3 vaxtarsamdráttar með minnkandi aukningu vinnuafls og 2/3 til færri nýjunga.  Með öðrum orðum kaupa fyrirtækin minna af tækjabúnaði, af því að þau hafa færri starfsmönnum úr að spila, færri tækniframfarir að nýta sér.  Það má færa fyrir því rök, að minnkandi líkamleg frjósemi leiði til minnkandi andlegrar frjósemi, þegar litið er til meðaldurs þeirra, sem gert hafa merkar uppgötvanir.

Á Íslandi höfum við enn nægt landrými og auðlindir fyrir stækkandi þjóð.  Tækniþróunin hefur leitt til mikillar framleiðniaukningar og þess, að landið getur nú framfleitt margfaldri fornri jafnvægisíbúatölu sinni, sem var um 50 þúsund íbúar, og talið er, að mannfjöldinn hafi sveiflazt á milli 30 þúsund og 80 þúsund manns.  Með fleiri íbúum deilist fastur kostnaður á fleiri, svo að á meðan útflutningsgreinarnar geta tekið við fleira fólki, mun fjölgun íbúanna hérlendis leiða til bættra kjara heildarinnar.  Hver sú fjölgun getur orðið er háð tækniþróun og ytri aðstæðum, eins og mörkuðum, en er verðugt rannsóknarefni.  Hitt er ljóst, að Íslendinga þurfa ekki að bíða hin illu örlög fólksfækkunar á næstunni vegna takmörkunar á auðlindum. Hitt er annað mál, að frá árinu 2023 mun ellilífeyrisþegum fjölga hlutfallslega meira en fólki á aldrinum 16-65 ára.  Íslendingar verða nú þegar að stemma á að ósi, og er það efni í annan pistil.           

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Minni á að það hressasta af því gamla,gerir heilmikið gagn með tímabundinni pössun barna,ná í þau skóla,íþróttir,hljómlist,dans ofl. Ekki það að þú,af öllum mönnum,sért ekki meðvitaður um það,en það kemur aldrei fram í gögnum. 

Helga Kristjánsdóttir, 3.1.2015 kl. 05:21

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga Kristjánsdóttir, og gleðilegt nýár.

Mæltu manna heilust, þegar þú nefnir þátttöku í uppeldi afa- og ömmubarna.  Slík samstaða stórfjölskyldunnar er ómetanleg í nútímanum sem og á fyrri tímum að leikskólum ólöstuðum.  Þetta er dæmi um aukin lífsgæði allra þriggja kynslóðanna, sem ekki koma fram í VLF, en koma hins vegar fram í bættu heilsufari yngstu kynslóðarinnar og auknu öryggi hennar í umferðinni.  Leikskólar eru ótrúleg pestarbæli, en ég dreg ekki úr gildi þess fyrir ungviðið að kynnast jafnöldrum sínum einnig. 

Bjarni Jónsson, 3.1.2015 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband