25.10.2012 | 21:13
Atvinnuhorfur og hagvöxtur
Fráfarandi forsætisráðherra slær hausnum við steininn, eins og hennar er vandi, þegar hún stælir við formann Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og við forseta Alþýðusambands Íslands, ASÍ, um það, hvort atvinnutækifærum fari fjölgandi á Íslandi eður ei. Þessum lélegasta forsætisráðherra Íslandssögunnar virðist vera fyrirmunað að rýna nokkurt mál með hlutlægum hætti og að halda sig sannleikans megin. Í stað þess er geipað um stjórnmálalega andstæðinga og farið með gjörsamlega innihaldslausa frasa. Á slíkum málflutningi er ekkert að græða.
Staðreyndir málsins eru eftirfarandi:
- Fjöldi í vinnu náði sögulegu hámarki í júní 2008, 179´500 manns
- Síðan varð stöðug fækkun fólks í vinnu til maí 2009, er fjöldinn varð 166´700
- Í ágúst 2012 voru 166´100 manns starfandi. "Som den observante læser umiddelbart ser", voru færri starfandi á vinnumarkaðinum samkvæmt nýlegri tölu Hagstofunnar en í lágmarkinu í kjölfar bankahrunsins. Þetta þýðir, að vinnuframboðið dregst saman og hefur gert það með stuttum hléum frá bankahruni.
- Í ágúst 2012 voru 178´300 manns á vinnumarkaði, þ.e. annaðhvort starfandi eða atvinnulausir og að leita eftir vinnu. Í þessum hópi hefur illu heilli fækkað síðan 2011 meira en í hópi starfandi, og þess vegna hefur atvinnulausum virzt fara fækkandi, en þeir voru 10´300 í ágúst 2012. Ofangreindar tölur gefa hlutfallslegt atvinnuleysi, þ.e. 10´300/178´300 = 0,058 = 5,8 %.
- Það er langt seilzt til lyginnar, þegar stjórnarherrarnir halda því fram á grundvelli þessarar lækkandi hlutfallstölu, að atvinnuástandið fari batnandi og störfum fari fjölgandi. Það eru lygamerðir við stjórnvölinn í tugthúsinu gamla við Bankastræti 0.
Það þarf engan að undra á því, að hagkerfið skuli framleiða æ færri störf. Hagkerfið fær enga hvata frá ríkisvaldinu til vaxtar. Þvert á móti eru ríkisumsvif orðin þrúgandi stór þáttur landsframleiðslunnar, og skattheimtan fyrir löngu tekin að virka lamandi á hagkerfið og fækka störfum. Þá eru nú við völd stjórnmálamenn, sem af hugsjónaástæðum eru beinlínis á móti hagvexti og hafa lýst því yfir froðufellandi af sjálfumgleði, að hagvöxtur auðvaldsins sé ósjálfbær. Þetta eru alger ósannindi hjá þessu öfgaliði á vinstri væng stjórnmálanna. Vöxtur allra atvinnugreina á Íslandi hefur um langt árabil verið sjálfbær. Það á við um iðnaðinn, sjávarútveginn, landbúnaðinn og að nokkru um ferðaþjónustuna, en þarf þó gagngerar umbætur, ef landið á ekki að bíða óafturkræft tjón af. Ráðsmennska ríkisins er sízt til fyrirmyndar, sbr mengunarslysið í Silfru á Þingvöllum á dögunum. Hvers konar áhættugreining fór þar fram ?
Hið eina, sem er algerlega ósjálfbært, er vöxtur hins opinbera, og þá óheillaþróun verður að stöðva hið bráðasta. Ef það verður ekki gert á næsta kjörtímabili, munum við, þegnar landsins, ekki geta um frjálst höfuð strokið. Það eru váboðar framundan, eins og algerlega er ljóst af fréttaskýringu Harðar Ægissonar í Morgunblaðinu 25. október 2012: "Óttast, að hagsmunum Íslands sé stefnt í voða".
Það er "system i galskapaet" hjá vinstri vinglunum. Þeir vilja ekki hagvöxt, þó að þeir sýni tvískinnung í þeim efnum sem öðrum, og með því að kyrkja hagvöxtinn ætla þeir að herða verulega að sjálfstæði miðstéttarinnar og drepa niður "litla" sjálfstæða atvinnurekandann, sem alls staðar er hryggjarstyggi miðstéttarinnar, atvinnusköpunar og velmegunar almennings. Allt eru þetta gamalþekktar kokkabækur kaffihúsasnata og þjóðfélagslegra afæta, sem ekkert hafa botnað í samtíð sinni, en hreykt sér á stall falsspámanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2012 | 21:12
Eitt er þó kýrskýrt
Skrýtnasta þjóðaratkvæðagreiðsla Íslandssögunnar er um garð gengin. Hún fór fram laugardaginn 20. október 2012. Spurningarnar, sem ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis lögðu fyrir þjóðina, voru óboðlegar með öllu. Spurningarnar voru svo óljóst og illa orðaðar, að niðurstöðurnar urðu ómarktækar. Við þessu var að sjálfsögðu búið að vara, sbr vefgreinina, Af gallagripum", á þessu vefsetri.
Hvað merkir t.d. að samþykkja að leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá ? Í daglegu tali skynjum við, hvað átt er við með þessu loðna orðalagi, en í atkvæðagreiðslu, sem kostar yfir 200 milljónir kr fyrir utan tíma allra kjósendanna, þar er spurningin algerlega ótæk. Merkir já við þessu, að gera megi efnislegar breytingar á allt að 10 atriðum af þessum 114, sem í hugverki Stjórnlagaráðs standa, eða breytingar á allt öðrum fjölda !?
Það verður að búa krystaltær hugsun á bak við spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að kjósandinn taki af skarið með svarinu, sem hann veitir á atkvæðaseðli sínum. Þessa tæru hugsun vantar reyndar líka alveg í ritsmíð Stjórnlagaráðs, enda hafa virtir lögfræðingar, Lögmannafélag Íslands o.fl., gert mjög alvarlegar athugasemdir við drögin. Lögfræðilega halda drögin vart vatni. Þá eru þessi drög eins og bíll án vélar. Gagnslaus og ekkert nema kostnaðurinn. Bæði téð þjóðaratkvæðagreiðsla og drög Stjórnlagaráðs eru víti til varnaðar.
Hvað er þá orðið kýrskýrt eftir þessa atkvæðagreiðslu ? Svarið er, að atkvæðagreiðslan leiddi það í ljós, að breytingar á Lýðveldisstjórnarskránni eru ekki forgangsmál fyrir þjóðina í huga meirihluta kjósenda, sem töldu þetta mál ekki vera þess virði, eins og allt var í pottinn búið, að ómaka sig á kjörstað. Samt höfðu fjölmargir málsmetandi menn hvatt atkvæðisbært fólk til að mæta á kjörstað.
Niðurstaðan varð sú, að aðeins um 1/3 hluti atkvæðisbærs fólks samþykkti að einhverju leyti drög Stjórnlagaráðs. Þetta er í algerri mótsögn við síbylju Jóhönnu Sigurðardóttur og áróður leiðigjarnra og sjálfhverfra Stjórnlagaráðsmanna o.fl. um, að endurskoðun Stjórnarskráarinnar sé þjóðarkrafa, krafa þjóðarinnar ! Slíkar fullyrðingar voru allan tímann algerlega úr lausu lofti gripnar. Þvert á móti setur þjóðin berlega endurskoðun Stjórnarskráarinnar mjög aftarlega í forgangsröð verkefna, sem hún vill, að stjórnmálamenn hennar inni af hendi, og skyldi engan undra.
Af þessari niðurstöðu má hiklaust draga þá ályktun, að 2/3 hlutar þjóðarinnar séu algerlega andvígir því að kasta Lýðveldisstjórnarskránni, sem tæplega 96 % fólks á kjöskrá samþykkti árið 1944, fyrir róða og taka upp eitthvert annað plagg í staðinn. Hraðferð í þá átt núna er fruntaháttur gagnvart lýðræðinu, sem er fullkomlega óverjanleg og verður að mæta af fullri hörku á öllum vígstöðvum.
Þar sem um Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að ríkja sæmileg sátt, þ.e. aukinn meirihluta ætti að þurfa til breytinga, þó að svo sé ekki hér, þarf að koma til móts við þennan þriðjung þjóðarinnar, sem vill breytingar á Stjórnarskránni. Sáttaleiðin er að taka fyrir afmarkaða þætti Lýðveldisstjórnarskráarinnar og endurskoða þá. Þetta ætti að hefja á þeim stutta tíma, sem lifir af þessu þingi, með það að markmiði að halda áfram í áfangaferð á næsta þingi. Einboðið er að byrja þar á Stjórnarskránni, sem ágreiningur hefur verið mestur um túlkunina, en það er líklega um valdsvið forseta lýðveldisins. Gæta verður þá að því, að setja inn ákvæði um aðkomu minnihluta þings og ákveðins hluta atkvæðisbærra manna við framköllun og þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu Alþingis, ef taka á s.k. synjunarvald af forseta. Þá væri og æskilegt, að stofna til Stjórnlagadómstóls, þannig að forseti fái frestandi synjunarvald til að vísa lagasetningu til úrskurðar Stjórnlagadómstóls. Ræða þarf jafnframt kosti og galla þess að stofna Landsyfirrétt, sem yrði millidómsstig, jafnframt því, sem Hæstaréttardómurum yrði fækkað úr 12 í 7 og mundu starfa í einni deild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2012 | 18:57
Orkuveitan
Nú hefur rannsóknarnefnd skilað af sér um 500 síðna skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á tímabilinu 2002-2010. Niðurstaðan þarf engum að koma á óvart. Hún er sú, að stjórnendur OR hafa í umboði stjórnar hennar og eigenda farið ömurlega illa að ráði sínu í flestu, er að hinum stærri fjárfestingum Orkuveitunnar laut og sýnt af sér fullkomið gáleysi í meðferð fjármuna Orkuveitu Reykjavíkur, sem leitt hafi til stórfellds tjóns fyrir eigendurna. Nú hafa trúðar og hluti gamla R-listans, sem ábyrgur var fyrir REI-spillingunni, tekið við stjórnartaumunum, en engin uppstokkun eða kerfisbreyting hefur farið fram hjá OR. Það lullar allt í gömlu hjólförunum.
Sjálfstæðismenn voru margbúnir að benda á sukk og svínarí R-listans, sem fór með stjórn borgarinnar lungann úr téðu tímabili, sem var til rannsóknar. Óráðsía OR hófst með R-listanum, og þessir vinstri sukkarar bera höfuðábyrgð á því, hvernig komið er. Er nema von, að rannsóknarskýrslan komi eins og "julen på kjerringa", þegar Dagur B. Eggertsson, ekki borgarstjóri (ekki einu sinni miðborgarstjóri) er annars vegar ? Er alveg segin saga, að verstu siðleysingjar í hópi stjórnmálamanna eru vinstri menn við völd. Þeir opinbera þetta undantekningarlaust með ólýðræðislegum stjórnarháttum, pukri, leyndarhyggju, jafnvel með valdníðslu og annarri spillingu. Kjósendur ráða þess vegna miklu um þetta ástand sjálfir og hafa nú vonandi fengið sig fullsadda af ósköpunum. Til þess eru skoðanakannanir teknar að benda.
Varðandi téða maðka í mysunni nægir að rifja upp kosningabaráttuna 2002, er Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, leiddi baráttu Sjálfstæðismanna gegn spillingaröflum R-listans. Þá benti hann hvað eftir annað á slæma meðferð fjármuna Reykvíkinga og gegndarlausa skuldasöfnun OR. Var honum svarað af hroka og oflæti vinstri sauða, sem réðu ekki við verkefni sitt um að vinna eigendunum, kjósendunum, gagn. Björn sagðist telja fullvíst, að húsbyggingin undir aðalstöðvar OR yrði mun miklu dýrari en R-listinn viðurkenndi, og nú sannar téð skýrsla óheilindi R-lista Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og því miður Framsóknarflokksins og að Björn Bjarnason hafði rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á stjórnun R-listans á Orkuveitu Reykjavíkur í einu og öllu.
Í skýrslunni er leitað skýringa á ófremdarástandi OR og það fundið Orkuveitunni helzt til foráttu, að stefnumið hennar, markmið og lýsing á hlutverki, hafi verið illa skilgreind. Það er einfalt að benda eftir á á alls kyns einkenni í þessa veru ásamt því að hengja út fólk, sem ekki reyndist valda stjórnunar- og ábyrgðarhlutverki sínu. Það er stórhættulegt, þegar slíkir persónuleikar leita út í stjórnmál til að véla um fé annarra. Rannsóknarskýrslan bendir því miður ekki á úrræði, sem duga, en slík úrræði eru samt til.
Sagt er í skýrslunni, að allt muni batna, ef fagaðilar, þ.e. fólk með tækniþekkingu og viðskiptaþekkingu á þeim sviðum, sem Orkuveitan fæst við, verði skipað í stjórn. Auðvitað eru borgarfulltúarnir nú teknir að kýta um þetta. Þetta er þó deila um keisarans skegg. Það er undir hælinn lagt, hvort þetta úrræði yrði til bóta, þegar borgarstjórnin er enn fulltúi eigendanna. Einn aðalsökudólgurinn, lýðskrumari par excellance, Dagur REI meir, hefur flúið í skjól og tekið undir það, að borgarfulltrúar eigi ekki að sitja í stjórn OR, jafnvel ekki með læknispróf. Þessi Dagur ætlar sem sagt að setjast í aftursætið og stjórna þaðan. Það er ekki betri sú músin, sem stekkur, en hin, sem læðist.
"O, sancta simplicitas", sögðu Rómverjar, eða ó, heilaga einfeldni. Hverju skiptir þessi skrýtna ráðstöfun, ef eignarhaldið verður óbreytt ? Að sjálfsögðu er þetta kattarþvottur, engin uppstokkun, og mun lítið bæta hag Reykvíkinga og annarra eigenda Orkuveitunnar. Í raun og veru nær þessi tillaga rannsóknarnefndarinnar skammarlega skammt, og það er ekki hægt að taka hana alvarlega.
Hið eina, sem dugir til að bæta hag núverandi eigenda til lengdar og bæta hag OR, er að kljúfa rafmagnsvinnsluna frá öðrum þáttum starfsemi OR, eins og skylda er samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslu, stofna um raforkuvinnsluna hlutafélag og selja félagið hæstbjóðanda.
Mestur hluti fjárfestinga OR og stærstur hluti yfir 200 milljarða kr skuldar stafar af raforkuvinnslunni. Þar hefur líka mest farið úr böndunum við áætlanagerð, svo að það er Deginum ljósara, að þar á bæ eru menn fjarri því að ráða við viðfangsefnið jarðgufuvirkjun til raforkuvinnslu. Mikil hitavatnsvinnsla fylgir alltaf raforkuvinnslunni, nema 90 % orkunnar sé sóað, og mundi nýja fyrirtækið, ROR, selja OR heita vatnið, sem til fellur. Á slíku mundu báðir geta grætt, því að heitt vatn sem aukabúgrein ROR er ódýrara í vinnslu en frumvinnsla heits vatns yrði fyrir OR. Ef ROR ætlar að okra á OR með heitt vatn, fer OR frekar út í frumvinnslu. Samningar ættu þess vegna að nást á skynsamlegum nótum.
Ef nýja hlutafélagið, ROR, hækkar raforkuverðið um of, þá snúa viðskiptavinirnir sér til annarra raforkubirgja, svo að ekki þurfa gömlu eigendurnir að óttast hækkun raforkuverðs umfram það, sem gamla stjórnmálasukkið mundi kalla fram. Söluandvirði ROR mundu eigendurnir, Reykjavík, Borgarnes o.fl., geta notað til að grynnka á skuldum sínum og lækka í kjölfarið útsvarið eða auka þjónustustigið. Stjórnmálamenn gætu síðan valið um að kjósa sjálfa sig eða handlangara sína í stjórn OR til að reka hitaveituna, vatnsveituna, fráveituna og rafveituna, sem sér um dreifingu rafmagns til notenda. Þetta er raunveruleg lausn á vandamálinu, en ekki hálfkák, eins og rannsóknarnefndin lagði til og stjórnmálamenn í þrengingum tyggja upp eftir henni.
Er alveg dæmalaust, að á þessa lausn, sem blasir við og ber af sem gull af eiri, skuli hvergi sjást minnzt, og er slíkt til marks um rétttrúnaðinn, doðann og drungann, sem forsjárhyggjustjórnvöld í Stjórnarráðinu við Bankastræti 0 og hjá öndunum á Tjörninni hafa valdið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2012 | 21:06
Af gallagripum
Það er enn í fersku minni, hvernig gallagripum skolaði inn fyrir þröskuld Stjórnarráðsins í kjölfar mestu óeirða í sögu lýðveldisins í ársbyrjun 2009, sem nærri höfðu brotið niður hetjulega vörn ríkislögreglunnar um Alþingishús og Stjórnarráð. Rómverjar spurðu: "Cuo bono", þ.e. hverjum í hag, þegar þeir leituðu sökudólga. Þetta ástand var ýmsum í stjórnarandstöðunni í hag, og að torvelda vinnu rétt kjörins löggjafa og að velta valdhöfum með ofbeldi stendur nærri hugmyndafræði stjórnmálaafla á vinstri kantinum hér. Þó að enn eigi eftir að upplýsa um þessa atburði til fulls, leikur þó vart á tveimur tungum, að vinstri-öfgamenn í landinu æstu margt sárreitt fólk upp, og nokkrir gripu til óyndisúrræða. Ekki voru allir innan þinghússveggja með hreinan skjöld á þessum gjörningatíma. Stjórnarskrá lýðveldisins, hins vegar, stóðst þetta "álagspróf" og það, sem fylgdi í kjölfarið, með sóma. Hún er þess vegna blóraböggull að ósekju. Hlálegt er, þegar verið er að gera lítið úr henni fyrir danskan uppruna sinn, sérstaklega í ljósi þeirrar moðsuðu, sem nú er búið að kokka upp sem valkost við þá gömlu góðu, sem stendur á evrópskum mergi. Óskalisti draumórafólks er ónýtt plagg sem Stjórnarskrá lýðveldisins. Moðsuðan er svo illa úr garði gerð, að lögspekingar hafa tjáð sig á þann veg, að hún muni skapa hér margvíslega réttaróvissu. Lögspekingarnir hafa fært fyrir þessu haldgóð rök, og þar með hefur stjórnlagaráðið fallið á prófinu. Aðferðarfræðin við að semja nýja Stjórnarskrá var dæmd til að mistakast. Plaggið er einskis virði, en úr ríkissjóði mun á endanum fara yfir einn milljarður kr út af þessari fordild forsætisráðherra.
Ofstækisöfl stöðvuðu endurreisnarvinnu ríkisstjórnar eftir holskeflu bankagjaldþrota í alþjóðlegri fjármálakreppu, sem var í vissu hámarki haustið 2008, þó að verra ástand sé væntanlegt fyrir hagkerfi heimsins. Þegar mest reið á að mynda samstöðu á meðal þjóðarinnar til lausnar á aðsteðjandi vanda og til að verjast árásum erlendis frá, þá sýndu forkólfar vinstri aflanna í landinu þarna sitt rétta eðli, og það var sannarlega "skítlegt eðli".
Gallagripir, sem lengi höfðu gapað um eigið ágæti, án innistæðu, tóku nú við stjórnartaumunum og unnu allt með öfugum klónum, eins og þeim einum er lagið, og hefur ekki linnt niðurrifsstarfsemi þeirra gagnvart atvinnuvegum, skattkerfi, hagkerfi og fullveldi við ríkisstjórnarborðið frá 1. febrúar 2009 og í Alþingishúsinu frá 10. maí 2009.
Hefur uppstytta ekki orðið á afglöpum gallagripa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, svo að þjóðfélagið hefur orðið af stórfelldum tekjum og mátt þola bruðl með skattfé. Tekjutapið gæti numið a.m.k. 300 milljörðum kr á ári eða um einni milljón kr á ári á hvert mannsbarn í landinu. Icesave-klafinn, sem svikahrapparnir ætluðu að smeygja um háls landsmanna, fæddra og ófæddra, og þegar hefði orðið að greiða, ef veitleysan hefði ekki verið stöðvuð, nemur svipaðri upphæð. Er þá ótalin öll vinstri-skattheimtan á almenning, sem rýrt hefur kaupmátt hans verulega án þess að hagur ríkissjóðs hafi vænkast þess vegna. Ríkisstjórnin þykist samt ekki hafa hækkað skatta, af því að skatttekjur hins opinbera hafa lækkað. Sýnir sá málflutningur annaðhvort fádæma ósvífni að hætti Lyga-Marðar eða ótrúlega vanþekkingu á hugtökunum skattheimta og skatttekjur, svo að ekki sé nú minnzt á boðskap Lafflers og hans Laffler parabólu.
Lýðskrumarar höfðu þegar haustið 2008 hátt um, að blóraböggull Hrunsins væri Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hún væri a.m.k. einn af blórabögglunum. Lýðskrumararnir fundu enga sök hjá sér, enda ekki við því að búast af mönnum lítilla sanda og lítilla sæva. Hér var hráskinnaleikur ósvífinna afglapa á ferð með óhreint mjöl í pokahorninu. Ásökunin á hendur Stjórnarskránni er tilhæfulaus og foráttuvitlaus, enda liggur þar fiskur undir steini. Stjórnarskráin stóðst áraunina í Hruninu, þó að sumir stjórnmálamenn hafi bilað. Neyðarlögin, sem björguðu landinu frá gjaldþroti, stóðust Stjórnarskrána. Landið hélt fullveldi sínu.
Núgildandi Stjórnarskrá lýðveldisins er helzta brjóstvörn fullveldis landsins, því að hún bannar framsal fullveldis í verulegum mæli. Þannig girðir hún fyrir, að svikulir þingmenn geti með meirihlutasamþykkt framselt tiltölulega nýfengið fullveldi til annarra ríkja eða ríkjasambanda. Stjórnarskráin girðir fyrir afglöp þings, t.d. inngöngu í ESB. Verulegt fullveldisframsal nú krefst Stjórnarskráarbreytingar, sem útheimtir samþykki tveggja þinga. Þunglamalegt fyrirkomulag, en í mörgum löndum torsóttara, því að þar er farið fram á aukinn meirihluta þings, og breyting á Stjórnarskrá á ekki að vera auðveld.
Um þetta snýst sviksamlegt bröltið með "endurskoðun Stjórnarskráarinnar". Lýðskrumarar og loddarar geta aldrei nefnt hlutina réttum nöfnum. Þeir, sem harðast berjast fyrir nýrri Stjórnarskrá, sigla undir fölsku flaggi. Þeir vilja afnema fullveldisvarnir Stjórnarskráarinnar. Í drögum þingskipaðs hóps, sem lætur, eins og hann hafi verið þjóðkjörinn, sem sendi tillögu um nýja Stjórnarskrá til Alþingis, er búið að afnema þennan varnagla fullveldisins. Téð drög, sem með alveg ótrúlega gösslaralegum og ólýðræðislegum aðdraganda hefur nú verið ýtt á flot og kjósa á um 20. október 2012, undir yfirskyni spurningavaðals eða skoðanakönnunar, eru sniðin að áformum Brüsselvina til að unnt verði í fyllingu tímans að auðvelda inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, jafnvel að smygla landinu þar inn í blóra við vilja meirihluta þjóðarinnar, ef samþykki fyrir slíku skyldi nást á Alþingi með einum eða öðrum hætti.
Þess finnast engin dæmi í heiminum önnur en á Íslandi, að staðið hafi verið svo endemis flausturslega og ólýðræðislega að grundvallarbreytingum á grundvallarlögunum. Í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna hefur sú leið verið valin að fá aðila utan þings til að gera tillögu um stjórnarskráarbreytingar, en þá voru atkvæðisbærir íbúar undantekningarlaust spurðir að því í almennri atkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu hafa þann háttinn á. Auðvitað átti að sýna íslenzkum ríkisborgurum þá lágmarksvirðingu að spyrja þá í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þeir vildu, að
- Alþingi hefði forgöngu um endurskoðun Stjórnarskráarinnar
- valinkunnir stjórnlagafræðingar yrðu fengnir til verksins
- kosið yrði til stjórnlagaþings
Þetta var sjálfsagt upphaf í ljósi þess, að Stjórnarskráin sjálf mælir svo fyrir um, að fyrsti hátturinn hér að ofan skuli viðhafður, og að sjálfsögðu hljóta allar tillögur um breytingu á íslenzku Stjórnarskránni að koma til umfjöllunar Alþingis. Hroki einstaka stjórnlagaráðsaðila er yfirþyrmandi, þegar þeir leyfa sér að setja Alþingi lífsreglurnar um það, hvernig skuli meðhöndla tillögurnar. Þessir stjórnlagaráðslimir skilja ekki einu sinni, að þeir eru ekki þjóðkjörnir, og hafa ekki hærri stöðu en aðrar þingskipaðar nefndir.
Drögin, sem kjósa á um, minna á "sálina hans Jóns míns", sem kerling tróð í skjóðu sína, batt rammlega fyrir og tókst að fleygja inn um Gullna hliðið, framhjá Sankta -Pétri. Kerlingin er í þessu tilviki þekktur lýðskrumari í þokkabót.
- Af þessum sökum er einboðið að segja nei við fyrstu spurningunni á atkvæðaseðlinum og hafna þannig kolrangri aðferðarfræði, flausturslegu fúski og torskilinni moðsuðu, sem setur hvorki löggjafanum né framkvæmdavaldinu nægar skorður.
- Önnur spurning fjallar um þjóðnýtingu náttúruauðlinda. Hér er ætlunin að smygla ákvæði í anda Karls Marx og Vladimirs Leníns inn í Stjórnarskrána, sem sagt gjaldþrota hugmyndafræði. Er það dæmigert fyrir verk þetta allt að reyna að smygla afar umdeildri og misheppnaðri sameignarstefnu inn í Stjórnarskrána. Þetta ákvæði stríðir algerlega gegn núverandi eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar, sem er hornsteinn markaðskerfisins, sem eitt getur tryggt Íslendingum lífskjör, er samkeppnihæf séu við næstu lönd. Þeir, sem festa fé sitt í vinnslu auðlindarinnar, hver sem hún er, eiga rétt á að nýta hana undir vísindalegri stjórnun hins opinbera, sem tryggir sjálfbæra nýtingu. Ef sá, sem nýtir, hefur ekki sjálfur mestan hag af góðri umgengni við auðlindina, þá munu almannahagsmunir bíða tjón af. Hér ber þess vegna að segja nei.
- Þriðja spurningin er dæmigerð fyrir tvískinnunginn og óheilindin í sambandi við þessa endurskoðun Stjórnarskráar. Spurt er, hvort kjósandinn vilji, að í nýrri Stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. Af hverju er ekki komið beint að efninu og spurt, hvort kjósandinn vilji hafa þjóðkirkju á Íslandi eða ekki ? Það er stjáklað eins og köttur í kringum heitan graut um afnám þjóðkirkjunnar. Með því að segja já hér, er ekki einu sinni víst, að þjóðkirkjan haldist, en með neii hverfur hún auðveldlega. Hér eru mikil óheilindi á ferð.
- Fjórða spurningin er um persónukjör, þ.e. hvort kjósandinn vilji heimila persónukjör í meira mæli en nú er. Spurningin er eins gagnslítil og hugsazt getur um þetta efni, því að komi auknar heimildir, geta þær spannað mjög vítt svið. Það er rétt að ýta undir persónukjör, svo að litlaust og gagnslaust fólk geti síður flotið inn í skjóli stjórnmálaflokkanna. Svarið er já.
- Fimmta spurningin virðist í fljótu bragði vera sú skýrasta í þessum spurningavaðli fyrir utan þá fyrstu, en þegar betur er að gáð, er hér flagð undir fögru skinni. Spurningin vitnar um falskan uppruna sinn, því að það er rétt einu sinni verið að spyrja um allt annað en samkvæmt orðanna hljóðan. Það er í raun verið að spyrja kjósandann, hvort hann vilji hafa landið eitt kjördæmi, því að það er eina leiðin til að uppfylla skilyrðið, sem spurt er um. Spurningin fjallar um það, hvort kjósandinn vilji hafa ákvæði í Stjórnarskrá um, að atkvæði allra kjósenda hafi sama vægi. Um þetta má hafa mörg orð, en í stuttu máli verður ekki böl bætt með því að bæta við öðru verra. Dreifbýlið stendur veikt gagnvart þéttbýlinu, en það verður ekki fallizt á að bæta úr því með því að láta hvert atkvæði dreifbýlisins vigta langt umfram hvert atkvæði úr þéttbýlinu, þegar riðið er til þings. Það kemur vel til greina að setja mótvægisákvæði í Stjórnarskrá, sem styður við hagsmunagæzlu á Alþingi í þágu dreifbýlis, sem er aðaltekjuaflvaki landsins, gegn því að gera atkvæðisréttinn jafnari en nú er. Það kemur þar að auki vel til greina að auka hlut sveitarfélaganna enn í heildartekjum hins opinbera um leið og fleiri verkefni ríkisins verða flutt til sveitarfélaganna. Ræða þarf, hvaða tekjustofnar og verkefni mundu þá flytjast, en nefna má tekjuskatt af fyrirtækjum, svo að ekki sé nú minnzt á hið umdeilda og stórgallaða auðlindagjald. Ef spurningin hefði verið opnari, t.d. þannig: vilt þú hafa kosningalöggjöfina þannig, að hlutfall fjölda kjósenda á bak við hvern þingmann geti hvergi orðið hærra en 1:1,15, hefði málið horft allt öðru vísi við en þegar aðeins er boðið upp á eina lausn, þ.e. vægið 1:1. Rétta svarið hér er þess vegna nei.
- Síðasta spurningin fjallar um beint lýðræði, sem er mikils um vert að fá í Stjórnarskrá, enda tímanna tákn, en þessu er hægt að klúðra líka. Veldur þar hver á heldur. 15 % atkvæðisbærra manna á að geta krafizt þjóðaratkvæðis um öll mál, einnig varðandi fjárlög og samninga við erlend ríki, og einnig 40 % þingmanna eða 25 þingmenn, en þá er óþarft að halda þessum rétti hjá forseta lýðveldisins. Tímanna tákn er að svara já hér.
Einkennilegt er, að í þessum spurningavaðli skuli ekkert vera spurt um forsetaembættið. Samt eru skoðanir manna mjög skiptar um framtíðarskipan forsetaembættisins. Það felast ákveðin tækifæri til enn skýrari valdmarka hinna þriggja greina ríkisvaldsins, löggjafans, ríkisstjórnar og dómskerfis, með því að endurskilgreina forsetaembættið og koma á laggirnar Stjórnlagadómstóli. Forsetinn þarf að fá skýrara hlutverk innan stjórnskipanarinnar á kostnað framkvæmdavaldsins, þó að ekki verði horfið frá þingræðisfyrirkomulaginu. Stjórnlagafræðingar eru betur í stakkinn búnir til að gera skýra tillögu um þetta til Alþingis en glergrísir og froðusnakkar, sem telja sig vinna úr hugmyndum óljóss Þjóðfundar um heilindi, réttlæti og samvinnu, sem endurspeglað hafi vilja þjóðarinnar vegna handahófsvals. Þetta er raunar óboðleg "hundalógík". Nær hefði verið að leita í smiðju stjórnlaganefndarinnar, sem gaf út um 500 bls. ritverk og var forveri Þjóðfundar. Allt þetta afspyrnu ólánlega ferli, sem var illa til stofnað af ógæfufólki, eins og hér hefur verið rakið, mun líklega kosta ríkissjóð yfir einn milljarð króna áður en endir verður á það bundinn. Er þetta hægt, Matthías ?
Hlutverk Stjórnarskráar er m.a. að kveða greinilega á um valdmörk allra þriggja greina ríkisvaldsins og um hlutverk, skyldur og ábyrgð innan hverrar greinar. Þetta er gert með ófullnægjandi hætti í tillögu Stjórnlagaráðs, eins og prófessor emeritus, Sigurður Líndal, o.fl. lögfróðir menn hafa bent á. Stjórnarskrá á að vera krystaltær, án orðagjálfurs (knöpp) og stefnuyfirlýsinga, auðskilin hverju mannsbarni, enda réttindaskjal almennings í landinu. Það er tillaga Stjórnlagaráðs ekki, svo að vægilega sé til orða tekið, og þess vegna þarf að taka þessa stjórnlagavinnu nýjum og föstum lýðræðislegum og faglegum tökum í senn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2012 | 20:30
Um hvað eiga stjórnmál að snúast ?
Nú eru Alþingiskosningar í nánd, og þess vegna ekki að ófyrirsynju að líta yfir völlinn í tilraun til að gera sér grein fyrir meginlínum stjórnmálanna á Íslandi. Grundvöllur stjórnmálabaráttunnar hér er frelsi til tjáningar með málefnalegum hætti.
Stjórnmálin ættu að snúast um þjóðfélagsleg markmið og leiðir til að ná þeim. Því miður er hvort tveggja í nokkurri þoku, af því að menn sjá ekki upp úr skotgröfunum vegna púðurreyks. Sem dæmi má taka eftirfarandi spurningar um stöðu mála árið 2020:
- Hvernig viljum við, að fullveldi landsins verði háttað ?
- Hvar viljum við, að hagkerfi landsins verði á vegi statt ?
- Hvernig viljum við, að ríkisbúskapurinn standi ?
- Hvernig á að haga skattheimtunni ?
Hér koma dæmi um möguleg markmið og leiðir að þeim. Vegna skiptra skoðana á þeim aðhyllist fólk ómeðvitað eða meðvitað mismunandi stjórnmálastefnur og raðar sér í mismunandi stjórnmálaflokka, eins og drepið verður á hér að neðan:
- Hér er spurningin í reynd sú, hvort menn telji landi og þjóð til meiri farsældar, að endanlegt ákvörðunarvald um landsmálefni verði í Reykjavík eða utan landsteinanna. Um þetta eru skiptar skoðanir. Í sögulegu samhengi má benda á til glöggvunar, að framfarir á öllum sviðum þjóðlífsins tóku stakkaskiptum með Heimastjórn 1904. Það má ótvírætt rekja til innlends ráðherra í Reykjavík, en áður sat Íslandsráðherrann í ríkisstjórninni í Kaupmannahöfn og var jafnan danskur. Gríðarleg óánægja er á meðal sumra evruþjóða með miklar fjárhagsskuldbindingar þeirra vegna lána til illa staddra evruþjóða. Brüssel vill sameiginlega skuldabréfaútgáfu, og þá munu allir sitja í súpunni. Þýzka ríkisstjórnin stendur gegn þessu, og Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur úrskurðað, að Bundestag verði að samþykkja allar nýjar skuldbindingar Þjóðverja, sem ígildi séu fullveldisafsals að einhverju leyti. Þjóðirnar eru annars ekki spurðar, og það er verulegur lýðræðishalli á ESB-Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn telur hag lands og þjóðar bezt borgið með Heimastjórn, en Samfylkingin vill flytja endanlegt ákvörðunarvald til Brüssel. Aðrir eru beggja blands. Í þessu máli er ekki hægt að vera "opinn í báða enda". Barnalegasta skoðun, sem haldið hefur verið á lofti hérlendis í háa Herrans tíð, er sú, að afstaðan til aðildar ráðist af því, hvað komi upp úr poka jólasveinsins í Brüssel. Viðbáran er í senn hláleg og grátleg, af því að hún lýsir í senn yfirdrepsskap og og einfeldni. Í pokanum verða sáttmálar ESB með mismunandi aðlögunarákvæðum, sem til lengdar skipta engu máli, enda haldlausir gagnvart Evrópudómstólinum. Ólíkt var staðið að 1949, þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði spilin á borðið og kvað upp úr um, að Íslendingar yrðu að taka afstöðu í Kalda stríðinu og skipa sér í lið samkvæmt þeirri afstöðu. Þá var ekki siglt undir fölsku flaggi hugleysis, eins og stjórnarflokkarnir gera nú. Þannig taldi Sjálfstæðisflokkurinn öruggast árið 1949 að ganga í NATO til að tryggja fullveldið. Aðrir flokkar voru í raun klofnir um þetta eða á móti. Þá var að hrökkva eða stökkva. Öryggishagsmunir landsins í stórveldaátökum þess tíma voru í húfi. Með inngöngu í ESB mundum við lenda í suðupotti margs konar átaka, t.d. á milli norðurs og suðurs og í togstreitu á milli Þjóðverja og Frakka. Forveri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var á móti aðild að NATO og VG er enn á móti, þó að hún geri ekkert með það stefnumið sitt í ríkisstjórn frekar en ýmis önnur. Óheilindi vinstri flokkanna láta ekki að sér hæða.
- Verg landsframleiðsla, VLF, þarf árið 2020 að nema um ISK 2400 milljörðum til að ríkissjóður, sem nú skuldar um ISK 1508 milljarða, eigi sér viðreisnar von. Til að svo verði þarf hagvöxtur á ári hverju að verða 5,0 % að jafnaði. Svo öflugur hagvöxtur næst aðeins með fjárfestingum, sem nema um 20 % af VLF eða ISK 330 milljörðum á ári. Fjárhagslega og tæknilega er þetta raunhæft, ef hér sezt framfararíkisstjórn að völdum, en með afturhaldsríkisstjórn, eins og nú lafir við völd, er slíkt algerlega borin von, eins og dæmin sanna. Hagvöxtur fer nú minnkandi hérlendis. Hagvöxtur árið 2011 var 2,6 %, en var fyrstu 6 mánuði 2012 2,4 %. Þetta er allt of lágt til að hagkerfið braggist, en þessi lági hagvöxtur er í boði vinstri stjórnarinnar og bein afleiðing af sinnuleysi hennar, doða og ómennsku. Fólki á vinnumarkaði fer nú fækkandi beinlínis vegna stjórnarstefnunnar, sem er haldin þversögn. Á sama tíma og leitast er við að finna leiðir til að orða samkomulag við stækkunarstjóra ESB með einhverjum þeim hætti, sem höfðað gæti með jákvæðum hætti til meirihluta landsmanna, sem er vinna unnin fyrir gýg, þá er fjandskapazt út í erlenda fjárfesta á öllum vígstöðvum, nema eigendur vogunarsjóða, sem Steingrímur J. Sigfússon og ríkisstjórn hans færði bankana á silfurfati um leið og hann færði skuldarana undir fallöxina. Fyrir þennan og fleiri gjörninga, s.s. svo nefnda Icesave-samninga, er ei nema réttmætt að hann svari til saka fyrir Landsdómi. Þar er um margfalt verra brot að ræða en í Tamílamálinu, danska Landsdómsmálinu, sem Evrópuráðið hefur ekki fett fingur út í, þó að það muni fordæma málareksturinn gegn Geir Haarde, enda hvað annað átti Geir að gera en hann gerði ? Halda fund ? Þessar fjárfestingar verða að megninu til að snúast um að auka útflutningsverðmætin eða framleiðnina í útflutningsatvinnuvegunum. Frekari skuldasöfnun ríkisins upp fyrir 100 % af VLF, eins og stefnir í undir óráðsíustjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er þjóðhættuleg og mun enda með hræðilegri kjaraskerðingu landsmanna og þjóðargjaldþroti, eins og Argentínumenn o. fl. hafa mátt líða fyrir.
- Það verður strax að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, og það væri vert að auka fjárhagslegt aðhald með Alþingismönnum með því að fylgja fordæmi Þjóðverja um að setja í Stjórnarskrá strangar takmarknir á hallarekstri ríkissjóðs. Það væri þó líklega nóg að kveða á um aukinn meirihluta þingheims, t.d. 2/3 eða 42 talsins, sem skilyrði fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps með halla. Núverandi hallarekstur er með öllu siðlaus lántaka hjá afkomendum okkar að þeim forspurðum, sem þeir munu sjálfir þurfa að greiða að meira eða minna leyti. Núverandi skuldabaggi, um 100 % af VLF, er stórfelld ógn við fullveldi landsins, því að það þarf ekki að verða óvenjuleg náttúruvá eða kreppa til að afkomugrundvellinum sé kippt tímabundið undan útflutningsatvinnuvegunum, og ríkissjóður lendi þannig í greiðsluvanda og fái lágt lánshæfismat. Málpípur ríkisstjórnarinnar, geimverur og spunasnatar, halda á lofti blekkingum um, að ríkisreksturinn sé í góðu lagi. Þeir fara með ósannindi. Vinstri stjórnin hefur ekki ráðið við það verkefni að hemja ríkisútgjöldin og auka tekjur ríkissjóðs með eflingu hagkerfisins. Hagkerfið er í raun enn minna en árið 2006. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde gerði samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, AGS, haustið 2008 um ríkisbúskapinn og endurfjármögnun hans. Þar var mikilvægur áfangi fólginn í að ná jafnvægi í grunnþáttum ríkisbúskaparins, þ.e. án vaxtaliða, árið 2011. Ríkisstjórnin gafst upp við þetta, og árið 2011 var 43 milljarða kr halli á grunngerð ríkisbúskaparins. Ríkissjóður er stjórnlaus. Ríkisstjórnin hefur ekki stjórn á neinu, sem máli skiptir fyrir þjóðarheildina, en vill vera með nefið niðri í hvers manns koppi, eins og forræðishyggjufólki er tamt. Téð ríkisstjórn Geirs bjargaði landinu frá gjaldþroti með Neyðarlögunum. Steingrímur J. Sigfússon, sem aldrei hefur verið sterkur á svellinu, þegar að fjármálum kemur, er nú tekinn til við að þakka sér þau á erlendum vettvangi, en hann var andsnúinn þeim á Alþingi haustið 2008 sem andsetinn væri. Steingrímur minnir nú á Björn að baki Kára.
- Ferill ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á skattasviðinu hefur sannað Laffler-ferilinn um samband skattheimtu og skatttekna. Mikil skattheimta, eins og ríkisstjórnin tíðkar, minnkar skattstofninn miðað við það, sem annars væri, og að því kemur, að skatttekjur lækka vegna gegndarlausrar skattheimtu. Vinstri stjórnin skeytir ekkert um slíkt. Hagvöxtur er ekki á dagskrá hennar, og hún hirðir ekkert um eyðingu starfa með hækkandi skattheimtu. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stórskaðað skilvirkni skattkerfisins með því að hækka jaðarskatta og flækja skattkerfið. Ofan af öllu þessu er nauðsynlegt að vinda, og réttlætismál er að afnema ójafnræði á milli fyrirtækja og rekstrarforma gagnvart skattlagningu. Þannig ætti að lækka efsta virðisaukaskattsþrepið um 2,0 % á ári fyrsta kjörtímabilið um leið og miðþrepið væri afnumið og ýmist fært í neðsta (7,0 %) eða hæsta þrepið. Þjónusta hins opinbera skal bera VSK til jafns við þjónustu einkaaðila. Tekjuskatt einstaklinga skal einfalda niður í eitt þrep og frítekjumark. Eignaskatt ber að afnema, eins og alla aðra tvísköttun. Fjármagnstekjuskattur skal vera 10 % án undantekninga, en skal ekki reikna af verðbótum. Þessar skattkerfisbreytingar og aðrar umbætur á því munu ýta undir aukna veltu í þjóðfélaginu og minnka svarta markaðinn. Lækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 20 % í 14 % mun ýta undir fjárfestingar. Allt mun þetta skapa heilbrigðan hagvöxt og stækka skatttekjugrundvöllinn, sem leiða mun til aukinna skatttekna. Það verður hins vegar líka að spara í ríkisrekstrinum til að ná endum saman og til að tryggja sjálfbæran hagvöxt. Þetta þarf að gera með uppskurði á bótakerfinu, mati á nauðsyn hvers liðar og athugun á því, hvort einkarekstur getur tekið að sér sömu þjónustu með lægri tilkostnaði án þess að draga úr gæðum. Með þessu móti á ríkissjóður að geta greitt vexti og afborganir skulda á bilinu 100-150 milljarðar kr á ári, er frá líður, og lækkað þannig skuldabyrðina.
Lausnin á kreppunni er ekki að breiða yfir mistökin með peningaprentun, eins og eru ær og kýr vinstri manna, og heldur ekki að berjast við vindmyllur eins og upprætingu leti eða græðgi, enda standa þessir eðlisþættir djúpum rótum í manninum. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar. Hér er rétt að leita í smiðju til Adams Smiths, sem benti á lausnina í skipulagi, þar sem lestir mannanna eru beizlaðir og beint í jákvæðan farveg fyrir samfélagið.
Fyrsta skrefið er að átta sig á því, að peningaprentun veldur ekki því, að samfélag geti eytt meiru en það aflar. Peningaprentun umfram raunverulega verðmætasköpun í þjóðfélaginu veldur alltaf verðbólgu, sem er þjófnaður hins opinbera á fé borgaranna. Það er heldur ekki lausn á vandanum, að skuldir brenni upp á verðbólgubáli eða að skuldir séu afskrifaðar. Slíkt hefur það einvörðungu í för með sér, að lánadrottnar verða að taka á sig tapið, og þeir verða þá að sama skapi að hafa minna umleikis í framtíðinni. Kjósendur verða að átta sig á því, að ekki er endalaust unnt að reka ríkissjóð með halla, heldur verða stjórnmálamennirnir að sníða ríkissjóði, og þar með velferðarkerfinu og öðrum útgjaldaliðum, stakk eftir vexti. Bezta ráðið til að halda aftur af stjórnmálamönnunum er að takmarka seðlaprentunarvald Seðlabanka og bankakerfis. Það ætti að gera samhliða annarri uppstokkun bankakerfisins, þar sem afnám ríkisábyrgðar og aðskilnaður innláns- og fjárfestingarstarfsemi er lykilatriði. Slíkt yrði í takti við tilhneiginguna annars staðar í Evrópu í samskiptum ríkis og fjármálastofnana um þessar mundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)