Úkraína og önnur lönd Evrópu

Flest Evrópuríkin hafa vanrækt varnir sínar síðan Járntjaldið féll og kommúnistastjórnir Austur-Evrópu þar með.  Þau hafa teyst á varnarmátt Bandaríkjanna og skjöldinn, sem NATO-aðildin veitir þeim.  Tvennt hefur valdið algjöru endurmati þeirra á öryggi sínu.  Gáleysisleg og algerlega ábyrgðarlaus ummæli handbendis rússneskra ólígarka, Donalds Tumps. (Þeir hafa forðað honum frá gjaldþroti einu sinni.  Hann á hvergi heima, nema á bak við rimlana.  Hvenær verður hann dæmdur fyrir landráð ?) DT lét hafa eftir sér þau ótrúlegu ummæli, sem gert hefðu út af við framavonir allra, nema hans, að yrði hann forseti BNA aftur, og Rússar réðust á NATO ríki, sem ekki hafa náð markmiði NATO um árleg útgjöld til hermála, mundi Bandaríkjaher ekki verja þau, heldur hvetja Rússa til að hertaka þau.  Þessi maður er greinilega ekki með öllum mjalla.

Hitt atriðið, sem vakið hefur Evrópu upp af Þyrnirósarsvefni hins eilífa friðar, var innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2024, sem augljóslega er tilraun gerspilltra Kremlverja til að hneppa Úkraínu í nýlenduánauð og er aðeins fyrsta skref þeirra til að hneppa öll Varsjárbandalagsríkin í nýlenduánauð.  Þessi ríki fara ekki í grafgötur um þetta óþverrabragð Kremlarfantsins og hervæðast nú sem mest þau mega.

  Eftir mikið japl og jaml og fuður eru Þjóðverjar nú loksins að taka forystu um varnir Evrópu eftir að vera lausir úr viðjum Rússa um orkuafhendingu.  Forysta Þýzkalands viðist hafa sannfærzt um hættuna, sem landinu og hagsmunum þess stafar af útþenslustefnu einræðisríkis í austri og hefur sett hertólaverksmiðjur Þýzkalands á full afköst og verið er að auka framleiðslugetuna, m.a. með verksmiðju Rheinmetall í Úkraínu. 

Á meðan mannfall Rússa í Úkraínu fer yfir 400 k, hefur óvinur þeirra, sem þeir reyna að hræða frá stuðningi við Úkraínu - Evrópa - aftur á móti brýnt sverð sitt.  Öll 31 NATO-ríkin og Svíþjóð hafa hafið æfinguna "Staðfastur varnarher" til að framkalla það, sem varnarmálaráðherra Breta, Grant Shapps, kallar "reassurance against the Putin menace". 

U.þ.b. 90 k hermenn frá öllum NATO-löndunum (Landhelggisgæzlan frá Íslandi ?) taka þátt í þessari miklu heræfingu.  Upphaflega verður einblínt á eflingu yfirráða NATO á öllu Atlantshafinu og í Norður-Íshafinu.  Í síðari þættinum verður æft að senda herlið um alla Evrópu til varnar, frá Íshafinu og að austurvæng NATO. Þetta er umfangsmesta heræfing NATO í 35 ár.  Þannig væri tíminn ranglega valinn nú hjá rússneskum varðmanni á finnsku landamæunum að hleypa "óvart" af skoti. 

Þriðjungur rússneskra hermanna á vígstöðvunum fellur, og er það sama hlutfall og í Rauða hernum í Heimsstyrjöldinni síðari.  Aðaldauðaorsökin er blóðmissir vegna útlimasárs.  Aðalupphafsmeðferð  særðra rússneskra hermanna á sjúkrahúsi er aflimun.  Að komast á sjúkahús er martröð.  Flestir særðra rússneskra hermanna eru fluttir á bílum að vígvallarsjúkrahúsum við landamæri Rússlands, og tekur ferðin að jafnaði einn sólarhring.  Eftir fyrstu aðgerð þar bíða þessir særðu hermenn eftir flugferð langt inn í Rússland, sem yfirleitt tefst.

Hreinlæti og sótthreinsun er ekki viðhaft í rússneska hernum, og heldur ekki í herteknum þorpum og borgum, t.d. Mariupol.  Faraldrar geta þess vegna hafizt þarna senn. 

Rússland hefur misst 6442 skriðdreka frá 24.02.2022 til 31.01.2024. Þetta eru fleiri skriðdrekar en tóku þátt í byrjun innrásarinnar.  Rússar nota nú 50 ára gamla skriðdreka, uppfærða frá 7. áratugi 20. aldarinnar.  Þá hafa rússar á tímabilinu misst 12090 brynvarin bardagatæki, 12691 ökutæki og eldsneytisflutningabíla, 9620 fallbyssur, 671 loftvarnarkerfi, 984 fjölflugskeytapalla, 332 flugvélar, 325 þyrlur, 7404 dróna and 25 herskip og -báta. 

Hermenn, sem fylla skörðin, eru illa þjálfaðir.

Til samanburðar misstu Ráðstjórnarríkin 15 k menn í innrásinni í Afganistan, og íbúar þeirra voru næstum tvöfalt fleiri en Rússlands nú.  

Á sjó er staða Rússa enn verri en á landi og í lofti.  Þriðjungur Svartahafsflota þeirra hefur verið eyðilagður með úkraínskum sjávardrónum, og afgangurinn hefur flúið Krímskagann og halda sig til hlés í rússneskum höfnum, og rússnesk eldflaugaskip hafa flúið út úr Svartahafi.  Svartahafið er nú á valdi Úkraínu, og kornútflutningur landsins fer nú óáreittur af hryðjuverkaríkinu um Svartahafið. 

Mistakasmiðurinn Pútín er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður og hertól.  Honum hefu tekizt að mynda almenna samstöðu gegn sér í heiminum og einkum í Evrópu, þar sem menn sjá söguna endurtaka sig að breyttu breytanda.  Þótt Frakkar hafi látið tiltölulega lítinn hernaðarstuðning í té við Úkraínumenn fram að þessu, hefur nú franski forsetinn opinberlega bryddað upp á því, að Evrópurríkin sendi hermenn sína til að berjast við hlið Úkraínumanna.  Þetta óttast Kremlarmafían mjög, enda kom strax hlægileg tilkynning úr Kremlarkjaftinum um, að þar með væri NATO komið í stríð við Rússland.  Þetta er innantóm hótun.  Rússland getur ekki unnið stríð við NATO.  Því lyki löngu áður en allsherjar herútboð gæti farið fram í Rússlandi. 

Ein milljón manns á herskyldualdri hefur flúið Rússland síðan "sérstaka hernaðaraðgerðin" hófst.  Árin 2022-2023 laut rússneski herinn á tímabili í lægra haldi fyrir úkraínska hernum með þeim afleiðingum, að Úkraínumenn náðu að frelsa 40 % af herteknu landi. 

 

Þýzki kanzlarinn, Olaf Scholz, hafði vonandi rétt fyrir sér, þegar hann kvað nýtt tímabil runnið upp, þar sem nýtt Þýzkaland kæmi fram á sjónarsviðið, sem væri reiðubúið að axla nýjar skyldur.  Þar með hefur garminum Pútín tekizt það, sem bandamönnum Þýzkalands tókst ekki: að fá Þýzkaland til að axla hernaðarlegt forystuhlutverk í Evrópu.  Í Heimsstyrjöldinni seinni átti Wehrmacht í höggi við bandarískan vopnaiðnað á  austurvígstöðvunum, sem sá Rauða hernum fyrir stórum hluta af skriðdrekum hans, flutningabílum og fallbyssum.  Það, sem heldur Rússlandi á floti núna, eru Kína og Íran.   

  

 

 

 

 


Pyrrosarsigur Rússa - að míga í skóinn sinn

Barry Gander, Kanadamaður, sem býr í Connecticut í Bandaríkjunum, ritar um samtímaatburði af þekkingu í Mastodon@Barry.  Um miðjan febrúar 2024 skrifaði hann um Úkraínustríð 21. aldarinnar, og verður hér stuðzt við grein, sem heitir: "Today it is 400.000".

Fjöldi fallinna rússneskra hermanna í Úkraínu hefur nú farið yfir 400 k síðan hin ósvífna og skammarlega innrás hófst 24.02.2022.  Þetta þýðir um 550 manns á dag og undanfarnar vikur hefur talan verið 950 á dag, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega mikla áherzlu gerspillt stjórnvöld í Kreml leggja á það að knésetja lýðræðislega kjörin stjórnvöld Úkraínu í Kænugarði. Mannfallið í bardögum um borgina Avdevka, nærri Donetsk borg, hefur verið gríðarlegt, og hún féll um miðjan febrúar 2024 í hendur Rússa, rústir einar. Brezk leyniþjónusta spáir 500 k Rússum föllnum í Úkraínu við árslok 2024.  Enginn veit, hvar víglínan verður þá, en það er ljóst, að harðstjórinn í Kreml ætlar að gera Úkraínu að nýlendu Rússlands.  Það mega Vesturlönd ekki láta kúgarann í Kreml komast upp með á 21. öld, enda væri þá öryggi og stöðugleika í Evrópu ógnað alvarlega. 

Á sama tíma og Rússar hafa misst 400 k, hafa 70 k úkraínskir hermenn fallið og aðrir 120 k særzt.  Þannig hefur 1 úkraínskur hermaður fallið á móti 5,7 Rússum, sem er hátt hlutfall og vitnar um ólíka herstjórnarlist. Staðan versnar enn fyrir Rússa, þegar málaliðar á borð við Wagner-herinn eru teknir með í reikninginn.  Tala fallinna þar er um 100 k.  Hlutfallið hækkar þá í 7,1. 

Í byrjun janúar 2024 voru meira en 320 k rússneskir hermenn í Úkraínu.  Úkraína er með 800 k framlínuhermenn í þjónustu, og 500 k verða kvaddir í herinn fyrir sumarið 2024.  Það gefur 1,3 M undir vopnum, þjálfaðir og einbeittir í að verja fósturjörðina gegn rugluðum villimönnum að austan. 

Rússar berjast með undirmönnunarhlutfall 1:2,5, en innrásarher er jafnan talinn þurfa að vera með yfirmönnunarhlutfall 3:1.  Rússar hafa hins vegar haft meira af skotfærum og ráðið í lofti, ef drónarnir eru undanskildir.  Með tilkomu F16 orrustuþotna í herafla Úkraínumanna munu þeir ná yfirhöndinni í lofti.  Þegar þeir jafnframt fá Taurus stýriflaugarnar þýzku, munu verða kaflaskil í þessum átökum austurs og vesturs.

Enginn viti borinn stjórnmálamaður með sæmilega hernaðarráðgjafa hefði ráðizt með jafnveikum herafla inn í Úkraínu og Pútín gerði 24.02.2022.  Hann er dómgreindarlaus fantur, sem lifir í óraunveruleikaheimi fortíðarþráar.  Haft er eftir Lafrov, utanríkisráðherra Kemlarklíkunnar, þegar hringt var í hann um innrásarnóttina og hann spurður, hver hefði eiginlega ráðlagt forsetanum þetta.  Lafrov sagði þá efnislega, að Pútín hlustaði aðeins á 3 ráðgjafa, og það væru Ívan grimmi, Pétur mikli og Katrín mikla. 

Leyniskýrsla frá herforingjaráði og pólitískri elítu Rússlands til Pútíns, "Conclusions of the war with NATO in Ukraine", klykkti út með, að 5 M rússneska hermenn þyrfi til að vinna slíkt stríð.  (Voru ekki 6 M í Rauða hernum, sem rak Wehrmacht til Berlínar ?) Pútín sigaði 250 k hermönnum inn í Úkraínu 24.02.2024, og þá voru 300 k í úkraínska hernum, og þeir voru betur þjálfaðir. 

Síðar þennan dag komu nokkrar tylftir olígarka saman í Kreml.  Þeir voru meðvitaðir um, að Vesturveldin mundu hrinda af stað refsiaðgerðum gegn Rússum.  "Allir voru gjörsamlega ráðþrota", er haft eftir einum fundarmanna, en þeir sáu illa fenginn auð sinn (að mestu þýfi frá rússneska ríkinu) í algjöru uppnámi. 

Það lítur út fyrir, að Pútín hafi ímyndað sér ríkisstjórn Zelenskys vera veika og óvinsæla, og almenning í Úkraínu upptekinn við vandamál fjárhagslegs eðlis.  Hann óttaðist, að rússnesk áhrif í Úkraínu færu dvínandi, einkum vegna djúptækara samstarfs Kænugarðs við Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra.  Hann leit á Evrópu sem veika og sundraða.  Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem hann skemmti sér við að hræða með hundum sínum, af því að hún óttaðist hunda, var að láta af völdum, Bretland væri í óreiðu eftir úrsögnina úr ESB og COVID ylli uppnámi um alla Evrópu.  Hann óttaðist ekki NATO: NATO væri veikt og sundurþykkt. Kjáninn trúði eigin áróðri.  

Allt voru þetta ranghugmyndir vitstola manns, og Rússar gjalda þær dýru verði með ógnarlegu mannfalli og hergagnatapi upp á hundruði mrdUSD.  Mannfallið og hergagnatapið í bardögunum um Avdevka, þar sem Rússar unnu nýlega Pyrrosarsigur, sýnir, að Moskva hefur ekki "lært lexíuna um, hvernig á að standa almennilega að vélahernaði", samkvæmt Riley Bailey, Rússlandssérfræðingi hjá "The Institute for the Study og War".   

Beztu deildir rússneska hersins hafa verið eyðilagðar og allt, sem eftir er af honum, eru illa þjálfaðir herkvaðningarmenn, gamlir skriðdrekar og brynvarðir bílar.  Á meðan fær Úkraínuher nútíma búnað og beztu þjálfun og herstjórnarlist.

Undirbúningsleysi jafngildir alvarlegum afleiðingum.  Í desember 2022 greindu rússneskir sálfræðingar u.þ.b. 100 k hermenn, sem þjáðust af áfallastreituröskun. Þessi fjöldi er ábyggilega meiri, af því að viðverutími hermannanna á vígvöllunum er mjög langur.  Um þetta stóð í brezkri skýrslu: 

"With a lack of care for its soldiers´ mental health and fitness to fight, Russia´s combat fighting effectiveness continues to operate at sub-optimal levels".  

 


Orð af viti frá þingflokksformanni

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins rekur í stuttu og lauslegu máli umræður á þingi að hennar frumkvæði um orkumál í Morgunblaðsgrein 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:

"Orkumál í stóra samhenginu"

Ingibjörg Ísaksen lýkur grein sinni með eftirfarandi rökréttu ályktun:

"Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að aukin virkjun og framleiðsla á raforku ásamt betra dreifikerfi [og flutningskerfi - innsk. BJo] þjóni hagsmunum okkar allra í stóra samhenginu."

Afturgöngurnar, sem iðka það að setja sig á háan hest, afneita staðreyndum, berja hausnum við steininn, og kasta fram fullyrðingum út í loftið, komu lítillega við sögu hjá Ingibjörgu:

"Þátt fyrir að sérfræðingar innan orkuiðnaðarins hafi lengi bent á aukna orkuþöf þjóðarinnar og yfirvofandi orkuskort hér á landi, þá eru greinilega aðilar, sem enn eru ekki sannfærðir um vandann.  

Eftirspurn eftir raforku hér á landi er orðin meiri en framboð, og samfélagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili.  Æ oftar gerist það, að fyrirtæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda daglegri starfsemi sinni gangandi í samræmi við samninga vegna ótryggðrar orku, sem mikilvægir eru til að fullnýta kerfið.  Í þessu felst kostnaður fyrir okkur öll ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum, sem slík brennsla hefur í för með sér."

Þeir, sem stinga hausnum í sandinn og afneita borðleggjandi staðreyndum um orkuskort, eru hinir sömu og enn þvælast fyrir öllum raunhæfum úrræðum til úrlausnar.  Ingibjörg nefnir hér ekki þingflokk vinstri grænna, þótt þar séu "the usual suspects", en fleiri furðufugla af þessu tagi hefur flotið á fjörur Alþingis og sitja þar nú mörgum til ama. 

Þessi hegðun heitir vanræksla, og hafa stjórnmálamenn hlotið dóm fyrir slíka synd gegn þjóðarhagsmunum.  Nú gangast menn upp í því að vanrækja skyldur sínar og bera fyrir sig heimskuvaðal á borð við, að "náttúran verði að njóta vafans". Embættismenn margir hverjir eru lítt skárri, og mætti þar nefna Orkustofnun sem dæmi, en núverandi gagnsleysi þeirrar stofnunar fyrir fólkið í landinu hefur birzt í atburðum tengdum jarðeldunum á Suðurnesjum. 

"Þó svo að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki, verði að mestu óhult, ef til skömmtunar á raforku kemur, þá þurfum við að horfa á stóru myndina.  Ef við öflum ekki meiri raforku og dreifum henni á sem beztan máta, þá mun það hafa talsverð áhrif á atvinnulíf hér á landi.  Stórnotendur raforkunnar okkar bera þungann af skerðingum á raforku.  Um er að ræða þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, sem skila samfélaginu talsverðum útflutningstekjum, og það kom nokkuð á óvart, að talsmenn sumra flokka á Alþingi hefðu takmarkaðar áhyggjur af því, að slíkar skerðingar eigi sér stað í rekstri þeirra með tilheyrandi áhrifum á vöru þeirra og þjónustu."

Það eru sósíalistísk viðhorf að hafa horn í síðu fyrirtækja og leggja jafnvel heilar atvinnugreinar í einelti. Þannig hefur viðhorf sósíalista hérlendis frá upphafi stóriðju á Íslandi mótazt af fordómum og fávizku, þótt þeir viti varla lengur ástæðurnar.  Nú eru oft tilfærðar umhverfisástæður, sem er út í hött, því að eins og fyrrverandi Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist ekki á að benda á, t.d. í blaðagreinum, leggur engin hérlend atvinnugrein jafnmikið að mörkum til lofslagsmála á heimsvísu og málmiðjuverin.

Ingibjörg Ísaksen hefur með þessarri blaðagrein sýnt, að hún hefur sig upp fyrir lágkúruna á Alþingi, og gæti hæglega farizt stjórn á ráðuneyti vel úr hendi. 

"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við að ákveða  í hvernig [hvers konar] samfélagi við viljum búa.  Viljum við takmarka orku fyrir stórnotendur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raforkukosti  í sínum rekstri, eða viljum við tryggja, að stór og stöndug fyrirtæki hafi nægjanlega orku fyrir hendi til að skapa útflutningstekjur, sem skila sér til framkvæmda á mikilvægum innviðum og í velferð samfélagsins ? Hér er átt við öflug fyrirtæki, sem flokkast sem stórnotendur og bjóða upp á haldbærar vörur og/eða þjónustu.  Hér þufum við að gera greinarmun á milli slíkra fyrirtækja og annarra stórnotenda á borð við rafmyntagröft, en ekki setja alla stórnotendur undir sama hatt."

Þarna sýnir Inibjörg góðan skilning á þjóðhagslegu mikilvægi orkukræfrar starfsemi með langtíma samninga um raforkukaup, fjöldann allan af fjölbreytilegu vel launuðu starfsfólki í vinnu og mikla og vaxandi verðmætasköpun með aukinni sérhæfingu.  

 

   

 


Skaginn til fyrirmyndar

Það er óvenjulegt að sjá vitræna, einróma samþykkt stórs sveitarfélags um málefni, sem tengjast átakalínum í stjórnmálum.  Morgunblaðið gerði þó grein fyrir einni slíkri 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:

"Skagamenn óttast raforkuskerðingu til stóriðju".

Til marks um, að ályktun sveitarfélagsins tengist átakalínu í landsmálum er, að drjúgur hluti eins ríkisstjórnarflokkanna gengur um og boðar hverjum, sem heyra vill, þá draumórakenningu útibúsins Landverndar, að hagkvæmt og pólitískt rétt sé að ljúka þeim kafla í íslenzkri viðskiptasögu að selja raforku til orkukræfrar starfsemi á sviði málmvinnslu.  Hvernig slík bábilja fær fætur í stjórnmálaflokki, sem býður fram á landsvísu, en mun sennilega ekki hafa erindi sem erfiði í næstu Alþingiskosningum, er óskiljanlegt og efamál, að djúpsálfræðingurinn Sigmund Freud eða núlifandi kollegar hans gætu útskýrt það af viti. 

Að þessu sögðu er rétt að snúa sér að hinni gagnmerku frétt Ólafs E. Jóhannessonar:

""Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu raforkumála og þeirri stöðu, sem frekari orkuöflun er í.  Staðreyndin er, að þegar eru skerðingar á orku, og skortur á orku er farinn að hafa áhrif á fyrirtæki, sem veita hundruðum íbúa Akraness atvinnu og setur störf þeirra og lífsafkomu í hættu."

Svo segir í ályktun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, sem samþykkt var með atkvæðum allra bæjarfulltrúa  á fundi bæjarstjórnarinnar, sem haldinn var s.l. þriðjudag [23.01.2024], en tilefni ályktunarinnar er yfirvofandi raforkuskerðingar til stóriðju, sem boðaðar hafa verið vegna yfirvofandi raforkuskorts í landinu." 

Téður raforkuskortur er landshlutabundinn við svæði, sem ekki hafa nógu öfluga tengingu við stærstu virkjun landsins, Fljótsdalsvirkjun. Þetta á við um athafnastaði á Austurlandi á borð við Vopnafjörð og Höfn í Hornafirði ásamt vesturhluta landsins.  Ef Landsnet hefði fengið að hraða uppbyggingu nýrrar Byggðalínu norður um og vestur til Klafa í Hvalfirði, þyrfi ekki að skerða þegar umsamda raforkuafhendingu í vetur, en efir sem áður mundi rafmagn til nýrrar starfsemi vanta.  Vinstri hreyfingin grænt framboð og meðreiðarsveinar hennar hafa lagzt þversum gegn þeirri Byggðalínu, sem Landsnet hefur forhannað og telur skynsamlegasta kostinn. Eins og fyrri daginn eru beturvitar legió og hafa allt aðra skoðun á málinu.  Hverjum þykir sinn fugl fagur, og beturvitar hlusta ekki á raffræðileg og fjárhagsleg rök.  Dyntir þeirra um útlit línunnar og legu hafa fengið óheyrilegt vægi, sem miklum kostnaði og mengun vegna olíubruna hefur valdið. 

"Í ályktuninni segir, að um 20 % af heildaratvinnutekjum íbúa Akraness komi [verði] til vegna framleiðslu fyrirtækja á Grundartanga, Norðuráls og Elkem, og skortur á raforku, til lengri eða skemmri tíma, hafi bein áhrif á afkomu íbúa sveitarfélagsins.

 Núverandi ástand og horfur geti leitt til tapaðra starfa og minnkandi verðmæta, sem leiða muni af sér samdrátt og lakari lífskjör.  

Bæjarstjórnin skorar á stjórnvöld að leita allra leiða til að styðja við frekari orkuöflun og hraða uppbyggingu á virkjunum og endurbótum á flutningskerfi raforku."

Þetta eru orð í tíma töluð og hárrétt hjá bæjarstjórninni.  Ástandið er í boði afurhaldsafla, sérvitringa, sem leggjast gegn frekari nýtingu orkulindanna á grundvelli fordildar um, að siðferðilega rangt sé að grípa á nokkurn hátt inn í sköpunarverkið.  Þetta er alger þvættingur, enda er þetta fyrirsláttur til að draga dul á það, sem að baki býr.  Andstaða þessa sérvitringahóps er raunverulega við hagvöxtinn.  Sérvitringarnir vilja draga úr neyzlu almennings, en ekki auka hana, eins og verkalýðsforingjarnir, sem líka lifa í annarlegum heimi og hreykja sér hátt og vilja stjórna Seðlabankanum, sem er að slá á neyzluna til að hægja á verðbólgunni. 

Það vekur athygli, að sambærileg bæjarstjórnarsamþykkt hefur ekki sézt að sinni frá Hafnarfirði.  Menn verða að gera sér grein fyrir því, að með manngerðum og skipulögðum orkuskorti eru forsendur brostnar fyrir sölusamningum raforku til stóriðjuveranna.  Eigendur þeirra sömdu um að taka á sig orkuskort af náttúrunnar völdum, sem áætlaður var um 10 % af rekstrartímanum, en nú dynja raforkuskerðingar á stóriðjunni á næstum   hverju ári og búast má við þeim árlega út þennan áratug. 

Ekki nóg með það, heldur vofir nú yfir forgangsorkuskerðing stóriðju í krafti nýrrar lagasetningar.  Bæjarstjórn Akraness hefur gert sér grein fyrir alvarleika stöðunnar og segir ríkisstjórninni að hysja upp um sig buxurnar og leggja fyrir Alþingi frumvarp til sérlaga um virkjanir og flutningslínur.  Það verður að höggva á hnútinn nú, þegar allt er komið í óefni.

""Í atvinnuteknagreiningu Byggðastofnunar eru um 20 % atvinnutekna íbúa Akraneskaupstaðar vegna framleiðslu án fiskvinnslu, og við vitum, að langstærsti hlutinn af þeirri sneið er vegna starfseminnar á Grundartanga. Þar eru meðallaun góð, en ég ætla ekki að skjóta á neina upphæð, hvað þetta gæti þýtt í töpuðum útsvarstekjum, ef samdráttur verður", segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar í samtali við Morgunblaðið."

Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá landsfeðrum og -mæðrum, því að annars hefðu þau þegar gert raunhæfar ráðstafanir til að leysa viðfangsefnið, sem þegar væru komnar til framkvæmda.  Í staðinn kemur orðhengilsháttur frá flokki forsætisráðherrans um, að sýna verði fram á orkuskortinn áður en samþykkt verði, að hefjast handa, og útibúið, Landvernd, leggst gegn öllum úrbótum á þessu sviði, nú síðast Vatnsdalsvirkjun, sem þó má kalla borðleggjandi verkefni fyrir Vestfirðinga til að leysa brýnan orkuvanda Vestfjarða.  Orkuráðherra er eins og karlinn í tunglinu, sem horfir hryggum augum á, fer með rullu, en gerir ekkert, sem gefur von um úrbætur á orkuskorti.

Fróðlegt viðtal var við forstjóra Elkem á Íslandi um málið í Morgunblaðinu 09.02.2024.  Elkem kaupir ekki ótryggða orku, heldur forgangsorku með einhverjum afslætti gegn samningsbundnum réttindum Landsvirkjunar til að krefjast endurkaupa á hluta orkunnar, sem þá að sjálfsögðu er ekki afhent.  Þetta hefur síðan í desember 2023 valdið gríðarlegri framleiðsluskerðingu hjá Elkem á Íslandi með tekjutapi upp á um 1 mrdISK/mán, sem miðað við áætlaðar árstekjur 2024 um mrdISK 25 er tilfinnanlegt og getur hæglega leitt til minni fjárfestinga móðurfélagsins í þessu dótturfélagi og uppsagna starfsmanna.  

""Við eigum mjög mikið undir fyrirtækjunum, og mörg þjónustufyrirtæki á svæðinu eiga gríðarlega mikið undir starfsemi fyrirtækjanna á Grundartanga.  Á meðan þau eru í skerðingum, erum við að ógna framtíð þeirra og vaxtarmöguleikum þeirra líka", segir Haraldur og bendir á, að raforkuskerðing hafi bæði bein og einnig afleidd áhrif í tilviki þjónustufyrirtækjanna."

Það, sem Haraldur, bæjarstjóri, er að benda á í sambandi við orkukræfu fyrirtækin, er, að þau hafa margfeldisáhrif í þjóðfélaginu, eins og önnur framleiðslufyrirtæki, sem flytja nánast alla framleiðslu sína út á erlenda markaði.  Þetta þýðir, að margfalda má starfsmannafjöldann með u.þ.b. 3, þegar finna á út jafngildisfjöldann, og sama á við um fé, sem fyrirtækin nota hér innanlands í annað en launakostnað.  Ef þessi fyrirtæki draga saman seglin vegna raforkuskorts, er vá fyrir dyrum og rekstrarhæfni þeirra í húfi. Hafa einhver viðbrögð komið frá iðnaðarráðherranum af þessu tilefni ?  Ef þau birtast ekki senn, er iðnaðarráðuneytið orðið nafnið tómt.   

 

 


Afkáraleg staða orkumála hérlendis

Sjálfskaparvítin eru verst.  Íslendingum hefur borið gæfa til að nýta hluta endurnýjanlegra og nánast kolefnisfrírra orkulinda landsins til að knýja atvinnulífið að töluverðu leyti og til heimilishalds og húsnæðisupphitunar að nánast öllu leyti.  Um 15 % heildarorkunotkunarinnar er enn með jarðefnaeldsneyti og fer jafnvel vaxandi þessi misserin vegna öfugsnúinnar andstöðu sérvitringa (jaðarhópa (borderline)), sem í ótrúlegri forheimskun hafa undanfarin ár lagzt gegn nánast öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð og uppsetningu burðugra (220 kV) flutningslína á milli landshluta, sem ætlað er að auka afhendingaröryggi raforku í öllum landshlutum, draga úr orkutöpum á leiðinni og bæta nýtingu uppsafnanlegs vatns miðlunarlónanna. 

 

Við höfum alla burði og tæknilega möguleika á að halda áfram að skjóta stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf landsins með því að hefja framkvæmdir af krafti við virkjanir og línur.  Það er nóg til af óvirkjaðri orku fyrir landsmenn um fyrirsjáanlega framtíð.  Téðir sérvitringar eiga bakhjarla á Alþingi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, og geta þess vegna enn flækzt fyrir framfaramálum, á meðan hinir taka sig ekki saman í andlitinu og setja þeim stólinn fyrir dyrnar að fremja óhæfuverk sín á framfarasókninni til "grænnar" orkuframtíðar.  Stjórnmálamenn láta eins og þeir komi af fjöllum um orkuskortinn, og þeir forhertustu afneita honum.  Þegar kemur að lausnum, sem duga, vappa þeir eins og kettir í kringum heitan graut. 

Þann 27. janúar 2024 skrifaði vanur maður úr atvinnulífinu, fyrrum stórnotandi raforku og nú framleiðandi raforku, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fróðlega grein í Morgunblaðið um skrýtna stöðu orkumálanna hérlendis undir fyrirsögninni:

"Baráttan um skortinn":

 

"Fyrsta útgáfa frumvarpsins [atvinnuveganefndar um heimildir til að bregðast við raforkuskorti - innsk. BJo] var gölluð.  Þar var í stuttu máli kveðið á um, að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði.  Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON.  Um 60 % af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.  

Þetta er ósanngjarnt,eins og lesa mátti úr flestum umsögnum, sem bárust um frumvarpið.  Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir t.a.m.: "Með hliðsjón af öllu famangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því, að fyrirliggjandi frumvarp verði óbreytt að lögum.  Á þessu stigi málsins telur eftirlitið, að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni."  

Frumvarpsdrögin komu úr Orkustofnun, en handrit hefur greinilega borizt henni frá forstjóra Landsvirkjunar, sem ekki hefur aukið hróður sinn með opinberri framgöngu sinni í þessu skortsmáli, sem hefur verið raunaleg og lítt sæmandi þeirri stöðu. Í a.m.k. eldri samningum við stórnotendur er kveðið á um, að í "force majeure" ástandi, þ.e. þegar glímt er við afleiðingar óviðráðanlegra afla, megi skerða umsamda forgangsorku til þeirra hlutfallslega jafnmikið og til almenningsveitna.  Hinn lögfræðilegi vandi nú er, að raforkuskorturinn stafar af stjórnendamistökum og vanrækslu, sem ekki er sambærilegt við bilanir í búnaði eða náttúruhamfarir.  

"Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum, og fumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu.  Málinu var samt frestað fram yfir áramót.  Þá "var ljóst, að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi", eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023, "Afgreiðslu raforkufrumvarps festað").

Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn "leka á milli markaða".  Ráðizt var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is, sem ekki verður setið undir."

Er of mikið að líkja Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, við fíl í postulínsbúð ? Þegar hann fær ekki yfirgangssömum vilja sínum famgengt við þingmenn, eins og við ósjálfstæða embættismenn, þá trompast hann og ber á borð þvætting og skæting í fjölmiðlum.  Þessi hegðun er óeðlileg og óvenjuleg í orkugeiranum, þar sem yfirleitt sitja prúðmenni á fleti fyrir.  Það er heilbrigðismerki á geiranum, að ofstopanum í forstjóra langstærsta orkufyrirtækisins skuli vera andæft og fjarstæðum hans sópað út í hafsauga.  

"Enginn efast um, að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi.  Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi.  Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi.  Þvert á móti er verið að leggja til, að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa, sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda.  Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara, að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu.  Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis.  Landsvirkjun getur ekki haldið því fram, að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar, því [að] fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa."

Í fyrstu málsgreininni horfir höfundurinn fram hjá sérvitringahópinum, sem grafið hefur svo undan orkugeiranum íslenzka, að hann er núna ófær um að fullnægja raforkumarkaðinum með þeim afleiðingum, að olíu er brennt í verksmiðjum, þar sem rafmagn væri notað, væri það fáanlegt.  

Segja má, að Tryggvi Felixson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, hefur löngum verið talsmaður þessa hóps.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024 með yfirskriftinni:

"Yfirvegun eða óðagot í orkumálum":

"Af famangreindum tölum verður ekki annað séð en viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar.  Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára.  Yfirdrifnar yfirlýsingar, sem fram hafa komið um, að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar.  M.v. flestar aðrar þjóðir mætti segja, að við séum að drukkna í raforku.  Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra.  M.a. er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku, sem losnar, þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út, til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum."

Þarna skrifar einn af beturvitum afurhaldsins í landinu um orkumálin.  Eins og hans nótar eru vanir að gera, setur hann sig á háan hest, gefur skít í áhyggjur og viðvörunarorð kunnáttumanna um orkumálin og skrifar um "meintan" orkuskort.  Hann er sem sagt ímyndun starfsmanna í orkugeiranum, Samorku, Samtaka iðnaðarins og ýmissa ráðgjafa, sem gerzt þekkja þessi mál.  Þá mætti spyrja forráðamenn hins glæsilega hornfirzka félags Skinneyjar-Þinganess, sem ekki fengu keypta forgangsorku á markaðinum í vetur fyrir rafskautaketil sinn og urðu með hraði að kaupa og setja upp olíukyndingu fyrir bræðsluofn sinn.

Hvernig stendur á því, að gapuxar af ólíku tagi telja, að þeir komist upp með það að hefja sig upp fyrir menntaða og virta sérfræðinga og halda því fram, að svart sé hvítt ?  Þetta loðir dálítið við hér, en ætli þeir séu ekki komnir út í skurð nú, sem helzt vilja loka stærstu iðjuverum landsins ?  Þetta vesalings fólk skortir allt sögulegt samhengi, er blautt á bak við bæði eyrun.  Það áttar sig ekki á, að stórsala til iðjuvera myndaði grundvöll að rafvæðingu landsins hinni síðari og samtengingu landshlutanna í eitt orkusvæði.    

 

 


Vesturlöndum stendur mikil ógn af glóruleysi Rússlandsstjórnar

Pútín, forseti Sambandslýðveldisins Rússlands, hefur gefið út tilskipun um, að rússneska ríkinu beri að vinna að því ná undir sig öllum löndum, sem voru innan vébanda Ráðstjórnarríkjanna, og öllum öðrum landssvæðum, sem Rússakeisari réði áður.  Til þessara svæða telst m.a. Alaska, sem Bandaríkjamenn keyptu af zarnum 1867.  Þessari tilskipun verður aðeins lýst sem geðveiki einæðisherra, en hún hlýtur að leiða til þess, að Vesturlönd, einkum Evrópuríkin, sjái skriftina á veggnum og endurhervæðist. Samþykkt Ráðherraráðs Evrópusambandsins (ESB) 01.02.2024 á mrdEUR 50 fjárhagsstuðningi við Úkraínu yfir 4 ár ber að fagna, en handbendi Pútíns, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, skipti um afstöðu til málsins, svo að samþykktin verð einróma.  

 Ef Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, er ógnin geigvænleg, því að þessi fasisti mun svíkja Úkraínu og Eystrasaltslöndin og síðan öll önnur ríki Varsjárbandalagsins sáluga í hendur sálufélaga síns, Pútíns.  Hvernig hann bregzt við kröfunni um Alaska, er efiðara að ímynda sér.  

Nú standa Rússar blóðugir upp að öxlum i Úkraínu.  Vesturlönd verða að átta sig á því, að Úkraínumenn úthella nú blóði sínu ekki einvörðungu til varnar frelsi og sjálfstæði eigin lands, heldur allrar Evrópu. Þessi rússneska útþenslustefna og hatur á Vesturlöndum er ekki bundin við einn mann í Kreml, heldur hefur þessi vitfirring verið við lýði frá stofnun rússneska keisaradæmisins fyrir um 300 árum. Fleiri evrópsk keisaraveldi voru illa haldin af þessari áráttu á 19. og 20. öld, en 2 heimsstyrjaldir hafa læknað viðkomandi þjóðir af árásarhneigð og útþenslustefnu.

Rússneska þjóðin er fátæk og fjölmargir lifa undir fátæktarmörkum, enda viðgengst ægileg spilling og misrétti í Rússlandi.  Rússar hafa reynzt ófærir um að innleiða lýðræði hjá sér og sjúklegt hugarfar og afstaða til annarra þjóða hefur ekki breytzt þar.  Þar verður engin breyting til batnaðar, nema ríkið sundrist, sem gæti orðið við niðurlægjandi tap rússneska hersins í átökunum við úkraínska herinn.  Með óbreyttum stuðningi Vesturlanda verður það þó ekki, og afstaða Bandaríkjamanna ræður þar mestu um.  Það er ótrúlegt, að bandaríska þingið skuli ekki líta á fjárhagsstuðning á formi hergagna og annars við Úkraínu sem mjög hagkvæma fjárfestingu í framtíðinni. Ætlar skammsýnin og blindnin að verða Vesturlöndum að falli ?

Börkur Gunnarsson, kvikmyndaleikstjóri, er ýmsum hnútum kunnugur í Úkraínu og hefur dvalið þar.  Hann hefur frætt lesendur Morgunblaðsins um kynni sín af Úkraínumönnum.  Grein hans 22. janúar 2024 bar yfirskriftina:

       "Innrás Pútíns hefur allt önnur menningarleg áhrif en hann ætlaði":

"En menningarbreytingarnar í Úkraínu eru það, sem ég hef mestan áhuga á.  Sem áhugamaður um sagnfræði las ég mér mikið til um sögu þeirra ríkja, sem mynduðu Sovétríkin.  Þá var hefð [á] meðal sovézkra sagnfræðinga að gera lítið úr því, að það voru norrænir menn, sem áttu mikilvægan þátt í risi Kyiv, en margir rússneskir sagnfræðingar efuðust um heimildir, sem studdu það.  Það hentaði ekki stefnu Kremlar, að víkingar frá Norðurlöndunum ættu eitthvað í því stórveldi, sem Kyiv ríkið var frá 10. öld og fram til ársins 1240, að Mongólar sigruðu her ríkisins, myrtu flesta íbúana og brenndu höfuðborgina til grunna.  

En þegar ég tók viðtal við forstöðumann úkraínska þjóðminjasafnsins í höfuðborginni, varð mér ljóst, að í dag gera Úkraínumenn mikið úr þessum uppruna.  Kenningin er ekki aðeins rökum reist, heldur hentar hún þeim, sem nú stjórna."

Það voru aðallega sænskir víkingar í viðskiptaerindum  eftir fljótum Úkraínu á leið að Svartahafi og niður að Miklagarði, sem sáu sér hag í bandalagi við harðduglega heimamenn, sem þarna áttu í hlut, og má segja, að lengi hafi logað í gömlum glæðum ýmissa tengsla norrænna manna við Úkraínumenn.  Það hefur komið í ljós í blóðugri baráttu Úkraínumanna við arfaka Mongólaveldisins, Rússana, einkum efir innrásina 24. febrúar 2024. 

Blinda vestrænna leiðtoga lýðræðisríkja á söguna og framtíðina er tilefni til áfallastreituröskunar.  Þannig hefur það alltaf verið með þeirri afleiðingu, að hurð hefur skollið nærri hælum í 2 heimsstyrjöldum í viðureigninni við útþenslusinnuð einræðisríki. Bandaríkin komu þá til hjálpar, enda var ráðizt á þau í seinna skiptið og stríði lýst á hendur þeim, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Fasistinn, sem nú um stundir stefnir hraðast á Hvíta húsið, en kann að verða settur á bak við lás og slá vegna afbrota sinna, er aðdáandi einræðisherra heimsins á borð við Pútín og hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr NATO.  Hvers konar hrikalegt döngunar- og úrræðaleysi er það á meðal ríkisstjórna fjölmennustu þjóða Evrópu að hafa ekki nú þegar stóreflt hergagnaframleiðslu sína til að geta staðið myndarlega við bakið á Úkraínumönnum og birgt upp eigin herafla og gert hann bardagahæfan á ný ?  Á meðal Evrópuþjóðanna eru góðar undantekningar, og má þar telja Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Finna. 

Þann 23. janúar 2024 birtist önnur grein í Morgunblaðinu eftir sama höfund, Börk Gunnarsson.  Fyrirsögn hennar var þessi:

"Ekki viss um, að hann finni ástina sína í Úkraínu - Karlarnir berjast og konurnar fara".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Annar piltur, sem ég hitti, er ólmur að komast aftur á vígstöðvarnar og talar um, að það sé hneyksli, hvað Úkraína fái lítinn fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, ungir úkraínskir menn séu að deyja fyrir Vesturlandabúa, á meðan þeir sitji bara uppi í sófa og hámi í sig kartöfluflögur. Maður fær samvizkubit yfir ræðum hans.  Því [að] það er mikið til í þeim.  Við eigum meira að segja fólk á Vesturlöndum, sem gerir lítið úr fórnum úkraínsku þjóðarinnar."

Hið síðast nefnda er hrollvekjandi staðreynd, sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þessi lýður getur verið af tvennum toga: annars vegar Rússadindlar, sem hafa verið heilaþvegnir af áróðri Kremlar.  Þetta eru oft undanvillingar, sem af einhverjum sjúklegum ástæðum hafa fyllzt hatri á lifnaðarháttum Vesturlanda og fyrirlitningu á lýðræðisfyrirkomulaginu.  Sálfræðilega eru þetta einstaklingar svipaðrar gerðar og aðhylltust nazisma á fyrri tíð.  Hins vegar er um að ræða naflaskoðara með asklok fyrir himin og hafa þar af leiðandi engan skilning á því, hvers konar átök eiga sér stað í heiminum núna né hvers vegna Úkraínumenn leggja nú allt í sölurnar til að halda fullveldi lands síns og sjálfstæði.  Naflaskoðararnir hafa engar forsendur til að átta sig á hrikalegum afleiðingum þess fyrir eina þjóð að lenda undir járnhæl Rússa.  Í tilviki Úkraínumanna mundi það jafngilda tortímingu þjóðarinnar.  Rússneski björninn er viðundur í Evrópu 21. aldarinnar.  

Að lokum skrifaði Börkur:

"Ég hef sjaldan upplifað jafnlitla jólastemningu yfir hátíðarnar, en annað hefði verið undarlegt.  Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins leitt til dauða tugþúsunda ungra úkraínskra manna, lagt heimili hundruða þúsunda í rúst, heldur einnig rústað heilbrigði og sálarheill tugmilljóna manna þjóðar, fjölskyldum þeirra og börnum, sem munu vaxa úr gasi algjörlega trámatíseruð.  En á meðan getur íslenzkur almenningur borðað kartöfluflögur í rólegheitum í sófanum sínum og jafnvel verið með yfirlætislegar samsæriskenningar og ræktað í sér samúð með innrásarhernum, en ekki fórnarlömbunum."  

Hvernig halda menn, að fólki verði innanbrjósts, sem gengur til hvílu að kveldi vitandi, að húsið þeirra gæti orðið skotmark fjandmannanna um nóttina ?  Hernaður Rússa er eindæma lágkúrulegur.  Að gera saklausar fjölskyldur að skotmarki ónákvæmra flauga og dróna sinna í stað hernaðarmannvirkja er fyrirlitlega heigulslegt atferli, en Rússar eru til alls vísir.  Þeir eru á afar lágu plani bæði siðferðilega og tæknilega.  Fátæktin, andleg og veraldleg, er yfirþyrmandi.  

 

 


Ráðherra grefur undan grunnatvinnuvegi landsmanna

Það hefur aldrei verið neitt vit í tiltektum Svandísar Svavarsdóttur á ráðherrastóli.  Sem matvælaráðherra hefur hún þó bitið höfuðið af skömminni, og stefndi fyrir vikið í vantraust á störf hennar á Alþingi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ósvífni hennar nær út fyrir þjófamörk, því að hún brýtur lög viljandi með ýmsum gjörðum sínum í ráðuneytinu.  Þetta er ólíðandi með öllu, enda stefnir í milljarða ISK skaðabótakröfur gegn ríkissjóði vegna ráðuneytisverka Svandísar 2023. Þessi ósköp eru sem betur fer sjaldgæf.  

Drög að frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveginn ætti ríkisstjórnin að draga til baka, því að það er ekki heil brú í þeim, frumvarpið er með öllu óþarft og reyndar stórskaðlegt fyrir þjóðarbúið.  Þetta er aðför sósíalista að vel reknum einkarekstri.  Ef slíkt fyrirfinnst einhvers staðar, reyna sósíalistar að verða sér úti um ástæður til að varpa þrúgandi byrðum ríkisins á starfsemina.  Það er glórulaus hegðun gegnvart fyrirtækjum í samkeppnisreksti á erlendri grundu, og jafnstaða fyrirtækjanna gagnvart öðrum innlendum fyrirtækjum er með öllu fyrir borð borin. Svo langt er gengið, að líkja má skattheimtunni við eignaupptöku.  Með þessari hugmynd ráðherra að lagafrumvarpi er stigið stórt skref í átt til þjóðnýtingar, sem er hinn blauti draumur allra sósíalista, þótt þjóðnýtingar eigi sér einvörðungu hrakfallasögu. 

Fremsti fræðimaður landsins á sviði hagfræði sjávarútvegs skilaði umsögn í samráðsgátt um téð afkvæmi sósíalistans, og birti Morgunblaðið nokkur atriði þaðan þann 18. janúar 2024 undir fyrirsögninni: 

"Frumvarpið veiki sjávarútveginn":

"Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í umsögn um drög Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að frumvarpi til laga um sjávarútveg, sem sjá má í samráðsgátt stjórrnvalda, að þar sé ekki gerð gangskör að því að bæta stjórnun fiskveiða og gera þær skilvirkari þannig, að framlag þeirra í þjóðarbúið geti vaxið. Þess í stað sé haldið áfram á þeirri braut að þrengja að fyrirtækjum í sjávarútvegi, leggja á þau auknar byrðar og hækka enn frekar sérstaka og brenglandi skattheimtu á þau.

Ragnar segir afleiðingarnar óhjákvæmilega verða annars vegar veikari sjávarútvegur, sem mun, þegar fram í sækir, ekki geta staðizt samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða, sem ekki þurfa að bera svona byrðar, og verður því að gefa eftir í samkeppninni um afla og á fiskmörkuðum í heiminum, og hins vegar minna framlag sjávarútvegsins í þjóðarbúið með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir alla landsmenn." 

Vinnubrögð ráðuneytis, sem leiða til þeirra illu afleiðinga fyrir þjóðarhag, sem prófessorinn fyrrverandi lýsir hér að ofan, eru forkastanleg og ábyrgðarlaus.  Þau eru eins laus við faglega nálgun í þágu lands og þjóðar og hægt er að hugsa sér og eins löðrandi í pólitískum geðþótta af vinstri vængnum og hugsazt getur.  Slík vinnubrögð verðskulda þá umsögn, að þau grafi undan grunnatvinnuvegi landsmanna. 

"Ragnar gerir einnig athugasemd við mjög mikla hækkun á gildandi veiðigjaldi, sem frumvarpsdrögin leggja til. 

Í fyrsta lagi er lagt til, að veiðigjald á uppsjávarfisk verði hækkað úr 33 % af gjaldstofni í 45 %. 

Í öðru lagi verður hætt að heimila frádrátt veiðigjalds frá hefðbundnum tekjuskatti.  Það samsvari 25 % - 60 % hækkun á virku veiðigjaldshlutfalli efir því, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki er metinn (tekjuskattur á fyrirtæki árið 2023 var 20 % og fjármagnsskattur 22 %.  Skattur á útgreiddan arð var því 37,6.). 

Í þriðja lagi gera frumvarpsdrögin ráð fyrir, að virkt tekjuskattshlutfall á sjávarútvegsfyrirtæki verði 53 % og 70,6 % á botnfiskveiðar og 65 % og 82,6 % á uppsjávarveiðar, en virka tekjuskattshlutfallið er summa venjulega tekjuskattshlutfallsins, 20 % og 37,6 % og veiðigjaldsins, sem er 33 % á botnfiskveiðar og 45 % á uppsjávarveiðar.  Bendir Ragnar á, að hlutföll séu svo há, að margir myndu kenna það við ofurskatta."

Skattheimta af þessu tagi er gjörsamlega ótæk og jaðrar við að vera stjórnarskrárbrot, því að hún er eiginlega eignaupptaka ríkisins.  Þar að auki er hún gróft brot á jafnræðisreglu, sem fyrirtækin eiga rétt á að njóta gagnvart skattheimtu. Að fara fram með nokkuð eins og þetta vitnar um pólitískt ólæsi, því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt þetta og ekki setið í ríkisstjórn með ráðherra, sem leggur aðra eins óhæfu fram. 

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í ágúst 2023 samþykkti þetta um ríkisfjármál og skatta:

"Skattkerfisbreytingar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um á síðustu 10 árum, hafa fyrst og fremst miðað að því að einfalda skattkerfið, létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun.  Halda verður áfram á sömu braut og huga sérstaklega að barnafjölskyldum, m.a. með breytingum á barnabótakerfinu og hækkun hámarksgreiðslu í fæðinggarorlofi.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn frekari álögum á fólk og fyrirtæki."

Þarna eru tekin af öll tvímæli um það, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki fekari skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, þótt undantekning hafi verið gerð með það vegna neyðarástands í Grindavík.  Þannig mátti Svandísi Svavarsdóttur vera það ljóst, að hún væri komin út á hála braut stjórnarslita með ofurskattlagningu á sjávarútveginn, sem í frumvarpsdrögum hennar felast.  Pólitísku raunsæi er ekki fyrir að fara, heldur vaðið áfram í blóra við niðurstöðu undirbúningsvinnunnar fyrir óþarft frumvarp og í blóra við öll helztu hagsmunafélög, sem að sjávarútvegi koma.  Þarna er einsýni og pólitísku ofstæki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs rétt lýst.    

 

  

 

                                                                                                                           


Heilbrigðiskerfi Vesturlanda eiga í djúpstæðum vanda

Með hækkandi meðalaldri og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara yfir 65 ára aldri stefna heilbrigðiskerfi Vesturlanda í þrot.  Þetta á í ríkum mæli við á Íslandi.  Þjóðin er ung, en "eldist hratt" og er ekki tiltakanlega meðvituð um hollt líferni, matarræði og hreyfingu, eins og útlitið ber með sér.  Þess vegna stefnir í óefni, bæði með hina opinberu þjónustu og heildarkostnað hins opinbera við að fást við sjúkdóma borgaranna. Ekki hefur landlæknir bætt úr skák í verki, þótt heimasíða embættisins gæti bent til annars. Þetta embætti varð sér þokkalega til skammar, þegar fréttist af úkraínskum sálfræðingi hérlendis, sem sótti um starfsleyfi til embættisins.  Það brást við með því að senda inn beiðni um umsögn til rússneskra yfirvalda.  Eru engin mörk á heimsku embættismanna ?

Þegar fárið geisaði hér 2020-2021, sem nefnt er COVID-19, hér bara Kófið, þá stóð embættið og undirembætti þess, Sóttvarnalæknir, fyrir móðursýkislegri áróðursherferð fyrir alls kyns skaðlegum frelsisskerðingum og bólusetningum með handónýtum og skaðlegum tilraunabóluefnum (m-RNA), og heilbrigðisráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, gaf út reglugerðir á færibandi samkvæmt forskrift þessara embætta. Það þarf að fara ofan í saumana á þessari embættisfærslu hérlendis til að draga af henni lærdóma, því að fleiri faraldrar munu berast hingað til lands og verða skeinuhættari en Kófið.  Þá þarf löggjöfin og viðhorfin í ráðuneytinu og embættum þess að vera heilbrigðari og sjálfstæðari en raun var á í Kófinu.  

Ef viðhorf dr Janusar Guðlaugssonar til heilsueflingar aldraðra næðu meiri hljómgrunni hérlendis, er engum vafa undirorpið, að eldri borgarar landsins væru við betri heilsu nú en raun er á.  Versti óvinurinn er leti og sérhlífni ofan á óhollt matarræði, og þá er auðvitað voðinn vís og stutt í að verða lyfjaþræll, sem er ávísun á eymd og volæði.  Vitlaust líferni lendir fljótlega í fanginu á vanbúnu og þunglamalegu að mestu ríkisreknu heilbrigðiskerfi eða réttara sagt sjúklingakerfi ríkissjóðs. 

Morgunblaðið telur, að nýta megi betur og sóa minna í þessu kerfi, en hvernig ?  Forystugrein blaðsins 9. janúar 2024 hét:

"Heilbrigðara heilbrigðiskerfi":

"Hið viðtekna svar við vandanum er, að auka verði fjárframlög, en þó gerðist þetta [danska heilbrigðiskerfinu hrakaði frá seinustu aldamótum - innsk. BJo], um leið og mjög var bætt í opinber fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og fastráðnum læknum fjölgaði um 75 %.  Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Dönum hefur vissulega fjölgað á þessum tíma, en alls ekki í sama mæli [og kostnaðurinn - innsk. BJo], aðeins um 11 %.  Þjóðin hefur líka gamlazt - um aldamót voru um 14 % Dana yfir 65 ára aldri, en eru nú 19 % - sem er talsvert, en vel viðráðanlegt. 

Framfarir í læknavísindum hafa fjölgað meðferðarúrræðum og aukið eftirspurn, en framfarirnar hafa líka leitt til skjótari og auðveldari lækninga.  Meira eftirlit og betri og snemmbærari greiningar minnka einnig kostnað, og miklar vonir eru bundnar við gervigreind. 

Flest bendir til, að vandi danska heilbrigðiskerfisins sé því ekki fjárskortur, heldur sóun.  Að kerfið sé of dýrt og mannafli illa nýttur; að þröngar faglegar skilgreiningar verði til þess, að léttvægari verkefnum sé ofhlaðið á þá, sem hafa mesta menntun og reynslu, en starfskraftar þeirra, sem hafa minni menntun og reynslu, vannýttir.  Að aðalvandinn felist í stjórnun og skipulagi." 

Hvers konar sjúkdómseinkennum rekstrar er verið að lýsa þarna ?  Þetta eru dæmigerð einkenni opinbers rekstrar, sem harla ólíklegt er, að finnist á samkeppnismarkaði í einkarekstri. Það er ríkinu um megn að stunda svona flókinn rekstur með sæmilegu móti, og skiptir þá ekki máli, hvaða land á í hlut.  Byltingar éta börnin sín, svo að affarasælast er að brjóta rekstur heilbrigðiskerfisins upp og bjóða hann út í stærðum, sem taldar eru henta útboðum.  Sjúkratryggingar Íslands yrðu verkkaupinn af íslenzkum einkageira á heilbrigðissviði.  Sparnaður kæmi líklega strax fram, og ekki þarf að óttast gæðarýrnun, enda yrði eftirlit með gæðunum. 

"Skipulagsvandinn verður aðeins leystur, ef stjórnendur og starfsfólk hafa rétta hvata, hvata í kerfinu sjálfu, þar sem mælikvarðinn er ekki fjárframlög, heldur árangurinn. 

Því er erfitt að koma við í miðstýrðu, opinberu kerfi, þar sem ríkið er bæði greiðandi og þjónustuveitandi.  Í Danmörku hefur verið stungið upp á, að allir veitendur og birgjar - opinberir sem einkafyrirtæki - sitji við sama borð, fyrir opnum tjöldum, og keppi um verkefni og innkaup án þess, að hvikað sé frá markmiðum um jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.

Eins þurfi samanburðarhæfar upplýsingar um heilbrigðisstofnanir að liggja fyrir, t.d. um árangur, mistök og legudaga; kostnað veikindadaga og starfsmannaveltu.  Bæði til að efla neytendavitund og -val og skapa sanngjarnt samkeppnisumhverfi með eðlilegum hvötum og aðhaldi.  Allir myndu njóta ávinnings þess, en sóun haldið í skefjum. 

Hreinskilin umræða um það má ekki heldur bíða á Íslandi.  Heilbrigðiskerfið er gott, en það þarf að verða miklu betra.  Til þess eru allir kostir."

Það eru áhöld um það, hvort íslenzka heilbrigðiskerfið geti talizt gott nú um stundir. Þessi danska tillaga um allsherjar samkeppni um heilbrigðisþjónustu til að vega að rótum stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera vegna hennar er góðra gjalda verð og kann að vera framkvæmanleg í Danmörku, en hér gæti hún verið of stór í sniðum til að komast nokkurn tímann til framkvæmda.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stríð í Evrópu - afturhvarf til fortíðar

Árið 1938 var haldinn fundur fjögurra þjóðarleiðtoga í hinni fögru höfuðborg Bæjaralands, München, einræðisherrans og ríkisleiðtogans Adolfs Hitlers og hins ítalska bandamanns hans Benitos Mussolinis, einræðisherra Ítalíu, annars vegar og hins vegar Nevilles Chamberlain, forsætisráðherra Breta, og forsætisráðherra Frakka, Daladier, en 2 síðar nefndu þjóðirnar voru aðilar að Versalasamningunum 1919. Þetta voru nauðungarsamningar, troðið upp á Þjóðverja í refsingarskyni og til að halda þessari þjóð niðri með feiknarlegum stríðsskaðabótum, sem standa áttu yfir til 1960.  

Á þessum tíma var forystufólk lýðræðisþjóðanna haldið þeim grundvallarmisskilningi, að hægt væri að seðja landagræðgi einræðisstjórnar í útrás með skák af öðru landi.  Þetta er ekki hægt, því að einræðisstjórn stórveldis rekur heimsvaldastefnu leynt og ljóst, og í tilviki nazistastjórnarinnar í Berlín var það "Drang nach Osten" í auðugt svæði Úkraínu að náttúruauðlindum, sem ríkisleiðtoginn hafði boðað í Mein Kampf.  

Þýzkaland rak fyrst þá stefnu að innlima þýzkumælandi svæði Evrópu í Stór-Þýzkaland. Í tilviki Münchenarfundarins voru Þýzkalandi eftirlátin Súdetahéruð Tékkóslóvakíu, sem var veitt fullveldi í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri. Hitler hafði skynjað á Münchenarfundinum, að forysturíki lýðræðisríkja Evrópu vildu friðmælast við vaxandi Þýzkaland og mat það svo, að þau væru svo ófús til að grípa til vopna gegn Þýzkalandi, að jafnvel samningsbrot og nýir landvinningar mundu ekki duga til.  Þess vegna skipaði hann Wehrmacht strax að gera áætlun um hertöku allrar Tékkóslavakíu, og fáeinum mánuðum eftir yfirlýsingu Chamberlains í brezka þinginu um "frið á vorum tímum" lét Hitler til skarar skríða gegn tékkóslóvakíska hernum, sem var töluvert vel vopnum búinn, en Wehrmacht átti samt auðveldan leik, sennilega vegna afskiptaleysis Vesturveldanna og svika innan Tékkóslóvakíu.  Hitler komst upp með þennan gjörning og "Anschluss" eða sameiningar Þýzkalands og Austurríkis í Stór-Þýzkaland á sama árinu.  Leiðin að enn frekari landvinningum í Evrópu var rudd. 

Núverandi Vesturveldi standa frammi fyrir því ótrúlega á 21. öld, að heimsvaldadraumar Rússa hafa brotizt fram, og síðan 2014 stendur Rússland í stríði við nágrannaríki sitt í vestri, Úkraínu, og hefur þegar náð undir sig um 20 % landrýmis Úkraínu, þ.á.m. hinn þýðingarmikla Krímskaga fyrir yfirráðin á Svartahafi og botni þess, en þar undir munu vera auðlindir, eins og í jörðu í austurhluta landsins. Árið 2006 réðust Rússar á Georgíu og tóku sér sneið af landinu. Skefjalaust stíð hefur svo staðið yfir frá innrás Rússa í Úkraínu 24.02.2022 með um 300 k manna liðsafla og ógrynni tækja og tóla.  Úkraínumenn hafa staðið sig mjög vel í vörninni og sums staðar náð til baka landi sínu.

Óskiljanlegar vöflur hafa verið á Vesturveldunum í hernaðaraðstoðinni við Úkraínu.  Ef Vesturveldin hefðu tekið í upphafi þá sjálfsögðu stefnu m.t.t. eigin öryggis og friðar í Evrópu að afhenda Úkraínumönnum þau vopn og þjálfa þá á þau, sem þeir hafa beðið um og duga mundu Úkraínumönnum til að reka glæpsamlegan Rússaher af höndum sér og ganga frá flugher þeirra og ofansjávarflota, sem skotið hafa flugskeytum á skotmörk, sem ekkert hernaðarlegt gildi hafa, þá væri átökum í Úkraínu lokið núna, og Rússar ættu nóg með að glíma við innanlandsvanda og væntanlega uppreisnir kúgaðra minnihlutahópa í Síberíu og Kákasus. 

Það er eins og leiðtogar Vesturveldanna hafi ekki dregið rétta lærdóma af sögunni.  Staða Úkraínu nú er svipuð og staða Tékkóslóvakíu 1938.  Vesturveldin brugðust þó snöfurmannlegar við 2022 en 1938, en hálfkákið og óákveðnin eru óviðunandi og bjóða hættunni heim. 

Þann 12. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu forystugrein undir fyrirsögninni:

"Varnir Evrópu".  

"Tómlæti Evrópuríkja á borð við Þýzkaland og Frrakkland um eigin varnir er þar mikið áhyggjuefni, hvað þá að þau hafi burði til þess að halda fjarlægum, en lífsnauðsynlegum, aðfangaleiðum opnum líkt og í Rauðahfi.

Eins og Úkraínumenn þekkja er Joe Biden hikandi í hernaðarstuðningi, en Donald Trump, sem vel kann að sigra hann í haust, hefur ítrekað, að Evrópa geti ekki reitt sig á hernaðarmátt Bandaríkjanna, ef hún er óviljug til að kosta eigin varnir.  Ef Kína léti til skarar skríða gegn Taívan, er líka alls óvíst, að Bandaríkin væu fær um að sinna vörnum Evrópu, eins og þyrfti. 

Herði Evrópuríkin sig ekki í stuðningi við Úkraínu og hefji þau ekki tafarlausa uppbyggingu á eigin vörnum, kann það að reynast um seinan eftir 3-5 ár að ætla að verja friðinn."

Þetta er hárrétt hjá Morgunblaðinu og furðulegt, að á löggjafarsamkomunum í Evrópu skuli ekki hafa myndazt samstaða og skilningur á stöðunni og hlutskipti lýðræðisríkjanna, en það er að verjast ásælni einræðisríkjanna.  Til "að verja friðinn" þarf tæknilega, viðskiptalega og hernaðarlega yfirburði gagnvart einræðisríkjunum, en þau verstu þeirrar tegundar um þessar mundir eru Rússland, Íran og Kína. 

Donald Trump er fasisti og þess vegna vargur í véum og sem slíkur stórhættulegur öryggi Vesturveldanna.  Hvers konar spark í afturendann þarf kratinn Olaf Scholz eiginlega til að láta gjörðir fylgja orðum ("die Wende") og endurvígbúa Þýzkaland, ef ógnin um einangrunarstefnu Bandaríkjanna dugar ekki.  Donald Trump mun ella svíkja Evrópu í hendur fasistanum Putin í Kreml, ef hann kemst í aðstöðu til þess.  Þetta eru miklir viðsjártímar. 

Eina gamla stórveldið í vestanverðri Evrópu, sem stendur sína pligt, er Bretland.  Útgjöld þeirra til hermála ná lágmarks viðmiði NATO, og Bretar hafa hvað eftir annað brotið ísinn í hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Nú nýverið var Rishi Sunak í Kænugarði og undirritaði þar gagnkvæman varnarsáttmála Bretlands og Úkraínu. 

Þann 13. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ninu L. Khrushcheva, prófessor í alþjóðamálum við "The New School".  Hún bar fyyrirsögnina:

"Vesturlönd verða að horfast í augu við raunveruleikann í Úkraínu".

Niðurlag hennar var efirfarandi:

"Það eru 3 sennilegar útkomur þessara aðstæðna:

Í fyrsta lagi skuldbinda Vesturlönd sig aftur til að styðja Úkraínu.  En pólitískar hindranir eru miklar.  Andstaða Repúblikana í Bandaríkjunum og ungverskt og nú síðast slóvakískt neitunarvald í ESB.  Jafnvel þótt þeim verði rutt úr vegi, mun Úkraína eiga í erfiðleikum með að manna herafla sinn með nýjum hermönnum.  

Í annarri atburðarás legði NATO til herafla í Úkraínu.  Þótt Pútín hafi aldrei haft í hyggju að ráðast inn í aðildarríki NATO [það er ekki viðhorfið á austurjaðri NATO-innsk. BJo], gæti umræðan um, að rússneskur sigur í Úkraínu myndi leiða til annarra rússneskra innrása, orðið til að réttlæta aðkomu vestræns herafla.  Hættan er sú, að Stalíngrad-áhrifin myndu magnast; Rússar myndu rísa upp til að verja móðurlandið, og óstöðugleiki myndi yfirtaka Evrópu.

Í þriðju atburðarásinni fyndu Vesturlönd leiðir til að eiga  samskipti við Kreml.  Rússland er langt frá því að vera óbrjótanlegt, en það er ekki á barmi hruns, og Pútín á sér líklega nokkur ár framundan sem forseti.  Jafnvel þótt honum yrði vikið frá völdum, mundi djúpstætt vantraust Rússa á Vesturlandabúum ekkert minnka.  Í ljósi þessa og hins harða veruleika, að ólíklega muni Úkraína endurheimta allt landsvæði sitt, ættu Vesturlönd að einbeita sér að því að efla varnir Úkraínu og búa sig undir að grípa hvert tækifæri, sem gefst, til að taka þátt í raunhæfum viðræðum við Kreml."

Það er ekkert til, sem heitir raunhæfar friðarviðræður við Kreml.  Ef samið er um vopnahlé við Kremlverja áður er rússneski herinn hefur verið rekinn út úr Úkraínu allri, er um friðkaup við glæpsamlegan einræðisherra að ræða, sem allir ættu að vita, að veitir bara svikalogn þar til útþensluríkið fylkir liði á ný og ræðst aftur til atlögu.  Til að Rússar sitji á sárs höfði á eigin torfu, verða þeir að skilja, að þeir eru ekki í neinum færum til að verða einhvers konar "herraríki" í Evrópu líkt og á dögum Ráðstjórnarríkjanna.  Ráðstjórnarríkin verða aldrei endurvakin, enda er hatrið og fyrirlitningin á Rússum orðið mikið í Austur-Evrópu vegna glæpsamlegs framferðis í Úkraínu.  

 

 

 


Ríkisbúskapur í hönk

Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar.  Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum.  Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.  

Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð.  Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu.  Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:

"Þörf áminning".

"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi.  Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi.  Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""

Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð.  Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist.  Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. 

Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði.  Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt.  Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns.  Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum.  Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga.  Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.   

Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.

"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu.  Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar.  Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum.  Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""

Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum.  Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital".  Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á.  "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.  

  

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband