31.12.2013 | 17:00
Háskólarnir
Vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála, 2013, kom út skömmu fyrir jól og hefur verið holl jólalesning. Þar eru þó ekki einvörðungu jólasögur. Til hrollvekju í tímaritinu má telja grein Einars Steingrímssonar, stærðfræðings og prófessors, "Vondir háskólar, viljalaus stjórnvöld".
Hann staðfestir þar grunsemdir um, að á tímum Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar, ólánlegu og starfalitlu, voru efld til muna Pótemkíntjöld rektors Háskóla Íslands (HÍ) og annarra forystusauða háskólasamfélagsins. Téð Katrín, sem læzt vera handhafi stjórnmálalegs réttlætis á Íslandi, gerði ekkert róttækt í málefnum hins ríkisrekna háskóla, en stagaði stöðugt í gatslitin Pótemkíntjöld HÍ. Þó hún færi með utana að lærðan fagurgala um að efla samkeppni um fé úr vísindasjóðum til rannsóknarverkefna í HÍ, þá seig allt á ógæfuhliðina undir stjórn handhafa réttlætisins og ausið var (og er enn) úr ríkishirzlunni í undirmálsverkefni, samkvæmt tilvitnaðri grein prófessors Einars.
Að frumkvæði Kristínar Ingólfsdóttur, rektors, var árið 2006 sett markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu háskóla í heimi án þess að gera nokkuð raunhæft til að ná því, enda eru áhöld um, að þetta markmið sé skynsamlegt fyrir HÍ og eiganda hans. Hér er um að ræða algerlega óraunhæft markmið, sem mætti e.t.v. kalla montmarkmið, af því að því er flíkað á tyllidögum, en lítið raunhæft gert til að ná því. Til að ná þessu þarf alvöru rannsóknarvinnu við Háskólann, en ekki ráðningu manna frá rannsóknarfyrirtækjum á borð við Íslenzka erfðagreiningu og fölsun bókhaldsins með því að telja verkefni fyrirtækjanna til verka Háskólans.
Í stuttu máli ríkir óhæf klíkustjórn í HÍ samkvæmt téðri grein prófessors Einars, sem hyglir meðalmennskunni og hrekur burt hæfileikafólk. Þar er undirmálsfólki hrúgað á jötuna án þess að stunda nokkrar rannsóknir, sem undir nafni standa, og þess vegna birtast aldrei neinar vísindaritgerðir eftir þetta starfsfólk Háskólans í viðurkenndum vísindaritum. Ljótt er, ef satt er, og prófessor Einar fer örugglega ekki með fleipur, því að mat hans er ekki huglægt, heldur hlutlægt og reist á mælanlegum þáttum. Stjórn Háskólans hlýtur falleinkunn hjá téðum starfsmanni sínum. Í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er núna unnið undir ábyrgari stjórn en svo að láta þetta viðgangast án þess að hreyfa legg né lið, eins og þó áður tíðkaðist.
Sem dæmi um sóunina skrifar Einar:
"Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru um 130 akademískir starfsmenn (lektorar, dósentar og prófessorar) og um 20 í slíkum stöðum við Háskólann á Akureyri. Það eru því um 150 starfsmenn í rannsóknastöðum í menntavísindum við íslenzka háskóla. Allt þetta fólk fær helming launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst stefna HÍ er að komast í fremstu röð rannsóknaháskóla á alþjóðavettvangi, en það krefst þess, að rannsóknastarf skólans sé hátt metið í alþjóðlegum samanburði."
Einar segir síðan frá, hvernig menntavísindamálum er háttað í Bandaríkjunum, BNA, og ber saman við Ísland:
"Það er því nokkuð ljóst, að á Íslandi eru, hlutfallslega, að minnsta kosti tífalt fleiri á launum við rannsóknir í menntavísindum en í Bandaríkjunum. Þetta er ein af mörgum sláandi staðreyndum um risavaxna stærð svokallaðs rannsóknastarfs við íslenzku háskólana."
Síðan ber prófessor Einar þetta ofvaxna ríkisrekna "rannsóknakerfi" saman við annað morkið kerfi, sem var sýndarmennskan helber og féll eins og spilaborg:
"Fjöldi þess fólks, sem fær stóran hluta launa sinna greiddan fyrir rannsóknir í íslenzkum háskólum, er jafnfáránlegur og stærð íslenzku bankanna fyrir hrun."
Þetta opinbera sóunarkerfi óx og dafnaði undir verndarvæng Katrínar, fyrrverandi menntamálaráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þó að henni væri kynnt vandamálið og bent á lausn vandans. Núverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs getur talað mikið og farið með frasa, en hún reyndist algerlega ófær um að hrinda af stað nokkrum umbótum á ríkisrekstrinum, enda hefði hún þar með veitzt að ormagryfju, sem er ein af undirstöðum VG og rétttrúnaðaráróðri vinstri aflanna í landinu. Réttlæti téðrar Katrínar, handhafa hins stjórnmálalega réttlætis, er réttlæti þjófsnautarins, sem nýtir fé, sem tekið er frá eigendum þess með valdi, lagavaldi í þessu tilviki, og dreift til annarra að geðþótta handhafa réttlætisins.
Réttu gæðahvatana vantar í stigakerfi HÍ. Taldar eru greinar og umfang þeirra, en ekkert mat lagt á gæðin. Þetta er úrkynjað stigakerfi, sem tíðkast ekki í góðum háskólum. Til að bæta gráu ofan á svart, fást fleiri stig fyrir birtingu í íslenzku riti en í alþjóðlega viðurkenndu vísindariti. Með eftirfarandi gefur prófessor Einar stjórnkerfi HÍ falleinkunn:
"Staðreyndin er auðvitað sú, að mikill fjöldi akademískra starfsmanna í HÍ ræður alls ekki við neinar rannsóknir, sem ná máli á þeim alþjóðavettvangi, sem skólinn vill gera sig gildandi á."
Og enn er hnykkt á, svo að ekkert fari á milli mála hjá núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, sem ekki getur látið þetta framhjá sér fara, heldur verður að taka á þessu máli og slá þar með tvær flugur í einu höggi:
1) að spara ríkissjóði fé og 2)
að lyfta Háskóla Íslands upp um nokkur gæðaþrep, svo að vægt sé að orði kveðið.
Þetta mundi væntanlega bæta gæði kennslunnar fyrir stúdenta, og þjóðfélagið fengi þá vonandi hæfara fólk úr Háskólanum til starfa.
"Afleiðingin er, að á Íslandi er margfalt fleira fólk á launum en í nokkru sambærilegu landi við að stunda rannsóknir, sem eru einskis virði og sem margar fara beint í þá ruslatunnu, sem flest íslenzk tímarit eru, því að þau eru ólæsileg fyrir meira en 99,9 % viðkomandi vísindasamfélags."
Er þetta rödd hrópandans í eyðimörkinni ? Við svo búið má ekki sitja. Hér skrifar vel metinn prófessor við Háskóla Íslands og bendir á vandamálið og á lausn þess, sem fólgin er í, að fræðimennirnir við háskólana, sem greitt fá fyrir vísindastörf, sem vart ná máli á alþjóðlegan mælikvarða og lítið er gert til að kynna alþjóðlega, leggi sig nú fram um að afla fjár til verkefna sinna úr samkeppnisjóðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2013 | 18:38
Heljarstökk
Um þessar mundir undirbýr Evrópusambandið, ESB, mesta heljarstökk sitt frá því, að evrunni var hleypt af stokkunum. Um er að ræða bankabandalag evru-landanna, þar sem löndum innan ESB án evru verður hleypt inn. Spurning er, hvort EES ríkjunum verður hleypt í þetta samstarf, eða hvort Svisslendingar, sem sópar að í bankaheiminum, kæra sig um aðild að bankabandalaginu, sem hleypa af stokkunum að ári.
Með þessu er ætlunin að flytja eftirlit, upplausnarvald og styrkingarheimildir fyrir fjármálafyrirtæki frá einstökum ríkjum og til seðlabankans í Frankfurt. Með á að fylgja þangað Evrópusjóðurinn til að ausa úr til þrautavara til að koma í veg fyrir fjármálalegan óstöðugleika og fall banka.
Hér er auðveldara um að ræða en í að komast. Þjóðverjar drógu lengi lappirnar og vildu ekki, að þýzkir sparisjóðir þyrftu að lúta þessu sameiginlega eftirliti, líklega af því að þar er maðkur í mysunni. Fyrir kosningarnar í september 2013 var hamrað á því í Þýzkalandi, að Þjóðverjar yrðu látnir standa sem fjárhagslegir bakhjarlar fyrir evrópskt bankakerfi á brauðfótum, en nú virðast þeir sjá sér hag í að raungera þennan væna áfanga á leiðinni að sambandsríki Evrópu, þó að það geti óneitanlega kostað þýzka skattgreiðendur útlát. Ekki verða því þó gerðir skórnir hér, að þessi stefnumörkun endurspegli stórveldisdrauma. Miklu líklegra er, að Berlín meti það svo, að bankabandalag Evrópu muni styrkja evruna í sessi, og er ekki talið af veita, eins og í pottinn er búið í mörgum evru-löndum nú um stundir, þar sem hagkerfi þeirra er hreinlega of veikburða til að búa við sterkan gjaldmiðil á borð við evru. Það hefur reynzt ríkjum bjarnargreiði að hleypa þeim inn vanbúnum. Það er annaðhvort fals eða vanþekking að baki fullyrðingum hérlandsmanna um, að það yrði landsmönnum hin mesta kjarabót að stökkva á evruna. Það er þó hverju orði sannara og mikið keppikefli, að sterkur gjaldmiðill lækkar innflutningsvörur í verði og eykur kaupmátt Íslendinga erlendis, en ef undirstaða gjaldmiðilsins er ekki réttlig fundin, þá verður mikið atvinnuleysi í landinu og erfitt að selja vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum. Við þurfum að feta svipaða braut og Þjóðverjar að ná verðstöðugleika og samkeppnihæfni með mikilli framleiðni og háum gæðum. Þá getum við tekið upp hvaða gjaldmiðil sem er að því tilskildu, að yfirvöld viðkomandi gjaldmiðils samþykki slíkt og að viðkomandi seðlabanki virki til þrautavara fyrir íslenzkt peningakerfi.
Bankabandalagsverkefni ESB var hleypt af stokkunum í júní 2012, þegar spænskir bankar stóðu hvað tæpast. Hlutverk bankabandalagsins er að rjúfa tengslin á milli ríkisstjórna og fjármálafyrirtækjanna, þannig að atburðir á borð við írska slysið þurfi ekki að endurtaka sig. Írski ríkissjóðurinn var að kröfu ESB látinn axla skuldir írskra banka í fjármálakreppunni haustið 2008 til að bjarga írskum bönkum úr lausafjárvanda, þegar fall írska bankakerfisins var talið geta haft keðjuverkandi áhrif í Evrópu og víðar. Til þess fengu Írar mjög há og dýr lán hjá EB og AGS, sem þeir verða lengi að bíta úr nálinni með. Írska leiðin er nú mönnum víti til varnaðar.
Eins og kunnugt er, lagði ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde fyrir Alþingi að láta skipta föllnu bönkunum upp, flytja íslenzkar skuldir bankanna, innistæður og útlán með afföllum inn í nýja íslenzka banka og láta erlendar skuldir róa með lánadrottnunum. Þetta var íslenzka leiðin. Ríkisstjórn Geirs og Alþingi sigldu gegn mjög miklu alþjóðlegu andstreymi við þessar aðgerðir, ekki sízt frá ESB, af því að allar erlendar ríkisstjórnir og fjármálastofnanir töldu, að þetta gæti haft slæmar afleiðingar á fjármálakerfi Evrópu og veitt slæmt fordæmi.
Nú er komið í ljós, að þjóðhagslega var þetta bezta lausnin og andstætt svartagallsrausi vinstri flokkanna á Íslandi, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem lögðu sig í framkróka við að smeygja ríkisábyrgð á skuldir föllnu bankanna og buktuðu sig þannig og beygðu fyrir erlendum ríkisstjórnum og kommissörum ESB af fádæma undirgefni, sem sennilega má kenna við landráð. Hvernig væri að leyfa Steingrími Jóhanni og Jóhönnu Sigurðardóttur að bera glóandi járn fyrir Landsdómi og bergja þannig á eigin miði ?
Aðgerðir Alþingis haustið 2008 voru dæmdar löglegar að alþjóðarétti af EFTA-dómstólinum í janúar 2013. Öll var þessi furðulega hegðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til þess fallin að ganga í augun á búrókrötunum í Brüssel til að auðvelda aðildarviðræðurnar, sem hvorki gekk né rak með, og þessar óheillakrákur, Jóhanna, Steingrímur, Katrín Jakobsdóttir og Össur reyndust algerlega ófær um að leiða til lykta fremur en annað, sem þau tóku sér fyrir hendur. Óþarft er að minnast á garminn Ketil skræk í þessu sambandi, fyrrverandi ráðgjafa hins hroðalega illa rekna Íbúðalánasjóðs, en stjórnarandstaða hans er ekki burðugri en ráðherradómurinn, og var þá ekki úr háum söðli að detta.
Núna eru mun hærri vextir á Norður-Ítalíu, sem og á Ítalíu allri, en norðan landamæranna í Ölpunum, Austurríkismegin, svo að dæmi sé tekið. Þetta og margt fleira veldur núningi á milli norður- og suðurhluta evrusvæðisins, sem er svo svæsinn, að á öllu evrusvæðinu er umræða um upplausn þess. Með bankabandalaginu er ætlunin að draga úr þessum vaxtamuni og helzt að eyða honum.
Bankabandalag ESB krefst þess af Þjóðverjum og öðrum lánadrottnararíkjum innan ESB, að þau gangi í ábyrgð fyrir skuldararíkin og að þau hætti að hygla eigin bönkum. Þetta hefur lengi staðið í Þjóðverjum, en þeir hafa nú kokgleypt þessar skuldbindingar gegn því, að evrubankinn í Frankfurt hafi eftirlitsskyldum að gegna og fái upplausnarvald yfir 130 stærstu bönkunum og geti hlutazt til um rekstur allra annarra banka á evrusvæðinu, sem eru nokkur þúsund talsins.
Það er önnur saga, að Þjóðverjar eru alls ekki einráðir um stjórnun evrubankans, heldur sitja í æðsta ráði bankans seðlabankastjórar allra evrulandanna og 6 manna framkvæmdastjórn hans. Þjóðverjar hafa að vísu nú fengið því framgengt, að atkvæðavægið verður ekki jafnt, heldur nokkru nær stærðarhlutföllum hagkerfanna. Sem dæmi að taka er hagkerfi Þýzkalands um 100 sinnum stærra en Lettlands, sem taka mun upp evru nú um áramótin, en Þjóðverjar munu hafa minna en tvöfalt atkvæðavægi á við Letta. Margir Þjóðverjar hafa áhyggjur af því að verða ofurliði bornir í mikilvægum atkvæðagreiðslum í æðsta ráði bankans.
Á vegum bankabandalagsins verður gagnkvæm innistæðutrygging allra evrulandanna. Bankar evrulandanna munu að þessu leyti búa við svipað kerfi og bankar í Bandaríkjunum.
Þjóðverjar hafa hingað til barizt fyrir því, að völdin yfir þýzkum peningum væru í þýzkum höndum. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, hefur sagt, að bankabandalagið ætti að vera úr timbri, en að hafa það úr stáli mundi útheimta breytingar á sáttmálum ESB. Nú hefur hann samþykkt, að gagnkvæm ábyrgð myndist smám saman á 10 árum með EUR 55 milljarða sjóði að bakhjarli. Hann hefur þó ekki samþykkt, að þetta fé komi frá skattgreiðendum, heldur bönkunum sjálfum. Ef banki fer á hausinn, mun þó ofangreindur bakhjarl aðeins tryggja innistæðurnar, en hvorki hluthafa bankans né lánadrottna hans. Ekki verður annað séð en þetta sé keimlíkt íslenzku leiðinni frá 2008, sem allt ætlaði vitlaust að verða út af á sinni tíð.
Í fersku minni er meðferð Breta á Íslendingum haustið 2008, en þá hljóp brezki ríkissjóðurinn undir bagga með öllum illa stöddum bönkum á Bretlandi, en lét útibú íslenzku bankanna sigla sinn sjó. Mörgum hefur verið þessi hegðun hrein ráðgáta, því að gott samband hefur alla tíð verið á milli Englandsbanka og íslenzkra bankayfirvalda, þ.e. Seðlabanka Íslands eftir stofnun hans. Er skemmst að minnast, að Ísland var í myntbandalagi við Bretland á 3. áratugi 20. aldarinnar. Að tengjast sterlingspundinu kann að verða bæði fýsilegt og raunhæft eftir afnám gjaldeyrishaftanna, ef stöðugleiki næst í íslenzka hagkerfinu, eins og grunnur hefur nú verið lagður að, hvað sem verður.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Bretar reka öfluga leyniþjónustu innanlands og utan, MI5 og MI6. Nú hefur sú getgáta verið viðruð opinberlega, að brezku ríkisstjórninni hafi borizt um það upplýsingar, að stundað væri stórfellt peningaþvætti í íslenzkum bönkum, þar sem fé frá Rússlandi ætti í hlut. Háð umfangi þessarar starfsemi gæti þessi vitneskja skýrt beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenzku bönkunum og gegn Íslandi, þar sem Bretar torvelduðu greiðslumiðlun til og frá Íslandi eftir megni. Hvers vegna hefur sannleikurinn í þessu máli ekki verið opinberaður ? Til náinnar gjaldeyrissamvinnu við Breta getur ekki komið fyrr en fullnægjandi skýring hefur á framferði Breta fengizt, og sýnt hefur verið fram á, að ríkisstjórn Verkamannaflokksins, Samfylkingar Bretanna, hafi haft málefnalegar ástæður fyrir gjörðum sínum; ella verður opinber afsökunarbeiðni að koma seint og um síðir, því að fruntaháttur og meiðandi aðgerðir brezka fjármálaráðherrans urðu Íslendingum þungar í skauti.
Bankabandalagið mun styrkja evruna, en ekki leysa evrukreppuna, sem enn er á alvarlegu stigi. Upptaka evru á Íslandi verður ögn fýsilegri, en engan veginn nógu fýsileg, þegar á allt er litið, til að mæla með upptöku hennar. Á evrusvæðinu gæti orðið mikið öldurót á komandi ári, og samkvæmt reglum ESB-sjálfs er full aðild að Evrópusambandinu skilyrði þess að evrubankinn verði fjárhagslegur bakhjarl að bankakerfi lands, sem gerir evru að lögeyri sínum. Fyrrverandi ríkisstjórn, Jóhönnustjórninni, varð ekkert ágengt í aðildarviðræðunum við ESB, og núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, hefur allt aðra forgangsröðun með réttu. Það er auðvitað með öllu ótækt að ætla að fara inn í ESB á hækjum. Enn fullnægjum við engu Maastricht-skilyrðanna, en það ætti að setja það á dagskrá að fullnægja þeim öllum fyrir árið 2020. Skipulega er nú hvert skrefið á fætur öðru tekið í þá átt. Þá verður líka mikið vatn runnið til sjávar í Evrópu, og valdahlutföll á milli Þjóðverja, Breta, Frakka og Rússa tekin að skýrast ásamt framtíðarfyrirkomulagi ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2013 | 21:25
Söguleg átök
Í Asíu minnir vopnaskak Kínverja og Japana út af óbyggðum eyjaklasa suðurundan Japan á argvítug stríð á milli þessara þjóða á öldum áður. Nú hafa Suður-Kóreumenn blandað sér í þessa stöðubaráttu, og í Norður-Kóreu hafa upp hafizt hjaðningavíg, sem kunna að verða upphafið að falli illræmdustu kommúnistastjórnar heimsins nú á tímum. Í forgrunni glittir í baráttu um auðlindir, þar sem eldsneyti er talið vera undir hafsbotni Kínahafs.
