Vinna er velferð

Verkalýðshreyfingin gerði ofangreint að kjörorði sínu 1. maí 2012 og eigi að ófyrirsynju.  Fyrir 5 árum hefði engum dottið í hug að fara á flot með þetta kjörorð, en eftir senn fjagra ára afturfararskeið brennur atvinnuleysið á almenningi, og téð kjörorð er þá eðlilegt.

Árið 2011 voru að jafnaði 180000 manns á íslenzka vinnumarkaðinum samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og fækkaði um 1000 manns frá árinu áður.  Skýringin á því er uppgjöf fólks, landflótti, og það gefst upp á atvinnuleit.  Á árinu 2011 voru 167300 starfsmenn með atvinnu, og 12700 í atvinnuleit.  Þetta gefur 7,1 % vinnumarkaðarins í atvinnuleit, en atvinnuleysið er í raun mun meira og alvarlegra.  Árangursleysi ríkisstjórnarinnar verður bezt lýst með því, að frá 1. ársfjórðungi 2009 til 1. ársfjórðungs 2012 fjölgaði fólki með atvinnu ekki nokkurn skapaðan hlut.  Annað slíkt þriggja ára stöðnunarskeið fyrirfinnst líklega ekki á lýðveldistímanum, og það er furðulegt, að vinstri stjórnin skuli telja sér sætt við þessar aðstæður, þegar eðlilegast væri af hvaða ríkisstjórn sem er við þessar aðstæður að viðurkenna mistök sín og getuleysi við stjórn þjóðfélagsins og leggja upp laupana.  

Að þessari ríkisstjórn genginni munu af þessum ástæðum verða vatnaskil í stjórnmálum á Íslandi, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun verða brjóstvörn almennings í sókn hans til bættra lífskjara gegn afturhaldinu í landinu, sem ekki hefur áhuga á öðru en að sleikja skósóla ráðamanna og búrókrata í Berlaymont.  Kratar á Íslandi eru algerlega úti að aka og ekki í neinum takti við krata annars staðar í Evrópu.  Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands, boðar andóf Frakka við búrókrötum í Brüssel og vöxt hagkerfisins.  Hann vill leysa brjótast út úr stöðnun með hagvöxt að vopni.  Þetta er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi.  Franska þjóðin var orðin leið á að taka við tilskipunum frá Berlín úr munni hálfungversks monthana.  Spennandi verður nú að fylgjast með viðureign Berlínar og Parísar.  Líklegt er, að henni lykti með rústum, ekki húsarústum að þessu sinni, sem betur fer, heldur rústum evrunnar.         

Allir, nema skussar meirihlutans á Alþingi vita hins vegar, að ekkert horfir til framfara við það eitt að hrópa á torgum.  Til að breyta núverandi stöðu þarf vilja, þekkingu og skipulag.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem er eintrjáningur, illa haldin af doða og  stjórnmálalega séð nánast daufdumb, eins og mælingar á fylgi gefa til kynna, hefur ekkert af þessu þrennu til að bera.  

Ríkisstjórnin hefur engan vilja til að efla atvinnulífið.  Þvert á móti leggur hún hvern steininn á fætur öðrum í götu þess.  Þarf ekki frekari vitnana við en eftirfarandi frá prófessor emerítus, Þráni Eggertssyni, hagfræðingi, í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, er hann kvað "algjörlega óskiljanlegt, að þjóð, sem er allt að því á barmi glötunar, skuli spila rússneska rúllettu með undirstöðugrein, eins og sjávarútveginn, með óundirbúnu og vanhugsuðu fikti með skatt- og gjaldheimtu af greininni".

Það er hins vegar allt á sömu bókina lært hjá lökustu ríkisstjórn lýðveldistímans.  Þegar kemur að nýtingu orkulindanna, er allt í frosti hjá ríkisstjórninni, hún umturnar og eyðileggur faglega niðurstöðu Rammaáætlunar um vernd og nýtingu orkulinda, hún framdi lögbrot og var dæmd af Hæstarétti fyrir tafaleiki við undirbúning virkjana í Neðri-Þjórsá, og hún hefur reynt að torvelda hagkvæmustu orkuvinnslu á Íslandi, sem er Hágöngumiðlun, og þannig mætti lengi telja.

Það er loku fyrir það skotið, að hérlendis fjölgi störfum um þau 13000 á næstu 3 árum, sem nauðsyn krefur til að nægt vinnuframboð verði eða velferð fyrir landsmenn, ef hvorki verður fjárfest í sjávarútvegi né orkuvinnslu.  Halda menn, að Hollande tæki slíkt í mál ?  Kratar á Íslandi eru nú málsvar svartasta afturhaldsins. 

Nýjasta dæmið um atvinnufjandsemi ríkisstjórnarinnar gat að líta á 6. síðu Morgunblaðsins, 19. apríl 2012 undir fyrirsögninni, "Greenstone gafst upp á Íslandi".  Þar er mynd af Henk Wiering, stjórnarmanni í Greenstone, og forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, en þeir áttu með sér fund á Bessastöðum á vordögum 2008 um fjárfestingu Greenstone í gagnaveri á Íslandi.  Sveinn Óskar Sigurðsson, fyrrverandi talsmaður Greenstone á Íslandi sagði um þátt ríkisstjórnarinnar, alræmdu, Jóhönnu Sigurðardóttur, í þessu máli: 

"Hún var óviljug að vinna með félaginu í að fá viðskiptavin þess til að byggja gagnaver við Blönduós.  Ísland hefur verið að heltast úr lestinni, þar sem hið opinbera hefur ekki staðið eðlilega að því að bæta umhverfi fyrir þessa fjárfestingu.  Íslandsstofa, áður Fjárfestingastofa, hefur hins vegar staðið sig vel, en það er ekki nóg; kerfið þarf allt að smella saman."

Ríkisstjórnin siglir undir fölsku flaggi.  Hún liggur þversum gegn öllum framförum í atvinnulífinu.  Hún ræðst hins vegar gegn atvinnulífinu með alls konar heimskupörum og sérvizku.  Sveinn Óskar nefnir sem dæmi, máli sínu til stuðnings, tafir á breytingu laga og reglna varðandi skattamál, væntingar Landsvirkjunar um að hækka raforkuverð umfram það, sem viðskiptavinurinn gat fengið á eigin heimamarkaði (í BNA), sem er kapítuli út af fyrir sig, og of hátt verðlag á gagnaflutningum til og frá landinu vegna lélegrar nýtingar hingað til á nýjum sæstreng. 

Sveinn Óskar minnir á, að "virkjanir í neðri hluta Þjórsár áttu að vera ætlaðar uppbyggingu gagnavera og hinum græna iðnaði.  Það hafi a.m.k. verið fullyrt í þeirra eyru af fyrri yfirstjórn Landsvirkjunar, en þar á bæ hafi verið breytt um stefnu."

"Bæði Landsvirkjun og Farice verðlögðu sig út af þessum markaði á þeim tíma, og nú eru gagnaversfyrirtækin farin að leita annað með stærri verkefni, eins og til Svíþjóðar og Finnlands.  Það kemur hvorki heimilunum í landinu né þessum iðnaði til góða að hækka raforkuverðið.  Það hefur aldrei freistað erlendra fjárfesta að vita til þess, að hækka eigi verð á raforkunni."  Sveinn Óskar "telur eilífan samanburð við aðstæður í Evrópu óraunhæfan, þar sem Ísland sé svo fjarri öllum mörkuðum".

Þetta er hverju orði sannara og undirstrikar, að ríkisstjórnin og Landsvirkjun eru á kolrangri og á algerlega vonlausri braut, enda hafa núverandi forstjóri Landsvirkjunar og stjórn fyrirtækisins ekki gert nokkurn nýjan orkusamning að því bezt er vitað.  Það verk, sem nú stendur yfir, Búðarhálsvirkjun, í tengslum við framkvæmdir við álver ISAL í Straumsvík, sem heldur uppi atvinnustiginu á suðvestur horninu, var ákveðið á dögum fyrrverandi ríkisstjórnar og þáverandi forstjóra Landsvirkjunar, Friðriks Sóphussonar. 

Til að skapa atvinnu verður að söðla algerlega um og stokka forgangsröðunina upp.  Leggja verður gæluverkefni á borð við aflsæstreng, sem Valdimar K. Jónsson, prófessor emerítus við vélaverkfræðiskor Háskóla Íslands, veltir fyrir sér með gagnrýnum hætti í Morgunblaðinu 20. apríl 2012, á hilluna og taka að nýju upp heilbrigt viðskiptavit, sem Landsvirkjun gat sýnt á árum áður og býr að enn, en fær ekki að njóta sín. 

Eins og hér hefur verið rakið, hafa ríkisstjórnin og Landsvirkjun glutrað niður tækifærum til gjaldeyrissköpunar og atvinnueflingar.  Þessar fórnir hafa verið færðar á altari fordómafullrar stjórnmálastefnu vinstri grænna og forstokkaðs hóps sérvitringa innan Samfylkingarinnar.  Í skýrslu Gamma um afleiðingar stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram, að tap Íslands á næstu árum einvörðungu af flónsku ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum muni nema 250 milljörðum kr og 5 þúsund ársstörfum.  Eru þá afglöp hennar í öðrum atvinnumálum landsins ótalin.  Vert er að leggja heildarmat á kostnaðinn af afturhaldinu umfram kostnað af t.d. borgaralegri ríkisstjórn.  Það mun þá koma í ljós, að þessi kostnaður árin 2009-2012 er hið minnsta 40 % hærri en kostnaður landsmanna varð af Hruninu.

Fyrir þetta verður ný ríkisstjórn að bæta strax eftir næstu Alþingiskosningar.  Þá þarf að kynna til sögunnar framsækna fjárfestingarstefnu með lækkun skatta og raunhæfa verðlagningu raforku, sem þó tryggir endurgreiðslu fjárfestingar og vaxtakostnaðar á um 2/3 hluta umsamins orkusölutímabils.  Eftir það tímabil mala virkjanirnar gull, heimilum og fyrirtækjum landsmanna til hagsauka.  Allt tal um brask með orkuna og okur á heimilum og fyrirtækjum hérlendis er forkastanlegt og ber að kæfa í fæðingu.

Jón Þorláksson, verkfræðingur og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og tveir næstu formenn hans, Ólafur Thórs, og Bjarni Benediktsson, lagaprófessor, mótuðu stefnu hans og skópu stóran stjórnmálaflokk með breiða skírskotun á grundvelli víðsýnna viðhorfa.  Þar var frelsi einstaklingsins hyrningarsteinninn, og burðarstólpar voru lýðræði og athafnafrelsi.  Allt þetta á mætavel við í dag.  Það er almannahagsmunum fyrir beztu, að athafnalífið fái að dafna með sem minnstum opinberum afskiptum, og að skattar séu sem lægstir á fjölskyldur og fyrirtæki. 

Á 6. áratug 20. aldar fóru Vestur-Þjóðverjar langt með að reisa land sitt úr rústum Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Þá komu fram á sjónarsviðið tveir menn, sem opinberlega leiddu Þjóðverja á gríðarlegu uppbyggingarskeiði.  Þeir voru Dr Konrad Adenauer, kanzlari, og Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra, og síðar kanzlari í Bonn.  Þessir tveir menn sameinuðu Þjóðverja undir merkjum "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi.  Þannig má einmitt lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins. 

Eftir næstu Alþingiskosningar þarf flokkurinn að sameina þjóðina til viðreisnar lands og þjóðar undir merkjum markaðshagkerfis með félagslegu ívafi.  Markaðshyggjan mun fóðra dráttarklár framfaranna, og sameiginlegum sjóðum landsmanna verður beitt til að tryggja öllum landsmönnum öryggisnet. Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur reist íslenzka hagkerfið úr rústum hruns heils fjármálakerfis og fjagra ára óstjórnar og ráðaleysis í kjölfarið.    

   

Brandenburger Tor

 

 

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband