30.3.2017 | 20:41
Að staldra við
Hljóðnað hefur í sæstrengsumræðunni frá útgáfu s.k. "Kvikuskýrslu" árið 2016 um sæstreng á milli Íslands og Skotlands, enda var slagsíða á henni, og hún var harðlega gagnrýnd. Má þó segja, að hún hafi falið í sér nægilega röksemdafærslu fyrir stjórnvöld að leggja þessa vanburðugu hugdettu á ís, en tækifærið virðist ekki hafa verið notað, sem enn veldur óskiljanlegum draugagangi. Síðast fréttist af einhverjum erlendum verktaka á tali við ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, um áhuga sinn á þessum sæstreng. Vonandi hefur ráðherra gert honum skilmerkilega grein fyrir því, að íslenzka ríkið verður ekki með nokkrum hætti skuldbundið gagnvart tæknilegum og fjárhagslegum rekstri á téðum sæstreng.
Agnes Bragadóttir skrifaði frétt í Morgunblaðið 24. marz 2017 undir fyrirsögninni,
"Áhættan ekki hjá Íslendingum. Þar vitnaði hún í Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, m.a. þannig:
"Hörður sagði, að Landsvirkjun hefði ávallt sagt, að ef til þess kæmi, að lagður yrði sæstrengur, þá yrði að útfæra verkefnið þannig, að áhættan, hvort sem væri rekstraráhætta, framkvæmdaáhættan eða markaðsáhættan, lægi hjá öðrum en Íslendingum."
Þetta eru reyndar hugarórar einir, nema Hörður ætli ekki að láta Íslendinga virkja og eignast virkjanirnar. Hörður virðist ætla að leggja upp með það, að útlendingar, og þá áreiðanlega einkafyrirtæki, því að engin ríkissjóður verður þar bakhjarl, fjármagni, eigi og reki sæstrenginn, og þar verði þá öll áhættan. Þetta er alveg með ólíkindum glámskyggn og barnaleg framsetning á viðskiptaumhverfi sæstrengs, og það er eiginlega alveg ótrúlegt, að forstjórinn skuli bjóða blaðamanni og lesendum Morgunblaðsins upp á aðra eins dómadags vitleysu.
Um er að ræða lengsta sæstreng hingað til og á mesta meðaldýpinu, þar sem 500 km hans verða á meira en 500 m dýpi. Mjög miklar kröfur þarf að gera til togþols og þrýstingsþols slíks sæstrengs. Hættan á miklu fjárhagstapi vegna langs viðgerðartíma á Norður-Atlantshafi er mikil, þar sem kyrrt þarf að vera í sjóinn a.m.k. í eina viku, á meðan viðgerð fer fram.
Það er hægt að hugsa sér fjölmargar sviðsmyndir, þar sem áhættan við lagningu og rekstur sæstrengsins getur komið eiganda hans í koll og riðið honum að fullu. Hann getur líka orðið gjaldþrota vegna tækninýjunga við umhverfisvæna vinnslu á rafmagni, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum, sem ræna hann viðskiptunum.
Eigendur virkjana og flutningsmannvirkja á Íslandi, væntanlega Landsvirkjun og Landsnet, munu þá sitja uppi með ónýttar fjárfestingar, sem lán hafa verið tekin fyrir út á sæstrengsviðskiptin. Þau munu samt væntanlega ekki falla í gjalddaga, nema greiðslufall verði. Það er erfitt að komast hjá þeirri tilhugsun, að íslenzkir skattborgarar og raforkunotendur muni þá sitja uppi með tjón, sem vafalítið mundi hafa í för með sér hækkun á raforkuverði á Íslandi, og þannig getur tjón af glannalegum viðskiptum hæglega lent á almennum íslenzkum raforkunotendum. Er þá skemmst að minnast, hvar tjón af völdum glannafenginna fjárfestinga OR á Hellisheiðinni lenti.
Hvers vegna í ósköpunum þessa áhættusækni fyrir hönd íslenzkra skattborgara ? Það eru næg viðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun hér innanlands, og það hefur verið sýnt fram á, að þessi viðskiptahugmynd um téðan sæstreng er andvana fædd og hún verður ekki bragglegri með tímanum. Þess vegna er Landsvirkjun og öðrum opinberum aðilum hollast að láta af þessum hugmyndum, og án opinberrar tilstuðlunar og áhættutöku verður ekkert af svo stórkarlalegum hugmyndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2017 | 13:56
Hættuleg velgengni
Mannkynið hefur tekið stakkaskiptum frá upphafsskeiði iðnvæðingar til vorra daga, e.t.v. ekki í þroska, heldur í aðbúnaði öllum og lífsháttum. Framfarir í raunvísindum voru forsenda þess upphafs þeirra tækniframfæra, sem oft er kennt við smíði gufuvélar James Watt um 1750. Hún markaði mannkyninu braut orkunýtingar til að leysa af hólmi vöðvaafl manna og dýra lífsframfæris og verðmætasköpunar.
Aðalorkugjafinn til að knýja vélar og til upphitunar hvers konar frá þessum tíma og hingað til hefur verið jarðefnaeldsneyti, kol, olía og jarðgas. Við bruna þessara efna, eins og við bruna á viði fyrr og nú, myndast ýmis skaðleg efni, mengunarefni, slæm fyrir öndunarfæri og aðra líkamsstarfsemi manna og dýra, sót, rykagnir, þungmálmar o.fl., en líka gastegund, sem er ekki mengunarefni, heldur eðlileg og nauðsynleg í andrúmsloftinu fyrir viðgang lífsins, en styrkur hennar í andrúmslofti og uppleyst í vatni hefur margvísleg áhrif.
Gastegundin, CO2, koltvíildi, hefur safnazt upp í andrúmsloftinu, og styrkur þess hefur vaxið um tæplega 50 % eða um 130 ppm frá því fyrir iðnbyltingu. Styrkurinn er lítill, en aukningin er hlutfallslega mikil og matið áreiðanlegt. Efnagreining á ís úr jökli hefur leitt þetta í ljós. Eðlisfræðileg áhrif slíkrar uppsöfnunar eru þekkt. Gasið endurkastar og sýgur í sig hluta af varmaútgeislun jarðarinnar; mun meira en af varmaútgeislun sólar til jarðar (önnur bylgjulengd). Afleiðingarnar eru allt að 1,0°C hlýnun neðstu laga lofthjúps jarðar og hlýnun sjávar á 270 árum með vaxandi stigli.
Koltvíildið sést ekki, en afleiðingarnar af auknum styrk þess í andrúmsloftinu leyna sér ekki. Bráðnun jökla, bráðnun íshellunnar á pólunum, hækkandi yfirborð sjávar, auknar veðurfarsöfgar og hitamet víða á jörðunni nánast árlega. Alvarlegast er, að hækki meðalhitastig á jörðunni yfir 2°C (um aðra gráðu í viðbót), þá losna kraftar úr læðingi, sem geta gert hitastigshækkunina stjórnlausa og óafturkræfa. Framtíð lífs á jörðunni í sinni núverandi mynd er í húfi.
Í þessu ljósi ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir mannkyn allt, að forseti Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, ætlar að hafa Parísarsamkomulagið frá desember 2015 að engu. Þetta verður Bandaríkjamönnum til minnkunar. Það hlálega er, að Donald Trump segir mikilvægara að vernda bandarísk störf en að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir, sem þannig tala, skilja ekki, að arðsömum störfum mun óhjákvæmilega fækka mjög við stjórnlausa hlýnun á jörðunni og að kostnaðurinn við að verjast skaðlegum afleiðingum hennar mun kyrkja efnahagslífið.
Losun vegna starfsemi á landi á Íslandi er mikil á hvern íbúa eða 13,7 t/íb eða 85 % meiri en í Evrópusambandinu, ESB. Iðnaðurinn losar helminginn af þessu, svo að með því að leggja niður orkusækinn iðnað, kæmumst við undir ESB-meðaltalið. Það mundi hins vegar ekki leysa úr hinni hnattrænu hlýnun að fórna viðkomandi störfum og verðmætasköpun á Íslandi, því að það er eins víst og 2x2=4, að nýjar verksmiðjur yrðu reistar erlendis í staðinn eða afköstin aukin í eldri verksmiðjum til mótvægis við tapaða framleiðslu hér. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í raforkuverum erlendis mundi framleiðsla á sama magni málma erlendis og nú eru framleiddir á Íslandi hafa í för með sér losun á a.m.k. 10 Mt/ár af CO2 ígildi (Mt=milljón tonn), sem er meira en losun allrar landstarfsemi á Íslandi ásamt fiskveiðiflota og losun alls farþegaflugs til og frá Íslandi ásamt flutningum á sjó til samans.
Þetta vita þeir, sem um þessi mál fjalla innanlands og utan, og þess vegna þurfa Íslendingar ekki að bera kinnroða fyrir því, að losun iðnaðar á gróðurhúsalofttegundum sé mikil og vaxandi hérlendis eða sæti ámæli ábyrgra aðila erlendis. Þessi starfsemi fellur undir "Emission Trade System"-ETS hjá ESB, sem úthluta mun síminnkandi losunarheimildum, og þurfa losunarfyrirtækin að kaupa sér heimildir, sem umfram eru úthlutunina eða að jafna hana út með ræktun. Verð er núna innan við 10 EUR/t CO2, en líklegt verð er um 30 EUR/t CO2 að áratug liðnum. Hagkvæmast verður fyrir viðkomandi fyrirtæki að kaupa sér heimildir á kvótamarkaði á Íslandi, þar sem kvótinn kemur frá bindingu CO2 með ýmiss konar ræktun, t.d. skógrækt. Það væri klókt að gera nú þegar samninga við skógarbændur um slík viðskipti.
Ræktaður skógur er nú á 430 km2 hérlendis. Ef hann verður tífaldaður, mun heildarflatarmál skógar útjafna alla losun iðnaðarins á gróðurhúsalofttegundum (það er væntanlega aðeins skógur yngri en frá 1990, sem taka má með í reikninginn). Það er nægt landrými til þess, því að flatarmál framræsts lands og óræktaðs nemur 80 % af flatarmáli slíks skóglendis, og það ætti að vera talsvert af annars konar landi, söndum og melum, til ráðstöfunar fyrir landgræðslu af ýmsu tagi, t.d. repjuræktun.
Bleiki fíllinn í "gróðurhúsinu" er millilandaflugið. Losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum hefur þreföld gróðurhúsaáhrif fyrir hvert tonn útblásturs á við losun á jörðu niðri. Á árinu 2017 er búizt við 2,4 M ferðamönnum með flugi til landsins. Ef þeir fljúga að jafnaði 8´000 km alls hver um sig, þarf um 0,48 Mt af eldsneyti í þessa flutninga, og losun gróðurhúsalofttegunda við bruna á því nemur 4,3 Mt af koltvíildisígildum, og varlega áætlað verður þá losun af völdum þessara ferðamanna 4,4 Mt með losun hér innanlands. Þetta er 85 % af allri losun Íslendinga á sjó og landi, sem sýnir í hnotskurn, að umhverfinu stafar nú um stundir langmest hætta af ferðaþjónustunni, og svo mun verða allan næsta áratug, en eftir 2030 standa vonir til, að orkuskipti geti orðið í flugvélum, t.d. með rafknúnum hreyflum, fyrst í innanlandsflugi og síðan í tvinnflugvélum á lengri vegalengdum. Þegar ruðningsáhrif einnar atvinnugreinar í atvinnulífinu og umhverfisáhrif eru orðin jafngeigvænleg og ferðaþjónustunnar á Íslandi, þar sem í ár er búizt við 7,2 erlendum ferðamönnum á íbúa landsins, þá hefur vöxturinn verið allt of hraður og tímabært að spyrna við fótum. Ísland er reyndar nú þegar orðið dýrasta land í heimi, en það toppsæti er mjög óþægilegt að verma.
Losun Íslendinga og farþegaflugs til og frá Íslandi á gróðurhúsalofttegundum á árinu 2017 verður líklega eftirfarandi í milljónum tonna og sem hlutfall af heild í svigum:
- Iðnaður 2,3 Mt (24 %)
- Landumferð 0,9 Mt ( 9 %)
- Landbúnaður 0,7 Mt ( 7 %)
- Sjávarútvegur 0,5 Mt ( 5 %)
- Millilandaskip 0,3 Mt ( 3 %)
- Úrgangur 0,3 Mt ( 3 %)
- Virkjanir 0,2 Mt ( 2 %)
- Ferðaþjónusta 4,4 Mt (47 %)
Engum blöðum er um það að fletta, að sjávarútvegurinn er sú grein, sem er til fyrirmyndar á Íslandi um tækniþróun og hagnýtingu tækninnar til bættrar nýtingar hráefnisins og bættrar orkunýtingar, reiknað í orkunotkun á hvert framleitt afurðatonn. Þannig hefur olíunotkun flotans minnkað úr 207 kt árið 1990 í um 130 kt árið 2016 eða um 77 kt, sem eru 37 %. Ef tekinn er með olíusparnaður fiskvinnslunnar, hafði sjávarútvegurinn í heild árið 2014 dregið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um 43 % samkvæmt nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir Umhverfisráðuneytið, 16 árum fyrr en markmið Parísarsamkomulagsins tilgreindi 40 % minnkun. Þar munar um, að árið 2014 höfðu fiskimjölsverksmiðjurnar minnkað losun sína um 95 % frá 1990. Það er alveg áreiðanlegt, að sjávarútvegurinn mun ekki láta þar við standa, en það stendur upp á yfirvöldin að ryðja burt nokkrum hindrunum. Þar er t.d. um að ræða að efla flutningskerfi raforku, svo að það hefti ekki orkuskiptin, eins og það gerir nú, og að efla rafdreifikerfi hafnanna, svo að það anni þörfum skipaflotans fyrir orkunotkun við bryggju og til að hlaða stóra rafgeyma um borð í framtíðinni.
Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur hjá SFS, segir í viðtali við sjávarútvegsútgáfu Morgunblaðsins, 2. marz 2017:
"Þegar tæknin um borð í þessum 12 nýju skipum, sem eru ýmist komin til landsins eða væntanleg, er skoðuð, þá sést, að olíunotkun þeirra er oftast á bilinu 30 % - 40 % minni en hjá gömlu skipunum. Ekki nóg með það, heldur er oft verið að skipta út tveimur eldri skipum fyrir eitt nýtt."
Þetta þýðir, að m.v. óbreyttan afla verður olíunotkun nýju skipanna aðeins 33 % á hvert tonn fiskjar af olíunotkun skipanna, sem þau leysa af hólmi, sem er frábær árangur.
Annað svið, þar sem olían verður leyst af hólmi með umhverfisvænum hætti, eru farartæki og vinnuvélar á landi. Þar sýna nú frændur vorir, Norðmenn, fagurt fordæmi. Í janúar 2017 var helmingur innfluttra bíla til Noregs rafknúinn, alraf- eða tengiltvinnbílar. Hérlendis er sambærilegt hlutfall aðeins 14 %. Hver er skýringin á þessari forystu Norðmanna ?
Þeir hafa fellt niður opinber gjöld á rafbíla, sem eru jafnvel hærri en hér. Eldsneytisverðið þar er hærra en hér, og raforkuverðið er yfirleitt lágt (hækkar þó við lágstöðu í miðlunarlónum), svo að hinn fjárhagslegi hvati bílkaupenda er meiri þar en hér. Þar að auki hafa norsk yfirvöld verið í fararbroddi við innviðauppbyggingu fyrir rafbílana, og þar eru ekki viðlíka flöskuhálsar í flutningskerfi raforku og hér. Því hefur heyrzt fleygt, að Norðmenn ætli að banna innflutning dísil- og jafnvel benzínknúinna fólksbíla árið 2025. Miklir opinberir hvatar og hreinar orkulindir raforkuvinnslunnar eru meginskýringin á forystu Norðmanna, og er þó ekki gert lítið úr umhverfisvitund Norðmanna.
Stefán E. Stefánsson skrifar eftirfarandi í ViðskiptaMoggann 23. marz 2017:
"Í nýju mati Alþjóða orkustofnunarinnar kemur fram, að ef takast á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C fram til ársins 2050, sé nauðsynlegt að auka hlutdeild rafbíla í heiminum þannig, að 70 % allra bíla verði einungis knúin raforku um miðja öldina. Í dag er hlutfallið hins vegar 1 %. Því er ljóst, að mikið verk er að vinna."
Erlendis eru a.m.k. 3/4 raforkunnar unnin úr jarðefnaeldsneyti, að hluta til frá Norðmönnum, en Norðmenn hyggjast hins vegar útvega næga raforku fyrir rafbíla sína með gríðarlegum vindmyllulundum, sem spara munu vatn í miðlunarlónunum, en sennilega hækka raforkuverðið.
Hérlendis hefur verið haldið á lofti villandi sjónarmiðum um, að nóg sé að spara og að ekkert þurfi að virkja til að rafvæða bílaflotann. Til að leysa alla jarðefnaeldsneytisnotkun í landinu af hólmi, þarf að virkja 6,0 TWh/ár á næstu 50 árum, og það er yfir 30 % aukning á núverandi raforkuvinnslu í landinu.
Við eigum aðra hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkosti hérlendis en vindmyllulundi, og það er mikilvægt að loka ekki dyrunum á þá með skammsýnum og þröngsýnum aðgerðum á borð við stofnsetningu þjóðgarðs á öllu miðhálendinu, eins og þingflokkur vinstri-grænna hefur gert að tillögu sinni á Alþingi. Slíkt er alls ekki í þágu umhverfisverndar, enda hafa helztu talsmenn þessarar hugmyndar lofað prísað ferðaþjónustuna sem umhverfisvænan valkost í atvinnumálum landsmanna. Slíkt vitnar um dómgreindar- og þekkingarleysi, og með tillögu um samfelldan þjóðgarð á öllu miðhálendinu gætir ofurtrúar á miðstýringu og forræði ríkisvaldsins, sem oftast snýst til verri vegar í höndum valdsmanna og leiðir til ófarnaðar áður en upp er staðið. Fjölbreytileg notkun og skýr ábyrgð sveitarfélaganna er gæfulegri. Landsvirkjun hefur t.d. í umsögn sinni bent á tylft virkjunarkosta, sem fórnað yrði á altari slíks þjóðgarðs, og segir þar ennfremur:
"Landsvirkjun hefur ekki aðra skoðun á því, hvort myndaður verði þjóðgarður, sem kenndur er við miðhálendið, en hann verði afmarkaður með langtíma hagsmuni þjóðarinnar í huga, þ.á.m. þörf okkar fyrir raforku til brýnna eigin þarfa, svo sem samgangna, og til að efla og viðhalda fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna, m.a. með því að taka að okkur verkefni, sem annars mundu unnin með aðstoð ósjálfbærrar orkuvinnslu."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2017 | 10:39
Náttúruauðlind í nauðum
Fiskistofnar í höfum og vötnum heimsins hafa um áratuga skeið látið undan síga vegna of mikillar sóknar og ofveiði, en einnig vegna mengunar. Hér er um að kenna því, sem enskumælandi kalla "tragedy of the commons" og nefna mætti "harmleik almenningsins", og sannast þar, að það sem allir eiga, það á enginn.
Í lok síðustu aldar námu veiðar hvers konar fiska og skeldýra yfir 100 Mt/ár (Mt=milljón tonn), en árið 2012 nam aflinn aðeins tæplega 80 Mt. Var hann úr stofnum, sem metnir voru tæplega 215 Mt, þ.e. afrán veiðimanna var 37 %, sem er mjög hátt m.v. sjálfbæran veiðistuðul, sem fyrir margar tegundir er talinn vera á bilinu 15 % - 25 %.
Vegna rányrkju af völdum allt of mikillar sóknar eru veiðarnar fyrir löngu orðnar óhagkvæmar á heimsvísu. Þetta eru algeng örlög almenninga. Lausnarorðið er einkaeignarréttur á auðlindinni eða á afnotarétti hennar. Þá verða til hagsmunir af að draga úr heildarsókninni til að byggja upp lífmassann og hámarka afraksturinn.
Stjórnvöld geta hér leikið lykilhlutverk með því að ákvarða aflamark á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar. Varðandi úthöfin vandast málið, því að engin stjórnvöld eiga enn lögsögu þar. Þá reynir mjög á alþjóðasamstarf og hefur gengið brösuglega. Það er hægt að sýna fram á línulegt samband á milli þess, hversu vel eignarrétturinn er verndaður í mismunandi löndum og hversu vel umhverfið er verndað í sömu löndum.
Prófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason, hagfræðingur, hefur þróað fiskihagfræði og unnið að rannsókn á því fyrir Alþjóðabankann, hvað hægt væri að auka verðmætasköpunina mikið úr fiskistofnum heimshafanna.
Prófessor Ragnar ráðleggur að draga úr sókninni um 44 %, og þá muni lífmassi fiskistofnanna 2,7-faldast upp í tæplega 580 Mt, sem sé hagkvæmasta sjálfbæra staða þeirra. Hann ráðleggur 16 % nýtingarhlutfall á ári eða hámark sjálfbærs afla tæplega 90 Mt/ár, sem er tæplega 13 % aukning frá núverandi afla.
Mestu umskiptin með þessari breytingu eru í nettó arðsemi veiðanna. Nú er tap á veiðunum, en þær njóta opinberra styrkja, svo að útgerðirnar sýna 3,0 MUSD/ár í nettó arðsemi á kostnað skattborgara. Ef fylgt yrði ráðleggingum prófessors Ragnars, telur hann, að nettó arðsemin mundi tæplega þrítugfaldast og verða rúmlega 86 MUSD/ár án niðurgreiðslna. Fyrsta ráðið til að draga úr ofveiði er að stöðva niðurgreiðslur til útgerðanna. Hið opinbera er oft helzti skaðvaldurinn.
Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 birtist viðtal við Ragnar Árnason, en þess má geta, að hann var stjórnvöldum hérlendis innan handar við mótun íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins á sínum tíma, svo að þar réði engin happa og glappa aðferð. Það leikur ekki á tveimur tungum, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir sjálfbærni og skilvirkni, en að auki hefur verið sýnt fram á, að við innleiðingu þess var sýnd sanngirni og meðalhófsreglu var gætt, því að stjórnvöld ýttu þá engum út af miðunum, heldur miðuðu aflahlutdeild við veiðireynslu, eins og er algengast við slíka innleiðingu nú á dögum.
Grundvöllur að velgengni sjávarútvegsins undir þessu kerfi er sjálfur eignarrétturinn, þ.e.a.s. varanlegur afnotaréttur takmarkaðrar auðlindar. Útgerðarmenn, sem kaupa sér aflahlutdeild, mega þá eignfæra hann, og hann verður veðsetjanlegur, sem eflir fjárhagslegt sjálfstæði útgerðanna. Reynslan hefur einfaldlega dæmt önnur kerfi, sem komið hafa fram á sjónarsviðið, úr leik. Er það ýmist vegna ofveiði eða slæmrar fjárhagslegrar afkomu útgerðanna. Vítin eru til að varast þau, og stjórnmálamenn ættu að forðast íþyngjandi inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel. Þeir hafa ekki leyfi til að setja grundvallaratvinnugrein í uppnám með því að troða sérsinnaðri og vanhugsaðri hugmyndafræði sinni upp á hana. Þeir hafa nóg annað þarfara að gera. Að ýja að því að taka aflóga góss upp hér með stjórnvaldsákvörðun að einhverju leyti stappar nærri sjálfseyðingarhvöt, og verður nú vitnað í prófessor Ragnar:
"Ég var vísindamaðurinn í þessu verki, en starfsmenn Alþjóðabankans settu skýrsluna í þann endanlega búning, sem Alþjóðabankinn vill hafa á svona vinnu.
Í framhaldinu hafa forráðamenn Alþjóðabankans kynnt skýrsluna víða um heim. Þeir eru að berjast fyrir því, að fiskveiðiþjóðir heimsins bæti sína fiskveiðistjórnun. Með því sé hægt að ná umtalsverðum hluta af þessum miaUSD 83 [hagnaði], sem glatast á hverju ári [samkvæmt niðurstöðu Ragnars]. Það verður ekki gert, nema með því að bæta fiskveiðistjórnun í heiminum, og þar næst ekki umtalsverður árangur, nema með því að taka upp einhvers konar veiðiréttarkerfi. Á sumum stöðum er hægt að taka upp aflakvótakerfi í líkingu við það, sem við höfum á Íslandi. Á öðrum stöðum þarf að byggja fiskveiðistjórnun á því, sem kalla mætti sameiginlegan veiðirétt hópa eða byggðarlagarétt. Slíkur sameiginlegur réttur gæti t.d. verið réttur einstakra fiskiþorpa til að nýta fiskistofna á sínu svæði. Það er líklegt, að þetta fyrirkomulag geti nýtzt vel í þróunarlöndunum, þar sem erfitt er að koma við aflakvótakerfum, en fiskveiðiþorpin eru hins vegar oft í góðri stöðu til þess að stýra fiskveiðum á sínum svæðum og ráðstafa kvótum úr sameiginlegum fiskistofnum. Aðalatriðið er, að það þarf að byggja á sterkum réttindum viðkomandi aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða hópur fiskimanna."
Hér á landi tíðkast byggðakvóti, sem árlega er á valdi hins opinbera. Ráðstöfun hans þarfnast endurskoðunar. Úthlutun hans á báta orkar oft tvímælis veldur þá deilum í byggðarlögum, og það er tímabært að minnka byggðakvótann, þótt 5,3 % hlutfalli heildaraflamarks sé haldið fyrir hina ýmsu "potta", og einskorða byggðakvótann við tímabundnar mótvægisaðgerðir við atvinnulegum áföllum í byggðarlagi, og að byggðakvóti sé einvörðungu til stuðnings "brothættum byggðum", sem Byggðastofnun skilgreinir.
Nú hefur þeim fækkað, og eru jafnvel teljandi á fingrum annarrar handar, þökk sé gríðarlegri eflingu fiskeldis á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem er að snúa til betri vegar öfugþróun byggða, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum. Ef allt gengur að óskum hjá þessari atvinnugrein, mun hún, ásamt ferðaþjónustu, verða kjölfesta að fjölgun fólks á Vestfjörðum. Þetta þýðir, að Vestfirðir munu enn á ný bjóða upp á fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf og húsnæði verður auðseljanlegt á viðunandi verði.
Úti fyrir Vestfjörðum eru einnig gjöful fiskimið, svo að þaðan hefur alltaf verið hagstætt að gera út, og svo mun áfram verða. Á Ísafirði er öflugt tæknisamfélag, svo að framtíð heilbrigðs og fjölbreytts athafnalífs blasir við á Vestfjörðum. Tímabili brothættra byggða lýkur þar sennilega með gagngerum samgöngubótum.
Í lok téðs viðtals við Ragnar Árnason hafði hann þetta að segja um hagkvæmni fiskveiða:
""Síðan gerist það líka, sem er e.t.v. ekki eins augljóst, að ef fiskistofnum er leyft að stækka, verður fiskurinn að meðaltali stærri og yfirleitt verðmætari. Ofnýttustu stofnarnir í heiminum eru þeir verðmætustu. Heimsfiskveiðarnar hafa farið úr verðmætum stofnum yfir í síður verðmæta stofna, úr dýrum botnfiskum í uppsjávarfiska, sem eru fæða fyrir botnfiska. Því er áætlað í skýrslunni, að meðalverð af lönduðum afla muni hækka um 24 %", segir Ragnar [úr 1,26 USD/kg í 1,57 USD/kg]. Um leið geti kostnaður lækkað um 44 %. Það sé fyrst og fremst vegna þess, að fiskveiðiskipum fækki. Ragnar segir opinbera styrki til sjávarútvegs eiga verulegan þátt í ofveiði."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2017 | 18:15
Arðsemi vatnsaflsvirkjana
Frá Viðreisnarárunum 1959-1971 hefur hugmyndafræðin að baki virkjanastefnu stjórnvalda jafnan verið sú að reisa stórar virkjanir á hagkvæmum virkjunarstöðum og nýta aflgetu þeirra strax að miklu leyti. Með því að hafa langtímasamning um sölu á megninu af orkugetu viðkomandi stórvirkjunar tilbúinn áður en hún er fjármögnuð, hefur reynzt kleift að lágmarka áhættu og þar með fjármagnskostnað viðkomandi stórvirkjunar, sem skiptir sköpum fyrir raforkuvinnslukostnað virkjunarinnar, en á meginafskriftaskeiðinu nema afskriftir og vaxtakostnaður u.þ.b. 90 % af heildarkostnaði við hverja kílówattstund, kWh.
Það, sem hékk á spýtunni hjá stjórnvöldum með því að þróa þessa viðskiptahugmynd, var að byggja upp öflugt raforkukerfi og finna leið til að selja almenningi raforku úr þessu kerfi á lágmarksverði og láta virkjunina um leið skila eigendum sínum góðri ávöxtun fjárfestingarinnar. Þetta hefur tekizt vel með öllum stóru vatnsaflsvirkjununum, þar sem þessari aðferð var beitt, en það virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá sumum, sem síðan verða sér til skammar með því að tjá sig opinberlega um það, sem þeir hafa ekki haft fyrir að kynna sér til hlítar. Á þessu sviði er allt of algengt, að hver lepji vitleysuna upp eftir öðrum um óarðbærar fjárfestingar og láti eigin fordóma um ráðstöfun orkunnar ráða för.
Til að tryggja skjóta nýtingu á megninu af fjárfestingunni er nauðsynlegt að semja um raforkusölu við stórnotanda. Sem dæmi má taka Búrfellsvirkjun #1, sem Landsvirkjun reisti á árabilinu 1966-1972 eftir orkusölusamning við Alusuisse til 45 ára með endurskoðunarákvæðum um raforkusölu til álversins í Straumsvík, ISAL.
Orkuafhending hófst við frumstæðar aðstæður á miðju ári 1969 frá 2-3 35 MW rafölum um eina 220 kV línu frá Búrfelli til Geitháls og þaðan til höfuðborgarsvæðisins og Straumsvíkur. Þessi orkuafhending var slitrótt og engan veginn áfallalaus, en hún leysti úr brýnni raforkuþörf almennings á SV-horninu, sem hafði jafnvel mátt búa við skömmtun rafmagns. Álag álversins jókst með fjölgun kera í rekstri, og jafnframt voru fleiri rafalar teknir í notkun í Búrfelli, og árið 1972 varð aflgeta Búrfellsvirkjunar 210 MW og álag ISAL 140 MW. Afgangurinn fór smám saman allur til almenningsveitna. Með þessu móti fékkst mjög góð nýting á virkjunina frá upphafi.
Nú eru bráðum liðin 48 ár frá gangsetningu Búrfellsvirkjunar; lán frá Alþjóðabankanum og öðrum vegna Búrfellsvirkjunar eru fyrir löngu upp greidd, og virkjunin er að mestu afskrifuð, fjárhagslega, en það er samt ekkert lát á orkuvinnslu hennar, og orkuvinnslugetan getur með góðu viðhaldi hæglega haldizt í eina öld. Uppsett afl virkjunarinnar hefur verið aukið í 270 MW, og hún er yfirleitt rekin á fullum afköstum.
Þar sem vinnslukostnaður raforku í Búrfellsvirkjun er núna nánast einvörðungu fólginn í rekstrarkostnaði virkjunarinnar, má ætla, að hann nemi aðeins um 0,5 kr/kWh. Ef til einföldunar er gert ráð fyrir, að allar tekjur virkjunarinnar komi frá ISAL, sem nú orðið kaupir um 40 % meiri orku af Landsvirkjun en Búrfell #1 getur framleitt, þá nema tekjur virkjunarinnar um 3,9 kr/kWh, sem þýðir, að hagnaður hennar er 87 % af tekjum, og nemur í peningum 7,5 miaISK/ár. Lán vegna Búrfellsvirkjunar voru greidd upp á 25-30 árum, og það þýðir, að hún verður hreinræktuð gullmylla í a.m.k. 70 ár, ef svo fer fram sem horfir.
Þetta er afkomusaga fyrstu stórvirkjunarinnar á íslenzkan mælikvarða, og hið sama gildir um þær allar. Það er villandi að líta á augnabliksstöðu virkjunarfélagsins, Landsvirkjunar, sem enn stendur í uppbyggingarferli virkjana, og fjargviðrast síðan út af lítilli arðsemi fyrirtækisins. Eiginfjárhlutfallið er þó komið yfir 45 %. Þeir, sem gera sig seka um vanmat á arðsemi raforkukerfisins af þessu tagi, falla í þá gryfju að horfa framhjá eðli vatnsaflsvirkjana. Þeir hafa sumir horft út fyrir landsteinana og borið afkomuna saman við afkomu orkuvera, þar sem meginvinnslukostnaður er rekstrarkostnaður vegna jarðefnaeldsneytis. Útgjöld slíkra orkuvera eru aðallega háð eldsneytisverði, en nú er tekjuhlið þeirra reyndar í uppnámi vegna offramboðs á raforku og niðurgreiddra vind- og sólarrafstöðva. Líklega er arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar af þessum sökum orðin hærri en flestra raforkufyrirtækja innan ESB.
Þessu árangursríka íslenzka viðskiptalíkani á raforkusviðinu er hægt að halda áfram á meðan samið er um nýja raforku til stórnotenda. Ef ekki er samið við slíka, blasir við, að hagkvæmara verður að ráðast í smærri virkjanir, sennilega 50-100 MW vegna orkuskiptanna, því að dýrast af öllu er að virkja og hafa ekki not fyrir fjárfestingarnar árum saman. Óhjákvæmilega verður að selja orku frá nýjum virkjunum á hærra verði en frá gömlum virkjununum, en heildarvinnslukostnaður kerfisins hækkar ekki vegna mótvægis frá lækkandi kostnaði með lækkandi afskriftum og vaxtakostnaði eldri virkjana, svo að engin raunveruleg þörf er á hækkun raforkuverðs til almennings.
Jarðgufuvirkjanir eru allt annars eðlis en vatnsaflsvirkjanir, og reynslan hérlendis sýnir, að álagsþol viðkomandi jarðgufuforða er undir hælinn lagt. Ef afkastagetan fellur hratt eftir gangsetningu virkjunar, situr virkjunareigandinn uppi með offjárfestingu og háan árlegan rekstrarkostnað vegna gufuöflunar og niðurdælingar vökva. Þetta hefur varanleg og slæm áhrif á afkomu jarðgufuvirkjunar, sem getur aldrei jafnazt á við afkomu vatnsaflsvirkjunar. Í raun er það einokunarstarfsemi hitaveitunnar, sem bjargar afkomu jarðgufuvirkjunar, sem bæði selur rafmagn og heitt vatn, ef gufutakan reynist ósjálfbær. Það er nauðsynlegt að fylgja jafnan beztu þekkingu, þegar jarðhitanýting er skipulögð, eins og á öllum öðrum sviðum.
Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, þekkir gjörla viðskiptalíkanið, sem hér hefur verið gjört að umfjöllunarefni. Hann ritaði 15. marz 2017 grein um þetta viðfangsefni fyrr og nú í Morgunblaðið, "Í leit að vanda":
"Þeir, sem gerðu gömlu stóriðjusamningana, vissu vel, hvað þeir voru að gera. Þá voru gerðir samningar til 20 ára, sem borguðu upp virkjanir, sem mundu endast í 100 ár. Þá þótti líka sjálfsagt, vegna minni áhættu, að krefjast minni arðgjafar af vatnsorkuverum en öðrum atvinnurekstri. Menn sáu fram á það, að þótt arðgjöfin væri lág fyrstu árin, mundi hún hækka, þegar skuldir virkjunarinnar væru horfnar, og stundum haft í flimtingum, að stóriðjan mundi standa undir kerfinu og almenningur fá frítt rafmagn."
Þetta er sama viðskiptahugmynd og blekbóndi lýsti hér að ofan og tók dæmi af Búrfelli #1 til að varpa ljósi á, að hún hefur heppnazt vel og er ekki bara orðin tóm. Síðar í greininni skrifar Elías:
"Almenningur lítur þannig á orkufyrirtækin, að þau séu stofnuð og rekin til að ná í þessa orku, sem náttúra okkar býður upp á, breyta henni í rafmagn og flytja þannig inn á heimilin. Orkufyrirtækin eru þannig þjónustufyrirtæki, en þau mega engu að síður vinna meiri orku úr auðlindinni og selja til stóriðju, svo lengi sem þau geta grætt á því og valda ekki hækkun almenns orkuverðs. Þessa sýn almennings á raforkufyrirtækin og starfsemi þeirra þarf að virða."
Þennan boðskap hefur blekbóndi predikað ótæpilega á þessu vefsetri. Ætla má, að stór hluti þingheims sé sama sinnis. Hann ætti að reka af sér slyðruorðið og semja og samþykkja þingsályktun, sem feli iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að leggja drögin að eigendastefnu fyrir fyrirtæki ríkisins á þessu sviði, sem stjórnum fyrirtækjanna verði gert að innleiða og framfylgja. Eins og dæmin sanna, er ekki vanþörf á því.
Í lok greinarinnar skrifar Elías:
"Á sínum tíma var almenningi sagt, að orkusala til stóriðju mundi skila lægra almennu orkuverði. Ef svo er gengið á auðlindina, að meiri sala til stóriðju hækkar orkuverð til almennings, þá er komið nóg. Orkufyrirtækin eiga skilyrðislaust að virkja, þegar almenning vantar rafmagn. Sé almennt orkuverð of lágt, má nýta auðlindarentuna til fjárfestinga. Stjórnmálamenn verða síðan að þræða reglugerðafargan ESB; til þess eru þeir ráðnir."
Að nýta auðlindarentuna til orkuöflunar fyrir almenning er sama stefna og blekbóndi boðaði hér að ofan, þ.e. að notfæra sér lágan vinnslukostnað afskrifaðra virkjana til að vega upp á móti hækkunarþörf til almennings vegna hærri orkuvinnslukostnaðar frá nýjum virkjunum.
Þetta er hins vegar þveröfugt við það, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur gerzt talsmaður fyrir. Hann hefur boðað auknar arðgreiðslur til eigandans og hækkað raforkuverð til stóriðju og almennings.
Það er engum blöðum um það að fletta, að almenningi á Íslandi, þ.e. heimilum og fyrirtækjum án langtímasamninga, kemur það mun betur, að raforkuverði verði áfram haldið lágu en tugmilljarða ISK arður verði árlega greiddur í ríkissjóð eða í vasa framtíðareigenda. Þetta er almenningi sérlega mikilvægt á tímum orkuskipta. Um 2025-2030 mun Landsvirkjun geta hvort tveggja; að halda orkuverði lágu og greiða yfir 10 miaISK/ár í "Stöðugleikasjóð".
Af allt öðru sauðahúsi en téður Elías eru 2 höfundar greinarinnar, "Orkuáhersla ferðamálaráðherra", sem fengu hana birta á sömu blaðsíðu og samdægurs og grein Elíasar. Þeir hafa allt á hornum sér varðandi raforkugeirann á Íslandi og leiða nú til vitnis danska ráðgjafarfyrirtækið Copenhagen Economics, sem Landsvirkjun fékk nýlega til að skrifa fyrir sig skýrslu í óburðugri tilraun til að skjóta stoðum undir áróður sinn um nauðsyn raforkuverðshækkunar á Íslandi, því að annars mundi enginn nenna að virkja fyrir almenning.
Tvímenningarnir segja dönsku ráðgjafana hafa svarað tveimur spurningum:
"Annars vegar um, hvort orkuöryggi á Íslandi væri tryggt og hins vegar, hvort verðmætasköpun orkugeirans sé nægileg. Svar dönsku ráðgjafanna við síðari spurningunni var á sömu leið og annarra, sem eitthvað hafa rannsakað orkugeirann; arðsemi hans er óásættanleg."
Þarna kveða háskólaprófessorarnir upp sleggjudóm, sem ætti að varða bæði kjóli og kalli, því að sannleiksleit hafa þeir augljóslega ekki að leiðarljósi, heldur sjá þarna færi á að skjóta falsrökum undir fordóma sína gegn vatnsaflsvirkjunum og sölu á orku frá þeim með langtímasamningum til iðnfyrirtækja.
Það eru sem sagt ósannindi að halda því fram, að allir, sem kynnt hafa sér raforkugeirann af hlutlægni hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi hans sé og hafi verið "óásættanleg". Er óásættanlegt, að starfsemi skili venjulegri arðsemi, að teknu tilliti til áhættu fjárfestingarinnar, fyrstu 30 ár starfseminnar og um 85 % hagnaði næstu 70 árin ?
Hvað telja þessir prófessorar óásættanlegt við starfsemi, sem útvegar viðskiptavinum sínum ódýra og nauðsynlega þjónustu á samkeppnishæfu verði m.v. útlönd og skilar eigendum sínum þar að auki bullandi gróða yfir starfstíma sinn ? Ætla menn ekki að fara að láta af þeim einfeldningslega ósið að lepja bullið hver upp eftir öðrum ?
Téðir prófessorar, sem telja sig eiga erindi við almenning með birtingu greinar í víðlesnu dagblaði, skilja augljóslega ekki þá hugmyndafræði, sem góður árangur íslenzka raforkugeirans er reistur á og lýst er í þessari vefgrein. Þeir eru algerlega úti að aka með því að tönnlast á skuldum geirans, sbr eftirfarandi tilvitnun í grein þeirra:
"Sú fallvatnsorka, sem seld hefur verið til stóriðju, hefur skilað óverulegum hagnaði og fyrirséð er, að hún mun ekki gera það, nema dregið verði úr skuldsetningu raforkufyrirtækjanna. Núverandi stórnotendur borga ekki hærra verð, enda ekki skuldbundnir til þess. Árið 2016 skulduðu Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka miaISK 487,5, sem er nærri hálf önnur milljón á hvert mannsbarn í landinu."
Þarna sést svart á hvítu, að tvímenningarnir botna ekkert í því, sem þeir skrifa um, því að fullyrðingin í fyrstu málsgreininni er algerlega úr lausu lofti gripin, eins og sýnt hefur verið fram á í þessari vefgrein, og til þess eins sett fram að koma níðhöggi á íslenzka raforkugeirann. Auðvitað er hann skuldsettur. Það leiðir af eðli máls, en hann stendur mjög vel undir skuldum sínum, enda er framlegð vatnsaflsvirkjana yfir 80 % af tekjum, og greiðslugeta Landsvirkjunar, sem er aðalseljandi orku til iðnaðar, mæld í Skuldir/EBITDA=6,5 árið 2016, sýnir, að fyrirtækið ræður mjög vel við skuldir sínar.
Tvímenningarnir leggja illt eitt til s.k. stórnotenda raforku, og halda því fram, að samningar við þá séu óhagganlegir. Það er líka rangt hjá þessum prófessorum, eins og dæmin sanna með ISAL, Norðurál og Elkem (Járnblendifélagið).
Nú reisir Landsvirkjun tvær virkjanir á sama tíma og greiðsluflæði fyrirtækisins dugar til að fjármagna þær. Það er þess vegna of seint í rassinn gripið hjá hinum utanveltu prófessorum að boða það hjálpræði Landsvirkjun til handa að hætta að virkja til að skuldirnar lækki.
Í téðri grein tvímenninganna, sem rituð er af miklum vanefnum, eins og sýnt hefur verið fram á, reka þeir hornin í nýjan ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur:
"Þórdís K.R. Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar-, en einnig ferðamála og nýsköpunar, ávarpaði morgunverðarfundinn og sagði: "Í stuttu máli þá verður ekki annað sagt en við leggjum okkur mjög fram við að kanna til hlítar, hvort hægt sé að finna einhverjar ástæður til að virkja ekki." Ekki er hægt að líta svo á, að þessi orð snúi að þeim orkuskorti, sem blasir við á svæðum utan suðvesturhornsins. Ef hann er vandinn, þá er hann auðleystur með uppbyggingu dreifikerfis."
Ja, nú setti fjandinn heldur betur upp á sig skottið. Í fyrsta lagi blasir orkuskortur við. Skýrt merki um það er, að verð á ótryggðri orku hefur margfaldazt, sem er fyrsta viðleitni orkuvinnslufyrirtækjanna til að draga úr raforkunotkun. Í öðru lagi blasir við ný raforkuþörf vegna orkuskiptanna. Ef fjöldi rafbíla árið 2025 verður 25 % af heildarfjölda fólksbíla og jeppa (í Noregi verður hann þá yfir 50 %), þá munu þeir þurfa tæplega 400 GWh, sem er 10 % aukning á almennri raforkunotkun í landinu. Til að leysa allan innflutning á jarðefnaeldsneyti af hólmi, 800 kt/ár, þarf 6 TWh/ár af raforku, sem er um þriðjungsaukning á heildarraforkunotkun í landinu. Að gera lítið úr orðum ráðherrans um hindranir á vegi nýrra virkjana vitnar um skilningsleysi höfundanna á þeim mikilvægu og miklu verkefnum, sem framundan eru í þessum efnum.
Þeir láta eins og hægt sé að leysa úr orkuskortinum, sem hrjáir flesta landshluta, með einu pennastriki. Staðreyndin er hins vegar sú, að styrking flutningskerfisins, 66 kV og ofar, er langt á eftir áætlun, Byggðalína er víða fulllestuð, og enginn veit, hvort af bráðnauðsynlegri tengingu Norður- og Suðurlands getur orðið vegna andstöðu við framkvæmdir af þessu tagi. Þetta stendur þróun atvinnulífs á öllu norðanverðu landinu fyrir þrifum. Þróun dreifikerfis sveitanna um allt land gengur allt of hægt, en hún felst í því að leysa eins, tveggja og þriggja víra loftlínur af hólmi með þriggja fasa jarðstrengjum. RARIK ætti að fá heimild til að taka lán fyrir flýtingu framkvæmda og ljúka verkefninu árið 2022, enda er það arðsamt, þar sem orkuviðskiptin munu aukast og rekstrarkostnaður mun lækka við slíka fjárfestingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2017 | 10:07
Hagkerfi í örum vexti og vaxtarbroddur
Vöxtur þjóðarútgjalda 2016 nam 8,7 % að raungildi, en vergrar landsframleiðslu (VLF) um 7,2 %, og var sú aukning hin mesta innan OECD á árinu og meiri en í Kína.
Það eru stórtíðindi, að eitt Vesturlanda skuli skjóta "asísku tígrisdýrunum" aftur fyrir sig, en Indland gefur að vísu upp meiri hagvöxt, 7,5 %.
Einkaneyzla jókst um 6,9 %, en var samt í hlutfallslegu sögulegu lágmarki eða aðeins 49 % af VLF. Þetta vitnar um framleiðsludrifið hagkerfi, enda var niðurstaða utanríkisviðskiptanna jákvæð um tæplega miaISK 160 eða rúmlega 6 % af VLF. Aðeins Þjóðverjar geta státað af álíka miklum viðskiptaafgangi (hlutfallslegum) og eru öfundaðir af innan ESB og víðar.
Fjárfestingar eru nú í sögulegu hámarki, og eftir 23 % aukningu þeirra í fyrra frá 2015 eru þær nú í sögulegu meðaltali sem hlutfall af VLF, eða 21 % (rúmlega miaISK 500).
Ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa í heildina séð á sama tíma lækkað skuldir sínar, og nú er svo komið, að segja má, að Íslendingar séu orðnir lánveitendur í heiminum fremur en skuldarar, því að erlendar eignir þjóðarbúsins námu í árslok 2016 miaISK 3´837, en erlendar skuldir miaISK 3´811. Markverður vendipunktur, sem vafalaust hafði áhrif á lánshæfismatsfyrirtækin, sem hækkuðu eða eru að íhuga hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs. Slíkt verður í askana látið.
Þessi jákvæða þróun þjóðarbúsins er auðvitað borin uppi af öflugum útflutningsatvinnuvegum, iðnaði með hækkandi afurðaverði, sjávarútvegi með hærra afurðaverði en keppinautanna og feiknarlegum flaumi erlendra ferðamanna, sem þó kann að verða eitthvert lát á vegna kostnaðar. Norðmenn hafa t.d. mátt horfa upp á yfir 40 % lækkun NOK gagnvart ISK á 3 árum. Það er merkilegt, að "stöðugleikasjóður" upp á miaUSD 900 hefur ekki dugað til að hamla meira en þetta gegn lækkun gengis norsku krónunnar. Að baki því er sorgarsaga, sem vert væri að gera góð skil.
Vöruskiptajöfnuður Íslands var hins vegar óhagstæður, og það er hægt að bæta úr því með því að leysa dísilolíu, flotaolíu og benzín af hólmi með innlendum orkugjöfum fyrir 2050 og með því að skjóta varanlegum stoðum undir mesta vaxtarbrodd vöruútflutnings núna, fiskeldið. Ef útflutningur laxeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum verður aukinn í 100 kt/ár, sem talið er raunhæft upp úr 2030, þá mundu útflutningstekjur af því aukast um a.m.k. 100 miaISK/ár að núvirði.
Dregið hefur verið dám af orðinu landbúnaður og af því myndað nýyrðið strandbúnaður, sem Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, skilgreinir þannig í greininni "Strandbúnaður 2017" í Morgunblaðinu 13. marz 2017:
"Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar, sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða."
Það er engum blöðum um það að fletta, þegar litið er til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands, að strandbúnaði á eftir að vaxa fiskur um hrygg við Íslandsstrendur og að þar er víða við Ísland um vannýtta auðlind að ræða. Markaðurinn er tvímælalaust fyrir hendi, og um það skrifar Arnljótur Bjarki í umræddri grein:
"Um alllangt skeið hafa innan við 5 % af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo að þau þeki um 70 % af yfirborði jarðarinnar. Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því að líklegt er, að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við strendur og úti fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja. Landbúnaður er fyrirferðarmikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna."
Við þetta má bæta, að eldisfiskur mun í tonnum talinn vera svipaður og sjávarafli, en arðsemin er margföld í eldinu á við sjávarútveg. Ein efnilegasta grein strandbúnaðar á Íslandi er laxeldi. Ætla má, að framlegð þess hérlendis sé um 50 % af söluandvirði afurðanna. Þetta er um tvöföld framlegð sjávarútvegs hérlendis. Á rekstrarhlið stafar mismunurinn að mestu af orkukostnaði, veiðarfærakostnaði og launakostnaði útgerðanna, sem eðlilega er mun hærri en orku- og launakostnaður við strandeldið, en á móti kemur auðvitað fóðurkostnaðurinn. Fóðrið verður sennilega hægt að framleiða allt hérlendis, t.d. sem repjumjöl, svo að gjaldeyrisútlát vegna fóðurs verða lítil.
Á tekjuhlið er enn meiri munur á laxeldi og sjávarútvegi, sem sýnir auðvitað mikla framtíðarmöguleika við markaðssetningu villtra sjávarafurða. Laxeldisfyrirtækin hérlendis eru að fá um 1000 ISK/kg og þar á bæ er talið, að framtíðin lofi góðu um raunverðhækkanir á umhverfisvottaðri vöru frá Íslandi vegna vaxandi eftirspurnar.
Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 er viðtal Þórodds Bjarnasonar við Kjartan Ólafsson, stjórnarformann laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, undir fyrirsögninni:
"Skattspor Arnarlax um 616 milljónir króna":
"Skattspor Arnarlax skiptist þannig, að skattar starfsmanna, sem voru að meðaltali 118 á síðasta ári (2016), voru MISK 377, framlög í lífeyrissjóði námu MISK 124, aðflutningsgjöld voru MISK 18, gjald í umhverfissjóð var MISK 30, afla- og hafnargjöld voru MISK 48, og önnur gjöld voru MISK 19."
Hér ræðir um arðbæra starfsemi, sem framleiddi um 6 kt af sláturlaxi 2016 og stefnir á tvöföldun 2017. Veltan var líklega um miaISK 6,0, svo að skattsporið var rúmlega 10 % af söluandvirðinu. Þetta er ekki ýkja hátt í samanburði við t.d. sjávarútveginn, og ástæðan er há framlegð.
Með því að leggja þessa framlegð, sem blekbóndi áætlar um 50 % af söluandvirði afurðanna, til grundvallar, má leggja mat á verðmæti strandaðstöðunnar, sem er náttúruauðlind.
Fyrir hvert tonn er þá árleg framlegð MISK 0,5. Sé hún lögð saman fyrir næstu 25 ár og núvirt með 9,0 %/ár vöxtum, fást núvirt verðmæti aðstöðunnar:
C = 0,5 x 9,8 MISK = 4,9 MISK/t
Eðlilegt er, að handhafar starfsleyfis til að nýta þessa auðlind greiði sambærilegt árlegt gjald og handhafar vatnsréttinda vegna virkjunar munu að öllum líkindum greiða sem fasteignagjald til viðkomandi sveitarfélaga, 0,5 % af metnum verðmætum:
FG = 0,5 %/ár x 4,9 MISK/t = 0,025 MISK/ár per tonn.
Þetta er 5,0 % af árlegri framlegð, sem ekki er unnt að telja íþyngjandi auðlindargjald og er mun lægra hlutfall en sjávarútvegurinn hefur mátt sæta undanfarið. Mál er, að allir með nýtingarrétt á náttúruauðlindum sitji við sama borð. Til þess þarf atbeina löggjafans.
Nú virðist þjónustugjald vegna leyfisveitinga í greininni vera G=30 MISK/6000 t= 0,005 MISK/t, sem er aðeins 1/5 af því, sem eðlilegt getur talizt. Það er þess vegna brýnt að setja samræmdar reglur um auðlindagjaldið, sem þá skiptist á milli sveitarfélaganna og þjónustu- og eftirlitsstofnananna og komi í stað gjalds í umhverfissjóð og leyfisgjalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2017 | 10:33
Seðlabanki í sálarháska
Stjórnarhættir Seðlabanka Íslands hafa um hríð sætt meira ámæli en títt er. Mætti stundum halda, að sjálfur Trotzki sæti við stjórnvölinn undir Svörtu loftum, en ekki lærisveinn Ólafs Ragnars Grímssonar, hagfræðingurinn Már Guðmundsson.
Einræðis- og forræðistilburðir Seðlabankans hafa t.d. birzt í því, hvernig hann hefur gegnt eftirlitshlutverki sínu með framfylgd gjaldeyrislaganna, sem lögðu höft á viðskipti landsmanna með erlendan gjaldeyri, en hafa nú seint og um síðir verið afnumin.
Undir Svörtu loftum hefur Parkinsons-lögmálið tröllriðið húsum. T.d. óx meðalstarfsmannafjöldi við gjaldeyriseftirlit úr 9,7 árið 2010 í 23,8 árið 2016, þ.e. starfsmannafjöldi við starfsemi, sem aðallega skilaði mistökum á mistökum ofan, næstum 2,5 faldaðist. Ekkert hefur hafzt upp úr krafsinu í stórmálum og lítið annað en ami í smámálum. Hér er þó ekki um neina láglaunamenn við eftirlitsstörf að ræða, heldur nam launakostnaður í gjaldeyriseftirlitinu um MISK 80 árið 2010 og hafði hækkað upp í MISK 320 árið 2016 eða fjórfaldazt. Vankunnátta, ósvífni og klúður hefur verið mest áberandi við stjórnun á þessu gjaldeyriseftirliti, sem fyrir vikið hefur orðið fyrir gagnrýni Umboðsmanns Alþingis, eins og nú skal greina.
Af efnahagsástæðum var löngu tímabært að afnema gjaldeyrishöftin um miðjan marz 2017, og nú ætti að verða lag til að spara Seðlabankanum stórlega útgjöld til gjaldeyriseftirlits, enda liggur honum nú við gjaldþroti, þar sem nánast allt eigið fé hans er nú upp urið vegna gjaldeyriskaupa og vaxtakostnaðar vegna gjaldeyrisforðans til að halda aftur af gengishækkun ISK, en ofrisi hennar á Seðlabankinn mikla sök á sjálfur vegna ofurvaxta, sem hann hefur viðhaldið hér á fölskum forsendum að töluverðu leyti með ærnu efnahagstjóni fyrir marga, en nokkrum fjármagnstekjum fyrir aðra. Vitleysan ríður ekki við einteyming.
Í Seðlabankanum voru samdar reglur um gjaldeyrishöftin, og hann fékk það hlutverk að framfylgja þeim. Starfsmenn bankans höfðu ekki fyrir því að fá samþykki yfirmanns síns í ríkisstjórninni á þessum reglum sínum, svo að þær veittu honum enga réttarheimild í byrjun. Þessi vanræksla var mjög alvarlegur fingurbrjótur stjórnvalds, því að reglurnar veittu stjórnvaldinu mjög ríkar rannsóknar- og refsiheimildir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum og urðu mjög íþyngjandi, eins og átti eftir að koma á daginn.
Seðlabankinn fór fljótlega í ofsóknarleiðangur gegn Samherja, og hófst hann með húsleit í kastljósi sjónvarpsmyndavéla RÚV í marz 2012, og kvað Már Guðmundsson þá í viðtölum meint gjaldeyrisbrot hlaupa á tugum milljarða ISK. Þessar fáheyrðu ofsóknir Seðlabankastjóra, sem ítrekað tjáði sig digurbarkalega um málið í fjölmiðlum, runnu út í sandinn og urðu stjórnendum bankans til mikillar minnkunar, enda gátu þær minnt á tiltektir rauðliðanna, byltingarfélaga Trotzkys, í kjölfar byltingarinnar í Moskvu 1917. Óðinn skrifar um þessi fáheyrðu vinnubrögð í Viðskiptablaðið 2. marz 2017:
"Tvisvar var Seðlabankinn gerður afturreka með kærur til Sérstaks saksóknara, en í stað þess að láta segjast og hætta þessu, töldu stjórnendur Seðlabankans meira máli skipta að halda andlitinu með einhverjum hætti. Það var gert í sumar, þegar stjórnendum Samherja var gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt og greiða MISK 8,5 í sekt. Því hafnaði Samherji, og var þá sektin ákvörðuð MISK 15,0."
Hér er um valdhroka siðlausra embættismanna að ræða, sem starfa í anda einvaldanna: "ég einn veit", og lýðurinn skal fá að kenna á keyrinu, úr því að hann möglar. Ályktunin er hins vegar sú, að þessir embættismenn kunna ekkert til verka á þessu sviði og hefðu aldrei átt að fá sakarannsóknar- og refsiheimildir.
Umboðsmanni Alþingis hefur jafnvel ofboðið framganga embættismannanna og ritað umvöndunarbréf til fjármála- og efnahagsráðherra, formanns bankaráðs Seðlabankans og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis:
"Ég tek það líka fram, að ég tel það miður, þegar forstöðumenn ríkisstofnana, sem fara með rannsóknarvald af því tagi, sem hér er fjallað um, vísa til þess, að ástæðu þess, að fella hefur þurft niður rannsóknir mála, t.d. með ákvörðun ákæruvaldsins, megi rekja til vanbúnaðar í lögum eða mistaka við lagasetningu. Það er einmitt verkefni stjórnvalda að gæta að því, að þau hafi nægar heimildir í lögum til þeirra athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum, sem þau grípa til."
Þarna gefur Umbi gjaldeyriseftirliti, lögfræðideild og bankastjóra Seðlabankans, falleinkunn fyrir embættisfærslu þessara aðila. Er ekki þörf á vorhreingerningu undir Svörtu loftum ?
Af öðru sauðahúsi er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta. Hann mundi sóma sér vel í Svörtu loftum, því að hann hefur góða yfirsýn um hagkerfið og hefur næman skilning á lögmálum þess, sem draga má í efa um núverandi Peningastefnunefnd Seðlabankans, sem hefur haldið stýrivöxtum í hæstu hæðum og þar með stuðlað að ofrisi ISK og keyrt Seðlabankann í þrot með gjaldeyriskaupum og gríðarlegum vaxtakostnaði af gjaldeyrisvarasjóði. Sigurður telur reyndar, að ríkisstjórnin leggi heldur ekki nægilega þung lóð á vogarskálar vaxtalækkunar með nýjustu fjárlögunum, og það er sennilega rétt hjá honum. Hann skrifaði þann 9. marz 2017 í Fréttablaðið greinina:
"Lækkum vexti með stöðugleikasjóði":
"Ef rétt er á málum haldið, má lækka vexti með stofnun stöðugleikasjóðs, sem hefði sveiflujöfnun hagkerfisins og opinberan sparnað að leiðarljósi.
Útgjöld hins opinbera hafa bein áhrif á vaxtastigið í landinu. Óhóflegur útgjaldavöxtur ríkisins er þensluhvetjandi og kallar á viðbrögð Seðlabankans, sem nýtir stýrivexti til að slá á þenslu. [Fjárlög hækkuðu meira við síðustu afgreiðslu Alþingis á þeim en dæmi eru um í sögunni, og samt bíta menn enn í skjaldarrendur til að kreista meir úr ríkisspenanum - innsk. BJo.]. Nú, þegar vel árar, virðast ríkisstjórn og Seðlabanki ekki ætla að ganga í takti. Í stað þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu, auka aðhald og stefna að myndarlegum rekstrarafgangi ríkissjóðs, er stefnt á 1,5 % [af VLF-innsk. BJo] afgang næstu árin samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Sá litli afgangur heldur vöxtum hærri en ella og leggur þyngri vaxtabyrði en annars væri á fyrirtæki og heimili landsins."
Hér er hreyft þörfu máli um stöðugleikasjóð, sem gæti t.d. haft tekjur af auðlindagjöldum frá sjávarútvegi, fiskeldi, orkufyrirtækjum og ferðaþjónustu, þegar vel árar hjá þessum aðilum.
Það má einnig til sanns vegar færa, að þingmenn tefla stöðugleikanum á tæpasta vað með óhóflegri útgjaldaaukningu í fjárlögum 2017. Þeir hafa sér til örlítilla málsbóta allt of lágar spár Hagstofu og Seðlabanka um vöxt landsframleiðslunnar 2016, sem nam 7,2 % samkvæmt nýjustu tölum, en ekki um 5 %. Forráðamenn ríkissjóðs verða að stíga á bremsurnar í ár og nota tímann til að búa í haginn fyrir sókn á næstu árum, þegar slaknar á hagkerfinu, með því að greiða niður skuldir og minnka þar með óhóflegan vaxtakostnað, sem enn nemur um 70 miaISK/ár.
Nú hefur gjaldeyrishöftum loksins verið aflétt, þótt svo kölluðum varúðartækjum Seðlabankans sé eðlilega haldið við. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar er hláleg og ljóst, að væri hún við völd, mundi ekkert hilla undir losun hafta. Nú munu miaISK 90 fara út á genginu EUR/ISK=137,50, en aðrir fara út á um EUR/ISK=120. Mistök Seðlabankans í fyrra lágu auðvitað í því að meta þróun ISK með röngum hætti. Ef eitthvert gagn væri að svo kölluðum líkönum Seðlabankans af íslenzka hagkerfinu, hefðu þau ályktað af gríðarlegu innflæði gjaldeyris og 4 % raunvaxtamuni við útlönd um styrkingu ISK. Þar með hefði eigendum snjóhengjunnar verið boðið hagstæðara gengi og þeir hraðað sér út, en spádómsgáfa vogunarsjóðanna reyndist spádómsgáfu Seðlabankamanna traustari. Því miður verður að álykta af öllu þessu, að núverandi stjórnendur Seðlabanka Íslands geti fátt eitt rétt gert.
Ljós í myrkri Svörtu lofta er, að ríkisstjórnin hefur nú skipað í verkefnisstjórn valinkunna hagfræðinga til að stjórna vinnu við endurskoðun laga og starfsreglna um Seðlabankann. Verður að binda vonir við, að hannað verði bætt stjórnkerfi og umfram allt, að peningamálastjórnunin taki stakkaskiptum. Téður hópur hagfræðinga er í færum til að sníða Seðlabankanum stakk eftir vexti, þ.e.a.s. í stað þess að apa stjórnkerfi hans eftir öðrum, þá verði Seðlabankinn felldur almennilega að íslenzka hagkerfinu og sérþörfum þess. Leiðisnúran er að færa honum tæki og tól til að leggja þungt lóð á vogarskálarnar gegn óstöðugleika í hagkerfinu, en núverandi þröngu stefnumið bankans eru ekki fallin til þess.
Auðvitað mun Seðlabankinn aldrei ráða einn við það hlutverk að rata hér hinn gullna meðalveg lágrar verðbólgu, lítilla gengissveiflna, hás atvinnustigs og meiri hagvaxtar en í helztu viðskiptaríkjunum. Aðilar vinnumarkaðarins gegna þar stóru hlutverki, og ríkisstjórnin er þar í veigamiklu hlutverki líka.
Eitt af því, sem Seðlabankinn hefur flaskað á, eru dempandi áhrif erlendra starfsmanna hérlendis á s.k. launaskrið. Þess vegna m.a. eru verðbólguspár hans jafnan allt of háar undanfarin ár. Þessi dempun er jákvæð fyrir heildina, en skuggahliðar innflutts vinnuafls eru algerlega óviðunandi, en þær minna helzt á forneskjulegt þrælahald.
Þann 15. marz 2017 ákvað Peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 5,0 %. Þessi ranga ákvörðun sýnir, að Peningastefnunefnd situr í fílabeinsturni og kann ekki að greina hismið frá kjarnanum. Seðlabankastjóri sér flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í eigin auga. Hann kennir ferðaþjónustunni um vandann og vill leggja einhvers konar hömlur á hana. Það er einkennilegt, ef þau í Svörtu loftum telja helzt til ráða að slátra mjólkurkúnni. Þatta er sama sagan, þegar Már Guðmundsson reyndi að afsaka mistök Gjaldeyriseftirlits bankans með því, að lögin um höftin og eftirlit með þeim væru ófullkomin og eiginlega gölluð. Þetta er að búa í fílabeinsturni.
Seðlabankastjóri færir helzt þau rök fyrir téðri vaxtaákvörðun, að mikill hagvöxtur sé í landinu og jafnvel vaxandi og atvinnulífið sé þanið til hins ýtrasta. Þá vanmetur hann þá staðreynd, að 21´500 útlendingar eru á vinnumarkaðinum, sem stækkar vinnumarkaðinn um meira en 12,0 %. Þá má benda á, að fjárfestingar 2016 sem hlutfall af VLF voru nálægt sögulegu meðaltali. Heimili og fyrirtæki draga úr skuldsetningu sinni, svo að það er vandséð á hvaða peninganotkun háir vextir eiga að slá. Aðilar í Peningastefnunefnd berja sér á brjóst og þakka háum vöxtum það, að fólk og fyrirtæki skuldsetja ekki við þessar aðstæður. Það er grunnfærnisleg ályktun. Meiri líkur eru á, að lánshæfismat bankanna á lánsumsækjendum dempi aukningu útlána en hátt raunvaxtastig.
Um hættuleg áhrif núverandi vaxtastigs skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðið 15. marz 2017:
"Vaxtalækkun er knýjandi:
"Rekstrarskilyrði þeirra [útflutningsgreinanna] hafa tekið stakkaskiptum til hins verra á undanförnum misserum vegna gengisstyrkingar og mikilla launahækkana.
Efnahagslífið hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum. Verðmætasköpun atvinnulífsins og lífskjör landsmanna eru betri en nokkru sinni fyrr. Mikill vöxtur útflutningstekna þjóðarbúsins og afgangur í viðskiptum við útlönd eru rót velgengninnar. Afgangurinn hefur nýtzt til grynnkunar erlendra skulda. Hagvöxtur er heilbrigður, því að hann stafar af auknum útflutningi og vaxandi einkaneyzlu, sem byggir á kaupmætti heimilanna, en ekki söfnun skulda, eins og oftast áður.
SA fagnar þeirri losun fjármagnshafta, sem tók gildi í vikunni [14.03.2017] og leiðir vonandi til betra jafnvægis í gengi krónunnar. En meira þarf til, svo að styrking gengis krónunnar stöðvist og setji útflutningsgreinarnar [ekki] í þrot, þ.e. myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans. Samhliða skapast sterkur hvati fyrir íslenzka lífeyrissjóði til að auka verulega fjárfestingar sínar í erlendum gjaldmiðlum. Sú ákvörðun er skynsamleg fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna og mun auka áhættudreifingu sjóðanna til lengri tíma.
Hagsmunir almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða, eru samofnir, hvað varðar stöðugt og raunhæft gengi krónunnar. Viðvarandi vaxtamunur við útlönd, sem býður fjárfestum upp á margfalda ávöxtun m.v. önnur ríki, leiðir til viðvarandi ásóknar í innlenda vexti, sem óhjákvæmilega stuðlar að styrkingu krónunnar. Vaxtalækkun styður við atvinnulífið og gagnast heimilum með beinum hætti."
Það er hægt að taka undir þetta allt saman, og Halldór Benjamín ætlar að reynast sannspár um, að haftalosun ein og sér dugar ekki til að nálgast "raungengi" eða jafnvægisgengi ISK við aðrar myntir. Svörtu lofta menn glötuðu tækifæri þann 15. marz 2017 til að stíga í takti við ríkisstjórnina og taka stórt skref í peningamálum til efnahagsjafnvægis með því að lækka stýrivexti um 0,5 %. Þau á Svörtu loftum eru algerlega sér á báti og eru nú orðin sjálfstætt efnahagsvandamál.
Hvert er "raungengið" núna ? Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar um það í Fréttablaðið 15. marz 2017, "Gjaldeyrishöftin kvödd !". Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ISK sé nú 10 %-15 % of hátt skráð, þ.e. að gengið þurfi að færast, þangað sem það var í ágúst-september 2016. Það þýðir, að bandaríkjadalur færi úr ISK 116 í ISK 125 og vísitala meðalgengis yrði rúmlega 160.
Í lok greinarinnar kom Lars Christensen með athyglisverða ráðleggingu:
"Tvær lykilráðstafanir, sem ég myndi mæla með, væru að breyta markmiði Seðlabankans úr verðbólgumarkmiði yfir í nafnlaunamarkmið, og tengja afborganir húsnæðislána við nafnlaunaþróun frekar en við verðbólgu. Þessar tvær stefnutillögur myndu draga verulega úr neikvæðum smitáhrifum af gengissveiflum.
Þetta ættu að verða næstu umbætur, sem ríkisstjórnin tekur til athugunar."
Fljótt á litið verður ekki annað séð en báðar þessar tillögur séu skynsamlegar, og að þær mundu báðar virka í stöðugleikaátt. Verkefnastjórn um endurskoðun peningamálastefnu hefur úr miklu að moða, en hún á að skila ríkisstjórninni tillögum fyrir árslok 2017.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2017 | 13:46
Íslenzk og erlend raforkumál
Víða í Evrópu er raforkumarkaðurinn í sárum vegna opinberra niðurgreiðslna á mannvirkjum til raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum. Rótgróin raforkufyrirtæki, sem áður fyrr voru eftirsóknarverðir fjárfestingarkostir, berjast nú í bökkum. Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið í þróun vind- og sólarhlaða, sem sáralítið munar enn um. Það hefur verið farin Krýsuvíkurleið að því að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Betra hefði verið að setja féð í þróun stórra raforkuvera, sem gengið geta stöðugt. Orkumál Evrópu eru af þessum sökum í ólestri, og yfirvöldin virðast allsendis ófær um að móta sjálfbæra orkustefnu.
Raforkukerfi Evrópu er þannig upp byggt, að þegar hillir undir skort á raforkumarkaði, þá hækkar raforkuverðið, sem á endanum verður fyrirtækjum nægur hvati til að reisa nýtt orkuver. Menn hafa þá valið þess konar raforkuver, sem framleiða með lægstum jaðarkostnaði hverju sinni. Hefðbundið hefur þetta jafngilt því að velja hagkvæmasta eldsneytið, t.d. að reisa gaskynt raforkuver. Þetta gekk þokkalega vel upp áður en hið opinbera raskaði jafnvæginu á þessum markaði með því að draga taum endurnýjanlegra orkulinda, sem þó geta ekki leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi með núverandi tækni.
Til skjalanna eru komin sól og vindur með miklum opinberum fjárhagslegum stuðningi. Slík orkuver eru með mjög lágan breytilegan kostnað, því að hvorki kosta sólargeislar né vindgustur fé enn sem komið er. Fastur kostnaður þeirra er hins vegar svo hár, að slík orkuver hafa hingað til verið ósamkeppnisfær án stórfelldra opinberra niðurgreiðslna.
Af þessum ástæðum geta orkuver endurnýjanlegrar orku bolað hefðbundnum eldsneytisverum út af markaðinum, þegar byrlega blæs eða sólin skín. Þeim er samt ekki lokað, af því að rekstur hinna er stopull og háður birtu og lofthraða, eins og kunnugt er. Þessi breytti rekstrarhamur eldsneytisorkuveranna hefur kippt fótunum undan arðsemi þeirra, og enginn hefur áhuga á að endurnýja þau án opinberra styrkja. Raforkukerfi Evrópu er komið á opinbert framfæri.
Allt hefur þetta leitt til ofgnóttar raforku á evrópskum orkumarkaði með þeim afleiðingum, að raforkuverð er með lægsta móti nú, enda er hvorki hagvexti né mannfjöldaaukningu til að dreifa yfirleitt í þessum ríkjum. Í þessu ljósi er eftirfarandi staðhæfing hins fullyrðingasama forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, við Trausta Hafliðason á Viðskiptablaðinu, sem birtist þar 2. marz 2017 undir fyrirsögninni:
"Hillir undir milljarða króna arðgreiðslu",
ankannaleg:
"Ég tel, að álverð sé enn of lágt. Það hefur líka verið sveifla upp á við annars staðar, eins og t.d. á olíu-, raforku- og stálmarkaði."
Olíuverð hækkaði mun minna en olíusjeikarnir ætluðust til, þegar þeir drógu úr framboði jarðolíu um síðast liðin áramót. Olíuverð fer nú lækkandi með vorinu á norðurhveli.
Hvar hefur raforkuverð hækkað annars staðar en á Íslandi undanfarið ? Er forstjórinn hér enn einu sinni að slá um sig með innistæðulitlum fullyrðingum ?
Sami forstjóri hefur rofið álverðstenginguna í orkusamningi við ISAL, og sama verður líklega uppi á teninginum 2019 hjá Norðuráli, þegar nýr orkusamningur fyrirtækjanna tekur gildi. Með þessu hefur þessi forstjóri rænt Landsvirkjun ávinningi af hækkuðu álverði, nema með orkusölu til Fjarðaáls. Jafnframt gerir hann viðkomandi álfyrirtækjum mjög erfitt að standast öðrum snúning, þegar álverð er lágt. Umhyggja hans fyrir álverunum á Íslandi er einskær hræsni.
Það er til lítils að kaupa skýrslur um íslenzk orkumál frá útlöndum, ef þær þjóna ekki öðru hlutverki en að planta hér staðleysum um eðli íslenzks orkukerfis og að koma hér á framfæri falsboðskap um nauðsyn orkuverðshækkunar hérlendis, sem er algerlega út úr kú við íslenzkar aðstæður. Það eru kolrangar greiningar á orkukerfinu hérlendis, sem leiða til slíkrar niðurstöðu. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar er búinn að gera margar misheppnaðar atrennur að slíkum tillöguflutningi, en aðeins maurapúkar eru líklegir til að kaupa þær, og er þá mikið sagt.
Nýlega kynnti Landsvirkjun enn eina skrýtnu útlendu skýrsluna og nú frá danska ráðgjafarfyrirtækinu Copenhagen Economics varðandi fyrirkomulag íslenzkra orkumála. Það var rétt hjá Dönunum, að nauðsynlegt er að setja varnagla í lög um, að hlutlaus aðili á markaði, t.d. Orkustofnun, gæti hagsmuna almennings og aðvari opinberlega um yfirvofandi skort á afli og/eða raforku, og geti sá aðili þá tekið upp viðræður við orkufyrirtækin um, hvernig þjóðhagslega er hagkvæmast að ráða bót á slíkri stöðu. Á þetta hefur áður verið bent, m.a. á þessu vefsetri, svo að þetta er ekki ný hugmynd.
Óbeint er jafnframt lýst stuðningi við auðlindagjaldtöku, sem í tilviki orkufyrirtækjanna íslenzku mundi verða á formi fasteignagjalds fyrir vatnsréttindi og jarðhitaréttindi, en útfærslu á slíku hefur blekbóndi lýst á þessu vefsetri. Stjórnvöld þurfa hins vegar að koma á samræmdu fyrirkomulagi um gjaldtöku af vatnsréttindum, jarðhitaréttindum, vindréttindum o.s.frv. Þessi mál hafa þegar þroskazt nóg í meðförum hagsmunaaðila og dómstóla til að tímabært sé að reka endahnútinn á þau.
Landsvirkjun fékk Copenhagen Economics til þessara skýrsluskrifa, en það er eins og fyrri daginn, þegar kemur að skrifum útlendinga um íslenzk orkumál, að þau draga um of dám af venjubundnu umhverfi höfundanna, sem ekki hafa kynnt sér aðstæður hér á landi til hlítar. Þannig virðast þeir telja, að raforkuverð hérlendis sé of lágt og að það verði að hækka til að orkufyrirtækin fáist til að virkja. Það er kerfið, sem gilt hefur á meginlandi Evrópu og víðar og lýst er hér að ofan.
Raforkuverð virkjunareigenda hérlendra hlýtur að ráðast af vegnum meðalkostnaði orku frá öllum virkjunum þeirra. Vinnslukostnaðurinn er lægstur í elztu virkjununum og hæstur í nýjustu virkjununum. Þetta kemur ekki fram í túlkun Dananna á hækkunarþörfinni, sem er eins og búktal frá Herði Arnarsyni, og felur þess vegna ekki í sér nein nýmæli.
Það eru tvenns konar verðlagskraftar í gangi hérlendis fyrir raforku. Sá fyrri er, að yfirleitt eru nýir virkjanakostir dýrari í kr/kWh (föstu verðlagi) en hinir eldri. Þetta virkar til hækkunar á orkuverði til almennings og hækkunar á orkuverði í nýjum langtímasamningum.
Sá seinni er sá, að vinnslukostnaður í starfræktum virkjunum fer lækkandi eftir því, sem afskriftir þeirra lækka. Má sem dæmi nefna Búrfell #1, sem er 46 ára gömul virkjun og að mestu fjárhagslega afskrifuð, þó að hún framleiði á fullu með sáralitlum tilkostnaði, eða e.t.v. 0,2 kr/kWh.
Þessi seinni kraftur er að verða öflugri en hinn vegna vaxandi vægis eldri virkjana í heildarsafni virkjana, og þess vegna er engin ástæða til að hækka raforkuverð til almennings, þótt jaðarkostnaður fari hækkandi. Ef nýjar virkjanir þyrfti ekki, ætti orkuverð til almennings að lækka af þessum sökum.
Á Íslandi hefur sú stefna verið við lýði að selja megnið af raforku frá nýjum virkjunum í heildsölu samkvæmt langtímasamningum á verði, sem standa mundi vel undir kostnaði við þá orkuvinnslu í viðkomandi nýrri virkjun með ákveðinni ávöxtunarkröfu, og almenningur nyti jafnframt góðs af sömu virkjun með lægra orkuverði en ella vegna hagkvæmni stærðarinnar.
Þetta líkan er alls ekki fyrir hendi erlendis og hefur augljóslega ekki verið útskýrt fyrir Dönunum, því að þeir enduróma bara falskan tón verkkaupans, Landsvirkjunar, um hagkvæmni sæstrengs til Bretlands og nauðsyn mikillar raforkuverðhækkunar á Íslandi. Er ekki betri einn fugl í hendi en tveir í skógi, þ.e.a.s. er ekki hagsmunum almennings á Íslandi betur borgið með lágu raforkuverði, eins og hann býr við nú, en háu raforkuverði og fjárhagslega mjög áhættusömum framkvæmdum tengdum aflsæstreng til Bretlands ?
Til fróðleiks og samanburðar við skrýtinn málflutning Landsvirkjunarforystu um framtíðina hérlendis er hér snaraður útdráttur úr grein í The Economics 25. febrúar 2017,
"Clean Energy´s dirty secret":
"Næstum 150 árum eftir frumhönnun ljósrafhlöðunnar (e. photovoltaic cell) og vindrafstöðvar þá framleiða þau enn aðeins 7 % af raforkunotkun heimsins. Samt er nokkuð eftirtektarvert að gerast í þessum efnum. Þessar orkustöðvar hafa tekið stakkaskiptum á síðast liðnum 10 árum frá því að gegna smávægilegu hlutverki í orkukerfum heimsins yfir í að sýna mesta vöxt allra orkulinda fyrir raforkuvinnslu, og fallandi kostnaður á orkueiningu gerir þær nú samkeppnishæfar við jarðefnaeldsneyti. Olíurisinn BP býst við, að þessar endurnýjanlegu orkulindir muni standa undir helmingi aukningar raforkunotkunar heimsins á næstu 20 árum. Það er ekki lengur langsótt, að handan við hornið sé hrein, ótakmörkuð og ódýr raforka; og kominn tími til.
Það er þó triUSD 20 hindrun í veginum (triUSD 1=miaUSD 1000), þar sem er fjárfestingaþörf á allra næstu áratugum til að leysa af hólmi reykspúandi orkuver og styrkja orkuflutningskerfið. Fjárfestar hafa gjarna fjármagnað verkefni í orkugeiranum, af því að þau hafa skilað traustum arði, en græna orkan er með böggum hildar. Því meira sem fjárfest er í þessari grænu orku, þeim mun meira lækkar verðið frá öllum orkulindunum. Þetta veldur erfiðleikum við orkuskiptin, því að allar orkulindir þurfa að skila ágóða á meðan á orkuskiptunum stendur, ef hindra á afl- og orkuskort. Ef þessum markaðsvanda er ekki kippt í liðinn, munu niðurgreiðslurnar fara vaxandi."
Af þessari frásögn af orkumálum heimsins, sem á algerlega við Evrópu, geta Íslendingar dregið 2 mikilvægar ályktanir og samræmist hvorug áróðurstilburðum Landsvirkjunar, sem er á mjög einkennilegri vegferð sem ríkisfyrirtæki:
Í fyrsta lagi er raforkuverð í Evrópu ekki á uppleið, og í öðru lagi verður þar enginn hörgull á umhverfisvænni raforku eftir um 10-20 ár.
Af þessum ástæðum eru það falsspámenn, sem reyna að telja Íslendingum trú um hið gagnstæða. Sæstrengur er svo dýr, að hann verður ekki fjárhagslega sjálfbær um fyrirsjáanlega framtíð. Á þetta er margbúið að sýna fram á með útreikningum, m.a. á þessu vefsetri.
Það er svo önnur saga, að m.v. þriðju útgáfu Rammaáætlunar verður engin raforka aflögu til beins útflutnings sem hrávara um sæstreng. Íslendingar munu þurfa á öllum sínum orkulindum að halda innanlands til að knýja vaxandi atvinnulíf á landi, samgöngutæki og atvinnutæki á láði, lofti og legi.
Það eru falsspámenn, sem boða, að aðeins þurfi að virkja svo sem 250 MW rafafl fyrir 1300 km sæstreng. Nauðsynlegri viðbót megi ná út úr kerfi, sem annars er ætlað til innlendrar notkunar. Það er fífldjörf áhættusækni að ætla að keyra orkukerfið í þrot hér (tæma miðlunarlónin) og ætla síðan að reiða sig á "hund að sunnan". Bili hann, sem töluverðar líkur eru á, þegar verst gegnir (lögmál Murphys), eins og dæmin annars staðar frá sanna, myrkvast Ísland.
Það þarf ekki að fjölyrða um það neyðarástand, sem hér mun þá verða. Halda menn, að forstjóri Landsvirkjunar eða einhver stjórnmálamaður, sem þetta glapræði kynni að styðja, sé sá bógur, að hann geti tekið ábyrgð á slíku ástandi ? Þeir munu þá ekki þurfa að kemba hærurnar. Það færi bezt á því, að henda öllum sæstrengsáformum á bálið og einbeita sér þess í stað að raunhæfum verkefnum. Nóg hefur verið bullað um ávinning þess að virkja lítils háttar og græða síðan stórkostlega á raforkuútflutningi um sæstreng, sem er svo dýr, að flutningskostnaður einn og sér verður miklu hærri per MWh en fæst fyrir þá MWh (megawattstund) á Englandi.
Síðan heldur The Economist áfram að lýsa ömurlegri stöðu orkumála í Evrópu. Er þá ekki við hæfi að fá "sérfræðinga að sunnan" til að kenna oss, fávísum og "jaðarsettum" ?:
"Í fyrsta lagi hafa rausnarlegar opinberar niðurgreiðslur, um miaUSD 800 síðan 2008 (100 miaUSD/ár) afmyndað markaðinn. Þær komu af virðingarverðum ástæðum - til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum og örva þróun dýrrar tækni, þ.á.m. vindrafstöðvar og sólarhlöður. Niðurgreiðslurnar fóru að bíta á sama tíma og stöðnun tröllreið raforkumörkuðum þróaðra landa vegna bættrar orkunýtni og fjármálakreppunnar 2008. Afleiðingin varð offramboð á raforku, sem hefur mjög komið niður á tekjum raforkuframleiðendanna á heildsölumarkaði raforku og fælt þá frá fjárfestingum.
Í öðru lagi er græn orka slitrótt. Breytileiki vinda og sólskins - sérstaklega í löndum óheppilegs veðurfars fyrir þessar rafstöðvar - hefur í för með sér, að vindmyllur og sólarhlöður framleiða raforku bara stundum. Til að viðhalda orkuflæði til viðskiptavinanna þarf að reiða sig á hefðbundin orkuver, s.s. kolaver, gasver eða kjarnorkuver, að þau fari í gang, þegar endurnýjanlega orkan bregst. Þar sem þau standa ónotuð í löngum lotum, hafa fjárfestar lítinn áhuga á þeim. Til að halda þeim við og tiltækum þurfa þau þá opinberan stuðning.
Allir í orkugeiranum verða fyrir áhrifum af þriðja þættinum: raforkuver endurnýjanlegrar orku hafa hverfandi eða engan rekstrarkostnað - af því að vindur og sólskin kosta ekkert. Á markaði, sem metur mest raforku, sem framleidd er á lægsta skammtíma kostnaði, taka vind- og sólarorkuver viðskipti frá birgjum með hærri rekstrarkostnað, eins og kolaorkuverum, þrýsta niður raforkuverði og þannig lækka tekjur allra birgjanna á þessum markaði."
Af þessari tilvitnun sést, að staða orkumála í Evrópu er algerlega ósjálfbær. Í Evrópu eykst losun koltvíildis vegna raforkunotkunar þessi misserin, þótt orkunotkunin vaxi ekkert. Þetta er vegna misheppnaðrar orkustefnu og ákvörðunar um að draga úr notkun kjarnorkuvera áður en þróaðir hafa verið umhverfisvænir valkostir til að taka við af henni, t.d. "þóríum-kjarnorkuver", en slys af þeirra völdum eru enn ólíklegri en af völdum öruggustu úraníum-vera, og helmingurnartími úrgangsins er aðeins nokkrir áratugir.
Beitum heilbrigðri skynsemi. Raforkukerfi landsins á að þjóna atvinnulífinu hérlendis og fólkinu, sem hér býr. Raforkukerfi landsins á ekki að nota í braski með orku inn og út af um 1200 MW sæstreng til útlanda. Hvers vegna gefur Alþingi stjórn Landsvirkjunar ekki til kynna, að hún sé á kolrangri braut með tilraunum til að skjóta falsrökum undir áróður fyrir sæstreng og nauðsyn mikillar hækkunar á raforkuverði til almennings ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2017 | 17:30
Heilnæmi landbúnaðarafurða
Þótt ótrúlegt megi virðast, er nú sótt að fæðuöryggi og fæðuhollustu landsmanna. ESA-Eftirlitsnefnd EFTA mun hafa úrskurðað, að Íslendingum beri sem aðilum að Innri markaði ESB (Evrópusambandsins) að láta niður falla allar helztu varnir sínar gegn sjúkdómum, sem hæglega geta herjað hér á búfénað og grænmeti landsmanna, af því að mótstöðuefni eru ekki fyrir hendi í einangruðum stofnum.
Þeir, sem einhver skil kunna á sögunni, skilja, að hér eru firn mikil á ferð. Að vera laus við marga alvarlega sjúkdóma í mönnum, dýrum og jurtum, eru ómetanleg lífsgæði, sem landsmenn geta talið landi sínu til tekna.
Hér er ekki um að ræða einfalda viðskiptalega hindrun, heldur stórfellt heilbrigðismál fyrir fólk og fénað. Ef einhver glóra er í EFTA-dómstólinum, þá lætur hann ekki meiri hagsmuni víkja fyrir minni. Hinir meiri hagsmunir eru viðhald og viðgangur landbúnaðar á Íslandi og lýðheilsa hérlendis, en hinir minni hagsmunir eru frjáls viðskipti með hrátt kjöt, dýr á fæti og grænmeti, á meðan nóg er af því í landinu.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og höfðingi margra Sunnlendinga, ritaði laugardaginn 4. marz 2017 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: "Húsfyllir í Iðnó eins og Mamma Mía væri mætt". Sannleikurinn er sá, að það er full ástæða fyrir Íslendinga til að hrópa "mamma mia" að hætti Ítala, ef stjórnvöld hér gera sig sek um það glapræði að láta undan þjóðhættulegri kröfu ESA í þessu máli. Guðni vitnar í Margréti Guðnadóttur, heiðursdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands:
""Mér finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu, þegar við höfum þessa gömlu búfjárstofna og höfum lagt mikið á okkur til að halda þeim hreinum og gefum þeim ekki sýklalyf í fóðri."
Hún sagði í viðtalinu [við Morgunblaðið - innsk. BJo], að hún teldi EES-samninginn lífshættulegan, þar sem ekki væri hægt að reiða sig á heilbrigðisvottorð matvöru."
Það þarf enginn að ímynda sér, að hinn virti sérfræðingur um veirusjúkdóma fari með eitthvert fleipur hér, þótt ekki sé skafið utan af hlutunum. Þvert á móti sýnir tilvitnunin alvarleika málsins.
Það vitna fleiri sérfræðingar á sömu lund, og hefur nokkur sérfræðingur hérlendur mælt gegn röksemdafærslu þeirra sérfræðinga, sem Guðni teflir fram ? Einn þeirra er Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskólans að Keldum:
"Vilhjálmur fór faglega yfir þá áhættu, sem heilbrigðir búfjárstofnar okkar byggju við og mælti gegn innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti. Hann sagði jafnframt, að við hefðum ekki fengið hingað kúariðu eða gin- og klaufaveiki. Taldi hann, að íslenzkt búfjárkyn og landbúnaður mundu vart verða söm eftir, ef svo alvarlegir sjúkdómar bærust til landsins. Hann minnti á mikið kæruleysi, þar sem gætu legið smithættur, þar eð klósettmál ferðamanna væru með þeim hætti, að þeir gerðu þarfir sínar úti um mela og móa."
Íslendingar hafa orðið fyrir hrikalegum áföllum af völdum innfluttra búfjársjúkdóma, og hékk sauðfjárstofninn um tíma á horriminni, en var bjargað með ósýktu vestfirzku sauðfé. Þeirrar tíðar menn höfðu í sumum tilvikum þekkingarleysi sér til málsbóta fyrir verknaðinum, en nútíðar menn eiga sér engar málsbætur fyrir það að ógna tilveru einstakrar fánu landsins, dýraríkis, sem í eru fólgin ómetanleg söguleg, menningarleg, atvinnuleg og næringarleg verðmæti.
Nátengt þessu er heilbrigði þjóðarinnar. Guðni vitnaði í Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlækni á Sýklafræðideild Landspítalans og í Læknadeild H.Í.:
"Karl G. Kristinsson, prófessor, ræddi um heilbrigði þjóðarinnar, og að hér væru færri pestir en í öðrum löndum. Búféð væri heilbrigt, náttúran og fóðrið hreint og notkun sýklalyfja sáralítil ... ."
Á Íslandi er notkun sýklalyfja í landbúnaði einni til tveimur stærðargráðum minni en víðast hvar annars staðar. Hvers konar gildismat og áhættugreining liggur eiginlega að baki því að vilja breyta verndarákvæðum um innflutning í þá veru, að þessari ómetanlega góðu stöðu verði ógnað ? Að gefa eftir í þessu máli væri lydduháttur, ótrúleg skammsýni og fæli í sér brenglað gildismat.
Bloggar | Breytt 12.3.2017 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2017 | 10:00
Ósjálfbært hneyksli á Hellisheiði
Það er að bera í bakkafullan lækinn að minnast á oflestun gufuforðans í iðrum jarðar vegna Hellisheiðarvirkjunar. Afleiðing gösslaragangs við uppbyggingu þessarar stórvirkjunar gegn ráðum jarðvísindamanna er skelfileg fyrir afkomu þessarar virkjunar og eigenda hennar, sem að stærstum hluta eru Reykvíkingar. Rýrnun á afkastagetu upprunalegs gufuforðageymis virkjunarinnar, ásamt háum rekstararkostnaði vegna gufuöflunar, er svo mikil, að ávöxtun fjármagns í 303 MW virkjunarfjárfestingu er minni en 4 %/ár, sem jafngildir stórtapi á virkjun, þar sem gera verður a.m.k. 9 %/ár ávöxtunarkröfu til verkefna með viðlíka rekstraróvissu.
Til að kóróna vitleysuna var OR (Orkuveita Reykjavíkur) skuldbundin með langtímasamningi til að afhenda megnið af raforkunni. Hellisheiðarvirkjun reyndist ekki geta staðið undir þeim skuldbindingum um forgangsorkuafhendingu. Það virðist á sinni tíð algerlega hafa verið horft framhjá möguleikanum á því, að innstreymi gufu kynni að verða ónógt til að vega upp á móti brottnámi gufunnar um borholurnar.
Nú er hins vegar komið í ljós, að jarðgufunýtingin lýtur lögmáli námuvinnslu, og enginn veit, hvenær námuna þrýtur örendi. Þannig súpa eigendurnir seyðið af flausturslegum ákvörðunum stjórnmálamanna Reykvíkinga, sem véluðu um fjárhag þeirra og málefni Hellisheiðarvirkjunar á blómaskeiði R-listans, alræmda.
Í fróðlegri frétt Svavars Hávarssonar í Fréttablaðinu, 23. febrúar 2017,
"Hverahlíð bjargaði rekstri á Hellisheiði",
þar sem fléttað er inn viðtali við núverandi forstjóra OR og stjórnarformann ON, Bjarna Bjarnason, kemur fram, hversu gríðarlega var offjárfest í vinnslugetu virkjunarinnar, þar sem afkastageta virkjunarinnar virðist hafa verið komin niður í 224 MW áður en holurnar í Hverahlíð voru tengdar við Hellisheiðarvirkjun. Enginn veit, hvort áframhaldandi gufuöflunaráform ON duga, en þau eiga að vega upp á móti 8,5 MW/ár rýrnun, sem er um 3,0 %/ár rýrnun gufustreymisins.
Orkuveita Reykjavíkur (OR) var á gjaldþrotsbarmi árið 2010. Meginskýringin á þeim ósköpum er líklega offjárfesting á Hellisheiði og allt of litlar tekjur af virkjuninni m.v. fórnarkostnað hennar. Þá þegar var orkuvinnslugeta virkjunarinnar farin að láta á sjá, sem leiddi til lakari nýtingar virkjunarinnar, sem OR bætti upp með auknum orkukaupum af Landsvirkjun til að uppfylla þarfir viðskiptavina sinna, m.a. til að uppfylla skuldbindingar sínar í langtímasamningi um raforkuafhendingu.
Þá var samt enn ekki kominn fram af fullum þunga aukinn rekstrarkostnaður Hellisheiðarvirkjunar vegna mjög mikillar viðhaldsþarfar á gufuöflun og niðurdælingar á jarðvökva. Þeim vanda var ýtt á undan sér til ársins 2013, þegar hætt var við að reisa virkjun í Hverahlíð, en ákveðið að nýta 50 MW afl, sem þar var þá þegar fyrir hendi í boruðum holum, inn á hverfla Hellisheiðarvirkjunar. Þetta kostaði auðvitað sitt og jók vinnslukostnað virkjunarinnar enn meira, en annars hefði orðið orkuskortur í landinu og skaðabótakröfur frá aðalviðskiptavininum, Norðuráli, getað vofað yfir.
Árið 2014 fundu menn út, að orkuforði Hellisheiðarvirkjunar dvínaði þrefalt hraðar en árið áður eða um 20 MW/ár (6,6 % af uppsettu afli), og stefndi þetta orkuöryggi landsins og fjárhag OR í algert óefni. Var þá gerð neyðaráætlun um borun á 23 holum á Hellisheiði fyrir miaISK 24 á 5 árum. Sýnir þetta, hvers konar kviksyndi eitt stórt jarðgufuverkefni getur orðið, þegar varkárni er ekki gætt og bezta fáanlega þekking er ekki nýtt.
Árið 2016 voru Hverahlíðarholurnar tengdar við Hellisheiðarvirkjun, og hafði það fljótlega jákvæð áhrif á dvínunarhraða gufuaflsins, sem nú virðist vera 8,5 MW/ár eða 58 % hægari en áður. Dvínunin er þá um 3,0 % á ári, sem er trúlega meira en það, sem búast má við af slíkum virkjunum, svo að virkjunin er alls ekki sjálfbær. Afköst upprunalega svæðisins virðast núna vera 235 MW eða 78 % af uppsettu afli, en jafnvægisástand með undir 2 %/ár rýrnun gæti verið við nýtingu á 200 MW eða 66 % af uppsettu afli. Það er offjárfesting um 100 MW eða um MUSD165 í boði meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur á sinni tíð.
OR var bjargað frá gjaldþrotsbarmi með fjöldauppsögnum, eignasölum og stórfelldri hækkun á öllum töxtum OR til almennings. "Leiðrétting á verðskrá" hefur t.d. þýtt hækkun á raforku og dreifingu hennar um 55 % á tímabilinu 2010-2016, þegar vísitala neyzluverðs hækkaði um 23 %. S.k. leiðrétting felur í sér oftöku fjár af viðskiptavinum, sem er ósanngjörn á sama tíma og megintapið af Hellisheiðarvirkjun virðist stafa af langtímasamningi við Norðurál. Samningurinn er á huldu, en ekki verður annað séð en forsendubrestur hafi orðið, hvað hann varðar, vegna hremminganna á Hellisheiði. Ekkert heyrist þó um endurskoðun á þessum samningi. Er ekki tímabært að hefja þá vinnu nú og fylgja þar fordæmi Landsvirkjunar, þar sem þó voru minni hagsmunir í húfi en hjá OR ?
Á sviði orkusölu rafmagns á að heita, að frjáls samkeppni ríki, og þar er ON (Orka náttúrunnar-dótturfélag OR) í vandræðum, þegar kemur að vinnslukostnaði á Hellisheiði, sem er þeirra aðalvirkjun.
Vinnslugeta upphaflega vinnslusvæðis Hellisheiðarvirkjunar hafði rýrnað úr u.þ.b. 303 MW og niður í 224 MW fyrir tengingu við Hverahlíð, en virðist vera 235 MW eftir þá tengingu. Rýrnun vinnslugetu um tæplega 70 MW hefur auðvitað mikil áhrif til hækkunar á vinnslukostnaði í virkjun reiknað á orkueiningu, þar sem fjárfest er fyrir 303 MW afkastagetu. Árlegur fórnarkostnaður fjármagns í 303 MW jarðgufuvirkjun er 8,1 miaISK (m.v. 1 USD=110 ISK), og árleg orkuvinnsla m.v. 235 MW er 1850 GWh, svo að stofnvinnslukostnaður raforku með tiltækri gufu úr upprunalega svæðinu er 4,4 ISK/kWh.
Þetta er auðvitað ekki eini fórnarkostnaður fjármagns þarna, því að reikna má með, að gufuöflun í Hverahlíð á gufu, sem gefur 50 MW, nemi miaISK 7,0, og tenging Hverahlíðar við Hellisheiðarvirkjun kostaði miaISK 3,5, svo að stofnkostnaður Hverahlíðar til að nýta gufu hennar í mannvirkjum Hellisheiðar nam miaISK 10,5. Árlegur fórnarkostnaður þessarar nýtingar er miaISK 1,1, og hún gefur 390 GWh/ár. Stofnvinnslukostnaður Hverahlíðar er þá 2,8 ISK/kWh.
Heildarvinnslukostnaður í samtengdri Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíð er 7,2 ISK/kWh án rekstrarkostnaðar. Þetta er hár kostnaður, en þá er eftir að taka tillit til mjög hás rekstrarkostnaðar, svo að sagan er engan veginn öll sögð.
Rekstrarkostnaður jarðgufuvirkjunar er viðhaldskostnaður á búnaði, t.d. vegna tæringar, viðhaldsboranir, tengingar nýrra hola og niðurdæling. Viðhaldskostnaður jarðguvirkjana er tiltölulega mun hærri en af annars konar virkjunum á Íslandi vegna tæringar í hverflum og lögnum af völdum ætandi jarðefnasambanda. Þá eru rekin á Hellisheiði gufuhreinsivirki, sem eiga að draga úr losun skaðræðisgasa á borð við brennisteinsvetni, H2S. Sú hreinsun virðist þó vera meira eða minna í skötulíki, því að ef veður dreifir ekki gösunum, heldur þau leggur með austanstæðri golu til höfuðborgarsvæðisins, þá slá mælar strax upp fyrir heilsuverndarmörk, 50 ug/m3. Hvers konar "húmbúkk" er þessi hreinsun eiginlega og eftirlitið með henni ? Er niðurdæling koltvíildis, CO2, við virkjunina á sömu bókina lærð ? Afar varlega áætlaður viðhaldskostnaður á búnaði Hellisheiðarvirkjunar er 0,7 miaISK/ár.
Ráðgerður gufuöflunarkostnaður til að vega upp á móti áætlaðri aflrýrnun um 8,5 MW/ár eftir tengingu Hverahlíðargufu við Hellisheiðarvirkjun er 15 miaISK/6 ár=2,5 miaISK/ár. Þá kemur niðurdælingarkostnaður vegna jarðhitavökva til viðbótar, en hann er um 0,8 miaISK/ár. Alls nemur þá rekstrarkostnaðurinn 4,0 miaISK/ár, sem þarf til að viðhalda gufu til að framleiða W=1850+390=2240 GWh/ár af raforku í samtengdri Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíð. Þetta gefur þá rekstrarkostnað á orkueiningu 1,8 ISK/kWh.
Til að finna út heildarvinnslukostnað Hellisheiðarvirkjunar og samtengdrar Hverahlíðar þarf að leggja saman stofnvinnslukostnaðinn og rekstrarkostnaðinn.Þá fæst:
K=4,4+2,8+1,8=9,0 ISK/kWh.
Í bandaríkjadölum talið er þetta rúmlega:
K = 80 USD/MWh.
Til samanburðar má ætla, að vinnslukostnaður raforku í vindmyllulundi á Íslandi sé nú kominn niður í 60 USD/MWh, svo að orkan frá Hellisheiði er nú þriðjungi dýrari en frá vindmyllulundi, t.d. við Blöndu, og 2-3 sinnum hærri en í nýju vatnsorkuveri yfir 100 MW.
Almenningur fær orku frá ON fyrir 5,7 ISK/kWh án VSK eftir hækkun á orkuverði um síðast liðin áramót, sem mörgum kom spánskt fyrir sjónir í ljósi gríðarlegra verðhækkana undanfarinna ára langt umfram hækkun vísitölu neyzluverðs. Til að fá þann vinnslukostnað á Hellisheiði, sem er aðalvirkjun ON, þarf að lækka ávöxtunarkröfu fjármagns, sem í fjárfestinguna þar er lagt, úr 9 % og niður fyrir 4 %. Þetta sýnir, að á meðan afskriftir þessarar fjárfestingar standa yfir, sem verður til u.þ.b. 2030, þá verður þjóðhagslegt tap á þessari orkuvinnslu og raunverulegt tap, nema lánin vegna mannvirkjanna séu á óvenju hagstæðum kjörum.
Þetta dæmi sýnir, hvílíkt glapræði það er að gera langtímasamning um heildsölu á rafmagni frá jarðgufuvirkjun áður en haldgóð þekking fæst á álagsþoli gufuforðageymisins, sem virkjaður er. Í þessu tilviki jafngildir offjárfestingin líklega 100 MW m.v. innan við 2 % niðurdrátt á ári, og stjórnendur virkjunarfélagsins verða að hafa sig alla við að bora efir gufu með ærnum tilkostnaði til að geta uppfyllt skilmála um raforkuafhendingu. Enginn veit, hversu stöðugt núverandi gufuaðstreymi verður.
Það má draga enn víðtækari ályktun af því kviksyndi, sem OR (ON) hefur ratað í á Hellisheiði. Ef jarðfræðilegur vafi leikur á um orkuvinnslugetu jarðgufuvirkjunarsvæðis, og þannig háttar yfirleitt alltaf til, þá er glapræði að gera bindandi samning til áratuga um stöðuga hámarksorkuafhendingu frá jarðgufuvirkjun. Þessu flöskuðu stjórnmálamennirnir á, sem gerðu orkusamninginn við Norðurál á sinni tíð. Vonandi háttar öðru vísi til í samskiptum Landsvirkjunar og PCC á Bakka, því að þar virðist aðeins vera komin á skuldbinding fyrir innan við helming af áætluði vinnsluþoli Þeistareykja.
Megnið af orku ON frá Hellisheiðarvirkjun fer til Norðuráls í Hvalfirði. Ekki hefur verið upplýst um orkuverðið. Það hefur hækkað síðan í fyrra með álverðinu og gæti verið komið upp í 25 USD/MWh. Ef reiknað er með, að það komist senn í 30 USD/MWh, þá verður tap ON 50 USD/MWh, sem sýnir kviksyndið, sem OR er komið út í eftir síðustu þróun á Hellisheiði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2017 | 08:59
Stórfelld repjuræktun
Repjuræktun gefur meira af sér nú en áður vegna hærri lofthita og aukinnar eftirspurnar afurðanna. Þær eru aðallega olía, t.d. á dísilvélar, og kjarnfóður, sem hentar laxeldinu o.fl. vel. Ávinningurinn við þessa ræktun hérlendis er binding koltvíildis á nægu landi, jafnvel óræktarlandi, og gjaldeyrissparnaður vegna minni innflutningsþarfar dísilolíu og kjarnfóðurs. Ræktun og vinnslu má líklega stunda á samkeppnishæfan hátt hérlendis með lítilsháttar ívilnunum fyrstu 10 árin í nafni gjaldeyrissparnaðar, byggðastefnu og umhverfisverndar. Það getur varla talizt goðgá.
Kunn eru áform Evrópusambandsins (ESB) um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda innan sinna vébanda um 40 % m.v. árið 1990. Þar er Ísland samferða varðandi stóriðju og flug. Nú áforma menn þar á bæ (Brüssel) að setja ESB markmið um 80 % minnkun árið 2050. Það hentar Íslandi ágætlega að taka þátt í því vegna þess, að orkukerfi landsins er nánast kolefnislaust og nægt landrými er til ræktunar og bindingar kolefnis. Ísland nýtur að þessu leyti sérstöðu og náttúrulegs forskots til að verða kolefnishlutlaust árið 2050. Það mun þó ekki gerast áreynslulaust.
Aðalstjórnvaldstækið til að beina starfsemi á kolefnisfríar brautir verður álagning koltvíildisskatts á fyrirtæki, sem losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þann 15. febrúar 2017 samþykkti ESB-þingið, að hann skyldi fyrst um sinn verða 30 EUR/t af CO2. Til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan og utan ESB er ætlunin að leggja koltvíildisskatt á innflutning til ESB-landa. Þá verður kolefnisspor vörunnar áætlað og lagt á sama kolefnisgjald og gildir innan ESB á hverjum tíma, og það mun sennilega hækka á næstu árum.
Hér er um hagsmunamál fyrir íslenzk útflutningsfyrirtæki að ræða, t.d. sjávarútveg og áliðnað. Þau geta jafnað út sín kolefnisspor með ódýrari hætti en að borga kolefnisskatt með samningum um landgræðslu, t.d. við Skógrækt ríkisins eða Héraðsskóga, en olíunotendur á borð við útgerðirnar geta einnig með hagkvæmum hætti fyrir þær samið um kaup á "kolefnishlutlausri" repjuolíu, sem ræktuð yrði á Íslandi. Minna kolefnisspor en hjá öðrum mun veita samkeppnisforskot. Með langtíma sölusamninga í farteskinu yrði fjármögnun repjuolíuverksmiðju ódýrari en ella (minni vaxtakostnaður).
Eins og fram kemur í viðtali Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 23. febrúar 2017 við verkfræðingana Jón Bernódusson og Gylfa Árnason undir fyrirsögninni: "Repjuræktun heppilegur kostur",
þá er raunhæft að áforma hérlendis framleiðslu á 50 kt/ár af repjuolíu. Til þess þarf að rækta 150 kt af repju á 50 kha (50 þúsund ha = 500 km2), sem er allt að þúsundföldun á núverandi framleiðslu. Skiptiræktun er æskileg, þar sem repja er ræktuð á 2/3 ræktunarlandsins í einu, svo að leggja þarf 75 kha (750 km2) undir þessa ræktun. Þetta er aðeins rúmlega fimmtungur af öllu þurrkuðu og óræktuðu landi hérlendis, svo að hér er aðeins um lítið brot af öllu óræktuðu, ræktanlegu landi að ræða, þegar t.d. sandarnir eru teknir með í reikninginn.
Af hverjum hektara lands fást um 3,0 t af repjufræjum. Í repjuverksmiðju verða m.a. til afurðirnar repjuolía: 1,0 t og repjumjöl: 2,0 t. Olíuna, 50 kt/ár, má bjóða útgerðunum, sem nota um þessar mundir tæplega þrefalt þetta repjuolíumagn sem flotaolíu á skipin.
Fiskeldisfyrirtækin framleiddu árið 2016 um 15 kt af markaðshæfum fiski og nota líklega núna um 50 kt/ár af fóðri. Ekki er ósennilegt, að framleiðsla þeirra muni hafa tvöfaldazt árið 2025. Það verður góður markaður fyrir kjarnfóðurafurð verksmiðjunnar, 100 kt/ár, hjá innlendum landbúnaði og laxeldisfyrirtækjunum. Þau gætu þannig að langmestu leyti sneitt hjá kolefnisskatti ESB eða annarra fyrir sinn útflutning frá Íslandi, en laxeldisfyrirtækin flytja nánast alla sína framleiðslu utan.
Eru þetta loftkastalar eða arðsöm starfsemi ? Um það er fjallað á sama stað og stund í Morgunblaðinu í viðtali við Vífil Karlsson, hagfræðing hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, undir fyrirsögninni:
"Hugað verði að eldsneytisöryggi":
"Áætlað er, að stofnkostnaður verksmiðju, sem gæti framleitt 5000 t af lífdísli á ári, verði um 500 MISK. Samkvæmt viðskiptaáætlun, sem Ólöf Guðmundsdóttir, ráðgjafi, og Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafa gert fyrir Samgöngustofu, myndi verksmiðjan skila 15 % hagnaði m.v. gefnar forsendur."
Þetta er ágætis arðsemi fyrir verksmiðju af þessu tagi, og tífalt stærri verksmiðja, sem henta mundi vel innanlandsmarkaði, ætti að verða enn arðsamari vegna meiri framleiðni. Gylfi Árnason hefur hins vegar orð á því í téðu viðtali, að hagkvæmni olíuframleiðslu úr repju sé tvísýn hérlendis m.v. núverandi verð á jarðefnaeldsneyti, en hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu mundi breyta stöðunni.
Blekbóndi hefur lauslega reiknað út heildarframleiðslukostnað og heildartekjur 50 kt/ár repjuolíuverksmiðju og fundið út, að m.v. jarðolíuverð (crude oil) 55 USD/tunnu og koltvíildisskatt 30 EUR/tonn CO2 (=3600 ISK/t olíu), þá stendur reksturinn í járnum. Það er þess vegna áhugavert fyrir hagsmunaaðila að safna saman meiri upplýsingum um þetta verkefni og reikna hagkvæmnina nákvæmar.
Slíka verksmiðju væri kjörið að staðsetja í Húnavatnssýslu við hafnaraðstöðu, því að beggja vegna við sýsluna eru öflugir útgerðarstaðir og útgerðir yrðu líklega aðalviðskiptavinirnir. Repjan kæmi hvaðanæva að af landinu, og raforkan kæmi eftir jarðstreng frá næstu aðveitustöð. Vegna nálægðarinnar við Blönduvirkjun, ætti Byggðalínan að vera aflögufær á þessu svæði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)