Í Evrópu fer einnig fram hörð stöðubarátta, þó að ekki sé sjáanlega um aftökur eða vopnaskak að ræða, nema á austurjaðri ESB, í Úkraínu, sem nú er aðalátakasvæðið í Evrópu og hefur svo áður áður verið. Eftirfarandi tilvitnun í fyrstu ræðu nýskipaðs utanríkisráðherra Þýzkalands, 17. desember 2013, er til vitnis um átök Rússlands og Þýzkalands um Úkraínu:
"Það er hneykslanlegt hvernig Rússar nýta sér efnahagsþrengingar Úkraínumanna til að koma í veg fyrir að þeir skrifi undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Framkoma úkraínskra öryggissveita gagnvart friðsömum mótmælendum er þó ekki síður hneykslanleg, sagði Steinmeier. Hann viðurkenndi jafnframt að boð ESB um fjárhagslegan og efnahagslegan stuðning dygði ekki til að tryggja samkeppnishæfni Úkraínu og tengja þjóðina efnahagslega við Evrópu."
Í Evrópu er stunduð umfangsmikil njósnastarfsemi, hleranir og myndatökur, til að komast að fyrirætlunum jafnt bandamanna sem annarra. Sannast þar hið fornkveðna, að enginn er annars bróðir í leik. Er líklegt, að ormétið innbyrðis traust Vesturveldanna grafi undan nánu samstarfi þeirra, eins og við höfum kynnzt því hingað til. Menn hlera ekki og standa á gægjum um vini sína án þess að slettist upp á vinskapinn. Að ræna einstaklinga á Vesturlöndum einkalífi sínu mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðisþróunina, hvort sem málstaðurinn er göfugur eður ei.
Það er ekki einleikið, hvernig stríð fortíðarinnar endurspeglast í atburðum samtímans. Enn einu sinni er Úkraína bitbeinið og aðalleikararnir eru hinir sömu, Svíar og Rússar, með Þjóðverja í bakgrunni. Í júní 1709 var háður örlagaríkur bardagi á milli herja Péturs mikla, Rússakeisara, og Karls 12, Svíakonungs, við Poltava, sem er í Úkraínu. Úkraínumenn börðust með báðum aðilum, alveg eins og nú, er þeir skipa sér í sveit með Rússum eða Evrópusambandinu, ESB, hvar Svíar og Þjóðverjar eru öflugir.
Ívan Mazepa, úkraínskur kósakkahöfðingi, hafði tekið afstöðu með Svíum til að berjast fyrir sjálfstæði Úkraínu frá Rússum árið 1709. Hið sama gerist nú með allan vesturhluta Úkraínu, sem Janukovych ræður í raun ekki yfir lengur. Lögreglan þar neitar að berja á mótmælendum. Bardaganum fyrir rúmum þremur öldum lauk með ósigri Svía, þó að þeir legðu hart að sér. Rússar héldu í kjölfarið til vesturs, lögðu undir sig Eystrasaltslöndin og gerðu Pólland að hjálendu. Þessi sigur Rússa varð afdrifaríkur fyrir þróun Evrópu. Sagan má ekki endurtaka sig nú. Pútin má ekki takast ætlunarverk sitt að kaupa gjaldþrota Úkraínu og hrifsa hana þannig undan vestrænum áhrifum beint fyrir framan nefið á ESB, þó að tilburðir ESB séu með eindæmum vesældarlegir og seint á ferðinni. Lafðin, brezka, utanríkismálastjóri ESB, virðist vera úti á þekju.
Síðan 1709 hefur gengið á ýmsu, en í stórum dráttum hafa átökin í Austur-Evrópu einkennzt af því, að hún hefur ýmist verið á áhrifasvæði Berlínar/Vínar eða Moskvu/Pétursborgar. Þau einkennilegu úrslit urðu í hildarleiknum fyrir einni öld, í Heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, að bæði Þjóðverjar og Rússar máttu lúta í gras. Báðir hugðu á landvinninga, þegar þeir fóru í stríðið eftir dráp austurríska erkihertogans í Sarajevo. Ástæða uppgjafar keisarans í Berlín og höfuðs Habsborgara í Vín var, að árið 1917 blandaði Norður-Ameríka sér í styrjöldina til stuðnings Bretum og bandamönnum þeirra. Þennan liðsstyrk réðu hersveitir Germana ekki við á Vesturvígstöðvunum. Í Rússlandi var gerð blóðug bylting og aðlinum steypt af stóli haustið 1917. Byltingarforingin Vladimir Lenin gerði friðarsamning við þýzka keisarann í kjölfarið, enda gerður út og fluttur til Rússlands af kaffihúsum í Sviss af Berlín gagngert til að valda usla, og síðan brauzt út borgarastyrjöld í Rússlandi, þar sem Hvítliðar börðust við Rauðliða, svo að Rússland var lamað þar til kommúnistaflokkur Rússlands hóf að byggja upp þungaiðnað, sem ásamt hergagnasendingum Bandaríkjamanna reið baggamuninn í stríðinu mikla á milli Þjóðverja og Rússa 1941-1945.
Habsborgaraveldið leið undir lok og var bútað í sundur við uppgjöfina í nóvember 1918, þó að afkomendur Habsborgarháaðalsins séu enn sterkefnaðir og hafi ítök í fjármálaheiminum. Á rústunum reis fjöldi nýrra ríkja með stuðningi Bandaríkjaforsetans, Woodrow Wilsons. Berlín var niðurlægð, lönd tekin af Þýzkalandi og landið sett í skuldafjötra stríðsskaðabóta til Vesturveldanna, sem hvíldu eins og mara á hagkerfinu og framkölluðu óðaverðbólgu og stjórnmálalegan óstöðugleika í Weimar lýðveldinu. Hinn sjálfmenntaði, tilfinninganæmi og sjálfumglaði listamaður frá Linz í Austurríki, Adolf Hitler, hellti salti í sár Þjóðverja og kynti undir kraumandi óánægju þeirra með hlutskipti sitt.
Þjóðverjar voru í áfalli eftir uppgjöfina 10. nóvember 1918, steyptu aðlinum af stóli og stofnuðu Weimar-lýðveldið. Það var stjórnskipulega og efnahagslega veikt og vék fyrir Þriðja ríkinu, þegar Adolf Hitler var skipaður kanzlari eftir þingkosningar, þar sem flokkur hans, NSDAP, fékk um þriðjung atkvæða, í janúarlok 1933. Rúmu ári síðar lézt Hindenburg, forseti og fyrrverandi hershöfðingi keisarahersins, og eftir það varð Foringinn alvaldur í Þýzkalandi. Hann stefndi á heimsveldi, Imperium des deutschen Volkes, en Luftwaffe mistókst atlagan gegn Englandi sumarið 1940 og framsókn Wehrmacht var stöðvuð í Norður-Afríku og í Rússlandi árið 1942. Eftir það tók við mikil varnarbarátta, sem grundvallaðist á ótrúlegri framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins undir forystu ríkisarkitektsins, Albert Speer. Sá samdi afar fróðlega og lipurlega ritaða sjálfsævisögu í fangelsinu í Spandau/Berlín. Talið er, að hann hafi vonazt til svipaðrar meðhöndlunar Bandaríkjamanna og yfirmaður eldflaugarannsókna Þriðja ríkisins, Werner von Braun, en Bandaríkjamenn eyðilögðu öll gögn um aðild hans að NSDAP og gerðu hann að yfirmanni eldflaugarannsókna sinna.
Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía og Króatía eru nú gengin í Evrópusambandið. Það þýðir, að austurmörk áhrifasvæðis Þýzkalands eru komin að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, og nú standa átök yfir í Úkraínu um framtíð landsins. Janukovych, forseti landsins, sem hallur er undir Putin, Rússlandsforseta, stöðvaði síðbúið ferli nánari tengsla Úkraínu við ESB, Evrópusambandið, og sigaði lögreglunni á mótmælendur athæfis síns, sem safnazt hafa saman á Maidan-torgi, eða Frelsistorginu í Kænugarði. Óeirðalögreglan sýndi mikla harðýðgi gegn æskulýðnum, sem fjölmennti á stærsta torg Kænugarðs. Æska Úkraínu kærir sig ekki um að búa í leppríki Rússa. Stjórnkerfi Úkraínu er gegnumrotið, og meirihluti íbúanna, með unga fólkið í broddi fylkingar, þráir ekkert heitar en röð og reglu réttarríkisins, þar sem mannréttindi eru virt, og virðing er borin fyrir samborgurunum.
Á fyrrnefndu aðaltorgi í Kænugarði er nú hrópað: "Út með þjófana". Vestur-Úkraína lýtur ekki lengur boðvaldi Janukovych, forseta, og landið er á gjaldþrotsbarmi. Af tvennu illu er nú skárra fyrir almenning í Úkraínu að halla sér til vesturs en austurs, því að ríki Pútíns er óstöðugt, og lýðræðið stendur þar enn höllum fæti. Rússar hafa leikið mótleik með því að bjóða Úkraínu jarðgas á vildarkjörum og boðizt til að kaupa af þeim ríkisskuldabréf, sem AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) hafði hafnað kaupum á. Janukovych hefur tekið þá ákvörðun að leggjast á bakið og tifa upp tánum fyrir framan rússneska björninn. Úkraínska þjóðin hefur tekið aðra og gagnstæða ákvörðun. Hún er sú, að Úkraína skuli verða sjálfstætt ríki. Önnur ákvörðunin verður að víkja fyrir hinni, og þó að frelsisandi þjóðarinnar eigi erfitt uppdráttar um sinn, þá er hann sigurstranglegri til lengdar.
Það gæti þess vegna farið að styttast í að áhrifasvæði Þjóðverja teygi sig meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands, og það er nokkuð, sem valdhafarnir í Pétursborg og Moskvu hafa alltaf barizt gegn. Berlín gæti þess vegna virzt standa uppi með pálmann í höndunum nú um stundir, en það eru váboðar framundan fyrir Berlín, þó að þeir séu öðru vísi en forðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2013 | 14:12
Fjárlögin 2014
Laugarvatnsstjórnin kann til verka, en það er meira en hægt var að segja um Jóhönnustjórnina á undan henni. Hún vann allt með öfugum klónum og stóð hér að fjögurra ára hörmungartímabili, eins konar Móðuharðindum af mannavöldum. Það gerði hún með niðurrifsstarfsemi á öllum sviðum. Hún hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi á fólk og fyrirtæki, og hún ofsótti atvinnulífið. Það virðist þó e.t.v. mótsagnakennt, að skatttekjur ríkissjóðs 2014 verða líklega hærri en 2013 þrátt fyrir vissar skattalækkanir til að örva hagkerfið.
Fyrri ríkisstjórn sýndi bleyðuhátt gagnvart alþjóðlegu fjármálavaldi, sem kom fram í því að semja við það um að láta íslenzka skattborgara ábyrgjast hundruði milljarða króna til greiðslu á skuldum óreiðumanna, sem suma hverja er nú réttilega búið að dæma um árabil á bak við lás og slá, og hún dekraði við kröfuhafa föllnu bankanna með því að hlífa þeim einum við skattasugu sinni. Þar sýndi hún alvarlegan dómgreindarbrest, því að kröfuhafarnir geta komið sér hjá skattinum með því að óska gjaldþrotaskipta, en það hafa þeir ekki gert, af því að þeir njóta undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að flytja tekjur sínar af starfsemi bankanna til útlanda. Allt er þetta í boði vinstri stjórnarinnar, sálugu. Þessir sömu stjórnmálamenn berja sér nú á brjóst á Alþingi og telja sig þess umkomna að vanda um við þá, sem skipulega og af eindrægni koma nú hjólum atvinnulífsins í gang. Ja, svei aftan !
Til marks um þau vatnaskil í efnahagsmálunum, sem eru nú að verða, er meiri hagvöxtur á Íslandi á 3. ársfjórðungi 2013 en nokkurs staðar annars staðar á Vesturlöndum, og jákvæðari viðskiptajöfnuður var þá en áður hefur sézt. Þetta ásamt algerum viðsnúningi í stjórn ríkisfjármálanna mun leggja góðan grunn að skuldalækkun ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila í landinu, sem er forsenda fyrir sjálfbærum búskapi í þessu landi. Að greiða erlendum lánadrottnum 70-100 milljarða króna á hverju ári úr ríkissjóði hamlar sókn landsmanna til betri lífskjara. Stefna núverandi ríkisstjórnar, Laugarvatnsstjórnarinnar, er reist á þeim sannindum, að þjóðin getur aðeins framleitt sig út úr vandanum, ef svo má að orði komast, en það er ekki unnt að skattleggja hana út úr vanda sínum, og það er vissulega ekki hægt að gera hvort tveggja.
Til marks um þann viðsnúning hagkerfisins, sem nú á sér stað, er frásögn Morgunblaðsins þann 14. desember 2013 af samningi Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði við Skagann á Akranesi um hönnun, smíði, uppsetningu, prófanir og gangsetningu á sjálfvirku kerfi fyrir vinnslu á uppsjávartegundum í verksmiðju fyrirtækisins.
"Samningur fyrirtækjanna er stærsti einstaki samningur, sem Skaginn hefur gert við íslenzkt sjávarútvegsfyrirtæki um framleiðslu og sölu á hátæknibúnaði til fiskvinnslu. Um 100 manns hjá Skaganum og systurfyrirtækinu Þorgeiri og Ellerti munu starfa við verkefnið, en einnig starfsmenn fleiri fyrirtækja á Akranesi."
Þá sagði Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans:
"Þessi uppsjávarlína er í raun einstök og það, sem við gerum bezt. Árið 2012 varð búnaðurinn útflutningsvara, er við gerðum okkar stærsta einstaka samning til þessa við Varðann á Þvereyri í Færeyjum. Sú verksmiðja var stækkuð síðastliðið sumar og afkastar nú 1000 t á sólarhring. Hún er þar með orðin stærsta uppsjávarvinnsla í heimi."
Þá, sem skoðað hafa sjávarútvegssýningar hérlendis, þarf ekki að undra á þessari velgengni Skagans. Skaginn er gott dæmi um fyrirtæki, sem kann að búa til samkeppnihæfa hátæknivöru á Íslandi og markaðssetja hana með góðum árangri innanlands sem utan. Starfsemi af þessu tagi er hornsteinn í hagkerfinu, sem breytir íslenzku hugviti og verkviti í verðmæta afurð, sem eykur framleiðni og verðmætasköpun hér innanlands og/eða aflar beinharðs gjaldeyris. Bókvitið verður í askana látið.
Það er ein af grunnauðlindum Íslands, lífríkið í fiskveiðilögsögunni, sem stendur undir þessari fjárfestingu. Vinstri menn átta sig ekki á því, að til að fyrirtæki geti fjárfest, verða þau að skila ágóða af rekstri sínum. Formaður Samfylkingarinnar, fyrrverandi ráðgjafi Íbúðalánasjóðs, býsnast á hagnaði fyrirtækja í veiðum og vinnslu. Hagnaður þeirra fyrir skatta nam á árinu 2012 kr 47 milljörðum. Heildarskuldir sjávarútvegs voru í árslok 2012 kr 429 milljarðar og eignir kr 535 milljarðar. Téður hagnaður nam þess vegna 9 % af eignum, sem ekki getur talizt hátt hlutfall.
Fyrirtækið Skinney-Þinganes á rétt á ákveðinni aflahlutdeild í lögsögu Íslands. Þennan rétt vildu vinstri flokkarnir helzt afnema, og Jóhönnustjórnin hækkaði skattheimtu af þessum rétti svo gríðarlega, að fjárfestingargeta stóru fyrirtækjanna í bolfiskveiðum var stórskert, og tilveru hinna minni var stórlega ógnað.
Nú telja vinstri menn, að ríkið geti boðið upp réttinn til makrílveiða. Þeim hinum sömu er hægt að benda á, að það voru ákveðnir útgerðarmenn, hérlendir, sem áttu frumkvæði að makrílveiðum hér við land og fjárfestu í þekkingu og tækjum til þessara veiða og vinnslu. Ríkisvaldið kom ekkert að því máli og á ekki óveiddan fisk í sjó. Þessi hugdetta vinstri manna er þess vegna ósanngjörn, og hún stenzt ekki lög landsins.
Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess, segir þetta um forsendur fjárfestingar, sem veitir yfir 100 manns á Akranesi vinnu í um hálft ár, eykur afkastagetu frystingar uppsjávarafla hjá Skinney-Þinganesi um 50 %, eykur framleiðni fyrirtækisins og bætir samkeppnihæfni þess á alþjóðlegum mörkuðum:
"Forsenda allra framkvæmda í sjávarútvegi er, að greinin fái að þróast eðlilega. Stjórnarflokkarnir hafa lofað því, að festa komist á og að óvissu ljúki um veiðigjöld. Við treystum því, að svo verði, og á þeim forsendum förum við út í þessar fjárfestingar."
Ljóst er, að með uppboði á makrílkvóta yrði grundvellinum kippt undan fjárfestingum á borð við þær, sem hér hefur verið lýst. Ofangreind orð Aðalsteins Ingólfssonar endurspegla þá staðreynd, að stefna og verk núverandi ríkisstjórnar er að þíða klakaböndin, sem hér gátu af sér staðnað hagkerfi og sífelldan ríkissjóðshalla þrátt fyrir sífellt argvítugri skattheimtu. Nú er stefnan sett á vaxandi framleiðslu á öllum sviðum, einkum á sviðum gjaldeyrissköpunar og gjaldeyrissparnaðar. Rauntekjur fjölskyldna, fyrirtækja og hins opinbera verða þá tryggðar með hagvexti, sem fitar skattstofnana. Ef engin áföll dynja yfir, kemst skútan á næsta ári á þokkalega siglingu.
Góður afgangur á ríkisbúskapinum er forsenda þess, að landið rétti úr skuldakútinum. Nú eru stjórnarflokkarnir á Alþingi að leggja grunninn að þessu með fjárhagslegu jafnvægi á fjárlögum 2014 í stað botnlausrar skuldasöfnunar óráðsíuflokkanna, sem nú þykjast geta gert betur en reyndin hefur verið á. Það er á engan hallað, þó að fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, og formanns fjárveitingarnefndar, Vigdísar Hauksdóttur, sé getið sérstaklega í þessu sambandi. Bæði hafa staðið í eldlínunni og staðið sig með sóma. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sýnt, að hann veldur viðamiklu embætti afar vel, og er sómi að framgöngu hans í hvívetna, hvort sem er innanlands eða utan.
Meira hefur kveðið að formanni fjárlaganefndar núna en mörg undanfarin ár. Sumpart stafar það af störfum hennar í hinni svo kölluðu hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, og sumpart af því, að hún talar tæpitungulaust um viðfangsefni líðandi stundar, um hraksmánarlega frammistöðu þingmeirihlutans 2009-2013, og hún hefur jafnframt skýra framtíðarsýn og kann að breyta orðum í efndir.
Vigdís Hauksdóttir á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, m.a. að gagnrýna fjárveitingar til svo kallaðrar þróunarhjálpar. Erlendar athuganir hafa sýnt, að engan veginn er sama, hvernig að slíkum fjárveitingum til þróunarlanda er staðið og stór hluti þeirra fer í súginn, ef viðvaningslega er að verki verið. Aðalatriðið er þess vegna ekki upphæðin sjálf, heldur hvernig hún nýtist. Þar sem annars staðar skipta gæðin meira máli en magnið.
Það er í sjálfu sér ekki vert að sjá ofsjónum yfir aðstoð við bágstadda, ef vissa er um, að fjárveitingarnar nýtist vel, en lendi ekki í þeirri spillingarhít, sem landlæg er, því miður, á bágstöddum svæðum. Það hafa birzt fréttir af hrikalegri sóun þróunarhjálpar, og betra er að lækka upphæðina og fylgja henni svo alla leið, en að hækka hana í átt að 0,7 % af VLF, eins og SÞ hafa ályktað um. Bezt er, ef lungann úr upphæðinni er unnt að nota til að kaupa vörur og þjónustu hér innanlands til að styrkja bágstadda með í stað þess að stunda hæpnar peningasendingar. Góð þekking á innviðum móttökusvæðisins er forsenda þess, að stuðningur nýtist til lengdar.
Vigdís hefur ekki dregið af sér, og beittur málflutningur hennar hefur framkallað hælbíta, sem sumir hafa verið svo rætnir að jafna verður til skítlegs eðlis. Má segja, að perlum sé kastað fyrir svín, þegar Vigdís flytur meitlaðar ræður sínar. Málfar hennar glitrar sem gull af eiri í samanburði við flatneskju, hortitti og bjagað málfar sumra þeirra, sem hafa horn í síðu hennar. Hér að neðan eru myndir af tveimur kvenskörungum á ólíkum sviðum, en legði pólfarinn fyrir sig pólitík, næði hún vafalaust þar á toppinn sem annars staðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2013 | 18:26
PISAPRÓF-2012
OECD, Efnahags- og framfarastofnunin í París, lætur þriðja hvert ár fara fram stöðumat á kunnáttu 15 ára unglinga um allan heim. Birtingu niðurstaðna fylgir urgur í löndum, sem hallar á. Prófað er í stærðfræði, lestri og náttúrufræði.
Kunnáttu íslenzku nemendanna hrakaði frá stöðumati 2009, ef borinn er saman árangur nemendanna árin 2009 og 2012. Verður að segja, að þessi þróun mála er ekki rós í hnappagat fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, núverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda verður ekki sagt um hana, að hún hafi staðið sig vel í starfi; var óttalega verklítil og virtist líta á það sem meginhlutverk sitt að viðhalda flatneskju og miðstýringu, sem óhjákvæmilega dregur úr fjölbreytni skólakerfisins og sveigjanleika, svo og að leggja stein í götu einkaframtaks á sviði skólamála. Með svo steinrunnin viðhorf í æðsta sessi menntamálanna var von á hlutfallslegri hnignun, eins og raun varð á, enda jókst brottfall nemenda úr námi á dögum téðrar Katrínar. Hún lét viðvörunarorð sem vind um eyru þjóta, enda virtist sem henni væri einhvers konar stéttavarðstaða hugleiknari en hagur nemenda. Er það gamla sagan með sameignarsinnana, að kerfið er þeim mikilvægara en enstaklingurinn.
Stór orð hafa verið látin falla um frammistöðu íslenzku nemendanna, en slíkur málflutningur er líklegast stormur í vatnsglasi og óréttmætur. Miðað við þá beztu, sem voru nemendur í kínversku risaborginni Shanghai, náðu íslenzku nemendurnir 80 % árangri að meðaltali. Það er ekki slæmt og hefur aldrei verið talið slæmt að fá 8,0 í einkunn, þó að einhver hafi fengið 10. Það þarf enginn að fara á límingunum út af þessu. Við viljum ekki það skipulag, sem útheimtir árangur ungviðisins í Shanghai. Við vinnum að líkindum forskot þeirra upp síðar á ævinni með frjóari huga og meiri dugnaði.
Það er óþarfi að kollsteypa íslenzka skólakerfinu eða að fara út í stórkarlalegar ásakanir á hendur íslenzku kennarastéttinni þrátt fyrir síðustu PISA-niðurstöður. Til að auka líkur á hlutfallslega bættri frammistöðu íslenzkra nemenda og þar með að bæta kunnáttu þeirra og færni til að takast á við viðfangsefni framtíðarinnar þarf aðeins að sníða nokkra agnúa af kerfinu til að beina því inn á árangursmiðaðri braut en vinstri vellingurinn hefur lagt upp með:
- Það þarf að gefa skólastjórunum og kennurunum lausari tauminn við að velja námsefni og kennsluaðferðir. Það má bjóða upp á samræmd próf í t.d. íslenzku, reikningi, eðlisfræði, náttúrufræði og erlendu tungumáli á grundvelli staðlaðrar námskráar, en skólunum ætti að vera frjálst að velja eitthvað eða ekkert af þessu fyrir hvern árgang. Það verður þó augljóslega að gæta samræmis yfir landið með lokapróf upp úr grunnskólum, nema framhaldsskólarnir taki upp inntökupróf.
- Rekstrarform skólanna verða að vera frjáls, og hverjum nemanda ætti að fylgja sama upphæð frá hinu opinbera. Foreldrar eru lykilatriði í velgengni barna sinna í lífinu, og ef þeir kjósa að velja einhvern skóla fyrir barn sitt eða börn, sem er dýrari en svo, að opinbera upphæðin hrökkvi til, þá á að leyfa þeim að leggja fram þá viðbót, sem skólinn setur upp. Stuðningur og þátttaka foreldranna í skólastarfinu er barninu ómetanlegur. Það á ekki að draga úr valfrelsi þeirra, sem geta og vilja njóta þess, þó að einhverjir annaðhvort ekki geti né vilji leggja fram viðbótar fé í menntun barna sinna. Slík þröngsýni og/eða öfund dregur úr framþróunarhraða þjóðfélagsins sem heildar, kemur öllum í koll og má þess vegna vel nefna jafnaðarstefnu andskotans.
- Það á að hafa kennsluna meira einstaklingsmiðaða en nú er. Þetta þýðir einfaldlega það, að veita ber skólum frelsi til að raða nemendum saman í deildir, eins og skólunum þykir árangursríkast. Hvers vegna á að skapa hjá nemendum skólaleiða, af því að þeir fá ekki viðfangsefni við sitt hæfi ? Það er enginn bættari með því.
- Verklega námið er vanrækt, og við svo búið má ekki standa. Nemendur eiga að fá tækifæri til að þróa alhliða hæfileika sína, og áhugasvið sumra er aðallega á sviði bóklegrar kunnáttu, en annarra á verklegum sviðum. Hvoru tveggja á að gera jafnhátt undir höfði, því að markmið grunnskólans á ekki að vera einhvers konar síun hafra frá sauðum, heldur að veita æskunni nútímaleg tækifæri til að þroska hæfileika sína og þróa kunnáttuna samkvæmt eigin áhugasviðum. Ef kerfið er niður njörvað, minnkar námsáhugi flestra, árangur skólanna verður lakari og fleiri tæpir nemendur falla úr námi.
- Brottfall úr skóla er helzti ljóður á ráði skólakerfisins nú um stundir og gefur til kynna, að það mæti ekki þörfum æskunnar, viðskiptavina sinna, með viðeigandi hætti. Upp úr grunnskóla þurfa þess vegna að liggja a.m.k. 2 samræmdar leiðir, sem í grundvallaratriðum má kalla bóklegu leiðina og verklegu leiðina. Fábreytnin eykur spennu á meðal kennara og nemenda, sem jafngildir sóun hæfileika. Skólakerfið verður að sníða að nemendunum til að forðast sóun, en Katrín Jakobsdóttir og hennar nótar eru grunaðir um öfuga hugmyndafræði í anda hugmyndarinnar um "homo sovieticus", þar sem laga átti einstaklinginn að kerfinu. "Nómenklatúran" er með allt á hreinu og sýnir enga miskunn. Þess vegna setti Katrín jafnan kíkinn fyrir blinda augað, þegar kom að því að leysa vandamál á borð við brottfallið.
Almenningur um heim allan upplifir nú örar breytingar, sem knúnar eru áfram af tækniframförum á sviði tölvukerfa, bæði hugbúnaðar og vélbúnaðar. Þetta er að vísu mjög tvíeggjað vopn, þegar kemur að börnunum, og tölvubúnaður er því miður á Vesturlöndum notaður þannig í uppeldinu, að fallið er til að spilla fyrir alhliða þroska barnanna, gera þau veruleikafirrt, hugmyndasnauð og jafnvel taugaveikluð. Ábyrgðarhluti foreldranna er stór í þessum efnum, og vandrataður er hinn gullni meðalvegur.
Að mörgu leyti leiða Asíuþjóðir skynsamlega hagnýtingu hinnar nýju tækni við uppeldið, sem endurspeglast í staðgóðum þekkingargrunni 15 ára nemenda þessara landa. Þar leiðir hin nýja tækni ekki til forheimskunar æskulýðsins, að því er virðist.
Kína er þarna leiðandi, en því fer þó fjarri, að við ættum að leita fyrirmynda þar í landi, enda hefur gæðastig framleiðslu Kínverja alls ekki enn náð gæðastigi á Vesturlöndum, yfirleitt. Einnig er athyglivert að sjá, hversu vel Singapúr gengur og yfir langt tímabil. Singapúr er borgríki, þar sem auðvaldsskipulag ríkir, og þar er samkeppni á milli skóla um hylli nemenda og foreldra, sem greiða þurfa til skólanna, sem þeir velja.
Finnar hafa um hríð þótt vera til fyrirmyndar í menntamálum, mennta kennara sína vel, og þeir munu vera á tiltölulega góðum launum. Þá þykir kennarastéttin njóta óskoraðrar virðingar í Finnlandi, líkt og hér var á árum áður og vert er. Finnar hafa komið vel út úr PISA-prófum í um tvo áratugi. Nú bregður hins vegar svo við, að þeir gefa eftir fyrir Asíubúum og árangur Finna versnar að tiltölu. Þetta er í samræmi við þá þróun, að Asía skákar Vesturlöndum, þ.e. Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, aftur fyrir sig á mörgum sviðum. Sennilega eru skipuleg vinnubrögð og agi bæði kennara og nemenda stór þáttur í sókn Asíubúa.
Við Íslendingar þurfum ekki að una okkar hlut illa með 80 % árangur á við hina beztu og eigum einfaldlega að halda þá leið í menntamálunum, sem við teljum henta okkur bezt. Það er óskynsamlegt að reyna að apa menntunarfyrirkomulag og hegðun upp eftir öðrum, sem sniðið er við aðrar menningarlegar aðstæður, þó að hollt sé að hafa kerfi til hliðsjónar, sem skilað hafa góðum árangri. Aðalatriðið er, að skólarnir líti á nemendur sem viðskiptavini, sem komnir eru í skólana til að þroska hæfileika sína á einstaklingsgrunni til að verða sem nýtastir þegnar í þjóðfélaginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2013 | 14:30
Skipulagsmál í skötulíki
Á s.k. höfuðborgarsvæði eru ekki færri en 6 sveitarfélög og voru 7 til skamms tíma, er Garðabær og Álftanes sameinuðust með fremur knöppum meirihluta. Garðbæingum hraus mörgum hugur við bágbornu hlutfalli skulda og árstekna Álftaness, en sveitarstjórnin þar hafði umgengizt sveitarsjóðinn af léttúð og fullkomnu fyrirhyggjuleysi.
Er nú svo komið, að hlutfall skulda og árstekna Garðabæjar er u.þ.b. 1,0 og verður ekki unað við það hærra. Það má ekki slaka á klónni í meðferð skattfjár bæjarbúa og vinstra sleifarlag og sofandaháttur verður ekki liðið. Bærinn er vel skipulagður og rétt staðið að skipulagningunni og framkvæmd þess, þ.m.t. nýja Álftanessveginum, sem styr hefur staðið um, en hann er stormur í vatnsglasi, enda á þeirri sérvizku reistur, að ekki megi eyða hraunmyndunum, sem frægur listmálari notaði sem fyrirmyndir. Álfar hafa einnig verið leiddir fram og vitnað um hryggð sína yfir gjörðum mannanna. Er þá skörin tekin að færast upp í bekkinn og ljóst, að afturhaldið, sem notar hvert tækifæri, sem býðst, til að rísa upp á afurfæturna í nafni náttúrunnar til að slá stjórnmálalegar keilur, er örvæntingarfullt.
Í höfuðborginni sjálfri ríkir ringulreið í skipulagsmálum. Þar, sem annars staðar, ætti markmið skipuleggjenda að vera að flýta sem mest fyrir för vegfarenda. Slíkt sparar vefarendum tíma og fé, er þjóðhagslega hagkvæmt og dregur úr mengun. Hin dæmalausu yfirvöld Reykjavíkurborgar, Besti flokkurinn og Samfylkingin, þar sem saman fara hreinræktaður fíflagangur við stjórn borgarinnar ásamt þröngsyni, hafa þveröfuga stefnu. Þau leggja stein í götu bílsins með þrengingum, hraðahindrunum og sérakreinum fyrir strætisvagna. Strætisvagnana þarf að hugsa upp á nýtt. Nýting þeirra er mjög léleg, þ.e.a.s. allt of stórir vagnar aka utan annatímans.
Það má alls ekki þrengja að stofnleiðum borgarinnar, og það á þegar í stað að rifta fáránlegu samkomulagi borgar og ríkis um 10 ára framkvæmdastopp við stofnleiðir borgarinnar. Það á að leita lausna til að draga úr umferðarteppum með mislægum gatnamótum og hefjast þegar handa á mótum Kringlumýrar og Miklubrautar. Sundabrautin er orðin knýjandi til að létta á Ártúnsbrekkunni og Reykjanesbrautin gegnum Hafnarfjörð er til skammar. Núverandi valdhafar í Reykjavík hafa ekki nokkurn skilning á mikilvægi greiðra samgangna. Hugarheimur þeirra um borgarlífið er eins sviðsmynd í 100 ára gömlu leikriti.
Flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið gegna lykilhlutverki í samgöngukerfi landsins. Það leikur ekki á tveimur tungum, að flugtæknilega og samgöngulega er Vatnsmýrin í Reykjavík bezt fallin til að hýsa flugvöll höfuðborgarsvæðisins. Þetta er niðurstaða nokkurra faglegra rannsókna, sem draumóramenn eiga erfitt með að viðurkenna. Jafnframt er ljóst, að flutningur starfseminnar á Reykjavíkurflugvelli, t.d. flugstjórnarstarfseminnar, og flugvallarins sjálfs, mundi taka meira fé frá annarri innviðauppbyggingu en við yrði unað.
Flutningur starfseminnar til Keflavíkurflugvallar yrði dýr, og starfsemin á Reykjavíkurflugvelli samrýmist illa millilanda- og herfluginu, sem fram fer á Keflavíkurflugvelli. Ómetanlegt öryggi er að Reykjavíkurflugvelli fyrir sjúklinga og slasaða utan af landi eða af sjó. Í náttúruhamförum er ómetanlegt að hafa möguleika á aðkomu stórra þotna til rýmingar eða aðdrátta. Ekki þarf að minna á tekjustreymið um flugvöllinn og getu hans til að létta á bílaumferð út frá höfuðborgarsvæðinu, sem minnkar álag á vegina og dregur úr slysatíðni.
Af þessum sökum nær nýgert samkomulag innanríkisráðherra við borgarstjóra (samkomulag ríkis og borgar) allt of skammt til að vera boðlegt í skipulagslegu tilliti. Músarholusjónarmið um verðmætar húsbyggingarlóðir og þéttingu byggðar eru léttvæg í landi mesta mögulega byggingarlands á íbúa, sem um getur. Ríkið á flugvallarlandið, en skipulagsvaldið er í höndum borgarinnar. Er einhver glóra í því ? Nei, reynslan sýnir, að svo er ekki. Framtíðarsýn núverandi skipulagsyfirvalda í Reykjavík er músarholusýn, og slíkt gengur ekki. SV-NA-brautin verður að fá að vera áfram á Reykjavíkurflugvelli af öryggisástæðum, af því að engin trygging hefur fengizt frá yfirvöldum Keflavíkurflugvallar um, að sambærileg braut þar verði tekin í brúkið.
Umsátri músarholuvina um Reykjavíkurflugvöll verður að linna strax. Í þessari stöðu verður Alþingi að taka af skarið og setja sérstök skipulagslög um landareign ríkisins í Vatnsmýrinni, sem tryggi réttindi starfseminnar þar í 100 ár og kveði á um, hvernig skipulagi þar skuli vera háttað. Þar með gætu fyrirtæki og opinberir aðilar við Reykjavíkurflugvöll ótrauð hafið löngu tímabæra uppbyggingu þar og Reykjavíkurborg skipulagt háskólasvæði og byggð í grenndinni án óvissu um flugvöllinn.
Annað mál er, að skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins er ekki fyrir komið með bezta hætti. Ef vel á að vera, þarf að skipuleggja höfuðborgarsvæðið sem eina heild, enda eru hagsmunir sveitarfélaganna þar, fyrirtækja, stofnana og íbúa, samtvinnaðir. Það er ólíklegt, að hagkvæmasta lausn finnist á skipulagsmálunum, ef margir aðilar eru að bauka hver í sínu horni.
Samkomulag fulltrúa ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um Reykjavíkurflugvöll, sem þeir undirrituðu í Hörpu 25. október 2013, kveður á um, að dauðaleit skuli hefja að nýju flugvallarstæði í Reykjavík, því að nú skal "fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri". Þetta er dæmigerð sóun stjórnmálamanna, sem ýta á undan sér nauðsynlegri stefnumörkun, enda er þetta 4. leit sinnar tegundar. Þessum vandræðagangi, sem R-listinn magnaði hér upp forðum tíð, verður að linna.
Fyrsta leitin fór fram á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkur á árunum 1938-1940. Í bréfi nefndarinnar, sem starfaði að þessu og skoðaði 7 valkosti, til bæjarstjórnar, dags. 5. marz 1940, er mælt með flugvelli í Vatnsmýri, og samþykkti bæjarráð þá tillögu fyrir sitt leyti á fundi 8. marz 1940 og tilkynnti þá ákvörðun daginn eftir með bréfi til nefndarinnar. Brezka hernámsliðið valdi Vatnsmýrina fyrir sinn aðalflugvöll á Íslandi, og var völlurinn formlega opnaður fyrir flugumferð 4. júní 1941.
Því fer fjarri, að Vatnsmýrarvöllur sé einsdæmi um flugvöll í borgarlandi. Í Evrópu, sem þó glímir við landleysi, hafa yfirvöld ekki stuggað við gömlum flugvöllum. Nægir að nefna Berlín og Lundúni í þessu sambandi. Það væri skipulagsleg hneisa og mikil mistök með langvarandi áhrif á lífsgæði í þessu landi, ef grafið yrði undan starfseminni á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2013 | 18:53
Af hlerunum og fleiri óyndisúrræðum
Engir atburðir hafa haft verri áhrif á samskipti forystumanna Vesturveldanna og reyndar um heimsbyggð alla um áratuga skeið en uppljóstranir Bandaríkjamannsins Edwards Snowdens. Edward vann hjá verktaka á mála hjá NSA, National Security Agency, sem mun hafa verið stofnað til eftir 9/11 2001, en þá losnaði djöfullinn úr grindum.
Uppljóstranir ES bera vott um væskilsleg viðhorf í Washington DC, þar sem svikizt er aftan að nánustu bandamönnum, hvað þá öðrum, með vægðarlausum hlerunum frá kanzlara og niður úr. Þeir, sem njósnað er um, eru auðvitað ekki allir hvítþvegnir englar, og stunda vafalítið margir hverjir svipaða iðju sjálfir, þó að líklega ekki í svo miklu umfangi sem bandarísk stjórnvöld.
Hvar er keppnisandinn og íþróttamennskan að gera sig sekan um slíka lágkúru ? Siðleysið og tvískinnungurinn í Guðs eigin landi ríður ekki við einteyming. Sízt skal þó halda því fram hér, að aðrir séu með englavængi. Sé svo, eru þeir a.m.k. anzi sviðnir orðnir. Í Lundúnum hafa menn t.d. löngum ærið kræfir verið á sviði njósna og afkóðunar dulmáls, eins og frægt er frá viðureigninni við Þriðja ríkið, en radarinn, leyniþjónustan og ráðning á dulkóða Wehrmacht áttu drjúgan þátt í að snúa taflinu við í hildarleik Síðari heimsstyrjaldarinnar.
Edward Snowden virðist nú vera orðinn óvinur Bandaríkjanna nr 1 og var fyrir vikið um tíma eins og hundeltur héri, og forkólfur Pírata hérlendis lét um tíma sem hún ynni að því að útvega honum landvistarleyfi á Íslandi. Hvers konar stjórnmálaástand hefði þá myndazt á milli BNA og Íslands ? Frá því að Bandaríkjaher hvarf af Miðnesheiði, hefur vinskapurinn ekki verið upp á marga fiska, og engu var líkara en Íslendingar væru í ónáð hjá Seðlabanka Bandaríkjanna árið 2008, þegar hæst átti að hóa og landið var skilið eftir á flæðiskeri statt á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir, sem um það báðu, fengu opna lánalínu frá "Federal Reserve" og til seðlabanka sinna.
Framkoma Engilsaxa í Whitehall, í Englandsbanka, í Hvíta húsinu og Seðlabanka BNA gagnvart íslenzku ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands í október 2008 var fyrir neðan allar hellur og hefur enn ekki verið skýrð að neinu marki fyrir íslenzku þjóðinni.
Það verður ennfremur að fást útskýring á því, hvers vegna brezka Verkamannaflokksstjórnin gerði sér far um að gera Íslendingum allt til miska, sem hún gat, og magna þann vanda, sem að fjármálakerfi Íslands steðjaði. Brezka ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína með virkjun hryðjuverkalaga til að koma Íslandi á kné, á sama tíma og hún bjargaði öllum öðrum bönkum á brezkri grundu. Þetta er almenningi enn ráðgáta. Bretar verða að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum til að um heilt geti gróið á milli þjóðanna. Hafði brezka leyniþjónustan upplýsingar, sem mönnum eru ekki haldbærar á Íslandi enn þann dag í dag ? Það er ekki allt sem sýnist og ekki unnt að útiloka neitt í þessum efnum.
Bandaríkjastjórn reyndi mikið til að hafa hendur í hári téðs Snowdens, en án árangurs, og leikur kattarins að músinni endaði með því, að sjálfur Vladimir Putin skaut yfir Snowden tímabundnu skjólshúsi. Niðurlæging hins hnignandi vesturheimska stórveldis varð enn sárari fyrir vikið.
Það þarf enga mannvitsbrekku til að geta sér til um fyrirætlun Rússa. Hún er að reka fleyg í samstöðu Vesturveldanna. Þjóðverjar eru mjög sárir vegna þess vantrausts og jafnvel tortryggni, sem njósnir NSA og MI5 sýna, að ríkir í garð endursameinaðs Þýzkalands á meðal Engilsaxa, þrátt fyrir fagurgala þeirra. Þeir íhuga þess vegna að skjóta yfir Snowden skjólshúsi, þegar tími hans hjá Rússum verður á enda runninn. Það yrði óneitanlega sterkur leikur í þeirri refskák, sem uppljóstranir Snowdens hafa fram kallað, en yrði fleinn í holdi vestrænnar samvinnu, sem leitt gæti til upplausnar NATO. Slíkur gjörningur þjónar varla langtíma hagsmunum Þýzkalands.
Nú er komið í ljós, hverju þessi ákafi við að handsama þrjótinn Snowden sætti. Það er svo mikið í húfi, að nauðsynlegt er að koma þeim boðskapi greinilega til skila, að þeir, sem íhuga að leka viðkvæmum upplýsingum út um hegðun bandarískra stjórnvalda, skuli hundeltir, ofsóttir og handteknir og Guð má vita hvað, hvar sem til þeirra næst. Þetta er ófélegt viðhorf forystumanna forysturíkis lýðræðisríkjanna í heiminum, ef satt er.
Um mánaðamótin nóvember-desember 2013 kynntust Íslendingar því á eigin skinni, hvað það getur þýtt, að persónulegar upplýsingar um fólk verði fyrir hunda og manna fótum. Ábyrgðarlaus varzla persónulegra gagna er hneyksli, en hvað má þá segja um tilraun til að breiða yfir ósómann, sem virtist vera á ferðinni í upphafi ? Allt verður þetta mál mun ömurlegra, þegar fréttir berast af því 3. desember 2013, að tvisvar - þrisvar sinnum á tveggja ára tímabili hafi með nokkrum árangri verið ráðizt til atlögu við tölvukerfi viðkomandi símafyrirtækis án þess að gripið væri til teljandi varna í kjölfarið. Slíkt andvaraleysi er vítavert og verður að draga hæfni stjórnenda, sem slíkt láta henda sig, til að bera ábyrgð á tæknilegri starfsemi og umsýslu viðkvæmra gagna fyrir fjölda fólks, í efa. Enn og aftur opinbera opinberir eftirlitsaðilar algert haldleysi sitt. Vissi Póst-og fjarskiptastofnun ekkert um fyrri árásirnar ? Póst- og fjar virðist ekki hafa rennt grun í slælega frammistöðu undir sínum verndarvæng. Svarið á ekki að vera að ausa fé í eftirlitið. Þvert á móti. Það á að draga úr fjárveitingum þangað, en auka kröfur um innra eftirlit og herða viðurlög við brotum leyfishafa. Lagarammi starfsemi símafyrirtækjanna ber vott um veiklyndi. Fyrir vanrækslu af þessu tagi eiga að liggja viðurlög um háar fébætur til viðskiptavina og heimild til sviptingar rekstrarleyfis, ef allt keyrir um þverbak. Markaðurinn mun reyndar vafalaust refsa viðkomandi grimmilega fyrir amlóðaháttinn.
Bandaríkjamenn hafa bakað grundvelli vestræns lýðræðis, frelsi einstaklingsins til athafna án þess yfirvöldin horfi beinlínis yfir öxlina á honum, ómælanlegt tjón. Stóri bróðir Orson Wells frá 1984 er á meðal vor í öllum sínum ömurleika. Hvílík niðurlæging og siðleysi.
Leyniþjónustur hafa stundað þennan óskunda að hlera símtöl frá því, að nýting á gagnmerkri uppfinningu Bells hófst. Margir fleiri hafa gerzt sekir um hleranir og einnig sá, er hér knýr lyklaborð. Það var fyrir hálfri öld, þegar stráksi af einhverjum ástæðum var inni í bæ og ekki sást til. Þá var lyft upp tóli og hlustað á samtöl, einkum ef hringt var á vissa bæi þar í Vatnsdalnum, og förum ekki nánar út í það, að hætti Kristjáns Ólafssonar.
Hérlendis þarf að sýna dómara fram á, að ríkir hagsmunir séu í húfi við rannsókn sakamáls og að líklegt sé, að hlerun símtala einstaklinga geti auðveldað rannsókn og/eða sönnunarfærslu. Ef rök eru tilfærð um, að ríkir almannahagsmunir séu í húfi, er líklegt, að dómari hlusti á það og taki tillit til í dómsúrskurði.
Það gefur auga leið, að hlerun hins opinbera á símtölum og samtölum innan veggja heimila með upptökutækjum, er alvarleg árás á friðhelgi einkalífs. Persónuvernd er á yfirborðinu með strangar kröfur um lögmæti símtalaupptöku og myndatöku hvers konar, en þegar til kastanna kemur, er einkalíf almennings berskjaldað og nánast ekkert einkalíf, ef einhverjum þursum dettur í hug, að það kunni að vera áhugavert fyrir hið opinbera að komast að, hvers kyns er. Þursar misnota hér tæknina skefjalaust, og hérlendis hafa ýmsir á tilfinningunni, að dómarar séu nokkuð lausbeizlaðir, þegar saksóknarar standa andspænis þeim með beiðni um rof á friðhelgi einkalífs. Hér eru menn komnir út á hættulega braut, og ekki sér fyrir endann á þessari öfugþróun.
Þjóðverjar eru mörgum öðrum viðkvæmari í þessum efnum, þó að þeir láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Það stafar af fortíð þýzku þjóðarinnar á 20. öldinni, sem var rysjótt og stormasöm undir heimsveldissinnuðum keisara, foringja og þýlyndra alræðissinnaðra stjórnmálaflokka, enda lénsskipulagið þá að líða undir lok, og hinar vinnandi stéttir borgara og verkamanna að taka við valdataumunum. Miðstéttin var að brjótast til valda og ýta aðlinum til hliðar. Það kostaði blóð, svita og tár.
GESTAPO (Leyniþjónusta ríkislögreglunnar) hélt uppi öflugri upplýsingaöflun og persónunjósnum í Þriðja ríkinu og hernumdum löndum Wehrmacht undir stjórn Heinrichs Himmlers, Ríkislögreglustjóra og æðsta stjórnanda SS-varnarsveitanna (Schutzstaffel). Með þessum hrikalegu valdatækjum Þriðja ríkisins var megnið af Evrópu tekin hreðjataki á stríðsárunum og þjóðernishreinsanir framkvæmdar. Það eimir enn eftir af hugarfari þjóðernishreinsana í Evrópu, sbr Balkanstríðið, hræðilega, í lok 20. aldarinnar, og meðferðina á Sígaunum (Rómafólki) víða um Evrópu í upphafi 21. aldarinnar.
STASI (Öryggislögregla ríkisina) í leppríki Ráðstjórnarríkjanna á hernámssvæði Rússa í Þýzkalandi var með nefið ofan í hvers manns koppi í DDR og hélt uppi miklu snuðri vestan megin einnig. Almenningur fór ekki varhluta af þessu og var ákaflega var um sig og varkár í orðavali. Að búa í einræðisríki er þrúgandi, af því að engum er að treysta, og Stóri bróðir gat leynzt alls staðar, og það hefur verið gríðarlegur léttir fyrir þýzku þjóðarsálina að losna við þessa andlegu kúgun. Allt var það framferði valdhafanna fyrirlitlegt.
Þess vegna hefur það verið reiðarslag fyrir Þjóðverja nútímans að frétta af hlerunum Bandaríkjastjórnar á einkasíma kanzlara Þýzkalands, hvað þá öðrum, öflugasta og einum nánasta bandamanni sínum. Hvað mega kaþólikkar heimsins segja núna, þegar komið hefur í ljós, að páfinn í Róm er einnig fórnarlamb þessara dæmalausu hlerana ? Hvað á þetta eiginlega að þýða ? Er þetta fíflagangur óvita, sem kunna ekki með öfluga tækni að fara, svo að siðlegt sé ?
Allt spratt þetta upp eftir hryðjuverk ofstækisfullra hatursmanna vestræns frelsis og lýðræðis, en viðbrögðin, hnýsnin, sem nú hefur verið flett ofan af, grefur undan grunngildum hins vestræna heims. Það eru grunngildin, sem hryðjuverkamenn vilja feig. Sjálfir eru þeir andlega á steinaldarstigi. Það mun reynast skammgóður vermir að hafa yfirburði í tækni, vísindum og hergögnum, ef sálarlífið er morkið og andinn vesæll.
Umfang hlerana Bandaríkjamanna er með ólíkindum og opinberar siðlausa embættismenn í Guðs eigin landi. Þetta framferði vitnar um rotnun og heigulshátt í forysturíki hins vestræna heims. Málið er þess vegna grafalvarlegt, vegna þess að engrar iðrunar og yfirbótar sér merki, eins og Þjóðverjar þó höfðu manndóm til að sýna, eftir að þeir stofnuðu sitt Sambandslýðveldi árið 1949, Bundesrepublik Deutschland. Forystumenn Þjóðverja með Dr Konrad Adenauer, kanzlara og fyrrverandi borgarstjóra í Köln, tóku af skarið og lýstu óbeit og andúð á gjörðum fyrirrennara sinna, og þjóðin tók undir með þeim. Engrar iðrunar verður á hinn bóginn vart í Hvíta húsinu. Slíkt er ills viti. Forseti BNA varð sér og þjóð sinni til minnkunar, þegar hann sagðist vera hættur í bili að hlera síma Angelu Merkel, en ekki sýndi hann iðrun, þó að hann léti sem hann mundi ekki taka upp sömu háttsemi á ný. Það er vel skiljanlegt, að Þjóðverjar kunni ekki að meta þessa framkomu.
Heimurinn allur er nú í hlutverki indíánanna, frumbyggja Norður-Ameríku, sem áttu sér stórmerkilega menningu, en kúrekarnir léku hörmulega og kúguðu illilega. Í þetta sinn er þó líklegast, að hin svívirðilega árás á einkalíf bandamanna Bandaríkjamanna verði að bjúgverpli, sem hitti þá sjálfa illa fyrir. Hver þarfnast óvina, sem á slíka vini ? Siðbótar er þörf. Hvar er Marteinn Lúther nútímans ? Er hann á róandi lyfjum og mun þess vegna aldrei hafa sig neitt í frammi ? Gerilsneyðing, andleysi og flatneskja rétttrúnaðarins tröllríður húsum.
Nú á vel við Heimsósómakvæði Skáld-Sveins frá 1614 með þessu erindi:
"Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,
völdin efla flokkadrátt í landi,
harkamálin hyljast mold og sandi,
hamingjan bannar, að þetta óhóf standi."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2013 | 13:44
Hraðlest ?
Þær tíðkast nú mjög stórhuga viðskiptahugmyndirnar, oft úr annarlegum áttum, sem þó eru því marki brenndar að standast engar arðsemikröfur og jafnvel að geta orðið skattborgurum þessa lands stórfelldur fjötur um fót.
Þann 29.11.2013 heyrði pistilhöfundur á leið sinni úr vinnu viðtal á Bylgjunni við Runólf nokkurn Ágústsson, fyrrverandi rektor á Bifröst með meiru og umboðsmann skuldara í einn dag, skipaðan og rekinn af Árna Páli, grafara Samfylkingarinnar, ef rétt er munað.
Téður Runólfur kynnti þarna til sögunnar verkefni, sem hann kvað nú vera í hagkvæmniathugun, um að leggja lestarteina frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að og undir nýja Samgöngumiðstöð í Reykjavík, og mundu niðurstöður verða birtar í janúar 2014. Af þeim upplýsingum, sem flaumósa voru gefnar í þessu viðtali, má fullyrða, að hollast sé að kistuleggja þessa viðskiptahugmynd strax.
Kostnaðinn kvað hann vera áætlaðan ISK 100 milljarða og árlegan farþegafjölda ætlaðan 3,5-4,0 milljónir. Þessi stofnkostnaður er þrefaldur á við léttlestarhugmynd R-listans sáluga, sem hér gengur aftur að breyttu breytanda, en þar var þó búizt við minna en helmingi þessa farþegafjölda, ef rétt er farið með.
Það er ekki úr vegi að reikna dálítið til að mynda sér skoðun á því, hvort téður Runólfur hefur hér dottið ofan á tímabæra viðskiptahugmynd, eða hvort um er að ræða rétt eina skýjaborgina, sem tengist orkumálum landsins, en augljós gjaldeyrissparnaður yrði hér af að knýja samgöngutæki með rafmagni, svo að ýmislegt mundi mæla með þessu, ef fjárfestingin gæti staðið undir sér.
Sé nú reiknað með 8 % ávöxtun fjár til þessa verkefnis, sem er lágt, 25 ára endurgreiðslutíma verkefnisins, sem er langt tímabil, 5,0 % af stofnkostnaði í rekstur og viðhald, sem er óvissu háð á Íslandi, og 4 milljónum farþega á ári að jafnaði yfir tímabilið, þá fæst kostnaðarverð miðans aðra leið kr 3600.
Þetta miðaverð í hraðlest gæti keppt við einkabíl með bílastæðagjaldi og rútu, sem er margfalt lengur á leiðinni, en þetta er hins vegar alger lágmarkskostnaður ferðar með hraðlest. Það verður að telja óraunhæft, að nánast allir á leið úr og í flug, svo og "pendlarar" í og úr vinnu, mundu nýta hraðlestina að jafnaði. Eftir því, sem verðið hækkar, fækkar farþegunum. Seldir miðar hvora leið geta þannig hæglega endað í 1,6 milljón talsins á ári, og þá er kostnaður ferðarinnar ekki undir 9000 kr.
Miðakostnaður í hraðlest um 10 000 kr er frágangssök, og þess vegna verður að telja þetta verkefni vera óarðbært, þó að með ýtrustu bjartsýni gæti það staðið undir sér. Það er þó meira en hægt er að segja um sæstrenginn til Skotlands, svo að Cato, gamli, sé tekinn til fyrirmyndar á Forum Romanum.
Engir einkafjárfestar munu fást til að fjármagna þetta áhættusama verkefni án opinberrar fjárhagslegrar skuldbindingar, og þess vegna má búast við, að upp hefjist söngur þrýstihóps hugsjónamanna grænnar orku um þátttöku opinberra aðila í nýtingu innlendrar orku til samgangna, þó að slíkt gæti reynzt forarpyttur hinn versti fyrir skattborgarana, og hvorki ríki né sveitarfélög ættu að ljá máls á svo áhættusömu verkefni.
Það virðist enginn hörgull vera hér á ævintýramönnum, sem vilja gera út á hið opinbera. Bezti mælikvarðinn á gæði verkefnis er, hvort "fagfjárfestir", sem í þessu tilviki yrði að vera erlendur, því að lítil þekking og reynsla er hérlendis af hönnun, smíði og rekstri teinabundinna samgöngumannvirkja, vill taka að sér fjármögnun þessa verkefnis upp á eigin spýtur.
Í þessu sambandi vaknar sú spurning, hvers vegna sé í þessum áformum miðað við hraðlest, sem gengið getur á 300 km/klst hraða ? Hraðlestir Evrópu tengja fjölmenn athafnasvæði, þar sem vegalengdin er vart undir 300 km og keppa þannig við flugið. Þá er áreiðanlega gríðarlegur hávaði frá hraðlest, nema um einsporung verði að ræða, og e.t.v. er skynsamlegast að doka við með járnbrautarlestir á Íslandi, þar til sú tækni hefur verið þróuð betur. Hætt er þó við, að fámennið hérlendis verði arðsemi járnbrautarlesta lengi fjötur um fót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)