Heilbrigðiskerfi Vesturlanda eiga í djúpstæðum vanda

Með hækkandi meðalaldri og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara yfir 65 ára aldri stefna heilbrigðiskerfi Vesturlanda í þrot.  Þetta á í ríkum mæli við á Íslandi.  Þjóðin er ung, en "eldist hratt" og er ekki tiltakanlega meðvituð um hollt líferni, matarræði og hreyfingu, eins og útlitið ber með sér.  Þess vegna stefnir í óefni, bæði með hina opinberu þjónustu og heildarkostnað hins opinbera við að fást við sjúkdóma borgaranna. Ekki hefur landlæknir bætt úr skák í verki, þótt heimasíða embættisins gæti bent til annars. Þetta embætti varð sér þokkalega til skammar, þegar fréttist af úkraínskum sálfræðingi hérlendis, sem sótti um starfsleyfi til embættisins.  Það brást við með því að senda inn beiðni um umsögn til rússneskra yfirvalda.  Eru engin mörk á heimsku embættismanna ?

Þegar fárið geisaði hér 2020-2021, sem nefnt er COVID-19, hér bara Kófið, þá stóð embættið og undirembætti þess, Sóttvarnalæknir, fyrir móðursýkislegri áróðursherferð fyrir alls kyns skaðlegum frelsisskerðingum og bólusetningum með handónýtum og skaðlegum tilraunabóluefnum (m-RNA), og heilbrigðisráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, gaf út reglugerðir á færibandi samkvæmt forskrift þessara embætta. Það þarf að fara ofan í saumana á þessari embættisfærslu hérlendis til að draga af henni lærdóma, því að fleiri faraldrar munu berast hingað til lands og verða skeinuhættari en Kófið.  Þá þarf löggjöfin og viðhorfin í ráðuneytinu og embættum þess að vera heilbrigðari og sjálfstæðari en raun var á í Kófinu.  

Ef viðhorf dr Janusar Guðlaugssonar til heilsueflingar aldraðra næðu meiri hljómgrunni hérlendis, er engum vafa undirorpið, að eldri borgarar landsins væru við betri heilsu nú en raun er á.  Versti óvinurinn er leti og sérhlífni ofan á óhollt matarræði, og þá er auðvitað voðinn vís og stutt í að verða lyfjaþræll, sem er ávísun á eymd og volæði.  Vitlaust líferni lendir fljótlega í fanginu á vanbúnu og þunglamalegu að mestu ríkisreknu heilbrigðiskerfi eða réttara sagt sjúklingakerfi ríkissjóðs. 

Morgunblaðið telur, að nýta megi betur og sóa minna í þessu kerfi, en hvernig ?  Forystugrein blaðsins 9. janúar 2024 hét:

"Heilbrigðara heilbrigðiskerfi":

"Hið viðtekna svar við vandanum er, að auka verði fjárframlög, en þó gerðist þetta [danska heilbrigðiskerfinu hrakaði frá seinustu aldamótum - innsk. BJo], um leið og mjög var bætt í opinber fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og fastráðnum læknum fjölgaði um 75 %.  Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Dönum hefur vissulega fjölgað á þessum tíma, en alls ekki í sama mæli [og kostnaðurinn - innsk. BJo], aðeins um 11 %.  Þjóðin hefur líka gamlazt - um aldamót voru um 14 % Dana yfir 65 ára aldri, en eru nú 19 % - sem er talsvert, en vel viðráðanlegt. 

Framfarir í læknavísindum hafa fjölgað meðferðarúrræðum og aukið eftirspurn, en framfarirnar hafa líka leitt til skjótari og auðveldari lækninga.  Meira eftirlit og betri og snemmbærari greiningar minnka einnig kostnað, og miklar vonir eru bundnar við gervigreind. 

Flest bendir til, að vandi danska heilbrigðiskerfisins sé því ekki fjárskortur, heldur sóun.  Að kerfið sé of dýrt og mannafli illa nýttur; að þröngar faglegar skilgreiningar verði til þess, að léttvægari verkefnum sé ofhlaðið á þá, sem hafa mesta menntun og reynslu, en starfskraftar þeirra, sem hafa minni menntun og reynslu, vannýttir.  Að aðalvandinn felist í stjórnun og skipulagi." 

Hvers konar sjúkdómseinkennum rekstrar er verið að lýsa þarna ?  Þetta eru dæmigerð einkenni opinbers rekstrar, sem harla ólíklegt er, að finnist á samkeppnismarkaði í einkarekstri. Það er ríkinu um megn að stunda svona flókinn rekstur með sæmilegu móti, og skiptir þá ekki máli, hvaða land á í hlut.  Byltingar éta börnin sín, svo að affarasælast er að brjóta rekstur heilbrigðiskerfisins upp og bjóða hann út í stærðum, sem taldar eru henta útboðum.  Sjúkratryggingar Íslands yrðu verkkaupinn af íslenzkum einkageira á heilbrigðissviði.  Sparnaður kæmi líklega strax fram, og ekki þarf að óttast gæðarýrnun, enda yrði eftirlit með gæðunum. 

"Skipulagsvandinn verður aðeins leystur, ef stjórnendur og starfsfólk hafa rétta hvata, hvata í kerfinu sjálfu, þar sem mælikvarðinn er ekki fjárframlög, heldur árangurinn. 

Því er erfitt að koma við í miðstýrðu, opinberu kerfi, þar sem ríkið er bæði greiðandi og þjónustuveitandi.  Í Danmörku hefur verið stungið upp á, að allir veitendur og birgjar - opinberir sem einkafyrirtæki - sitji við sama borð, fyrir opnum tjöldum, og keppi um verkefni og innkaup án þess, að hvikað sé frá markmiðum um jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.

Eins þurfi samanburðarhæfar upplýsingar um heilbrigðisstofnanir að liggja fyrir, t.d. um árangur, mistök og legudaga; kostnað veikindadaga og starfsmannaveltu.  Bæði til að efla neytendavitund og -val og skapa sanngjarnt samkeppnisumhverfi með eðlilegum hvötum og aðhaldi.  Allir myndu njóta ávinnings þess, en sóun haldið í skefjum. 

Hreinskilin umræða um það má ekki heldur bíða á Íslandi.  Heilbrigðiskerfið er gott, en það þarf að verða miklu betra.  Til þess eru allir kostir."

Það eru áhöld um það, hvort íslenzka heilbrigðiskerfið geti talizt gott nú um stundir. Þessi danska tillaga um allsherjar samkeppni um heilbrigðisþjónustu til að vega að rótum stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera vegna hennar er góðra gjalda verð og kann að vera framkvæmanleg í Danmörku, en hér gæti hún verið of stór í sniðum til að komast nokkurn tímann til framkvæmda.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband