Hefðbundin viðhorf á hverfanda hveli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkjandi stjórnmálaviðhorf eru í uppnámi. Þegar breyttur samskiptamáti fólks og bætt aðgengi að upplýsingum eru höfð í huga, þarf ekki að undra, að viðhorf almennings til stjórnmálanna breytist samhliða.  Víða erlendis bætast við afkomuleg vandamál af völdum stöðnunar hagkerfanna, og sums staðar er atvinnuleysið tvímælalaust hátt yfir þeim mörkum, sem við Íslendingar mundum kalla þjóðfélagsböl.  Hérlendis er mjög á brattann að sækja fyrir ungt fólk með fjármögnun húsnæðis, svo að nokkrar rætur þjóðfélagsumróts séu tíndar til.

Vaxandi urgur í miðstéttinni hefur víða leitt til aukins fylgis jaðarflokka á báðum vængjum stjórnmálanna.  Í Noregi er flokkur hægra megin við Hægri flokkinn í ríkisstjórn, og í Danmörku hefur róttækur hægri flokkur töluverð áhrif á stjórnarstefnu ríkisstjórnar í minnihluta á danska þinginu. 

Svíar og Finnar hafa enn ekki hleypt Svíþjóðardemókrötunum og Sönnum Finnum til valda, en hinir fyrr nefndu hafa hlotið fylgi í skoðanakönnunum á borð við Pírata á Íslandi.  Í Bretlandi hafa róttækir vinstri menn lagt undir sig Verkamannaflokkinn, og reyna mun á málstað Brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, ESB.  Í Þýzkalandi vex Alternative für Deutschland ásmegin, en hann er hægra megin við CDU/CSU, flokka Angelu Merkel og Horst Seehofers, sem að sama skapi missa fylgi. Fylgi sópaðist að AfD í þremur fylkiskosningum í marz 2016, og var úrslitum kosninganna líkt við stjórnmálalega jarðskjálfta í Þýzkalandi.  Þar er þó efnahagur góður og atvinnuleysi tiltölulega lítið, en lítt heftur straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem flestir aðhyllast Múhameðstrú, er tekinn að valda almenningi í Þýzkalandi áhyggjum, og yfirvöldin ráða ekki við móttöku þess yfirþyrmandi fjölda, sem komizt hefur inn fyrir landamæri Þýzkalands, sem hafa verið opin samkvæmt Schengen-ráðslaginu. Komið hefur í ljós, að upp til hópa er um að ræða lítt menntað, jafnvel ólæst fólk, sem gríðarlega dýrt yrði, og sennilega ómögulegt í flestum tilvikum, að aðlaga þýzku þjóðfélagi, enda er Mutter Merkel farin að tala um, að fólkið verði að fara til baka til síns heima, þegar friðvænlegra verður þar.  Þetta var líka ætlunin með "Gastarbeiter", sem tóku þátt í uppbyggingu Vestur-Þýzkalands eftir heimsstyrjöldina seinni, en flestir þeirra ílentust með fjölskyldum sínum í Vestur-Þýzkalandi, en hafa aðlagazt misvel að þýzku samfélagi, en hafa myndað þar sín eigin samfélög. 

Í Frakklandi stefnir formaður Þjóðfylkingarinnar, Marie Le Pen, á forsetabústaðinn, Elysée, og gæti hreppt hann í næstu forsetakosningum miðað við ástandið í Frakklandi. 

Í Grikklandi hefur róttækur vinstri flokkur verið við völd um hríð, en Grikkland er efnahagslega ósjálfbært og er eins og tifandi tímasprengja. 

Á Spáni er stjórnarkreppa eftir síðustu þingkosningar, og Katalónar í Norð-Austurhorni Spánar, sem tala frönskuskotna spænska mállýzku, vilja aðskilnað frá ríkisheildinni.  Á Spáni sækir systurflokkur Syriza, Podemos, í sig veðrið. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur vinstri öldungurinn Bernie Sanders náð eyrum ótúlega margra, einkum ungra Demókrata, og velgt Hillary Clinton, mótframjóðanda sínum, undir uggum.  Hefur Bernie náð óvæntum árangri í forkosningum margra ríkja BNA. Repúblikanamegin eru róttkir hægrimenn atkvæðamestir. Donald Trump er ólíkindatól, sem kann að spila á mikla þjóðfélagsóánægju í BNA, sem stafar m.a. af töpuðum störfum til Kína og víðar og (ólöglegra) innflytjenda frá Mexikó.

 Allt hefðu þetta þótt vera firn mikil um síðustu aldamót, en fyrri hluti 21. aldarinnar býður greinilega upp á meiri þjóðfélagsróstur á Vesturlöndum en seinni hluti 20. aldarinnar gerði. 

Á Íslandi blasir eftirfarandi staða við samkvæmt skoðanakönnunum:

  • Vinstra mixið:            25 %
  • Borgaraflokkarnir:        40 % (tæplega)
  • Píratar (sjóræningjarnir) 35 % (rúmlega)

Hvaða ályktun og lærdóm skyldi nú mega draga af þessum tölum, sem eru ískyggilegar fyrir stjórnmálalegan stöðugleika á Íslandi ? 

Blekbóndi túlkar þær þannig, að þær séu ákall kjósenda um nývæðingu lýðræðis í átt að auknu beinu lýðræði á kostnað hins hefðbundna fulltrúalýðræðis.  Kjósendur vilja fá beinan aðgang að ákvarðanatöku í einstökum málum, ef þeim býður svo við að horfa.  

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga að bregðast við þessum breytta tíðaranda með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, sem þýðir, að breyta þarf Stjórnarskránni.  Blekbóndi telur, að slá eigi tvær flugur í einu höggi og gjöra umgjörð forsetaembættisins á Bessastöðum skýrari og embættið veigameira en nú er án þess að hreyfa við meginstjórnarfyrirkomulaginu, sem er þingbundin ríkisstjórn:

  1. Aðalhlutverk forseta lýðveldisins verði að gæta þess, að lagasetning þingsins sé í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins. Hann verði þannig eins konar verndari Stjórnarskráarinnar. Ef hann telur vafa á því, að lögin standist Stjórnarskrá, skal hann fresta staðfestingu laganna með því að vísa þeim til þriggja manna Stjórnlagaráðs, þar sem hann skipar formann, Hæstiréttur annan og háskólarnir, þar sem lagadeildir eru, skipa þriðja, til þriggja ára í senn. Stjórnlagaráð skal úrskurða innan viku um vafamál, sem forseti lýðveldisins vísar til þess, og ef úrskurður er á þá lund, að lögin standist Stjórnarskrá, ber forseta að staðfesta þau samdægurs með undirskrift sinni, annars vísar hann þeim aftur til þingsins.  Forseti getur ekki vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema hann fái um það skriflega áskorun frá fjölda, sem nemur 20 % af atkvæðisbæru fólki í síðustu Alþingiskosningum.
  2. Kjósendur til Alþingis skulu geta farið fram á það við forseta lýðveldisins, að hann láti semja frumvarp til laga um tiltekið efni í ákveðnu augnamiði.  Ef fjöldi, sem nemur 20 % kjósenda í síðustu Alþingiskosningum, hvetur hann til þess skriflega, skal hann verða við því og fela forseta Alþingis að leggja málið fyrir þingið.  Slíkum lögum frá Alþingi skal hann geta synjað staðfestingar og fara þau þá í endurskoðun hjá þinginu, eða þingið efnir til þjóðaratkvæðis um þau.   
  3. Að afloknum Alþingiskosningum metur forseti lýðveldisins, hverjum er eðlilegast að fela stjórnarmyndunarumboð með tilliti til úrslita kosninganna.  Ef ekki tekst að mynda starfhæfa ríkisstjórn innan 6 vikna frá kjördegi, fellur stjórnarmyndunarumboð til forseta, sem þá skal skipa ríkisstjórn og hefur til þess frjálsar hendur.  Þingrofsvaldið skal aðeins vera hjá forseta lýðveldisins. 
  4. Forseti Alþingis er staðgengill forseta lýðveldisins og aðrir ekki.  Forseti Alþingis ræður dagskrá þingsins og getur stytt umræðutíma eða tekið mál af dagskrá, ef honum þykir þingmenn misnota starfstíma þingsins, t.d. með því að setja á ræður um mál utan dagskrár eða með því að teygja lopann. Hann getur hvenær sem er takmarkað ræðutíma einstakra þingmanna í hverri umræðu, eins og hann telur nauðsynlegt fyrir eðlilega framvindu frumvarps eða þingsályktunartillögu. Forseta Alþingis ber að hlúa að virðingu þingsins í hvívetna. 
  5. Ef minnihluti Alþingis, 40 % þingmanna eða 25 þingmenn hið minnsta m.v. heildarfjölda þingmanna 63, samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, þó ekki um fjárlög, þá skal sú tillaga fara til forseta lýðveldisins til samþykktar eða synjunar.  Í tillögunni skal setja fram nákvæmt orðalag á spurningum, sem leggja skal fyrir þjóðina.  Synjun forseta skal fylgja rökstuðningur til Alþingis, en samþykkt tillaga fer til ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar.
  6. Annað meginhlutverk forseta lýðveldisins skal vera að varðveita stöðugleika, þjóðfélagslegan og efnahagslegan.  Ef honum virðist Alþingi vera þar á rangri leið, skal hann leysa þingið upp, og verður þá efnt til kosninga.  Kjörtímabil forseta skal vera 6 ár, en hann skal geta stytt það, kjósi hann svo, og hann má ekki sitja lengur en 12 ár.  

Hér er aðeins drepið á örfá atriði.  Réttast er að fá hópi stjórnlagafræðinga slíkt afmarkað verkefni um Stjórnarskrárbreytingar.  Þeir yfirfara þá alla Stjórnarskrána m.t.t. til breytinga, sem óskað er eftir, til að tryggja innbyrðis samræmi í Stjórnarskránni, og senda tillögurnar síðan Alþingi til umfjöllunar.  Í þessu tilviki þarfnast allir liðir um forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslur endurskoðunar. 

Stjórnarskráin er m.a. til að tryggja frelsi og mannréttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera valdi og gagnvart öðrum einstaklingum og félögum.  Í þessu sambandi er rétt að hafa ákvæði í 65. grein frá árinu 1995 í huga, en það hefur jafnvel verið sniðgengið við lagasetningu síðan:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna." 

Það kemur einnig til greina við næstu endurskoðun Stjórnarkráar að setja þar inn ákvæði um skipan þriggja dómsstiga í landinu, og hvernig ráðningu dómara skuli haga á öllum þremur dómsstigum. Þá þarf að skilgreina verkaskiptingu á milli Stjórnlagaráðs og Hæstaréttar varðandi lög, sem kunna að brjóta í bága við Stjórnarskrána. Til álita kemur, að forseti lýðveldisins skipi Hæstaréttardómara með sjálfstæðum hætti. 

Þann 1. desember 2015 ritaði Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, mjög góða grein í Morgunblaðið:

"Hverju megum við ráða". 

Í niðurlagi greinarinnar sagði hann:

"Á meðan báknið vex, þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi.  Þegar haft er í huga, hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru, þá verður að telja með ólíkindum, að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er.  Ef við eigum ekki að enda sem þjóð, sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um, að snúa þurfi þessari þróun við.  Þörf er á, að fólk geti valið stjórnmálamenn, sem lofa að gera minna og leyfa meira.  Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa."

Sé þetta sett í samhengi stjórnarskrárbreytinga, er þörf á breytingu reglna um kjör til Alþingis í þá veru að gefa kjósendum kost á að kjósa bæði flokk og einstaklinga á öðrum listum en þeim, sem kosinn er, þ.á.m. af landslista óháðum stjórnmálaflokkunum.Fyrirmyndir um persónukjör má t.d. finna í Þýzkalandi.

Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði 3. desember 2015 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Útrýmum fátækt - gerum lýðræðið nothæft". 

Þar segir svo m.a:

""James Harrington (1611-1677), enskur stjórnmálamaður, sagði á sinni tíð: "Einveldi ríkir, þegar krúnan á allt eða í það minnsta 2/3 af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir, ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut.  Eigi almenningur 2/3 eða meira, ríkir lýðræði."

Þótt margt sé breytt síðan á 17. öld, er kjarni þessarar hugsunar í fullu gildi.  Í stað krúnunnar kemur ríkið, í stað aðalsins koma auðmennirnir, en almenningur er enn almenningur.  Í stað landauðs koma allar eignir, allur auður þjóðfélagsins.

Þau sannindi eru enn góð og gild, að eignum og útdeilingu þeirra fylgja völd, en lýðræðið byggist á því, hversu vel tekst til með eignadreifingu í þjóðfélaginu. 

Valdið leitar fyrr eða síðar þangað, sem auðurinn er.  Þess vegna er tiltölulega jöfn dreifing auðsins meðal landsmanna forsenda lýðræðis. 

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga (allar eignir landsmanna, einkaeignir og opinberar eignir, samanlagt) 23,3 trilljónir (þúsund milljarðar) kr.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 trilljónir í einkaeign, en u.þ.b. 18,9 trilljónir í opinberri eigu.  Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því að eignir einstaklinga eru ekki nema um 19 %, en opinberar eignir um 81 % af heildareignum þjóðfélagsins.  Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt, þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir, að eiga 15,5 trilljónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla.  Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera fyrir hendi til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu." 

Á Íslandi eiga 30 % þjóðarinnar tæplega 80 % allra einkaeigna, en þær nema einvörðungu rúmlega 15 % heildareigna í landinu.  Við þessar aðstæður blasir við, að það er engin ástæða til að festa í sessi eða auka enn við eignarhald hins opinbera með nýjum ákvæðum í Stjórnarskrá.  Slík þjóðnýting mundi draga enn úr lýðræðislegu valdi almennings, en það er ekki einvörðungu fólgið í kosningarétti og aðkomu að einstökum ákvörðunum, heldur ekki síður, eins og Jóhann J. Ólafsson bendir á, fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og olnbogarými í samfélaginu án afskipta annarra innan marka laga og réttar, sem gilda um farsæl samskipti manna. 

Samkvæmt Hagstofunni eru um 80´000 framteljendur án nettóeignar og skulda 87 milljarða kr.  Það er miklu brýnna þjóðfélagslegt viðfangsefni að koma fleiri einstaklingum til bjargálna með möguleikum á eignamyndun en að auka við eignir ríkisins á kostnað einstaklinga og frjálsra félaga. Til að auðvelda ungu fólki þetta hefur verið bent á þá leið, að ríkissjóður leggi fram styrk til fólks, sem er að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð, allt að Mkr 10, en hætti að veita vaxtabætur og dragi úr peningaaustri í Íbúðalánasjóð.  Þetta mundi gera fleirum kleift að losna úr fátæktargildru, en fara þess í stað að safna eignum, sem veita ómetanlegt afkomuöryggi í ellinni.

 

 


Blekkjandi umræða um þróun eignaskiptingar

Það er háttur margra að hallmæla ábatadrifnu markaðshagkerfi og alþjóðavæðingu viðskiptanna og láta þá gjarna fljóta með orðaleppa um siðspillt auðvald, sem skirrist ekki við að nýta sér eymd fátæks fólks til að auka gróða sinn. Allt er það í anda úr sér genginna stéttastríðshugmynda aðalhugmyndafræðings villta vinstrisins, Karls Marx.

Þetta er sem sagt hinn dæmigerði málflutningur vinstri manna og á rætur sínar að rekja til Kommúnistaávarps Karls Marx, þar sem hann útmálaði þjóðfélagsóréttlætið í kjölfar iðnbyltingarinnar, sem ætti rætur að rekja til eignarhalds auðmanna á atvinnutækjunum, sem nýttu téð eignarhald til að kúga öreigana, og áréttaði hann síðan hina sögulegu nauðsyn á stéttabaráttu og yfirtöku öreiganna á atvinnutækjunum. 

Stjórnmálabyltingar í anda Karls Marx voru gerðar í nokkrum ríkjum, og atvinnutækin, þ.m.t. í landbúnaðinum, voru þjóðnýtt í kjölfar blóðugrar byltingar.  Öllum efnahagslegum og stjórnmálalegum völdum var með ofbeldi safnað á hendur ríkisvaldsins með sulti og seyru, frelsissviptingu  og öðrum hræðilegum afleiðingum fyrir efnahag og allt líf almennings í viðkomandi löndum.  Almenningur var hnepptur í fátæktarfjötra áratugum saman, og lagt á hann helsi ófrelsis á öllum sviðum mannlegs lífs, allt í nafni alræðis öreiganna. Enn er rekinn harður áróður fyrir stefnu, sem á rætur að rekja til þessarar hugmyndafræði og ber þess vegna dauðann í sér.   

Þrátt fyrir þessa hræðilegu sögu eru enn þeir til á Vesturlöndum og víðar, sem vilja auka sem mest yfirráð ríkisvaldsins í atvinnulífi, auka skattheimtuna og draga þannig sem mesta fjármuni í hramm ríkisvaldsins.  Á sama tíma er sáð tortryggni í garð einkaframtaksins á öllum sviðum, frá heilsugæzlu og menntun til vegagerðar, þó að öflugt, einkarekið atvinnulíf sé bezta tryggingin fyrir valddreifingu í samfélaginu, sem er brjóstvörn lýðræðisins, og jafnvel á Norðurlöndunum hafi verið farið í auknum mæli inn á braut einkarekstrar innviðanna til að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Á Íslandi eru ríkiseignir tiltölulega miklar, og upp á síðkastið hafa flotið á fjörur ríkisins miklar eignir úr þrotabúum föllnu bankanna, svo nefnd stöðugleikaframlög, sem eru forsenda losunar gjaldeyrishaftanna.  Hinn góði árangur fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í embætti er fagnaðarefni, en þessar eignir þurfa að skipta um hendur og ríkið að fá sem mest fé fyrir til að grynnka á skuldum sínum, öllum landsmönnum til hagsbóta.   

Kína er gott dæmi um umskiptin, sem verða í einu samfélagi, þegar siðferðislega gjaldþrota einræðiskerfi losar um viðjarnar og leyfir einkaframtakinu að spreyta sig.  Þá tóku alþjóðleg fyrirtæki óðar að fjárfesta í Kína og mynduðu mikinn fjölda starfa, svo að efnahagur Kínverja reis úr rústum á aldarfjórðungi.  Fólk flutti úr sveitunum til borganna í hundraða milljónavís, og til varð fjölmennasta miðstétt í heimi.  Fleiri lyftu sér upp úr örbirgð í Kína á aldarfjórðunginum 1990-2015 en dæmi voru nokkurs staðar um áður.  Allt var það gert fyrir mátt einkaframtaksins og þrátt fyrir lamandi loppu Kommúnistaflokks Kína, sem áfram hefur allt ráð almennings í hendi sér.  Þarna er um að ræða mjög skuldsett blandað hagkerfi undir stjórn kínverska Kommúnistaflokksins, þar sem óarðbær gæluverkefni flokkspótintáta sliga nú efnahaginn. 

Nú er sem sagt komið bakslag, og flokkurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, því að óánægð, fjölmenn miðstétt getur orðið flokkinum óþægur ljár í þúfu, og að auki er mengun lofts, láðs og lagar í Kína orðin yfirþyrmandi, sem rýrir mjög lífsgæði þjóðarinnar, þó að hún hafi til hnífs og skeiðar.  Valdaeinokun Kommúnistaflokksins leyfði enga gagnrýni á iðnvæðinguna fyrr en allt var í óefni komið.  Einræði felur í sér spillingu og ber dauðann í sér.  

Höfundur, sem kallar sig Óðin, fjallar um óvandaða og villandi talnameðferð brezku góðgerðarsamtakanna Oxfam og "misskiptingu auðs í heiminum" í Viðskiptablaðinu 21. janúar 2016.

"Í skýrslunni segir, að ríkasta 1 % jarðarbúa eigi nú meiri eignir en hin 99 % til samans.  Þá segir í henni, að 62 einstaklingar eigi samanlagt meira fé en fátækasti helmingur mannkynsins, eða um 3,6 milljarðar manna.  Auður þessara 62 einstaklinga hafi aukizt um 44 % á síðustu 5 árum, en á sama tíma hafi auður fátækasta helmings jarðarbúa minnkað um um ein 41 %."

Óðinn sýnir síðan fram á, að með talnaleik er gerð tilraun, sem heppnaðist í mörgum tilvikum, til að telja fólki trú um það, að auðsöfnun eins hljóti alltaf að vera á kostnað annarra.  Þetta er reginvilla hagfræðingsins Karls Marx, sem gengið hefur aftur ljósum logum eftir dauða hans og fram á þennan dag. 

Nýlegt dæmi er strákur að nafni Mark Zuckerberg.  Árið 2004 stofnaði stráksi "Facebook" og átti þá ekki meira í handraðanum en þessi blekbóndi á menntaskólaárum sínum. Á einum áratugi varð Mark Zuckerberg einn ríkasti maður heims og sankaði að sér tugum milljarða bandaríkjadala.  Fyrirtækið veitir nú þúsundum atvinnu.  Þá er spurningin.  Varð þessi auðsöfnun Marks Zuckerbergs á kostnað einhverra ?  Varð einhver fátækari fyrir vikið ?  Tölfræðilega jókst misskipting eigna í heiminum við það, að strákurinn sankaði að sér milljörðum dollara, en enginn beið tjón við það, heldur komust fjölmargir forritarar og fleiri í góðar álnir við að vinna fyrir "Facebook", svo að ekki sé nú minnzt á hundruði milljóna neytenda, sem stytta sér stundir við að fræðast um hagi annarra og fræða "vinina" um sína eigin hagi.  Mark Zuckerberg hefur fært fólk nær hvort öðru og í raun skapað fólki nýjan vettvang til góðs og ills.

"Í fyrsta lagi er í skýrslunni miðað við nettó eignir, þ.e.a.s. eignir að frádregnum skuldum.  Í ákveðnum tilvikum getur það verið eðlilegt, en í þessu tilviki gefur þessi aðferðarfræði afar undarlegar niðurstöður.  Eins og blaðamaðurinn Felix Salmon benti á árið 2014, þegar Oxfam birti skýrsluna í fyrsta skipti, þá var hinn franski fyrrverandi bankastarfsmaður, Jérôme Kerviel, líklega einn fátækasti maður heims, en eignir hans voru neikvæðar um 6 milljarða dala vegna skaðabóta, sem hann var dæmdur til að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum, Sociète Generale. Það er eitthvað óeðlilegt, þegar aðferðarfræðin kemst að þeirri niðurstöðu, að Kerviel standi efnahagslega hallari fæti en einstæður öryrki í Sómalíu. Kerviel hefur í sig og á - og vel það - og eflaust á hann eigin íbúð og bíl."

"Gallinn við þessa aðferðarfræði sést einnig, þegar staða fátækustu 10 % jarðarbúa er skoðuð. Þar er enginn Kínverji, en hins vegar eru 7,5 % af þessum hópi Bandaríkjamenn.  Bandaríkjamenn eru hins vegar aðeins 0,21 % af næstfátækasta tíundarhlutanum og 0,16 % af þriðja neðsta tíundarhlutanum.  Indverjar eru 16,4 % af fátækustu 10 % jarðarbúa.  Trúir einhver því, að enginn Kínverji sé í þessum hópi í ljósi þess, að 7,5 % Bandaríkjamanna eru þar."

Hér er skrípaleikur með tölur notaður til að slá ryki í augu auðtrúa og varnarlítilla lesenda, sem fá kolranga mynd af fátækt í heiminum, og fyllast sumir heilagri vandlætingu yfir óréttlætinu, og loddarar reyna að telja fólki trú um, að eymdin stafi af ómennskri auðhyggju "heimskapitalismans". Á vitleysu af þessu tagi er síðan áróður jafnaðarmanna reistur. Sannleikurinn er sá, að þessi auðhyggja hefur lyft fleira fólki úr örbirgð til bjargálna á skemmri tíma undanfarin ár en nokkru sinni áður í sögunni. Jafnaðarstefnan jafnar kjörin niður á við, en auðhyggjan jafnar kjörin upp á við. 

Sameignarstefnan, kommúnisminn, er ófær um nokkuð sambærilegt, og jafnaðarstefnan kaffærir hagvöxt markaðskerfis í háum sköttum og miklum ríkisafskiptum, sem ríða hagkerfinu á slig, sbr Svíþjóð á 9. áratug 20. aldar.  Tilvitnuð furðulega tölfræði Oxfam á auðvitað rætur að rekja til þess, að Bandaríkjamenn eru með skuldsettustu mönnum, en kínverskur almenningur virðist ekki hafa sama vilja til skuldsetningar. Þar eru hins vegar fyrirtækin mjög skuldsett, og í Kína hefur verið fjárfest mikið í óarðbærum verkefnum, sem er að koma þeim í koll núna. Skuldsett hlutabréfakaup kínverks almennings hefur átt sér stað í einhverjum mæli, en stjórnvöld þar í landi hafa hvatt almenning til að styrkja hlutabréfamarkaðinn.  Sami almenningur varð fyrir skelli við hrun hlutabréfamarkaðarins þar í landi haustið 2015, og þetta veldur nú stjórnmálalegum óróa.

"Þá er einnig áhugavert að sjá, hversu mikinn auð þarf til að komast í efstu stiga listans.  Aðeins þarf um 500 dali í hreina eign, andvirði um kISK 65 til að teljast í hópi ríkustu 30 % jarðarbúa.  Hrein eign upp á MISK 9,0 setur mann í ríkustu 10 %, og eru því ófáir Íslendingarnir, sem eru í þeim útvalda hópi.  Þá þarf ekki hreina eign nema upp á MISK 98,3 til að komast í hið margfræga og alræmda 1 % jarðarbúa."

Þeir Íslendingar skipta hundruðum, sem eru í þessum  síðast talda hópi, og mættu gjarna skipta þúsundum; því fleiri, þeim mun betra fyrir efnahag landsins. 

Þá stendur í þessari óvönduðu og villandi skýrslu Oxfam, að eignir fátækasta hluta jarðarbúa hafi minnkað verulega.  Hér gerir Oxfam þau mistök að miða við gengi myntar í viðkomandi landi m.v. bandaríkjadal, en leiðrétta þessa yfirfærslu ekki með kaupmætti.  Þannig hefur auður heimila í Rússlandi og Úkraínu minnkað um 40 % frá 2014 til 2015 samkvæmt Oxfam skýrslunni, en á sama tíma féll gengi rússnesku rúblunnar um rúmlega 50 % og úkraínsku hrinjunnar um 70 % gagnvart USD.  Þannig fæst mikið auðstap Rússa og Úkraínumanna, þegar mælt er í USD. 

Niðurstaðan er, að þessar Oxfam skýrslur um eignaskiptingu í heiminum séu hreint fúsk og til þess eins ætlaðar að dreifa "disinformation", villandi upplýsingum, til að styrkja málstað vinstri manna hvarvetna og kynda undir öfund og þjóðfélagsóánægju. Allt of margir nytsamir sakleysingjar bíta á agnið. Spilling er það hins vegar, þegar auðurinn er nýttur til að beygja leikreglur markaðshagkerfis og frjálsrar samkeppni sér í vil, svo að ekki sé nú talað um tilraunir til að hefja sig yfir lögin í krafti auðs.  Að hafa tvenns konar lög í einu landi gengur alls ekki; það eru forn sannindi og ný.  Til þess bær yfirvöld verða að skakka slíkan ójafnan leik og beita til þess fullri hörku.  Að öðrum kosti munu ósvífin öfgaöfl lýðskrumara og loddara ryðjast til valda á Vesturlöndum með óbætanlegu tjóni fyrir allar stéttir.


Brennandi hús

Þau undur og stórmerki urðu í ágætum morgunþætti Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni mánudaginn 7. marz 2016, að Nestor íslenzkra jafnaðarmanna, Jón Baldvin Hannibalsson, afneitaði Evrópusambandinu, ESB, og taldi það óalandi og óferjandi um þessar mundir.  Glapræði mundi vera af Íslendingum að sækja þar um aðild, enda ríkti þar óstjórn í þremur mikilvægum málaflokkum hið minnsta. 

"Við göngum ekki inn í brennandi hús", kvað Nestor.  Bætist hér enn við grundvallarmistök í stefnumótun Samfylkingarinnar og íslenzkra jafnaðarmanna.  Leiðsögn þeirra hafði næstum leitt landsmenn til glötunar á síðasta kjörtímabili, og þeim virðast vera mjög mislagðar hendur við allt, sem þeir taka sér fyrir hendur. 

Lesendur virða blekbónda það vonandi til vorkunnar, að hann missti neðri kjálkann niður á bringu við að hlýða á téðan Nestor, sem verið hefur kaþólskari en páfinn í ESB-trúboðinu fram að sinnaskiptunum, sem eru jafnframt eins konar siðskipti þessa höfuðkrata, sem að eigin sögn lærði til forsætisráðherra í Edinborg (Héðinsborg) á Skotlandi á sinni tíð og átti nokkuð glæstan feril sem utanríkisráðherra í Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar. 

Nestor rökstuddi mál sitt með skýrum hætti, eins og hans var von og vísa og tíundaði einkum þrennt:

Í fyrsta lagi væri evran vitavonlaus gjaldmiðill, enda undirstaðan eigi réttlig fundin, eins og þar stendur.  Við næstu árás á gjaldmiðilinn mundi hann falla og var á Nestor að skilja, að þá mundu ríki EMU-myntbandalagsins hverfa aftur til sinna gömlu gjaldmiðla, enda væri algerlega vonlaust fyrir svo ólík hagkerfi að búa við sömu mynt.  Afleiðingin er stöðnun hagkerfanna, sem aðild eiga að evrunni, sama hvernig evrubankinn í Frankfurt rembist eins og rjúpan við staurinn við peningaprentun og með neikvæðum innlánsvöxtum að örva hagkerfið í baráttu bankans við verðhjöðnun. 

Þá kallaði Nestor Mutter Merkel í Berlín til ábyrgðar á svínslegri framkomu við þjóðir evru-samstarfsins, sem berðust í bökkum með fjallháar skuldabyrðar, en Mutter Merkel heimtaði af þessum suðrænu þjóðum, þ.e. Grikkjum, Kýpverjum, Portúgölum og Spánverjum, auk Íra, að þær greiddu upp skuldir sínar.  Lengt hefði verið í hengingarólinni, en þjóðirnar væru samt að niðurlotum komnar. Þetta hefði skapað spennu á milli Evrópuríkjanna, sem ekki sæi fyrir endann á.

Þriðja áfellisdóminn yfir ESB kvað Nestor vera algert úrræðaleysi gagnvart aðsteðjandi flóttamannavanda.  Viðbrögðin sýndu stjórnleysi, og alla framsýni skorti, því að ráðamenn ESB hrektust af einum neyðarfundinum á annan og aðeins væri reynt að berja í brestina og bregðast við orðnum atburðum. 

Nestor gaf sem sagt ESB falleinkunn, þó að hann hafi hingað til vaðið eld og brennistein til að dásama ESB á alla lund og telja Íslendinga á að sækja um aðild og gerast aðilar, hvað sem það kostaði.  Úr því að sannleikurinn er runninn upp fyrir Nestor kratanna, verður spennandi að sjá, hvort Viðreisn vogar sér áfram að reka áróður fyrir aðild og undirstrika sannfæringu sína um kosti þess að verða framvegis undir pilsfaldi ríkjasambands Evrópu með framboði til Alþingis.  Telja má víst, að slíkur hjáróma áróður fái engan hljómgrunn á meðal þjóðarinnar, enda skiptist hún aðallega í tvær fylkingar til þessa máls, þ.e. þá, sem telja, að aðild yrði allt of dýru verði keypt á öllum tímum, og hina, sem telja aðildarumsókn nú vera tímaskekkju. Nestorinn fyllir seinni flokkinn, en flestir borgaralega þenkjandi menn hérlendir þann fyrri. 

Höfundurinn "Óðinn" ritaði í Viðskiptablaðið 23. marz 2016 greinina:

"Efnahagsleg stöðnun og pólitískur óstöðugleiki":

"Þrír stórir áhættuþættir voma svo yfir evrusvæðinu að mati Moody´s. Þeir eru í fyrsta lagi hættan á hraðari samdrætti hagvaxtar í Kína samhliða aukinni spennu í samskiptum stórra ríkja.  Í öðru lagi er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun stjórnmála í mörgum aðildarríkjunum.  Stjórnarkreppa á Spáni og í Portúgal auk hættu á því, að illa fari á ný í Grikklandi getur allt haft neikvæð áhrif á evrusvæðið auk þess sem uppgangur öfgaflokka af ýmsu tagi í Evrópu veldur áhyggjum.  Í þriðja lagi mun langvarandi tímabil mjög lágrar verðbólgu gera evrusvæðið viðkvæmara en ella fyrir efnahagslegum áföllum."

Píratar eru regandi í afstöðu sinni til ESB, eins og í flestum málum, nema fríu niðurhali af netinu gegn höfundarréttinum, og vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Alltaf er vandasamt að orða spurningar í slíkum atkvæðagreiðslum, svo að þær séu óhlutdrægar og svarið gefi einhlíta niðurstöðu.  Tvær spurningar á kjörseðlinum gætu t.d. verið á þessa leið:

  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði dregin til baka af ríkisstjórn og sá gjörningur staðfestur af Alþingi, svo að enginn vafi leiki á, að umsóknin sé fallin úr gildi og verði ekki endurvakin án samþykktar þings og þjóðar þar um ? 
  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði endurvakin, að loknum nauðsynlegum breytingum á Stjórnarskrá um leyfi til framsals fullveldis, og viðræður síðan hafnar að nýju um aðildarsamning við Evrópusambandið, sem hljóta þurfi samþykki Alþingis áður en hann verði lagður fyrir þjóðina til samþykkis eða synjunar.  

Þann 8. marz 2016 birtist forystugrein í Morgunblaðinu undir heitinu,

"Það rennur víða upp fyrir mönnum".

Þar er vitnað í fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka, Mervyn King, sem gegndi því embætti, þegar fárið gekk yfir fjármálaheim heimsins 2007-2009.  King, lávarður, hefur nú gefið út bók, þar sem hann lýsir yfir áhyggjum af hagkerfi Evrópu og telur það standa veikum fótum. Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, átti í talsverðum samskiptum við aðalbankastjóra Englandsbanka á sinni tíð, og yrði fengur að bók Davíðs, sem gæti heitið: "Árin mín á Svörtuloftum".

Grípum nú niður í téða forystugrein:

"King hefur talað tæpitungulaust í viðtölum að undanförnu.  Í síðustu viku varaði hann við nýrri efnahagskreppu, sem væri fyrirsjáanleg og kæmi líklega fremur fyrr en síðar.  Er King í sínum hugleiðingum mjög á svipuðum slóðum og Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem er Íslendingum að góðu kunnur.  Persson er svartsýnn á ástandið í Evrópu og tilveru evrunnar, sem hann hefur lengi stutt, að Svíþjóð verði aðili að, þegar skilyrði skapist til þess."

Það hefur orðið mikið fall hlutabréfa í Evrópu í ár sem og annars staðar í heiminum, nema á Íslandi, þar sem hlutabréfamarkaðurinn er að rétta úr kútnum.  Mjög mikil skuldsetning dregur víða úr hagvexti, minnkandi hagvöxtur og lítil eftirspurn í Kína, hefur miklar verðlækkanir í för með sér ofan á olíu- og gasverðlækkanir, og vaxtahækkun bandaríska seðlabankans hefur dregið kraft úr heimshagkerfinu. 

Á Íslandi er þó rífandi gangur, knúinn áfram af 20-40 % árlegri aukningu (eftir mánuðum) á fjölda erlendra ferðamanna og fjárfestingum í gistirými og kísilverum.  Ef spár Mervyns Kings og Göran Perssons ganga eftir, hverfur vöxtur á Íslandi eins og dögg fyrir sólu, og staðan er viðkvæm, eins og völvan sagði. 

"King sagði, að evrusamstarfið hefði verið, ef ekki efnahagslegt stórslys (e. economic disaster), þá a.m.k. mjög erfitt vandamál, sem bitnað hefði á Bretum. 

Mervyn King bætti svo við:

Þjóðverjar leituðust við að hnýta Þýzkaland svo vel inn í Evrópu, að önnur Evrópuríki þyrftu aldrei aftur að óttast Þýzkaland.  Þessi viðleitni þeirra hefur haft þveröfug áhrif.  Ef skoðuð er afstaða Grikkja nú til Þýzkalands, jafnvel Ítala, þá blasir við, að spenna og tortryggni í garð Þýzkalands er nú meiri en oftast áður. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Þýzkaland.  Þjóðverjar ætluðu sízt af öllu að koma sér í þessa stöðu."

Í sögulegu ljósi er þessi skoðun hins vel upplýsta Englendings stórmerkileg og varpar ljósi á það, hvers vegna samkomulag þjóða Evrópu hefur verið afleitt svo lengi sem sögur kunna frá að greina.  Hugsunarháttur, siðfræði og siðferði þjóðanna eru einfaldlega gjörólík og fer ekki betur saman en vatn og olía.  Ef reynt er að sameina þessi efni, verður til grautur (emulsion), og það er einmitt orðið yfir evrusamstarfið.

Látum Mervyn tala:

"En efnahagslegi reikniveruleikinn hefur óhjákvæmilega leitt til þessarar niðurstöðu.  Þess vegna er evran, ekki ESB, heldur evrusvæðið, það, sem við hljótum að hafa mestar áhyggjur af.

Evrusvæðið er víðtækasti viðskiptaaðili okkar og engar horfur á, að það breytist.  Þess vegna skiptir mjög miklu máli, hvað gerist þar.  Ég óttast, að slagurinn muni nú snúast annars vegar um stjórnmálalegan vilja elítunnar, sem skóp efnahagssvæðið og vill ekki kyngja mistökum sínum, og efnahagslegan reikniveruleikann hins vegar, og að sá slagur eigi eftir að skaða okkur öll."

Hér er nýtt hugtak, "efnahagslegur reikniveruleiki",  leitt fram á ritvöllinn, sem blekbóndi skilur sem efnahgslegan raunveruleika.  Staðreyndin er sú, að ríkjandi öfl ESB neita að horfast í augu við staðreyndir, ef þær brjóta í bága við möntruna um "æ nánara samband" eða ógna á einhvern hátt grundvelli ESB, eins og fall myntbandalagsins og endurupptaka eftirlits á innri landamærum Evrópusambandsríkjanna að meðtöldum EFTA-ríkjunum. Þessi afneitun búrókratanna og helztu stjórnmálaleiðtoga ESB á "efnahagslegum reikniveruleika" veldur því, að ESB er á heljarþröm. Við Íslendingum blasir samt, að þeir munu halda áfram viðskiptum sínum við þessar þjóðir, hvernig sem allt veltur. 

Það er stórmerkilegt að lesa hugleiðingar Englendingsins Mervyns King um stöðu Þýzkalands í Evrópu samtímans.  Hún er allt annað en kjörstaða, þó að efnahagslegir yfirburðir Þýzkalands hafi staðið undir kjarabótum Þjóðverjum til handa.  Þeir hafa sumpart þess vegna orðið skotspónn hinna, sem miður hefur gengið, og þeim er auðvitað með réttu kennt um tiltölulega hátt gengi evrunnar, þótt það hafi töluvert gefið eftir síðasta árið. Þetta sundurlyndi Evrópu boðar ekkert gott fyrir íbúa álfunnar og gæti minnt að sumu leyti á árin frá sameiningu Þýzkalands Ottos von Bismarcks, járnkanzlara, til upphafs heimsstyrjaldarinnar fyrri. 

Líklega þýðir þetta allt saman endalok ESB í sinni núverandi mynd, enda eru Bretar vísir til að hafna aðild í júní 2016.  Þá mun hefjast mikið umbrotaskeið, sem gera mun miklar kröfur til íslenzku utanríkisþjónustunnar.  Er hún vandanum vaxin ?

Að lokum koma hér lokaorðin úr tilvitnaðri grein Óðins:

"Óðinn vill ekki mála hlutina í dekkri litum en ástæða er til, og skýrsluhöfundar Moody´s fara varlega í spá sinni.  Það verður hins vegar ekki framhjá því litið, að, þrátt fyrir yfirvegað orðalag, þá er afar fátt, sem ýtir undir bjartsýni, þegar kemur að framtíð evrusvæðisins næstu árin.  Þvert á móti er margt, sem vinnur gegn Evrópusambandinu og hagkerfum álfunnar.  Það er því ekki að undra, að þeim fjölgar í Bretlandi, sem vilja úr sambandinu ganga, og þeim fækkar á Íslandi, sem vilja ganga því á hönd."

 

Evran krosssprungin 

 

   

 


Norð-austurleiðin

Nokkrir stjórnmálamenn o.fl. hafa gert mikið úr þeim viðskiptatækifærum fyrir Íslendinga, sem siglingar um Norður-Íshafið norðan Rússlands frá Austur-Asíu til Evrópu og Norður-Ameríku, gætu falið í sér. Fulltrúar Íslendinga frá Bessastöðum til Rauðarárstígs í Reykjavík, þar sem Utanríkisráðuneytið er til húsa, hafa gert mikið úr því, að á Íslandi gætu orðið umskipunarhafnir fyrir flutninga eftir Norð-austurleiðinni og eldsneytisbirgðastöð fyrir risaflutningaskip. 

Fyrrverandi húsbóndi við Rauðarárstíginn, sá sem afhenti fulltrúa Evrópusambandsins, ESB, umsókn Íslands um aðildarviðræður, sem Nestor íslenzkra jafnaðarmanna telur nú hafa verið grundvallaða á rangri stefnu, sigldi þeim viðræðum í strand og lagði umsóknina í dvala fyrir Alþingiskosningar 2013. Téðum utanríkisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur varð tíðrætt um Norðurslóðir og nefndi sjálfan sig iðulega "olíumálaráðherrann" og skrifaði iðulega um olíumálaráðherrann í 3. pers. et. og átti þá við herra Skarphéðinsson.  Nú vilja flestir hætta við olíubrambolt á íslenzka hluta Drekasvæðisins vegna umhverfisáhættu.  Hugsanlegar birgðir þar eru "óbrennanlegar" m.v. hámarkshækkun hitastigs andrúmslofts jarðar 2°C. "Olímálaráðherrann" hafði þó enn ekki tekið sinnaskiptum, er síðast fréttist, þó að flokkur hans, sem er á útleið, af því að öll helztu stefnumál hans voru tóm vitleysa og gjörðirnar, þegar hann sat í ríkisstjórn, eintóm mistök, samkvæmt opinberum játningum aflátsformanns. 

Fleiri fara fjálglegum orðum um Norð-austurleiðina en Íslendingar.  Í viku 04/2016 var haft eftir Robert J. Papp, sérlegum fulltrúa Bandaríkjastjórnar vegna Norðurslóða, í Morgunblaðinu, að "vegna opnunar Norð-austurleiðarinnar væri horft til mögulegrar umskipunarhafnar í Tromsö eða á Íslandi", eins og það var orðað í Baksviðsumfjöllun Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 29. janúar 2016.

Í sömu umfjöllun kom þveröfugt sjónarmið fram frá markaðsaðilum, og er það ekki í fyrsta sinn, sem staðreyndir markaðarins fylgja ekki loftköstulum stjórnmála- og embættismanna.  Ættu hinir síðar nefndu að halda sig meira við raunveruleikann og gefa minni gaum opinberlega að draumsýnum sínum. 

Anne H. Steffensen, forstjóri samtaka danskra skipaútgerða, "Danmarks Rederiforening", sagði eftirfarandi á Norðurslóðaráðstefnu í Tromsö í janúar 2016:

"Markaðurinn mun að óbreyttu ekki velja Norð-austurleiðina.  Til að hún borgi sig umfram aðrar siglingaleiðir þarf rétta blöndu af flutningsgetu, meiri sjóflutningum og flutningsgjöldum, sem eru nógu há til að stytting borgi sig.  Nú eru flutningsgjöldin mjög lág og efnahagsástandið erfitt.  Skipaumferðin er ekki nógu mikil til að Norð-austurleiðin borgi sig.  Með hliðsjón af lækkun olíuverðs og efnahagslegum samdrætti víða um heim er erfitt að sjá, að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð."

""Ávinningur þess að sigla Norð-austurleiðina er ekki nægur til að hún keppi við Súez-skurðinn", segir Steffensen og bendir á, að árið 2013 fór 71 skip um Norð-austurleiðina, en aðeins 20 árið 2014."

Niðurstöðu Steffensens má skoða í því ljósi, að sé siglt frá Singapúr til Hamborgar lengist siglingaleiðin, sé farið norðurfyrir í stað Súez, um rúmlega 1350 km eða um 16 %.  Sé siglt frá Hong Kong til Hamborgar styttist leiðin um 990 km eða 11 %, sem er ekki nóg við núverandi olíuverð til að vega upp á móti kostnaði við ísbrjót og hærri tryggingariðgjöldum fyrir Norð-Austurleiðina.  Sé hins vegar siglt frá Yokohama í Japan til Hamborgar styttist leiðin um rúmlega 4150 km eða 38 %.  Þessi mikla stytting gefur kost á að minnka hraða skips úr 15 hnútum í 9 hnúta, og við það næst 78 % eldsneytissparnaður.  Eldsneytiskostnaður er 30 % - 60 % flutningskostnaðar.  Sé miðað við, að hægari sigling norður fyrir taki sama tíma og sigling um Súez, má reikna með nokkrum sparnaði norðurleiðina vegna lágs olíuverðs og þrátt fyrir ýmsan viðbótar kostnað, þegar siglt er frá Yokohama, en flutningar þaðan eru fremur litlir í samanburði við flutningana frá hinum höfnunum tveimur, og miðað við efnahagshorfur í Japan er umtalsverð aukning á vöruútflutningi þaðan til Evrópu/BNA ólíkleg.

Sveitarstjórnarmenn á landinu norð-austanverðu o.fl. hafa sumir tekið risastóra umskipunarhöfn inn í aðalskipulag sveitarfélaga sinna á grundvelli væntinga, sem búið er að skapa um flutninga Norð-Austurleiðina.  Þeir hafa líka mænt vonaraugum til olíu-og gasvinnslu á Drekasvæðinu og þjónustu í landi við hana.  Allt eru þetta vísast gyllivonir í fyrirsjáanlegri framtíð og ráðlegast að eyða ekki meiri tíma og fjármunum að svo stöddu í undirbúning fyrir slíkan vonarpening, heldur snúa sér að öðru, eins og Þingeyingar hafa nú gert með myndarlegri hvalaskoðunarútgerð og samningi við þýzka fyrirtækið PCC um kísilframleiðslu á Bakka. 


Rafgeymar og rafbílar

Framleiðsla og sala á rafbílum hefur enn ekki fengið byr í seglin, þótt að því hljóti senn að koma.  Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu byrleysi, lognmollu.  Þróun eldsneytisverðs frá miðju ári 2014, þegar hráolíuverð var yfir 100 USD/fat, til marz 2016, þegar verðið er rúmlega 30 USD/fat, en að vísu spáð hækkandi, tefur fyrir orkubyltingunni, og sú töf er e.t.v. hluti skýringarinnar á því, að ekki hefur verið dregið úr framboðinu, þótt eftirspurn hafi dvínað. Olíuframleiðendur sjá nú sína sæng út breidda. Nú eru olíubirgðir í heiminum í hámarki eða 1,3 mia föt (milljarðar tunnur), en það er um tveggja vikna olíunotkun heimsins.

Rafmagnsverð í heiminum hefur lækkað, nema á Íslandi, þar sem það hefur hækkað, nema til fyrirtækja með rafmagnssamninga, þar sem orkuverð er tengt markaðsverði á afurðum þeirra.  Hefur verið bent á það á þessu vefsetri, að á íslenzka fákeppnismarkaðinum, þar sem ríkisfyrirtæki hefur ríkjandi stöðu gagnvart öðrum orkuvinnslufyrirtækjum, sé þessi öfugþróun með öllu óviðunandi, þar sem hún veikir mjög samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja, sem öll nota raforku, en í mismiklum mæli þó.  Þessi öfugsnúna þróun raforkuverðs hérlendis tefur jafnframt fyrir orkubyltingunni, t.d. skiptum úr eldsneytisknúnum fartækjum í rafknúin fartæki. Sú nývæðing er ein af forsendum þess, að Ísland nái markmiði sínu um losun gróðurhúsalofttegunda 2030. 

Dreifingarfyrirtæki raforku eru einokunarfyrirtæki hvert á sínu svæði, og fyrir því eru þjóðhagsleg rök að koma í veg fyrir offjárfestingu í dreifikerfum á fleiri en einni hendi.  Fyrir vikið vantar nýbreytnihvata fyrir dreififyrirtækin, og t.d. hefur hvorki frétzt af snjallmæalaáformum né áformum þeirra um gjaldskrárbreytingu vegna aukins álags á dreifikerfin af völdum hleðslu rafgeyma rafmagnsbíla, sem árið 2030 gætu hafa náð 90 þúsund bíla markinu.  Að öðru jöfnu hefst endurhleðsla flestra rafbíla á tímabilinu kl. 1700-2000, þegar notkun dagsins lýkur.  Á þessu tímabili er álagstoppur í raforkunotkun flestra heimila, og við hleðsluna má búast við tvöföldun heimilisálagsins og yfir 100 MVA ofan á toppinn árið 2030 á landsvísu.

Það stefnir í óefni um allt land, ef engar ráðstafanir verða gerðar til úrlausnar.  Það er hægt að fjárfesta sig út úr vandanum, skipta um dreifispenna, bæta við jarðstrengjum, efla háspennulínur og virkja.  Þetta er óhagkvæm leið til að mæta toppi í 3-4 klst á sólarhring. 

Mun skynsamlegra er að beina þessu aukna álagi yfir á lágálagstímabil dreifiveitna, sem er nóttin.  Það geta dreifiveiturnar gert með innleiðingu næturtaxta, sem sé í heildina u.þ.b. helmingi lægri en dagtaxtinn að því tilskildu, að vinnslufyrirtækin og flutningsfyrirtækið sjái sér hag í verulegri lækkun orkutaxta sinna að næturlagi. Þar með mundi megnið af hleðsluálagi bílarafgeyma færast yfir á tímabilið 0000-0600 og einvörðungu jafna álag dreifiveitnanna.  Eina fjárfestingin væri fólgin í endurnýjun orkumæla, en nýju orkumælarnir, stundum nefndir snjallmælar, þyrftu að hafa tvö klukkustýrð teljaraverk. Í mörgum tilvikum er hvort eð er tímabært að endurnýja raforkumælana og setja þá upp örtölvustýrða mæla með aflmælingu (kW, kVA)), raunorkumælingu (kWh) og launorkumælingu (kVArh) á tveimur tímabilum hvers sólarhrings og jafnvel með fjaraflestrarmöguleika. Með þessu móti væri hægt að takmarka toppálag heimila og fyrirtækja með því að beita hárri gjaldskrá fyrir afltöku umfram umsamin mörk.  Það er t.d. gert í Noregi, þar sem hár toppur skapast í kuldatíð vegna rafmagnskyndingar húsnæðis.  Er þá dregið úr afli rafmagnsofna á meðan eldað er o.s.frv.  Þetta er hægt að gera sjálfvirkt eða handvirkt.

Tækniþróun rafgeyma hefur verið tiltölulega hæg, og hefur þetta tafið fyrir orkubyltingu í samgöngugeiranum.  Nú eru komnir fram á sjónarsviðið liþíum rafgeymar, sem hafa meiri orkuþéttleika, kWh/kg, en nikkel-kadmíum geymar, svo að ekki sé minnzt á gömlu blý-brennisteinssýrurafgeymana.  Eru yfirleitt liþíum geymar í rafbílum nú orðið. 

Spurn eftir liþíum jókst gríðarlega á 4. fjórðungi 2015, svo að augnabliksverðið ríflega tvöfaldaðist, úr 6000 USD/t af liþíum-karbonati í 13800 USD/t frá nóvemberbyrjun til desemberloka.  Er þetta eina hráefnið, sem vitað er um verulega hækkun á árið 2015. Er hún til vitnis um aukna framleiðslu liþíum rafgeyma, enda eykst framleiðsla rafbíla og tengiltvinnbíla, þó að eftirspurnin sé óþarflega lítil enn, þó að það standi til bóta. 

Það eru að vísu fleiri kaupendur liþíum-geyma en rafbílaframleiðendur.  Þannig er farið að tengja rafgeyma við sólarhlöður til að geyma sólarorkuna og nota sem raforku að nóttu, eða þegar skýjað er.  Stofnkerfisrekendur, t.d. í Suður-Kaliforníu, eru farnir að setja upp risastór liþíum-rafgeymasett, allt að 1,0 GW, til að anna álagstoppum og til að koma fyrirvaralaust inn á netið við brottfall vinnslueininga, við bilun, eða þegar hægir á vindmyllum. 

Lönd með þekkta liþíum auðlind í jörðu eru eru talin upp hér á eftir.  Hlutfallslegt þekkt magn í hverju landi af vinnanlegum liþíum-samböndum er einnig sýnt:

  • Bólivía      23 %
  • Chile        19 %
  • Argentína    16 %
  • BNA          14 %
  • Kína         14 %
  • Ástralía      4 %
  • Önnur        10 %

Það eru þó ekki stórviðskipti með liþíum, því að rúmtak liþíum rafgeyma er aðeins að 5 % liþíum, og kostnaður þess er aðeins 10 % af kostnaði rafgeymanna.  Heimsviðskipti með liþíum nema aðeins miaUSD 1,0 á ári.  Efnið er samt nauðsynlegt í hinar léttu rafhlöður snjallsíma, fartölva og handverkfæra.  Að hálfu fjárfestingarbankans Goldmans Sachs er notuð líkingin "nýja bensínið" um liþíum.  Það er enginn hörgull á liþíum í jörðunni, og það er endurvinnanlegt, en að gera það nýtilegt er seinlegt og dýrt.

Kínversk yfirvöld hafa komið auga á mikilvægi liþíums í baráttunni við loftmengun.  Þau hvetja mjög til rafvæðingar fartækjanna, einkum strætisvagna og langferðabíla, rútna.  Á fyrstu 10 mánuðum 2015 næstum þrefaldaðist sala nýrra rafmagnsfartækja í samanburði við sama tímabil árið áður, og seldust 171´000 slík farartæki, sem svarar til árssölu rúmlega 205´000 rafmagnsfartækja.  Þetta var þó aðeins 1,0 % af heildarfjölda nýrra farartækja í Kína.  Kínverski bílamarkaðurinn er þannig sá stærsti í heimi, og með þessu áframhaldi verða fljótt seld flest ný rafmagnsfartæki í Kína, enda er kínverski markaðurinn stærsti bílamarkaður í heimi með yfir 20 milljónir seldra nýrra bíla á ári.

Á Íslandi voru árið 2015 seldir 15´420 fólks-og sendibílar.  Af þeim voru um 2,0 % alrafknúnir eða tengiltvinnbílar, þ.e. rúmlega 300 talsins.  Betra væri, að Íslendingar tækju Kínverja sér til fyrirmyndar og tvöfölduðu innfluttan og seldan fjölda slíkra bíla árlega 2016-2019, þannig að eigi síðar en 2020 nemi innflutningur raf- og tvinnbíla yfir 30 % af heild. Til þess þarf þó kraftaverk. Stjórnvöld ættu að lyfta þakinu, sem nú er MISK 6,0, fyrir innkaupsverð á farartækjum, sem seld eru hérlendis án vörugjalds og virðisaukaskatts, séu þau dæmd umhverfisvæn, og fella þessi gjöld af stórum tækjum á borð við almenningsvagna og langferðabíla til að flýta fyrir rafvæðingu þessara orkufreku tækja. Tryggingafélög bjóða lægri iðgjöld af umhverfisvænum farartækjum, og frítt er fyrir þau í bílastæði í Reykjavík.  Þeim fylgja þess vegna ýmis hlunnindi, en þau eru enn þá dýrari í innkaupum en sambærilegir jarðefnaeldsneytisknúnir bílar þrátt fyrir niðurfellingu innflutningsgjalda.   

Árið 2030 gæti heildarfjöldi allra farartækja á íslenzkum vegum numið 300´000.  Raunhæft markmið ætti að vera, að 30 % þeirra verði rafknúin eða af tengiltvinngerð.  Þá þarf að meðaltali að flytja inn 6000 slíka bíla á ári, sem er tæplega 40 % af núverandi heildarinnflutningi.    Til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, er þessi áfangi nauðsynlegur, en þá þarf nú heldur betur að slá undir nára, víða.

Það vekur athygli, hversu lítið rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er hampað af bílaumboðum hérlendis, þó að talsvert úrval sé nú þegar af slíkum farartækjum, og hversu litla athygli flest bílaumboðin vekja á hagkvæmni þessara bíla fyrir kaupendur nýrra bíla. Bílainnflytjendur þurfa almennt að átta sig á því, að á Íslandi er jarðefnaeldsneyti dýrt, en rafmagnið er ódýrt miðað við það, sem algengast er í hinum vestræna heimi. T.d. virðast kaup á tengiltvinnbíl geta borgað sig á innan við 4 árum vegna lægri rekstrarkostnaðar, þó að hann sé nokkru dýrari en sambærilegur eldsneytisbíll. Þetta er þó nauðsynlegt að sannreyna við íslenzkar aðstæður með mælingum.   

Auk þess er raforkuvinnslan á Íslandi umhverfislega og fjárhagslega sjálfbær, en um hvort tveggja gegnir víða öðru máli.  T.d. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum (BNA) hefur a.m.k. 60 % raforkuvinnslunnar mikla mengun í för með sér á formi fínna sótagna, örryks, auk myndunar gróðurhúsalofttegunda, og vind- og sólarorka er stórlega niðurgreidd af skattgreiðendum, einkum í Þýzkalandi.  Það er þess vegna meira hagsmunamál og umhverfisverndarmál á Íslandi en víðast hvar annars staðar, að innleiðing rafmagnsbíla, með tvinnbíla sem millilausn, gangi bæði fljótt og vel. 

Til að innleiðingin gangi snurðulaust verða orkuyfirvöld að leggja hönd á plóginn og laða orkuvinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtækið og einkum dreifiveitur og söluaðila raforkunnar, rafvirkjameistara og rafmagnshönnuði, til samstarfs, svo að rafkerfið verði í stakk búið að mæta auknu álagi og nóg verði af viðeigandi tenglum með sölumælingu í borg, bæjum og þorpum, bílageymslum og á bílastæðum fjölbýlishúsa og við flugvellina, svo að dæmi séu nefnd, til að skortur á innviðum verði ekki til trafala við þessa mikilvægu innleiðingu.

Segja má, að fjölgun rafbíla og tvinnbíla sé ótrúlega hæg m.v. hið rausnarlega framlag ríkissjóðs að gefa eftir bæði vörugjöld og virðisaukaskatt á þessum bílum. Vanburða innviðir og e.t.v. efasemdir um nýja tækni í þessum geira eiga sinn þátt í því. Eftirgjöf gjaldanna er auðvitað tímabundin á meðan framleiðslukostnaður umhverfisvænu bílanna er hærri en hefðbundinna eldsneytisbíla og á meðan verið er að koma viðskiptum með þessa bíla á skrið. Þó væri sennilega ráðlegt af stjórnvöldum að marka stefnu til lengri tíma, t.d. áratugar, um þessi gjöld, svo að fjárfestar sjái sér fært að setja fé í innviðauppbygginguna, og geti verið sæmilega öruggir um ávöxtun fjár síns á því sviði.      

 


Um daginn og veginn

Íslenzka vegakerfið hefur verið hornreka hjá ríkissjóði síðan árið 2010. Hér verður ömurlegt ástand gatnakerfis Reykjavíkurborgar ekki gert að umtalsefni, enda er ráðsmennskan í Ráðhúsinu við Reykjavíkurtjörn sorglegri en tárum taki. 

Fjárveitingar undir þjóðhagslegum mörkum til Vegagerðar ríkisins eiga í senn við fjárfestingar og viðhald.  Á sama tíma hefur umferðin vaxið með hverju árinu, og munar þar mest um erlenda ferðamenn, en það stefnir í, að 40 þúsund erlendir ferðamenn verði á landinu dag hvern að meðaltali, og þá jafnvel 80 þúsund að sumrinu.  Megnið af þeim er á ferðinni á vegum landsins flesta daga ársins á alls konar farartækjum, þ.m.t. langferðabílum.  Þetta jafngildir 12 % viðbót við íbúatölu landsins. 

Búizt er við, að bílainnflutningur árið 2016 slái met frá 2007 og verði um 17´000 bílar. Fátt vitnar betur um grózkuna í íslenzka hagkerfinu og góðan árangur núverandi ríkisstjórnar við efnahagsstjórnunina. Hugsanlega þýðir þessi bílainnflutningur 3 % nettófjölgun bifreiða á vegum landsins í ár að jafnaði, og þar við bætast erlendir ferðamenn, sem koma á eigin fararskjótum með ferjunni til Seyðisfjarðar. 

Það er þess vegna ljóst, að mikil álagsaukning á sér stað um þessar mundir á vegakerfi landsins vegna aukinnar hagsældar landsins og gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna í landinu.  Hvernig skyldu yfirvöldin nú bregðast við þessari stöðu ?  Ætli sé sofið á verðinum á þessum vígstöðvum, eins og varðandi sómasamlega móttöku ferðamanna í náttúru Íslands, þar sem öryggi og umhverfisvernd sitja gjörsamlega á hakanum, á meðan silkihúfur kasta á milli sín fjöregginu, þó að næg úrræði séu fyrir hendi til að grípa til, ef nægur dugnaður væri fyrir hendi ? Lítum á, hvað fram kom í frétt Morgunblaðsins, 1. marz 2016, hjá Birni Jóhanni Björnssyni,

"Viðhaldið fylgir ekki umferðinni":

"Áætluð framlög til vegagerðarinnar á þessu ári eru rúmlega miakr 24,1.  Það er um Mkr 900 (3,6 %-innsk. BJo) minna en árið 2015, þegar framlögin voru rúmir miakr 25,0, samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum."

Þetta er alger ósvinna og má túlka sem skilningsleysi þingmanna á því, að vegakerfið er algerlega ófullnægjandi í sinni núverandi mynd til að fullnægja lágmarks öryggiskröfum og til að þjóna athafnalífinu, eins og vert er.  Samkvæmt alþjóðlegu mati er íslenzka vegakerfið aftarlega á merinni, og í lestarlausu vestrænu landi er slíkt ástand samgönguinnviðanna óþolandi. Fjárframlag til viðhalds veganna er skorið niður um miakr 0,5 eða tæp 8 %, og framlag til nýframkvæmda er skorið niður um miakr 0,2 eða um 2 %, niður í miakr 9,7 og nema þá innan við tíund af heildarfjárfestingum ríkisins.  Þetta er algerlega ábyrgðarlaus stjórnvaldsráðstöfun í tvenns konar ljósi:

Í fyrsta lagi hækkar nú slysatíðni á vegunum, og fjarlægist hún núverandi viðmið stjórnvalda.  Hönnun og ástand vegakerfisins hefur mikil áhrif á öryggi bílaumferðar.  Skortur á fjárveitingum til Vegagerðarinnar á þess vegna sinn þátt í því, að árið 2015 var fjöldi látinna og alvarlega slasaðra 3,2 % hærri en nemur meðaltali 9 ára þar á undan og 24 % hærri en viðmiðun stjórnvalda nú um stundir, sem er 156.  Þetta er óviðunandi. 

Þróun minni háttar meiðsla í umferðarslysum gefur til kynna, hvers má vænta um þróun alvarlegra slysa.  Umferðarslys, þar sem urðu minni háttar meiðsli, voru árið 2015 1130 talsins eða 14 % fleiri en árið 2014.  Þetta sýnir grafalvarlega þróun á vegum landsins, og Vegagerð ríkisins verður að fá tækifæri til að hrinda þegar í stað af stokkunum áætlunum sínum um tafarlausar úrbætur. 

Í öðru lagi þjónar núverandi vegakerfi ekki nægilega vel atvinnuvegum landsins, sem leiðir til lengri flutningstíma og hærri rekstrarkostnaðar.  Þetta skerðir samkeppnishæfni landsins, eins og alþjóðlegur samanburður gefur til kynna.

Það þarf að leyfa einkaframkvæmd, þar sem raunhæft er að rukka inn veggjald, eins og t.d. fyrir akstur á nýrri Sundabraut og fyrir tvöföldun Hvalfjarðarganga, þegar þar að kemur, og verður væntanlega við Vaðlaheiðargöng.  Það eru vanhöld á, að tekjur ríkissjóðs af umferðinni renni allar til Vegagerðarinnar og þarf að leiðrétta það í áföngum. 

Fjárveitingar til Vegagerðarinnar á fjárlögum 2016 eru rúmlega miakr 24, en þurfa að hækka á þremur árum um u.þ.b. miakr 11 á ári upp í u.þ.b. miakr 35 að raunvirði til að fækka slysum og til að vegakerfið styrki samkeppnishæfni landsins frá því, sem nú er.

  Í fjáröflunarskyni þarf að gera gangskör að því að draga úr skattaundanskotum, t.d. í ferðageiranum, því að samkvæmt Ríkisskattstjóra gætu þessi undanskot alls numið miakr 80 á ári, og það eru vísbendingar um, að til ferðageirans sé nokkuð að sækja í þessum efnum. Í Morgunblaðinu 5. marz 2016 var upplýst, að Ríkisskattstjóri hefði virðisaukaskattskil ferðaþjónustunnar til rannsóknar.

Nú er það vitað, að erlendir ferðamenn voru rúmlega 30 % fleiri á Íslandi árið 2015 en árið 2014. Hvernig má það þá vera, heildarvelta gisti- og veitingaþjónustu á sama tímabili samkvæmt virðisaukaskattskýrslum jókst aðeins um 16,5 % hjá gististöðum og aðeins um 14,0 % í veitingasölu ? Það ríkir gullgrafaraæði í ferðaþjónustunni núna, sem er ávísun á kollsteypu.  Munurinn á erlendri tekjuöflun virkjunarfyrirtækjanna og ferðaþjónustufyrirtækjanna er sá, að lágmarkstekjur hinna fyrr nefndu eru tryggðar til áratuga með langtímasamningum, en tekjur hinna síðar nefndu geta horfið, eins og dögg fyrir sólu.  Hvað verður þá um skuldsettar fjárfestingar og 20 þúsund launþega ?

Ef hið rétta er, sem rannsókn Ríkisskattstjóra á eftir að leiða í ljós, og ekki er unnt að fullyrða á þessu stigi, að virðisaukaskyld velta hafi í raun aukizt um 30 % í stað 15 % árið 2015 m.v. 2014, þá nemur vangoldinn virðisaukaskattur þessa hluta ferðageirans að lágmarki miakr 2,2 árið 2015.  Það er lágmark, af því að það er líka óútskýrt misræmi á milli fjölgunar ferðamanna og aukningar á téðri veltu á fyrri árum, þó e.t.v. minna. 

Með fjárlögum 2016 fækkaði undanþágum ferðaiðnaðarins frá virðisaukaskattskyldu, sem enn ætti að bæta innheimtu VSK.  Það er enn fremur orðið tímabært að færa þessa miklu vaxtargrein úr neðra VSK-þrepinu í hið efra, og þá e.t.v. að lækka það um leið fyrir heildina. Með því móti gætu skatttekjur af ferðageiranum vaxið um miakr 20. Núna þarf að endurgreiða sumum ferðaþjónustufyrirtækjum virðisaukaskatt, af því að innskattur þeirra er hærri en útskatturinn.  Það er tímabært að taka þessa grein úr bómull, og þar með að jafna samkeppnishæfni hennar við aðrar atvinnugreinar í landinu. 


Skattamál í sviðsljósi

Meginágreiningur stjórnmálanna um innanríkismálin er um þátttöku hins opinbera í starfsemi þjóðfélagsins og eignarhald á auðlindum og atvinnustarfsemi, þ.m.t. á fjármálakerfinu í landinu.

Hin borgaralegu viðhorf til þessara mála eru að leggja frjálsa samkeppni, markaðshagkerfið og dreift eignarhald  með eignarhlut sem flestra, til grundvallar, en hið opinbera sjái um löggæzlu, réttarfar og öryggi ríkisins og annað, þar sem styrkleikar samkeppni og markaðar fá ekki notið sín. 

Á Norðurlöndunum er þar að auki samhljómur um, að hið opinbera, ríkissjóður og sveitarfélög, fjármagni að mestu grunnþjónustu á borð við menntun, lækningar, vegi, flugvelli o.þ.h.  Á Íslandi er ágreiningur um rekstrarformin, þ.e. hvort hið opinbera skuli vera beinn rekstraraðili eða geti fengið einkaframtakið til liðs við sig í verktöku með einum eða öðrum hætti.

Opinber rekstur er hlutfallslega mikill á Íslandi.  Stærsti útgjaldaþáttur ríkisins er vegna sjúklinga.  Þar er hlutdeild íslenzka ríkisins 80 %, en að jafnaði 72 % í OECD.  Árið 2012 námu útgjöld íslenzka ríkissjóðsins vegna sjúkra 7,2 % af VLF, en þetta hlutfall var að jafnaði 6,6 % í OECD. 

Kári Stefánsson, læknir, berst fyrir því, að heildarframlög í þjóðfélaginu til sjúklingameðferðar hækki sem hlutfall af VLF.  Hann getur þess þá ekki, að framlög ríkisins í þennan málaflokk eru með því hæsta, sem þekkist, og til að auka heildarframlögin er þá nær að auka hlutdeild sjúklinga upp að vissu marki til jafns við aðrar þjóðir OECD. 

Þetta er þó í raun og veru deila um keisarans skegg, því að markmið allra ætti að vera hámörkun á nýtingu takmarkaðs skattfjár, þ.e. velja ber rekstrarform, sem uppfyllir gæðakröfur fyrir lægstu upphæð.  Þetta hljómar einfalt, en það getur tekið tíma að finna þetta út í raun, og þá má hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða.  Almenna reynslan er sú, að með því að virkja markaðshagkerfið má nýta skattfé betur en með opinberum rekstri.  Við mat á þessu þarf þó að taka tillit til íslenzkra aðstæðna, t.d. mjög lítils markaðar, þar sem ógnir fákeppninnar vofa víða yfirNýkynnt umbót heilbrigðisráðherra við fjármögnun heilsugæzlustöðva virðist framfaraskref í þessu tilliti, þar sem opinber- og einkarekstur fær að keppa á jafnréttisgrundvelli. Er líklegt, að bæði framleiðni og gæði starfseminnar vaxi við þessa nýbreytni. 

Það hlýtur að vera stefnumál allra sanngjarnra manna, að launamenn haldi eftir til eigin ráðstöfunar sem mestum hluta eigin aflafjár. Hið sama á við um fyrirtækin, því að hörð skattheimta á hendur þeim takmarkar getu þeirra og áræðni eigenda til vaxtar, nýráðninga og fjárfestinga, sem eru undirstaða framtíðar lífskjara í landinu. 

Hér verður fyrst tínt upp úr Staksteinum Morgunblaðsins 19. janúar 2016, þar sem vitnað er til Ásdísar Kristjánsdóttur, hagfræðings, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA:

"Heildarskatttekjur hins opinbera (ríkisins, innskot BJo)voru 35 % af landsframleiðslu hér á landi árið 2014.  Með þessu háa hlutfalli sláum við út nánast allar þær þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við. .... Í Svíþjóð, sem seint verður talin skattaparadís, er hlutfallið t.d. "aðeins" 33 % og í Finnlandi 31 %."

Ef Kári fengi sitt fram um aukin framlög úr ríkissjóði án sparnaðar á móti, sem vonandi verður ekki í einu vetfangi, myndi þurfa að afla samsvarandi tekna á móti, og þá mundi síga enn á ógæfuhlið landsmanna varðandi umsvif opinbers rekstrar, og hlutfall ríkistekna verða um 38 % af VLF, sem kæmi niður á ráðstöfunartekjum almennings í landinu og væri fallið til að draga úr hagvexti. 

Í raun þarf ekki frekari vitnana við um, að skattheimtan er orðin of þungbær á Íslandi, virkar þar af leiðandi samkeppnishamlandi við önnur lönd og hægir þar með á lífskjarabata í landinu.  Það er þess vegna brýnt að minnka skattheimtuna með því að draga úr álagningunni. Barátta Kára fyrir auknum ríkisútgjöldum til sjúklinga sem hlutfall af VLF er algerlega ótímabær, en þetta hlutfall hækkar þó óhjákvæmilega smám saman, þegar elli kerling gerir sig heimakomna hjá fleiri landsmönnum. 

Hér verður velt vöngum um, hvernig hægt er að minnka skattheimtuna án þess að ógna jafnvægi ríkissjóðs.

Vinstri stjórnin 2009-2013 hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi án þess á hinn bóginn að hafa erindi sem erfiði með skatttekjur ríkisins.  Hún kleip líka utan af fjárveitingum til grunnþjónustu, sjúkrahúsa og skóla, og skar samgöngumálin niður við trog, allt án tilrauna til kerfisuppstokkunar.  Síðan var fé sólundað í gæluverkefni stjórnarinnar, sem öll voru andvana fædd. 

Þessa stjórnarhætti má nefna óráðsíu, og þess vegna var hagkerfið í hægagangi og mikil uppsöfnuð fjármunaþörf í þjóðfélaginu, þegar borgaralega ríkisstjórnin tók við 2013. Af þessum ástæðum hefur útgjaldahlið ríkissjóðs þanizt út á þessu kjörtímabili, þó því miður ekki til samgöngumála, en tekjurnar hafa þó hækkað meira þrátt fyrir takmarkaðar lækkanir skattheimtu og niðurfellingu tolla og vörugjalda, nema af jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum slíku eldsneyti. 

Vinstri stjórnin jók skuldir ríkissjóðs öll sín valdaár, eins og vinstri stjórnir gera alltaf, og svo var komið, að árlegar  vaxtagreiðslur ríkissjóðs fóru yfir miaISK 80.  Með því að lækka skuldir um miaISK 800 á núverandi kjörtímabili, sem er mögulegt með bankaskattinum, stöðugleikaframlagi bankanna og sölu ríkiseigna, má lækka skuldir ríkisins úr núverandi 64 % af VLF í 24 % af VLF, sem gæti verið lægsta hlutfall í Evrópu og er ávísun á hærra lánshæfismat landsins.  Við þetta mundi árleg vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um miaISK 50 og verða undir miaISK 30.  Þetta mun skapa ríkissjóði svigrúm til að auka samkeppnishæfni Íslands um fólk og fyrirtæki með skattalækkunum og uppbyggingu arðsamra innviða á borð við vegi, brýr, jarðgöng og flugvelli. 

Skattar á íslenzk fyrirtæki án tryggingagjalds og tekna af þrotabúum nema 4,9 % af landsframleiðslu hér, sem er meira en þekkist nokkurs staðar annars staðar, og er t.d. meðaltalið í OECD 3,0 %.  Það er t.d. brýnt að stórlækka og breyta álagningu og ráðstöfun hins ósanngjarna auðlindagjalds á sjávarútveginn til að jafna stöðu hans við aðra atvinnuvegi og gera hann betur í stakkinn búinn að búa við aflasveiflur og markaðssveiflur án skuldasöfnunar. Nú hefur Hæstiréttur dæmt, að sveitarfélög mega leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi orkufyrirtækja, þó að ágreiningur sé enn um álagningarflokkinn.  Hér er um að ræða ígildi auðlindargjalds á orkuiðnaðinn, sem fallið er til þess að jafna aðstöðu athafnalífs í landinu, sem hið opinbera má ekki gera sig sekt um að skekkja. 

Í Viðskipta Mogganum 17. september 2015 hefur Margrét Kr. Sigurðardóttir eftirfarandi eftir téðri Ásdísi:

"Viðbótartryggingargjaldið, sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins, reiknast okkur til, að séu líklega nær miaISK 20 á hverju ári."

Tekjur af tryggingagjaldi voru árið 2008 miaISK 53 og hafa aukizt til 2015 um miaISK 26 bæði vegna álagningarhækkunar vinstri stjórnarinnar úr 5,5 % af launum í 7,49 % og vegna stækkunar vinnumarkaðarins og minna atvinnuleysis.  Það verður svigrúm fyrir ríkissjóð til að gefa miaISK 20-30 eftir á árunum 2016-2017, ef fram fer sem horfir, enda er ekki vanþörf á að létta á fyrirtækjunum til að bæta samkeppnishæfni þeirra, sem versnar við launahækkanir umfram framleiðniaukningu og með sterkari ISK. 

Talið er, að skattsvik í landinu nemi um miaISK 80 eða 4% af VLF.  Þó að aðeins næðist í helminginn af þessu, er þar um gríðarupphæð að ræða, sem á hverju ári slagar upp í ofangreindan vaxtasparnað ríkisins.  Aukið svigrúm ríkisins til innviðauppbyggingar gæti þannig numið miaISK 90 innan tíðar, ef vel verður á spilunum haldið, en það er borin von að svo verði, ef glópum verður hleypt að ríkisstjórnarborðinu í kjölfar næstu kosninga.  Þá munu efnilegar horfur breytast til hins verra á svipstundu vegna trúðsláta og sirkussýninga. Vítin eru til þess að varast þau.  "ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN." Steingrímur í skjóli pírata er óbærileg tilhugsun.

Um skattsvik ritaði Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, þann 29. október 2015 í Morgunblaðið, greinina:

"Lífeyris- og bótasvik tengjast skattsvikum":

"Ferðabransinn (sic) er gróðurreitur svartrar vinnu og skattsvika.  Ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir, að hlutfallslega sífellt færri munu standa undir velferðarkerfinu með beinum sköttum í framtíðinni.  Skattsvikin munu fljótlega valda óviðráðanlegu misvægi; það verður ekki unnt að leysa málið með því að láta innan við þriðjung þjóðarinnar borga sífellt hærri beina skatta.  Sjálft velferðarkerfið er í húfi.  Skattsvik hafa lengi reynzt átaksill, en eru ekki viðfangsefni þessarar greinar.  Óbeina skatta þurfa allir að greiða, skattsvikarar og ferðamenn líka.  Á meðan ekki finnst nein lausn á þeim vanda, sem skattsvikin eru, ættu stjórnvöld fremur að auka óbeina skatta en minnka þá, ólíkt því, sem nú er stefnt að."

Hér er talað tæpitungulaust um skattsvik og spjótunum beint sérstaklega að ferðaþjónustunni.  Stjórnvöld eru nú einmitt að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og stefna á að jafna aðstöðu allra atvinnugreina m.t.t. skattheimtu. Einfaldast og skilvirkast er auðvitað að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep, en sumir þrýstihópar mega ekki heyra það nefnt. Veruleg fækkun undanþága er sjálfsagt mál, og ferðaþjónustan hlýtur að flytjast senn hvað líður í hærra virðisaukaskattsþrepið með alla sína þjónustu.  Vonandi verður þá hægt að lækka það. 

Afnám vörugjalds og tolla var jafnframt góður gjörningur til að bæta lífskjörin í landinu og lækka verðlag, sem hefur stungið í stúf við verðlag nágrannalandanna.  Þessar aðgerðir stjórnvalda voru þess vegna til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands um fólk og viðskipti.

Nú er átak í gangi hjá skattyfirvöldum á Íslandi og annars staðar að hafa uppi á skattsvikurum, en betur má, ef duga skal.  Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn erlendis frá um fé í skattaskjólum, en afrakstur þeirrar rannsóknar hefur ekki farið hátt hérlendis.  Skattsvik eru þjóðfélagsböl, sem yfirvöldum ber að sýna klærnar og enga miskunn. 

Ragnar Önundarson gerði moldvörpurnar að umræðuefni í téðri grein:

"Varaþingmaður tók nýlega sæti á Alþingi og hóf strax umræðu um erfið kjör aldraðra og vildi auka útgjöld án þess að gera tillögu um öflun tekna.  Allir geta verið sammála um, að aldraðir eigi skilin betri kjör, en aldrei kemur fram neinn skilningur á rótum vandans og þaðan af síður raunhæf tillaga um lausn. Ekkert er minnzt á þá fjölmörgu hátekjumenn, sem vandanum valda.  Það eru skattsvikararnir, sem hvorki greiða skatta né í lífeyrissjóð í gegnum lífið, og það fer saman.

Þriðju svikin þeirra eru "bótasvikin"; að vera á bótum, sem þeir eiga ekki rétt á í raun.  Hefðbundin rök fyrir útgjöldum án tekna þess efnis, að aldraðir hafi "byggt þetta samfélag upp" o.s.frv., eru augljóslega röng í tilviki skatt- og lífeyrissvikara.  Þeir heimta betri kjör og fyrsta flokks þjónustu, hafandi árum og áratugum saman stolið tekjum af þeim sameiginlega sjóði, sem greiðir velferðarkerfið.  Þeir hafa efni á lúxus, sem aðrir geta ekki leyft sér, snjósleðum, fjórhjólum, hestum, hestakerrum og aflmiklum trukkum til að draga herlegheitin fram og til baka fyrir framan nefið á þeim, sem borga skólagöngu barnanna þeirra og heilbrigðisþjónustu þeirra og fjölskyldu þeirra.  Þessir menn valda því, að ríkissjóður sker lífeyri fólks, sem býr við alvarlega fötlun og veikindi, við nögl.  Það er þreytandi að hlusta á innantóm orð þingmanna og loforð um útgjöld, en hvenær sem komið er að kjarna vandans, horfa þeir í hina áttina."

Margir Íslendingar geta skrifað undir þetta, og það er harmsefni, af því að ástandið, sem lýst er, ber vitni um þjóðfélagslega meinsemd og óréttlæti, sem stjórnvöld alls lýðveldistímans hafa ekki borið gæfu til að taka á af einurð og karlmennsku, heldur látið dankast og kaffærast í gagnslítilli skriffinnsku.  Þessi þjóðfélagslegi tvískinnungur að líða það, að ekki séu allir jafnir fyrir skattalögunum, er áreiðanlega rót töluverðrar þjóðfélagsóánægju, sem stjórnmálamönnum allra flokka væri sæmst að leita lausna á og hrinda úrbótum í framkvæmd. 

Það nær engri átt, hversu fáir þjóðfélagsþegnar á vinnumarkaðinum leggja eitthvað teljandi að mörkum til sameiginlegra þarfa af launum sínum, eins og Ragnar Önundarson benti á, og sniðgöngumenn ættu að hafa hægt um sig, þegar kemur að því, að þeir telji sig hafa öðlast rétt á framlagi úr sameiginlegum sjóði landsmanna.  Afætur eru þeir, og afætur skulu þeir heita.  Megi skömm þeirra lengi uppi vera.

Að lokum skal hér vitna í John Fitzgerald Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta:

"Efnahagskerfi, sem þrúgað er af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, og það mun heldur aldrei skapa nægilegan hagvöxt né nægilega mörg störf."


Ris og fall bandarísks vaxtar

Út er komin hjá bandaríska forlaginu, Princeton University Press, bókin: "Ris og fall bandarísks vaxtar - bandarískir lífshættir síðan í Borgarastríðinu".

Lýsingin á að mörgu leyti einnig við Evrópu og þá Ísland með hálfrar aldar seinkun og er fróðleg. Verður stuðzt hér við þessa bók í endursögn "The Economist", 9. janúar 2016:

Þann 20. janúar 2016 komu þeir saman í fjallabænum Davos í Sviss, sem líta á sig sem alþjóðlegt úrval, og ræddu "fjórðu iðnbyltinguna". 

Sú fyrsta varð um 1750 með hagnýtingu eðlisfræðilögmála Sir Isacs Newtons frá öldinni áður og lögmála varmafræðinnar með frumsmíði gufuvélar Skotans James Watts, og skömmu seinna var farið að dæla olíu úr jörðu í Pennsylvaníu og hagnýta hana sem eldsneyti í Bandaríkjunum - BNA. Tímabil jarðefnaeldsneytis gekk í garð og varaði í þrjár aldir, en um miðja 21. öldina verður notkun þess að renna sitt skeið á enda, ef ekki á illa að fara. 

Önnur iðnbyltingin varð með útleiðslu eðlisfræðilögmála Maxwells og Faradays um rafsegulfræði og rafstraum og síðan beizlun rafmagns á þeim grunni um 1880. 

Sú þriðja fylgdi í kjölfar Afstæðiskenningar Alberts Einsteins fyrir öld og síðan beizlun kjarnorkunnar 1945, og sú fjórða stendur í raun enn yfir, en það er tölvubyltingin, sem hófst um 1985.  Sér ekki fyrir endann á henni.

Það er þó ofmat hjá Klaus Schwab, hringhöfðingja sirkusins, sem á ensku nefnist "The World Economic Forum" eða "Vettvangur heimshagkerfisins", að 4. byltingin sé sú áhrifamesta.  T.d. er sjálfkeyrandi bíll minni breyting en vélknúin bifreið, sem smíði hófst á í lok 19. aldar, og fjöldaframleiðslutækni Fords í byrjun 20. aldar gerði síðan að almannaeign.

Önnur tæknibyltingin, sem átti sér stað 1870-1900, gjörbylti lífi fólks.  Áður var hraði tengdur hrossum, og sólarhringstaktinn ákvarðaði snúningur jarðar um möndul sinn.  Grunnþörfum var fullnægt með líkamlegu erfiði, t.d. að sækja eldunarvatn, baðvatn og þvottavatn, og bera í hús.  Þetta erfiði lenti oftast á konum og börnum, og hiklaust má halda því fram, að 2. tæknibyltingin hafi frelsað konuna undan þrældómi heimilisverkanna, og var þá kominn tími til. Rafknúin heimilistæki og raflýsing gjörbyltu heimilishaldinu til hins betra ásamt loftgæðum innanhúss, og mynduðu grundvöllinn að þátttöku kvenna í atvinnulífinu og kvenfrelsisbaráttunni, svo að ekki sé nú minnzt á framleiðniaukninguna og framleiðsluaukninguna, sem varð samfara innreið rafmagnsins. Að baki meiriháttar þjóðfélagsbreytingum og hernaðarsigrum er oftast tækniþróun.  Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum hag verkalýðs hefði orðið ósköp léttvæg án risaskrefa í framleiðniaukningu 1880-1980 á Vesturlöndum, í Japan og víðar, og hefði orðið létt í vasa án mikillar framleiðsluaukningar og hagvaxtar, sem hagnýting tækniþróunar gerði mögulega.   

Rafmagnið færði birtu og yl inn í húsakynnin og smám saman komu á markaðinn rafknúnar eldavélar, þvottavélar, ísskápar og fleiri heimilistæki.  Við þetta snarbatnaði loftið í hýbýlunum, afköst við heimilisverkin jukust, og þau urðu léttari. Fæðuúrvalið jókst til muna með bættri geymslutækni. Nútímalega lifnaðarhætti og velferðarmöguleika eigum við raunvísindunum og hagnýtingu þeirra á margvíslegum tækni- og framkvæmdasviðum að þakka. 

Uppgötvun, smíði og dreifing símans stytti fjarlægðina á milli fólks til mikilla muna.  Afturhaldsöfl voru auðvitað á móti þessum breytingum víða, og á Íslandi er andstaðan og óttinn við símann alræmd. Síðan hafa flest framfaramál á Íslandi, sem fólu í sér verklegar framkvæmdir og/eða breytingar á umhverfi eða lífi fólks, sætt ámæli afturhaldsafla.  Í hverju þjóðfélagi má búast við, að afturhaldsöfl geti náð til 20 % þjóðarinnar, og þetta hlutfall virðist stækka með aukinni velmegun, en það er ekki um neitt annað að gera fyrir hina en að halda sínu striki og leiða þróunina áfram til betra mannlífs með beztu fáanlegu tækni á hverjum tíma.  Það er skylda okkar að búa þannig eftir megni í haginn fyrir komandi kynslóðir.  Aðgerðarleysi og dauðyflisháttur er dauðasök.   

Verð á bílum hríðféll, eða um 63 %, á árabilinu 1912-1930 eða um 3,5 % á ári að jafnaði að raunvirði.  Nú á tímum á sér stað enn meiri verðlækkun á rafmagnsbílum, sem taka munu við af bílum knúnum sprengihreyflum 19. aldar, þegar tökin á geymslu rafmagns verða orðin viðunandi. 

Á þessum árum varð bifreiðin almenningseign í BNA, því að þá jókst fjöldi heimila með aðgang að bifreið frá 2 % og upp í 90 % eða um tæplega 5 % á ári að jafnaði.  Gerðist þetta mun fyrr í BNA en í Evrópu eða annars staðar í heiminum, en var í raun stefna Þriðja ríkisins á 4. áratuginum, og var Volkswagen-bjallan hönnuð sem bifreið hins vinnandi manns og fyrir hana og stærri bifreiðir af gerð Merchedes-Benz, Porsche o.fl., lagðar fyrstu hraðbrautirnar, "Autobahnen", sem nú eru sveitavegir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi. 

Á fyrstu 30 árum 20. aldarinnar varð tækniþróunin svo ör í borgaralegu samfélagi BNA markaðshagkerfis frjálsrar samkeppni, að segja má, að þau hafi skilið Evrópu eftir, enda álpuðust stórveldi Evrópu út í stórstyrjöld, sem stóð 1914-1918, og var reist á misskilningi, rangtúlkunum og risaegói aðalsins, sem enn hafði þar tögl og hagldir þó án beysinna hæfileika í mörgum tilvikum.  Þjóðfélagsumrót í kjölfar gífurlegs mannfalls og hörmunga þessarar styrjaldar velti aðlinum góðu heilli úr sessi, en í henni voru færðar hræðilegar og ófyrirgefanlegar fórnir, og hún varð Evrópu hrikalega dýrkeypt á marga vegu. 

Reyndar höfðu BNA strax um aldamótin 1900 náð mikilli forystu í tæknivæðingu almennings. Árið 1900 voru ferfalt fleiri símtæki á íbúa í BNA en á Bretlandi, sexfalt fleiri á íbúa en í Þýzkalandi og 20-falt fleiri á íbúa en í Frakklandi.  Þremur áratugum seinna áttu Bandaríkjamenn meira en 78 % af öllum bifreiðum í heiminum.  Loks árið 1948 höfðu Frakkar náð sambærilegu aðgengi að bifreiðum og rafmagni og Bandaríkjamenn höfðu náð árið 1912. 

Evrópa hafði verið lögð í rúst í hefndarstríði þjóðernisjafnaðarmanna 1939-1945 eftir ófarir þýzkumælandi landa keisaranna í Berlín og Vín í ófriðnum mikla 1914-1918, og Bandaríkin reyndar leitt báðar styrjaldirnar til lykta, svo að forskot Bandaríkjanna í tæknivæðingu samfélagsins hélzt lungann úr 20. öldinni.

Þegar þýzka herráðið vann að styrjaldaráætlunum Þriðja ríkisins 1938-1940, var ekki gert ráð fyrir ógn af hernaðarmætti BNA í Evrópu.  Stafaði það af þrennu:

Ífyrsta lagi var rík einangrunartilhneiging í BNA eftir Kreppuna miklu og þingið ófúst að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanum í Evrópu, þ.e. Möndulveldunum eða Vesturveldunum, enda afkomendur þýzkumælandi innflytjenda í BNA um þriðjungur Bandaríkjamanna á þessum tíma og öflugir í samfélaginu. Þá þótti ógæfulegt að stugga við hinni rísandi sól, Japan, sem var eitt Möndulveldanna. 

Í öðru lagi stóð Wehrmacht ekki ógn af bandaríska hernum á þessum tíma, því að hann þótti þá sambærilegur rúmenska hernum að stærð og atgervi, sem er með ólíkindum. 

Í þriðja lagi var talið, að Bandaríkjamenn mundu eiga fullt í fangi með að fást við Japani, en vegna öxulsins Berlín-Tokyo-Róm var Berlín kunnugt um fyrirætlun keisaradæmis hinnar rísandi sólar um framrás á Kyrrahafinu og til Suð-Austur Asíu, en Japanir höfðu þá tögl og hagldir í auðugum héruðum Kína, þar sem þeir öfluðu hráefna fyrir ört vaxandi iðnað sinn.  Forkólfar möndulveldanna réttlættu stríðsæsing sinn með nauðsynlegri öflun matvæla og iðnaðarhráefna fyrir ört vaxandi þjóðir sínar, sbr slagorðið, "Drang nach Osten", sem átti að beina sjónum Þjóðverja í austurátt að "kornforðabúri Evrópu", Úkraínu, en átti eftir að leiða þá í tortímingarleiðangur til Leningrad, Stalingrad, Moskvu og Kákasus.

Þýzka herráðið vanmat gjörsamlega mikilvægi tæknilegs forskots Bandaríkjanna og hinn gríðarlega framleiðslumátt þessa rísandi stórveldis, og herráðinu varð þetta ekki ljóst fyrr en árið 1942, og þessi mistök ásamt WC-þættinum, þ.e. stríðsleiðtogahæfileikum Sir Winstons Churchills, áttu eftir að verða afdrifarík og leiða til endaloka "Þúsund ára ríkisins" eftir rúm 12 ár frá stofnun.  Þetta kemur vel fram í endurminningabók þýzka vígbúnaðarráðherrans, Alberts Speers, arkitekts.

Eftir sigur Bandamanna undir forystu Bandaríkjamanna 1945 festu þeir áhrifamátt sinn í sessi með með nýrri heimsskipan á grundvelli Marshall-aðstoðarinnar og Bretton Woods fjármálakerfisins, og með því að láta mikið fé renna til æðri menntunar í BNA, sem leiddi til atgervisflótta þangað og lagði grunn að miklu framfaraskeiði í hagkerfi, þar sem framleiðslunni var beint frá hergögnum og öðrum þörfum hersins til friðsamlegra þarfa og neyzluvarnings.  1950-1970 var tímabil velmegunar og eflingar miðstéttarinnar bandarísku, og jafnvel fólk með einvörðungu grunnskólamenntun gat vænzt atvinnuöryggis, húss í úthverfi og nægra eftirlauna, sem var afrakstur byltingar borgarastéttarinnar. 

Árið 1970 tók að falla á þessa fögru mynd, enda fóru bandarísk fyrirtæki nú að finna fyrir samkeppni, einkum frá þeim, sem bandaríski herinn hafði átt drjúgan þátt í að knésetja 1945, Japan og Þýzkalandi.  Víetnam-stríðið dró BNA siðferðislega niður í svaðið og varð upphafið að hnignun ríkisins.  OPEC margfaldaði olíuverðið 1973, og það varð öllum iðnríkjum þungbært, ekki sízt BNA, sem knúin voru áfram með olíusóun.  Tekju-og eignamunur þegnanna tók nú að aukast, þar sem auðurinn safnaðist á færri hendur, og kjarabætur miðstéttanna stöðvuðust. Þær fengu ekki lengur réttlátan hlut í framleiðniaukningunni. Þessi þróun mála getur endað með ósköpum í BNA. Þar ríkir greinilega reiði á meðal almennings út í stjórnkerfið, sem mörgum þykir hafa brugðizt sér, en hyglað "Wall Street" (Borgartúninu), þ.e. spákaupmönnum og auðjöfrum, á kostnað hins stritandi manns.  Þetta er ástæðan fyrir fylgi við lýðskrumarann Donald Trump og jafnaðarmanninn Bernie Sanders.  Þarna er mikil gerjun, sem vonandi mun á endanum verða almenningi til eflingar á kostnað auðjöfranna.

Á bak við kjarabætur almennings hafði á tímabilinu 1920-1970 staðið mikill framleiðnivöxtur eða 2,82 % á ári að jafnaði.  Á tímabilinu 1970-2014 hefur honum hrakað mjög eða niður í 1,62 % á ári að jafnaði.  

Nú mega Bandaríkjamenn muna fífil sinn fegri.  Þjóðin eldist, lækniskostnaður vex, ójöfnuður er hrikalegur á íslenzkan mælikvarða og samfélagsleg innanmein grafa um sig.  Bandaríkjamenn hafa misst fótfestu í alþjóðamálum, og þau gætu hreinlega dregið sig inn í skel sína, senn hvað líður.  Það er auðvitað miður og mun auka enn á óreiðuna í heiminum.  Þó virðast þeir  nýlega vera farnir að bera víurnar í sína gömlu aðstöðu á Íslandi, en óvissan er mikil um, hvað við tekur eftir kosningarnar í nóvember 2016.

Tæknilegt forskot Bandaríkjamanna virðist nú vera bundið við hergagnaiðnaðinn, þar sem þeir njóta yfirburða, en í flestum nytjavöruflokkum almennings virðast þeir jafnvel hafa dregizt aftur úr, s.s. í farsímum, bílum og heimilistækjum.  Í fararbroddi á þessum sviðum eru nú Evrópumenn og Austur-Asíumenn.  Við þessum heimshlutum blasir hins vegar ekki síður við mikill vandi af lýðfræðilegum og stjórnmálalegum toga, þ.e. hrörnun. Nestor jafnaðarmanna á Íslandi, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur lýst Evrópusambandinu sem brennandi húsi. Olíuverðlækkunin, sem hófst í júní 2014 og mun standa a.m.k. út 2016, nema fjandinn losni úr grindum, hefur komið af stað miklu umróti í heiminum, sem ekki sér fyrir endann á. Íslendingar standa við þessar aðstæður að mörgu leyti með pálmann í höndunum, en verða, eins og fyrri daginn, að sýna skipstjórnarhæfileika til að sigla fleyinu ólöskuðu gegnum öldurótið.       

 

 

 

  


Græningjar sveigja til vinstri

Sagt er, að Samfylkingin sé í andarslitrunum.  Farið hefur fé betra, verður þá sumum að orði.  Það er ekki séríslenzk þróun, að jafnaðarmannaflokkar skreppi saman um þessar mundir.  Þessa þróun má sjá um alla Evrópu, og græningjar álfunnar hafa séð sér leik á borði að sækja inn í tómarúmið, sem jafnaðarmenn skilja eftir sig á vinstri vængnum. Þá skapast náttúrulega svigrúm fyrir hægri græna, og einmitt það sáum við í Þýzkalandi, þegar Angela Merkel, kanzlari og leiðtogi CDU-Christliche Demokratische Union, sem er miðju-hægri flokkur og svipar til  Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, tók þýzka græningja á orðinu í kjölfar Fukushima-kjarnorkuslyssins í Japan 2011 og gleypti við stefnu þeirra um að loka þýzkum kjarnorkuverum í síðasta lagi árið 2022.  Þessi stefna er reyndar tímaskekkja nú, þegar megináherzluna verður að leggja á að stöðva aukninguna í styrk koltvíildis, CO2, í andrúmsloftinu, og það verður hreinlega ekki hægt, nema með því að fjölga kjarnorkuverum á kostnað kolakyntra raforkuvera. 

Jesse Klaver heitir nýr formaður hollenzkra græningja, sem nú reynir að blása nýju lífi í flokk, sem í kosningum árið 2012 féll úr tæplega 7,0 % fylgi í rúmlega 2,0 % fylgi.  Eftir honum hefur "The Economist" þetta, 23. maí 2015:

"Sú tilfinning hefur grafið um sig í Hollandi, í Evrópu, á Vesturlöndum, að við fáum engu breytt um nokkurn skapaðan hlut, að þetta sé bara, eins og heimurinn er.  Það er þó ekki rétt. Við reistum þessa veröld, stein eftir stein, og það, sem þið reisið sjálf, því getið þið og breytt."

Aukið fylgi hollenzkra vinstri grænna geta þeir þakkað Verkamannaflokkinum, sem gekk í eina sæng um ríkisstjórn með mið-hægri Frjálslyndum og ber með þeim ábyrgð á aðhaldsstefnu um ríkisfjármálin.  Það hefur skapað Klaver tækifæri til ákafs áróðurs fyrir lausatökum á ríkisfjármálum.  Honum verður tíðrætt um skattaundanskot fjölþjóðafyrirtækja. Á slíkum áróðri gegn erlendum stórfjárfestum ber og hérlendis á vinstri slagsíðunni. Hann vill setja lög um lágmarkslaun, og hann hefur boðið franska hagfræðinginum Thomas Piketty að ávarpa hollenzka þjóðþingið.

Í Þýzkalandi hefur samsteypustjórn CDU/CSU og SPD (þýzkra jafnaðarmanna) valdið vafa hjá kjósendum um, hvað jafnaðarmenn standa eiginlega fyrir. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýzkalands, nýtur þó vinsælda á með Þjóðverja. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í Berlín er þó tekin að reita af henni fylgið, og spennandi verður að fylgjast með afstöðu kjósenda í væntanlegum þýzkum fylkiskosningum.

Í Frakklandi hafa jafnaðarmenn gengið á bak fyrri loforða sinna og reyna nú að draga saman seglin í ríkisrekstrinum. Þess vegna yfirgáfu græningjar ríkisstjórnina frönsku.  Franska ríkisstjórnin hraktist frá ofurskattlagningu, 75 %, á hátekjufólk, og nú eru þeir að hörfa frá stolti sínu, 35 klukkustunda vinnuviku, vegna bágborinnar samkeppnishæfni fransks atvinnulífs.

Þrátt fyrir rek brezka Verkamannaflokksins til vinstri fyrir kosningatap sitt 7. maí 2015, þá skilgreindu þarlendir græningjar sig sem staðfastan vinstri flokk og fjórfölduðu fylgi sitt upp í 4 %. Verkamannaflokkurinn brezki er lamaður vegna innanflokkserja eftir kjör vinstri mannsins Corbyns í formannssætið.  Hins vegar ætlar þjóðaratkvæðagreiðslan um veru eða brotthvarf Bretlands að reynast Íhaldsflokkinum býsna örlagarík.

Í Austurríki lyfti andóf við miðjumoði í ríkisstjórn græningjum upp í 12 % fylgi í þingkosningum 2013. 

Í Svíþjóð eru græningjar í ríkisstjórn með jafnaðarmönnum, í fyrsta sinn, og hafa fengið framgengt nýskattlagningu á kjarnorkuver, svo að framtíð þeirra er teflt í tvísýnu. Sænska ríkisstjórnin hefur annars verið aðgerðalítil, en tók þó loks af skarið gagnvart hömlulausu innstreymi flóttafólks, þegar allt var komið í óefni.

Bágstödd hagkerfi og mikið atvinnuleysi eru ekki fylgislegt kjörlendi fyrir flokka, sem einblína á umhverfisvernd.  Versnandi kjör virðast fæla kjósendur frá miðjuflokkum og til lítilla hugsjónaflokka, en þar fljóta yfirleitt ofan á hatrammir Evrópusambandsandstæðingar og þeir, sem hamla vilja innstreymi innflytjenda, t.d. brezki UKIP-Sjálfstæðisflokkurinn og franska Þjóðfylkingin-FN.  Græningjar vilja yfirleitt ekki hömlur á aðstreymi innflytjenda, og þeir eru Evrópusambandssinnar.

Hérlendis svipar pírötum nokkuð til græningja í Evrópu, en þeir eru þó ólíklegir til að leita til vinstri við Samfylkinguna.  Líklegra er, að vinstri grænir blási dálítið út, þegar Samfylkingin veslast upp, enda njóta vinstri grænir nú meira fylgis í skoðanakönnunum en Samfylkingin. Píratar á Íslandi bera keim af gömlu stjórnleysingjunum, enda hafa þeir lýst sér sem andkerfisflokki.  Stefnumálin flækjast ekki fyrir pírötum, heldur eru þeir uppteknari af naflaskoðun, innanflokks valdabáráttu og titlatogi.  Í einu orði má lýsa slíku fólki sem naflaskoðurum, og verður ekki séð, hvaða erindi slíkir eiga á vettvang stjórnmálanna.  Kannski er þessi "póstmoderníski" snykur pírata styrkur þeirra og svar við firringunni.  

Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka sér stöðu sem raunhæfur, þ.e. "no nonsense", umhverfisverndarflokkur og einblína í því sambandi á minnkun og útjöfnun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem er stærsta umhverfisverndarmálið nú á Íslandi og á alþjóðavísu, og á Íslandi má enn bæta við uppblæstri lands og stækkun stærstu eyðimerkur Evrópu sem meginviðfangsefni á sviði umhverfisverndar.  Þar er hægt að setja þjóðinni metnaðarfullt markmið um að verða fyrst Evrópuþjóða til að ná 0 nettó losun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en árið 2045, m.a. með stórfelldri ræktun auðna, sem kostuð væri af kolefnisgjaldi og/eða koltvíildisskattheimtu (samhliða lækkun annarrar skattheimtu til mótvægis). 

Til alls þessa eru raunhæfar efnahgslegar og tæknilegar forsendur nú þegar fyrir hendi eða verða fyrirsjánlega tiltækar í tæka tíð.  Stefnumörkun af þessu tagi mun hafa jákvæð áhrif á hagkerfið, sem verður óháð innflutningi á jarðefnaeldsneyti, og mun skapa arðsama atvinnu við landgræðslu og skógrækt í hinum dreifðu byggðum landsins.    

 


"Garmurinn hann Ketill"

Andúðin á auðlindanýtingu (náttúrunnar) tekur á sig ýmsar myndir, en er alltaf jafnfurðuleg og gæti jafnvel stundum minnt á kvalanautn (masókisma).  Hér skal fullyrða, að án núverandi auðlindanýtingar væru Íslendingar ekki í einu af 4 efstu sætunum í Evrópu yfir verga landsframleiðslu (VLF) á mann, eins og nú er raunin, heldur mun neðar á þeim lista, og svo mætti lengi telja eftirsóknarverðar kennistærðir hagkerfisins, t.d. atvinnuþátttöku, fólksfjölgun, rekstrarafgang ríkissjóðs og lækkun skulda ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.  Jafnframt er leitun að landi með meiri jöfnuð lífskjara samkvæmt Gini-stuðlinum. Hið opinbera hefur mjög útjafnandi áhrif í anda "Sozial Marktwirtschaft" eða markaðshyggju með félagslegu ívafi. 

Þann 12. janúar 2016 birtist ein af þessum einkennilegu greinum í Fréttablaðinu, þar sem reynt er að rakka niður auðlindanýtingu með fullyrðingum út í loftið.  Greinin ber heitið:

"Einhæfni auðlinda og virðiskeðjan",

og er höfundurinn Þröstur Ólafsson, hagfræðingur. Í huga blekbónda mætti líkja tilraun á Íslandi til að þróa hagkerfi án nýtingar á auðlindum náttúrunnar við tilraun til að reisa hús án sökkla.  Um slíkt hús mætti sannarlega hafa orð heilagrar ritningar, að það væri reist á sandi og stæðist því ekki "veður og vinda".  Lítum nú á sýnishorn af því, sem téður hagfræðingur leggur til málanna, og rýnum merkinguna:

"Hér er næg almenn atvinna og þúsundir lítt menntaðra útlendinga á leiðinni.  Afkoma fólks fer batnandi.  Brottflutningur menntaðs fólks er vegna skorts á sérhæfðum atvinnutækifærum, sem á mikið skylt við óþroskað, einhæft hagkerfi. Auðlindahagkerfi eru í eðli sínu einhæf.  Hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafa mikla þörf fyrir fjölmenntað fólk."

Hér tekur Þröstur, hagfræðingur, algerlega rangan pól í hæðina og slær um sig með fullyrðingum, sem ekki standast.  Hvaðan hefur hann það, að þúsundir lítt menntaðra útlendinga séu á leiðinni til landsins ?  Ætli mesta vöntunin á vinnuafli verði ekki í byggingargeiranum og í ferðaþjónustu ? Hinn fyrr nefndi þarf á sérhæfðu fólki að halda, m.a. iðnaðarmönnum, og þá er dónaskapur að skrifa um sem "lítt menntaða", enda búa þeir yfir verðmætri þekkingu og reynslu.  Síðar nefnda greinin þarf í mörgum tilvikum líka á sérhæfingu og tungumálakunnáttu að halda, t.d. í eldhúsi og við gestamóttöku.

Það vantar því miður upplýsingar um, hvers konar "menntafólk" er að flytjast frá landinu, en það er vert að benda á, að sprenging hefur orðið í fjölda útskrifaðs fólks úr háskólum, og þess vegna ekki kyn, þó að keraldið leki, enda búið að vara við offjölgun á ýmsum hugvísindasviðum. Samt hafa margir valið sér námsgreinar, sem þeir gengu ekki gruflandi að, að lítil spurn væri eftir í almennu atvinnulífi, og opinberi geirinn tekur ekki endalaust við. Hins vegar er um þessar mundir mikil spurn eftir hvers konar raunvísinda- og tæknifólki, svo að ekki sé nú minnzt á heilbrigðisgeirann. 

Íslenzka hagkerfið er hvorki óþroskað né einhæft, enda eru þetta órökstuddir sleggjudómar manns, sem þekkir lítið sem ekkert til íslenzks atvinnulífs. Opinber málflutningur af þessu tagi er hagfræðingastéttinni til vanza. 

Íslenzka hagkerfið er ungt og sprækt, eins og einstæður hagvöxtur þess ber með sér.  Þroski þess kemur m.a. fram í því, að það ræður við ströngustu gæðakröfur á alþjóðlegum mörkuðum, þar sem það keppir, t.d. á álmörkuðum og fiskmörkuðum.  Hagkerfið er ekki einhæft, heldur fjölbreytt, enda er það reist á styrkum stoðum matvælaframleiðslu til lands og sjávar, mestu raforkuvinnslu á mann í heiminum, stóriðju, sem notar megnið af þessari orku og fjölþættri ferðaþjónustu, sem er umsvifameiri hérlendis en dæmi eru um annars staðar, reiknað á hvern íbúa landsins.

Þannig er það eins og hver önnur gatslitin klisja og innistæðulaus alhæfing hjá hagfræðinginum, að auðlindahagkerfi sé í eðli sínu einhæft.  Það er þvættingur, að hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafi mikla þörf fyrir "fjölmenntað" fólk.  Þegar litið er til úrvinnslustarfsemi þessara greina og hliðargreinar frumgreinanna, er ljóst, að sú vöruþróun krefst fjölbreytilegrar sérhæfingar og jafnvel vísindalegrar þekkingar.  Sem dæmi má taka sjávarútveginn, sem leggur sjálfur til 8,5 % af VLF, en með sprotum og hliðargreinum alls 25 % - 30 % af VLF.

"Síðan var uppbygging stóriðju meginþungi í efnahagsstefnu landsins.  Nýr einhæfur auðlindaatvinnuvegur varð til. Okkur mistókst að byggja upp úrvinnsluiðnað og skapandi störf tengd stóriðjunni, sem juku verðmætasköpunina og skildu stærri hluta virðisaukans eftir í landinu."

Hagfræðingurinn er utan gátta, eins og fyrri daginn.  Hlutverk orkukræfa iðnaðarins á Íslandi hefur alla tíð verið að breyta endurnýjanlegri orku í málm, aðallega "græna" málminn ál, og það hefur jafnlengi verið vitað, að úrvinnsluiðnaður áls fengi ekki þrifizt. Af veltu áliðnaðarins sitja um 40 % eftir í landinu, og það er alls ekki lítið, þegar litið er til þess, að fjárfestingin er áhættulaus fyrir Íslendinga. Annaðhvort þarf umfang úrvinnslunnar, t.d. felgusmíði, að vera svo mikið, að flytja þyrfti ál til landsins, eða innanlandsnotkun að taka við afurðunum.  Hið fyrra er of dýrt, og hið síðara er óraunhæft.

Slíkur úrvinnsluiðnaður verður að vera tiltölulega nálægt viðskiptavinunum, því að annars verða flutningarnir of dýrir og tímafrekir.  Það er dálítið steypt hérlendis úr áli, og Alpan fékk um hríð ál frá ISAL, en það var svo lítið magn af hverju melmi, að viðskiptin lognuðust útaf. Menn geta verið vissir um, að væri viðskiptalegur grundvöllur fyrir slíkri úrvinnslu á Íslandi, hefðu álframleiðendurnir Rio Tinto Alcan og Alcoa þegar komið henni á legg.

Það hefur hins vegar sprottið upp frumkvöðlastarfsemi í samvinnu við álverin um þróun og smíði sjálfvirks búnaðar til uppsetningar í álverum, t.d. í skautsmiðjum.  Á grundvelli þessarar sprotastarfsemi hefur framleiðslufyrirtækjum vaxið fiskur um hrygg og flutt út tækjabúnað til álvera um allan heim. Fyrirtækin hafa í sumum tilvikum afhent alverk, þ.e. hannað, smíðað, sett upp og tekið búnaðinn í notkun og fellt hann inn í framleiðslukerfi viðkomandi verksmiðju.  Þessum útflutningsfyrirtækjum hefði ekki tekizt svo vel upp, ef þau hefðu ekki fengið tækifæri til þróunar hjá álverunum á Íslandi og ef þau hefðu ekki fram úr skarandi starfsfólki á að skipa, verkfræðingum, tæknifræðingum, iðnfræðingum, rafvirkjum, rafeindavirkjum, vélvirkjum o.fl.  Þetta svið hefur hentað íslenzkum aðstæðum miklu betur en úrvinnsluiðnaður álvera, hefur aukið tækniþekkingu í landinu, og öll verðmætasköpunin verður eftir í landinu. 

Hitt er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á, enda hefur Þröstur, hagfræðingur, greinilega ekki hugmynd um það, að í álverunum starfar fjölbreytilegur hópur og fjölmargir sérfræðingar, þar af dálaglegur hópur með háskólagráðu, hvort sem eru á launaskrá álveranna eða eru verktakar hjá þeim.  Stærstu rafkerfi landsins eru innan vébanda álveranna, stærstu þrýstiloftsveitur og meðal stærstu vatnsveitna, og þar er gríðarleg sjálfvirkni, enda stærstu tölvusamskiptakerfi framleiðslufyrirtækja.  Álverið í Straumsvík hefur þróað sína sjálfvirkni sjálft með innlendum hugbúnaðarsérfræðingum, og gæti legið í iðntölvum ISAL afrakstur 250 mannára í hugbúnaðarvinnu, margt í fremstu röð sinnar tegundar í heiminum, og sumt algert brautryðjendastarf og með snilldarbrag. 

"Auðlindaafurðir eru óstöðugustu afurðir á mörkuðum.  Gleymum því heldur ekki, að ungt fólk með fjölhæfa menntun er ekki á launaskrá stóriðjuvera."

Þessi texti hagfræðingsins er tóm þvæla.  Sjávarafurðir eru auðlindarafurð, en þrátt fyrir bágborið efnahagsástand heimsins undanfarin misseri, hefur sjávarútveginum tekizt að fá hærra verð ár eftir ár fyrir t.d. þorskflök í EUR/kg. Þegar aflabrestur hefur orðið, hefur einingarverðmætið verið aukið. Ferðamannaiðnaðurinn gerir að stórum hluta út á náttúru Íslands og er þess vegna reistur á auðlindarnýtingu.  Hann vex um 20 % - 30 % á ári, þó að víða ári illa.  Hvaða starfsemi skyldi Þröstur Ólafsson hafa í huga, sem er ónæm fyrir markaðssveiflum ? 

Einn af styrkleikum íslenzka hagkerfisins er sá, að það stendur á þremur ólíkum undirstöðum, sem sveiflast ekki endilega í sama takti.  Þessar undirstöður eru matvælaiðnaður, málmiðnaður og ferðaþjónusta. 

Ef Þröstur, hagfræðingur, hefði gert lauslega könnun á starfsmanna- og verktakaskrá álveranna, hefði hann varla farið með fleipur um, að ungt fólk með verðmæta og alþjóðlega menntun sé ekki að finna á launaskrá stóriðjuvera.

Í téðri grein hins önuga og öfugsnúna hagfræðings gat líka að líta árás á íslenzku myntina.  Enn hagar hagfræðingurinn sér eins og fíll í postulínsbúð:

"Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ungt menntað fólk til að setjast að á Íslandi.  Þar á ég við íslenzku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi."

Hér er Þröstur, hagfræðingur, á mjög hálum ísi, faglega séð, því að hann teflir nákvæmlega engum rökum fram gegn krónunni.  Rökum teflir aftur á móti fram  kollegi hans, Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í greininni:

"Krónan og kjörin",

í Fréttablaðinu 26. nóvember 2015. Hann byrjar á því að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum, en þar er við lýði þrenns konar myntfyrirkomulag:

"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru.  Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm.  Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út."

Björn Brynjúlfur færir síðan fyrir því rök, að ástæða hrakfara Finna og Dana sé fastgengið og að ástæða velgengni hinna sé eigin, sveigjanleg, mynt. Gengi NOK, norsku krónunnar, hefur fallið miðað við ISK síðan á miðju ári 2014 um meira en þriðjung vegna þess, að olíuiðnaðurinn hefur gegnsýrt norska hagkerfið síðan 1980.  Þetta gengisfall gerist þrátt fyrir norska olíusjóðinn, sem er mun stærri en nemur norsku landsframleiðslunni á ári og er fullur af ígildi erlends gjaldeyris, og fé er tekið að streyma úr honum til norska ríkissjóðsins. 

Norski Seðlabankinn hefur auðvitað haft hönd í bagga með þessari þróun til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og efnahagskreppu í Noregi.  Hvernig halda menn, að staðan væri hjá frændum vorum með evru eða tengingu við hana.  Í Norðurvegi væri þá grátur og gnístran tanna, en öll kurl eru að vísu ekki komin til grafar, t.d. úr lánasafni norsku bankanna.

Í lok greinar sinnar skrifar Björn Brynjúlfur, og er hægt að taka heils hugar undir það:

"Í stað þess að líta til krónunnar sem orsakar efnahagslegra vandamála væri nær að einblína á hagstjórnina.  Endurbætur á því sviði verða alltaf mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum og munu skila ávinningi burtséð frá því, hvaða mynt er notuð.  Þá má jafnframt færa fyrir því rök, að slíkar aðgerðir séu nauðsynlegur aðdragandi upptöku annarrar myntar.  Aðdáendur og andstæðingar krónunnar hljóta því að sammælast um nauðsyn bættrar hagstjórnar."

Það er himinn og haf á milli málflutnings þeirra tveggja hagfræðinga, sem hér hefur verið vitnað til.  Annar setur sig á háan hest og talar (skrifar) niður til heilu atvinnugreinanna án þess að færa minnstu rök fyrir fordómafullum skrifum sínum, sem virðast mótast af vanþekkingu.  Hinn færir góð rök fyrir máli sínu og bendir á fylgni á milli laklegrar lífskjaraþróunar og evru sem þjóðargjaldmiðils. Í stærri mælikvarða er þetta afar greinilegt, þegar hagþróun fjölmennra þjóða er borin saman, t.d. Frakka og Ítala annars vegar og Breta hins vegar.  Að uppfylla Maastricht-skilyrðin er nauðsynlegt til að komast inn í myntbandalag Evrópu, og það liggur alveg beint við að móta efnahagsstefnu, sem styður við efnahagslegan stöðugleika með því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin. 

Hins vegar er annað skilyrði, sem nauðsynlegt er að uppfylla, svo að upptaka evru geti orðið til bóta fyrir hag landsmanna, og það er, að góð fylgni sé á milli hagsveiflu á Íslandi og í Þýzkalandi.  Bretar fundu á sínum tíma, að þessu færi fjarri, hvað þá varðar.  Þá geta menn ímyndað sér, hvernig staðan varðandi Ísland og Þýzkaland er að þessu leyti.  Nú er t.d. rífandi gangur á Íslandi, en evrubankinn berst við að hindra verðhjöðnun með því að dæla tæplega miaEUR 100 á mánuði inn á banka á evrusvæðinu, og hann heldur stýrivöxtum sínum neikvæðum. Væri Ísland nú hluti af þessu kerfi, mundi líklega geisa hér tveggja stafa verðbólga. 

Í öllum starfsgreinum á Íslandi er hæft fólk af ýmsum toga, sem daglega gengur til starfa sinna og leggur sig fram við að skapa sem mest verðmæti úr því, sem það er með í höndunum hverju sinni.  Að gera lítið úr verðmætasköpun sumra, t.d. í s.k. auðlindageirum, er bæði lítilmannlegt og ómaklegt.  Affarasælast er að lifa í anda kjörorðsins "stétt með stétt". 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband