Lokar á lækna og sóar opinberu fé

Heilbrigðisráðherra hefur gjörsamlega gengið fram af læknastéttinni.  Þetta framgengur af blaðagreinum, sem læknar hafa fengið birtar í sumar.  Hér verður ein slík gerð að umfjöllunarefni. Þar er talað tæpitungulaust. Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2018 undir heitinu:

"Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni",

og eru höfundarnir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir.  

Þeir sýna þar með skýrum hætti fram á, að útreikningar Ríkisendurskoðunar um 60 % kostnaðaraukningu ríkisins við þjónustu einkalæknastofa á 5 ára bili 2012-2017 sé villandi og nær sé 10 % kostnaðaraukning eða 2 % raunaukning á ári, sem þeir skýra á eftirfarandi hátt:  

"Fólksfjölgun var um 1,5 % á ári, og þegar öldrun þjóðarinnar er bætt við, má reikna með 2 % aukinni þjónustuþörf á ári.  Þá stendur eftir rúmlega 2 % hækkun á ári eða samtals 10 % á fyrrnefndu fimm ára tímabili.  Sú hækkun varð einfaldlega til vegna flutnings verka frá spítölunum í þetta ódýrara úrræði, og auðvelt er að ímynda sér, að með því sparist talsverðir fjármunir samhliða því, að þjónusta við sjúklinga batnar.  Verk hafa færzt út frá Landsspítala, en mikið af því, sem gert var á St. Jósefsspítala fluttist líka inn á samninginn á þessu tímabili.  Vonandi er, að nákvæmni Ríkisendurskoðanda í álitsgjöf sinni og útreikningum sé að öllu jöfnu meiri en í þessu tilviki."

Röksemdir ráðherrans fyrir aðför hans að einkareknum læknastofum standast ekki rýni, hvað sem kostnaðaraukningu líður.  Um það vitnar samanburður á einingarkostnaði skýru máli, eins og fram kemur í neðangreindri tilvitnun:

"Sumt liggur þó ljóst fyrir og talar skýru máli um mismunandi kostnað eftir því, hver veitir þjónustuna.

Dæmi: læknisheimsókn ósjúkratryggðra einstaklinga (t.d. ferðamanna), sem borga fullt verð fyrir þjónustuna, er mun hagkvæmari á stofu sérfræðings en bæði á heilsugæzlu og á göngudeild Landsspítalans.  Heimsókn til sérfræðings á stofu kostar í heildina 8.700 kr, á heilsugæzlu 9.600 kr, og dýrust er hún, eða 13.200 kr, á göngudeild spítala.  Heimsóknin á stofu kostar þannig 4.500 kr minna en á göngudeild Landsspítalans, sem þýðir, [að göngudeildin er tæplega 52 % dýrari en stofan - innsk. BJo]."

Glópska ráðherrans í sinni ýtrustu mynd að færa 500.000 heimsóknir frá læknastofum á göngudeildir spítala mundi auka samfélagslegan kostnað um 2,3 milljarða króna á ári.  Það verður að brjóta þennan hættulega ráðherra á bak aftur.

Lokakaflinn í ágætri grein læknanna styður þetta ákall:

"Sitjandi heilbrigðisráðherra og tveir síðustu forverar hans hafa samt ítrekað brotið þennan góða samning, m.a. með einhliða lokun á nýliðun lækna, sem þar með eru læstir úti úr landinu.  Samningurinn rennur út um næstu áramót, og ráðherra hefur margoft lýst því yfir, að nýr samningur verði aldrei gerður, nema á gjörbreyttum grunni.  Ódýrasta og bezta heilbrigðiskerfi í heimi verður að víkja til að flytja þjónustuna inn í ríkisrekstur, hvað sem það kostar.  Og það verður dýrt, því að hvort sem aukning umsvifa sérfræðilækna á stofu mælist 12 % á ári eða 2 %, leiðir sú aukning til mikils heildarsparnaðar í kerfinu.  Sé farið í hina áttina, og kerfið ríkisvætt, eykst kostnaður verulega á sama hátt.

Augljóst er, að heilbrigðisyfirvöld eru á villigötum.  Á meðan alþjóðleg þróun er í þá átt, að þjónusta hefðbundinna spítala minnkar samhliða aukinni þekkingu og tækni, sem einfaldar læknisverkin, rær íslenzki heilbrigðisráðherrann á móti straumnum.  Hann setur úrelt sjónarmið í öndvegi og setur stefnuna á að spara aurinn og kasta krónunni.  Fjárhagslega er ekkert vit í því, en alvarlegast er, að með áformum sínum læsir hann líka unga lækna og nýja þekkingu úti úr landinu.  Þennan glórulausa kúrs þarf að leiðrétta strax, opna samninginn, endurnýja hann og tryggja, að þjónusta sérfræðilækna verði áfram innan opinbera kerfisins.  Líðan og heilsa íslenzkra sjúklinga og grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru í húfi."

Þingmenn hljóta að láta til sín taka á komandi þingi vegna hneykslanlegrar framgöngu heilbrigðisráðherra í nafni fáránlegrar hugmyndafræði, sem veldur stórfelldri sóun almannafjár og skerðingu á atvinnufrelsi nýrra sérfræðilækna, sem hefja vilja bráðnauðsynlega starfsemi hér á landi.  Þessi ráðherra er í einu orði sagt tímaskekkja. 

 

 

 

 

 


Hvers konar stríð er þetta ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sérfræðilæknar hafa ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um að veita eigin stofuþjónustu með kostnaðarþátttöku SÍ.  Það er jafnframt ljóst, að læknarnir uppfylla öll skilyrði, sem hingað til hafa verið sett að hálfu SÍ fyrir samningi, og SÍ hafa verið fúsar til að semja, en heilbrigðisráðherra hefur með gerræðislegum hætti komið í veg fyrir samninga í hátt í tvö ár. 

Hér skal draga stórlega í efa, að núverandi ríkisstjórn styðji þetta fáheyrða stríð Svandísar Svavarsdóttur við læknastéttina í landinu, heldur er ástandið birtingarmynd á öngþveiti, sem hugmyndafræðileg slagsíða við stjórnun  heilbrigðiskerfisins hefur í för með sér.  Afleiðing hennar verður dýrari og verri þjónusta við skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, allt of hæg endurnýjun í læknastétt og stöðnun þekkingarþróunar í greininni, sem þá þýðir hlutfallslega afturför m.v. nágrannalöndin. 

Það er ömurlegt, að þessi staða skuli vera uppi á Íslandi 2018, en hún er afleiðing ríkjandi stöðu ríkisvaldsins við veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu.  Við því verður væntanlega lítið gert á næstunni, en það verður að sníða verstu agnúana af kommúnístísku kerfi, til að það virki almennilega (eins og kínversku kommúnistarnir vita og framkvæma daglega), og til þess þarf líklega atbeina Alþingis.  

Til merkis um alvarleika málsins er heilsíðugrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018 eftir kunnan og mikils metinn lækni, Sigurð Björnsson,

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi-hver er staðan og hvert stefnir ?".

Þetta var yfirlitsgrein um þróun og skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Hún var afar fróðleg og málefnaleg, en ekki fór á milli mála, að höfundurinn hafði miklar áhyggjur af núverandi stöðu, sem virðist stafa af steinbarni rökþrota ráðherra.  Verður nú gripið niður í greinina:

"Nýjasta ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda er sú að bregða fæti fyrir unga lækna, sem lokið hafa sérnámi og hyggjast koma til starfa á Íslandi með nýjustu þekkingu, og hefja störf innan heilbrigðisþjónustunnar með sama hætti og forverar þeirra hafa gert til þessa. 

Þeir fá ekki að starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, eins og þeir, sem fyrir eru, þannig að sjúklingar, sem til þeirra leita, þurfa að bera allan kostnaðinn af læknisheimsókninni sjálfir og eru þannig sviptir sjúkratryggingum, sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir frá unglingsaldri.  

Með þessu eru yfirvöld að innleiða mismunun, þar eð Tryggingarnar taka þátt í greiðslu fyrir þjónustu hjá sumum læknum, en ekki fyrir sömu þjónustu hjá öðrum læknum.  Þetta eru nýmæli, sem ganga þvert á vinnureglur Trygginganna og yfirlýsta stefnu yfirvalda til þessa.  

Ég fæ mig ekki til að rökræða þessa aðför yfirvalda að heilbrigðisþjónustunni; ég trúi því einfaldlega ekki, að við þessa ákvörðun verði staðið."

Hér er um siðlaust og kolólöglegt athæfi ráðherrans að ræða, sem ríkissjóður tapar stórfé á, eins og síðar verður sýnt fram á.  Ef hvorki ríkisstjórn né Alþingi taka fram fyrir hendur hins ofstækisfulla ráðherra, verður að reka málið fyrir dómstólum, því að  framferðið er kolólöglegt.  Það er ráðizt gegn atvinnufrelsi lækna, sem varið er í Stjórnarskrá, eins og atvinnufrelsi annarra stétta.  Það er brot gegn lögum um heilbrigðiskerfið, þar sem öllum sjúklingum er tryggður jafn réttur, en hér er um fjárhagslega mismunun að hálfu ríkisins að ræða eftir vali sjúklings á lækni.  Hvernig er hugarheimur stjórnanda, sem hagar sér svona ? 

"Því er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.  Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.  

Samtök lækna og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eru sem fyrr reiðubúnir að starfa með yfirvöldum að því að bæta þjónustuna og laga hana að breyttum ytri aðstæðum.  Þá þyrfti fyrst að skilgreina vandamálin og leggja síðan fram samstilltar tillögur til lausnar."

Vandamálið er of lítil samkeppni þeirra, sem þjónustuna veita, af því að ríkið er yfir og allt um kring í þessum geira.  Þess vegna hefur hann logað í illdeilum um kaup og kjör, af því að of lítil samkeppni er um vinnuaflið.  Það þarf að breyta fjármögnun ríkisstofnana á borð við Landsspítalann frá því að vera tilgreind fjárhæð á fjárlögum í að verða greiðslur fyrir verk, sem verkkaupinn, Tryggingastofnun/Sjúkratryggingar getur þá í sumum tilvikum valið verktaka að.  

Kostnaður við heilbrigðisgeirann vex stjórnlítið ár frá ári, og þessi þróun ógnar stöðugleika ríkisfjármálanna til lengdar litið.  Þetta er sjúkleikamerki á kerfinu, því að Íslendingar ættu ekki að búa við lakari heilsu en aðrar vestrænar þjóðir, þar sem mengun er hér miklu minni, nóg af hreinu vatni og þjóðin yngri en aðrar, t.d. í Evrópu.  Sigurður Björnsson reifaði þetta vandamál:

"Margir þættir hafa leitt til þess, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum; aukin þekking á orsökum og eðli sjúkdóma, þróun tækjabúnaðar, þróun og framleiðsla lyfja, flóknar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta, teymisvinna (aðkoma margra stétta að lækningu hvers sjúklings).  Sumar þjóðir hafa ekki náð að tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu og þannig dregizt aftur úr þeim þjóðum, sem betur standa."

Það eru nútíma lifnaðarhættir, óhollt matarræði, hreyfingarleysi, mikið lyfjaát og notkun vímugjafa, sem eyðilagt hafa heilsu fjölmargra.  Tækniþróunin hefur gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að fást við sjúkdómana, sem af þessum lifnaðarháttum leiða, og sömu sögu er að segja af hrörnunareinkennum, sem verða stöðugt algengari vegna meira langlífis en áður.  Almenningur er ekki nógu meðvitaður um gildi forvarna og mótvægisaðgerða upp á eigin spýtur án aðkomu heilbrigðiskerfisins, heldur reiðir sig á það, þegar allt er komið í óefni. 

Samfélagið greiðir bróðurpart kostnaðar heilbrigðiskerfisins, og almenningur er jafnvel ómeðvitaður um kostnaðinn.  Það er ekki kyn, þó að keraldið leki.  

Sigurður Björnsson reifaði fjármögnunina:

"Síðar varð Tryggingastofnun ríkisins til, og iðgjöldin voru innheimt með annarri skattheimtu hins opinbera.  Jafnframt voru sett lög og reglur um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þar sem gæta skyldi hagsmuna fólksins í landinu, og tíundaðar voru skyldur lækna og annarra starfsmanna.  Þannig varð til hugtakið heilbrigðiskerfi, sem að miklu leyti hefur verið fært undir stjórn embættis- og stjórnmálamanna í skjóli þess, að kerfið sé að mestu leyti fjármagnað af ríkissjóði (iðgjöldum fólksins til sjúkratrygginga), en lítið horft til þess, að heilbrigðisstarfsmenn hafa sjálfir þróað heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er meðal þess bezta, sem þekkist."

Þetta ægivald embættis- og stjórnmálamanna yfir heilbrigðisþjónustunni er jafnframt hennar helzti Akkilesarhæll.  Það er engin ástæða til að viðhalda þessu stórgallaða fyrirkomulagi, þótt greiðslur séu að mestu úr sameiginlegum sjóðum, heldur ber brýna nauðsyn til að auka fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði stofnananna.

Um fjórðungur af útgjöldum ríkisins eða miaISK 209 fer til heilbrigðismála.  Þetta hlutfall verður að hemja, því að annars munu aðrir nauðsynlegir þjónustuþættir ríkisins endalaust sitja á hakanum, t.d. vegakerfið, sem þarf stóraukin framlög, sem fartækjakaupendur og -rekendur standa reyndar ríkulega undir.  

Skipting kostnaðar er þannig:

  • Sjúkrahús: miaISK 92 eða 44 %
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: mia ISK 48 eða 23 %
  • Hjúkrun og endurhæfing: miaISK 47 eða 22 %
  • Lyf og lækningavörur: miaISK 22 eða 11 %
  • Alls miaISK 209

Í liðnum "heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um miaISK 12,5 eða 6 % af heild.  Þessi upphæð stendur undir útseldum kostnaði yfir 300 lækna, þ.e. launakostnaði þeirra og 300 annarra starfsmanna auk húsnæðiskostnaðar og tækjabúnaðar.Þessi kostnaður er við þjónustu í 500´000 heimsóknum sjúklinga, sem er svipaður fjöldi og hjá göngudeildum Landsspítalans og heilsugæzlum höfuðborgarsvæðisins til samans.  

Er einhver glóra í þeim málflutningi heilbrigðisráðherra, að færa eigi þjónustuna, sem þessi einkarekna starfsemi veitir, á göngudeildirnar og heilsugæzlurnar ?  Nei, það er brennt fyrir það.  Í fyrsta lagi geta þessir aðilar ekki tekið við þessari hálfu milljón heimsókna vegna aðstöðuleysis og sumpart þekkingarskorts, og í öðru lagi yrði slíkt mjög óhagkvæmt.  Þvert á móti mætti spara ríkissjóði fé með því að auka hlutdeild hinnar einkareknu starfsemi á kostnað hinnar opinberu, því að einingarkostnaðurinn er með eftirfarandi hætti hjá sérfræðingum í lyflækningum sem dæmi:

  • Á stofu:                 8900 ISK/koma 
  • Á heilsugæzlustöð:      9600 ISK/koma
  • Á göngudeild Landssp.: 13400 ISK/koma

 Af þessu sést, að heilbrigðisráðherra berst ekki hinni réttlátu baráttu fyrir málstað skattborgarans, og ráðherrann berst heldur ekki fyrir málstað skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, því að Sigurður Björnsson rekur það í grein sinni, að á tvo alþjóðlega gæðamælikvarða trónir íslenzka kerfið á toppinum.  Það er engum vafa undirorpið, að starfsfólk á sjálfstætt starfandi lækningastofum á sinn þátt í þessum háu einkunnum íslenzka heilbrigðiskerfisins. 

Þrátt fyrir að fá hæstu gæðaeinkunn er íslenzka heilbrigðiskerfis engan veginn dýrast, heldur var það í 8. sæti árið 2014 með kostnaðinn 3882 USD/íb og 8,9 % af VLF.  

Það er hægt að auka skilvirkni íslenzka kerfisins enn meira með því að efla þá starfsemi, sem skilvirkust er, á kostnað óskilvirkari starfsemi.  Einkareksturinn þarf því að efla, en ekki að rífa hann niður, eins og ráðherrann reynir á hugmyndafræðilegum forsendum.  Þetta er grafalvarleg brotalöm í embættisfærslu ráðherrans.  Ráðherrann hefur ekki látið sér segjast, heldur forherðist hún við gagnrýni.  Allt  ber þetta að sama brunni og ber vott um, að Svandís Svavarsdóttir rekur annarlegt erindi með embættisfærslu sinni og á ekki erindi í heilbrigðisráðuneytið.    

 

 

 

 


Grasrótin er á tánum

Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB.  Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum.  Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna.  Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli.  Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  

Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða.  Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli".  Þingmenn eiga frjálst val.  Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins. 

ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA.  Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert.  ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi. 

Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði.  Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það.  Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja.  Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.  

Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni.  ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.  

Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur.  Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.  

Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins.  Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki.  Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.

Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns.  Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda.  Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.  

Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi.  Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð.  Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu.  Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.  

Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks.  Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA.  Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT",  sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool. 


Undanskot í loftslagsbókhaldi

Þegar fjallað er um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum fólks og fyrirtækja hérlendis, er þætti millilandaflugs og millilandasiglinga iðulega sleppt.  Þar með er dregin upp kolröng heildarmynd og gert allt of mikið úr hlut landstarfseminnar í vandamálinu, sem orkuskiptin eiga að leysa.  Samið hefur verið um, að þessir losunarvaldar verði í bókhaldi EES með öðrum slíkum, en hið sama má segja um málmframleiðsluna, en hún er samt í íslenzka bókhaldinu.  Samkrullið við ESB á þessu sviði er til bölvunar fyrir Íslendinga, því að þeir hafa mikla möguleika á sviði kolefnisjöfnunar, en hún þarfnast hins vegar framkvæmdafjár frá losunarfyrirtækjunum.

Heildareldsneytisnotkun landsmanna án kola árið 2016 nam 1,46 Mt (Mt=milljón tonn), og fóru 0,98 Mt eða 68 % af heild til millilandaflugvéla og millilandaskipa.  Af þessu fóru um 80 % til flugsins eða 0,79 Mt.  Vegna þess, að losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum veldur tæplega þreföldum gróðurhúsaáhrifum á hvert losað tonn á við losun á jörðu niðri, jafngilti brennsla 0,79 Mt þotueldsneytis árið 2016 losun 7,11 Mt af CO2eq, sem er 52 % meira en "heildarlosun Íslands samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar", eins og Nína Guðrún Geirsdóttir skilgreindi "heildarlosun Íslands" 2016 í Baksviðsgrein í Morgunblaðinu 30. júlí 2018, en samkvæmt Umhverfisstofnun nam hún 4,67 Mt.  

Hvers vegna er þetta mikla misræmi ?  Losun flugs og siglinga heyrir ekki undir íslenzk yfirvöld, heldur undir Viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB), sem veitir Íslandi losunarheimildir samkvæmt samkomulagi á milli EFTA-þjóðanna í EES og ESB.  Þetta er ógæfulegt fyrir Íslendinga, því að þar með fer mikið fé úr landi til greiðslu fyrir losun, sem er umfram losunarheimildir. Þegar þetta ESB-kerfi var platað inn á íslenzka embættismenn, hafa þeir ekki gert sér grein fyrir, að hér er tiltölulega meira landrými til afnota fyrir kolefnisjöfnun með landgræðslu en annars staðar. 

Fyrir landgræðslu- og landbótaframkvæmdir á Íslandi til kolefnisjöfnunar er nauðsynlegt til góðs árangurs að fá gjald fyrir umframlosun inn í landið og ekki til ESB.  Innlend kolefnisjöfnun þarf að fá skriðþunga til að verða samkeppnishæf við erlenda, og t.d. skógrækt til kolefnisjöfnunar hefur alla burði til að verða hér samkeppnihæf. Möguleikar Íslands til kolefnisjöfnunar eru meiri en hinna EFTA-landanna, og þess vegna var mjög misráðið af íslenzkum yfirvöldum að flækja landinu inn í þetta samkrull, sem er blindgata og jafngildir glötuðu fé.    

Það er hins vegar ekki "system i galskapet" hjá Umhverfisstofnun, því að hún hefur með í sínu landsbókhaldi útblástur stóriðjunnar, sem þó er undir Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eins og millilandaflutningarnir.  Hvers vegna er þetta misræmi?

Skal nú vitna í téða Baksviðsgrein,

"Vistvænni þróun samgangna á Íslandi":

"Skýrsla, sem unnin var af Verkfræðistofunni Eflu fyrir Vegagerðina og kom út á dögunum, skýrir frá mengun, er verður af völdum samgangna.

Kemur þar fram, að heildarlosun Íslands, samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar, var 4.670 þúsund tonn CO2 ígilda 2016.  Alls var losun gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum á vegum Íslands 920 þúsund tonn CO2 ígilda sama ár, og valda bifreiðar því alls 20 % af heildarlosun landsins.  [Þetta hlutfall er allt of hátt, af því að millilandasamgöngum er sleppt.  Að þeim meðtöldum er hlutfallið 8 % - innsk. BJo.]  

Iðnaðurinn er stærsti þátturinn í þessari jöfnu með 47 % samanborið við 20 % í Evrópu.  [Rétt er, að losun iðnaðarins á koltvíildisígildum 2016 nam um 2,3 Mt, sem eru 19 % af réttri heild og 49 % af heild án millilandasamgangna.  Ef ekki á að telja losun millilandasamgangna með í íslenzka bókhaldinu, af því að þær eru í Viðskiptakerfi ESB, þá ætti af sömu ástæðu ekki heldur að telja losun stóriðjunnar með - innsk. BJo.]  Undir iðnað heyra framleiðsla hráefna og byggingarefna, en einnig framkvæmdir og byggingariðnaður."  

"Losun frá stóriðju eða iðnaði er í sérstöku viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir (e. EU ETS).  Kerfið hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005, og hafa EFTA-ríkin verið þátttakendur frá 2008.  [Íslenzka stjórnsýslan hélt illa á málum fyrir Íslands hönd og íslenzkra fyrirtækja með því að fella Ísland undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, því að með því var algerlega horft framhjá gríðarlegum möguleikum til kolefnisjöfnunar á Íslandi.  Hana er upplagt að fjármagna með sölu á kolefniskvóta til flugfélaganna og til stóriðjufyrirtækjanna.  Í staðinn þurfa fyrirtækin að greiða eins konar kolefnisskatt til ESB fyrir losun umfram úthlutaðar heimildir frá ESB.  Það er óskiljanlegt, hvernig stjórnvöld hérlendis láta ESB-búrókrata draga sig á asnaeyrunum inn í hvert ESB-kerfið á fætur öðru án þess að koma nokkuð nálægt mótun þess sjálf - innsk. BJo.] 

Fyrirtækjum innan Viðskiptakerfisins er úthlutað ákveðnum fjölda losunarheimilda án endurgjalds á viðskiptatímabilinu 2013-2020.  Stefnt er að því, að árið 2020 verði losun fyrirtækja innan Viðskiptakerfisins 21 % minni en árið 2005.  [Hérlendis má nota sömu viðmiðun og láta heimildir minnka línulega frá því að vera sömu á upphafsárinu 2008 og í raun 2005 í það að verða 21 % minni en í raun 2005 árið 2020.  Draga ætti Ísland út úr þessu EES-samstarfi án þess að slá af kröfunum, en veita þó íslenzkri náttúru tíma til að dafna og skila umtalsverðum bindingarafköstum til kolefnisjöfnunar - innsk. BJo.]

Það virðist vera, að íslenzk yfirvöld vilji helzt líta á það sem sitt meginviðfangsefni á þessu sviði að draga úr losun landumferðar.  Þegar hætta á olíbrennslu að mestu og verða sjálfbær, verður að virkja endurnýjanlegar orkulindir í staðinn, því að orkuþörfin eykst stöðugt, einnig í samgöngugeiranum.  Það er áhugavert að athuga, hvað það útheimtir mikla raforku, MWh/ár, og uppsett afl að rafvæða allan núverandi ökutækjaflota.  Við þessa athugun verður miðað við árið 2016:

  • Einkabílar: 240,5 k x 12,8 kkm/ár x 0,25 kWh/km
  • Rútubílar:    4,3 k x 50,0 kkm/ár x 1,10 kWh/km
  • Sendibílar:  24,5 k x 15,0 kkm/ár x 0,28 kWh/km
  • Vörubílar:   11,1 k x 25,0 kkm/ár x 1,32 kWh/km

Þegar þessi raforkuþörf mismunandi farartækja er lögð saman og bætt við flutnings- og dreifitöpum, fæst, að ný raforkuvinnsla í virkjun þarf að verða 1700 MWh/ár til að anna þessari raforkuþörf rafmagsfartækjanna.  M.v. venjulegan nýtingartíma virkjana á Íslandi þarf 230 MW virkjun til að framleiða þessa raforku, en vegna tiltölulega mikillar afltöku rafgeyma og hleðslutækja rafmagnsbifreiða, má búast við toppálagi frá þessum 280´000 (280 k) ökutækjum um 1000 MW.

Samkvæmt Orkuspárnefnd þarf að virkja 150 MW fram til 2030 til þess einvörðungu að afla raforku til aukinnar almennrar orkunotkunar. Ekki er ólíklegt, að iðnaðurinn þurfi 350 MW aukningu á 12 ára tímabili fram til 2030.  Þar með er virkjanaþörf orðin 1500 MW á næstu 15 árum eða svo, aðallega vegna orkuskipta í samgöngum á landi.  Það eru e.t.v.  10 % af þessu á döfinni, svo að ljóst er, að hér stefnir í algert óefni. 

Hvernig er forystu ríkisvaldsins fyrir orkuskiptunum eiginlega háttað, ef engin fyrirhyggja er sýnd, ekki einu sinni á formi hvatningar til orkufyrirtækjanna um að undirbúa nýja virkjanakosti og til Landsnets um að taka þetta nýja álag inn í Kerfisáætlun sína.  Þess í stað er gefið undir fótinn með að færa Orkustofnun ESB, ACER, lokaorðið um öll málefni raforkuflutninga á Íslandi og til og frá Íslandi, en Kerfisþróunaráætlun ACER felur m.a. í sér sæstrenginn Icelink á milli Íslands og Bretlands.  Þetta er gjörsamlega ótæk og pólitískt óþolandi forgangsröðun stjórnvalda.  Aðgerðaleysi og stefnumörkun í blóra við vilja almennings er eitruð blanda fyrir stjórnmálamenn, sem ætla sér framhaldslíf í pólitíkinni. 

 

 


Hversu mikið má leggja í sölurnar ?

Innan vébanda Evrópusambandsins (ESB) var ákveðið árið 2009 að færa forræði orkumála frá einstökum ríkjum til framkvæmdastjórnar ESB.  Þetta var gert með vísun til Lissabon-sáttmálans, sem gildi tók 2009 og er stjórnarskrárígildi sambandsins.  Saminn var Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB og Orkustofnun sambandsins, ACER, sett á laggirnar 2011.  Samheiti á orkulagabálkum ESB og Orkustofnun ESB, ACER, er Orkusamband ESB (EU Energy Union).  Stofnað var til orkuskrifstofu ESB í hverju aðildarlandi Orkusambandsins, sem lýtur forystu s.k. Landsreglara. Hann tekur þátt í stjórn ACER, en Landsreglarar EFTA-landanna munu sitja þar án atkvæðisréttar.

Hlutverk Landsreglarans er að framfylgja stefnunni, sem mörkuð er með orkulögum ESB (öllum þremur lagabálkunum og þeim fjórða, sem er á leiðinni og enn fleiri munu koma) og Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER til 10 ára í senn.  Orkuskrifstofa Landsreglarans er á fjárlögum viðkomandi lands, en hún er í gjörðum sínum óháð framkvæmdavaldinu og dómsvaldi viðkomandi lands og tekur einvörðungu við fyrirmælum frá ESB/ACER.

ESB hefur lagt mikla áherzlu á, að orkustefna sambandsins og þar með ofangreint kerfi verði innleitt í EFTA-löndunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með ESB-ríkjunum.  Þann 5. maí 2017 samþykktu EFTA-löndin það loks eftir 7 ára japl og jaml og fuður í Sameiginlegu EES-nefndinni.

Því hefur verið haldið fram hérlendis, að þetta sé smámál fyrir Íslendinga og "meinlaust" var einkunnin, sem einn gaf þessu Þriðja orkubálksmáli, og þess vegna eigi Alþingi að staðfesta gjörð Sameiginlegu EES-nefndarinnar og sýna þar með, að það standi við fjölþjóðlega samninga, sem fulltrúar landsins hafa skrifað undir. 

Á þessum málflutningi er auðvitað sá alvarlegi ljóður, að EES-samningurinn, sem Alþingi samþykkti í janúar 1993, kveður einmitt á um rétt Alþingis til að samþykkja eða synja öllum nýjum lagasetningum frá ESB samþykkis, og auðvitað getur enginn með undirskrift sinni í Brüssel skuldbundið Alþingi til að samþykkja eitt eða neitt.  Þótt Alþingi hafi hingað til aldrei notað þennan synjunarrétt sinn, hefur norska Stórþingið nokkrum sinnum gert það og mun hugsanlega gera það í nánustu framtíð af umræðu í Noregi um járnbrautartilskipun, flutningabílatilskipun og vinnumarkaðstilskipun að dæma.  Það er þess vegna alls engin goðgá eða ógnun við EES-samninginn að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Hins vegar má hverju mannsbarni ljóst vera, að samþykki Alþingi innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálkinn í EES-samninginn (þingsályktun utanríkisráðherra), þá mun magnast upp í landinu mikil andúð á EES-samninginum.  

Verður hlutverk Landsreglarans sauðmeinlaust ?  Því fer fjarri, eins og sjá má af neðangreindri upptalningu:

  • Landsreglarinn mun vinna að því að koma hér á markaðskerfi fyrir raforku að forskrift ESB/ACER, sem þýðir uppboðskerfi fyrir raforku, eins og er hið viðtekna viðskiptalíkan ESB með raforku.  Þar á bæ er raforkan vara, en ekki orkuberi úr náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar.  Þarna er um að ræða grundvallarmun á afstöðu ESB annars vegar og Íslendinga og Norðmanna hins vegar, og þess vegna er hörð andstaða beggja þjóðanna gegn innleiðingu á hugmyndafræði ESB um orkuna á Íslandi og í Noregi.  Þekkja Alþingismenn sinn vitjunartíma ?
  • Landsreglarinn hefur eftirlit með markaðnum og sér um, að þar ríki "frjáls samkeppni" án markaðsmisnotkunar og ríkisafskipta.  Afleiðing af þessu kann að verða krafa markaðsaðila til Landsreglara um jafnari aðstöðu fyrirtækja á markaði, sem óhjákvæmilega  að ESB-rétti þýðir, að skipta verði Landsvirkjun upp og selja einhverja hluta hennar á markaði, væntanlega alþjóðlegum.
  • Í sama augnamiði kann réttur til að reisa nýjar virkjanir að verða boðinn út innan EES.  
  • Landsreglarinn semur skilmála fyrir aflsæstreng frá Íslandi til útlanda, sem verða í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER.  Verkið verður væntanlega boðið út á alþjóðlegum markaði.
  • Kerfisáætlun Landsnets verður að vera í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Landsreglarinn hefur eftirlit með framkvæmdinni hjá Landsneti.  Þetta þýðir, að Landsnet verður að hanna og sækja um leyfi fyrir og setja upp flutningskerfi raforku frá virkjunum og niður að landtökustað sæstrengs, ef samningar takast um hann.  Samkvæmt reglum ACER leggst kostnaður af þessu á gjaldskrár Landsnets.  Það er verulegur kostnaður, því að líklega þarf að flytja um 1200 MW afl frá stofnkerfi landsins að sæstrengnum, og það er tæplega helmingur af uppsettu afli virkjana í landinu núna.  Þetta mun þýða talsverða hækkun á gjaldskrám Landsnets, sem kemur niður á öllum heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. 
  • Nú hefur sú málsvörn sézt, að engin hætta sé í þessu fólgin, því að leyfisvaldið verði áfram í höndum Íslendinga.  Þetta er því miður form án innihalds, eins og sumt annað.  Á hvaða forsendum á Orkustofnun að hafna umsókn um að leyfi til að leggja aflsæstreng til Íslands, ef allir skilmálar, sem Landsreglarinn samdi, eru uppfylltir.  ESB/ACER mun líta það óhýru auga, ef íslenzk stjórnvöld leggja með höfnun umsóknar stein í götu sameiginlegrar Kerfisþróunaráætlunar.  Það er næsta víst, að umsækjandinn mun kæra slíka höfnun fyrir ESA, og þá má nærri geta, hvernig fer.

Því fer víðs fjarri, að hægt sé að halda því fram með vísun til staðreynda málsins, að innleiðing umrædds orkubálks ESB sé meinlaus fyrir Íslendinga.  Hann umturnar raforkumarkaðinum og hefur bein áhrif á stjórnun Landsnets.  Þetta mun örugglega valda mun breytilegra raforkuverði en nú er.  Á tímum offramboðs orku gæti verðið orðið lægra, en hækkar umtalsvert, ef hillir undir skort á afli eða orku.

Eftir tengingu landsins við raforkukerfi ESB/ACER í Evrópu, þá mun raforkuverðið hér draga dám af raforkuverðinu á raforkumarkaði ESB, sem sveiflast eftir framboði og eftirspurn rafmagns og verði á eldsneyti.  Verðið mun þá líklega sveiflast enn meira yfir sólarhringinn en án strengs og verða að jafnaði töluvert hærra en nú er.  Þetta hefur neikvæð áhrif á kaupmátt heimilanna og hefur þungbær áhrif á samkeppnishæfni sumra fyrirtækja.  

Höfundur þessa vefpistils hefur gagnrýnt þá, sem fara fljótt yfir sögu og gera lítið úr neikvæðum áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálksins á löggjöf landsins, rafkerfi, kaupmátt og hagkerfið.  Þeir hinir sömu hafa aldrei bent á neina kosti við þennan orkubálk fyrir landsmenn.  Ekki er hægt að telja með hjáróma rödd, sem lét í ljós, að stjórnun raforkukerfisins myndi batna við að útlendingar tækju við því.  Þessi lagabálkur verður Íslendingum dýrkeyptastur allra innleiddra lagabálka ESB.  Svona mikið má ekki leggja í sölurnar til þess eins að þóknast stjórnendum ESB og EFTA-landanna í EES.

Höfundur Staksteina sér fyrir sér Icesave-málið, þegar þessi mál eru til umræðu, og nefnir Staksteina-dálkinn 21. ágúst 2018: "Icesave, taka tvö":

"Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, bendir réttilega á stórgallaða málsvörn Rögnu Árnadóttur um lögleiðingu gerðar um orkumarkað.

Ragna var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og gerði aldrei, svo vitað sé, minnstu athugasemd við verstu framgöngu hennar, og var þó af mörgu að taka.

Í viðurkenningu fyrir það fékk Ragna stöðu aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar án auglýsingar.  

Bjarni bendir á það augljósa, að það stefnir í, að ríkisstjórnin núverandi brjóti stjórnarskrá landsins með lögleiðingu á Evrópugerð um Þriðja orkumarkað og stofni til valds yfir innlendum málum, sem er utan og ofan við framkvæmda- og dómsvald landsins.

Bjarni lýkur athugasemdum sínum svo:

"Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein.

Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum.  

Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.""

 

 

 

 

 

 

 


Hvað verður um Landsvirkjun undir Landsreglara ?

Aðdáendur Evrópusambandsins (ESB) og talsmenn þess, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hafa svamlað við yfirborðið í málflutningi sínum og klifað á þeirri skoðun sinni, að innleiðing þessa lagabálks breyti mjög litlu fyrir Íslendinga.  Annaðhvort sigla slíkir undir fölsku flaggi, eða þeir hafa ekki skilið, hvað þessi mikli lagabálkur ESB snýst um.

Embætti Landsreglara (n. "Reguleringsmyndighet for energi") er brimbrjótur ESB inn á gafl orkumálanna hjá aðildarþjóðum Orkusambands ESB.  Þar eð Landsreglarinn er óháður í störfum sínum stjórnvöldum og dómsvaldi aðildarlandanna, þá getur hann nýtt heimildir sínar samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til hins ýtrasta án truflunar frá stjórnvöldum, enda verður Landsreglarinn einvörðungu háður boðvaldi ESB/ACER (Orkustofnun ESB).  Í þessu sambandi er ESA hreint aukaatriði, enda einvörðungu óvirkur milliliður ESB/ACER og Landsreglarans, án nokkurra heimilda til að hnika til stafkróki.  

Meginhlutverk Landsreglarans hérlendis samkvæmt Þriðja bálkinum verður að koma á laggirnar frjálsri samkeppni með raforku að hætti ESB, þannig að raforkumarkaður á Íslandi verði einsleitur raforkumarkaði ESB-landanna og þannig með vissum hætti aðlagaður, ef/þegar einhverjum hugnast að sækja um að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og útlanda samkvæmt tæknilegum og viðskiptalegum skilmálum, sem Landsreglarinn setur.  Vald leyfisveitandans, Orkustofnunar, til að hafna þeim streng verður ekkert, ef strengumsóknin fullnægir kröfum Landsreglarans.  

Hvað gerist hérlendis, þegar saman koma í einn pott téður Þriðji orkubálkur, samkeppnisreglur ESB og bann við ríkisstuðningi ?  Þá blasir við, að Landsvirkjun verður í skotlínu, því að innleiðing samkeppnismarkaðar er ekki möguleg, þar sem eitt fyrirtækjanna er með yfir 80 % markaðshlutdeild.  Til hvers grípur Landsreglarinn þá ?  Hann hefur víðtækar heimildir samkvæmt Þriðja orkulagabálkinum til að ryðja úr vegi hindrunum, sem í einstökum löndum koma í veg fyrir virkni samkeppnismarkaðar, og hann verður að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða a.m.k. hluta hennar, ef honum á að takast ætlunarverk sitt.  

Þar sem allt þetta umstang er til að undirbúa Ísland fyrir sameiginlegan og samtengdan raforkumarkað ESB, þá er líklegt, að önnur orkuvinnslufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýzkalandi, hafi áhuga á að eignast hluta núverandi Landsvirkjunar.  Þar með er komið erlent tangarhald á hluta af orkuauðlindum Íslands.  Þá er ekki útilokað, að í nafni frjálsrar samkeppni verði virkjunarréttur á nýjum virkjunum boðinn út.  Með því að ganga í Orkusamband ESB bjóða menn heim óvissu um það, hvort saman geti farið heimildir Landsreglarans samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til að tryggja hámarks skilvirkni og réttmætar aðgerðir samkvæmt Evrópurétti til að hindra fákeppni á markaði, sem saman valdi því, að Íslendingar glati úr höndum sér yfirráðum á íslenzkum raforkumarkaði í hendur evrópskra markaðsafla.  

Þann 2. ágúst 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir tvo kennara við Lagadeild Háskólans á Akureyri, Ágúst Þór Árnason og Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, undir heitinu:

"Fullveldi og auðlindir":

Greinin er rituð í tilefni af kaupum manna, sem búsettir eru erlendis, á íslenzkum landareignum.  Slíkum eignum fylgja oft hlunnindi, þ.m.t. vatnsréttindi, en hættan á að missa auðlindir landsins úr höndum landsmanna sjálfra getur verið víðar og miklu stórtækari og alvarlegri en sú, sem lögfræðingarnir gerðu að umtalsefni í grein sinni:

"Umræða þessi er mikilvæg og tímabær ekki sízt í ljósi þess áhuga, sem Íslendingar hafa sýnt því að binda í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir.  Eign á landi fylgja ýmis réttindi, eins og til auðlindanýtingar, en flestar auðlindir Íslands eru bundnar landi.  Fullveldisréttur Íslands felur það í sér, að Ísland hefur eitt heimild til þess að setja lög og reglur og að framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu."

Þetta er athyglisverður texti.  Af honum má ráða, að höfundarnir telji Alþingi og stjórnvöld geti sett þær hömlur á kaup EES-borgara á bújörðum og eyðijörðum hérlendis, sem þeim sýnist í krafti fullveldisréttar. Er vonandi, að sem fyrst verði gerðar ráðstafanir til að félög geti ekki staðið hér að kaupum á jörðum, nema meirihlutaeigendur félags hafi fasta búsetu á a.m.k. einni jörð eða nýti a.m.k. eina jörð til atvinnurekstrar, og að jarðeignir félaga og einstaklinga verði takmarkaðar í fjölda og flatarmáli.

Miklu stórtækari breytingar kunna þó að vera í vændum á afnotarétti orkuauðlinda í landinu, ef svo fer, að Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og svo fer, að Landsreglarinn telji stöðu og stærð ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar ekki samrýmast reglum þessa lagabálks um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði.  Væri fróðlegt að fá fram lögfræðilega skoðun frá höfundum tilvitnaðrar greinar um það, hvort Landsreglarinn geti beitt fyrir sig Evrópugerðum um samkeppnishömlur og ríkisstuðning til að krefjast sölu ríkisins á hluta hennar á frjálsum markaði og jafnvel uppskiptingar. 

Að lokum skal hér vitna til umhugsunarverðs niðurlags á umræddri grein í ljósi þeirrar markaðsvæðingar raforku, sem óhjákvæmilega mun leiða af lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi með hugsanlegum aflsæstreng til útlanda í kjölfarið:

"Ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í náttúru Íslands er því ákaflega vandmeðfarið.  Það þarf að gagnast, þegar upp koma óþekkt og ný vandamál, og því er mikilvægt, að það feli í sér stefnu og hugmyndir okkar um það, hvernig við viljum, að náttúruauðlindir séu nýttar, til hagsbóta hverjum og hverjum þær tilheyra.  Yfirlýsing um, að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni, felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum.  Það fer því vel á því að ræða þennan þátt fullveldisins á aldarafmæli þess." 

 


Afskipti norskra stjórnvalda af lýðræðislegu ferli á Íslandi

Um miðjan ágúst 2018 var í heimsókn á Íslandi utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Söreide.  Hún gerði sig þá seka um alvarleg afskipti af innanríkismálum Íslands með því að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu væntanlegrar umfjöllunar Alþingis um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.  Ine Marie Eriksen Söreide er félagi í Hægri flokkinum, sem nú situr við völd í Noregi ásamt Framfaraflokkinum.  Þetta er minnihlutastjórn, sem semur við meirihlutann frá einu máli til annars.  

Í vetur samdi norska ríkisstjórnin við Verkamannaflokkinn um framgang Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Stórþinginu.  Bæði Hægri og Verkamannaflokkurinn eru hallir undir inngöngu Noregs í Evrópusambandið, ESB, og það er meginástæða þess, að þessir flokkar studdu innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í lagasafn Noregs. 

Þótt Noregur flytji út mikið af eldsneyti og dálítið af raforku um sæstrengi til ESB-landa, þá hefur ekki verið sýnt fram á, að þessi viðskipti muni verða fyrir skakkaföllum eftir höfnun Alþingis á téðum bálki.  Ástæðan er sú, að ESB er í mikilli þörf fyrir þessi orkuviðskipti við Noreg.  Þess vegna verður örugglega fundin sérlausn fyrir orkuviðskipti á milli ESB og Noregs, ef Alþingi synjar orkubálkinum samþykkis.  

""Við erum öll sammála um mikilvægi innri markaðarins.  Það að hafa aðgengi að 500 milljón manna markaði með sameiginlegar reglur og staðla fyrir inn- og útflutning er gríðarlega mikilvægt til þess að skapa sanngjörn samkeppnisskilyrði.  Þetta skiptir bæði efnahagskerfi Íslendinga og Norðmanna máli",segir Ine Marie Eriksen Söreide, utanríkisráðherra Noregs, spurð um framtíðarhorfur samningsins um evrópska efnahagssvæðið í ljósi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu."

Að hanga eins og hundur á roði á EES-samninginum þrátt fyrir breyttar aðstæður í Evrópu og í heiminum öllum er óheillavænleg blanda af hæfileikaskorti til að grípa ný tækifæri og þrælslund við Evrópusambandið.  Sannleikurinn er sá, að fyrir Íslendinga er EES-samningurinn allt of dýru verði keyptur bæði stjórnlagalega og fjárhagslega, eins og nýlegar innleiðingar Evrópugjörða eru til vitnis um.  Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt viðskiptabandalög á borð við ESB, sem nota öryggiskröfur, eins og þær, sem liggja að baki CE-merkingunni, og stöðlun til að samræma eigin iðnaðarframleiðslu og torvelda aðgengi annarra að sínum markaði. 

Þetta er eitt af megingagnrýniefnum Bandaríkjamanna á ESB.  Miklu einfaldara, útlátaminna og síður fallið til óánægju og deilna er að gera tvíhliða viðskiptasamninga, eins og reyndar ESB hefur verið að gera í töluverðum mæli undanfarin ár, eins og samningar við Kanada og Japan gefa til kynna.  Fyrir Íslendinga er miklu eðlilegra að taka stefnuna á tvíhliða fríverzlunarsamninga við ESB, Bretland, BNA, Kanada, Japan o.fl. en að íþyngja atvinnulífinu og hinu opinbera með stöðugu flóði viðamikilla lagasetninga frá ESB, sem margar standast ekki kröfur Stjórnarskráar, sem heimilar ekki fullveldisframsal af því tagi, sem EES-samningurinn útheimtir.

""Við höfum öll hag af því að finna farsæla lausn á málinu [Brexit].  Það er hins vegar erfitt að vita með vissu, hvað gerist næst.  Bretar og Evrópusambandið verða að komast að samkomulagi fyrst, þannig að hægt verði að meta, hver næstu skref verða", segir Söreide.  Hún telur Íslendinga og Norðmenn hafa sameiginlega hagsmuni af því, að ekki skapist óvissa um innri markaðinn og að hann sundrist ekki."

Þetta er að miklu leyti rangt mat hjá Söreide.  Þegar ríkisstjórnirnar í Reykjavík og Ósló hafa ólíka afstöðu til ESB, þá sýnir reynslan, að engin almennileg samstaða næst innan EFTA-hópsins í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, benti á þetta a.m.k. tvisvar í þingræðum á Alþingi veturinn 2018.

Fyrst eftir BREXIT vildu Norðmenn ekki sjá Breta inn í EFTA, þótt íslenzka utanríkisráðuneytið mælti með þeim kosti, enda hefði EFTA þá sterka stöðu í samningum við ESB og aðra.  Þegar ESB lét á sér skilja, að æskilegt væri, að Bretland gengi í EFTA og gerðist aðili að EES-samninginum, þá sneru Norðmenn við blaðinu.  Bretar hafa að vísu engan áhuga á EES, þótt þeir kunni aftur að ganga í EFTA, en kúvending Norðmanna sýnir, að núverandi stjórnvöld í Ósló leggja mikla áherzlu á að þóknast ESB.  Það hefur skemmt fyrir samningum EFTA og ESB og gert Íslendingum erfitt um vik við að standa á rétti sínum um tveggja stoða lausn við innleiðingu Evrópugjörða í EES-samninginn.  Með bæði samstarfsríki Íslands í EFTA innan EES höll undir gagnrýnislausa aðlögun að ESB með samræmdri innleiðingu sem flestra Evrópugjörða á EES-svæðinu, á smáríki norður í Atlantshafi ekki lengur erindi í þessa vegferð forkólfanna í Brüssel, Berlín og París til æ nánari sameiningar.

""Það er grundvallaratriði, að vestrænar þjóðir standi saman í fordæmingu brota gegn þjóðarrétti af hálfu Rússa.  Slíkt hefur í för með sér fórnarkostnað fyrir öll ríki, sem við verðum að vera reiðubúin til þess að taka á okkur", segir Söreide um áhrif viðskiptabanns Rússa."

Þetta er rétt, svo langt sem það nær.  Það er ekki sama, hvernig að viðskiptabanni er staðið.  Norðmenn seldu Rússum m.a. hátæknivörur, sem gátu farið til hernaðarlegra nota.  Það gerðu Þjóðverjar og Bandaríkjamenn einnig, en Þjóðverjar sáu til þess, að þjóðhagslega mikilvægur iðnaður þeirra á borð við bílaiðnaðinn gæti óáreittur haldið áfram að senda járnbrautarfarma af bifreiðum til Rússlands.

Íslendingar stunduðu engin viðskipti við Rússa með vörur, sem gátu gengið til hernaðarlegra nota.  Þess vegna var ekki rökréttara, að Íslendingar tækju þátt í viðskiptabanni á Rússa en t.d. Færeyingar.  Það sárgrætilega er, að vegna refsiaðgerða Rússa gegn ríkjunum, sem settu á þau viðskiptabann, hefur ekkert vestrænt ríki tapað hlutfallslega meiri fjármunum á þessu valvísa viðskiptabanni á Rússa en Íslendingar, og nú hefur ríkisstjórn Íslands ekki bein í nefinu til að draga Ísland út úr því.  Í hverfulum heimi ríður á að reka sjálfstæða utanríkisstefnu.  Það má mótmæla endurinnlimun Krímskaga í Rússland, krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu þar undir alþjóðlegu eftirliti um stöðu Krím og mótmæla afskiptum Rússa af Austur-Úkraínu um leið og Ísland væri dregið út úr þessu kjánalega viðskiptabanni á Rússa.

Þá er komið að meginerindi norska utanríkisráðherrans til Íslands að þessu sinni.  Það var að hræða Alþingismenn til þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn og íslenzka löggjöf.  Falsrök norska ráðherrans voru, að téð löggjöf skipti Íslendinga litlu, en Norðmenn miklu máli.  Litlir hagsmunir væru í húfi fyrir Íslendinga, en miklir fyrir Norðmenn.  Í fjölda pistla á þessu vefsetri og öðrum og í blaðagreinum hefur verið sýnt fram á, að fyrri fullyrðingin er kolröng, og sú síðari stenzt ekki athugun, enda hafa systursamtök Heimssýnar í Noregi, "Nei til EU", sent frá sér harða gagnrýni á hræðsluáróður ráðherrans, eins og lesa má í skjali samtakanna í viðhengi með þessum pistli.

""Ég ræddi þetta [téðan orkubálk] á fundi mínum með Guðlaugi og á fundi með þingmönnum.  Það er mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri, að norska Stórþingið hefur samþykkt þessa tilskipun.  Fyrir okkur er mikilvægt, að tilskipunin sé tekin upp í EES-samninginn þar sem við nú þegar erum hluti af evrópskum orkumarkaði. Það er ákveðin hætta fyrir okkur, ef hún myndi ekki öðlast gildi", staðhæfir hún."

Hér sjáum við glitta í topp ísjaka áróðurs norskra ESB-sinna gagnvart íslenzkum stjórnvöldum og Alþingi.  Málið er alls ekki mikilvægt fyrir norsku þjóðina, sem að stórum meirihluta er algerlega mótfallin inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, né fyrir hagsmuni hennar, en það er mikilvægt fyrir ESB-sinnaða stjórnmálamenn Noregs að þóknast ESB með skilyrðislausri undirgefni.  Orkuviðskipti ESB-landanna við Noreg eru ESB svo mikilvæg, að engum dettur í hug, að vottur af samstöðu finnist á þeim bænum fyrir því að gera Norðmönnum erfitt fyrir að stunda þessi viðskipti hér eftir sem hingað til.  Ef Norðmenn kæra sig um, geta þeir einfaldlega innleitt reglur Evrópusambandsins hjá sér, þótt Íslendingar geri það ekki.  Hættan, sem Söreide talaði um, er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur pólitísks eðlis innanlands í Noregi.  

"Að sögn ráðherrans var umræðan í Noregi nokkuð erfið.  "Það voru margar mýtur um málið.  Margir héldu því fram, að með því að samþykkja þriðja orkupakkann myndum við missa yfirráð yfir orkuauðlindum og orkustefnu landsins; þetta var auðvitað ekki rétt.  Noregur myndi aldrei afsala sér þessum rétti.""

Þarna skeiðar ráðherrann léttilega framhjá sannleikanum.  Landsreglarinn (n. "Reguleringsmyndighet for energi-RME") er ekki goðsögn, heldur staðreynd, sem menn geta séð að störfum nú þegar í ESB-löndunum, og undirbúningur er þegar hafinn í Noregi að stofnun þessa embættis, sem tekur við eftirlitshlutverki ráðuneytis og NVE (í Noregi) og Orkustofnunar hérlendis með orkumarkaðinum og yfirstjórn á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi.

  Landsreglarinn á að koma á raunverulegum samkeppnismarkaði með raforku (og eldsneytisgas, þar sem það er í almennri daglegri notkun) í aðildarlöndum Orkusambandsins og framfylgja samkeppnislögum ESB og lögum gegn brenglun markaðar með ríkisstuðningi við einstök fyrirtæki.  

Á Íslandi mun þetta nánast örugglega leiða til aðgerða til að minnka misvægi á markaðinum með því að draga úr drottnunarvaldi Landsvirkjunar, sem er að fullu ríkisfyrirtæki og með yfir 80 % af raforkumarkaðinum á sinni könnu. Landsreglarinn mun færa fyrir því rök, að ekki sé hægt að innleiða hér frjálsan samkeppnismarkað með raforku með svo rosalegt misvægi á markaðinum sem hér er.  Hann mun vísa í lagareglur ESB og segja nauðsynlegt að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða hana.  Sú einkavæðing mun fara fram á evrópskum markaði, þannig að innan tíðar gætu E.ON o.fl. þekkt evrópsk raforkufyrirtæki  farið að selja okkur raforku.  Það er þetta, sem norskir andstæðingar innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins óttast m.a., þegar þeir ræða um hættuna á að "missa yfirráð yfir orkulindum". 

Hérlendis verða menn að gera sér grein fyrir því, að stjórnvöld hafa engin tök á að stöðva Landsreglarann, ef Alþingi glepst á að samþykkja þennan orkubálk, því að hann mun starfa óháður þeim eftir ESB-lögum, og ágreiningsmál verða útkljáð fyrir EFTA-dómstólinum, sem á við dómaframkvæmd að gæta samræmis við ESB-dómstólinn.  

Í þjóðsögum var sagt frá tröllskessum, sem af fullkominni léttúð köstuðu á milli sín fjöregginu hlæjandi og flissandi.  Öllum ætti að vera ljóst, að nú er verið að kasta á milli sín fjöreggi landsmanna.  Það mun koma í ljós, hvort Alþingismenn missa fjöreggið úr höndum sér eða hvort þeir stöðva leikinn áður en slys verður. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB meinlaus fyrir Ísland ?

Þeir, sem fullyrða, að "þriðji orkupakki ESB" sé meinlaus, eru á hálum ísi.  Leitt er að sjá Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, falla í þessa gryfju á vefsetri sínu og á FB 15.08.2018.  Hann vitnar máli sínu til stuðnings í grein í Úlfljóti 14.07.2018 eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Að mati höfundar þessa pistils er ekkert vit í að reisa afstöðu sína til aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á téðri grein Rögnu, enda felur téð Úlfljótsgrein ekki í sér neina vitræna greiningu á því, hvað tæknilega og lagalega felst í aðild að téðu Orkusambandi (Energy Union).  

Skal nú rýna tilvitnun Björns í Rögnu:

"Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitsstofnunar ESB með orkumarkaði (sic)] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA].  Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða, sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda, er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa.  Íslenzkt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng.  Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins."

Þetta er eins yfirborðsleg umfjöllun um lagaheimildir og hlutverk ESA og ACER og hugsazt getur og leiðir auðvitað til kolrangrar ályktunar lesanda, sem ekki hefur séð í gegnum áróður ESB og íslenzkra ráðuneyta (utanríkis- og iðnaðar) fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.  

Þar er fyrst til að taka, að ESA hefur engar heimildir til sjálfstæðrar meðferðar erinda frá ESB/ACER til Landsreglarans í hverju EFTA-landi, heldur er ESA sett upp sem óvirkur milliliður til þess eins að fullnægja að forminu til tveggja stoða fyrirkomulagi EES-samningsins.  Þar sem ESA hefur ekkert annað hlutverk en að ljósrita reglugerðir, tilmæli og úrskurði frá ESB/ACER og senda til Landsreglarans svo og að ljósrita skýrslur m.a. um virkni raforkumarkaðar í landinu og fylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER frá Landsreglaranum og senda þær til ESB/ACER, þá verður að segja hverja sögu, eins og hún er: ESA breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut í þessu ferli.  Það er þess vegna blekking fólgin í því að skrifa í Úlfljót, að heimildir verði í höndum ESA, sem hefur engar heimildir samkvæmt þeim lagabálki, sem hér er til umfjöllunar.  

Þetta þýðir tvennt.  Í fyrsta lagi brot á EES-samninginum, sem kveður á um tveggja stoða lausn. Það er ESB, sem er brotlegt, því að Framkvæmdastjórnin féllst ekki á neins konar heimildir til ESA, nema ljósritunarheimildir á ESA-bréfsefni.

Í öðru lagi þýðir þetta Stjórnarskrárbrot, því að valdamikið embætti er stofnað í landinu og verður á íslenzkum fjárlögum, en lýtur hvorki íslenzku framkvæmdavaldi né dómsvaldi, heldur er stjórnað af stofnun ESB, þar sem Ísland á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta fyrirkomulag er lögfræðilegt örverpi og ómerkileg og óviðunandi meðferð á Stjórnarskrá.  Það er reyndar óskiljanlegt, að nokkur hérlendis skuli mæla þessu sviksamlega fyrirkomulagi bót.

Þegar Ragna fimbulfambar um afmarkaðar heimildir vegna ágreiningsmála út af sæstreng, þá virðist hún vera algerlega úti á þekju. Hún sleppir aðalatriði málsins, sem er Landsreglarinn.  Hans staða og hlutverk er algerlega einstætt og fráleitt í íslenzku samfélagi.  Hann mun starfa utan seilingar íslenzks framkvæmdavalds og dómsvalds og mun starfa samkvæmt Evrópugerðinni Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.  Hlutverkið verður að koma hér á fót uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti ESB/ACER.  Þetta er allsendis óháð lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda og furðulegt að geipa um téðan sæstreng án þess að minnast á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Alþingi mun skuldbinda Íslendinga til að framfylgja að sínu leyti, ef þingmenn samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  

Gefin hefur verið út skrá um forgangsverkefni ESB/ACER til að ná markmiðum Kerfisþróunaráætlunar.  Hún inniheldur m.a. aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027.  Ef áhugasamur sæstrengsfjárfestir gefur sig fram og sækir um leyfi fyrir sæstreng, sem fullnægir skilyrðum Kerfisþróunaráætlunar, þá verður ómögulegt fyrir íslenzk stjórnvöld að hindra lagningu hans, tengingu og rekstur, því að ágreiningsmál við Orkustofnun, sem verður formlegur leyfisveitandi, mun á endanum lenda fyrir EFTA-dómstólinum.  Ágreiningur á milli Landsreglara á Íslandi og á Bretlandi um rekstur strengsins verður leystur á vettvangi ACER eða fyrir gerðardómi, ef Bretar verða þá farnir úr Orkusambandi ESB.  

"Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði sofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits."

Þessi texti Rögnu orkar tvímælis, því að Orkustofnun hefur ekki raforkueftirlit með höndum, heldur er það Mannvirkjastofnun, sem sinnir því hlutverki.  Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið deila hins vegar með sér eftirliti með raforkumarkaðinum og með Landsneti.  Sú starfsemi mun flytjast til Landsreglarans, sem gefa mun út reglugerðir fyrir Landsnet og yfirfara netmála (tæknilega tengiskilmála) fyrir flutningskerfi raforku og yfirfara gjaldskrár flutningsfyrirtækisins fyrir þjónustu við almenna raforkumarkaðinn og fyrir stóriðjumarkaðinn.  

Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein.  Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum.  Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.  

 

   


Henta ESB-reglur íslenzka raforkumarkaðinum ?

Á opinberum vettvangi, í aðsendum greinum til Morgunblaðsins og víðar, hefur skilmerkilega verið gerð grein fyrir því, að íslenzkum almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem sagt raforkunotendum hérlendis, hentar illa fyrirkomulag Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaði, en þar er um að ræða eins konar uppboðsmarkað, þar sem verðið ræðst af framboði og eftirspurn.

Meginástæða þess, að markaðskerfi ESB hentar ekki hér, er, að rekstrarkostnaður virkjana hér er óháður kostnaði frumorkunnar, vatns og jarðgufu, en kostnaður við þessa þætti getur hins vegar komið fram í stofnkostnaði, t.d. við öflun vatns- eða gufuréttinda.  Í ESB endurspeglast eldsneytiskostnaður hins vegar í raforkuverði hvers tíma, og samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækja er aðallega fólgin í að ná lágum fastakostnaði, sem fæst t.d. með því að reisa ný og hagkvæmari raforkuver en þau, sem fyrir eru í rekstri.  

Á Íslandi og í Noregi er þessu öfugt farið.  Nýjar virkjanir eru dýrari í stofnkostnaði per MW talið en hinar eldri.  Hver er þá hvatinn til að reisa ný raforkuver við slíkar aðstæður ?  Hugsanlega að auka markaðshlutdeild sína, en það er erfitt, ef selja þarf orku undir kostnaðarverði.  Lausn á þessu gæti verið sú að leggja auðlindargjald á orku frá eldri virkjunum, t.d. 20 ára og eldri.

Nú vill svo til, að við höfum lifandi dæmi um vandamál vatnsorkukerfis, sem starfar á raforkumarkaði eftir forskrift ESB, fyrir augunum.  Það er í Noregi.  Nú er þurrkaár þar, og miðlunarlón voru aðeins um 60 % full þann 12. ágúst 2018, en eru þá að jafnaði 75 % full.  Norðmenn verðleggja vatn miðlunarlónanna eftir magni og árstíma. Þegar allur miðlunartíminn er framundan, en lónin aðeins 60 % full, verður vatnið og þar með rafmagnið dýrt. Þess vegna hafa virkjunarfyrirtækin hækkað raforkuverðið, og verð til almennings hefur hækkað úr um 11,3 cEUR/kWh (evrusent á kWh) í yfir 20 cEUR/kWh eða meira en 77 % og fer enn hækkandi.  Þetta getur orðið almenningi mjög þungbært í vetur, því að hann kyndir hús sín með rafmagni, en svona virkar frjáls raforkumarkaður í hnotskurn.  

Virkjanafyrirtækin halda þó áfram að flytja raforku út, því að raforkuverð í Evrópu hefur fylgt olíuverði að miklu leyti og er hátt núna. Í ár hafa virkjanafyrirtækin norsku flutt út nettó 3,7 TWh (terawattstundir), tæplega 3 % af raforkuvinnslugetu Noregs, um sæstrengi til útlanda, og sá gjörningur veldur enn lægri stöðu miðlunarlóna og þar með hærra verði til almennings en ella.  

Ástæðan fyrir því, að raforkuútflutningur hefur ekki hækkað raforkuverðið í Noregi á undanförnum misserum er, að þess hefur verið gætt að halda hárri miðlunarstöðu, sem svarar til 10 TWh/ár af raforku.  Hérlendis er miðlunargetan miklu minni en í Noregi, og þess vegna mun fyrsti sæstrengurinn þegar hafa neikvæð áhrif á stöðu miðlunarlóna og hækka verðið til landsmanna, ef þá verður búið að taka upp markaðskerfi ESB.

Það er sjálfsagt hérlendis að verðleggja miðlunarforðann til að stjórna hæð allra lónanna og til að ákvarða verð á ótryggðri raforku, en það á ekki að láta lága miðlunarstöðu varpast yfir í verð á forgangsorku.  Almenningur á ekki að bera allar byrðarnar, eins og markaðskerfi ESB hefur í för með sér.  

Viljum við markaðskerfi raforku á Íslandi ?  Ef Alþingi hleypir Trójuhesti ESB/ACER, Landsreglaranum, inn fyrir "borgarmúrana" til að stjórna hér orkumarkaðsmálum, þá verðum við ekki spurð, ekki virt viðlits, því að Alþingi hefur þá leitt Evrópurétt inn á gafl á orkumálasviði, og það verður meginhlutverk Landsreglarans að innleiða hér markaðskerfi að forskrift ESB, og það mun hann geta gert án þess að spyrja kóng eða prest hér innanlands. Þeir eru þess vegna undarlega borubrattir, sem fullyrða út í loftið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé meinlaus og skerði ekki sjálfstæði landsmanna í orkumálum. 

Munu Landsreglarinn og ACER telja það samrýmast Evrópugjörðum um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði, að einn aðilinn þar, Landsvirkjun, sé með yfir 80 % markaðshlutdeild ?  Það verður að telja harla ólíklegt, að 100 % ríkisfyrirtæki með algerlega ríkjandi stöðu á markaði fái að starfa þar í skjóli ESB-samkeppnislaga, sem þýðir, að Landsreglaranum ber að krefjast breytinga á eignarhaldi Landsvirkjunar og jafnvel uppskiptingar.  Um þetta munu rísa deilur í landinu, sem ekki munu enda fyrir íslenzkum dómstólum, heldur hjá EFTA-dómstólinum, og hann dæmir samkvæmt s.k. Evrópurétti, sem Ísland hefur þá undirgengizt með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Forhertustu fylgjendur EES geta ekki haldið því fram, að forræði Íslendinga yfir samkeppnismálum á raforkumarkaði standi óskert eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. 

Landsreglarinn mun hafa sitt fram í krafti innleiðingar Alþingis, og við höfum ekki hugmynd um í hverra höndum gullmyllan Landsvirkjun lendir.  Þetta mun valda gríðarlegri óánægju hérlendis og ekki síður verðsveiflurnar á rafmagni, sem af markaðsvæðingunni leiðir.  Hér skal vitna í Elías Bjarna Elíasson, verkfræðing, á Fésbók 15.08.2018 um þessi mál:

"Lögin segja, að hér skuli koma á fót frjálsum markaði, og fagleg athugun leiðir í ljós, að sá markaður ræður ekki við að útvega landsmönnum orku, sem er bæði örugg og ódýr."

Hér er komið svar við spurningunni í fyrirsögninni.  ESB-reglur henta íslenzka raforkumarkaðinum engan veginn. Það er svo bara túður út í loftið, að þær muni engin áhrif hafa hér fyrr en sæstrengstenging er komin á, og að þá tengingu höfum við í okkar höndum.  Það er ótrúlegt fleipur, sem veltur út úr blindum EES- og ESB-sinnum.

Ekki bætir úr skák, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB fylgir enginn kostur, nema í augum þeirra, sem telja aflsæstrengslögn til útlanda til ávinnings.  Þeir, sem kanna það mál, sjá þó fljótlega, að með Ísland inni á sameiginlegum raforkumarkaði ESB mundi almenningur og allur atvinnurekstur í landinu verða fyrir áfalli, því að eitt helzta samkeppnisforskot Íslands væri horfið.  Góðum lífskjörum á Íslandi hefði verið fórnað á altari ESB.

Stuðningsmenn innleiðingar téðs orkubálks halda því blákalt fram, að Íslendingar muni hafa í hendi sér leyfisveitingarvaldið vegna "Icelinks".  Þeir hinir sömu hafa ekki unnið heimavinnuna sína og hafa sennilega aldrei gert.  Það verður Landsreglarinn, sem semur öll viðskiptaleg og tæknileg skilyrði, sem umsækjandi um lagnarleyfi og rekstrarleyfi verður að uppfylla, og hann hefur auðvitað Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Kerfisáætlun Landsnets, sem hann stjórnar í raun og veru, til hliðsjónar.  Ef umsækjandinn uppfyllir öll umsóknarskilyrðin, á hvaða forsendum ætlar Orkustofnun sem leyfisveitandi þá að hafna umsókninni ?

Setjum svo, að OS hafni af einhverjum ástæðum.  Þá mun umsækjandinn örugglega kæra höfnunina, og ágreiningurinn endar hjá EFTA-dómstólinum.  Hann dæmir málið einfaldlega eftir Evrópurétti, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum.  Það verður óbjörgulegt upplitið á þeim, sem lapið hafa vitleysuna upp hver eftir öðrum, að Íslendingar muni hafa leyfisveitingarvaldið í höndum sér.  Síðan eru dæmi um, að menn kóróni vitleysuna og haldi því fram opinberlega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé "meinlaus" !

 

 

 


ACER, halelúja

Á vegum Lagadeildar Háskólans í Reykjavík, HR, var að morgni 13. ágúst 2018 haldin þriggja klst ráðstefna með yfirskriftinni, 

"Orkumál og EES-samningurinn-Hver eru áhrif þriðja orkupakkans ?"

 

Nærtækast er að skilja fyrirsögnina þannig, að ráðstefnan hafi átt að svara því, hver yrðu áhrif "þriðja orkupakkans" á orkumál Íslands og EES-samninginn.  Þrátt fyrir fjölbreytt úrval fyrirlesara, sem voru 5 talsins, erlendir og innlendir, yfirgáfu áhugasamir gestir Lagadeildar fyrirlestrasalinn upp úr hádeginu án þess að fá skýr svör við þessu. Málið var ekki krufið til mergjar. Það er synd, því að salurinn var fullsetinn af ungum og gömlum og með örlítið gagnrýnni fyrirlesurum bæði á EES-samninginn og á Orkusamband ESB, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB snýst um, hefði verið varpað skýrara ljósi á áhrif innleiðingar þessa lagabálks í íslenzka lagasafnið á fullveldi Íslendinga yfir orkumálunum og EES-samninginn m.t.t. grunnreglunnar um tveggja stoða nálgun EFTA- og ESB-ríkjanna á ný viðfangsefni, sem nánast undantekningarlaust eiga uppruna sinn innan vébanda ESB. 

Ef einhver gestanna hefur velt spurningunni í heiti ráðstefnunnar fyrir sér, þegar hann gekk út úr salnum í lokin, er ekki ólíklegt, að niðurstaða hans/hennar hafi orðið sú, að áhrifin verði engin, sem máli skipti.  Þarna var hellt yfir gestina miklu magni upplýsinga, en þess var rækilega gætt að segja ekki alla söguna, og þess vegna varð niðurstaðan hættulega villandi.

  Tökum aðeins tvö, dæmi: tveggja stoða kerfi EES og fullveldi lýðveldisins.

Stofnað verður embætti Landsreglara, sem yfirtekur raforkumarkaðseftirlitshlutverk Orkustofnunar, OS, og ráðuneytis, gefur út reglugerðir um Landsnet og yfirfer og samþykkir netmála og gjaldskrá Landsnets, ef Alþingi samþykkir þennan viðamikla lagabálk, sem vissulega er ekki saminn til einskis. Þetta embætti verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum, þ.e. ráðuneytum, Alþingi og dómstólum.  Ágreiningsefnum varðandi störf Landsreglara verður skotið til EFTA-dómstólsins.  

Hver hefur eftirlit með og stjórnar Landsreglaranum ?  Í ESB-löndunum er það Orkustofnun ESB, ACER, sem er samráðsvettvangur allra Landsreglaranna og jafnframt stofnun með forstjóra, sem er framlengdur armur "orkukommissara" framkvæmdastjórnar ESB.  Hlutverk ACER er að sjá til þess, að "Evrópugjörðum" um orkumál sé framfylgt í öllum ESB-löndunum og að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt, en á meðal verkefna þar er "Icelink", aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027.  Ef ACER verður vör við misfellur í framkvæmd stefnunnar, eru þær tilkynntar til Framkvæmdastjórnarinnar, sem þá hamrar á aðildarríkinu, og hægt er að leggja ESB-sektir á einstök fyrirtæki fyrir brot á reglum.  ACER getur þar af leiðandi orðið býsna íþyngjandi fyrir íbúana.

Það væri skýlaust brot á tveggja stoða reglunni og fullveldi EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, að láta sama fyrirkomulag gilda um þau.  Þá var gripið til þess málamyndagjörnings að fela ESA-Eftirlitsstofnun EFTA hlutverk ACER EFTA-megin, þ.e. að vera Orkustofnun EFTA.  Þetta er blekkingarleikur, umbúðir án innihalds, því að Landsreglarar EFTA-ríkjanna eiga ekki að setjast niður til skrafs og ráðagerða um tillögur og úrskurði ACER, og innan ESA verður engin orkuskrifstofa, sem fær það hlutverk að laga Evrópugjörðir frá ESB/ACER að hagsmunum EFTA-ríkjanna.  ESB hefur enda alfarið hafnað slíkum valdheimildum til handa ESA, sem þýðir, að Evrópugjörðir á sviði orkumála og úrskurðir ACER, þar sem EFTA-ríkin munu hafa áheyrnarrétt án atkvæðisréttar, ef úr verður, munu verða endurskrifaðar orðrétt eða hreinlega ljósritaðar á bréfhaus ESA.  

ESA sem milliliður á milli ACER og Landsreglarans hefur þar af leiðandi ekkert stjórnskipulegt gildi, og stjórnlagalega stendur eftir, að Orkustofnun ESB fær íhlutunarrétt um mikilvæga almannahagsmuni á Íslandi um embætti Landsreglarans.  Þetta er skýlaust stjórnlagabrot og brot á upphaflegum EES-samningi.  Alþingi verður að beita synjunarvaldi sínu í þessu máli, þegar það fær málið til afgreiðslu, enda er það örugglega í samræmi við þjóðarviljann samkvæmt skoðanakönnun, sem framkvæmd var sumarið 2018.  Þá komast tveir stjórnarflokkanna ekki upp með að hundsa nýlegar, skýrar Landsfundar- og Flokksþingsályktanir í þessu mikilvæga máli án flokkslegs uppnáms og hrakfara í næstu kosningum, enda býður Miðflokkurinn nýja stuðningsmenn velkomna á forsendum varðveizlu fullveldis í orkumálum og á öðrum sviðum.

Auk þeirra málefna, sem hér hefur verið fjallað um, skipta fjárhagslegu hagsmunirnir í þessu máli mestu.  Þeim voru ekki gerð verðug skil á umræddri ráðstefnu.  Fyrst er að geta hræðsluáróðurs ACER-fylgjenda á Íslandi gegn því að fella þingsályktunartillögu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi.  Jafnvel ráðherra mun hafa gert svo lítið úr sér í kaffihléi á téðri ráðstefnu að fullyrða, að Norðmenn yrðu fyrir stórtjóni, ef þeir kæmust ekki inn í Orkusamband ESB (vegna höfnunar Íslands).  Tveir þingmenn á norska Stórþinginu komu hingað í vor gagngert til að segja við íslenzka þingmenn, að þeir skyldu ekki hugsa um norska hagsmuni, heldur ákveða sig á grundvelli íslenzkrar Stjórnarskrár og íslenzkra hagsmuna.

Norðmenn munu auðvitað áfram eiga viðskipti við ESB með gas, olíu og rafmagn, eins og hingað til, enda má benda á, að stærsti orkubirgir ESB, Rússar, eru ekki á leiðinni inn í ESB, og Bretar eru á leiðinni þaðan út. Það yrði norsku þjóðinni vafalaust þóknanlegt, að Íslendingar höfnuðu ESB/ACER yfirráðum hér, enda var mikill meirihluti norsku þjóðarinnar á öndverðum meiði við meirihluta Stórþingsins í vetur um afstöðuna til ACER.  Það er algerlega óboðlegt, að ráðherra endurómi hræðsluáróður ráðuneytisfólks, sem andlega er gengið í björg og ESB á hönd hér, eins og í Noregi.  

Verður íslenzka raforkukerfinu betur stjórnað undir reglusetningu og eftirliti Landsreglarans en undir núverandi stjórnskipan ?  Á ráðstefnunni voru engin rök færð fyrir því, hvers vegna svo ætti að vera.  Þó hafa heyrzt hjáróma raddir í þá veru hérlendis, en það er eiginlega af og frá.  Landsreglarinn mun koma hér á fót markaðskerfi um raforkuviðskipti í anda Evrópugjörða, því að það er hlutverk hans.  Sýnt hefur verið fram á, að slíkt kerfi leysir engin vandamál hér, en getur valdið stórvandræðum og jafnvel raforkuskorti.  Lausn á öllum þeim vanda verður síðan boðuð á formi aflsæstrengs til útlanda, sem fella myndi hið nýja markaðskerfi á Íslandi inn í orkumarkað ESB (EES).  Það þýðir, að iðnrekandi í Mið-Evrópu getur boðið í raforku á íslenzka markaðnum.  Mun þá ýmsum kotbóndanum hérlendis þykja tekið að þrengjast um fyrir dyrum sínum.  Hver einasti raforkunotandi á Íslandi mun til lengdar ganga með skertan hlut frá borði á þessum markaði.  Það þýðir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Íslandi en ella og minni samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki.    

 Tifandi tímasprengja

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband