30.4.2014 | 18:45
Váboðar í Evrópu
Framferði Rússa í Úkraínu er með eindæmum. Kremlverjar sendu dulbúnar, vopnaðar sveitir til Krímskagans, tóku völdin þar, héldu ólöglegar kosningar og lýstu Krímskagann síðan hluta af Rússlandi.
Einu gildir, þó að Krímskaginn hafi áður verið hluti Rússlands og Vladimir 1. , Rússakeisari, hafi verið að sniglast þar. Vladimir Putin á ekki að komast upp með ofbeldi gagnvart nágrannaríkjum undir neinum kringumstæðum.
Hvers konar fordæmi er hann eiginlega að gefa í Evrópu ? Ef Þjóðverjar o.fl. færu nú á flot með sams konar hundalógík, þá mundi brjótast út styrjöld í Evrópu í 3. sinn á 100 árum. Putin verður að gera afturreka, og þá dugar varla að setja hann og meðreiðarsveinana á "svartan lista". Sennilega dugar ekkert minna en efnahagslegur hernaður gegn Rússlandi og jafnvel nethernaður.
Rússar hafa sent sérsveitir til héraða í Austur-Úkraínu, sem þeir telja hliðholl sér, tekið lögreglustöðvar, æst til uppþota og reynt að skapa glundroða í Úkraínu til að eyðileggja komandi forsetakosningar þar og e.t.v. til að skapa sér átyllu til að ráðast með landher sínum og flugher inn í Úkraínu með svipuðum hætti og Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 til að koma Þjóðverjum innan Póllands til hjálpar. Rússar bölsótast yfir aðgerðum stjórnarinnar í Kænugarði, sem reynir að ná opinberum byggingum og embættum á sitt vald og binda þannig enda á þá lögleysu, sem nú viðgengst í Úkraínu, og Kremlarstjórnin ber ábyrgð á.
Sagan endurtekur sig í sífellu. Kennisetning valdhafa Þriðja ríkisins (1933-1945) var, að allir þýzkumælandi menn ættu siðferðilegan rétt á að búa í einu ríki, Stór-Þýzkalandi, þjóðernisjafnaðarmanna. Á þeim grundvelli var Austurríki tengt Þýzkalandi (Anschluss), Súdetahéruðin og síðan öll Tékkóslavakía innlimuð, og Heimsstyrjöldin síðari hófst 1. september 1939 með því að opna átti leiðina á milli Þýzkalands og Danzig (nú Gydansk) í Póllandi, sem var þýzk. Til að róa Rússa var gerður við þá griðasáttmáli 10 sólarhringum áður og Póllandi skipt á milli Þýzkalands og Rússlands. Vonandi er ekki annar griðasáttmáli í vændum, en undanlátssemi Þjóðverja við Rússa er tekin að ofbjóða mörgum.
Þar sem Þýzkaland er forysturíki Evrópusambandsins, ESB, má segja, að enn standi átökin um Austur-Evrópu á milli Þýzkalands og Rússlands. Nú er hins vegar jafnaðarmaður utanríkisráðherra Þýzkalands og finnst mörgum gæta óþarfa linkindar hjá honum í garð Rússa, þ.á.m. þeim, sem ábyrgzt hafa landamæri Úkraínu, Bretum og Bandaríkjamönnum. Putin spilar á óeiningu Vesturlanda. Hann á ekki að komast upp með slíkt.
Nú er spurningin, hvort Úkraínu verður skipt á milli Evrópusambandsins (ESB) og Rússlands ? Framferði Rússa nú árið 2014 minnir um margt á framferði Þjóðverja á dögum Þriðja ríkisins. Vladimir Putin, sem augljóslega er haldinn mikilmennskubrjálæði, hefur lýst því yfir, að allir Rússar eigi rétt á því að búa undir rússneskum verndarvæng og hann muni vinna að því, að svo verði á sínum valdaferli.
Þetta er með algerum endemum, og Vesturveldin verða að setja upp í sig tennurnar strax og Vesturlandamenn að vona, að einhverjar vígtennur séu þar á meðal. Í Evrópu er fátt um fína drætti í þeim efnum, en NATO undir forystu Bandaríkjanna (BNA) verður þar að koma til skjalanna.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er; í þessu máli hefur ESB rétt einu sinni orðið sér til skammar, þegar á herti. Þar er hver höndin upp á móti annarri, svo að viðbrögð Vesturveldanna eru friðkaup enn sem komið er, þó að Bretar og Bandaríkjamenn, sem ábyrgðust landamæri Úkraínu fyrir 20 árum, hafi talað fyrir harðari aðgerðum. Þetta viðurkennir hinn stæki ESB-sinni, Joschka Fischer, græningi og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands í góðri grein, "Þáttur Evrópu í harmleik Úkraínu", sem Morgunblaðið birti 29. apríl 2014. Joschka kvað Kremlverja nú beita "spægipylsuaðferðinni á Úkraínu, og um forysturíki ESB, Þýzkaland, hafði hann þetta að skrifa:
"Það hefur aðallega verið Þýzkaland, sem hefur streitzt gegn því að samþætta orku-og jarðgasmarkað Evrópu. Eftir harmleikinn í Úkraínu getur enginn í Berlin varið þessa afstöðu, sér í lagi í ljósi þess, að leiðtogar Þýzkalands vilja ekki beita Rússa refsiaðgerðum. Það verður ekki lengur neitt rými til afsakana um, hvers vegna ætti ekki að koma á orkusambandi."
Málið er, að efnahag Rússlands hnignar, vinsældir Putins voru í rénun, enda búinn að vera lengi við völd og mikið spillingarfargan í kringum hann. Hann sá sér færi á að setja hefðbundna útþenslustefnu Rússlands á dagskrá sér til framdráttar, þegar byltingin gegn Janukovich, leppi Rússa, var gerð í Kænugarði í vetur. Rússland stendur á brauðfótum, fámennisauðvald hefur tögl og hagldir, en almenningur lepur dauðann úr skel og huggar sig með bokkunni. Drykkjuskapur er að gera út af við Rússland, meðalaldur fer lækkandi, og Rússum fækkar.
Rússland státar ekki af innri styrk Þriðja ríkisins, þar sem valdhafarnir hættu strax við valdatökuna 30. janúar 1933 að greiða sigurvegurum Fyrri heimsstyrjaldarinnar stríðsskaðabætur og beindu þess í stað fénu í fjárfestingar í innviðum Þýzkalands og hlutu vinsældir fyrir. Þjóðverjum fjölgaði hratt í Weimarlýðveldinu og fram að Síðari heimsstyrjöld, og þeir tóku forystu í tækniþróun og iðnaðarframleiðslu, sem á dögum Þriðja ríkisins var reyndar beint að vígbúnaði.
Það var að vísu þannig, að í febrúar 1942, þegar Albert Speer tók við embætti vígbúnaðarráðherra, nam hergagnaframleiðsla Þjóðverja aðeins fjórðungi þess, sem hún var í hámarki Fyrri heimsstyrjaldarinnar í tonnum talið hjá keisaranum. Þjóðverjar voru í raun vanbúnir til stórátaka 1939. Albert Speer þrefaldaði framleiðsluna á skömmum tíma með aðeins þriðjungs aukningu mannafla.
Ekkert slíkt öflugt framleiðslukerfi er fyrir hendi í Rússlandi. Ef dregið verður kerfisbundið úr viðskiptum við Rússa á öllum sviðum, munu ólígarkarnir velta valdhöfunum í Kreml úr sessi. Rússland stendur á brauðfótum, en hættan er sú, að kalda stríðið fari úr böndunum og verði heitt, sem gæti leitt til tortímingar.
Eins og fram kemur hér að ofan hjá Joschka Fischer, bera Þjóðverjar taugar til Rússa, en sömu sögu er ekki að segja um Pólverja, sem enn muna hryðjuverkin í Katyn-skógi. Joschka Fischer skrifaði eftirfarandi í téðri grein:
"Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur lagt fram réttu leiðina hérna; snögga stofnun orkusambands Evrópu, þar sem byrjað yrði á markaðinum fyrir jarðgas með sameiginlegri stefnu út á við og sameiginlegri verðskrá. Þetta skref ásamt frekari greiningu á þeim ríkjum, sem leggja til orkuna, og tækniframförum í þá átt að koma á fót endurnýjanlegum orkugjöfum, mundu snúa við valdataflinu á milli Kremlar og Evrópusambandsins, sem er mikilvægasti viðskiptavinur Rússlands, þegar kemur að olíu og jarðgasi."
Það er lítill vafi á því, að samtaka Vesturlönd geta knúið Rússa til uppgjafar í efnahagslegu og fjármálalegu stríði. Strax þarf að hefjast handa með vinnslu jarðgass í Evrópu með "sundrunaraðferðinni" (e. fracking), sem gefizt hefur vel í BNA og Kanada, þannig að þessi lönd eru að verða sjálfum sér næg með jarðefnaeldsneyti, og gasverð þar hefur lækkað um 2/3 og raforkuverð um 1/3 ffyrir vikið. Á meðan þessi þróun á sér stað þarf að frysta innistæður Rússa, hvar sem til þeirra næst, og draga úr viðskiptunum við þá.
Það, sem ekki tókst við Stalingrad veturinn 1943, þar sem 6. her von Paulus, 265 000 manns, var umkringdur, galt afhroð og gafst upp 31. janúar 1943, og við Kursk sumarið 1943, þar sem Wehrmacht og Rauði herinn háðu mestu skriðdrekaorrustu sögunnar, verður unnt án blóðsúthellinga með samstilltu átaki Þýzkalands, Bretlands og Bandaríkjanna, þ.e. að koma Rússlandi á kné, en þó aðeins, ef Berlín þekkir sinn vitjunartíma, eins og Joschka Fischer bendir á.
Bloggar | Breytt 1.5.2014 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2014 | 13:05
Flugkennsla á faraldsfæti ?
Það er fáheyrt ábyrgðarleysi og helber ósvífni að hálfu borgarstjórnarmeirihlutans að setja nám æskufólks, sem sérhæfa vill sig á sviði flugsins, í uppnám með því annars vegar að reka alla, sem aðstöðu hafa í Fluggörðum, sem er á borgarlandi, út á Guð og gaddinn, og hins vegar að þrengja að Reykjavíkurflugvelli, á ríkislandi, með óbilgjörnum hætti þar til hann verður órekstrarhæfur, og loka verður honum vegna skorts á áreiðanleika, fyrir kennsluflugi og öllu öðru flugi, enda ætlar Björt framtíð, Samfylking og Vinstri grænir að sprengja upp núverandi mannvirki, keyra burtu til hreinsunar gríðarlegu magni af menguðum jarðvegi, leggja götur og allar nauðsynlegar lagnir fyrir lóðirnar, sem ekki munu nú verða af ódýrara taginu.
"Við teljum ekki raunhæft að byggja upp kennsluflugið á Selfossi. Fjarlægðin frá höfuðborginni veikir starfsemina þar", sagði Matthías Sveinbjörnsson, formaður Flugmálafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014 undir fyrirsögninni "Aðstaðan stenst ekki skilyrði".
Matthías kvað margar ástæður vera fyrir því, að bezt sé að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram sem miðstöð flugmennta á Íslandi. Flugkennslan verði að fara fram í stjórnuðu loftrými, sem þýði, að fyrir hendi séu blindflugsbúnaður, flugturn og flugumferðarstjórar að störfum.
Þótt kennsluvélarnar yrðu færðar til Selfoss, kvað Matthías umferð á Reykjavíkurflugvelli lítið minnka við það, því að þangað yrðu nemar að leita til að læra við þessar stýrðu aðstæður. Ef vel á að vera, þurfi nemendur að búa í grennd við kennsluflugvöllinn, því að verklega kennslan sé veðurháð.
Allir hljóta að skilja, hversu flugið skipar mikilvægan sess í samgöngumálum Íslands bæði vegna legu landsins og þess, að á landinu eru engar járnbrautarsamgöngur. Af eðlilegum ástæðum eru Íslendingar flugþjóð. Einkaflugmenn á Íslandi eru þrefalt fleiri en í Bandaríkjunum á hvern íbúa, atvinnuflugmenn 3,7 sinnum fleiri og svifflugmenn 4,2 sinnum fleiri. Árið 2010 stóð flugrekstur undir 6,6 % af landsframleiðslu og 9200 störfum. Þessar stærðir hafa vaxið á tímabilinu 2011-2014 og munu enn fara vaxandi, ef forræðishyggjusinnaðir stjórnmálamenn fá ekki tækifæri til að setja sand í tannhjólin.
Árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í loftferðaþjónustu var 70 % meiri en meðalstarfsmanns á Íslandi samkvæmt upplýsingum Matthíasar Sveinbjörnssonar í Morgunblaðinu 15. aðríl 2014.
Það er kominn tími til þess fyrir S. Björn og Dag að átta sig á því, að flugkennslan myndar hornstein þessara mikilvægu innviða landsins. Það er samt ástæða til að óttast, að þeir kumpánar, sem nú ryðjast fram með nýtt aðalskipulag, þar sem Reykjavíkurflugvöllur hverfur af kortinu árið 2022 og með kynningu á hverfaskipulagi í Vesturbænum, sem er endurskoðað deiliskipulag, þar sem freklega á að ganga á eignarrétt íbúanna með því að byggja íbúðarhús, þar sem nú eru bílastæði, bílskýli eða bílskúrar. Það verður stríðsástand í Vesturbænum, ef þröngsýn og fáfróð borgaryfirvöld keyra þessa stefnu á framkvæmdastig.
Fyrir hvern er eiginlega þessi þétting byggðar ? Fyrir skipulagsviðvaninga og sérvitringa, sem gleypa skipulagsklisjur erlendis frá hráar, þar sem skortur er á landrými. Að nýta hvern óbyggðan blett undir byggingar er að níðast á íbúum, sem þar eignuðust íbúðir í þeirri góðu trú, að "lífsrýmið" héldist nokkurn veginn óbreytt. Þétting byggðar skerðir lífsgæði fólks. Um það er engum blöðum að fletta. Að fækka bílastæðum er liður í þéttingu byggðar, því að fólk borgarstjórnarmeirihlutinn og Sóley Tómasdóttir ímynda sér, að með því muni þau minnka útblástur frá bifreiðum. Þau ætla að vekja kaupmanninn á horninu upp frá dauðum og breyta Vatnsmýrinni í byggingarland. Þessi hugmyndafræði er byggð á sandi. Bílum mun ekki fækka, og fólk mun kjósa að verzla, þar sem vöruval er mikið og vöruverð hagstætt. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður eykst aukamagn eldsneytis í flugvélum að og frá landinu um allt að 10 t, sem hafa mun í för með sér mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun út í andrúmsloftið á hvern farþega. Í heild yrði lokun Reykjavíkurflugvallar ein sóðalegasta aðgerð í umhverfisverndarlegu tilliti, sem hugsazt getur. Fáfræði forræðishyggjunnar kemur þannig almenningi illilega í koll, eins og fyrri daginn.
Fólki er lífsnauðsynlegt að hafa græna bletti innan byggðar sem útivistarsvæði. Slíkt minnkar þörf á akstri langar leiðir til að njóta útiveru. Íslendingar verða að geta ferðazt um á bílum vegna veðurfars og flutninga á börnum sínum í gæzlu, skóla eða frístundastarf. Þétting byggðar og fækkun bíla gengur ekki upp í raunveruleikanum, en lítur þokkalega út á blaði, ef þarfir mannsins eru teknar út fyrir sviga og þeim eytt að hætti sameignarsinna.
Valur Stefánsson skrifaði góða grein í Morgunblaðið, 25. apríl 2014, "Eru flugnemar annars flokks nemar ?". Hann greinir þar frá því, að í Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll er grasrót almannaflugs á Íslandi, sem er flugkennsla, æfinga- og einkaflug. Þetta sé 8 ha svæði með yfir 80 flugvélum og 500-600 flugnemum. Reykjavíkurborg ætti að hýsa slíka starfsemi með myndarbrag og stolti í stað þess að vera eins og naut í flagi og reka í hana hornin.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, hefur upplýst, að fjöldi íslenzkra og erlendra flugnema í bóklegu einkaflugmannsnámi og atvinnuflugnámi, í verklegu námi auk nema í flugkennaranámi, blindflugsnámi, áhafnasamstarfi, sérþjálfun á tilteknar flugvélagerðir, flugvirkjun og flugumferðarstjórn, sé alls 612 hjá Flugskóla Íslands og Flugfélaginu Geirfugli, stærstu flugskólunum á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt nýju deiliskipulagsdrögunum á að úthýsa þessu öllu og byggja í staðinn kennsluaðstöðu fyrir nemendur í Háskóla Íslands. Þessi aðför að flugkennslu vitnar um hroðalega grunnfærnisleg áform í skipulagsmálum og hreinan yfirgang og átroðslu yfirvalda Reykjavíkurborgar gagnvart "grasrót almannaflugs á Íslandi". Hneykslanlegt athæfi !
Sér til málsbóta hafði S. Björn Blöndal, arftaki og hvíslari Gnarrs, að hann hélt, að flugkennsla færi að mestu fram erlendis, upplýsti Valur Stefánsson, formaður Félags íslenskra einkaflugmanna, í téðri grein. Er fáfræði gild afsökun fyrir stjórnmálamann í valdaaðstöðu ? Nei, og það er engin afsökun til fyrir því að kjósa slíkt fólk til valda. Slíkt fólk á alls ekki að véla um almannahagsmuni. Það getur borað upp í nefið á sér á eigin bleðli og á ekki að kássast upp á annarra manna jússur, eins og þar stendur.
Allt ber að sama brunni. Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur opinberað sig óhæfan til að stjórna borginni. Hann hefur gert sig sekan um glapræði í skipulagsmálum, hunzun á 75 000 manna undirskriftasöfnun án nokkurra skýringa og þar með lýst frati á lýðræðið, orðið uppvís að slæmri framkomu við foreldra vegna sameiningar skóla og sett á ruglingslegar breytingar á stjórnkerfi borgarinnar, þannig að of margar silkihúfur vísa erindisleitendum hver á aðra með gríðarlegum töfum á afgreiðslu sem afleiðingu miðað við það, sem áður var. Nú er hún Snorrabúð stekkur, og borgarstjórinn hefur auðvitað ekki verið til viðtals lengi, enda fullt starf að hafa reiður á fataskápinum og ákveða klæðnað fyrir næstu uppákomu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2014 | 14:04
Flugvöllur í fári
Sú einstæða staða er uppi í samgöngumálum landsins, að borgaryfirvöld þrengja stöðugt að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni, heimta lokun bráðnauðsynlegrar SV-NA flugbrautar hið snarasta og lokun Fluggarða, þar sem kjarnastarfsemi flugsins fer fram. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ganga til borgarstjórnarkosninganna nú í vor undir gunnfána íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni í stað flugvallar og flugvallarstarfsemi. Mörgum finnst ekki heil brú í því, og þeir eiga að veita óánægju sinni farveg í komandi borgarstjórnarkosningum með því að kjósa aðra flokka, sem telja, að varðveita eigi og efla Reykjavíkurflugvöll, þar sem hann er.
Þetta er með öllu óskiljanlegt viðhorf til gríðarlega mikilvægrar starfsemi í borginni, að hún verði hvað sem það kostar að víkja fyrir nýrri byggð, enda er nú svo komið, loksins, að aðrir stjórnmálaflokkar eru að taka við sér í þessu máli. Betra er seint en aldrei. Nú ættu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Dögun að skera upp herör í borginni og hinir tveir fyrst nefndu að láta kné fylgja kviði á Alþingi með löngu tímabærri lagasetningu, sem tryggir Reykjavíkurflugvelli öruggan starfsgrundvöll, svo að þar geti hafizt sómasamleg uppbygging.
Þegar er nóg að gert og meir en nógu fé sóað í "leit" að nýju flugvallarstæði. Jafngott land og Vatnsmýrin frá flugtæknilegu sjónarmiði hefur ekki fundizt þrátt fyrir áratuga "leit", og nýr flugvöllur gæti kostað 30-50 milljarða kr með öllum sínum mannvirkjum og tækjum. Það má líta á þann kostnað sem stofnkostnað nýs byggingarlands, og er þá ekki búið að stinga skóflu í jörðu. Er glóra í slíku ráðslagi ? Já, ef ekkert annað byggingarland væri fyrir hendi, en í raunveruleikanum nei, því að annars staðar er meira en nóg byggingarland, einnig innan marka Reykjavíkur. Það er enginn staður jafnvel í sveit settur, m.t.t. þeirrar byggðar og þjónustu, sem farþegarnir þurfa á að halda, og Vatnsmýrin. Flutningur flugvallarins innan höfuðborgarsvæðisins er þess vegna algerlega óraunhæfur kostur.
Það segir nokkra sögu í þessum efnum, að í meira en 300 stórum borgum heimsins eru flugvellir. Það kemst enginn upp með lokun á þessum flugvöllum, þó að minnihlutahópar nöldri, vegna mikilvægis þeirra fyrir samgöngukerfið og öryggismálin. Segja má, að flugöryggi á Íslandi standi nú um stundir mest ógn af lokun Reykjavíkurflugvallar. Þetta er staða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu um háa herrans tíð, og þó víðar væri leitað, að því er bezt er vitað.
Hörður Guðmundsson, stofnandi flugfélagsins Arna, sagði frá því í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014, að þegar þeir flygju með sjúklinga til Stokkhólms, væru þeir beðnir um að lenda á Bromma-flugvelli inni í borginni, af því að þaðan er stytzt á sjúkrahúsið. Dagur, læknir, sem nú elur með sér drauma um að taka við stöðu borgarstjóra af Gnarrinu eftir komandi kosningar, deilir ekki svipuðum skoðunum með starfsbræðrum sínum í Stokkhólmi fyrir hönd sjúklinga, sem flogið er með til aðgerða í höfuðborg Íslands. Nei, þar ráða ferðinni einkennileg sjónarmið um byggingarskipulag í Reykjavík, sem útheimti þétta byggð í Vatnsmýrinni, og þess vegna verði flugvöllurinn að víkja. Það er ekki öll vitleysan eins. Hvað skyldi þurfa að vera mikilvæg starfsemi í Vatnsmýrinni, svo að hún fengi frið fyrir skipuleggjendum íbúðabyggðar í höfuðborginni ?
Í áðurnefndu viðtali sagði Hörður Guðmundsson ennfremur:
"Reykjavíkurborg þarf að gefa út yfirlýsingu, eins og gert var í Bromma, um, að flugvöllurinn verði hér til næstu 30 ára. Við, sem rekum þjónustu við byggðir landsins, þurfum að vita til næstu 30 ára, hvað er í gangi. Bæði við og Flugfélag Íslands erum með áætlunarflug um allt land. Það er erfitt að byggja upp, ef við vitum ekki, hvað verður á morgun."
Þetta er hverju orði sannara, en slík yfirlýsing úr Ráðhúsinu við Tjörnina er ekki nóg, heldur þarf traustan lagaramma um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Yfirlýsingar stjórnmálamanna í Reykjavík duga ekki. Alþingi og landsstjórnin verða að taka af skarið í þessum efnum.
Margir flugfarþegar hafa furðað sig, hversu óveður og slæmt skyggni á Keflavíkurflugvelli virðist hafa lítil áhrif á áætlun um flugtök. Ein skýringin á þessu er staðsetning og oftast betri veðurskilyrð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, sem er einn af varaflugvöllum Keflavíkurflugvallar. Um þetta sagði Sölvi Axelsson, flugstjóri hjá EVA Air, í Morgunblaðsviðtali, 12. apríl 2014:
"Eitthvað getur farið úrskeiðis í flugtaki, og þá verður að vera hægt að lenda flugvélinni fljótlega aftur. Sé um tveggja hreyfla flugvél að ræða, er almenna reglan sú, að það taki minna en eina klukkustund að fljúga á flugtaksvaraflugvöllinn á öðrum hreyflinum. Aðflugshorn að Akureyrarflugvelli er yfir þeim mörkum, sem yfirleitt er miðað við um flugtaksvaravelli. Til að mega nota sjálfan flugtaksvöllinn sem flugtaksvaravöll eru almennt gerðar kröfur um lágmarksskyggni upp á 1600 m. Ef Reykjavíkurvöllur verður ekki lengur til vara, mun þetta geta valdið því, að seinka þurfi brottförum frá Keflavík, sé skyggnið ekki nógu gott, þar til það batnar. Því er viðbúið, að falli Reykjavíkurflugvöllur út, verði seinkanir á brottförum flugvéla frá Keflavík algengari en nú er með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir farþega."
Það má telja víst, að hið gríðarlega óhagræði, sem felst í því fyrir millilandaflugið að missa Reykjavíkurflugvöll og dæmi er nefnt um hér að ofan, muni leiða til hækkunar á flugfargjöldum og minnka samkeppnihæfni flugs, sem stundað er út frá Keflavíkurflugvelli, af því að það verður dýrara og óáreiðanlegra.
Þá hefur verið sýnt fram á kostnaðarauka af ferðalögum innanlands upp á um 7 milljarða kr á ári, verði Reykjavíkurvöllur aflagður, sem er lágmark. Aukin hætta, kostnaður, óhagræði farþega og verri þjónusta sjúkraflugs vega margfalt þyngra á metaskálunum en þétting byggðar í Reykjavík. Byggð í Vatnsmýri verður alltaf dýr, og þess vegna ekki sérlega fýsilegur íbúðakostur. Þá orkar það mjög tvímælis, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, frá skipulagslegu sjónarmiði séð, að gera ráð fyrir meira en 5000 manna byggð á slíku láglendi sem Vatnsmýrin er, nú á tímum hækkandi sjávarstöðu við landið, eins og bent hefur verið á. Það ber allt að sama brunni með borgaryfirvöldin; þau fórna öryggi borgaranna fyrir ímyndaða stundarhagsmuni. Það verður að taka af þeim ráðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2014 | 13:55
Flug í háska
Þegar sótt er að innviðum landsins, er nauðsynlegt að grípa til varna og hefja gagnsókn, ef kostur er. Til innviða má telja samgönguleiðirnar, vegi, hafnir og flugvelli ásamt raforkukerfinu, t.d. raforkuflutningsmannvirkin, og er þá fátt eitt upp talið.
Um flesta þessa þætti gildir, að þeir eru í herkví skipulagsvalds í höndum sveitarstjórna, þó að um þjóðveg 1, landshafnir, varaflugvelli millilandaflugsins og flutningslínur á 132 kV spennu og hærri, gildi eindregið, að þau hafa svo mikið þjóðhagslegt gildi, að eðlilegast er að færa skipulagsvald þeirra úr höndum sveitarstjórna og til ríkisins, enda er sá háttur á hafður víða erlendis. Ella er hætta á því, að við mat á skipulagskostum verði meiri hagsmunir, þ.e. þjóðarhagsmunir, látnir víkja fyrir minni hagsmunum, þ.e. meintum hagsmunum viðkomandi sveitarfélags, þar sem mannvirkið er staðsett eða opinber aðili leggur til að staðsetja það. Hagsmunir sveitarfélags, eins og meirihluti viðkomandi sveitarfélags metur þá, kunna að stangast á við hagsmuni landsins, eins og meirihluti þjóðarinnar metur þá.
Einmitt þannig háttar til með Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, að meirihluti borgarstjórnarinnar saumar með óbilgjörnum og hættulegum hætti að starfseminni og stefnir að því að gera flugvöllinn órekstrarhæfan, svo að starfsemi hans lamist og leggist síðan af, og borgin geti þá breytt flugvellinum í byggingarland.
Þegar litið er til þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem hér eru í húfi fyrir heildina, er þessi þróun mála líklega einsdæmi hérlendis og vandfundin sambærileg dæmi erlendis frá, þar sem jafnmiklir þjóðarhagsmunir hafi verið eða séu í húfi, enda er skipulagsmálum víða þannig fyrir komið, að önnur eins staða og hér er uppi, getur ekki komið upp. Alþingi verður að höggva á hnútinn með lagabót í þessum efnum.
Mesta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar til stuðnings óbreyttri starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem 75 þúsund manns lýstu yfir stuðningi við starfsemina, fór fram ekki alls fyrir löngu. Trúlega styður meirihluti Reykvíkinga veru flugvallarins áfram, og þessu fólki býðst gullið tækifæri til að sýna hug sinn í verki með því að hafna þeim stjórnmálaflokkum í borgarstjórnarkosningunum í maí 2014, sem staðið hafa að lúalegum árásum, hreinni aðför að flugvallarstarfseminni með það að markmiði að svæla hana burt.
Nú háttar þannig til, að hvort sem menn staðsetja sig á hægri eða á vinstri væng stjórnmálanna, geta þeir stutt flugvöllinn með því að kjósa til hægri eða vinstri. Hér skal ekki draga dul á, að ágreiningur sé í röðum þeirra flokka, sem hér er átt við, um flugvallarmálið, en þó er það þannig, að forystumenn á listum Sjálfstæðisflokksins og Dögunar eru stuðningsmenn flugvallarins, en forystumenn á listum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa allir staðið að aðför gegn Reykjavíkurflugvelli.
Það er búið að gera ítarlega grein fyrir því, hvers vegna á að láta Reykjavíkurflugvöll í friði með sínar 3 flugbrautir. Verði sú stutta, NA-SV, aflögð, rýrnar notagildi vallarins umtalsvert, og hætta á slysum í miklum hliðarvindi eykst.
Ekki þarf að tíunda mikilvægi flugvallarins fyrir sjúkraflugið, en hann getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða í mörgum tilvikum á ári hverju. Þyrlur geta ekki leyst vængjað sjúkraflug af hólmi, og þær geta ekki lent í mjög litlu skyggni, sem iðulega þarf að gera í Keflavík. Þyrlurnar þurfa aðflugstæki, sem eru fyrir hendi á Reykjavíkurflugvelli. Verði honum lokað, komast þyrlurnar ekki að sjúkrahúsunum í slæmu veðri.
Vængjuð sjúkraflug eru ekki færri en 500 á ári utan af landi til Reykjavíkur. U.þ.b. helmingur þeirra eru forgangsútköll, og yfir 200 eru bráðatilvik. Þá er verið í kapphlaupi við tímann. Að meðaltali getur lokun Reykjavíkurflugvallar þýtt 1,5 klst lengingu á flutningstíma sjúklings, og menn geta ímyndað sér aukið álag á umferðina á Reykjanesbraut, m.a. vegna 300 tilvika um forgangsakstur í misjöfnum veðrum og um þá flöskuhálsa, sem enn eru á þessari leið að sjúkrahúsunum. Það þarf ekki að tíunda hættuna í flutningi frekar, sem hundruða sjúklinga verður búin á hverju ári til viðbótar við núverandi áhættu. Lokun Reykjavíkurflugvallar mundi setja sjúkraflugið í algert uppnám. Enginn stjórnmálamaður getur axlað þá ábyrgð. Samt berst læknirinn Dagur fyrir eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar með oddi og egg. Þessi lokun hefur svo örlagaríkar afleiðingar, að þjóðaratkvæðagreiðsla kemur vel til greina til að taka af skarið um framtíð flugvallarins. Til að spara fé gæti hún verið rafræn.
Kostnaðaraukinn fyrir innanlandsflugið og millilandaflugið af því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og að missa Reykjavíkurflugvöll sem varavöll er feiknarlegur og margfaldur á við ávinning byggðar í Vatnsmýrinni. Á hverjum halda menn, að sá kostnaðarauki lendi ? Það er ekki nóg með það, heldur mun flugvallarleysi í Reykjavík hreinlega koma niður á samkeppnihæfni landsins, eins og gerð verður grein fyrir.
Í 19 sæta flugvélum innanlandsflugsins mundi þurfa að fækka sætum um 3-4 í hverri ferð eða allt að 21 % vegna meiri eldsneytisþarfar til varaflugvallar fyrir norðan eða austan. Til þess að fá sömu tekjur þarf að hækka farmiðann um 27 % og vegna lengra flugs frá Keflavík til allra áfangastaða þarf 5 % til viðbótar eða 32 % hækkun kostnaðar per flugsæti hið minnsta. Þetta auk ferðatímalengingar um 1,5 klst aðra leið telur Hörður Guðmundsson hjá Örnum, að muni kodda innanlandsfluginu, sem nú keppir við einkabíl, rútur og ferjur.
Hann segir, að Ernir hafi árið 2012 flutt tæplega 40 000 farþega. Hann kveður ríkið hafa fengið kr 7 713 af hverjum farmiða á formi ýmissa skatta, sem hafi verið um helmingur af farmiðaverðinu. Þetta gæti þýtt, að meðalmiðaverðið færi í 20 000 kr, sem er hækkun um kr 4600. Ríkið hirðir þannig um 300 milljónir kr af flugfarþegum Arna yfir árið. Kæmi til greina í sáttaskyni, að ríkið gæfi smám saman eitthvað eftir af þessum tekjum til borgarinnar ?
Þá er komið að óhagræði, kostnaðarauka og meiri kolefnislosun millilandaflugsins vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar. Millilandaflugið er orðið svo stórt í sniðum, að lokun helzta varaflugvallar þess hefur í för með sér kostnaðarauka og tekjutap, sem nær þjóðhagslegum stærðum og rýrir samkeppnihæfni landsins frá bæjardyrum landsmanna sjálfra, sem vilja bregða sér af bæ, og frá sjónarmiði gestanna, erlendra ferðamanna, sem mjög horfa í kostnað og þægindi, og hafa fjölmarga aðra kosti um að velja.
Í meira en 80 % flugferða er Reykjavíkurflugvöllur varavöllur fyrir þotur Icelandair. Valkostirnir eru Akureyri, Egilsstaðir og Glasgow, sem hafa í för með sér allt að tvöföldun á aukaeldsneyti um borð eða 10 t. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair mun kostnaðarauki og tekjutap fyrirtækisins á þessum áratugi nema um 1,0 milljarði kr á ári m.v. núverandi spá um farþegakm og eldsneytisverð. Að missa Reykjavíkurflugvöll getur fjölgað millilendingum, sem lengir ferð um a.m.k. 1,0 klst og gerir hana miklu dýrari. Kostnaðarauki og tekjutap vegna alls þessa og fækkunar farþega getur þess vegna hæglega numið 2,0 milljörðum kr á ári. Svipaða sögu er að segja um hin flugfélögin, sem fljúga til Keflavíkur, svo að tapið fyrir millilandaflugið gæti hæglega numið 3,0 milljörðum kr á ári.
Einar Dagbjartsson, flugstjóri hjá Icelandair, sagði í viðtali við Morgunblaðið, laugardaginn 12. apríl 2014:
"Mér finnst álíka gáfulegt að ætla sér að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll og að ætla að fylla upp í Reykjavíkurhöfn, af því að það vanti fleiri kaffihús."
Undir þetta er algerlega hægt að taka. Það vantar hvorki byggingarland í Reykjavík né á höfuðborgarsvæðinu sem heild. Þegar Íslandi ríður á að auka samkeppnihæfni sína til að afla meiri gjaldeyris, má ekki rýra hana með því að auka verulega kostnað við eina aðaltekjulind landsins, ferðamannaiðnaðinn, með veikum rökum, sem reist eru á, að væntanlegir íbúar í Vatnsmýri eigi daglega erindi í 101 Reykjavík. Eiga þeir að fara þangað á reiðhjólum ?
Síðast en ekki sízt verður að taka til varna fyrir flugkennsluna í landinu, en miðstöð hennar er í Vatnsmýrinni. Borgaryfirvöld sækja nú með dólgslegum hætti að Fluggörðum og heimta starfsemina þar á brott árið 2015. Þessi framkoma er einsdæmi að hálfu yfirvalda í einni höfuðborg og verður að brjóta á bak aftur. Borgaryfirvöld kasta sprengju á Fluggarða og þar með er flugnám í landinu í algeru uppnámi. Ekki er boðið upp á neina lausn að hálfu borgarinnar frekar en fyrri daginn undir þessum dæmalausu stjórnendum, sem telja sig hafa fullt umboð til að klekkja á einkaframtakinu. Hafa borgaryfirvöld leyfi til að haga sér svona ? Nei, þessi yfirtroðsla er gróf misbeiting valds, siðlaus og gjörsamlega ólíðandi. Hvorki Dagur né S. Björn virðast kunna mannasiði, þegar flugstarfsemi er annars vegar.
Aukin spurn er eftir flugmönnum á Íslandi. Icelandair réð í vetur 30 nýja flugmenn og hafði þá ráðið 58 nýja flugmenn á þremur árum og lítið lát á þessari aukningu. Áhugi fyrir flugnámi er mikill, og allir bekkir í bóklegu námi fullsetnir. Það verður aðeins talið borgaryfirvöldum til glópsku og/eða mannvonzku að taka ímyndaða hagsmuni borgarinnar af íbúabyggð á þessu svæði fram yfir hagsmuni alls þess unga fólks, sem er þarna í krefjandi námi, og fram yfir fyrirtækin, sem eru grundvöllur vaxtarins í ferðamannaiðnaðinum. Núverandi staða mála er óskiljanleg. Eru Rauðu Khmerarnir við völd í Reykjavík ? Það eru alla vega ekki þjónar fólksins, sem með völdin fara í Ráðhúsinu við Tjörnina.
Engu er líkara en ofstækisfull, þröngsýn og illa ígrunduð skoðun skipulagsviðvaninga, jafnvel amatöra, ráði nú aðför minnihlutahóps borgarbúa að flugöryggi í landinu. Sérvitringar um þéttingu byggðar í Reykjavík, helzt í póstnúmeri 101 og þar í grennd, hafa bitið í sig, að íbúabyggð í Vatnsmýrinni muni gjörbreyta Reykjavík til hins betra og að með því að ryðja Reykjavíkurflugvelli úr vegi muni hagur strympu vænkast til muna. Rökin, sem fyrir þessu hafa verið færð, væru ekki einu sinni talin vera gjaldgeng, þar sem skortur er á landrými, hvað þá hérlendis, þar sem mikið landrými og margt ágætlega byggingarhæft, má telja til kosta Íslands umfram mörg önnur lönd.
Alls staðar kunna borgaryfirvöld að meta flugvöll innan borgarmarkanna, nema á Íslandi, þar sem þröngsýnir og ólýðræðislega sinnaðir sérvitringar hafa náð völdum. Vinnubrögð þeirra eru ólýðræðisleg, vegna þess að þeim hafa borizt undirskriftir 75 þúsund manns, sem standa vilja vörð um óskerta og örugga starfsemi á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri, en borgaryfirvöld hafa gefið þeim langt nef og ekki borið við að rökstyðja, hvers vegna hunza á ákall þeirra til borgaryfirvalda.
Málefni Reykjavíkurflugvallar eru málefni ríkisins. Reykjavíkurborg hefur klúðrað tækifærinu, sem henni gafst til að sýna og sanna, að hún stendur undir hlutverki sínu sem höfuðborg Íslands. Ríkið verður að yfirtaka skipulagshlutverkið í Vatnsmýrinni. Þar ber að leiða til öndvegis Flugráð og Skipulagsstofnun ríkisins. Hér sem endranær verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri. Almannaheill og lýðræðisleg stjórnskipan landsins krefst þess. Alþingi á leik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.4.2014 | 13:11
Orkumál í ólestri
Því hefur verið haldið fram og það gagnrýnt hér á þessum vettvangi, að gríðarleg vatnsorka væri ónýtanleg í núverandi raforkukerfi Íslands. Var það rökstutt með því, að mikið vatn rynni óbeizlað til hafs síðsumars eftir fyllingu miðlunarlóna.
Í framhaldi af því kviknaði sú viðskiptahugmynd hjá einhverri mannvitsbrekkunni að stofna til fjárfestinga upp á a.m.k. ISK 500 milljarða til að framleiða og leggja um 1100 km sæstreng á milli Íslands og Skotlands og tengja hann við afriðils- og áriðilsvirki í báða enda til að gera kleift að flytja orkuna í sitt hvora áttina. Er þetta einhver fótalausasta hugmynd, sem sézt hefur í seinni tíð, því að þetta ástand varir í mesta lagi 2 mánuði á ári, enda er þessari umræðu líklega ekki ætlað annað hlutverk en að skapa Landsvirkjun sterkari samningsstöðu um sölu raforku. Með þessari herstjórnarlist geta þau þó aldrei unnið annað en Phyrrosarsigra.
Allir sjá, að nýtingartími svo dýrs mannvirkis í 1400 klst á ári eða 16 % hefur í för með sér bullandi tap á fjárfestingunni. Auðvitað er þá hægt að halda áfram að flytja út rafmagn með því að miðla úr lónunum, en hætt er við, að þau mundu þá iðulega tæmast á Þorra eða Góu þrátt fyrir viðbótar virkjanir. Þá mun víða heyrast hljóð úr horni, þegar þröngt fer að gerast fyrir dyrum hérlendra kotbænda, en erlendir njóta góðs af.
Þeir, sem farið hafa á flot með þessa furðu hugmynd, hafa nefnt flutning á raforku frá Íslandi sem nemur 5000 GWh/a, sem jafngilda 570 MW meðalafli allt árið um kring eða rúmlega tveimur Búrfellsvirkjunum á fullu afli. Þetta er svipuð orka og Landsvirkjun getur nú geymt í miðlunum sínum.
Því er haldið fram, að á ofangreindum 1400 klst, þegar yfirfall varir, sé unnt að framleiða 1650 GWh af raforku, en til þess þarf þá viðbótar aflgetu upp á tæplega 1200 MW, sem er auðvitað fjarri lagi, að sé fyrir hendi, því að allt uppsett vélarafl í vatnsaflsvirkjunum nemur aðeins tæplega 2000 MW. Það er þess vegna alveg áreiðanlegt, að til þess að flytja utan 5000 GWh/a af raforku um sæstreng, mun þurfa að virkja a.m.k. 5000 GWh/a til þess að vega upp á móti töpum í flutningsmannvirkjunum, sem sennilega munu nema a.m.k. 10 %. Hvers vegna sitja náttúruverndarsinnar hljóðir hjá á meðan þessi umræða um stórfelldar línulagnir og virkjanir fer fram ? Er það vegna þess, að þá verða ekki reistar fleiri orkukræfar verksmiðjur á Íslandi ? Spyr sá, sem ekki veit, en sýnist náttúruverndin vera einvörðungu í nösum hávaðaseggja þar til annað kemur í ljós.Téðar mannvitsbrekkur, sem margar hverjar eru á launaskrá hjá opinberum aðilum, hafa kórónað snilli sína, sem minni spámenn hafa ekki náð að fylgja eftir, að hvorki meira né minna en þriðjung þessarar orku (5000 GWh/a) eða 1650 GWh/a þyrfti ekki virkja fyrir afsetningu um sæstrenginn, af því að orkan sú væri hreinlega í kerfinu, en rynni framhjá virkjunum, af því að hvorki miðlunarlónin né íslenzkir notendur raforkunnar næðu að fanga þessa orku. Hér hafa spákaupmenn farið fram úr sjálfum sér, en standa nú berir úti á víðavangi. Samt virðast náttúruverndarsinnar hafa bitið á agnið. Héldu þeir, að orkan yrði send þráðlaust að landtökustað strengsins ?
Það eru engar smáræðis virkjanir og línulagnir, sem þarf fyrir þennan útflutning. Það hefur lítið sem ekki neitt heyrzt í talsmönnum þeirra, sem hafa sett sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum af þessu tagi undanfarin ár og í 5 ár staðið í vegi fyrir bráðnauðsynlegum línulögnum.
Nú er hins vegar svo komið, að vegna mikils vatnsskorts horfir til neyðarástands í íslenzka raforkukerfinu. Það er svo lítill vatnsforði og svo lítil miðlunargeta í orkukerfi landsins, að kerfið stendur ekki einu sinni undir afhendingu forgangsorku. Þetta þýðir, að ekki aðeins athafnalífið líður fyrir stefnu- og framkvæmdaleysi í orkumálum þjóðarinnar, heldur geta almenningsveitur búizt við skerðingum á marga viðskiptavina sinna. Má heita furðulegt, að ekki skuli hafa borizt almennt ákall til almennings frá stærsta vatnsorkufyrirtækinu, Landsvirkjun, um að spara rafmagn. Það mundi nú stinga illilega í stúf við áróðurinn um 1650 GWh/a óbeizlaða orku í virkjuðum fallvötnum. "Keisarinn er ekki í neinu", mundi þá barnið segja.
Það er ljóst, að raforkumálin eru í spennitreyju sérhagsmunaaðila, sem taka í mörgum tilvikum lítið sem ekkert tillit til heildarhagsmuna landsmanna. Þegar samfélagstjónið, sem af þessu ráðslagi leiðir, er farið að skipta milljarðatugum, eins og í ár, hefur slíkt áhrif á landsframleiðsluna, hagvöxtinn og hag hvers einasta manns í landinu. Á þessu verður þess vegna að gera bragarbót.
Nú hafa framkvæmdir til að auka miðlunarrými og flytja orkuna á milli landshluta dregizt úr hömlu, svo að litlu mátti muna í vetur, að grípa þyrfti til orkuskömmtunar til almennings. Stjórnvöld fyrra kjörtímabils töfðu fyrir framkvæmdum sem mest þau máttu, og þrýstihópar s.k. náttúruverndarsinna lágu ekki á liði sínu. Þessir aðilar skáka þó í því skjólinu, að verða aldrei dregnir til ábyrgðar á stórtjóni og hreinu ófremdarástandi, sem skapazt getur vegna orkuskorts.
Þegar skerða þarf forgangsorku árið 2014, er ljóst, að flotið hefur verið að feigðarósi framkvæmdalömunar allt of lengi. Vatnshæð Þórisvatns er í sögulegu lágmarki, og nú dugar ekki að stinga hausnum í sandinn og halda því fram, að um einstætt vatnsár sé að ræða. Vatnsbúskapur af þessu tagi getur nú hæglega endurtekið sig nokkur ár í röð. Það sýnir lág grunnvatnsstaða þar efra. Ef ekkert verður að gert, verður ástandið enn alvarlegra fyrir almenning og athafnalífið, því að álag raforkukerfisins vex jafnt og þétt. Þar sem orkuskorturinn leggst ofan á lágt afurðaverð í stærstu útflutningsgeirunum, sem stafar af offramboði og efnahagslegri ládeyðu, ekki sízt í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á stríð Rússlands gegn nágrönnum sínum, getur þessi grafalvarlega staða hreinlega valdið samdrætti hagkerfisins á Íslandi, þvert ofan í spár um góðan hagvöxt. Ábyrgðarhluti orkufyrirtækjanna á neyðarástandi yrði mikill, og þess vegna er vítavert að eyða enn púðri í ævintýri á borð við sæstreng til Skotlands og vindmyllur.
Þrennt gerir stöðuna í næstu framtíð viðsjárverða:
- Það bólar ekkert á framkvæmdum við nýjar miðlunarframkvæmdir, nema ná á síðustu dropunum úr Þórisvatni með dýpkun útrennslis. Það er örvæntingarfull aðgerð á síðustu stundu. Það bólar heldur ekkert á næstu virkjun eftir Búðarháls á Þjórsár-Tungnaár-svæðinu til að bæta enn vatnsnýtinguna. Hefði orkunotkun stóriðju suð-vestanlands verið, eins og upphaflegar áætlanir hljóðuðu, væri Þórisvatn sennilega orðið tómt núna að öðru óbreyttu. Þá mundu tapast um 400 MW út úr raforkuvinnslukerfinu, sem væri stóráfall (katastrófa) fyrir lifnaðarhætti í landinu og mundi setja efnahagslíf landsins algerlega úr skorðum. Slíkt mundi hafa eyðileggjandi áhrif á fjárfestingaráhuga erlendra sem innlendra fjárfesta og þannig valda stöðnun og hnignun hagkerfisins þar til tækist að brjótast út úr þessum vítahring. Hér skall hurð nærri hælum. Á að stinga hausnum í sandinn ?
- Hálslón fylltist sumarið 2013, en engu að síður hefur afgangsorka til viðskiptavina með samninga um afhendingu á henni verið skert eða algerlega afnumin á Austurlandi. Ekki hefur verið gefin opinber skýring á þessu, sem hátt hafi farið. Hitt er víst, að Landsvirkjun hefur látið nýta takmarkaða flutningsgetu Landsnets til að flytja orku að austan til að forða stórfelldri orkuskömmtun suðvestanlands. Hvers eiga þá Austfirðingar að gjalda, sem búa máttu við raforkuskerðingu á árinu 2013 ? Óstjórn orkumálanna keyrir um þverbak.
- Grunnvatnsstaðan á vatnasviði Þórisvatns er óvenjulág um þessar mundir, sem þýðir, að meira en eitt gott vatnsár þarf til að fylla Þórisvatn. Af þessu sést, að Landsvirkjun og þjóðin öll eru í slæmri stöðu í orkubúskapinum. Framkvæmdir Landsnets hafa verið tafðar í 5 ár, og svipaða sögu er að segja af Landsvirkjun, ef frá er skilin Búðarhálsvirkjun, sem forðað hefur neyðarástandi síðvetrar í ár. Hvað er til ráða ?
Heildarraforkusala Landsvirkjunar árið 2013 nam um 13,2 TWh (terawattstundir, tera = 1000 gíga). Heildarmiðlunargeta fyrirtækisins er um 5,2 TWh/a (terawattstundir á ári). Þetta er aðeins 39 % af af árlegri raforkusölu fyrirtækisins, sem er óviðunandi lágt hlutfall m.v. lengd vetrarveðráttu á Íslandi. Það þarf að ná 50 %, svo að viðunandi orkuafhendingaröryggi verði náð. Með öðrum orðum þarf Landsvirkjun að bæta 1,4 TWh/a við forðabúr sín.
Með Norðlingaölduveitu, sem er mjög hagkvæm framkvæmd, mundi hún ná helminginum af þessari vöntun, þ.e. 0,7 TWh/a, og með virkjun falls úr Hágöngulóni mundi hún ná 0,2 TWh/a. Það, sem á vantar, mundi Landsvirkjun nokkurn veginn fá með minnstu virkjuninni í Neðri-Þjórsá, Holtavirkjun, sem gæfi rúmlega 0,4 TWh/a.
Ný stjórn Landsvirkjunar verður nú að slá undir nára í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi. Það eru auðvitað fleiri kostir fyrir hendi, t.d. gæfu 30 vindmyllur af meðalstærð 500 GWh/a í góðu vindári, en sá kostur og flestir aðrir eru dýrari en þeir, sem nefndir hafa verið. Það er óvíst, að vindmylluleiðin sé fær hérlendis, því að hún dregur ekkert úr losun koltvíildis, hún mun hækka raforkuverð til notenda, og hún mun vafalaust mæta mótbyr s.k. náttúruverndarsinna, ef og þegar kæmi til stykkisins.
Það er brýnt að bregðast skjótt við nýjum aðstæðum í veðurfarinu, því að afleiðingar aðgerðarleysis verða að öllum líkindum rándýrar og skipta milljarðatugum í krónum talið á ári. Það er þess vegna engum blöðum að fletta um arðsemina. Vilji er allt, sem þarf, en hvar er hann ?
Það er ljóst, að Austurland bráðvantar aukna miðlunargetu. Það er auðveldast að afla hennar með 400 kV línu yfir Sprengisand. Ofangreind aukning orkuvinnslugetu mundi þá geta gagnazt Austurlandi einnig, en mikið tjón á formi tapaðra tekna og aukins vinnslukostnaðar hefur hlotizt af orkuskerðingum Landsvirkjunar í landshlutanum tvö ár í röð og hart aðgöngu fyrir fyrirtæki, sem nýlega hafa fjárfest í búnaði til að nýta raforku í stað innflutts eldsneytis.
Sem mótvægi gegn sjónrænum áhrifum háspennulínu frá Sigöldu/Hrauneyjafossi og norður í Eyjafjarðarsýslu/Þingeyjarsýslur ætti að taka í notkun nýja hönnun staurastæða í stað hefðbundinna stálturna og kappkosta, að mannvirkið verði sem minnst áberandi í umhverfinu með nýjustu tækniþróun á þessu sviði, jafnvel með einfasa jarðstrengjum á um 25 km bili, þar sem lína væri talin vera of áberandi.
Á haustþingi 2014 er von á frumvarpi frá ráðuneyti iðnaðar og viðskipta, sem móta á stefnuna varðandi jarðstrengi og loftlínur. Slík stefnumótun hefur þegar farið fram víða erlendis og er löngu tímabær hérlendis, því að jarðstrengir í flutningskerfinu auka flutningskostnaðinn, sem lendir á neytendum. Ágæt sáttaleið er að auka ekki heildarloftlínulengd í landinu frá því sem var t.d. árið 2010. Allar línur á 60 kV spennu og lægri yrðu þá leystar af hólmi með jarðstrengjum, helzt á þessum áratugi, en leggja mætti nýjar loftlínur á 132 kV spennu og hærri að þeim mörkum, að heildarlínulengd í landinu aukist ekki.
Það er svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðarheildina að fá öflugt flutningsmannvirki á milli landshluta, að það verður að gerast. Má einnig nefna öryggisrök þessu til stuðnings, þar sem meginvirkjanir og línur sunnanlands eru á jarðskjálfta- og eldgosasvæði.
Loftslagsbreytingar kunna að vera meðvirkandi þáttur í þurrkum á hálendinu. Það er svo mikið í húfi fyrir hagsmuni almennings og fyrir hagkerfi landsins, að ófullnægjandi er við þessar aðstæður að sitja með hendur í skauti og bíða eftir staðfestingu á því. Þar sem ofangreindar framkvæmdir munu geta forðað stórfelldu efnahagstjóni, eru þær hagkvæmar. Engir almennilegir orkusölusamningar munu nást upp á þau býti, að líkur á afgangsorkuskerðingu verði margfaldar á við það, sem verið hefur, t.d. undanfarin 20 ár, og búast megi við forgangsorkuskerðingu ár eftir ár. Það er verið að gjaldfella íslenzkar orkulindir hrikalega með svo lélegu afhendingaröryggi, enda þarf að leita hliðstæðu til Afríku, þar sem raforkuverð er lægra en hér vegna ófullnægjandi gæða, þ.e. árvissrar skömmtunar. Eigi veldur sá er varir. Hangir það e.t.v. á spýtunni með andstöðu við nánast allar nýjar loftlínur og virkjanir að koma í veg fyrir frekari iðnvæðingu landsins ? Spyr sá, sem ekki veit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2014 | 21:46
Hvað er svona eftirsóknarvert við ESB
Þó að stækkunarteymi Stefáns Füle hafi ómótmælanlega stöðvað inngönguferli Íslands í Evrópusambandið, ESB, í marz 2011, með því að neita alfarið að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál Íslands vegna ósamrýmanlegra skilmála utanríkismálanefndar Alþingis við sjávarútvegsstefnu ESB, þá tyggur samt hver mannvitsbrekkan eftir annarri núna, að íslenzka ríkisstjórnin verði að leiða inngönguferlið til lykta, svo að unnt verði að kjósa um niðurstöðuna. Þetta er svipað og að halda fjölskyldufund og hvetja þar ungling til að sækja um skólavist aftur, þó að honum hafi þar verið hafnað og horfur hans á að ná inn hafi ekkert skánað frá höfnun. Þessi staða er með ólíkindum, og á hana verður að binda endi strax.
Í þokkabót bendir allt til, eins og lesa má út úr bók hins misheppnaða utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, að Frakkar hafi lagzt alfarið gegn stækkun ESB til norðurs og verið þar í forystu fyrir Suður-Evrópu, sem telur Ísland mundu skipa sér í sveit með Þýzkalandi í flokkadráttum innan ríkjasambandsins. Það voru sem sagt "stórpólitískar" hindranir í vegi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem benda til, að tímasetning umsóknarinnar sé kolröng.
Þorsteini Pálssyni, orðuðum við nýjan stjórnmálaflokk á hægri vængnum, og téðum Össuri, mistókst hrapallega í 2 ár að leiða fram sérlausnir með ESB í sjávarútvegsmálum fyrir Ísland. Þess vegna er alveg ljóst, að sópa verður skilyrðum utanríkismálanefndar Alþingis út af borðinu, ef takast á að koma inngönguferlinu af stað aftur. Slíkt er hins vegar ekki á valdi ríkisstjórnarinnar. Það getur Alþingi eitt gert, og þar er eðlilega enginn vilji til þess. Krafa Þorsteins, Össurar, Benedikts Jóhannessonar og félaga um kosningar um framhald eður ei er þess vegna eins ólýðræðisleg og hægt er að hugsa sér miðað við núverandi Stjórnlög landsins. Miðað við ítrekaða höfnun ESB á Íslandi í þessu dæmalausa inngönguferli væri það lítillækkandi fyrir Íslendinga að koma nú á hnjánum og óska eftir meiri tilslökunum að hálfu ESB en sambandið reyndist fúst að veita Össuri. Lítil eru geð guma.
Benedikt kvað á Austurvelli stefnumál nýs flokks verða vestræna samvinnu og frjálsa verzlun. Þegar umbúðirnar hafa verið teknar utan af þessum pakka, kemur í ljós, að innihaldið er innganga í ESB og skilyrðislaus aðlögun að CAP, Common Agricultural Policy, þ.e. að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem sjávarútvegsstefnan er undir. CAP er "acqui", eða það, sem þegar hefur verið ákveðið, og það er óumsemjanlegt.
Það er mjög gott, að aðdáendur ESB komi nú til dyranna, eins og þeir eru klæddir, hætti þvættingi um "pakka", sem ESB bjóði landsmönnum að kíkja í, og játi hreinskilningslega fyrir þjóðinni, að þeir ætli að afhenda framkvæmdarstjórn ESB íslenzkan landbúnað og sjávarútveg á silfurfati til að ráðskast með.
Aðdáendur ESB kalla andstæðinga ESB-umsóknar Íslands "einangrunarsinna". Guð gefi, að við verðum sem mest einangruð frá boðvaldi Berlaymont. Við höfum séð fantatökin í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þar sem ESB beitti sér gegn lánveitingu til Íslands. Við höfum séð fantatökin í Icesave-málinu, þar sem breyta átti Íslandi í Kúbu norðursins, ef Icesave-skuldinni yrði ekki snarað um háls íslenzkra skattborgara, og við höfum séð makalausa meðferð ESB á andstæðingum sínum í deilum um veiðiheimildir á makríl, svo að dæmi séu nefnd.
7. apríl 2014 var skýrsla birt, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ, SA, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands, sem sagt fyrir landssamtök verkalýðsfélaga og auðvaldið í landinu, svo að ekki sé nú skafið utan af því. Einhver mundi nú telja þetta vanheilagt bandalag, enda hefði alveg eins verið hægt að fá fréttamenn á RÚV eða Gróu á Leiti til að pára niður tilvitnanir í fólk á göngum Berlaymont-byggingarinnar, sem ekki er nokkur leið að festa hendur á. Þetta eru arfaslök efnistök við umfjöllun örlagaríks deilumáls í landinu, og ekki virðist örla á sjálfstæðri greiningarvinnu, heldur engu líkara en fréttamenn hafi tekið viðtöl við skýrslukaupendurna. Enginn er nokkru nær með vinnubrögð af þessu tagi. Það er engin viðleitni sýnd til sjálfstæðrar rannsóknar á viðfangsefninu. Þessi skýrsla stendur að þessu leyti langt að baki skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem greint var frá niðurstöðum umtalsverðrar greiningarvinnu, og nýjar mikils verðar upplýsingar komu fram. Sú skýrsla varð mörgum mönnum opinberun á frámunalega slæleg vinnubrögð fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Þorsteins Pálssonar o.fl., og forkastanlegan blekkingarhjúp þeirra yfir stöðu umsóknarinnar, sem ESB stöðvaði í marz 2011 með því að neita að afhenda Össuri og Þorsteini rýniskýrslu sína, þar sem frávik sjávarútvegsstefnu Íslands (Alþingis) og sjávarútvegsstefnu ESB eru væntanlega tíunduð. Á þessu eru aðeins tvær mögulegar skýringar, og útiloka þær ekki hvora aðra:
- Stækkunarteymi ESB mat það svo, réttilega, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB, og þess vegna væri engin leið til að hefja aðlögunarferlið á sjávarútvegssviðinu.
- Framkvæmdastjórn ESB kærði sig ekki um stækkun ríkjasambandsins til norðurs. Í skýrslu HHÍ eru leidd að því rök, að Frakkar hafi verið í forystu þeirra, sem ekki vildu Ísland inn að svo stöddu, enda mundi Ísland líklega leggjast á sveif með Þýzkalandi í átökum innan ESB.
Til staðfestingar á ofangreindri rökleiðslu er eftirfarandi tilkynning frá ESB í desember 2012, sem var rothögg á Össur og Þorstein, enda kastaði Össur hvíta handklæðinu inn í hringinn í janúar 2013 til merkis um fullkomna uppgjöf sína og ríkisstjórnar Jóhönnu í þessu ólukkulega umsóknarferli:
"Ráðherraráð ESB ítrekar, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk ESB við mögulega inngöngu í sambandið."
Þegar þetta er lesið, sést, hversu lítils virði túður Össurar um sérlausnir fyrir Ísland er. Túðrið er aðeins efniviður í blekkingavef hans. Af sama meiði eru fullyrðingar hans og Þorsteins um, að Íslendingar geti leitt aðlögunarferlið til lykta með óbreyttum fyrirmælum frá Alþingi. Það eru ósannindi. Að láta þjóðina kjósa um þetta framhald ferlisins jafngildir þess vegna því að hafa þjóðina að ginningarfífli. Núverandi stjórnvöld geta ómögulega staðið að slíku. Ómerkilegheitin eiga sér engin takmörk. Samt blasir ósigur Össurar við. Keisarinn er ekki í neinu. Skýrsla Hagfræðistofnunar afhjúpaði hann.
Hláleg birtingarmynd þessa guðdómlega gleðileiks Össurar og Þorsteins er stofnun nýs stjórnmálaflokks um vestræna samvinnu og frjáls viðskipti. Auðséð er, að kaupahéðnarnir eru ekki víðs fjarri, og búast má við, að krambúðarholusjónarmið móti stefnu viðrinisins, því að hvað annað en viðrini er hægt að kalla hægri flokk hvers æðsta stefnumál er að hámarka miðstýringarvald búrókratanna í Berlaymont á Íslandi, skrifræði, eftirlitsiðnað og leyfisveitingafargan ásamt laga- og reglugerðarflóði ESB-þingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Hægri menn vilja yfirleitt lágmarka forræðishyggju í þjóðfélaginu. Þess vegna blandast hægri stefna og helztu pólitísku áhugamál Benedikts Jóhannessonar álíka vel saman og olía og vatn. Fer ekki að koma eggjahljóð í Bjarta framtíð svo ákaft sem Benedikt gaggar ? Því verður heldur ekki trúað, að gert verði út á hagsmunapeningana, s.k. IPA-styrki, til að halda téðum hægri flokki saman, enda virðist hann ekki munu hafa mikla þörf fyrir þá, þegar horft er til föðurhúsanna.
Að lokum má minna á makrílinn, en framkoma ESB við Íslendinga í því máli sýnir hug Grikkjans Damanaki og félaga hennar í framkvæmdastjórn ESB til smáríkis í norðri, sem enn hefur stöðu umsóknarríkis að sambandinu, illu heilli. Hvernig halda menn, að framkoman yrði, ef landið hefði ekki lengur stöðu strandríkis, heldur væri sem dropi í hafi a.m.k. 500 milljóna manna ríkjasambands á leið til að verða sambandsríki ? Er ekki rétt að staldra við og halda í þennan Brüsselleiðangur frá nýjum og gæfulegri upphafspunkti, þegar við getum áttað okkur betur á þróun Evrópusambandsins, en núna er þar hver höndin upp á móti annarri og erfitt að spá um framhaldið. Slíkt nýtt inngönguferli verður að hefjast með rækilegri stefnumótun og samþykki á Alþingi, jafnvel með auknum meirihluta þings eftir breytingar á Stjórnarskrá og staðfestingu þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu.
Það yrði nákvæmlega ekkert hlustað á fulltrúa Íslands í framkvæmdastjórn ESB, sem mundi vilja halda uppi sjónarmiðum sjálfbærni, en um þau stóð styrinn á samningafundum Íslands við Noreg, Færeyjar og ESB. Um ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknarráðsins sagði Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Damanaki skrifaði undir þetta með gerð hrikalegs samnings um ofveiði:
"Ráðleggingarnar eru ekki reistar á vísindalegum rökum og eru engin vísbending um, hversu mikið er rétt að veiða á árinu 2014."
Alþjóða hafrannsóknarráðið ráðlagði 890 000 t veiði á makríl 2014. Téður hneykslissamningur er um veiði Norðmanna, Færeyinga og ESB á 1 046 000 t eða 17,5 % umfram ráðleggingar ráðsins. Téð 17,5 % eða 156 000 t fara til Fæeyinga, en 0,7 x 890 000 = 623 000 t fara til ESB og 0,3 x 890 000 = 267 000 t fara til Norðmanna. Til að spanna veiðar Rússa, Grænlendinga og Íslendinga er líklegt, að bæta þurfi við a.m.k. 300 000 t, og verða veiðarnar þá alls um 1350 000 t eða 52 % umfram ráðleggingu Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Er þetta hægt, Matthías ?
Þessi meðferð auðlindarinnar er fyrir neðan allar hellur og hreinræktuð heimska, því að svo mikið framboð mun fella verðið. Svona gera aðeins umhverfissóðar, enda hæla búrókratarnir í Berlaymont sér með eftirfarandi tilkynningu:
"Í umræðunum hefur ESB haldið á lofti þýðingu sjálfbærs makrílstofns og réttlátu samkomulagi um kvótaskiptingu fyrir öll strandríkin."´
Hér er hrúgað saman ósannindum, eins og Kremlverjar Ráðstjórnarinnar væru að verki, og Ísland, Grænland og Rússland eru ekki einu sinni talin til strandríkja. Þetta er ögrun af versta tagi. Í slíkt ríkjabandalag vilja Össur, Þorsteinn og Benedikt Jóhannesson ólmir fara.
Hér fer vel á því að vitna í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu 5. apríl 2014: "Fiskur í sjó með stjörnur á maganum":
"Engum þarf að koma á óvart, að þessi smánarlega framkoma og innrásarsamningur ESB á strandríki N-Atlantshafsins gerist á sama tíma og stjórnarandstaðan reynir að hindra eðlilega afturköllun aðildarumsóknar meirihluta síðasta Alþingis að ESB. ESB og Samfylkingin/Vinstri grænir hafa ávallt verið samferða í árásum sínum á Ísland. Nú sem fyrr er markmiðið að komast yfir gjöful fiskimið Íslands, og makríllinn er bara byrjunin."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.4.2014 | 20:06
Jöfnuðurinn og réttlætið
"Sex, brains and inequality" nefndist grein í The Economist þann 8. febrúar 2014 með undirfyrirsögn: "Hvernig jafnrétti kynjanna eykur bilið á milli ríkra og fátækra fjölskyldna".
"Nú á dögum eru framgangsríkir karlar líklegri til að kvænast framgangsríkum konum en áður var. Þetta er gott, því að það ber vott um, að meira er um "háfleygar" konur en áður. Karlkyns læknar kvæntust hjúkrunarfræðingum á 7. áratugi 20. aldar, af því að þá voru kvenkyns læknar sjaldgæfir. Nú eru þeir algengir. Hjónabönd jafningja (assortative mating) eykur ójöfnuð á milli fjölskyldna - tveir lögfræðingar í sambúð/hjónabandi eru miklu ríkari en einstæð móðir í verzlunarvinnu. Ný rannsókn á hundruðum þúsunda para staðfestir kenninguna, sem hér hefur verið sett fram.
Launamunur á milli vel menntaðs og minna menntaðs starfsfólks hefur vaxið, og sá munur er ekki lengur verulega kynbundinn vegna batnandi menntunar kvenna. Hefði makaval verið tilviljanakennt, þá mundu margar hálaunaðar konur hafa kvænzt illa launuðum körlum og öfugt. Launamunur hefði vaxið, en munurinn á tekjum heimilanna mundi ekki hafa aukizt. Þeir, sem rannsakað hafa þetta, telja, að Gini-stuðullinn, sem er 0 við algeran jöfnuð og 1 við algeran ójöfnuð, mundi lítið hafa breytzt með tilviljanakenndu makavali, eða farið úr 0,33 árið 1960 í 0,34 árið 2005.
Reynslan sýnir hins vegar, að vel menntað fólk dregst saman og stofnar heimili í æ ríkari mæli. Árið 1960 kvæntust 25 % karla með háskólagráðu konu með háskólagráðu. Árið 2005 var þetta hlutfall 48 %. Af þessum sökum hækkaði Gini úr 0,33 árið 1960 í 0,43 árið 2005. ...
Kona með háskólagráðu, sem hefði gifzt manni, sem hætt hefði skólagöngu á gagnfræðastigi, hefði samt notið 40 % hærri heimilistekna en fjölskylda með meðallaun árið 1960, en árið 2005 hefði slík fjölskylda haft laun 8 % undir meðaltalinu. Árið 1960 voru heimilistekjur háskólamenntaðra hjóna 76 % yfir meðallaunum, en árið 2005 höfðu þau 119 % yfir meðaltalinu. "
Niðurstöður þessara félagsfræðilegu rannsókna eru athygliverðar fyrir nokkurra hluta sakir:
- Vafstur stjórnmálamanna, sem hallir eru undir forræðishyggju og eru stöðugt með jafnrétti og jöfnuð á vörunum, er unnið fyrir gýg, vegna þess að þjóðfélagsþróunin veldur auknum mun á fjölskyldutekjum. Hvernig ætlar stjórnmálamaður á borð við Katrínu Jakobsdóttur, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem kveður Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vitja sín í draumum, að bregðast við niðurstöðum þessarar rannsóknar ? Mun hún beita sér gegn þjóðfélagsþróuninni, sem lýst er hér að ofan, til að lækka GINI-stuðulinn, eða mun hún halda áfram að berjast við vindmyllur, eins og eru hennar ær og kýr ?
- Enginn stöðvar tímans þunga nið. Hin gleðilega þróun menntunar kvenna verður ekki sveigð af leið til að framkalla meiri jöfnuð í tekjum fjölskyldna. Góð menntun kvenna á borð við karla þýðir, að þjóðfélagslega vannýtt auðlind er nú betur nýtt og leysir úr læðingi verðmætasköpun, sem áður var ekki fyrir hendi. Þetta eykur tekjustig samfélagsins, en aukningin dreifist ekki jafnt, eins og rannsóknin sýnir, heldur leitar fé þangað, sem fé er fyrir. Katrín Jakobsdóttir er nú um stundir helzti handhafi þjóðfélagslegs réttlætis, sem hún er síknt og heilagt með á vörunum. Hún er sem Don Kíkóti nútímans samkvæmt ofangreindri rannsókn. Aðalbaráttumál Katrínar er tímaskekkja. Hún virðist sjaldan veðja á réttan hest, eins og afstaða hennar til ESB 16. júlí 2009 og aftur í febrúar-marz 2014 sýnir.
- Nú má spyrja, hvort eitthvert réttlæti felist í því, að Katrín Jakobsdóttir og hennar meðreiðarsveinar, þegar þau komast til valda, hækki tekjuskattheimtuna upp úr öllu valdi á menntafólki með góðar tekjur undir yfirskyni "réttlætis"? Það mun ekki hafa þær afleiðingar, að slíkt fólk hætti að draga sig saman til að skapa meiri jöfnuð í fjölskyldutekjum í landinu, þó að forræðishyggjunni væri vel trúandi til að vilja stjórna slíkum samdrætti í nafni "þjóðfélagsréttlætis". Menntafólkið mun hins vegar flýja land undan ofurréttlætisskattheimtu Kötu Jak og hennar nóta. Slíkt minnkar skattstofninn, dýrmætri fjárfestingu hins opinbera er fórnað á altari jöfnuðar, þannig að allir verða fátækari, nema þeir sem flúðu. Jafnaðarstefna Katrínar Jakobsdóttur er jafnaðarstefna andskotans, af því að hún leiðir til verri afkomu allra.
- Það er hroðalegt að hlusta á forsprakka vinstri flokkanna, sem alræmdir urðu af kosningaloforði sínu 2009 um "skjaldborg heimilanna", sem í framkvæmd breyttist í "skjaldborg bankanna", tuða um það á Alþingi og á vettvangi ASÍ, að aðgerðir ríkisstjórnar og Tryggva Þórs Herbertssonar gagnist helzt hinum tekjuhærri þegnum þjóðfélagsins. Það vill svo til, að hinir tekjuhærri og skuldsettu eru í flestum tilvikum ungt fólk, sem er að koma sér þaki yfir höfuðið með mikilli vinnu. Þetta fólk tók eðlilega hærri lán en hinir, af því að það hafði meiri greiðslugetu. Það breytir ekki því, að stökkbreyting lána og hrun peningakerfisins gat komið þessu fólki á vonarvöl, og margir þeirra leituðu í atvinnuskyni til útlanda. Verkefnið er að fá upp svo góðan hagvöxt á Íslandi, sem knúinn verði af fjárfestingum, helzt í útflutningsatvinnuvegum, að "flóttafólkið" sjái sér hag í því, þegar öllu er á botninn hvolft, að leita heim á ný. Það er ljóst, að spor vinstri stjórnarinnar hræða á öllum sviðum, en lág verðbólga og stöðugur hagvöxtur yfir 3-4 % er bezta bólusetningin gegn þröngsýni, neikvæðni og afturhaldsstefnu vinstri manna. Ef launahækkanir í landinu verða ekki innistæðulausar, þ.e. ekki umfram framleiðniaukningu, þá er ekki lögmál, að hér verði meiri verðbólga en annars staðar. Það eru þegar í gangi aðgerðir til að hefta aukningu peningamagns í umferð. Mikil aukning peningamagns í umferð, þ.e. seðlaprentun bankanna með miklum lánveitingum, er verðbólguhvetjandi og ber að halda í skefjum.
Góður hagvöxtur er bezta jöfnunartækið fyrir afkomu þjóðfélagsþegnanna. Þá eru flest tækifæri til að bæta kjör sín, ekki sízt í hópum hinna efnaminnstu, og hækkandi jaðarskattur með tekjustigi hefur útjafnandi áhrif. Hagvöxtur bætir einnig hag hins opinbera, svo að aukið svigrúm myndast fyrir bætur og millifærslur.
Nú eru ljón í vegi hagvaxtar. Bolfiskverð er fremur lágt og verð á uppsjávartegundum einnig vegna ansjósuframboðs frá Suður-Ameríku. Norðmenn, ESB og Færeyingar gerðu arfavitlausan samning um 50 % aukningu á makrílveiðum, sem öll er umfram ráðgjöf fiskifræðinga og getur valdið verðfalli á makríl í ár.
Ferðamennskan getur unnið á móti þessu. Árið 2013 komu 800 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, og í ár er spáð hátt í einni milljón ferðamanna, en ferðamenn virðast hafa æ minna fé á milli handanna, svo að ekki er á vísan að róa í þessum efnum heldur.
Áliðnaðurinn á mjög undir högg að sækja hérlendis um þessar mundir og hefur neyðzt til að fækka fólki vegna slæms markaðar og óvenju lágra verða. Áliðnaðurinn skilar tapi, eða afkoma hans er í járnum vegna markaðarins. Ofan á þessi vandræði bætist heimatilbúinn vandi af völdum orkuskorts í landinu, sem hefur valdið íslenzkum áliðnaði miklum búsifjum. Alþekktur er niðurdráttur í jarðgufuvirkjunum á Hellisheiði, sem Orkuveita Reykjavíkur hefur bætt sér upp með kaupum á raforku af Landsvirkjun. Landsvirkjun, á hinn bóginn, er engan veginn aflögufær, því að hana skortir bæði miðlunarrými og fleiri virkjanir í Þjórsá til að nýta takmarkað vatn úr Þórisvatni betur.
Fyrirhyggjuleysið, sem þetta alvarlega ástand lýsir, hefur nú leitt til forgangsorkuskerðinga til margra notenda, og Þórisvatn kann að tæmast í vor, og þá mun koma til skömmtunar á rafmagni til almenningsveitna. Hér er ekki aðeins um gríðarlegt fjárhagstjón að ræða, tjón sem hleypur á tugum milljarða króna, heldur er stórhætta á ferðum fyrir almenning vegna yfirvofandi straumrofs. Ný stjórn Landsvirkjunar verður að sýna meira lífsmark en sú gamla, þar sem þjóðarhagur liggur við.
Yfirvöld í landinu eru ábyrg gagnvart almenningi varðandi öruggt aðgengi að orku. Þau verða nú að fara að taka sér tak. Þeir, sem alltaf rísa upp á afturfæturna, þegar aukin miðlunargeta eða nýjar virkjanir koma til tals, eru stikkfrí, verða ekki krafðir um bætur vegna tjóns af völdum raforkuskorts, enda algerlega ábyrgðarlausir. Það er ábyrgðarleysi að hálfu yfirvalda orkumála í landinu að láta við svo búið standa. Miðlunargeta lónanna er allt of lítil orðin, enda hefur ekkert við hana bætzt hér sunnanlands síðan síðasta áfanga Kvíslaveitu lauk, líklega um aldamótin, og Hálslón er síðasta miðlunarframkvæmd landsins, tekin í notkun árið 2007. Hið undarlega gerist, að það fylltist í fyrrahaust, en samt hefur þurft að grípa til raforkuskerðingar í vetur hjá Fjarðaáli, fiskimjölsverksmiðjum o.fl. fyrir austan, annað árið í röð. Þetta er grafalvarlegt ástand fyrir öryggi landsmanna og fyrir hagkerfið, sem fyrir vikið mun verða stöðnun að bráð. Arðsömustu fjárfestingar hins opinbera eru styrking innviðanna, og raforkusalan endurspeglar umsvifin í samfélaginu og þar með landsframleiðslu og hagvöxt.
Nú dugar ekki lengur dauðyflisháttur í orkumálunum, framkvæmdir við virkjanir, miðlanir og flutningslínur verða að fara strax af stað. Raddir um 1650 GWh/a (200 MW) af ónýttri raforku í landskerfinu, sem afsetja verði um sæstreng til Skotlands, hafa hljóðnað, enda hljóma þær nú sem gjörsamlega út úr kú. Afleggið draumóra og hefjizt handa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)