Umhverfissamband Evrópu

Nú fullyrða öfugmælaskáld stjórnarandstöðunnar á þingi á borð við Katrínu Jakobsdóttur, að þau séu á móti auknum álögum hins opinbera á almenning á Íslandi. Er þá við hæfi að grípa til orðtaksins, að þar setti nú skrattinn upp á sér skottið. 

Í ljósi yfir 100 skattahækkana "fyrstu tærru vinstri stjórnarinnar", þessarar, sem reisti "skjaldborgina (alræmdu) um heimilin", var barátta núverandi stjórnarandstöðu gegn breytingum á virðisaukaskattskerfinu fremur einfeldningslegt lýðskrum í tvöföldum skilningi. 

Í fyrsta lagi skattleggja þau, sameignarsinnarnir og jafnaðarmennirnir á þingi, allt, sem hreyfist, og hækka gildandi álögur upp í rjáfur, strax og þau fá tækifæri til.  Þetta vita allir landsmenn, enda sannaðist þessi fullyrðing á síðasta kjörtímabili, svo að það er furðulegt af stjórnarandstöðunni að bera kápuna á báðum öxlum nú, hvað skattheimtuna varðar.  Það þarf meira en að standa álkuleg í pontu á Alþingi, líta flóttalega allt í kringum sig og þusa síðan einhverja rullu, þar sem hvað rekur sig á annars horn.

Í öðru lagi er í raun núna, með fjárlögum 2015, um skattalækkun að ræða, sem stjórnarandstaðan kýs að kalla skattahækkun, þó að ríkissjóður verði með þessum aðgerðum af a.m.k. 3 milljörðum króna í tengslum við skattkerfisbreytingar með því að færa virðisaukaskattstigin tvö nær hvoru öðru til að draga úr hvata til svindls og með afnámi nokkurra sérgjalda, sem vigta þungt, t.d. um 8 milljarðar kr í afnumdum vörugjöldum, og með fækkun undanþága.  Það var hreinn loddaraháttur af vinstri mönnum að berjast gegn þessu, því að þessar breytingar styrkja tekjustofn ríkissjóðs, þegar til lengdar lætur.  Það er almennt viðurkennt, m.a. af AGS, að lágur virðisaukaskattur á matvæli stuðlar síður en svo að jöfnuði á milli ríkra og fátækra.   

Þegar stjórnarandstöðunni hafði verið sýnt fram á allt þetta, hrökk hún í þann gírinn, að aðgerðirnar væru a.m.k. skattahækkun á suma.  Það hefur reynzt erfitt að benda á þessa suma, af því að til að svo sé, þarf viðkomandi að verja meiru en helmingi ráðstöfunartekna sinna til vara í lægra virðisaukaskattsþrepinu, þar sem mótvægisaðgerðir valda því, að aðeins 1,5 % kostnaðaraukning verður á matvælum, sem vigta langmest í lægra þrepinu, og efra virðisaukaþrepið lækkar um 1,5 %. Þar að auki hækka barnabætur og ellilífeyrir og bætur af ýmsu tagi.

Evrópusambandið, ESB, hefur sett sér markmið um, að árið 2020 verði 20 % orkunotkunar aðildarríkjanna úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Á mælikvarða Íslendinga er þetta lágreist markmið, en það má spyrja sig, eins og Matt Ridley í bókinni, "Heimur batnandi fer", hvort verðmætum sé skynsamlega varið í þessa baráttu í bráð og lengd.  Þetta markmið ESB er til að draga úr áhrifamætti eldsneytisútflytjenda, sem er nauðsynlegt, og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem orkar tvímælis að dómi Ridleys. 

ESB á mjög erfitt með að ná þessu markmiði, enda afar kostnaðarsamt, og staðan hjá þeim núna er, að 10 % - 12 % orkunotkunar er sjálfbær, þ.e. úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Þess vegna er gripið til ýmissa örþrifaráða, eins og að fyrirskipa blöndun á s.k. lífolíu í fartækjaeldsneyti.  Þessi ráðstöfun er siðferðilega röng  í sveltandi heimi, af því að hún tekur upp land frá matvælaframleiðslu til kornræktunar fyrir eldsneytisframleiðslu, sem sparar sáralitla koltvíildislosun, þegar upp er staðið.  Þetta leikrit  kokgleyptu loddararnir í fyrrverandi ríkisstjórn Íslands, þrátt fyrir þá staðreynd, að árið 2013 var 86 % af orkunotkun Íslands úr endurnýjanlegum orkulindum, 12 % úr jarðolíu og 2 % úr kolum. 

Til að kóróna vitleysuna fékk Þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Steingrímur Jóhann Sigfússon, hagsmunaaðilann, Carbon Recycling, til að semja drög að lögum um þetta, og var það ógæfulegt upphaf þessara laga nú á tímum ofurstrangra viðmiða um vanhæfi, enda átti þetta eftir að koma niður á hefðbundnum blóraböggli ofstækismanna um umhverfisvernd, bílrekandanum, þó að framleiðsla Carbon Recycling sé í sjálfri sér góðra gjalda verð, ef hún getur sparað gjaldeyri og lækkað kostnað bílrekenda.  Að öðrum kosti er hún ekki upp á marga fiska.

Það var þess vegna fáheyrt glappaskot af Steingrími Jóhanni, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, og fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, að berjast fyrir innleiðingu þessarar tilskipunar, sem jafnvel Liechtenstein fékk undanþágu frá.  Lá auðvitað beint við að sækja með gildum rökum um undanþágu fyrir Ísland, en það lá ekki í spilum fjandmanna bíleigenda, jafnaðarmannanna og vinstri grænna, að setja sig úr færi við að hækka álögur á bíleigendur.  Ef þetta skattpíningarfólk sér færi á skattlagningu í nafni umhverfisverndar og/eða tekjujöfnunar, skal það aldrei setja sig úr færi að stökkva á þann vagn, enda var niðurstaða kjósenda sú árin 2013 og 2014, að villta vinstrið sé óstjórntækt.

Í grundvallaratriðum er unnt að framleiða lífeldsneyti á tvennan hátt, þ.e. úr jarðargróða, ýmsum korntegundum og repju, og hins vegar á efnafræðilegan hátt úr koltvíildi og vetni, eins og byrjað er á í auðlindagörðum Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi.  Báðar aðferðirnar eru dýrar m.v. hefðbundna eldsneytisvinnslu.  Um fyrri aðferðina hefur Björn Lomborg eftirfarandi að skrifa í Daily Telegraph:

"Notkun lífeldsneytis hefur til að mynda leitt til hærra matarverðs og líklega svelta um 30 milljónir manna að óþörfu vegna þeirra, og fjöldi hungraðra af völdum lífeldsneytis gæti aukist í 100 milljónir manna fyrir árið 2020. Það er sennilegt, að lífeldsneyti leiði til aukins útblásturs koltvísýrings (CO2), því að þegar menn taka akra undir ræktun á plöntum til lífeldsneytisframleiðslu, þarf að ryðja skóga annars staðar til að rækta matjurtir."

Björn Lomborg fer hér ekki með neitt fleipur, enda hefur hann kynnt sér þessi mál rækilega.  Á árinu 2014 þýðir þessi óskynsamlegi gjörningur Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms Jóhanns tæplega 1,0 milljarð kr í útgjaldaauka til eldsneytiskaupa, en ekki nóg með það.  Þetta er siðlítill gjörningur, því að í heimi matvælaskorts er verið að taka ræktarland undir kornrækt, sem ekki er nýtt til fóðurs, heldur eldsneytisframleiðslu. 

Í Viðskiptablaðinu, 11. desember 2014, er grein um þetta mál, þar sem segir m.a.:

"Vegna ákvæða í lögum frá árinu 2013 um 3,5 % íblöndun svo nefnds endurnýjanlegs eldsneytis hafa söluaðilar eldsneytis þurft að flytja inn lífolíur til íblöndunar, en lífolíurnar eru allt að 80 % dýrari í innkaupum en hefðbundin dísilolía. ...

Um næstu áramót hækka kröfurnar um hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í 5,0 %.  Glúmur (Björnsson) segir, að þá megi jafnvel gera ráð fyrir, að söluaðilar eldsneytis neyðist til að blanda innfluttu etanóli í bensín, sem lækkar orkuinnihald eldsneytisins, eykur eyðslu og fjölgar ferðum á bensínstöðvar. 

Hann segir, að ekki sé aðeins um að ræða lagaskyldu að viðlögðum sektum, að endurnýjanlegt eldsneyti sé ákveðið lágmarkshlutfall, heldur sé söluaðilum jafnframt veittur skattaafsláttur í formi niðurfellingar á olíu- og kolefnisgjaldi fyrir að að fara að lögum.  "Það, að þörf sé á að verðlauna menn með skattaívilnun fyrir að fara að lögum, skýrist væntanlega af því, hve óhagkvæmt er að blanda lífeldsneytinu saman við hefðbundið eldsneyti. Vegna þessara skattaívilnana rennur hluti af söluverði dísilolíu , sem áður rann í ríkissjóð, nú úr landi sem erlendur gjaldeyrir til framleiðenda lífeldsneytis," segir Glúmur."

Stjórnsýsla Svandísar Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfistáðherra og Steingríms Jóhanns, fjármála- og efnahagsráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar, sem hér sat að völdum á síðasta kjörtímabili, varð almenningi hrikalega dýrkeypt og gerði ekki annað en veikja hagkerfið.  Í þessu tilfærða dæmi voru fórnarlömbin bíleigendur, en vinstri sinnaðir ráðamenn reyna með öllum tiltækum ráðum að þrengja kost þeirra, og ríkissjóður, en ofangreindur skattaafsláttur fyrir að flytja inn lífolíu og fara að lögum, er fáheyrður.  Í þessu tilviki má virkilega halda því fram, að verið sé að gefa eftir skatttekjur og bruðla með gjaldeyri án nokkurs ávinnings. Það verður að vinda hið fyrsta ofan af siðlausri og rándýrri ráðstöfun loddaranna.  

Hér hefur undirgefni við ESB og blint umhverfisofstæki ráðið för.  Hvort tveggja er forkastanlegt, og það eru næg rök, sem standa til þess að hverfa algerlega frá blöndun lífolíu eða ethanóls í eldsneytið fyrir íslenzkan markað, eins og þegar hefur verið sýnt fram á, þ.e.a.s.:

  • Ísland þarf alls ekki á þessari aðferð að halda til að ná markmiðum EES um hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda árið 2020.
  • Aðferðin er fjandsamleg fátæku fólki í heiminum, því að hún ryður burt framleiðslu á matvælum á ræktarlandi.
  • Lífolían er dýr, sem þýðir við 5 % hlut hennar a.m.k. 4 % hækkun á eldsneytiskostnaði.

Svandís Svavarsdóttir varð alræmd í stjórnartíð sinni fyrir meingallaða stjórnsýslu í sambandi við staðfestingu skipulagsáætlunar sveitarfélaga við Þjórsá, sem halda vildu hagkvæmustu virkjunarkostum landsins, virkjunum í Neðri-Þjórsá, á kortinu, og pólitísk hreðjatök sín á Rammaáætlun um virkjanir og verndun eru í fersku minni.  Hér bætist enn eitt dæmið við um stjórnsýslu, þar sem þjóðarhagsmunum er fórnað á altari þjónkunar við sérvitringslega minnihlutahópa, sem eru ær og kýr hins vankaða vinstra liðs, sem ávallt velur vitlausa kostinn, ef það hefur úr tveimur að velja, réttum og röngum.  

Það eru til miklu árangursríkari aðferðir en þessi lífeldsneytisframleiðsla til að draga úr koltvíildislosun á Íslandi.  Ein þeirra er endurheimt votlendis, og er ávinningurinn reistur á því, að losun CO2, koltvíildis, úr framræstu landi á Íslandi á hverju ári nemur nífaldri árlegri losun allra samgöngutækja á Íslandi á gróðurhúsalofttegundum.  Á sínum tíma var grafið óþarflega mikið af skurðum í sveitum landsins í þurrkunarskyni, þó að hér væri engin mýrarkalda, af því að sú starfsemi var stórlega niðurgreidd.  Nú er líklegt, að nýtt land verði á næstunni brotið til ræktunar til að fæða stækkandi þjóð, fleiri ferðamenn og til að anna eftirspurn erlendis.  Til að fullnægja kröfum ESB um minni losun koltvíildis frá umferð mætti í staðinn bjóða upp á að moka ofan 2 % skurðanna og minnka þar með losun CO2 sem nemur 20 % af losun umferðarinnar, og mundi við slíkt sparast gjaldeyrir og ríkissjóður þyrfti ekki lengur að búa við eftirgjöf á tekjum sínum til að menn fari að lögum.      

     

    Losun CO2 á Stóra-BretlandiLosun CO2 á Íslandi 2010

  

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvað mun sannarlega sparast í losun CO2 við blöndun eldsneytis? Leifi mér að efast stórkostlega um að það nái 20%.

Hvað mætti draga mikið úr losun CO2 með því að breyta stefnu borgaryfirvalda varðandi umferðarmannvirki? Það er ljóst að gífurlegt aukamagn fer út í loftið vegna biða á umferðarljósum og umferðateppna. Að þrengja að umferð bíla er því bein aukningi á losun CO2 út í andrúmsloftið. Nær væri að byggja enn fleiri mislæg gatnamót og fjölga akreinum, þannig að umferðin gæti gengið sem greiðast fyrir sig.

Það væri gaman ef einhver talnaspekingur legðist yfir þetta dæmi. Ekki kæmi mér á óvart þó niðurstaða hanns yrði á þann veg að sá "sparnaður" sem fæst með blöndun eldsneytis tapist að fullu og rúmlega það vegna stefnu borgaryfirvalda.

Gunnar Heiðarsson, 25.12.2014 kl. 20:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er áreiðanlega mikill halli á bókhaldinu, sem þú nefnir, því að land hefur verið brotið til ræktunar jurta til lífeldsneytisvinnslu, og við það á sér stað losun á gróðurhúsalofttegundum og ljóstillífun minnkar, þar sem skógur var áður.  Þrenging gatna og ljósastýrð gatnamót í stað mislægra gatnamóta eru þjóðfélagslega séð óhagstæðar lausnir, því að þær fela í sér tímasóun fjölda manns og eldsneytissóun.  Segja má, að vinstra fólkið vinni umhverfinu mikið ógagn með illa ígrundaðri sérvizku.

Bjarni Jónsson, 25.12.2014 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband