Lausn á orkuvandanum í sjónmáli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að jarðarbúa skortir ekki orkulindir.  Þá hefur hins vegar um allnokkurt skeið skort nothæfar orkulindir, sem ekki valda slæmum umhverfisáhrifum við nýtingu.  Þetta er eitt mest knýjandi viðfangsefni nútímans.  

Kolabirgðir jarðarinnar gætu endst í a.m.k. 300 ár enn m.v. núverandi notkun, en áhrif kolabruna á nærumhverfið eru geigvænleg, eins og hryllileg loftmengun í Kína er dæmi um, og hnattræn áhrif með hlýnun jarðar verða afdrifarík, ef ekki verður þegar í stað gripið til róttækra mótvægisaðgerða. 

Þekktar olíubirgðir jarðarinnar munu endast í u.þ.b. öld enn að óbreyttri notkun, og afleiðingar olíubrennslu á loftslagið eru einnig mjög slæm. 

Jarðgasbrennsla í orkuverum er ekki endanleg lausn, en getur hjálpað dálítið til við lausn vandans, því að það mun endast í yfir 300 ár m.v. núverandi notkun og þekktar birgðir, og jarðgas veldur minnstri mengun við bruna alls kolefniseldsneytis.  Eins og kunnugt er, hefur framboð á jarðgasi aukizt með nýrri vinnslutækni, setlagasundrun (e. shale fracking), sem reist er á lóðréttri og láréttri borun og þrýstingi á miklu magni af vatnsblöndu eftir láréttu göngunum. 

Kjarnorkan átti að leysa úr vanda mannkyns við rafmagnsvinnsluna, en úraníum-eldsneytið hefur reynzt vera stórvarasamt, eins og nokkur kjarnorkuslys, þó að sjaldgæf séu, hafa varpað ljósi á.  Úrgangur úraníumeldsneytisins og afleitt efni, plútoníum, er mjög geislavirkur með langan helmingunartíma geislavirkni og er þannig stórhættulegur öllu lífi í tugþúsundir ára.  Það er hægt að eyða þessari hættu, en flutningar úrgangsins eru hættum bundnir, og eyðingin er bundin áhættu og er rándýr.  Þessum vanda hefur að miklu leyti verið sópað undir teppið með því að steypa úrganginn inn og sökkva klumpunum í vötn eða að koma þeim fyrir í saltnámum eða í manngerðum hvelfingum í fjöllum.  Þetta eru heldur óvandaðar aðferðir m.t.t. komandi kynslóða og í raun óviðunandi. 

Af þessum sökum hafa þjóðir á borð við Svía og Þjóðverja ákveðið að leggja kjarnorkuver sín niður, hinir síðarnefndu eigi síðar en árið 2022.  Þetta er gríðarlega róttæk ákvörðun, sem virðist hafa notið stuðnings meirihluta viðkomandi þjóða, en nú eru að renna tvær grímur á marga vegna kostnaðar og hækkunar raforkuverðs, sem lokun kjarnorkuveranna óhjákvæmilega hefur í för með sér.  

Hvað tekur við, er ekki almennilega ljóst.  Tiltækir endurnýjanlegir orkugjafar eru dýrari en svo, að einstakar þjóðir, t.d. Þjóðverjar, hafi efni á að taka þá upp og geti um leið haldið samkeppnihæfni sinni við aðrar þjóðir.  Undantekning frá þessu er e.t.v. lífmassi, sem aðallega samanstendur af viðarleifum og tilreiddu viðareldsneyti á formi viðarmola (e. pellets), en getur ekki staðið undir allri raforkuþörf ásamt vindorku, sólarorku, vatnsorku og jarðgufu með núverandi tækni.  Evrópusambandið, ESB, hefur ekki tekið upp þessa stefnu Þjóðverja, Orkuvendipunktinn (þ. die Energiewende), enda mundi þá samkeppnistaða ESB við umheiminn verða vonlaus.

Sólarhlöðurnar eru langóhagkvæmastar allra orkugjafanna, sem framleiða rafmagn án gróðurhúsaáhrifa.  Það kostar 189 kUSD/MW á ári að leysa kolaorkuver af hólmi með sólarhlöðum.  Næstóhagkvæmastar eru vindmyllurnar.  Vatnsorkuver geta leyst kolakynt orkuver af hólmi með hagkvæmum hætti, en langhagkvæmasti kosturinn í þessum efnum er kjarnorkan.  Viðfangsefnið er þá að þróa kjarnorkuver, sem algerlega eða að mestu eru laus við galla núverandi kjarnorkuvera.  Hugmynd að slíkri þróun er fyrir hendi, og þróun hennar mun að líkindum marka þáttaskil. 

Gaskynt orkuver eru hagkvæmust, en valda gróðurhúsaáhrifum.  Þetta er niðurstaða  útreikninga Charles Frank hjá rannsóknarsetrinu (Think-Tank) Brookings Institution, sem hefur lagt koltvíildisverðið 50 USD/t til grundvallar, en það er sjöfalt núverandi verð á koltvíildiskvóta í Evrópu.  Frank hefur reiknað út, að þessi kvóti þurfi að kosta 185 USD/t til að sólarhlöðurnar fari að skila arði.  Slíkt  verður aldrei, nema almenn samstaða náist um slíkt í heiminum.  Hagkerfi landa með slíkt verð á koltvíildiskvóta standast ekki samkeppni við hagkerfi landa með lágt verð á koltvíildiskvótanum.  Sólarhlöðurnar eru sem sagt meiri fjárhagslegur baggi á samfélögunum en virðist við fyrstu sýn, og það er þess vegna spurning, hvað um þær verður, ef nýr, skaðlítill og hagkvæmur orkugjafi kemur til skjalanna.  Þess ber að geta, að nýtni sólarhlaða batnar stöðugt, og verðið hefur lækkað hratt.  

Kostir Þóríums til raforkuvinnslu umfram úraníum hafa lengi verið þekktir.  Ástæða þess, að hætt var að þróa kjarnorkuver á kaldastríðsárunum, sem nota Þóríum eldsneyti, var, að ekki var unnt að nota úrganginn í kjarnorkusprengjur.  Plútoníum, sem myndast úr óbættu úraníum, er mjög geislavirkt og notað í kjarnorkusprengjur, en Þóríum er mjög erfitt, þó að ekki sé það útilokað, að nota í kjarnorkusprengjur. 

Það er til þrefalt til fjórfalt magn á jörðunni af Þóríum á við úraníum, svo að það mun endast a.m.k. í 200 ár, og þá munu aðrir orkugjafar hafa tekið við, e.t.v. samrunatæknin, þar sem 2 vetnisatóm mynda helíumatóm og mikla orku án geislavirkni.  Snemma á 3. áratugi þessarar aldar verða líklega tilbúin þungavatns-Þóríumver, t.d. í Kína og á Indlandi, þar sem mikill raforkuskortur stendur hagkerfunum og íbúunum fyrir þrifum og gríðarleg aukning er og verður á næstu áratugum á rafmagnsþörfinni.  Enn frekari þróun mun verða á Þóríum-kjarnorkuverunum í átt til ódýrari vera og öruggari.

Kínverjar standa nú frammi fyrir geigvænlegu mengunarvandamáli á láði, legi og í lofti.  Þeir eygja hér lausn, sem leyst geti kolakyntu orkuverin þeirra af hólmi, og fullyrða, að átak þeirra í rannsóknum á nýtingu Þóríums sé hið mesta í heimi á sínu sviði.  Samkvæmt Vísindaráði þeirra, "The Chinese Academy of Sciences", eru á vegum þess starfandi 430 vísindamenn og verkfræðingar og á að fjölga í 750 árið 2015, en þá er ráðgert að kynda upp frumgerð Þóríum- kjarnorkuofns.  Sá á að nota Þóríum á föstu formi, en árið 2017 ætlar Stofnun fyrir hagnýta eðlisfræði í Shanghai að prófa vandasamara, en þó heppilegra (öruggara) eldsneyti, sem er bráðið Þóríum-flúoríð. 

Þá er búið til efnasamband Þóríum-flúoríðs, því blandað í flúoríðsambönd berylliums og lithiums til að lækka bræðslumark Þóríums úr 1100°C niður í 360°C og þessi blanda brædd.  Henni er síðan dælt inn í sérhannaðan sundrunarkjarna, "reactor core", þar sem kjarnaklofnun hækkar hitastig blöndunnar upp í 700°C.  Þaðan er efnið leitt inn í varmaskipti til að flytja þennan nýja hita yfir í gas, venjulega koltvíildi eða helíum, sem síðan er látið knýja hverfla, sem snúa rafölum og framleiða rafmagn.  Frá varmaskiptinum er kældri flúoríðbráðinni snúið aftur til sundrunarkjarnans. Þóríum-flúoríð blanda er líklega framtíðar eldsneyti heimsins næstu tvær aldirnar.    

Þetta er í grófum dráttum virkni bandaríska tilraunakjarnakljúfsins á Oak Ridge National Laboratory, sem starfaði á 7. áratuginum.  Í nútímabúningi er hann kallaður LFTR - Liquid-Fluoride Thorium Reactor eða Flúoríðvökva Þóríum kjarnakljúfur, FVÞK.

Einn mesti kosturinn við LFTR er, að hann vinnur við einnar loftþyngdar þrýsting.  Þetta hefur áhrif á hagkvæmni kjarnorkunnar.  Í léttvatnskjarnakljúfi, en slíkir eru mest notaðir núna, er kælivatnið undir óhemju háum þrýstingi.  Þar af leiðandi verður að hýsa léttvatnskjarnkljúfa í stálþrýstigeymum inni í gríðarsterkum steyptum hvelfingum, sem standast áraunina, ef kælikerfið bilar og geislavirk gufa losnar úr læðingi.  LFTR þarf hvorki stálþrýstigeymi né steypta hvelfingu utan um kjarnakljúfinn.

Aðeins 0,7 % af úrani í náttúrunni er af samsætunni U235, sem er kjarnakljúfanlegt.  Það er dýrt að vinna hana, en allt Þóríum, sem finnst, er nýtanlegt í kjarnakljúf.  Af þessu öllu má ráða, að Þórium-kjarnorkuver er mun hagkvæmara en úraníum-kjarnorkuver.  Þóríum-úrgangurinn er miklu hagstæðari en úraníum-úrgangurinn.  Það er innan við 1 % af úrgangs-Þóríum m.v. úrgangs-úran, og geislavirknin fellur niður fyrir öryggismörk á fáeinum öldum í stað tuga árþúsunda, þ.e. helmingunartíminn er u.þ.b. 1 % af helmingunartíma úrans.  Geislunin verður því aðeins 100 ppm af Þóríumúrgangi m.v. úranúrgang og þess vegna viðunandi. 

Þóríum-kjarnorkan veitir kost á mjög samkeppnihæfri raforkuvinnslu með lítilli áhættu jafnvel öldum saman, og getur bjargað jörðinni frá þeirri hættu, að meðalhitastig í neðstu lögum lofthjúpsins hækki um meira en 2°C, en þar fyrir ofan telja allmargir vísindamenn, að ekki fáist við síhækkun ráðizt, og þá væri úti um allt líf í núverandi mynd á þessari jörðu. 

Á Íslandi þyrfti aðeins eitt Þóríum kjarnorkuver til að framleiða allt það rafmagn, sem nú kemur frá virkjunum landsins og tvö slík til að framleiða á við alla virkjanlega jarðgufu og vatnsföll landsins.  Slíkt hentar hins vegar ekki núverandi flutningskerfi raforkunnar.  Þessi stærð hentar hins vegar vel í fjölmennari og þéttbýlli löndum, eins og Englandi, en Skotar hafa varla þörf fyrir slíkt. Með því að setja kraft í þróun Þóríum-kjarnorkuversins mundu Bretar og Þjóðverjar skjóta Frökkum ref fyrir rass í orkumálum, en Frakkar framleiða meira en helming sinnar raforku með úraníum-kjarnorkuverum og eru fyrir vikið eins konar raforkustórveldi.    

Það er útilokað, að sæstrengur frá Íslandi til Bretlandseyja eða norðurstrandar meginlands Evrópu geti nokkurn tíma keppt við Þóríum-kjarnorkuver í þessum löndum.  Þess vegna væri Landsvirkjun og Iðnaðarráðuneytinu nær að skrínleggja strax allar hugmyndir um útflutning og innflutning rafmagns, sem hvort eð er eru algerlega fótalausar og reistar á barnalegri óskhyggju, en einbeita sér hins vegar að virkjunum og línubyggingum/strenglögnum fyrir innanlandsmarkaðinn.  Hann er miklu víðtækari en álver, járnblendi og kísilver.  Hann er ylræktun, fartæki og skip og á að verða hryggjarstykkið í samkeppnihæfni atvinnulífs, sem stendur undir lífskjörum á Íslandi, er standast þeim beztu snúning.      

  

 

 

          

 

 

 

 

 

 

 

Kjarnorka í samkeppni við kolKjarnorkuver í Japan


Orkumál víða í ólestri

Staða orkumála á Íslandi er einstök og ber að nýta þá stöðu enn betur en gert hefur verið til að styrkja samkeppnistöðu landsins.  Frumorkugjafarnir eru að mestu endurnýjanlegir, þ.e. jarðhiti, sem sér fyrir 68 % orkuþarfarinnar, og vatnsorkan, sem sér fyrir 18 % orkuþarfarinnar, alls 86 %, en olía, kol og gas, aðeins sér okkur fyrir aðeins 14 % heildarorkuþarfar.  Þetta er mjög óvenjuleg, sterk og góð staða fyrir þjóðarbúskapinn.

Þjóðverjar, sem mest allra leggja á sig til að losna undan óendurnýjanlegum frumorkugjöfum, hafa að markmiði að endurnýjanlegu frumorkugjafarnir, sól, vindur og lífmassi (vatnsorka og jarðhiti eru ekki talin sérstaklega), standi fyrir 80 % raforkuvinnslunnar og 60 % heildarorkunotkunar sinnar árið 2050.  Þessi stefna er og mun verða gríðarleg byrði á þýzku efnahagslífi og mun hamla hagvexti þar.  Þar af leiðandi er líklegt, að Þjóðverjar muni leita annarra leiða.  Hægt er að benda á eina slíka leið, sem er þróun kjarnorkuvera með aðeins broti af áhættu kjarnorkuvera, sem kynt eru með úrani. 

"Die Energiewende" eða Orkuvendipunktur Þjóðverja felur í sér að losna bæði við kjarnorku og jarðefnaeldsneyti úr rafmagnsvinnslunni.  Þetta er þýzka hagkerfinu gríðarlega dýrkeypt, og að öllum líkindum er þetta röng stefnumörkun.  Hún hefur enn litlu skilað til að draga úr gróðurhúsalofttegundum, því að brúnkol stóðu árið 2013 undir 26 % af raforkuvinnslunni, eins og árið 2003, og kol stóðu undir 20 % árið 2013, en 25 % árið 2003.  Jarðgas stóð undir 10 %, eins og 2003. 

Hins vegar hefur hlutur kjarnorku minnkað úr 27 % í 15 % á téðu tímabili.  Á móti hefur endurnýjanleg frumorka, sól, vindur og lífmassi, aukið hlutdeild sína úr 8 % í  24 %.  Samkvæmt Orkuvendipunktinum á að slökkva á síðasta kjarnorkuverinu árið 2022. Nú verður að telja líklegra, að Þjóðverjar hefji þróun á nýrri gerð kjarnorkuvera, sem nota Þóríum-eldsneyti.  Verði það gert, verður hætt að greiða stórlega niður vinnslukostnað raforku með vindi, sól og lífmassa, og raforkuverð í Þýzkalandi mun lækka á markaðinum.

Þessi stefna orkusjálfbærni hefur notið hylli í Þýzkalandi af umhverfisverndarástæðum, en nú eru farnar að renna tvær grímur á almenning, og atvinnurekendur hafa allan tímann varað við afleiðingunum, sem eru töpuð störf og minni samkeppnihæfni. Orkulögin frá árinu 2000 tryggja hátt verð í 20 ár til virkjana, sem nota sól, vind eða lífmassa, og forgangsrétt þeirra til að selja sína orku inn á stofnkerfi Þýzkalands, meginflutningskerfið, sbr Landsnet hér.  

Mismunur markaðsverðs og hins tryggða lágmarksverðs úr endurnýjanlegum lindum er borinn af notendum.  Meðalheimili þarf nú að borga aukalega EUR 260 eða ISK 40.000 á ári í þessar niðurgreiðslur, sem er svipuð upphæð og greiða þarf fyrir ársnotkun rafmagns í einbýlishúsi á jarðhitasvæði á Íslandi án skatts.  Alls nemur kostnaður þessara niðurgreiðslna í Þýzkalandi EUR 16 milljörðum, sem er umtalsvert fé á þýzkan mæalikvarða.  Þýzk fyrirtæki, sem nota mikið rafmagn og standa í alþjóðlegri samkeppni, eru undanþegin greiðslu þessa mismunar, þ.e. niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku.  Þetta orkar tvímælis frá sjónarhóli allra hinna.  Það er víðar en á Íslandi, að hlaðið er undir fyrirtæki á útflutningsmarkaði, en almennt er viðurkennt, að slíkt ójafnræði getur aðeins gengið til bráðabirgða. 

Afleiðing þessara styrkja og forgangs til endurnýjanlegra frumorkugjafa hefur verið gríðarleg söluaukning, og sólarhlöður eru nú á flestum þökum í Bæjaralandi, og vindmyllugarðar setja sterkan svip á landslagið víða í Þýzkalandi og sýnist sitt hverjum. 

Sólarhlöður hafa lækkað um helming í verði á tímabilinu 2008-2013, og stofnkostnaður sólarorkuvers, þar sem sólarhlöður eru tæplega helmingur kostnaðar, lækkaði um 22 % á tímabilinu 2010-2013.  Á fáeinum sólríkum stöðum í heiminum er nú rafmagnsvinnslukostnaður með sólarhlöðum svipaður og í hefðbundnum kola- og gaskyntum orkuverum, en slíkt á ekki við um Þýzkaland, en getur átt við um Suður-Evrópu.  

Það er þó ekki allt, sem sýnist.  Paul Joskow við Massachusetts Institute of Technology hefur sýnt fram á hulinn kostnað við sólarhlöður og vindmyllur vegna slitrótts rekstrar þeirra, þar sem birta og vindstyrkur eru breytileg.  Þess vegna þarf að fjárfesta í og reka varaorkuver fyrir þessi vistvænu orkuver. 

Við útreikninga sína notaði hann kostnaðinn 50 USD/t CO2 losunar, sem er meira en sjöfaldur kostnaður við losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um þessar mundir, og þess vegna er hvergi hallað á kolefnisfríar orkulindir.  Niðurstaða Paul Joskows, þegar hann bar saman tap og ávinning af mismunandi orkulindum miðað við kolakynt orkuver, er sláandi:

  • Vindorka: tap kUSD 30 á ári per uppsett MW
  • Sólarorka: tap kUSD 190 á ári per uppsett MW
  • Vatnsorka: ávinningur kUSD 170 á ári per MW
  • Kjarnorka: ávinningur kUSD 310 á ári per MW
  • Jarðgas með endurnýtingu:ávinningur kUSD530 á ári á MW

Til að varpa ljósi á, hversu háar upphæðir er hér um að ræða, má geta þess, að virkjunarkostnaður fallvatna og jarðgufu á Íslandi er  2000 - 5000 kUSD/MW.  Þrátt fyrir að losun koltvíildis sé mjög hátt verðlögð í þessu dæmi, er stórtap af vindorku- og sólarorkuverum.  Það er m.a. út af lágum nýtingartíma þessara orkuvera, þ.e. samsvarandi því, að 25 % af tímanum séu vindorkuver á fullum afköstum og sólarorkuver aðeins 15 %, á meðan kjarnorkuver geta verið 90 % af tímanum á fullum afköstum, og stöðvanir þeirra eða afkastaminnkun eru flestar skipulagðar.  Þess ber að geta, að vindorkuver á Íslandi mundu spara vatn í miðlunarlónum, nema á yfirfallstíma þeirra, sem er um einn mánuður á ári.  Þess vegna þarf ekki varaafl fyrir vindorkuver hérlendis, en þau keppa í raun við þann valkost að auka miðlunargetu lónanna, sem nú er um 10 % of lítil.   

Samkvæmt ofanrituðu spara kjarnorkuver verðgildi losunar gróðurhúsalofttegunda upp á 400 kUSD/MW á ári, en sólarorkuver aðeins 69,5 kUSD/MW og vindorkuver 107 kUSD/MW.  Á Íslandi draga slík orkuver ekkert úr losun gróðurhúsalofttegunda, og hagkvæmni þeirra hérlendis má þess vegna mjög draga í efa.

Til að sólarorkuver borgi sig, m.v. þessa útreikninga, þyrfti losunargjald að nema 185 USD/t CO2.  Þetta er tæplega þrítugföldun á núverandi kostnaði í Evrópu, og það er útilokað, að hagkerfi Evrópu eða annars staðar geti borið svo háan kostnað til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Af þessum sökum er hægt að draga þá ályktun, að Orkuvendipunktur Þjóðverja sé ósjálfbær, þ.e.a.s. þeir hafa valið leið, sem er svo dýr, að þeir munu ekki ráða við hana.  Atvinnulíf þeirra og annarra, sem reyna þetta, mun lúta í lægra haldi í samkeppni vegna of mikils framleiðslukostnaðar.  Hér hafa Þjóðverjar reist sér hurðarás um öxl, eins og gerðist fyrir einni öld, er þeir ætluðu að skapa Þýzkalandi yfirburðastöðu á heimsmörkuðum með því að færa rækilega út kvíarnar á skömmum tíma og berjast samtímis á vestur- og austurvígstöðvunum.  Þeir réðu ekki við það, eins og sagan greinir frá.

Í þetta sinn eiga Þjóðverjar þó undankomuleið áður en þeir þurfa að lúta í gras. Hún er fólgin í að hanna og smíða kjarnorkuver, sem notar frumefnið Þóríum í stað úraníums og plútóníums í hefðbundnum kjarnorkuverum.  Þeir verða þá lausir við mestu geislavirknihættuna í rekstri, og geislavirkur úrgangur verður viðráðanlegt vandamál, þar sem magnið er undir 1 % af úrgangi frá jafnstóru úraníumveri, og geislavirknin fellur niður fyrir öryggismörk á um tveimur öldum í stað tuga árþúsunda, eins og nú er.

Þóríum-kjarnorkuver hafa burði til að leysa orku vanda heimsins, og eiga þess vegna framtíðina fyrir sér.  Þau geta staðið undir raunverulegri orkubyltingu, sem gæta mun um allan heim með jákvæðum hætti fyrir orkunotendur, og verður gerð nánari grein fyrir þeim á þessum vettvangi. 

Hitastigshækkun í andrúmslofti

   

 

     

 

    

 

 


Fjórða byltingin

Adrian Wooldridge og John Micklethwait á The Economist hafa skrifað áhugaverða bók, sem þeir nefna "Fjórðu byltinguna".  Hún er um þær ógöngur, sem vestræn þjóðfélög hafa ratað í með innleiðingu ríkisrekinnar velferðar, sem ríkið hefur yfirleitt ekki lengur efni á.

Þegar sameignarstefnan lét undan síga með gjaldþroti og hruni Ráðstjórnarríkjanna árið 1989, töldu sumir, að lýðræði að vestrænni fyrirmynd og frjálst hagkerfi í anda Adams Smiths hefðu borið endanlegt sigurorð af einræðisöflum og miðstýrðum hagkerfum.  Þeirra á meðal var stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama, sem sumarið 1989 lýsti yfir "endalokum sögunnar" í frægri ritgerð sinni.  

Þetta reyndist álíka áreiðanlegur spádómur og spádómur Rómarklúbbsins á 7. áratug 20. aldarinnar um endimörk vaxtar, "Limits to Growth", en samkvæmt honum átti olía og alls konar önnur verðmæt og eftirsótt efni, aðallega málmar, að klárast á 20. öldinni.  Rómarklúbburinn reyndist vera algerlega úti að aka í tæknilegum efnum og ekki gera sér nokkra grein fyrir hreyfiafli sögunnar, sem eru tækniframfarir og sókn mannsins eftir auknum lífsgæðum.  Þessi sókn leiðir til bættrar nýtingar á orku og hráefnum, aukinnar endurnýtingar og bættrar tækni við leit að og vinnslu auðlinda.  Rómarklúbburinn vanmat mátt samkeppni og markaðshagkerfisins. 

Það er hins vegar alveg rétt hjá þeim félögunum á The Economist, að þjóðfélagsaðstæður hafa í sögunnar rás þvingað fram róttækar breytingar í mannlegu samfélagi, sem hafa haft mótandi áhrif á hina sögulegu þróun. 

Fyrsta byltingin, sem þeir Wooldridge og Micklethwait tíunda, varð á 17. öld.  Þá hafði norðanverð Evrópa losnað úr viðjum kaþólsku kirkjunnar, sem ríghélt í forna guðfræði og kenningakerfi um alheim, en hafnaði vísindalegum kenningum um eðlisfræði og sólkerfið o.fl., sbr baráttu Galileo Galileis og Johannesar Keplers. 

Á 17. öld stóð kirkjan, einnig mótmælendakirkjur, jafnframt fyrir hrikalegum ofsóknum á hendur sjálfstætt hugsandi fólki, og brenndi það á báli í galdraofsóknum í því skyni að kveða niður frelsisanda og mótþróa. Bókabrennur voru haldnar og hótunum um eilífa útskúfun allra efasemdarmanna og kuklara.  Hún reyndi þar að halda í leifar alls umlykjandi valds síns yfir almúga og aðli með ógnarstjórn, en slíkt tekur alltaf enda.  Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar, og hið sama á við um sannleikann.  

Árið 1648 lauk Þrjátíu ára stríðinu í Evrópu, sem var á yfirborðinu trúarbragða styrjöld, en í raun var verið að knésetja Þýzkaland, sem var vígvöllur þessarar styrjaldar og var í heila öld að ná sér eftir hamfarir af manna völdum. 

Bylting 17. aldar var gerð til að styrkja ríkisvaldið, konung og keisara, til að gæta öryggis almennings.  Miðstýrðu ríkin í Evrópu, sem þá risu, náðu forystu í tæknilegum efnum á sviði skipasmíða, siglingatækni og vopnasmíði og gerðust í krafti þessa nýlenduveldi.  Miklar framfarir í raunvísindum og grózka í listum urðu í kjölfarið undir handarjaðri einvaldskonunga, sem deildu og drottnuðu með aðlinum.  Náði þessi þróun hámarki í Evrópu með iðnbyltingunni og kenningum Adams Smiths um Auðlegð þjóðanna, og hvernig skynsamlegast væri að skipuleggja hagkerfið og samfélagið til hámarks ávinnings fyrir sem flesta. 

Iðnbyltingin braut viðjar af almúganum, sem flykktist úr ánauð landeigenda og til bæjanna, þar sem hann fékk vinnu og eignaðist peninga í sveita síns andlitis.  Spillt forréttindakerfi aðalsins stóðst ekki þessa breytingu, og seint á 18. öld og snemma á 19. öld varð Önnur byltingin. 

Þar beittu frjálslyndir umbótasinnar sér í nafni Upplýsingastefnunnar gegn þunglamalegu konungsveldi og niðurnjörvuðu aðalsveldi og beittu sér fyrir ábyrgara stjórnkerfi, sem leyfði fleirum en aðalbornum að njóta sín.  Þetta varð grundvöllurinn að myndun borgarastéttarinnar, sem náði þjóðfélagslegum undirtökum í Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar á 19. öld.  Mikilvægasta framlag borgarastéttarinnar til samfélagsþróunarinnar var afnám forréttinda aðalsins og blöndun stéttanna þannig, að dugnaðarforkum og öðru atgervisfólki veittist tækifæri til að klifra upp stéttastigann og að komast í álnir. Þessi jöfnun tækifæranna hefur síðan í senn viðhaldið völdum borgarastéttarinnar og knúið þjóðfélagsþróun  áfram. 

Þessi þróun var síðan innsigluð með algerri kollsteypu konunga, keisara og aðals í Fyrri heimsstyrjöldinni og stofnun velferðarkerfa í byrjun 20. aldarinnar í hinni svo kölluðu Þriðju byltingu. Hér verður reyndar að geta snjallræðis Ottós von Bismarck seint á 19. öldinni að innleiða lífeyriskerfið til að friðmælast við þyzku borgara stéttina. 

Nú er hins vegar svo komið, að velferðarkerfin hafa vaxið getu þjóðarbúanna yfir höfuð, þar sem þau hafa í sér innbyggðan hvata til að þenjast stöðugt út og þjóðirnar eru sífellt að eldast.  Gamalmennum fjölgar stöðugt, og á sama tíma fækkar ungu fólki.  Þetta hefur þegar leitt til skuldasöfnunar ríkissjóða margra Vesturlanda, sem getur orðið óviðráðanleg án 4. byltingarinnar, sem þá miðar að því að minnka umfang ríkisvaldsins.  Höfundar "The Fourth Revolution" skrifa um þetta í bókinni:

"Eftir að hafa ofhlaðið ríkið með kröfum sínum, eru kjósendur ævareiðir yfir því, hvað það virkar illa."

Vandinn er sá, að stjórnmálamenn hafa orðið við sívaxandi kröfum kjósenda, en velt byrðunum yfir á næstu kynslóð með lántökum.  Þetta er ósiðlegt og verður að stöðva.  Höfundar bókarinnar boða hins vegar ekki niðurrif ríkisvaldsins, heldur vilja þeir berjast fyrir straumlínulögun þess og aukinni skilvirkni.  Það þarf að fást meira fyrir minna, sem þýðir uppstokkun og endurskipulagningu starfseminnar og minnkun sóunar.  Það verður að fara betur með skattféð.  Nær t.d. einhverri átt, að Alþingi gangsetji alls kyns rannsóknir á atburðum og stöðu stofnana og fyrirtækja án þess að skilgreina fyrst umfangið og afmarka hverri rannsókn kostnaðarramma ?  Rannsókn á falli banka, sparisjóða og stöðu Íbúðalánasjóðs hefur kostað hátt í 2 milljarða kr, og enn eru reikningar að berast.  Nei, þetta nær engri átt.  Það þarf að reka ríkissjóð, eins og vel rekið einkafyrirtæki, þar sem leitað er hagkvæmustu leiðar til að leysa hvert verkefni, þar með að úthýsa starfsemi með útboðum til að nýta mátt samkeppninnar, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa þegar gert í meiri mæli en við, enda mælast þær miklu hærri á frelsismælikvarða.  

Hér er verk að vinna fyrir núverandi ríkisstjórn.  Hún hefur á stefnuskrá sinni að lækka skatta og að lækka verðlag í landinu.  Þetta mun þó aðeins um skamma hríð draga úr tekjum ríkissjóðs, því að umsvif einstaklinga og fyrirtækja munu vaxa fyrir vikið, sem eykur skatttekjur hins opinbera, þó að skattheimtan lækki.  Þetta hefur þegar nú á árinu 2014 komið berlega í ljós.  Skatttekjur ríkisins eru meiri í ár en búizt var við, þó að skattar hafi verið lítillega lækkaðir og meiri skattalækkun sé boðuð.  Sú boðun hefur líka jákvæð áhrif á umsvifin.  Þetta eru þveröfug áhrif við þau, sem aukin skattheimta hafði á dögum vinstri stjórnarinnar og boðakapurinn, sem fólst í hótun þáverandi fjármálaráðherra: "you a´int seen nothing yet". 

Allir, nema ríkið, draga saman seglin við slíkar aðstæður, og skatttekjur ríkisins lækka þrátt fyrir hærri skattheimtu. Að sjálfsögðu gjalla strax hjaroma raddir um, að osiðlegt sé að sýna aðhald í ríkisfjármálum á sama tíma og verið sé að lækka skattheimtu. Þarna er einmitt komin meinloka jafnaðarmanna, sem alls staðar hefur leitt til óviðráðanlegra byrða á skattborgarana, sbr dæmið frá Svíþjóð, þar sem jafnaðarmenn voru búnir að koma ríku þjóðfélagi á kné, þegar kjósendur fólu borgaraflokkunum völdin seint á síðustu öld. 

   

  

    

 

 

 

 

  


Undarlegt háttarlag hunds um nótt

Embætti Umboðsmanns Alþingis hefir hin seinni árin ekki þótt ýkja afkastasamt.  Þó brá út af þessu nú í kringum verzlunarmannahelgina.  Þá á einni viku skrifaði Umbi 2 bréf til Innanríkisráðherra, og hefur annað eins lífsmark ekki sézt lengi hjá embættinu. 

Tilefni fyrra bréfsins virðist hafa verið, að Umbi hafi komið auga á rætin skrif um Innanríkisráðherra í sorpriti nokkru og fundizt þá sér renna blóðið til skyldunnar að kanna kringumstæður rannsóknar Ríkissaksóknara á samantekt úr Innanríkisráðuneytinu um málefni hælisleitanda.  Þetta skjal fjallaði um nokkrar staðreyndir varðandi hælisleitanda og var ekki meðhöndlað sem trúnaðarmál í ráðuneytinu með réttu eða röngu, og er þessi samantekt úr sögunni. 

Skjalið, sem öllu fjarðrafokinu olli, var hins vegar gildishlaðin fölsun á téðri samantekt.  Þar sem hér var um rætið skjalafals að ræða, átti alls ekki að hefja rannsókn, eins og falsaða skjalið kæmi úr ráðuneytinu, heldur átti að rannsaka skjalafalsið, ef talin var þörf á að rannsaka eitthvað. 

  Í svarbréfi Innanríkisráðherra kom fram, að ráðherra og ráðuneytið hefðu lagt sig í líma við að greiða fyrir rannsókn lögreglunnar, þó að hún gengi svo langt að leggja hald á gögn úr tölvu ráðherrans og starfsmanna hans.  Lögreglustjórinn í Reykjavík, sem annaðist rannsóknina fyrir Ríkissaksóknara, hefur staðfest bréf ráðherrans í öllu, sem máli skiptir.  Þar með mundi afskiptum Umba hafa lokið, ef allt hefði verið með felldu.  

Lögreglurannsókninni er lokið fyrir allnokkru, en Ríkissaksóknari heykist á að birta niðurstöðurnar, þ.e. hvort hún láti þar við sitja eða ákæri einhvern.  Skal spá því hér, að ekkert bitastætt hafi komið fram í þessari rannsókn, enda fór hún fram á fölskum forsendum.  Sættir Ríkissaksóknari sig ekki við orðinn hlut ?   

Sem áður segir skyldi maður nú halda, að bréfaskriftum Umba til Innanríkisráðherra um meint afskipti hennar af rannsókninni væri lokið.  Óekkí.  Umbi skrifaði strax annað bréf, og varðaði það aðeins að litlu leyti efni máls, eins og fram kemur hér að neðan í tilvitnun í fyrrverandi Hæstaréttardómara. 

Seinna bréf Umba var endemis sparðatíningur, og hefur annar eins ekki sézt síðan skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis birtist, þar sem rannsakendur hlupu út um víðan völl og hengdu sig í alls konar aukatriði, eins og formleg fundarboð og fundargerðir, í stað þess að varpa ljósi á raunverulegar orsakir þess, að Ísland varð svo fljótt og illa úti í hinni alþjóðlegu bankakreppu, sem enn er ekki séð fyrir endann á víða í Evrópu. 

Um seinna bréfið skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, í Morgunblaðið 8. ágúst 2014 undir fyrirsögninni:"Embættismaður fer offari".

"Þar eru bornar fram frekari spurningar, sem augljóslega hafa ekki minnstu þýðingu fyrir upphaflegt erindi umboðsmannsins.  Meðal þeirra má finna kröfu um, að hann fái að vita um "hvaða málefni/viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum".  Einnig vill hann vita, hver hafi boðað lögreglustjórann til fundanna, óskar eftir gögnum um þau málefni, sem þar hafi verið fjallað um og krefst jafnvel enn frekari upplýsinga, sem ekki hafa nokkra þýðingu fyrir það málefni, sem á að hafa verið tilefni afskiptanna í upphafi."   

Ályktun Jóns Steinars af fram komnum gögnum í þessu ómerkilega máli, sem aldrei hafði burði til að verða að máli á hendur ráðuneytinu, er, að Umbi stefni að því að koma höggi á ráðherrann og að svör og skýringar ráðherrans skipti Umbann engu máli.  Er hugsanlegt, að tómleika lekamálsins sjálfs eigi að bæta upp með illgirnislegum ásökunum á hendur ráðherranum sjálfum varðandi rannsókn málsins ?  Hér má þá taka svo til orða, að heldur er nú moldin tekin að rjúka í logninu.

Það er ljóst, að Umbi gætir ekki meðalhófs í þessu máli og er því kæranlegur fyrir brot á Stjórnsýslulögum.  Hann gætir heldur ekki jafnræðis og reglubundinnar stjórnsýslu. Jón Steinar orðar þetta þannig:

"Með ómálefnalegri þátttöku sinni í tilefnislausri aðför að ráðherranum grefur umboðsmaður Alþingis undan embættinu, sem honum hefur verið trúað fyrir."

Það er ekki nokkurt samræmi í vinnubrögðum Umba.  Hann stjórnast af geðþótta og snýst eins og vindhani.  Jón Steinar skrifar:

"Þetta mun hann gera, þó að fyrir liggi upplýsingar um, að hann hafi ekki talið nokkra ástæðu til að taka upp "að eigin frumkvæði" athugun máls vegna afskipta fyrri ráðherra dómsmála af rannsókn sakamála; afskipta, sem klárlega samrýmdust ekki lögum."  

Fyrir nokkru skrifaði Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, grein í Morgunblaðið, þar sem hann upplýsti um, að félag hans, Úrsus ehf, hefði kvartað undan stjórnsýslu Seðlabankans til umboðsmanns Alþingis.  Í kvörtuninni komu fram mjög alvarlegar ásakanir í garð Seðlabankans og bankastjóra hans, Más Guðmundssonar.

Tæpum 4 árum eftir kvörtunarbréf Heiðars Guðjónssonar til Umba hefur Umbi enn ekki komizt að niðurstöðu og gefið út álitsgerð.  Í 12. grein reglu nr 82/1988 stendur:

"Ávallt, er umboðsmaður lætur frá sér fara tilkynningu um mál, skal hann greina, hvað stjórnvald það, sem hlut á að máli, hefur fært fram sér til varnar."

Umbinn, sem vill láta líta út fyrir, að hann sé siðavandur, og gerir mikið veður út af siðareglum, sem ráðherrar eigi að setja sér og fara eftir, hefur þarna þverbrotið mikilvæga siðareglu embættis síns, sem honum ber að fara eftir í viðskiptum sínum við ráðherra og önnur stjórnvöld.  Þetta heitir, að embætti fari offari gegn einstaklingum og er mjög alvarlegur fingurbrjótur að hálfu þessa embættis, sem hlýtur að hafa eftirmála. 

Nú er spurningin: hvers vegna eru Ríkissaksóknari og Umboðsmaður Alþingis í krossferð gegn Innanríkisráðherra ?  Almenningur í landinu á rétt á að fá að vita það.  Það hlýtur að liggja fiskur undir steini.  Tengist þetta einhverju öðru máli, eða er þetta lúaleg aðför stjórnmálalegs eðlis ? 

Eitt er alveg víst: hvorki Ríkissaksóknari né Umboðsmaður Alþingis eiga að fá að ráða því, hver gegnir stöðu Innanríkisráðherra, eða hver gerir það ekki.   

 

 

 

    

 

 

 

 

 

 

 

Skjaldarmerki lýðveldisinshannabirnakristjansd


Adam Smith og Karl Marx

Síðdegis mánudaginn 28. júlí 2014 hélt Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, ásamt Samtökum skattgreiðenda, fund um frelsi.  Fyrirlestur á fundinum hélt Robert Lawson, prófessor við háskóla í Dallas/Texas.  Prófessor Lawson er mjög fær fyrirlesari og fangaði athygli fjölmenns hóps fundarmanna af báðum kynjum á breiðu aldursbili.  Eiga aðstandendur fundarins þakkir skildar.

Prófessor Lawson gat þess í byrjun, að nærfellt um tveggja alda skeið hefðu menn þráttað um, hvor þeirra kenningasmiðanna, Adam Smith eða Karl Marx, hefði haft á réttu að standa.  Adam Smith hélt því fram, að þjóðum (öllum stéttum) vegnaði betur, ef ríkisafskipti af atvinnulífinu væru í lágmarki og launþegar fengju að halda sem mestu eftir af umsömdum launum sínum, þ.e. skattar og önnur skyldugjöld væru lágir, og aðeins notaðir til að fjármagna það, sem ríkið væri betur fallið til að sjá um en einkaframtakið, s.s. löggæzlu og landvarnir. 

Ef menn legðu sig fram og stæðu sig vel í samanburði við aðra á markaðinum, mundu þeir að sönnu auðgast, en sá auður mundi fyrr en seinna hríslast um samfélagið og gera það allt auðugra en ella.  Ríkisvaldið hefði engan siðferðilegan rétt til að hlutast til um aðra dreifingu auðsins en þá, sem ákveðin er á markaðinum, enda væru slík inngrip hins opinbera líkleg til að virka letjandi á einkaframtakið, þannig að verðmætasköpun yrði minni en ella og þar með minni hagvöxtur. 

Heildin hlyti að líða fyrir ríkisafskipti.  Þetta þykir ýmsum liggja í augum uppi, þegar horft er til sögunnar, en ekki eru allir á sama máli.  Jafnvel þó að þeir séu á sama máli um hagvöxtinn, þá segja þeir sem svo, að ríkið þurfi að hafa afskipti af tekjudreifingunni í nafni réttlætisins.  Þetta réttlætishugtak er hins vegar afstætt, og það er erfitt að henda reiður á réttlætinu í því að rífa meira en aðra hverja krónu af ungu fólki, sem í sveita síns andlitis stritar við að koma sér þaki yfir höfuðið, svo að dæmi sé tekið.  

Karl Marx hélt því á hinn bóginn fram, að hefta yrði einkaframtakið verulega með miðstýrðu ríkisvaldi, sem skyldi sjá um, að allir legðu sitt að mörkum til samfélagsins eftir getu og fengju til baka frá samfélaginu eftir þörfum.  Auðvaldskerfið mundi leiða til ringulreiðar, og hin sögulega þróun mundi óhjákvæmilega leiða til falls þess, og framleiðslutækin mundu þá falla í hendur sameignarsinna, sem mundu beita þeim án gróðavonar einungis til að uppfylla þarfir samfélagsins. 

Þessi kenning reyndist alger hugarburður, og hefur ekki reynzt unnt að koma henni á með lýðræðislegum hætti, heldur hafa fylgjendur hennar brotizt til valda með ofbeldi og alls staðar myndað ógnarstjórn, þar sem þeir hafa náð völdum.  Alræði öreiganna hefur alls staðar orðið að fátæktarfangelsi.  

Í upphafi 20. aldar var mynduð lýðræðisútgáfa af Marxisma, jafnaðarstefnan, "socialdemokrati", en hún endar alltaf með að keyra viðkomandi samfélag í þrot með stöðnun hagkerfisins af völdum hárra og stigvaxandi ("progressive") skatta, sem letja til vinnu og hvetja til undanskota, og lamandi skuldasöfnunar hins opinbera, af því að fjárþörf hins opinbera vex stjórnlaust.   

Nú má auðvitað horfa þannig til sögunnar og athuga, hvort auðvaldskerfið eða sameignarkerfið hafi gefizt þjóðum betur.  Ef t.d. afkoma almennings í löndum Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu í Kalda stríðinu, þegar Járntjaldið skildi þessar þjóðir að og þær tókust á á stjórnmálavettvangi, er borin saman, þá mundi huglægt mat flestra verða, að auðvaldskerfið hafi borið sigurorð af sameignarkerfinu, enda varð hið síðar nefnda siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota. Það hafði hreinlega ekki efnahagslega burði til að keppa við auðvaldið og var jafnframt siðferðilega gjaldþrota, þefandi upp úr hvers manns koppi með fjölmennri leyniþjónustu og skjótandi flóttamenn á landamærum.

Þessi fallframmistaða nægir samt ekki öllum, eins og sjá má af skaranum á vinstri kantinum, sem enn heldur þar til af hugsjónaástæðum og telur þjóðfélagsmálum betur fyrir komið með forsjárhyggju, þar sem stjórnmálamenn með vissum hætti eru í hlutverki barnfóstra.  Það er ekki tilviljun, að slíkir þiggja margir laun úr ríkissjóði, og þeir eru einnig fjölmennir á fjölmiðlum og í menntakerfinu.      Er jafnan viðkvæðið hjá slíkum, að réttlætið sé vinstra megin í stjórnmálunum.  Ekkert er þó fjær lagi en að þjóðfélagslegt réttlæti eigi heima í höndum stjórnmálamanna, sízt af öllu þeirra, sem þenja vilja út opinbera geirann til að geta ráðskazt með sem mest fjármagn skattgreiðenda og endurúthlutað verðmætum á formi alls kyns fyrirgreiðslu og bóta, sem síðan eiga að tryggja þeim atkvæði bótaþeganna og völdin.  Siðblindan býr vinstra megin væri nær að segja, og hún er tilætlunarsöm: "Allt þitt er mitt", er viðkvæðið. 

Robert Lawson hefur safnað saman miklum tölfræðilegum gögnum og sýnt berlega fram á mikla, nánast einhlíta, fylgni á milli atvinnufrelsis og velmegunar allra stétta.  Hann notar 5 mælikvarða á atvinnufrelsi, þ.e.:

  1. umsvif ríkisins, ríkisafskipti, þ.e. lága skattheimtu, 
  2. traustan lagagrundvöll eignarréttar og skilvirkt og sjálfstætt dómsvald. 
  3. Heilbrigt peningakerfi.
  4. Frelsi til alþjóðlegra viðskipta
  5. Regluverk hins opinbera  

Þjóðir í efsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu að jafnaði þjóðartekjur á mann USD 36.466 árið 2011, en þjóðir í neðsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu USD 4.382.  Meðalaldur er 79,2 ár í efsta fjórðungi atvinnufrelsis og 60,2 ár í þeim neðsta.  Röð landanna eftir atvinnufrelsi er þessi í efsta hluta:

  1. Hong Kong
  2. Singapúr
  3. Nýja Sjáland
  4. Sviss
  5. Sameinaða arabíska furstadæmið
  6. Máritíus
  7. Finnland
  8. Bahrain
  9. Kanada
  10. Ástralía
  11. Chile
  12. Bretland
  13. Jórdanía
  14. Danmörk
  15. Tævan
  16. Eistland
  17. Bandaríkin
  18. Kýpur
  19. Þýzkaland
  20. Írland

Svíþjóð er nr 29, Noregur nr 31, og Ísland er nr 41. 

Það er gjarna viðkvæði vinstri manna, að þjóðfélagsfyrirmynda sé að leita á Norðurlöndunum.  Það kemur hins vegar í ljós, að eftir fjagra ára óstjórn vinstri manna á Íslandi hefur Ísland hrapað niður fyrir öll Norðurlöndin (Færeyjar og Grænland eru ekki í þessari upptalningu) í atvinnufrelsi.  

Undir borgaralegri ríkisstjórn erum við tekin að potazt aðeins upp aftur.  Það er sem sagt meira atvinnufrelsi á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.  Samkvæmt orðbragði vinstri manna er þá meira þjóðfélagslegt óréttlæti þar en hér.  Gaspur þeirra er auðvitað algerlega marklaust hjal, enda eru þeir málsvarar fallvaltrar þjóðfélagsstefnu, sem skortir svör við vandamálum nútímans, af því að hún er trénuð.   

Það er alveg ljóst, hvaða leið ber að fara til að efla hagsæld á meðal almennings á Íslandi ?  Það er sú leið, sem lyftir okkur upp úr 41. sætinu á kvarða atvinnufrelsis og upp fyrir hin Norðurlöndin.    

     

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband