Ofmat á evru - söguleg mistök

Mynt án ríkisfangsEin bezta afurð Evrópusambandsins (ESB), ef svo má að orði komast, er Innri markaðurinn, sem Ísland á aðgang að vegna aðildar að EES (Evrópska efnahagssvæðið). Á Innri markaði EES ríkir fjórfrelsið, þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu.  Þegar Frakkar voru með erfiðismunum að sannfæra Þjóðverja um réttmæti sameiginlegrar myntar, árin 1990-1991, notuðu þeir slagorðið "einn markaður-ein mynt".  Slagorðið fór vel í Þjóðverja, því að borðleggjandi var, að sameiginleg mynt mundi hafa í för með sér sparnað fyrir útflutningsdrifið hagkerfi Þjóðverja, þar sem ekki þyrfti að skipta úr einni mynt í aðra með kostnaði, sem slíku fylgir.  Þjóðverjar voru á þessum tímamótum ekki í stöðu til að hafna upptöku evru eftir að hafa neitað að greiða stríðsskaðabætur til Bandamanna, sem þeim þó var gert að gera við stríðslok, ef Þýzkaland yrði endursameinað. 

Flestir Þjóðverjar höfðu hins vegar mjög miklar efasemdir um réttmæti þess fyrir þýzka hagkerfið og gagnsemi þess fyrir þýzkan almenning að fórna Deutsche Mark. ("D-Mark, D-Mark, Schade, dass du alles vorbei ist", stóð á borðum á heyvögnum bænda á kjötkveðjuhátíðum, eftir að þýzka þingið féllst á myntfórnina.) Bankastjórn Bundesbank, þýzka seðlabankans, lagðist gegn gjörninginum og færði fyrir því hagræn rök, sem reynslan hefur sýnt, að voru hárrétt.  Þýzkir stjórnmálamenn töldu sig hins vegar fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þegar þeir ákváðu að ganga að skilyrði Frakka gegn samþykki þeirra sem hernámsveldis 1945 fyrir endursameiningu Þýzkalands, þ.e. að fórna Deutshe Mark og taka upp evru, en hafna jafnframt greiðslu stríðsskaðabóta.  Því má bæta við hér, að skuldir Þýzkalands voru þrisvar á 20. öldinni afskrifaðar, þ.e. Þriðja ríkið neitaði að greiða skuldir Weimar-lýðveldisins, árið 1953 voru skuldir Vestur-Þýzkalands afskrifaðar og grunnur lagður að "Wunderwirtschaft", og 1991 neitaði þýzka ríkisstjórnin undir forystu Dr Helmut Kohls, kanzlara, að greiða áfallnar stríðsskaðabætur vegna heimsstyrjaldarinnar 1939-1945.  

Evran hefur þjónað stærsta hagkerfi ESB, Þýzkalandi, vel hingað til, enda verður Evrópubankinn í Frankfurt, ECB, eðli málsins samkvæmt, að taka mest tillit til aðstæðna í efnahagskerfi Þýzkalands.  Hagsveiflan í minni hagkerfum evrusvæðisins verður að vera samstiga hagsveiflunni í Þýzkalandi, ef ekki á illa að fara í minni ríkjunum.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Þetta hafa minni ríkin hunzað eða ekki megnað, og þess vegna er evran í sinni núverandi mynd í raun komin á leiðarenda núna.  Því má bæta hér við, að næststærsta hagkerfi Evrulands, stendur illa, því að skuldir hrúgast upp hjá Frökkum, sem reka ríkissjóð með 6 % halla af VLF.  Það er allt að krebera undan þýzka stálinu.  

Myndin hér að neðan frá óeirðum í Aþenu í júní 2011, þar sem táragasi var beitt, varpar ljósi á þá staðreynd, að þótt stefna ESB-forkólfanna hafi steytt á skeri, berja þeir hausnum við steininn fram í rauðan dauðann og þess vegna styttist í óreiðukennt gjaldþrot Grikklands með hugsanlegri úrsögn landsins úr evru-samvinnunni, sem gæti haft keðjuverkandi áhrif á ríki í vandræðum, s.s. Írland, Portúgal, Spán og Ítalíu.  Þar með væri komin upp alveg ný og mjög tvíræð staða innan ESB.  Það er mjög óskynsamlegt af íslenzkum stjórnvöldum að halda áfram viðræðum við ESB um aðild Íslands við þessar aðstæður. Með óbreyttri efnahagsstefnu á Íslandi fær Ísland aldrei aðild að Evrulandi, og það er heldur ekki eftirsóknarvert, þó að nauðsyn beri til breyttrar efnahagsstjórnunar, eins og stiklað verður á hér á eftir.  

Grikkland júní 2011Frá árinu 2003 hefur síbylja Samfylkingarinnar hljómað: "burt með krónuna-tökum upp evruna".  Forkólfar Samfylkingarinnar hafa jafnframt látið að því liggja, að Ísland hefði komið betur út úr bankahruninu en raun varð á með evru í stað krónu.  Þetta er þó órökstutt, eins og fleiri fullyrðingar þeirra um evruna og aðild Íslands að ESB.  Ef hér hefði verið evra sem lögeyrir árið 2008, eru tveir möguleikar.  ECB hefði ályktað, að ekki væri unnt að bjarga bönkunum vegna stærðar þeirra m.v. landsframleiðslu Íslands.  Þeir hefðu þá rúllað, en fallið hagkerfi setið uppi með mjög sterkan gjaldmiðil, sem gert hefði útflutningi mjög erfitt um vik.  Ef ECB hefði ákveðið að bjarga íslenzku bönkunum, hefði skilyrðið verið svipað og gagnvart Írum, þ.e. að íslenzka ríkið tæki verulegan þátt. Þá sætum við nú uppi með óyfirstíganlegar ríkisskuldir og dýran gjaldmiðil í stað snjallræðis Geirs Hilmars Haarde og ríkisstjórnar hans í nauðvörn að láta kröfuhafana taka skellinn, en hlífa íslenzkum almenningi eftir föngum. 

Annað mál er, að núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna hefur afhent sömu kröfuhöfum nýju bankana, sem var hið mesta glapræði og ósvinna gagnvart íslenzkum viðskiptavinum bankanna og meiri ástæða til krufningar fyrir Landsdómi en meint vanræksla Geirs Hilmars.

Aðildarsinnar halda sig enn við það heygarðshornið, að meginkosturinn við aðild að ESB muni verða að komast í myntbandalagið (EMU) og að taka síðan upp evru.  Hvað þarf eiginlega að gerast á evrusvæðinu eða í Evrulandi til að menn skilji, að evran gengur ekki upp ?  Evran var tilraun, sem mistókst.  Það er ekki unnt að halda úti sameiginlegum gjaldmiðli án sameiginlegs fjármálaráðuneytis.  Þetta hefur reynslan nú kennt mönnum, og hún er staðfest af Jean-Claude Trichet, bankastjóra ECB. 

Fáni Sambandslýðveldisins ÞýzkalandsÞað eru hverfandi líkur á, að öll evrulöndin samþykki slíkt.  Það mun þess vegna kvarnast úr evrusamstarfinu.  Jaðarríkin munu hrökklast út.  Halda menn, að Íslendingar mundu samþykkja slíkt yfirráðuneyti yfir sig ?  Það er af og frá.  Það er jafnvel hæpið, að þýzka þingið mundi samþykkja slíkt fullveldisframsal, sem sennilega stríðir gegn stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands (BRD).  

Ef evran er ekki lengur eftirsóknarverð sem raunhæfur myntkostur fyrir Íslendinga, eftir hverju er þá verið að slæðast með því að halda uppi rándýru umsóknarferli ?  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Ráðamenn Þýzkalands og Frakklands hafa lýst því yfir, að ESB muni ekki lifa af hrun evrunnar.  Sennilega er það ofmælt, enda er ekki víst, að evran líði undir lok, þó að Suður-Evrópa og jafnvel Írland muni hverfa úr henni.  Hagkerfin, sem eftir verða með evru, verða að vera mjög vel samstillt og sýna mikinn aga í ríkisfjármálum.

Það er einmitt þessi agi, sem er lykilatriði fyrir Íslendinga að sýna til að hér ríki stöðugleiki í efnahagsmálum.  Til að auðvelda stjórnmálamönnum verkið er hægt að setja ákvæði í Stjórnarskrá, sem eru jafnvel strangari en Maastricht-ákvæðin og banna fjárlagahalla, nema í skilgreindum undantekningartilvikum upp að 2 % af VLF, ef ríkisskuldir eru þá undir 50 % af VLF, og setja jafnframt skorður við útþenslu ríkisins m.v. hagvöxt undanfarinna ára og að hámarki 35 % af VLF (vergri landsframleiðslu).  

Seðlabankinn þarf að verða sjálfstætt stjórnvald undir forseta lýðveldisins, sem skipi stjórnarmenn.  Hlutverk bankans verði að halda verðbólgunni innan meðalverðbólgu viðskiptalandanna á hverju 5 ára tímabili, halda sveiflum í gengi myntarinnar innan við +/- 5 % á ári m.v. myntvog og að hámarka hagvöxt að uppfylltum framangreindum skilyrðum. 

Slíkar leikreglur fyrir þingmenn og ráðherra mundu skapa þann aga á framkvæmdavald og löggjafarvald, sem hefur vantað, en ætti að vera nauðsynlegur og nægjanlegur fyrir árangursríka hagstjórn. Með slíkum aga þarf ekkert yfirfjármálaráðuneyti með agavald (agalegt vald).

Í raun má segja, að skynsemi sé allt, sem þarf.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er brennimerkt óskynseminni.  Þetta þýðir, að séu tvær leiðir til að velja um í einu máli, er alveg öruggt, að þessi ríkisstjórn velur óskynsamlegu leiðina.  Þetta kemur auðvitað niður á hagsmunum almennings í landinu, en þeir eru fyrir borð bornir í hverju málinu á fætur öðru.  Afleiðingin er viðvarandi kreppa, atvinnuleysi, atgervisflótti, skuldasöfnun ríkisins, mikil verðbólga og gjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga auk stórfurðulegrar utanríkisstefnu, sem enda mun með ósköpum (skipbroti í Brüssel).    

 

   

 

    


Lýðveldisdagurinn 2011

Að þessu sinni er þess minnzt á Þjóðhátíðardeginum, að 200 ár eru liðin frá fæðingu þjóðhetjunnar, Jóns Sigurðssonar, forseta Alþingis, að Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Hlutur Jóns í sjálfstæðisbaráttunni við Dani var svo mikill, að fullyrða má, að framlag hans skipti sköpum um þróunina til fullveldis og lýðveldis, eins og hún varð, þó að hún hefði e.t.v. orðið með meiri krókaleiðum seinna án hans.  Í þessu sambandi má þó ekki gleyma forgöngumönnunum, sem skópu frjóan jarðveg, Fjölnismönnum, og öðrum, sem fram úr sköruðu, þ.á.m. Skúla Magnússyni, landfógeta, sem var fyrsti forgöngumaður iðnvæðingar Íslands með Innréttingunum (af þýzka orðinu Einrichtungen).  Allir voru þessir menn afburðamenn 18. og 19. aldar. 

Jón Sigurðsson var einnig mikill hvatamaður framfara og atvinnufrelsis í landinu, og taldi verklegar framfarir og verzlunarfrelsi mundu verða undirstöðu sjálfstæðis landsins.  Þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug, hvar í flokk Jón Sigurðsson mundi skipa sér nú á tímum. Ólíklegt verður að telja, að hann mundi verða upprifinn af hugmyndum nútímans um að binda trúss sitt við nokkuð, sem hæglega getur orðið að risaríki Evrópu, ESB, eins og ráða má af eftirfarandi tilvitnun í ræðu formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Alþingi nýlega í tilefni afmælisins:

 

„...,þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna, hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann meðal annars í þeirri vitneskju, að örfáir þingmenn á þingi, sem átti að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar, hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi; ekki frekar en þeir embættismenn, sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjærri Íslandsströndum."

 

Á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar er vert að huga að hlutskipti æskunnar.  Þar skipta menntamálin sköpum.  Hvernig er búið að æskunni í skólum landsins ?  Athugun á kunnáttunni sýnir því miður, að gæðum kennslunnar er stórlega ábótavant.  Hlustum á málfarið og lítum á ritsmíðarnar.  Hvorugt heldur máli í of mörgum tilvikum.  Framburður er slæmur, orðaforði lítill, allt morar í hortittum og ambögum, og stafsetningin er í molum.  Ekki þarf annað en að líta með öðru auganu á bloggið til að sjá, hvílíkur voði er á ferð.  Margir, sem rembast við að tjá sig á ritvellinum, hafa til þess enga burði og allsendis ófullnægjandi kunnáttu.  Kennslunni hefur stórlega hrakað, frá því að höfundur þessa vefpistils sat við fótskör merkra lærifeðra í Ísaksskóla, Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar (landspróf) og MR.

Nýlega kvörtuðu nemendur opinberlega undan því að fá ekki kennslu í Stjórnarskránni.  Þeir voru þá að afhenda Stjórnlagaráði hugmyndir sínar. Þegar þessi höfundur var í Laugarnesskólanum var kennt þar fagið Félagsfræði, og þar var Stjórnarskráin hluti af námsefninu.  Hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, hlýddi nemendum yfir hana. 

Handabakavinnubrögð hafa tekið við við skipulagningu námsskráa og skólastarfs, frá því að höfundur var í barnaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla, og þar til börn hans fetuðu síðan sömu slóð, þ.e. afturför í gæðum kennslunnar hefur aðallega átt sér stað á tímabilinu 1970-1990.

Tungumálakunnáttan er sama markinu brennd.  Stúdentar í raungreinum geta flestir lítið sem ekkert tjáð sig á þýzku eða á öðrum málum en ensku, og geta vart haldið uppi samræðum á ensku.  Þetta er mikil afturför.  Sama má segja um þekkingu á sögu Íslands og mannkynssögu.  Þessi þekking er algerlega í molum hjá mörgum stúdentum.

Hvernig er þá fagþekkingunni háttað ?  Þjóðfélagi okkar ríður á, að skólarnir skili frá sér fólki, sem fullnægir þörfum atvinnulífsins.  Því fer fjarri, að svo sé.  Fjöldi iðnaðarmanna er of lítill, og þekking þeirra er ekki í nógu miklum mæli sniðin við þarfir nútíma athafnalífs.  Vinnubrögð nýsveina eru yfirleitt ekki nógu vönduð, og þeir hafa hlotið ófullnægjandi þekkingu í notkun og bilanagreiningu á iðntölvum, svo að eitthvað sé nefnt.  Skólakerfið er 10-20 árum á eftir tímanum.  Það verður að auka gæði kennslunnar í grunnskólum, á menntaskólastigi og ekki sízt á iðnskólastigi.  Alveg sérstaka rækt þarf að leggja við verknámsbrautir.  Setja þarf fé í að reisa æfingaaðstöðu og tilraunaaðstöðu fyrir fólk í verknámi til sveinsprófs, iðnfræði, tæknifræði og verkfræði.  Verklegri þjálfun allra þessara hópa er áfátt, ekki sízt verkfræðinga í samanburði við starfsbræður þeirra erlendis, og slíkt er hneisa fyrir þjóðfélag, sem ætlar að verða öflugt, útflutningsdrifið framleiðsluþjóðfélag.  

Það verður að auka sjálfstæði skólanna í stað þess að drepa þá í dróma samræmingar og miðstýringar.  Þannig myndast samkeppni á milli þeirra.  Rekstrarform skólanna þarf að vera mismunandi, t.d. sjálfseignarstofnanir og einkaskólar auk skóla í eigu sveitarfélaga og ríkis.  Þeir eiga að keppa um nemendur og keppa um að skila frá sér nemendum sem hæfustum fyrir næsta skólastig fyrir ofan og/eða atvinnulífið.  Gæði menntunar skiptir sköpum fyrir hagfellda þróun þjóðfélagsins og samkeppnistyrk. 

Hvernig er atvinnulífið í stakk búið að taka við nemendunum ?  Því miður er nú við völd ríkisstjórn, sem lætur hvert tækifærið af öðru á sviði framfara framhjá sér fara.  Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur glutrað niður jafnmörgum tækifærum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þótt valdaferillinn sé skammur.  Þar sem þetta er ekki einvörðungu klaufaskapur, heldur meðvitað háttarlag, verður að kalla þessa ríkisstjórn afturhaldsstjórn.  Af glötuðum tækifærum um sinn má nefna einkasjúkrahús á Miðnesheiði í húsnæði reist af Bandaríkjaher, gagnaver á svipuðum slóðum, álver þar skammt frá við Helguvík sem og á Bakka við Skjálfanda, milljarðafjárfestingar í sjávarútvegi, sem útgerðarmenn hafa frestað vegna vingulslegs tals stjórnvalda og frumvarps um þjóðnýtingu í greininni og nú síðast lagasetningar, sem grefur undan aflahlutdeildarkerfinu.  Sams konar tal var reyndar haft uppi um orkuiðnaðinn og virkar mjög fælandi á fjárfesta.  Skattastefna stjórnvalda hefur og gert illt verra og kæft athafnalífið og einkaneyzluna.  Allt eru þetta sjálfskaparvíti fólks, sem heltekið er af stjórnmálalegum kreddum, en hefur engan gáning á hagsmunum athafnalífsins.  

Af þessum sökum er mikill hörgull á boðlegum tækifærum fyrir æskuna, þegar hún kemur út úr íslenzka skólakerfinu, enda er geigvænlegt, e.t.v. 20 %, atvinnuleysi á meðal ungs fólks á bilinu 18-29 ára.  Þetta er sjálfskaparvíti þröngsýnna, einstrengingslegra og fákænna stjórnvalda, sem fyrir slysni skolaði hér á valdastólana eftir Hrunið, en verða senn send á ruslahauga sögunnar, ef forsjónin lofar.  

Alls staðar í Evrópu eiga jafnaðarmenn og sameignarsinnar undir högg að sækja.  Öllum kosningum eftir Hrunið hafa þeir tapað, nema á Íslandi.  Líklegt má heita, að repúblikanar (lýðveldissinnar) hreppi Hvíta húsið í BNA í næstu forsetakosningum þar m.v. ástandið í hagkerfi BNA núna og mikið atvinnuleysi. Það er þó að sumu leyti skárra en í ESB.

Ástæðan fyrir óförum félagshyggjunnar er einföld.  Það liggur í augum uppi, að vinstri úrræðin duga ekki, þegar á herðir.  Á meðan allt leikur í lyndi og hægt er að slá lán fyrir sukki og óráðsíu í opinberum rekstri, sem jafnan fylgir stjórnmálaflokkum vinstra megin við miðju í ríkisstjórn, hanga lýðskrumarar og loddarar við völd á kostnað komandi kynslóða.

Í höfuðvígi jafnaðarmanna, Svíþjóð, var þeim ekki hleypt í valdastólana í síðustu kosningum til Riksdagen, en í Noregi er að vísu enn við völd ríkisstjórn með sama flokkamynztri og hér, en það er einvörðungu vegna olíusjóðsins, sem ríkisstjórnin sáldrar úr og smyr opinberan rekstur með.  Í Noregi er hlutur hins opinbera orðinn geigvænlega stór hluti þjóðarkökunnar, og það eru ótrúlega fáir í einkageiranum, sem halda þjóðfélaginu uppi.  Sagt er, að alls kyns bætur úr opinberum sjóðum standi undir fylgi félagshyggjuflokkanna. Það eru ær og kýr vinstri manna að taka úr einum vasa til að setja í annan, jafnvel vasa sömu persónunnar.  Þetta felur í sér rýrnun verðmæta og sóun.

Þrátt fyrir tímabundna velferð í Noregi, er norska þjóðfélagið ósjálfbært.  Norðmenn lifa nú á kostnað komandi kynslóða í boði lýðskrumara og loddara.  Hið norræna velferðarkerfi á að verða okkur víti til varnaðar.

Hvað er til ráða á Íslandi ?  Það hafa tapazt um 30 000 störf á Íslandi frá Hruni, sem þýðir, að nýting athafnalífsins er aðeins um 85 % um þessar mundir.  Þetta er meiri sóun auðlinda en við höfum ráð á og með svo lágri nýtni nær hagkerfið sér ekki á strik.  Ráðið við þessu eru mjög auknar fjárfestingar, enda eru þær mjög litlar og minnkandi nú.  Núverandi ríkisstjórn hefur engin áform um neitt slíkt og engan áhuga, nema síður sé; hún þvælist endalaust fyrir.  Það er nákvæmlega sama staðan hér og annars staðar í Evrópu að þessu leyti; félagshyggjuflokkarnir duga ekki til stórræða.  Þeir hugsa mest um skiptingu auðsins, en minna um sköpun hans.  Þegar öllu skiptir að stækka þjóðarkökuna, eyðir félagshyggjan tímanum í eitthvað annað, oftast er það kostnaðaraukandi í stað tekjuaukandi, og stjórnin skilar þess vegna í raun auðu við úrlausn á vandamálum samfélagsins í bráð og lengd.  

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur valdið stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.  Flokkarnir halda hvor öðrum í heljargreipum, og hrossakaupin sjúga merginn úr beinum beggja flokka.  Samfylkingin fékk leyfi til að sækja um aðild að ESB.  Áhugi Samfylkingarinnar á inngöngu Íslands í ESB er þó torskiljanlegur, því að hún virðist standa langt til vinstri við stefnu framkvæmdastjórnar ESB á flestum sviðum. 

Umsókn og aðlögun var of mikil fórn á grunngildum VG, enda troðið ofan í kokið á flokksmönnum af valdasjúkum formanninum.  Í staðinn fékk VG þó stöðvunarvald á öllum stórframkvæmdum, sem ríkið átti nokkurn kost á að stöðva.  Þetta veldur krötum miklum áhyggjum, og í heild er þessi samsuða banvæn fyrir flokkana, sem að ríkisstjórninni standa.  Það er bara tímaspurning, hvenær upp úr sýður, og annað þessara atriða mun valda stjórnaslitum áður en kjörtímabilið verður á enda runnið. 

Þá mun margur anda léttar, og þá þarf heldur betur að taka til hendinni í viðreisn á öllum sviðum.  Það er skylda borgaralegu flokkanna að búa sig vel og vandlega undir valdatökuna, kynna almenningi markmið sín og leiðir að þeim, og hrinda strax eftir stjórnarmyndun af stað aðgerðum til að ná settum markmiðum.  Öll markmið ættu að stuðla að aðalstefnumiðinu, að Ísland verði í hópi þriggja landa með beztu lífskjörin í Evrópu árið 2020. Minna sættum við okkur ekki við.  Ljúfan lýðveldisdag ! 

Jón Sigurðsson, forseti   

 

  

 

 

 

 

  

     


Að skjóta fyrst og spyrja svo

Ráðherrarnir hafa barið sér á brjóst og þótzt hafa unnið þrekvirki.  Þetta á ekki sízt við um Þistilfirðinginn, fjármálaráðherrann, Steingrím Jóhann Sigfússon, sem þykist hafa lyft Grettistaki í þágu þjóðarinnar.  Það eru þó alger öfugmæli.  Það litla, sem hann hefur komið í verk, hefur allt verið til bölvunar.  Þegar hulunni hefur verið lyft af gjörðum ráðherrans, kemur þetta í ljós.  Mesti kjaftaskur og strigakjaftur þingsins undanfarin ár reynist vera allt of veiklundaður til að standa í ístaðinu gagnvart útlendingum, sem sótt hafa að hagsmunum almennings á Íslandi.  Þetta kom berlega í ljós í Icesave-deilunni, þar sem hann sleikti skósóla samningamanna brezka og hollenzka ríkisins og gerði ítrekaðar tilraunir til að fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara án þess að blikna. Það var mikið gæfuspor þeirra sjálfra að taka ótvírætt af skarið og hafna áþján sameignarsinnans.  

Steingrímur tók jafnframt þátt  í stórfelldum blekkingaleik og áróðursstríði ásamt Seðlabanka Íslands og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), m.a. með rangfærslum um nettó eignastöðu Íslands gagnvart útlöndum, til að bæta áróðursstöðu sína og undirlægja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis í þeirri von, að smeygja mætti viðbótar fátæktarhelsi erlendra skuldbindinga um háls Íslendinga. Blekkingavefur ESB-undirlægja og taglhnýtinga þeirra fær ekki lengur dulizt. 

Þá hefur komið í ljós, að Steingrím hefur sárlega þrotið örendið í samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu íslenzku bankanna.  Hann nennti ekki að fara þá leið, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde mótaði, að láta ríkið eignast alla nýju bankana um sinn og yfirtaka eignir hinna gömlu með miklum afskriftum í andstöðu við kröfuhafana, heldur lét hann, gegn ráðleggingum Fjármálaeftirlitsins og gegn heilbrigðri skynsemi, kröfuhafa gömlu bankanna eignast þá nýju.  Aulahátturinn er með eindæmum.  Þessi maður er ekki einasta fallinn á prófinu, heldur eru afglöpin svo alvarleg, að varðar Landsdómi, sem hann, mistakasmiðurinn, endurvakti með húskörlum sínum.  

Steingrímur lét hagsmuni íslenzkra heimila og fyrirtækja lönd og leið um leið og hann var með "skjaldborg um heimilin" á vörunum ásamt gráa, ofdekraða fyrirbrigðinu í forsætisráðuneytinu (ekki er hér átt við gráa fiðringinn).  Lengra hefur ekki verið komizt í tvískinnungi og sviksemi við hagsmuni íslenzks almennings.  Hér var einkavætt í skjóli nætur til að losna við þrýsting frá ESB, sem að sjálfsögðu gætti hagsmuna sinna manna, fjármálafursta Evrópu.  Ef þessi tvö mál, Icesave og stóra bankaklúðrið, eru ekki tilefni til Landsdómsákæru, þá verður tæplega nokkru sinni slíkt tilefni.  Núverandi stjórnarandstaða á þingi verður að huga að þessu, þó að ferlið sé ófélegt, því að uppvakningurinn er þegar á kreiki.  Þeir, sem vöktu drauginn upp, skulu kenna á honum sjálfir hið sama og verða sproksettir.  Þar ber félagshyggjupostulana þrjá hæst, Atla, Steingrím og Ögmund.  Síðan verður auðvitað að laga lagagrundvöll Landsdóms að því, sem sómasamlegt er í nútímalegu lýðræðisríki.   

Nú hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, eftir miklar fæðingarhríðir, lagt fram tvö frumvörp um hrikalegt afturhvarf til slæmrar fortíðar  fiskveiðistjórnunarkerfisins í andstöðu við langflesta hagsmunaaðila í sjávarútvegi og í hróplegri andstöðu við hagfræðileg lögmál.  Í fortíðinni voru aðstæður í sjónum og á markaði ósambærilegar við nútímann, og þess vegna eru þessi frumvörp fullkomin tímaskekkja.  Flutningsmaðurinn virðist reyndar vera sjálfur tímaskekkja og jafnan sem álfur út úr hól að þeim þó ólöstuðum.  

Sameignarsinninn leggur frumvörpin fram í blindni og án þess að hafa hugmynd um afleiðingar gjörða sinna fyrir hagkerfi landsins.  Ábyrgðarleysi hans er algert.  Sem óviti með eldspýtur kveikir hann í mikilli byggingu, þegar hann nú setur undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, síðustu kjarasamninga og sjávarafurðamarkaði Íslendinga erlendis, í algert uppnám.  Fullkomlega dæmigert ráðstjórnarráðslag. 

Útgerðarmenn, sunnan, austan og vestan, hafa hins vegar reiknað út afleiðingar óráðsíu stjórnvalda fyrir sig, og fer mönnum þá að skiljast, hvers vegna útgerðarmenn hafa haldið að sér höndum um fjárfestingar frá myndun vinstri stjórnarinnar 1. febrúar 2009.  Aflaheimildir Vestmannaeyinga upp á 15´500 þorskígildistonn verða samkvæmt þessu tekin ránshendi af þeim og fengnar einhverjum öðrum, m.a. þeim, sem selt hafa frá sér aflaheimildir til hinna, sem verða rændir samkvæmt frumvörpunum.  Þetta er magnað argasta óréttlæti og valdníðsla að hálfu ríkisvaldsins, og það er fráleitt, að eignaupptaka af þessu tagi í anda ráðstjórnar standist ákvæði stjórnarskráar Íslands um eignarrétt og atvinnurétt. Vont er þeirra óréttlæti, en verra er þó þeirra réttlæti.

Um atvinnumissi og tortímingu rótgróinna fyrirtækja í sjávarútvegi, sem staðið hafa sig vel á markaðinum, í nafni öfundar, úlfúðar og stjórnlyndis, hefur Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og doktor í galdraofsóknum á Íslandi á 17. öld, einkum á Vestfjörðum, þetta að segja, samkvæmt Morgunblaðinu, 3. júní 2011:

"Það kemur mér ekkert á óvart, að þeir reyni að reikna sig til þessarar niðurstöðu".  Þá segir hún spár um atvinnumissi ekki munu standast.  "Ég mæli um og legg svo á, að það verði ekki",  svo ?!

Hjá þessum þingmanni, sem er varaformaður sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar Alþingis, bólar sem sagt ekkert á rökum fyrir mestu inngripum ríkisins í íslenzkt athafnalíf frá því að losað var um krumlur ríkisins utan um atvinnulífið á Viðreisnarárum 7. áratugar 20. aldarinnar.  Þingmaðurinn bregður sér meira að segja í líki galdrakindar og fer með heitingar.  Þessum þingmanni og öðrum sameignarsinnum á Alþingi er fyrirmunað að meta afleiðingar gjörða sinna fyrir framtíðar afkomu þjóðarinnar.  Þeir horfa einvörðungu aftur í tímann, hafa ekki getu til annars, og eru í heljargreipum stjórnmálakenninga, sem alls staðar hafa leitt til ófara og hörmunga, þar sem áhangendur þeirra hafa komizt til valda.  Eftirminnilegt dæmi er frá Zimbabwe, þar sem Mugabe tók land af grónum bændum og færði öðrum í nafni réttlætis, en viðtakendurnir, skjólstæðingar Mugabes, reyndust hins vegar algerir búskussar, og nú flytur gamla matarkistan, sem áður hét Rhodesía, inn matvæli.  Um er að ræða vitsmunalega eyðimörk á hefðbundna borgaralega mælistiku.  Ef sameignarsinnar næðu völdum í Sahara, yrði þar sandskortur innan tíðar.  

Þeir, sem fara með forræði ríkisvaldsins nú um stundir, hafa í raun ekki minnstu burði til að stjórna einu né neinu, hvað þá einu þjóðfélagi, eins og ofangreind dæmi sýna í hnotskurn.  Þetta eru hræsnarar, loddarar og lýðskrumarar, undirmálsfólk og klúðrarar, enda er ríkisstjórn þeirra sú allélegasta á lýðveldistímanum.  Í þessu ljósi má furðu gegna, að hún skuli enn njóta yfir 30 % fylgis í skoðanakönnunum.  Verða góðir menn að leggjast á árarnar til að svo verði ekki lengi úr þessu.  

Því hefur heyrzt fleygt, að félagshyggjuflokkarnir vilji fara í kosningar um téða sjávarútvegsstefnu sína, jafnvel að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hana.  Þetta er auðvitað fullkomið dómgreindarleysi af þeirra hálfu, eins og annað, sem úr þeim ranni kemur.  Vandi sjávarútvegsins eru auðvitað hrikalegar skerðingar aflaheimilda, sem átt hafa sér stað undandarin 20 ár, og töfralækningar loddara breyta þar engu um.  Kvótakerfið var og er markaðsvætt stjórnkerfi til að laga sjávarútveginn að þeirri staðreynd, að veiðigetan var og er langt umfram afrakstursgetu veiðistofnanna.  Fækkun skipa, vinnslustöðva og starfsfólks í sjávarútvegi var óhjákvæmileg aðlögun að raunveruleikanum til að sjávarútvegurinn yrði þjóðhagslega hagkvæmur.  Öðruvísi verður hann niðurgreidd þjóðfélagsleg byrði, haldið uppi sem þætti af byggðastefnu stjórnvalda, eins og í nágrannalöndum okkar.

Hvar, sem lýðskrumararnir koma, tala þeir nú í hræsnisfullum tóni um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og lofa tilfærslum aflaheimilda og auðlindagjalds til þess byggðarlags, þar sem þeir eru staddir þá stundina.  Gildir þá einu, hvort þeir eru staddir fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan.  Loddararnir boða betri tíð alls staðar við fjölgun fyrirtækja og starfsmanna í greininni.  Allir heilvita menn sjá, að þessi áróður töfralæknanna gengur ekki upp, heldur mun greinin í heild veikjast vegna þess, að ráðherra fjölgar ekki fiskum í sjónum.  

Það, sem mun gerast, er, að íslenzkur sjávarútvegur mun á ný komast á vonarvöl, eins og sjávarútvegur í Evrópu yfirleitt er.  E.t.v. liggur þar fiskur undir steini hjá Samfylkingunni, að þjóðnýting aflaheimilda og ráðherraræði yfir sjávarútveginum færi stjórnkerfi landsins nær stjórnkerfi ESB.  Það passar þó illa við yfirlýsingar í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, um, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ætti að verða öðrum til fyrirmyndar.  Því skal taka fagnandi hverju tækifæri, sem blindingjarnir í Stjórnarráðinu gefa til að takast á við þá um fiskveiðistjórnunina í baráttu fyrir Alþingiskosningar eða  fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón Bjarnason, ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hefur gert sig sekan um afspyrnu forneskjuleg vinnubrögð.  Með frumvarpi hans læsir félagshyggjan klónum að nýju í undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar með þeirri ráðstjórnarvæðingu og afskiptum stjórnmálamanna, sem slíku fylgir.  Að gösslast áfram með slíkt örlagamál án þess að áhættugreina það heitir að skjóta fyrst og spyrja svo, og er slíkt einkenni undirmálsmanna.

    Ráðherrar ræða saman   

  

    

 

   


Óeirðir á jaðarsvæðum evru

Fréttir berast um harðvítugar mótmælaaðgerðir á Spáni, Portúgal, Grikklandi og Írlandi, gegn stjórnvöldum þessara landa og ESB (Evrópusambandsins).  Ei er slíkt að ófyrirsynju, því að hagkerfi þessara landa hafa verið drepin í dróma.  Hagkerfi allra Suður-Evrópulandanna, sem hleypt var inn á evru-svæðið, höktir nú.  Alvarleg ógnun fyrir einingu ESB stafar nú af miklum mun á hagvexti og skuldastöðu innan ESB, sem hefur leitt til djúprar óánægju í suðurhlutanum með norðrið og gagnkvæmt. Evran er tekin að lækka og Þjóðverjar að ókyrrast í kjölfarið, því að þessi þróun ýtir undir verðbólgu.  Gjaldmiðilskreppa og þar með stjórnmálakreppa steðjar nú að ESB. Vandinn er svo geigvænlegur, að ástandinu hlýtur að lykta með uppstokkun.  Er ekki von, að Jóhanna, Samfylkingarformaður, geipi um bjartari tíð með blóm í haga, þegar Ísland tekur upp evru ?  Það verður þá önnur evra en við þekkjum nú. Kanski þessi sama Jóhanna vilji, að Ísland gangi í Sambandslýðveldið Þýzkaland ?

    Með evrunni lækkuðu vextir í Suður-Evrópu og á Írlandi og framboð lánsfjár jókst.  Brezkir, franskir og þýzkir bankar lánuðu mikið til þessara landa og hafa tapað töluverðu á gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga í kjölfar Hrunsins.  Nú blasir við ríkisgjaldþrot í þessum löndum, a.m.k. þremur þeirra, og þá munu hinir sömu lánadrottnar tapa enn hærri upphæðum.  Miklar áhyggjur eru innan ECB (Evrópubankans í Frankfurt) og í Berlín og París um framtíð evrunnar.  Markaðurinn er að missa trúna á, að Suður-Evrópa nái sér á strik án mikilla afskrifta lána og þess vegna er talið stutt í flótta frá evrunni.  Af þessum ástæðum er mikið karpað innan ESB um, hvernig eigi að bregðast við þessum vanda.  Á meðan blæðir þessum löndum út vegna allt of sterkrar myntar fyrir þau og hækkandi vaxta ofan í kreppuna. Einnig er ljóst, að evrópsk fjármálafyrirtæki (bankar, tryggingafélög o.fl.) munu tapa hundruðum milljarða evra áður en yfir lýkur.  Evrópa verður í sárum og ESB gæti gjörbreytt um eðli.  Þjóðfélagsórói og öfgastefnur gætu á ný haldið innreið sína í Evrópu.   

Á Íslandi ríkir líka furðulega öfugsnúin efnahagsstefna afdankaðra sameignarsinna, enda hefur landið sótt um inngöngu í ESB, og aðlögun að kerfi, sem leitt hefur til ofangreinds öngþveitis, er hafin.  

Efnahagsstefnu rauðgrænu sauðahjarðarinnar í Stjórnarráðinu má lýsa með einu orði-atvinnufjandsemi.  Að mati Seðlabankans hafa 28 000 störf tapast frá miðju ári 2008 eða 17 %.  Árið 2010 voru um 14 000 á atvinnuleysisskrá, svo að 14 000 hafa flutt utan eða horfið af vinnumarkaðinum með öðrum hætti.  

Ískyggilegt er, að störfum heldur áfram að fækka og sárafá ný störf verða til.  Það er þess vegna að verða ESB-ástand á íslenzkum vinnumarkaði, en í ofangreindum ESB-löndum ganga allt að 50 % ungmenna á bilinu 18-29 ára atvinnulaus.  Hvernig stendur á þessari stöðu mála á Íslandi þrátt fyrir eigin mynt, sem bjargaði landinu í Hruninu, þar sem útflutningsatvinnuvegirnir héldu sínu striki ?

Svarið er stefna og starfshættir "norrænu velferðarstjórnarinnar".  Hún hefur þyngt skattabyrði þegnanna og fyrirtækjanna meira en þekkist innan OECD (Efnahags-og framfarastofnunar þróaðra ríkja).  Ríkisstjórnin þenur út ríkisgeirann á kostnað einkageirans.  Hún er með allra handa afætur á jötunni.  Þessi þróun virkar þrúgandi á hagkerfið, og er einkavæðing margra starfssviða ríkisins lausnin auk brottrekstrar hlöðukálfa ráðstjórnarinnar.

Aðeins 125 000 manns vinna nú í einkageiranum.  Þeim þarf að fjölga í 155 000 manns á 3 árum, svo að hagkerfið rétti úr kútnum.  Starfsmaður í einkageiranum þarf árið 2011 að bera uppi framfærslu sína og 1,54 annarra, en árið 2007 aðeins 1,29 annarra.  Framfærslubyrðin hefur þyngzt um 20 % á 4 árum.  Þessi óheillaþróun undir vinstri stjórn girðir fyrir raunhæfar kjarabætur.  Krónuhækkanir verða brenndar á verðbólgubáli staðnaðs þjóðfélags.  Á ensku er þetta kallað "stagflation".  Þessum hræðilega vítahring vinstri mennskunnar verður ný ríkisstjórn að brjótast út úr.  Að öðrum kosti myndast hér evrópskt þjóðfélagsöngþveiti.

Það, sem ný ríkisstjórn þarf að gera fyrir hagkerfið í fyrsta áfanga, er eftirfarandi:

  1. Einfalda og lækka tekjuskatt launþega með einu skattþrepi (til ríkisins), 20 %, og frítekjumark við 2,0 Mkr, og afnámi undanþága og endurgreiðslna á skattgreiðslum.
  2. Lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 12 % af hreinum tekjum.
  3. Setja á eitt virðisaukaskattsþrep, 22 %, til einföldunar.
  4. Afnema aftur eignaskatt.
  5. Setja erfðafjárskatt í fyrra horf (2008).
  6. Lækka skattheimtu af eldsneyti um 20 %. 
  7. Koma samningum um stóriðju í Helguvík og á Bakka í höfn og þar með vinnu við viðeigandi virkjanir.
  8. Afnema gjaldeyrishöftin.
  9. Jafna atvinnurétt og tryggja atvinnurétt allra atvinnugreina í landinu gegn fjandsamlegri yfirtöku hins opinbera. 
  10. Losa fyrirtæki og einstaklinga úr viðjum fjárhagsafleiðinga Hrunsins.

Með þessu móti má auka fjárfestingar í landinu upp í 400 mia. kr á ári, sem á að geta aukið tekjur ríkisins strax um 50 mia. kr og með 4 % hagvexti á ári um 100 mia. kr á ári eftir 4 ár.  Með kostnaðarlækkunum í ríkisgeiranum með samkeppni um þjónustuna, eins og víða tíðkast, m.a. í Svíþjóð, og með beztum árangri í Singapúr, næðist jöfnuður á fjárlögum á fyrsta kjörtímabili, og landið kæmist á hraða siglingu á vængjum hagvaxtar út úr skuldafjötrunum. 

Með því að koma byggingariðnaðinum og verktakageiranum með þessum hætti á fætur aftur auk öflugrar þjónustu við sjávarútveginn, ásamt þróun ferðamannaiðnaðar og smáiðnaðar af margvíslegu tagi, er ekki óraunhæft að ætla, að á 6 árum muni takast að fjölga í einkageira atvinnulífsins um 30 þúsund manns og samtímis að auka við framleiðnina með heilbrigðri samkeppni, svo að traustur grunnur skapist til kjarabóta.

Með gunnfána af þessu tagi eiga borgaraflokkarnir að geisast út á vígvöllinn í baráttu fyrir næstu Alþingiskosningar.  Valið stendur á milli atvinnu, hagvaxtar og sjálfstæðis annars vegar og atvinnuleysis, stöðnunar og þjóðargjaldþrots hins vegar.       

      

     Mynt án ríkisfangsGrikkland í fjárhagsvanda


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband