23.5.2012 | 22:00
Akkilesarhæll Evrópu
"Evruvandinn mesta ógnin" er fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu 23. maí 2012. Þessi greining var ekki gerð í Hádegismóum, heldur hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Síðan degir:
"Helzta ógnin við efnahagsbata í heiminum er skuldavandi og stöðnun í 17 ríkjum evrusamstarfsins, segir í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD." Christine Lagarde, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, tók á dögunum afstöðu með þeim, sem vilja, að Seðlabanki ESB, ECB, gefi út ESB-skuldabréf. Þar með hefur hún lagzt á sveif með Hollande og Suður-Evrópublokkinni gegn Þýzkalandi og Norður-Evrópu. Hljóðið í Þjóðverjum er þannig, að mjög ólíklegt er, að þýzka þingið muni samþykkja þetta fyrir kosningarnar haustið 2013. Nú er svo komið, að kratar gætu hæglega komizt í ríkisstjórn Sambandslýðveldisins eftir þessar kosningar, og þá óttast margir Þjóðverjar kúvendingu í þessum efnum.
Þýzka þjóðin er ekki lengur haldin sektarkennd stríðskynslóðarinnar og þeirra næst á eftir. Hún telur ósanngjarnt og algerlega vonlaust verk að ausa úr sjóðum Þýzkalands í botnlausa hít Suður-Evrópu, þar sem er gríðarlegur opinber rekstur og landlæg spilling.
Hæll Akkilesar er mjög í umræðunni þessi misserin vítt og breitt um heiminn og ekki sízt í Evrópu. Evrópa er talin sjúklingurinn í efnahagslífi heimsins, og það versta er, að verði, meinið ekki fjarlægt, á sjúklingurinn sér enga batavon. Það, sem átt er þá við, er evran. Sameiginlega myntin, sem verið hefur 12 ár við lýði, er að ganga af hagkerfi margra Evrópulanda dauðu, en hagkerfi, sem ekki getur séð þegnum sínum nokkurn veginn fyrir fullri vinnu til langframa er einskis nýtt og raunar dautt. Þessi kunna að verða örlög flestra landa evrusvæðisins, þar sem vextir eru nú hærri en hagkerfin ráða við með örfáum undantekningum. Nafnvextir á þýzkum ríkisskuldabréfum eru hins vegar komnir niður í 0, og raunvextirnir eru þess vegna neikvæðir. Þetta ástand er sjúklegt, og hlýtur að enda með ósköpum.
Íslendingar búa reyndar nú við óskiljanlega háa vexti, þó að þeir hafi ekki tekið upp evru og skorti reyndar allar forsendur til þess undir frámunalega lélegri stjórn peningamála og ríkisfjármála. Alls staðar sitja þar gamlaðir vinstri menn á fleti fyrir, og furstinn af Svörtu loftum, gamall aðdáandi Trotzkys, byltingarforingja bolsévíka, verður embætti sínu reyndar hvað eftir annað til háborinnar skammar.
Í evrulöndunum eru svo hrikalegar andstæður, að nánast óhugsandi er, að þetta harðlæsta myntsamstarf fái þrifist að óbreyttu. Stærstu þjóðirnar munu þurfa að gjörbreyta um stefnu, ef dæmið á að ganga upp. Með öðrum orðum þarfnast evran umbóta á efnahagskerfi Frakklands, sem er allt of miðstýrt og ríkissjóður Frakklands mergsýgur franska hagkerfið í anda Napóleóns Bónaparte; Þjóðverjar þyrftu að tileinka sér eyðslusemi og sætta sig við mun meiri verðbólgu en nú er í Þýzkalandi og meiri en tíðkast í hinum ríkjunum, og Ítalir þurfa að tileinka sér aukinn stjórnmálaþroska, en þar hefur ríkt stjórnmálalegur óstöðugleiki frá lokum Heimsstyrjaldarinnar seinni, og þeir sitja nú uppi með ókosinn forsætisráðherra í skjóli búrókratanna í Brüssel.
Þjóðverjar bera nú orðið Ægishjálm yfir aðrar þjóðir evrusvæðisins, hvað samkeppnihæfni varðar. Ástæðan er m.a. sú, að eftir endursameiningu Þýzkalands árið 1990 varð verðbólga í Þýzkalandi meiri en Þjóðverjum þótti góðu hófi gegna. Það varð því þjóðarsátt í Þýzkalandi um að herða sultarólina og stöðva launahækkanir um hríð. Ríki og fylki tóku líka til hjá sér. Þjóðverjar náðu verðbólgunni vel niður fyrir 2,0 %, sem er viðmið ECB, banka Evrópusambandsins, ESB, þó að hún sé um þessar mundir 2,1 % vegna hækkana á eldsneyti, hrávöru og matvælum.
Um miðjan 1. áratug 21. aldarinnar höfðu aðhaldsaðgerðir Þjóðverja staðið í einn áratug og borið svo góðan árangur, að hagkerfi þeirra var orðið hið samkeppnihæfasta á evrusvæðinu. Er þarna fagurt fordæmi fyrir Íslendinga að leita í smiðju Þjóðverja um styrka hagstjórn, sem nýtur svo mikils trausts fjármálamarkaða, að vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins eru engir orðnir. Nú rotta skussarnir sig saman og munu reyna að fá Þjóðverja til að borga sukkið. Það hriktir í stoðum ESB.
Aðrar þjóðir sváfu flestar á verðinum og vöknuðu upp við það, að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuvega þeirra var kominn algerlega úr böndunum. Evran hafði hækkað upp úr öllu valdi vegna hins gríðarlega styrks þýzku útflutningsvélarinnar. Nú höktir allt evrusvæðið utan Þýzkalands og mænir til Þjóðverja eftir ölmusu. Það er borin von þessara landa, að Þjóðverjar breyti nú lifnaðarháttum sínum og hætti á, að verðbólgan grafi um sig í þjóðfélagi þeirra. Hin ríkin munu þess vegna aðeins ná sér á strik, ef verðbólgan hjá þeim verður minni en í Þýzkalandi, og þá eiga þessar þjóðir á hættu vítahring verðhjöðnunar, en út úr honum getur reynzt erfitt að komast. Evrulöndin eru í illvígum vítahring, en þau skyldu minnast þess, að það voru ekki Þjóðverjar, sem báðu um þessa evru. Það voru Frakkar, sem gerðu það að skilyrði fyrir samþykkt á endursameiningu Þýzkalands, að Þjóðverjar legðu niður stolt sitt, die Deutsche Mark, DEM.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verst hafa Grikkir farið út úr evrusamstarfinu. Á 6 ára skeiðinu, 2007-2012, hefur samdráttur gríska hagkerfisins numið um 20 %. Þetta er með ólíkindum og sýnir, að gríska hagkerfið er að hruni komið. Þar er atvinnuleysi ungmenna 50 % og í heildina líklega að verða 25 %. Miðstéttin er að verða fátækt að bráð, og það á við víðar í Suður-Evrópu. Þess vegna mun allt fara í bál og brand.
Árið 2013 munu ríkisskuldir Grikklands nema rúmlega 160 % af VLF þrátt fyrir allar niðurfellingarnar. Það ræður engin þjóð við svo miklar skuldir, sízt af öllu þjóð í stöðugum samdrætti. Þetta getur aðeins endað á einn veg fyrir Grikkjum; með þjóðargjaldþroti. Afleiðing núverandi ástands er stjórnmálaleg upplausn, og hún mun valda því, að björgunarsjóður evrunnar mun halda að sér höndum, og þá er evrusagan öll í Grikklandi.
Þar með munu þeir hrökkva út úr evrusamstarfinu. Þegar tekur að kvarnast úr því, er líklegt, að ekki verði ein báran stök. Löndin á Pýreneaskaganum verða næstu fórnarlömbin á eftir Grikkjum. Hvorki Portúgalir né Spánverjar geta búið við núverandi vexti Mario Draghi í Frankfurt né ávöxtunarkröfu yfir 6 % á ríkisskuldabréfum, sem nú er reyndin. Mia EUR 100 vantar inn í spænska banka, því að vanskilin eftir eignabólu og í miklu (yfir 20 %) langvarandi atvinnuleysi eru gríðarleg.
Francois Hollande ætlar að blása lífi í hagvöxt Frakklands með lántökum að hætti krata og með fjölgun opinberra starfa. Hollande hefur sennilega búrókratana í Berlaymont á sínu bandi og sömuleiðis Suður-Evrópu. Á móti þessu standa Þjóðverjar og fjármálamarkaðirnir, sem lánað hafa þessum löndum stórfé. Þeir trúa ekki á aukningu ríkisumsvifa sem lausn á vanda þessara ríkja. Allt stefnir í átök norðurs og suðurs, og evran í sinni núverandi mynd mun auðvitað ekki lifa þau af.
Inn í þetta öngþveiti eiga Íslendingar náttúrulega ekkert erindi. Evran var aldrei annað en stjórnmálaleg della. Landsmenn verða að ná tökum á sínum málum sjálfir. Að því loknu geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um, hvaða mynt þeir kjósa að nota. Það er hjákátlegt að halda viðræðum áfram um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, sem logar stafnanna á milli, en hefur samtímis í margvíslegum hótunum við Íslendinga út af Icesave fyrir Eftadómstólinum og í samkrulli við samkeppniaðila okkar og frændur, Norðmenn, út af makrílnum, sem nýhlaupinn er á snæri okkar Íslendinga og skilar um þessar mundir um 30 milljörðum kr útflutningsverðmætum. Stuðningsmenn áframhaldandi aðlögunarviðræðna á þingi hafa undarlega innréttað toppstykki, svo að vægt sé til orða tekið.
Það á að binda endi á þessar viðræður strax með fyrirvara, leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og leita staðfestingar þeirra á viðræðuslitum samhliða næstu Alþingiskosningum. Til þess eru næg efnislek rök, sem beita má á þann hátt, að mótaðilinn þurfi ekki að ganga sneyptur frá borði, heldur hafi ástæðu til að skilja, að forsendur "samningaviðræðna", sem í raun eru ekkert annað en aðlögun að kröfum og stjórnkerfi ESB, hafa tekið kollsteypu.
Bloggar | Breytt 25.5.2012 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2012 | 13:24
Afkoman á næstu árum
Á Bretlandi líða að jafnaði 3-4 ár frá því, að samdráttur hagkerfis hefst þar til landsframleiðslan hefur náð sama gildi og fyrir samdrátt að raunvirði. Að 4 árum liðnum frá Hruni á Íslandi má ætla, að samdráttur landsframleiðslu muni enn nema 5 % frá 2008. Það er þess vegna augljóst, að hagstjórn skálkaskjólsins í Stjórnarráðinu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur skilar íslenzku þjóðinni mun lakari árangri en hagstjórn ríkisstjórna nágrannaþjóðanna skilar þeim, og telst þetta reyndar vart til tíðinda hjá nokkrum manni, enda um að ræða duglausustu ríkisstjórn landsins frá fullveldi 1918.
Miðað við horfurnar gæti þessi tími, sem tekur að vinna upp tapaða landsframleiðslu, orðið tvöfalt lengri en gengur og gerist. Ástæðan er aðallega sú, að ríkisstjórn Jóhönnu er óhæf til að stjórna landinu. Stjórnarathafnir eru hálfkák eitt og enda margar sem hreint klúður.
Ár ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru ár hinna glötuðu tækifæra, sem kosta landsmenn a.m.k. 200 milljarða kr á ári í minni landsframleiðslu og hærri vaxtaútgjöldum, en síðar nefndi liðurinn fer að mestu leyti beint út úr hagkerfinu til útlanda.
Í þessu sambandi má nefna, að tölfræðifyrirtækið Gamma hefur gefið út skýrslu um afleiðingar "stefnu" ríkisstjórnarinnar í orkunýtingarmálum. Þar kemur fram, að tap Íslands á um 5 næstu árum verði 250 milljarðar kr og um 5 þúsund ársverk. Aðspurðir á Alþingi um þetta hafa ráðherrar svarað með útúrsnúningum einum. Þeir eru rökþrota.
Það eru hærri vaxtagjöld undir afturhaldsstjórn en væru undir framfarasinnaðri ríkisstjórn vegna þess, að öflugra athafnalíf og meiri erlendar fjárfestingar mundu fljótlega framkalla lægra skuldatryggingarálag vegna hærra lánshæfismats. Afturhaldið á Íslandi er eðlilega í mjög litlum metum hjá erlendum lánveitendum. Það er reyndar furðuleg fjármálaráðstöfun Oddnýjar Harðardóttur, fjármálaráðherra, að fara í erlent skuldabréfaútboð nú, þegar ávöxtunarkrafan er 6,00 % til þess að borga lán, sem veitt voru af Norðurlöndunum til eflingar gjaldeyrisvarasjóðs á 3,25 % vöxtum. Svona gera menn ekki.
Í Evrópu þurfa aðeins tvö ríki að greiða hærri vexti en 6 %, og eru bæði talin vera gjaldþrota, þ.e. Portúgal um 11 % og Grikkland um 21 %. Spánn og Ítalía, sem hvorugt er talið munu geta staðið í skilum og muni raunar þurfa að leita ásjár björgunarsjóðs ESB og muni þá sliga evruna mjög, sem fyrir stendur veikt að vígi, þurfa að greiða lægri vexti eða um 5,7 %. Markaðurinn metur augljóslega stöðu Íslands undir afturhaldsstjórn trúðsígilda, sem sótt hafa um inngöngu í ESB og eyða öllu púðrinu í einskis nýt en rándýr gæluverkefni, mjög áhættusama.
Þessir valdhafar eru þess vegna alþýðu landsins hræðilegur fjárhagslegur baggi. Hið sorglega er, að engin efnahagsleg né stjórnmálaleg þörf er á að burðast með bagga þennan. Ef allt væri með felldu, hefðu Íslandingar unnið sig upp úr efnahagslægðinni árið 2011, þ.e. á 3 árum, og væru nú komnir með meiri þjóðartekjur í raun en fyrir Hrun og hefðu hafið endurgreiðslu erlendra lána ríkisins í stað þess að bæta stöðugt í þá hít undir vinstra afturhaldinu.
Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, birti laugardaginn 5. maí 2012 í Morgunblaðinu greinina, "Kostnaðurinn af skaðlegri ríkisstjórn". Niðurstaða hans er sú, að Hrunið hafi leitt til kostnaðar þjóðarinnar upp á 670 milljarða (mia) kr, en villta afturhalds vinstrið hafa kostað hana 890 milljarða. Niðurstaða Sigmundar Davíðs um, að tapið af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé meira en tapið vegna Hrunsins er rétt, en höfundur þessa vefseturs telur hins vegar, að báðar tölurnar séu of lágar:
- Tap Seðlabankans vegna Hrunsins: ISK 200 mia
- Tap lífeyrissjóðanna vegna Hrunsins: ISK 500 mia
- Ágizkun höfundar um tap einstaklinga og fyrirtækja:300 mia
Heildarkostnaður landsmanna vegna Hrunsins: 1000 mia kr
- Vaxtarmunur samfélagsins: 60 mia kr/ár x 3 ár= 180 mia kr
- 10 þúsund fleiri í vinnu: 90 mia kr / ár x 3 ár = 270 mia kr
- Mismunur hagvaxtar: 90 mia kr / ár x 3 ár = 270 mia kr
- Verðbólgumunur 4 % / ár x 3 ár = 200 mia kr
- Ólögmæt myntkörfulán til nýju bankanna = 150 mia kr
- Tapaðar færslur úr ríkissj. í gjaldþrota fyrirtæki 50 mia kr
- Áætlað tap vegna gjaldeyrishafta 100 mia kr/ár 100 mia kr
- Slæleg frammistaða við stjórnun ríkisfjármála 100 mia kr
Heildarkostnaður landsmanna af ráðstöfunum afturhaldsstjórnarinnar umfram það, sem búast mætti við af ríkisstjórn borgaralegu stjórnmálaflokkanna miðað við stefnumörkun þeirra í stjórnarandstöðu: 1320 mia kr.
Á þriggja ára tímabilinu 2009-2011 hefur afturhaldið í ríkisstjórn Íslands valdið landinu fjárhagslega tjóni, sem er meira en 130 % tjónið í Hruninu. Þetta umframtjón nemur yfir 300 mia kr, og líklega tvöfaldast þessi umframkostnaður af hinni gæfusnauðu vinstri stjórn á árinu 2012 og mun nema um 1000 mia kr eða 60 % af VLF áður en yfir lýkur, lafi ómyndin út kjörtímabilið. Ekki hefði myndin skánað af sukki ríkisstjórnar Jóhönnu, ef hún hefði haft sitt fram í Icesave-málinu, og hér er ótalinn tugmilljóna kostnaður af snepjulegri sneypuför Jóhönnu og Steingríms í Landsdómsmálinu og öðrum gæluverkefnum hennar.
Eftir því sem tímar líða verður tap þjóðarinnar af vinstri stjórninni meira og átakanlegra. Um þessar mundir getur það hæglega numið 300 milljörðum kr á ári. Það er þess vegna borðleggjandi, að verulegu máli skiptir, hvernig til tekst um val Alþingismanna. Nú munu landsmenn vera í 18. sæti á lista ofanfrá um þjóðartekjur á mann, en þeir hrapa niður þann lista með villta vinstrið við stjórnvölinn, og við megum ekki við að hrapa frekar, því að þá mun skjótlega horfa við landauðn hér.
Það eru fjölmörg úrræði fyrir hendi til að snúa þessari óheillaþróun við og sækja upp á við á þessum lista, en Ísland mun hafa verið í 4. sæti, þegar hæst bar, en þá var reyndar vitlaust gefið. Grundvallaratriði er, að á Alþingi verði sú viðhorfsbreyting, að hámarka skuli tekjuöflun landsmanna innan ramma sjálfbærni og efnahagslegs stöðugleika. Þetta er alls ekki viðhorf núverandi meirihluta, heldur fer allt púðrið í tekjuskiptinguna með mjög óheillavænlegum inngripum í athafnalífið og skattkerfið. Ekkert þessara inngripa villta vinstrisins er reist á hagfræðilegum rökum um að stækka kökuna, sem til skiptanna er, heldur hafa allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar verið brennimerktar fátæktarstefnu og misheppnaðar í þeim skilningi, að þær hafa í raun verið til þess fallnar að minnka verðmætasköpun í landinu og þar með tekjur einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkissjóðs.
Þannig þarf þetta engan veginn að vera, og landsmenn eiga skýra valkosti í næstu forsetakosningum og Alþingiskosningum. Það væri t.d. glapræði að kjósa frambjóðanda Samfylkingarinnar og koma henni til embættis á Bessastöðum, sem síðar eftir næstu Alþingiskosningar og myndun framfararíkisstjórnar í stað afturhalds gæti stöðvað eða tafið mikilvæg framfaramál nýs Alþingis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2012 | 22:40
Vinna er velferð
Verkalýðshreyfingin gerði ofangreint að kjörorði sínu 1. maí 2012 og eigi að ófyrirsynju. Fyrir 5 árum hefði engum dottið í hug að fara á flot með þetta kjörorð, en eftir senn fjagra ára afturfararskeið brennur atvinnuleysið á almenningi, og téð kjörorð er þá eðlilegt.
Árið 2011 voru að jafnaði 180000 manns á íslenzka vinnumarkaðinum samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og fækkaði um 1000 manns frá árinu áður. Skýringin á því er uppgjöf fólks, landflótti, og það gefst upp á atvinnuleit. Á árinu 2011 voru 167300 starfsmenn með atvinnu, og 12700 í atvinnuleit. Þetta gefur 7,1 % vinnumarkaðarins í atvinnuleit, en atvinnuleysið er í raun mun meira og alvarlegra. Árangursleysi ríkisstjórnarinnar verður bezt lýst með því, að frá 1. ársfjórðungi 2009 til 1. ársfjórðungs 2012 fjölgaði fólki með atvinnu ekki nokkurn skapaðan hlut. Annað slíkt þriggja ára stöðnunarskeið fyrirfinnst líklega ekki á lýðveldistímanum, og það er furðulegt, að vinstri stjórnin skuli telja sér sætt við þessar aðstæður, þegar eðlilegast væri af hvaða ríkisstjórn sem er við þessar aðstæður að viðurkenna mistök sín og getuleysi við stjórn þjóðfélagsins og leggja upp laupana.
Að þessari ríkisstjórn genginni munu af þessum ástæðum verða vatnaskil í stjórnmálum á Íslandi, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun verða brjóstvörn almennings í sókn hans til bættra lífskjara gegn afturhaldinu í landinu, sem ekki hefur áhuga á öðru en að sleikja skósóla ráðamanna og búrókrata í Berlaymont. Kratar á Íslandi eru algerlega úti að aka og ekki í neinum takti við krata annars staðar í Evrópu. Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands, boðar andóf Frakka við búrókrötum í Brüssel og vöxt hagkerfisins. Hann vill leysa brjótast út úr stöðnun með hagvöxt að vopni. Þetta er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Franska þjóðin var orðin leið á að taka við tilskipunum frá Berlín úr munni hálfungversks monthana. Spennandi verður nú að fylgjast með viðureign Berlínar og Parísar. Líklegt er, að henni lykti með rústum, ekki húsarústum að þessu sinni, sem betur fer, heldur rústum evrunnar.
Allir, nema skussar meirihlutans á Alþingi vita hins vegar, að ekkert horfir til framfara við það eitt að hrópa á torgum. Til að breyta núverandi stöðu þarf vilja, þekkingu og skipulag. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem er eintrjáningur, illa haldin af doða og stjórnmálalega séð nánast daufdumb, eins og mælingar á fylgi gefa til kynna, hefur ekkert af þessu þrennu til að bera.
Ríkisstjórnin hefur engan vilja til að efla atvinnulífið. Þvert á móti leggur hún hvern steininn á fætur öðrum í götu þess. Þarf ekki frekari vitnana við en eftirfarandi frá prófessor emerítus, Þráni Eggertssyni, hagfræðingi, í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, er hann kvað "algjörlega óskiljanlegt, að þjóð, sem er allt að því á barmi glötunar, skuli spila rússneska rúllettu með undirstöðugrein, eins og sjávarútveginn, með óundirbúnu og vanhugsuðu fikti með skatt- og gjaldheimtu af greininni".
Það er hins vegar allt á sömu bókina lært hjá lökustu ríkisstjórn lýðveldistímans. Þegar kemur að nýtingu orkulindanna, er allt í frosti hjá ríkisstjórninni, hún umturnar og eyðileggur faglega niðurstöðu Rammaáætlunar um vernd og nýtingu orkulinda, hún framdi lögbrot og var dæmd af Hæstarétti fyrir tafaleiki við undirbúning virkjana í Neðri-Þjórsá, og hún hefur reynt að torvelda hagkvæmustu orkuvinnslu á Íslandi, sem er Hágöngumiðlun, og þannig mætti lengi telja.
Það er loku fyrir það skotið, að hérlendis fjölgi störfum um þau 13000 á næstu 3 árum, sem nauðsyn krefur til að nægt vinnuframboð verði eða velferð fyrir landsmenn, ef hvorki verður fjárfest í sjávarútvegi né orkuvinnslu. Halda menn, að Hollande tæki slíkt í mál ? Kratar á Íslandi eru nú málsvar svartasta afturhaldsins.
Nýjasta dæmið um atvinnufjandsemi ríkisstjórnarinnar gat að líta á 6. síðu Morgunblaðsins, 19. apríl 2012 undir fyrirsögninni, "Greenstone gafst upp á Íslandi". Þar er mynd af Henk Wiering, stjórnarmanni í Greenstone, og forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, en þeir áttu með sér fund á Bessastöðum á vordögum 2008 um fjárfestingu Greenstone í gagnaveri á Íslandi. Sveinn Óskar Sigurðsson, fyrrverandi talsmaður Greenstone á Íslandi sagði um þátt ríkisstjórnarinnar, alræmdu, Jóhönnu Sigurðardóttur, í þessu máli:
"Hún var óviljug að vinna með félaginu í að fá viðskiptavin þess til að byggja gagnaver við Blönduós. Ísland hefur verið að heltast úr lestinni, þar sem hið opinbera hefur ekki staðið eðlilega að því að bæta umhverfi fyrir þessa fjárfestingu. Íslandsstofa, áður Fjárfestingastofa, hefur hins vegar staðið sig vel, en það er ekki nóg; kerfið þarf allt að smella saman."
Ríkisstjórnin siglir undir fölsku flaggi. Hún liggur þversum gegn öllum framförum í atvinnulífinu. Hún ræðst hins vegar gegn atvinnulífinu með alls konar heimskupörum og sérvizku. Sveinn Óskar nefnir sem dæmi, máli sínu til stuðnings, tafir á breytingu laga og reglna varðandi skattamál, væntingar Landsvirkjunar um að hækka raforkuverð umfram það, sem viðskiptavinurinn gat fengið á eigin heimamarkaði (í BNA), sem er kapítuli út af fyrir sig, og of hátt verðlag á gagnaflutningum til og frá landinu vegna lélegrar nýtingar hingað til á nýjum sæstreng.
Sveinn Óskar minnir á, að "virkjanir í neðri hluta Þjórsár áttu að vera ætlaðar uppbyggingu gagnavera og hinum græna iðnaði. Það hafi a.m.k. verið fullyrt í þeirra eyru af fyrri yfirstjórn Landsvirkjunar, en þar á bæ hafi verið breytt um stefnu."
"Bæði Landsvirkjun og Farice verðlögðu sig út af þessum markaði á þeim tíma, og nú eru gagnaversfyrirtækin farin að leita annað með stærri verkefni, eins og til Svíþjóðar og Finnlands. Það kemur hvorki heimilunum í landinu né þessum iðnaði til góða að hækka raforkuverðið. Það hefur aldrei freistað erlendra fjárfesta að vita til þess, að hækka eigi verð á raforkunni." Sveinn Óskar "telur eilífan samanburð við aðstæður í Evrópu óraunhæfan, þar sem Ísland sé svo fjarri öllum mörkuðum".
Þetta er hverju orði sannara og undirstrikar, að ríkisstjórnin og Landsvirkjun eru á kolrangri og á algerlega vonlausri braut, enda hafa núverandi forstjóri Landsvirkjunar og stjórn fyrirtækisins ekki gert nokkurn nýjan orkusamning að því bezt er vitað. Það verk, sem nú stendur yfir, Búðarhálsvirkjun, í tengslum við framkvæmdir við álver ISAL í Straumsvík, sem heldur uppi atvinnustiginu á suðvestur horninu, var ákveðið á dögum fyrrverandi ríkisstjórnar og þáverandi forstjóra Landsvirkjunar, Friðriks Sóphussonar.
Til að skapa atvinnu verður að söðla algerlega um og stokka forgangsröðunina upp. Leggja verður gæluverkefni á borð við aflsæstreng, sem Valdimar K. Jónsson, prófessor emerítus við vélaverkfræðiskor Háskóla Íslands, veltir fyrir sér með gagnrýnum hætti í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, á hilluna og taka að nýju upp heilbrigt viðskiptavit, sem Landsvirkjun gat sýnt á árum áður og býr að enn, en fær ekki að njóta sín.
Eins og hér hefur verið rakið, hafa ríkisstjórnin og Landsvirkjun glutrað niður tækifærum til gjaldeyrissköpunar og atvinnueflingar. Þessar fórnir hafa verið færðar á altari fordómafullrar stjórnmálastefnu vinstri grænna og forstokkaðs hóps sérvitringa innan Samfylkingarinnar. Í skýrslu Gamma um afleiðingar stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram, að tap Íslands á næstu árum einvörðungu af flónsku ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum muni nema 250 milljörðum kr og 5 þúsund ársstörfum. Eru þá afglöp hennar í öðrum atvinnumálum landsins ótalin. Vert er að leggja heildarmat á kostnaðinn af afturhaldinu umfram kostnað af t.d. borgaralegri ríkisstjórn. Það mun þá koma í ljós, að þessi kostnaður árin 2009-2012 er hið minnsta 40 % hærri en kostnaður landsmanna varð af Hruninu.
Fyrir þetta verður ný ríkisstjórn að bæta strax eftir næstu Alþingiskosningar. Þá þarf að kynna til sögunnar framsækna fjárfestingarstefnu með lækkun skatta og raunhæfa verðlagningu raforku, sem þó tryggir endurgreiðslu fjárfestingar og vaxtakostnaðar á um 2/3 hluta umsamins orkusölutímabils. Eftir það tímabil mala virkjanirnar gull, heimilum og fyrirtækjum landsmanna til hagsauka. Allt tal um brask með orkuna og okur á heimilum og fyrirtækjum hérlendis er forkastanlegt og ber að kæfa í fæðingu.
Jón Þorláksson, verkfræðingur og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og tveir næstu formenn hans, Ólafur Thórs, og Bjarni Benediktsson, lagaprófessor, mótuðu stefnu hans og skópu stóran stjórnmálaflokk með breiða skírskotun á grundvelli víðsýnna viðhorfa. Þar var frelsi einstaklingsins hyrningarsteinninn, og burðarstólpar voru lýðræði og athafnafrelsi. Allt þetta á mætavel við í dag. Það er almannahagsmunum fyrir beztu, að athafnalífið fái að dafna með sem minnstum opinberum afskiptum, og að skattar séu sem lægstir á fjölskyldur og fyrirtæki.
Á 6. áratug 20. aldar fóru Vestur-Þjóðverjar langt með að reisa land sitt úr rústum Heimsstyrjaldarinnar síðari. Þá komu fram á sjónarsviðið tveir menn, sem opinberlega leiddu Þjóðverja á gríðarlegu uppbyggingarskeiði. Þeir voru Dr Konrad Adenauer, kanzlari, og Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra, og síðar kanzlari í Bonn. Þessir tveir menn sameinuðu Þjóðverja undir merkjum "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Þannig má einmitt lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Eftir næstu Alþingiskosningar þarf flokkurinn að sameina þjóðina til viðreisnar lands og þjóðar undir merkjum markaðshagkerfis með félagslegu ívafi. Markaðshyggjan mun fóðra dráttarklár framfaranna, og sameiginlegum sjóðum landsmanna verður beitt til að tryggja öllum landsmönnum öryggisnet. Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur reist íslenzka hagkerfið úr rústum hruns heils fjármálakerfis og fjagra ára óstjórnar og ráðaleysis í kjölfarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2012 | 21:42
Snepjulegur fer sneypuför
Snepjulegur ráðherra sjávarútvegs-, landbúnaðar- og efnahagsmála fór rétt einu sinni snautlega sneypuför í aðför sinni að Sjálfstæðisflokkinum og fyrrverandi formanni hans, Geir Hilmari Haarde. Steingrími er kenndur króginn hér, því að fullyrða má, að án hans tilstuðlunar hefði Alþingi aldrei breytt sér í ákæruvald í dómsmáli. Þessi ákvörðun Alþingis reyndist ekki vera reist á lagalegum rökum, heldur illvilja og hefnigirni ofstækisfullra forystusauða svo kallaðra vinstri flokka og undanvillinga. Það er grunsamlegur bragur á 5 ára skipan forseta Hæstaréttar nú fyrir skömmu í ljósi þess, sem komin var röðin að við skipan forseta Hæstaréttar. Það er svo sovézkur fnykur af þessu ráðslagi vinstri flokkanna öllu saman, að leggur fyrir vit langar leiðir.
Hefði þessi versti klúðrari íslenzkrar stjórnmálasögu, SJS, t.d. lagt upp gegn Geir með eina ákæruatriðið, sem Landsdómur sýknaði hann ekki af, þá má þó telja næsta víst, að Alþingi hefði ekki farið fram með ákæru. Ástæðan er sú, að margra áratuga hefð er fyrir þeim vinnubrögðum, sem kærð voru, og engum hefur tekizt að sýna fram á, að meintur skortur á formfestu hafi valdið tjóni, þ.e., að bókaður ríkisstjórnarfundur hefði nokkru breytt um framvindu Hrunsins. Þó að samhljóða dómur 15 dómenda Landsdóms sé jafnframt harður áfellisdómur yfir saksóknara Alþingis, sem svo einkennilega vill til, að var jafnframt nýlega skipuð ríkissaksóknari (tilviljun ?), verður jafnframt að draga mjög í efa, að hún hefði farið fram með málið eitt og sér, sem Geir var þó sakfelldur fyrir.
Þó að dómurinn hefði ekki getað verið vægari, þar sem Geir var engin refsing gerð, og málsvarnarlaunin greidd, þá er dómurinn samt furðulegur. Ástæðan er sú, að aðgerðarleysi eða aðgerð verður að valda einhverjum miska, svo að saknæmt geti talizt. Hér sýndu níumenningarnir engan veginn fram á, að skortur á formlegum ríkisstjórnarfundum hefði valdið tjóni, hvað þá Hruninu sjálfu. Sagt var, að slík fundarhöld hefðu getað leitt til stefnumörkunar um viðnám við vandanum, en hvernig ? Málafylgja níumenninganna er lögfræðilega ekki boðleg, og haldlítil eru rök þeirra með Hæstaréttarforseta nýlega skipaðan til 5 ára, sem er nýmæli, í broddi fylkingar, en rökstuðningur sexmenninganna fyrir sýknu gagnvart þessum ákærulið var mun meira sannfærandi.
Sumir, jafnvel í þingliði Framsóknarflokksins (EH), hafa undirstrikað dómgreindarleysi sitt með fullyrðingu um, að téð formsatriði hafi verið veigamesta ákæran. Það er þó tekið fram í texta dómsins, að svo sé alls ekki. Sú staðreynd, að engin refsing var ákvörðuð, undirstrikar, að lögræðilega hefur það verið talið á mörkunum að fella dóm yfir Geir Haarde fyrir téð fundarleysi, enda sannar klofningur dómsins það. Þá mun vera einsdæmi, að fella svo háan málsvarnarkostnað á ákærandann, eins og raunin varð á um hér. Í raun má túlka þann gjörning Landsdóms svo, að hann telji allan þennan málarekstur hafa verið óþarfan, og sjá þá allir, hvílíka sneypuför snepjulegir forystumenn stjórnarflokkanna fóru hér. Þau munu taka út sína refsingu fyrir flónskuna í fyllingu tímans.
Það er á margra vitorði, að banka-og viðskiptaráðherra var ekki treyst í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde. Þess vegna sniðgekk formaður Samfylkingar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hann. Bankamálaráðherrann var tengdur með ákveðnum hætti inn í bankakerfið og sýnt þótti, að honum væri ekki treystandi fyrir trúnaðarmálum, heldur læki málum þangað. Þetta var út af fyrir sig næg ástæða fyrir Geir til að halda ekki formlega ríkisstjórnarfundi um vandamál bankakerfisins. A.m.k. er ljóst, að Samfylkingunni var í lófa lagið að óska slíks fundar, en gerði það aldrei. Hvers vegna ? Hún er augljóslega samsek.
Telja verður, að Geir og Ingibjörg hafi haft um það fullt samráð að halda ekki slíkan fund. Hún eða bankamálaráðherra hefði sem sagt verið í lófa lagið að krefjast ríkisstjórnarfundar um vandamálið. Auðvitað átti þess vegna að leiða báða leiðtoga stjórnarflokka þáverandi ríkisstjórnar fyrir Landsdóm, úr því að hann var endurvakinn á annað borð. Annað var glórulaust. Ingibjörg spyrnti hins vegar fast við fótum, svo að Jóhanna Sigurðardóttir fékk kalda fætur og fékk með undirferli skipað málum svo, að Geir einn var leiddur fyrir ríkisréttinn. O, sancta simplicitas.
Jafnskjótt og frétzt hefði um fund ríkisstjórnar um aðsteðjandi vanda bankakerfisins, hefði áhlaup verið gert á íslenzku bankana innanlands og erlendis, og Steingrímur Jóhann Sigfússon hefði hlaupið upp í ræðustól Alþingis og útmálað vandann og auðvitað magnað hann, því að sá maður hefur aldrei á sinni hunds og kattar ævi leyst nokkurn opinberan vanda. Þvert á móti. Hann er um þessar mundir illvígasta efnahagsvandamál Íslands, sem hótar að valda hér Móðuharðindum af mannavöldum.
Landsdómur sýknaði Geir Hilmar af sakargiftum, sem að hálfu vinstri meirihlutans á Alþingi og saksóknara Alþingis fólu í sér að hafa orðið valdur að Hruninu á Íslandi eða að hafa ekkert gert til að verjast því og draga úr afleiðingum þess fyrir almenning á Íslandi.
Þessi atriði eru endemis vitleysa. Bankamálaráðherrann, ekki forsætisráðherrann, bar ábyrgð á fjármálakerfinu, og hann var bundinn í báða skó af reglum Innri markaðar EES um frjálsa flutninga fjármagns. Það hefur ekki verið sýnt fram á, að hægt hefði verið að hægja á vexti bankanna án þess að skerða stórlega samkeppnistöðu þeirra, baka þeim stórtjón og eiga yfir höfði sér saksókn um stórfelldar bætur fyrir vikið. Mistökin voru gerð löngu áður, þ.e. þegar bönkum var leyft að reka í senn fjárfestingarstarfsemi og inn-og útlánastarfsemi. Þetta samkrull olli ofvexti þeirra og bakaði innlánseigendum stórhættu. Vinstri stjórnin hefur ekki haft í sér manndóm til að breyta þessu. Merwyn King, aðalbankastjóri Englandsbanka, líkir þessu fyrirkomulagi í heimalandi sínu við að leyfa byggingu kjarnorkuvers í þéttbýli. Eigi er kyn, þó að keraldið leki.
Fjármálakerfi heimsins fraus 15. september 2008, þegar Bandaríkjastjórn ákvað að bjarga ekki Lehman Brothers. Þá voru örlög íslenzka bankakerfisins, sem stóð á brauðfótum, ráðin, því að þeir höfðu verið étnir innanfrá af óprúttnum aðilum, sem Sérstakur saksóknari vonandi lætur finna til tevatnsins fyrr fremur en síðar.
Þrátt fyrir ofangreinda málavöxtu reynir Ólafsfirðingurinn, "Roðlaus og beinlaus", töskuberi SJS, statt og stöðugt að troða orsökum Hrunsins upp á Sjálfstæðisflokkinn. "Roðlaus og beinlaus" reynir jafnframt að telja fólki trú um, að núverandi fjárhagsstaða þess sé jafnbágborin og raun ber vitni um vegna aðgerða eða aðgerðarleysis Sjálfstæðisflokksins. Með þessu játar "Roðlaus og beinlaus" aumingjaskap sinn og gjaldþrot vinstri stefnu ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur í u.þ.b. 40 mánuði. Núverandi eymdarástand er sjálfskaparvíti vinstri manna og gat ekki öðru vísi orðið, eins og til var stofnað. Þeir hafa gert allt með öfugum klónum og verðbólga og stöðnun hagkerfisins var algerlega fyrirsjáanleg með vitlausum aðgerðum og doða þingmeirihlutans. Frumvörp og lagasetning þingmeirihlutans eru fullkomið fúsk og versta handabakavinna nokkurs þingmeirihluta í manna minnum. Þessi vinnubrögð heita á kjarnmiklu alþýðumáli að kunna ekki réttri hendi í rass að taka. Aldrei aftur vinstri stjórn !
Nú vill þetta fúskaralið afnema lögin um Landsdóm sem fyrst. Heybrækurnar óttast nú mest af öllu að verða sjálfar að bera glóandi járn inn kirkjuna. Það er eðlilegt, að fúskararnir verðir látnir bergja á sömu bikurum og þeir töldu hæfa formanni Sjálfstæðisflokksins. Á næsta Alþingi hljóta Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann Sigfússon að sæta ákæru um landráð. Dæmi um slíkt má finna í Icesave-málinu og í ESB-málinu. Fleiri stjórnarskráarbrot má tína til auk aðgerða, sem bakað hafa landsmönnum stórtjón. Um þetta er fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 27.04.2012, en augljóst er, að höfundurinn hefur verið á vettvangi margra þeirra atburða, sem lýst er, eins og sagt er um aðalhöfund Sturlungu, Sturlu Þórðarson, bróðurson Snorra:
"Þegar þau Steingrímur J. og Jóhanna og hugsanlega fleiri ráðherrar verða kölluð fyrir Landsdóm, eins og sjálfsagt er, vegna sölu tveggja banka eða gjafar til óþekktra útlendinga og vegna Icesave-framgöngunnar, Sjóvármálsins, sparisjóðamálsins, Bankasýslumálsins, svo að nokkuð sé nefnt, þá hlýtur hið augljósa brot gegn 20. grein stjórnarskrárinnar að vera með á ákærulistanum. Það var kanski ástæða til þess að hugsa landsdómsfyrirkomulagið upp á nýtt, þegar það hafði ekki verið notað í heila öld. En það er sízt af öllu ástæða til að hverfa frá því nú, þegar fyrirkomulagið hefur verið reynt og dómurinn sýndi, að hann virkar."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)